Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Skákþættir Morgunblaðsins

Skákþáttur Morgunblaðsins: Jólaskákþrautir

Eins og stundum áður um jólin leggur skákpistlahöfundur blaðsins nokkrar skákþrautir fyrir lesendur sína en lausnir munu birtast í blaðinu eftir viku. Dæmin eru úr ýmsum áttum en vakin er athygli á því að fjórða dæmið er fengið frá heimsmeistaramóti í skákdæmalausnum sem fram fór í Dresden í Þýskalandi sl. sumar. Meðal þátttakenda var margfaldur heimsmeistari í greininni, enski stórmeistarinn og stærðfræðingurinn John Nunn. Þessi keppni er geysilega krefjandi og dæmin sem lögð voru fyrir keppendur mörg hver níðþung.

D. J. Shire 1997 

Hvítur leikur og mátar í 2. leik.

GNM127FTL

 

G. Heathcote 1911 

Hvítur leikur og mátar í 2. leik.

GNM127FT4

 

Thomas Taverner 1889 

Hvítur leikur og mátar í 2. leik.

GNM127FTH

 

Frá HM í Dresden 2017 

Hvítur leikur og mátar í 3. leik .

GNM127FT8

 

A. Selezniev 1921 

Hvítur leikur og vinnur.

GNM127FTD

 

V. Korolkov 1935 

Hvítur leikur og vinnur.

GNM127FTP

 

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 23. desember 2017.

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Tauganet AlphaZero og Monte Carlo-tréð

Það er athyglisvert að skoða tölur og ákveðin gildi þegar ofurforritið AlphaZero ber á góma. Hið skilgetna afkvæmi Google íhugaði skáklistina í fjóra klukkutíma og vann að því loknu forritið Stockfish með 64 vinningum gegn 36 án þess að tapa skák. AlphaZero mun ekki hafa haft „til hliðsjónar“ skákir helstu meistara sögunnar en í byrjun tafls komu þó margsinnis upp stöður sem oft hafa sést í viðureignum nafntogaðra meistara. Stockfish, sem er að styrkleika í kringum 3.400 Elo, reiknar út 70 milljón stöður á sekúndu en AlphaZero reiknar „einungis“ 80 þúsund stöður á sekúndu. Stockfish „sólundar“ orku sinni með því að reikna út alla möguleika en „tauganet“ AlphaZero vinsar úr þá möguleika sem álitlegastir eru í aðgerð sem kallast Monte Carlo-tréð; forritið teflir við sjálft sig í hvert sinn sem það á leik og veltir upp ótal möguleikum áður en það kemst að niðurstöðu. Daði Örn Jónsson tölvufræðingur segir að „tauganetin“ kanni nú áður óþekktar lendur og vænta megi stórkostlegra uppgötvana á næstu árum og áratugum.

Ein athyglisverðasta staðan úr þeim tíu viðureignum sem birst hafa opinberlega kallaði eiginlega strax á samanburð við önnur forrit. Tíu fyrstu leikir þessarar skákar féllu eins og í 2. einvígisskák Kasparovs og Karpovs frá fyrsta heimsmeistaraeinvígi þeirra haustið 1984:

AlphaZero – Stockfish

Drottningarindversk vörn

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rf3 b6 4. g3 Bb7 5. Bg2 Be7 6. O-O O-O 7. d5 exd5 8. Rh4 c6 9. cxd5 Rxd5 10. Rf5 Rc7 11. e4 Bf6 12. Rd6 Ba6 13. He1 Re8 14. e5 Rxd6 15. exf6 Dxf6 16. Rc3 Rb7 17. Re4 Dg6 18. h4 h6 19. h5 Dh7 20. Dg4 Kh8

Víða um heim voru menn duglegir að setja þessa stöðu upp til útreikninga. Nýjasta útgáfan af Houdini starfaði á stöðunni í meira en klukkutíma og fann ekki leikinn sem AlphaZero skellti nú á Stockfish.

GI6126HOR21. Bg5!!

Hótunin er 22. Rf6 og ef 21. ... hxg5 þá kemur 22. Rxg5 Dg8 23. Dh4! ásamt 24. h6 og vinnur.

21. ... f5

22. Df4!

Houdini var lengi að átta sig á því að eðlilegasti leikurinn 22. ... hxg5 strandar á 23. Rxg5 Dxh5 og nú vinnur 24. g4!!

 

GI6126HP0T.d. 24. ... Dh6 25. He8! eða 24. ... Dg6 25. gxf5 Rd6 26. fxg6! Hxf4 27. Had1! o.s.frv.

Stockfish kaus að leika 22. ... Rc5 en eftir 23. Be7! Rd3 24. Dd6 Rxe1 25. Hxe1 fxe4 27. Bxe4 Hf5 27. Bh4 Bc4 28. g4 Hd5 29. Bxd5 Bxd5 30. He8+ 31. Bg3 c5 32. Dd5 féll hrókurinn á a8 og AlphaZero vann í „aðeins“ 117 leikjum.

Friðsamir í London

Það bókstaflega rigndi jafnteflum í fyrstu umferðum „London classic“. Í fyrstu þrem umferðunum lauk öllum skákunum 15 með jafntefli. Það stefndi í eitt dauflegasta „elítuskákmót“ síðari ára. En svo fór að rofa til og eins og oft áður var heimsmeistarinn Magnús Carlsen þar í stóru hlutverki. Hann tapaði óvænt fyrir Jan Nepomniachtchi í næstsíðustu umferð en tók á sig rögg og vann Aronjan í lokaumferðinni. Mótið var hluti mótaraðar sem hófst í júní og þar varð Magnús Carlsen hlutskarpastur. Caruana vann hins vegar aukaeinvígi við Nepo um það hvor teldist sigurvegari Lundúnamótsins: 

1. Caruana og Nepomniachtchi 6 v. (af 9) 3.-5. Carlsen, Vachier-Lagrave og So 5 v. 6. Nakamura 4½ v. 7. Aronjan 4 v. 8. Karjakin 3½ v. 9.-10. Anand og Adams 3 v.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 16. desember 2017.

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Bent Larsen hreppti fyrsta "Skák-Óskarinn"

G61125GJJUm þetta leyti árs fyrir 50 árum lauk millisvæðamóti í borginni Sousse í Túnis með öruggum sigri danska stórmeistarans Bent Larsen. Þetta var fjórði mótasigur hans í röð, en áður hafði hann orðið efstur á minningarmóti um Capablanca á Kúbu, alþjóðlegu móti í Palma á Mallorca og á móti í Winnipeg í Kanada, en þar voru meðal keppenda Boris Spasskí og Paul Keres. Hann tefldi raunar á nokkrum öðrum mótum árið 1967, en fyrir afrek sitt í Túnis, þar sem teflt var um sæti í áskorendakeppninni, var hann fyrstur manna sæmdur „Skák-Óskarnum“, verðlaunum sem þeir sem önnuðust greinaskrif um skák fyrir blöð og tímarit stóðu fyrir. Næstu tvö árin vann Boris Spasskí Skák-Óskarinn og þar á eftir kom Bobby Fischer, sem hlaut verðlaunin árin 1970-1972.

Millisvæðamótsins í Túnis er í skáksögunni helst minnst vegna framgöngu Bobby Fischer, sem hafði teflt tíu skákir og hlotið úr þeim 8½ vinning og hefði nær örugglega unnið mótið, slík voru gæði taflmennskunnar, ef ekki hefðu komið til deilur um frídaga sem hrukku í óleysanlegan hnút. Hafði mótshaldarinn í Túnis þó tekið tillit til óska hans um sérstakan frídag af trúarlegum ástæðum. Brotthvarfið vakti feiknarlega athygli en var kannski forleikur þess sem gerðist í „einvígi aldarinnar“ í Reykjavík. Gerðar voru margvíslegar tilraunir til að telja Fischer hughvarf, bandaríska sendiráðið sendi til að mynda fulltrúa sinn á mótsstað, en fortölur þess einstaklings féllu í grýttan jarðveg hjá meistaranum. Þó virtist Fischer lengi vel á báðum áttum og snerist honum hugur þegar hann átti að tefla við sinn gamla erkifjanda, Samuel Reshevsky, sem hafði beðið þess í tæpa klukkustund að „fallöxin“ hrykki niður þegar Fischer birtist skyndilega í skáksalnum og vann örugglega þótt mikið hefði saxast á umhugsunartímann. Bent Larsen, sem sat að tafli gegn Efim Geller, varð svo mikið um að hann lék af sér peði strax í byrjun tafls en náði samningum með taktísku jafnteflistilboði á viðkvæmu augnabliki. Og svo hófust deilur um aðrar viðureignir Fischers og að lokum hvarf hann frá Túnis og var strikaður út úr mótinu.

Larsen hlaut 15½ vinning af 21 á mótinu og sigur hans jók mjög orðspor hans. Á næstu árum var hann síðan sigursælasti mótaskákmaður heims. Hann var einungis miðlungi ánægður með taflmennskuna í Sousse en kvað sér þó hafa tekist vel upp í endatöflum. Besta skák hans var gegn sovéska stórmeistaranum Gipslis:

Aivar Gipslis – Bent Larsen

Aljekínsvörn

1. e4 Rf6 2. e5 Rd5 3. d4 d6 4. c4 Rb6 5. exd6 exd6 6. Rc3 Be7 7. Be3 O-O 8. Be2 Rc6 9. Rf3 Bg4 10. b3 Bf6 11. O-O d5 12. c5 Rc8 13. b4?!

Ónákvæmni. Best er 13. h3, t.d. 13. ... Bf5 14. Dd2 og svarta staðan er býsna þröng.

13. ... Bh5 R8e7 14. b5 Ra5 15. h3 Bxf3 16. Bxf3 c6 17. Dd3 Rc4

Þennan góða reit mátti hvítur helst ekki gefa.

18. Bf4 Rg6 19. Bh2 Bg5 20. bxc6 bxc6 21. Bd1 Bf4 22. Bc2 Bxh2+ 23. Kxh2 Df6 24. g3 Hfe8 25. Kg2 Dg5 26. Kh2

G61125GJA(STÖÐUMYND 1 )

26. ... Rb2!

Skemmtilega teflt, svarta drottningin brýst til inngöngu.

27. Df3 Dd2 28. Bxg6 hxg6 29. Rd1 Rc4 30. Dc3 Hab8! 31. Hc1 He4 32. Hc2 Dxd4 33. Dxd4 Hxd4 34. He1 a5 35. Kg2 a4 36. Rc3 a3 37. Ra4 g5 38. He7 Hb4 39. Rb6 Hb2 40. Hc3 Hxa2 41. Rxc4 dxc4 42. Hc7 Hdd2 43. Hf3 c3!

G41125GJF( STÖÐUMYND 2 )

Snotur lokahnykkur. Nú er 44. Hfxf7 svarað með 44. ... Hxf2+! 45. Hxf2 Hxf2+ 46. Kxf2 c2 og peðið rennur upp. Gipslis gafst því upp.

 

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 9. desember 2017.

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Fyrsti sigur Vignis á stórmeistara

Guðmundur Kjartansson stóð sig best þeirra ellefu íslensku skákmanna sem tóku þátt í opna mótinu í Rúnavík í Færeyjum sem lauk um síðustu helgi. Mótið var hluti af skákhátíð sem hófst með landskeppni Færeyinga og Íslendinga. Guðmundur, sem vann mótið í fyrra, átti góða möguleika á því að endurtaka afrek sitt eftir sigra á stórmeisturunum Vadim Malakhatko og Vladimir Hamitevici í fimmtu og sjöttu umferð en slæmur kafli kostaði sitt, töp í sjöundu og áttundu umferð og að lokum hlaut hann sex vinninga og varð í 7.-10. sæti af 59 keppendum. Sigurvegari varð Hvítrússinn Nikita Maiorov með 7½ vinning en á eftir komu fimm skákmenn með 6½ vinning.

Af öðrum þátttakendum okkar stóð hinn 14 ára gamli Vignir Vatnar Stefánsson sig vel, hlaut 5½ vinning og varð í 11.-19. sæti. Á hæla hans kom Einar Hjalti Jensson með 5 vinninga í 20.-25. sæti. Jón Kristinn Þorgeirsson, Gauti Páll Jónsson, Símon Þórhallsson, Áskell Örn Kárason og Haraldur Haraldsson hlutu allir 4½ vinning og enduðu í 26.-34. sæti.

Vignir Vatnar Stefánsson mætti rússneska stórmeistaranum Mikhai Ulibyn í áttundu umferð og er óhætt að segja að fáar viðureignir vöktu meiri athygli í Rúnavík. Vignir tefldi sannfærandi og vann í aðeins 32 leikjum og var þetta fyrsti sigur hans yfir stórmeistara í kappskák. Hannes Hlífar Stefánsson var einnig 14 ára gamall er hann vann Jón L. Árnason á Íslandsmótinu í Grundarfirði haustið 1986 og var nokkrum mánuðum yngri en Vignir. Í svipinn man greinarhöfundur ekki eftir því að yngri skákmenn hafi náð þessum áfanga:

Rúnavík 2017; 8. umferð:

Vignir Vatnar Stefánsson – Mikhail Ulibyn

Hollensk vörn

1. d4 e6 2. c4 f5 3. g3 Rf6 4. Bg2 d5 5. Rh3

Það er engin skylda að fara með þennan riddara til f3! Staðsetning hans á h3 býður upp á ýmsa möguleika.

5.... c6 6. Rd2 Bd6 7. 0-0 0-0 8. Rf3 Re4 9. Rf4 De7 10. c5!?

Vignir hafði fengið svipaða stöðu á HM ungmenna í Porto Carras í Grikklandi fyrir tveim árum og þessi framrás c-peðsins reyndist honum erfið. Hann hyggst nýta sér fengna reynslu.

10.... Bc7 11. Rd3 b6 12. b4 Ba6 13. Rfe5?!

Gengur beint til verks en meiri aðgæslu var þörf. 13. a4 var nákvæmara.

13.... Hc8?

Missir af tækifæri til hagfelldra uppskipta, 13.... bxc5 14. Bxc5 Bxe5! Og nú er 15. Rxe5 svarað með 15. ... Rc3 og e2-peðið fellur. Eftir 15. Dxe5 Rd7 stendur c5-peðið tæpt og svarta staðan er síst lakari.

14. Dc2 Rd7 15. Bf4 Rxe5 16. Rxe5 Bxe5 17. Bxe5 Bc4 18. Hfe1!

Undirbýr framrás e4-peðsins sem gæti hafist með f2-f3 o.s.frv.

18. ... Rg5 19. Bf4 Rf7 20. e4!

GFO124B1JStaðsetning biskupsins á c4 gerir þessa framrás mögulega. Svarta staðan er afar erfið þar sem opnun e-línunnar blasir við.

20.... Df6 21. exf5 exf5 22. Be5 Rxe5 23. Hxe5 f4 24. Hae1 Hf8 25. He6 Dg5?

Skárra var 25.... Df7, þar sem drottningin hrekst nú á enn verri reit.

26. H1e5! Dd8

Vitaskuld ekki 26.... Dgh4 27. f3 og drottningin fellur.

27. Hh5!

Beinir skeytum sínum að kóngsvængnum. Svartur er varnarlaus.

GFO124B1N27.... Hf6

27.... h6 er svarað með 28. Hexh6! og 27.... g6 strandar á 28. Hxg6+! o. s.frv.

28. Dxh7+ Kf8 29. Hxf6+ gxf6 30. Dh8+ Kf7 31. Hh7+ Kg6 32. Dg7+

– og svartur gafst upp.

Helgi Ólafsson (helol@simne

 

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 2. desember 2017.

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Hannes Hlífar bestur Íslendinga á Norðurljósamóti

Hannes Hlífar Stefánsson stóð sig best íslensku skákmannanna á Norðurljósamótinu sem lauk í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur á miðvikudagskvöldið. Hannes sem hlaut 6 vinninga af níu mögulegum varð í 2.-4. sæti ásamt enska stórmeistaranum Simon Williams og indverska undrabarninu Nihal Sarin. Kínverjinn Yu Yinglun sigraði á mótinu, hlaut 6 ½ vinning. Hann var hætt kominn í síðustu skák sinni við Sarin en slapp með jafntefli eftir erfiða vörn. Sarin, sem er 13 ára gamall, gat með sigri náð öðrum áfanga sínum að stórmeistaratitli. Hann byrjaði rólega en sótti í sig veðrið eftir því sem á leið og vann t.d. góðan sigur yfir enska stórmeistaranum Mark Hebden í 8. umferð.

Hjörvar Steinn Grétarsson varð í 5.-7. sæti, hlaut 5 ½ vinning. Hann tapaði fremur slysalega í 1. umferð og tefldi kvefaður allt mótið þannig að frammistöðu hans má telja viðunandi.

Bandaríkjamðurinn ungi Nihil Kumar hætti keppni eftir tap í 5. umferð og slæmt gengi almennt. Þótti mörgum lítið leggjast fyrir kappann. Hann varð heimsmeistari unglinga í flokki 12 ára og yngri í fyrra.

Ýmsir íslenskir skákmenn náðu góðum stigahækkunum, enginn þó meira en Björn Hólm sem hækkaði um 50 elo-stig. Vignir Vatnar Stefánsson og Björn Þorfinnsson hækkuðu nokkuð á stigum og frammistaða Björns hefði getað orðið enn betri, en viðureignin við sigurvegara mótsins í 6. umferð setti strik í reikninginn en Björn endurtók bókstaflega fræga tapskák Mikhael Tal gegn Lev Polugajevskí frá sovéska meistaramótinu 1969!

Norðurljósamótið er nýtt verkefni hjá SÍ og heppnaðist vel. Tímasetningu þess og of há þátttökugjöld mætti þó endurskoða. 

Skák ársins var tefld í kínversku deildakeppninni

Liren Ding komst fyrstur kínverskra skákmanna í áskorendakeppnina sem fram fer í Berlín á næsta ári en þar tefla átta skákmenn um réttinn til að skora á heimsmeistarann Magnús Carlsen. Ding tapaði lokaeinvígi heimsbikarmótsins fyrir Levon Aronjan en 2. sætið gaf engu að síður þátttökurétt í áskorendakeppninni. Í upphafi þessa mánaðar tók Ding þátt í kínversku deildakeppninni sem er þó varla í frásögur færandi nema fyrir þá staðreynd að þar tefldi hann skák sem vakið hefur mikla athygli og má með sanni kalla skák ársins. Það koma fyrir margar fallegar myndir í þessari mögnuðu viðureign: 

Jinzhi Bai – Liren Ding

Nimzo-indversk vörn

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rc3 Bb4 4. Rf3 O-O 5. Bg5 c5 6. e3 cxd4 7. Dxd4 Rc6 8. Dd3 h6 9. Bh4 d5 10. Hd1 g5 11. Bg3 Re4 12. Rd2 Rc5 13. Dc2 d4 14. Rf3 e5 15. Rxe5 dxc3 16. Hxd8 cxb2+ 17. Ke2?!

Færa má fyrir því rök að þetta sé eini afleikur hvíts í skákinni. Best var 17. Hd2 og eftir 17. ... Hd8 18. Rf3 Bg4 19. Dxb2 er hvíta staðan ekki lakari.

17. ... Hxd8 18. Dxb2 Ra4! 19. Dc2 Rc3+ 20. Kf3 Hd4!!

GM812273FKynngimagnaður leikur, svartur hótar 21. ... g4+ og mátar.

 

 

 

 

 

 

 

21. h3 h5 22. Bh2 g4+ 23. Kg3 Hd2!

GM812273BAftur og nýbúinn, hvítur má ekki taka drottninguna, 24. Dxd2 Re4+ og vinnur.

24. Db3 Re4+ 25. Kh4 Be7+ 26. Kxh5 Kg7!

Rýmir h8-reitinn fyrir hrókinn á a8.

27. Bf4 Bf5 28. Bh6+ Kh7 29. Dxb7 Hxf2!

GM812273JHótar 30. ... Rg3 mát.

30. Bg5 Hh8 31. Rxf7 Bg6+ 32. Kxg4 Re5+!

 

Glæsilegur lokahnykkur. Framhaldið gæti orðið 33. Rxe5 Bf5+ 34. Kh5 Kg7+ og mátar.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 18. nóvember 2017

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Hannes Hlífar og Björn Þorfinnsson meðal efstu manna

GUP121G1DHannes Hlífar Stefánsson og Björn Þorfinnsson voru í hópi fimm efstu manna á Norðurljósamótinu, „Reykjavik Northern lights open 2017“ sem Skáksambands Íslands stendur fyrir í samvinnu við Taflfélag Reykjavikur en mótið fer fram í húsakynnum þessa elsta starfandi skákfélags landsins. Tengingin við Norðurljósin er við hæfi þar sem maðurinn sem „seldi“ norðurljósin, skáldið Einar Benediktsson, var einn af stofnendum TR aldamótaárið 1900. Tefldar verða níu umferðir og dagskrá þess er stíf þar sem tefld var tvöföld umferð um helgina en úrslit fimmtu umferðar sem lauk seint í gærkvöldi lágu ekki fyrir þegar þetta var ritað. Þá mættust m.a. Hannes og Björn. Staða efstu manna eftir fjórar umferðir var þessi.: 1. – 5. Xi Yingu (Kína), Aloyzas Kveinys (Litháen), Xu Yi (Kína),Hannes Hlífar Stefánsson og Björn Þorfinnsson 3 v. ( af 4) 6.-10. Nihal Sarin (Indland), Mark Hebden (England), Torbjörn Ringdal (Danmörk), Hjörvar Steinn Grétarsson og Vignir Vatnar Stefánsson 2½ v.

Keppendur eru 22. talsins en SÍ réðst í framkvæmdina til að mæta óskum margra af bestu skákmönnum þjóðarinnar sem hafa bent á að hið mikla styrkleika/elo-stigabil sem er á keppendum hins árlega Reykjavíkurskákmóts, geri sókn að titiláföngum torsótta. Ekki verður betur séð en að Björn og Vignir Vatnar ætli sér að nýta tækifærið vel.

Hjörvar Steinn Grétarsson er stigahæsti keppandinn en hann tapaði í fyrstu umferð fyrir Einar Hjalta Jenssyni. Mesta athygli allra keppenda vekur hinn 13 ára Indverji, Nihal Sarin, sem hefur teflt víða um heim á undanförnum mánuðum og er talinn eitt mesta efni sem Indverjar eiga í dag. Sarin hefur lent í basli í nokkrum skákum og var með tapað tafl gegn Hjörvari Steini í 2. umferð en slapp með jafntefli.

Hannes Hlífar og Hjörvar Steinn eru þrátt fyrir allt líklegastir okkar manna til að keppa um efsta sætið og sá fyrrnefndi virðist í góðu formi ef marka má sigur hans yfir Englendingnum Hebden á laugardaginn:

Norðurljósamótið 2018; 3. umferð:

Hannes Hlífar Stefánsson – Mark Hebden

Ítalskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bc4

Ítalski leikurinn er sennilega vinsælli í dag meðal toppskákmanna en spænski leikurinn sem kemur upp eftir 3. Bb5.

3....Rf6 4. d3 Be7 5. 0-0 0-0 6. He1 d6 7. a4 Be6 8. Bxe6 fxe6 9. c3 Dd7 10. Db3 b6 11. d4 Rh5 12. Be3 exd4 13. cxd4 d5 14. Rc3 Had8 15. Hac1

Hótar 16. exd5 exd5 17. Rxd5 með peðsvinningi. Stöðuuppbygging svarts er ekki góð og riddarinn á c6 verður að skreppa frá en þá lendir h5-riddarinn í vanda.

15....Ra5 16. Dd1 c6 17. Re5 De8 18. Dg4 Bd6 19. Rf3 Dg6 20. Dxg6 hxg6 21. Rg5 Hde8 22. e5 Bb4 23. g3! 

GUP121FQFAfhjúpar mislukkaða byrjun, riddarinn á h5 á engan reit! Í næstu leikjum reynir svartur að leysa um hann.

23....c5 24. He2 Rb3 25. Hd1 cxd4 26. Bxd4 Hf5 27. h4 Rf4?!

Hebden mat það svo að besta tækifærið til a losa um riddarann væri að fórna honum akkúrat núna. Mannsfórnin gefur viss færi en Hannes er vandanum vaxinn.

28. gxf4 Hxf4 29. Be3 Hxh4 30. Rb5 Bc5 31. Rc7! d4 32. Rxe8 dxe3 33. Hd8 Hg4+ 34. Kf1 Hxg5

 

35. Rd6+!

Snjall lokaleikur sem gerir út um allar vonir svarts, 35....Kh7 er svarað með 36. Rf7! sem hótar hróknum og máti á h8. Hebden gafst því upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 13. nóvember 2017

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Sveit Asera sigraði á Evrópumótinu

Aserbaídsjan bar sigur úr býtum á Evrópumóti landsliða sem lauk á Krít um síðustu helgi. Fyrir lokaumferðina höfðu Aserar eins stigs forystu á Rússa og gerðu gamaldags „pakkajafntefli“ við Úkraínu í lokaumferðinni en líkur stóðu þá til þess að þeir myndu sigra á betri mótsstigum jafnvel þó svo Rússar næðu þeim að stigum. „Pakkajafntefli“ Sovétmanna voru fræg á Ólympíumótum í gamla daga en tildrögin voru oft þau að ef hallaði verulega á einhvern liðsmann var stundum gengið til jafnteflissamninga á öllum fjórum borðum. Eftir Evrópumótið á Krít var lögmæti þessa samnings dregið í efa og hafa staðið nokkrar deilur um þessi lok mótsins.

Lokaniðurstaðan hvað varðaði efstu sætin varð þessi: 1. Aserbaídsjan 14 stig (25 v.) 2. Rússar 14 stig (22 v.) 3. Úkraína 13 stig 4. Króatía 13 stig 5. Ungverjaland 12 stig.

Gott íslenskt lið skipað Héðni Steingrímssyni, Hjörvari Steini Grétarssyni, Hannesi Hlífari Stefánssyni og Guðmundi Kjartanssyni náði sér aldrei almennilega á strik og hafnaði í 27. sæti af 40 þjóðum. Liðið tapaði fimm viðureignum fyrir þjóðum sem á pappírnum voru stigahærri og engin skák vannst gegn stigahærri andstæðingi. [Aths. ritstj. Skák.is: Hjörvar Steinn (2567) vann reyndar svissneska stórmeistarann Sebastian Bogner (2599) í áttundu umferð]. Liðið vann fjórar viðureignir gegn stigalægri þjóðum en í síðustu umferð mættum við Færeyingum og unnum 4:0. Þeir stilltu upp án stórmeistarans Helga Dam Ziska.

Greinarhöfundur er sannfærður um að gengið hefði verið betra með teflandi varamann sem stjórn SÍ ákvað að senda ekki til leiks. Í eina tíð var landslið Íslands flaggskip skákhreyfingarinnar. Eru önnur viðhorf ríkjandi í dag? Í svona keppnum geta alls kyns smáatriði skipt miklu máli. Andstæðingarnir vissu t.d. alltaf hvernig íslensku sveitinni yrði stillt upp, löngu áður en íslenska liðið fékk slíkar upplýsingar. Og þetta snýst líka um úthald. Í sjöundu og áttundu umferð réðst endanlegt gengi liðsins en þá töpuðum við slysalega með minnsta mun fyrir Tékkum og Svisslendingum. Ýmis góð færi buðust sem ekki nýttust en ein innihaldsríkasta viðureignin fór fram á 1. borði í keppninni við Tékka:

David Navara – Héðinn Steingrímsson

Enskur leikur

1. c4 c5 2. Rf3 Rc6 3. Rc3 Rf6 4. d4 cxd4 5. Rxd4 e6 6. Bg5 Da5 7. Bxf6 gxf6 8. Rb3 De5 9. g3 h5 10. Bg2 h4 11. Dd2 Bb4 12. f4 Bxc3 13. bxc3 Dc7 14. g4 Hb8 15. Rc5 Ke7 16. Re4 b6 17. Hd1 Bb7 18. g5 fxg5

Um þessa byrjun mætti skrifa langt mál og svartur er í „köðlunum“ eftir 19. Rd6! En þetta er líka eina tækifærið sem Navara fékk til að vinna skákina.

GD61217JG19. f5? f6 20. fxe6 dxe6 21. Rxf6!? Kxf6 22. O-O Kg6 23. Dd3 Kg7 24. Dd7 Dxd7 25. Hxd7+

Hvor er nú betri Brúnn eða Rauður?

 

 

 

 

GD61217JC

 

25. ... Kh6?

25. ... Kg6 er betra og vinnur m.a. vegna þess að hvítur verður að eyða tíma í biskupsleik: 26. Be4+ Kh5 27. Hf6 h3! og kóngurinn á gott skjól á h-línunni, t.d. 28. Hxe6 Ra5! og liðsmunurinn segir til sín.

26. Hf6+ Kh5 27. Hg7! Re5! 28. Bxb7 Hh6 29. Hf1 g4 30. Be4 Hc8 31. Bd3 Hd8 32. Hb1 Rxd3

Eftir þetta kemur upp jafnteflislegt hróksendatafl. Svarta staðan er aðeins betri eftir 32. .... Hd7!

33. exd3 Hg6 34. Hh7+ Hh6 35. Hb5+ Kg6 36. Hxa7 Hxd3 37. Hxb6 Kf5 38. Hf7 Hf6 39. Hxf6 Kxf6 40. Hb1 Hxc3 41. Ha1 Ha3 42. c5 Ke7 43. c6 Kd8 44. Hd1 Kc7 45. Hd4 g3 46. Hxh4 gxh2 47. Hxh2 Kxc6 48. Hd2

Jafntefli. 

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 11. nóvember 2017

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Myndi sóma sér vel í hvaða kennslubók sem er

Íslenska liðið, Héðinn Steingrímsson, Hjörvar Steinn Grétarsson, Hannes Hlífar Stefánsson og Guðmundur Kjartansson, sem tekur þátt í Evrópumóti landsliða á Krít, hefur átt erfitt með að finna taktinn í fyrstu fimm umferðum mótsins og situr í 28 sæti af 40 þátttökuþjóðum með 4 stig og 8½ vinning af 20 mögulegum. Króatar eru óvænt efstir með 9 stig eftir sigur á Þjóðverjum en á hæla þeirra koma sveitir sem telja verður líklegri til sigurs á mótinu, Ungverjar, Rússar, Armenar og Pólverjar með átta stig.

Tefldar verða níu umferðir en sjötta umferðin fór fram í gær og mættu Íslendingar þá Makedóníu og voru með stigahærri menn á öllum borðum. Í reynd mætir íslenska sveitin til leiks án varamanns þó að liðsstjórinn Ingvar Þ. Jóhannesson sé skráður sem slíkur, en gefið hefur verið út að hann muni ekki tefla nema veikindi komi upp. Það er gagnrýnisverð ákvörðun hjá stjórn SÍ að búa svona um hnútana því að Evrópumótið er alltaf geysilega krefjandi keppni og við marga öfluga skákmenn að etja. Þarna eru mættir til leiks Levon Aronjan, Anish Giri, Shakriyar Mamedyarov, Alexander Grischuk, Jan Nepomniachtchi, David Navara og Peter Leko svo nokkrir séu nefndir.

Þó að sveitin hafi verið á miklu lágflugi mun endanleg niðurstaða auðvitað ráðast í lokaumferðunum og ein virkilega góð úrslit geta breytt miklu. Athugun á viðureignunum tuttugu leiðir í ljós að það vantar öryggi í taflmennskuna; níu töp er allt of mikið.

Hannes Hlífar Stefánsson er sá eini í sveitinni sem hefur bætt ætlaðan árangur sinn. Skákin sem hann vann í viðureign Íslands og Albaníu myndi sóma sér vel í í hvaða kennslubók sem er þar sem fjallað væri um skjóta og árangursríka liðsskipan:

EM 207; 2. umferð:

Hannes Hlífar Stefánsson – Franc Ashiku

Spænskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 a6 4. Ba4 d6 5. O-O Bd7 6. d4 b5 7. Bb3 Rxd4 8. Rxd4 exd4

Þekkt gildra, 9. Dxd4?? er svarað með 9. .... c5 10. Dd5 c4 og biskupinn fellur. En Hannes kann til verka og missir ekki af besta leiknum.

9. c3! dxc3 10. Dh5 g6?

Albaninn virðist tefla þessa sjaldséðu byrjun án þess að kunna hana, 10. ... De7 eða 10. ... Df6 er betra.

11. Dd5 Be6 12. Dc6+ Bd7 13. Dxc3 f6 14. f4 Bg7 15. e5! 

Opnar stöðuna upp á gátt. Kóngurinn á hvergi skjól gott.

15. ... dxe5 16. fxe5 f5 17. Hd1 Re7 18. Bg5 c5 19. Dxc5

Einfaldast, 19. Bf6 vinnur einnig.

19. ... Hc8 20. Df2 Dc7 21. Rc3 Dc5 22. Be3 Db4 23. Hd4 Da5 24. Had1 Bc6 25. Hd6 b4 

GOG1205I226. Bb6!

Lokahnykkurinn.

26. ... Dxe5 27. Hd8+

– og svartur gaf. Það er mát í næsta leik. 

Óvænt úrslit

Óvæntustu úrslit Evrópumótsins urðu strax í fyrstu umferð þegar Aserbaídsjan tapaði fyrir Ítalíu 1½:2½ og í 4. umferð töpuðu Rússar fyrir Ungverjum og hefði það einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar. Nigel Short byrjaði vel en í viðureigninni við Grikki missté hann sig í þessari stöðu í 5. umferð:GNG1205HU 

Kelieres – Short

Hvítur lék síðast 30. Df3 og nú er best 30. .. Rxd7 31. Hxd7 Dxf2+ 32. Dxf2 Hxf2 33. Kxf2 fxg5 og svarta staðan er aðeins betri. En Short vildi meira og lék ...

30. ... H2e5?? 31. H1d6! Hf5 32. Hxb6 Hxf3

og þá kom banvæn sending...

 

 

 

GOG1205I6

 

 

33. He7!

– og svartur gafst upp því að mát eða hrókstap blasir við.

 
 
Helgi Ólafsson helol@simnet.is

------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 4. nóvember 2017

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Lombardy, aðstoðarmaður Fischers í einvígi aldarinnar, fallinn frá

GKI11U6JH"Þú hellir ekki steypu í helgan brunn." Í kvikmyndinni Pawn Sacrifice eru þessi orð lögð í munn kaþólska prestinum William Lombardy þegar einhver stingur upp á því að aðalsöguhetjan, Bobby Fischer, sé settur á lyf. Þarna er brugðið upp mynd af geðþekkum og skilningsríkum manni sem er vakinn og sofinn yfir velferð skjólstæðings síns. Og það verður ekki tekið frá „séra Lombardy“, eins og hann var gjarnan nefndur hér á landi, að hann reyndist Bobby Fischer vel við ýmis tækifæri og milli þeirra var einhvers konar bræðrasamband sem hélst allt frá þeirra fyrstu kynnum á heimili Jack Collins og í helstu skákklúbbunum á Manhattan snemma á sjötta áratug síðustu aldar.

Lombardy sem lést 13. október sl. var sex árum eldri, fæddur 4. desember árið 1937. Hann varð heimsmeistari unglinga í Toronto í Kanada með fullu húsi vinninga í árið 1957 en það afrek féll í skugga þeirra tíðinda er Bobby Fischer varð Bandaríkjameistari nokkrum mánuðum síðar aðeins 14 ára gamall. Upp frá því beindist athyglin að Fischer sem hafði til að bera eindreginn ásetning til að verða heimsmeistari. Lombardy vann ýmis góð afrek á næstu árum, stóð sig vel á ólympíumótum og tefldi á 1. borði fyrir Bandaríkin sem sigruðu á heimsmeistaramóti stúdenta árið 1960. Mótið fór fram í Leníngrad og í úrslitaviðureigninni við sveit Sovétríkjanna lagði Lombardy Spasskí að velli. Hann hafði unnið sér þátttökurétt á millisvæðamótinu í Stokkhólmi árið 1962 en gaf sætið frá sér og helgaði kaþólsku kirkjunni starfskrafta sína næstu árin; tók vígslu sem prestur árið 1967. Þegar hann kom hingað til lands sem aðstoðarmaður Fischers í heimsmeistaraeinvíginu 1972 skartaði hann yfirleitt prestkraganum, yfirgaf þó kirkjuna nokkrum árum síðar og sonur hans, Raymond Lombardy, taldi í viðtali á dögunum að helsta ástæða þess hefði verið óánægja Lombardys með auðsöfnun kirkjunnar. Lombardy kom hingað í fyrsta sinn á heimsmeistaramót stúdenta árið 1957 og næst 15 árum síðar; hlutverk hans hans sem aðstoðarmaður Fischers í „einvígi aldarinnar“ var ekki alltaf auðvelt en hann átti sinn þátt í því að áskorandinn yfirgaf ekki landið eins og útlit var fyrir þegar í miklu stappi stóð vegna aðbúnaðar á sviði Laugardalshallar.

GM811U8PBAftur var Lombardy mættur til leiks sem aðaldómari á svæðamóti á Hótel Esju árið 1975 og tefldi á Reykjavíkurmótinu árið 1978 og fjölmörgum mótum tímaritsins Skákar á landsbyggðinni um miðjan níunda áratuginn. Hann hafði uppi áform um að setjast hér að en ekkert varð úr. Sá var kannski helsti ljóður á ráði hans hversu ósveigjanlegur hann var þegar upp kom jafnvel lítilfjörlegur ágreiningur. Margir minnast hans með þakklæti, t.d. þegar hann starfaði fyrir „Collins-börnin“ sem áttu í afar vel heppnuðum samskiptum við Taflfélag Reykjavíkur fyrir u.þ.b. 40 árum. Lombardy ól allan sinn aldur í New York en kjör hans þar hin síðari ár voru bágborin og heilsufarið ekki gott. Stórblaðið „The New York Times“ birti grein í fyrra um aðstæður hans þegar nýr eigandi snarhækkaði leigu á húsnæði því sem hafði verið heimili hans í 40 ár. Lyktir urðu þær að Lombardy var borinn út en vinur hans frá Martinez, litlum bæ í grennd við San Francisco, skaut yfir hann skjólhúsi og þar bjó hann undir það síðasta.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 21. október 2017

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Fjölnir og Víkingaklúbburinn á EM skákfélaga

Skákdeild Fjölnis og Víkingaklúbburinn taka þátt í Evrópumóti taflfélaga sem lýkur um helgina í Antalya í Tyrklandi. Eins og vænta mátti fengu báðar sveitirnar geysisterka andstæðinga í fyrstu umferð. Fjölnismenn, sem taka þátt í þessari keppni í fyrsta sinn, töpuðu fyrir sannkallaðri ofursveit frá Rússlandi, Globus, en hana skipuðu Mamedyarov, Karjakin, Giri, Nepomniachtchi, Korobov og Khismatullin. Það kom fáum á óvart að viðureignin endaði 6:0. Víkingaklúbburinn mætti viðráðanlegri andstæðinga og voru með nýjan liðsmann, Björn Þorfinnsson, en þeir töpuðu einnig stórt. Fyrir lokasprettinn var Fjölnir í 23. sæti af 36 sveitum en Víkingaklúbburinn sat í 32. sæti.

Á þessu móti mæta gjarnan til leiks öflugar sveitir með atvinnumenn á hverju borði en þarna eru líka skemmtilegar sveitir með hreinræktaða áhugamenn og falla íslensku sveitirnar báðar í þann flokk. En það er vel til fundið hjá Helga Árnasyni, skólastjóra og formanni skákdeildar Fjölnis, að gefa gömlum nemendum Rimaskóla, Jóni Trausta Harðarsyni og Oliver Aroni Jóhannessyni, tækifæri til að spreyta sig á þessum vettvangi.

Það hafa þó oft sést meiri tilþrif hjá íslensku liðunum í þessari keppni. Páll Agnar tapaði tveim fyrstu skákum sínum en reif sig upp úr ládeyðunni og vann þrjár skákir í röð.

EM skákfélaga 2017; 5. umferð:

Páll Agnar Þórarinsson – Peparim Makolli

Enskur leikur

1. c4 c5 2. Rf3 Rc6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rc3 e6 6. Rdb5 d6 7. Bf4 e5 8. Bg5 a6 9. Bxf6 gxf6 10. Ra3 Be6

10. ... f5 strax er beittara.

11. g3 Db6 12. Dd2 h5 13. Bg2 f5 14. Rd5!

Það er ekki eftir neinu að bíða.

14. ... Bxd5 15. cxd5! Rb8 16. Bh3 h4 17. Hc1 Rd7 18. Rc4 Da7 19. Bxf5

En hér var 19. Dg5! enn betri leikur.

19. ... b5 20. Bxd7+ Kxd7 21. Re3 hxg3 22. fxg3 Bh6 23. Hc3 f5

G3C11T7BU24. Dc2!

Leppunin var svolítið óþægileg en kóngsstaða svarts að sama skapi slæm. 24. ... Bxe3 25. Dxf5+ Ke7 26. De6+ Kf8 27. Hf1+ Kg7 28. Hxe3!

- og svartur gafst upp.

 

Tvöfaldur sigur Hjörvars – Jón Kristinn vann fyrir norðan

Mikill kraftur hefur verið í skákiðkun landsmanna í haust en fjölmörgum mótum er lokið og önnur að hefjast. Á meistaramóti Hugins sigraði Hjörvar Steinn Grétarsson og hlaut þar 6 vinninga af sjö mögulegum en Björn Þorfinnsson kom næstur með 5 ½ vinning. Hjörvar varð einnig hlutskarpastur á haustmóti TR með 8 vinninga af níu en í 2 sæti varð Magnús Pálmi Örnólfsson með 7 vinninga.

 

Norðan heiða vann Jón Kristinn Þorgeirsson öruggan sigur á haustmóti Skákfélags Akureyrar með 6 ½ vinning af sjö mögulegum.

Á Íslandsmóti ungmenna sem fram fór í Rimaskóla voru krýndir níu Íslandsmeistarar í hinum ýmsu aldursflokkum: Birkir Ísak Jóhannsson vann flokk pilta 15-16 ára, Arnar Heiðarsson varð hlutskarpastur í flokki 13-14 ára, Róbert Luu í flokki 11-12 ára, Gunnar Erik Guðmundsson í flokki 9-10 ára og í flokki 8 ára og yngri sigraði Bjartur Þórisson.

Meðal stúlkna sigraði Rakel Tinna Gunnarsdóttir í flokki 13-14 ára, Freyja Birkisdóttir í 11-12 ára flokknum, Batel Goitom Haile í 9-10 ára flokknum og Guðrún Fanney Briem vann flokk stúlkna 8 ára og yngri.

Í vikunni hófust svo tvö vel skipuð og fjölmenn skákmót: Skákþing Garðabæjar og U-2000 mót Taflfélags Reykjavíkur.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 7. október 2017

Skákþættir Morgunblaðsins


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 7
  • Sl. sólarhring: 44
  • Sl. viku: 164
  • Frá upphafi: 8779085

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 109
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband