Færsluflokkur: Ól 2014
19.8.2014 | 03:34
Ólympíuskákmótið 2014 - Uppgjör liðsstjóra kvennaliðs
Áður hafði ég ritað pistla um fyrstu umferðirnar og mótsstaðinn auk þess sem ritaður var pistill þegar mótið var hálfnað. Mun reyna að skrifa um það sem gerðist hjá okkur seinni part móts ásamt því að gera aðeins upp árangurinn og annað.
Árangur í "seinni hálfleik"
Fyrstu sex umferðirnar hafði kvennasveitin meira og minna unnið þær sveitir sem þær átti að vinna en fylgt því svo eftir með því að tapa 3,5-0,5 gegn þeim sterkari. Nokkur styrkleikamunur var í þeim viðureignum en engu að síður voru töpin og stór og sérstaklega gegn Venezuela sem virðst hafa eitthvað tak á okkar sveit.
Sigurinn á Bangladesh var þó góður þar sem sú sveit var örlítið stigahærri en okkar. Í 7. umferð unnum við annan góðan sigur á svipaðri sveit þar sem Mexíkó lá í valnum 2,5-1,5 þó að við höfum snemma lent 0-1 undir í þeirri viðureign.
Áframhald varð á jójó-inu og enn töpuðum við 3,5-0,5 og nú gegn nokkuð þéttri tékkneskri sveit. Fyrir þetta tap var kvittað strax í næstu umferð með mjög góðum 4-0 sigri á sveit IBCA (fatlaðir) sem þó voru aðeins örlítið stigalægri en okkar sveit.
Tapið gegn El Salvador voru nokkur vonbrigði í 10. umferðinni en þar tapaðist viðureignin með minnsta mun en fyrirfram hélt ég að við ættum að hafa þar sigur.
Mótið kláruðum við þó á góðum nótum með 3,5-0,5 sigri gegn Jamaíku en þar náðu ansi margar stöður að snúast okkur í hag því snemma stefndi ekki í svo góðan sigur!
Í seinni hálfleik hjá karlaliðinu vannst fínn skyldusigur á Pakistan 3,5-0,5 og því var fylgt eftir með þéttum sigri á nokkuð reyndri skoskri sveit 3-1. Í kjölfarið komu tvö jafntefli gegn Katar og Tyrklandi sem voru fín úrslit þó sóknarfæri hefði e.t.v. mátt reyna að finna gegn Katar.
Þessi fíni endasprettur þýddi að mikið sóknarfæri var í síðustu umferð gegn Egyptum þar sem möguleiki var að ná besta sæti sveitarinnar í mjög langan tíma. Því miður hittum við ekki áð góðan dag og úr varð gott mót í stað frábærs móts.
Ég mun fara yfir einstaklingsárangur í niðurlagi þessa pistils.
Kasparov-partýið
FIDE kosningarnar voru á mánudaginn 11. ágúst en laugardaginn 9. ágúst hélt Kasparov smá teiti þar sem meðal annars Nigel Short spilaði á gítar, Elisabeth Paetz tók lagið með honum og magnaður töframaður frá Indlandi lék listir sínar. Ýmis hamagangur var einnig á sviðinu eins og sjá má hér:
Þeir sem hamast þarna á sviðinu voru þeir sem dregnir voru í happdrætti aðgangsmiða en gefnir voru heilir þrettán (auðvitað 13!!) Samsung Tablets. Gummi var með miða nr. "H 13" og sturlaðist þegar lesið var "H thirtee.........TWO"
Myndir úr partýinu:
Töframaðurinn að störfum, hann var frábær...að neðan er stutt myndbrot þar sem hann hafði verið bundinn af fjórum sjálfboðaliðum. Það varði ekki lengi!

Kosningarnar
Boltinn var misskemmtilegur. Mjög gaman var þegar jöfn og vel spilandi lið voru á ferðinni en auðvitað er allur gangur á því og sumir blessunarlega mjööööög góðir í skák því hreyfigeta þeirra ekki beint á háu stigi!
Á leiðinni upp.
Helga varð á orði við upphafi móts við liðsstjóra Dana (Lars Schandorff) þegar hann var spurður hvort hann væri að tefla: "I can still play some chess you know!"
3. borð Tinna Kristín
5. borð Elsa María
Ól 2014 | Breytt s.d. kl. 03:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2014 | 13:00
Hálfleikspistill liðsstjóra kvennaliðsins á ÓL 2014
Nú þegar Ólympíumótið er um það bil hálfnað og menn farnir að pressa á gamla að henda inn öðrum pistli er tilvalið að taka aðeins stöðuna og fara yfir gang mála. Í gær kláraðist 6. umferð og er árangurinn hingað til aðeins undir væntingum en þó auðvitað mikið eftir til að hreinsa það upp.
Karlaliðið var frekar óheppið á móti sterki sveit Serba þar sem leit út fyrir jafnvel stóran sigur á tímapunkti en þess í stað endaði viðureignin með tapi. Í kjölfarið hafa komið slakir matchar á móti Svíum og Færeyjum á milli þess sem góður skyldusigur vannst á blindum.
Kvennasveitin hefur verið að vinna lakari sveitirnar en tapa stórt á móti þeim sterkari. Undirritaður hefði viljað sjá meiri baráttu gegn þeim sterkari en gegn Ísrael í gær leit út fyrir það á kafla en hlutirnir duttu ekki fyrir okkur.
Ég ætla nú aðeins að "úða" eins og við köllum það stundum og fara svona yfir ýmsa hluti og atvik eins og ég man...
Allur skalinn!
Eins og komið hefur fram eru hér "allra þjóða kvikindi" á svæðinu. Virkilega gaman að sjá og spjalla við fólk frá löndum sem maður fær líklegast aldrei tækifæri á að heimsækja.
Hef ég t.a.m. spjallaði við liðsstjóra frá Guyana, Lesotho, Palau o.fl. auk þess að spila fótbolta við Sómali og mann frá Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum. Spjallaði auk þess lengi við fulltrúa Nígeríumanna á þinginu og spjölluðum við um kosningarnar (þeir kjósa Kasparov) auk þess sem ég lýsti yfir hrifningu minni á knattsprynuliði Nígeríu sérstaklega 1998. Hann lýsti því yfir að nú væri að koma upp sterk kynslóð knattspyrnumanna í Nígeríu og hlutirnir myndu verða flottir þar fljótlega.
FIDE Trainer námskeið
Umferðirnar frá síðastliðnum sunnudegi voru nokkuð strembnar. Þá þurftum við Jón L. Árnason að sitja svokallað FIDE Trainer námskeið en ekki er heimilt að vera liðsstjóri nema að hafa sótt slíkt námskeið. FIDE vill hafa þetta líkt og í fótboltanum að menn hafi réttindi til að þjálfa.
Þar sem enn er verið að innleiða þetta hafa þeir verið og munu á næstunni bjóða upp á þennan kost, þ.e. að menn geti sótt námskeið meðan á mótinu stendur. Um var að ræða á milli 3-4 klukkutíma hvern dag og meðan á umferð stóð. Af þeim orsökum var viðvera í þessum umferðum í lágmarki en þó kíktum við yfir í skáksalinn í hléum eins og kostur var og ef tími gafst til. Við gátum fylgst með skákum í beinni á netinu á námskeiðinu og því hlaupið yfir ef tilefni þótti til.
Að ofan má sjá inngang á skákstaðinn. Hér eru öryggisleitarhlið líkt og notuð eru á flugvöllum og fólk í fullu starfi hér að sjá til þess að enginn fari með síma inn á skákstað. Hvort sem það var brandari eða gríðarlegur einfeldningsháttur þökkum við samt Facebook skríbentum fyrir hláturskrampann sem við fengum þegar undirritaður var "skammaður" fyrir að vera á "feisbúkk í símanum" á skákstað.
En aftur að námskeiðinu. Fyrirlesari var Efstratios Grivas, grískur stórmeistari og hafði hann margt mjög merkilegt fram að færa að mínu mati og held ég að Jón L hafi verið sammála mér. Eða "Mr. Arrnasan" eins og Grivas kallaði hann :-)
Farið var um víðan völl í námsefninu og skáklega fékk ég gríðarlega margar hugmyndir að uppbyggingu á ýmsu kennsluefni og meiri skilning á mörgu. Grivas þessi heldur því fram að "talent" sé mjög ofmetið fyrirbæri og sé í raun ekki til. Það sé alltaf gríðarleg vinna sem liggi að baki. Uppruni orðsins sjálfs er í raun grískur og merkir í raun að eiga næga pening eða auð til að sækja sér þekkingu þannig að segja má að skilningur á orðinu hafi skolast til í tímanna rás.
Á námskeðinu situr fólk með ýmsan styrkleika og það kannski eina gagnrýnin á það sem slíkt. Af námskeiðnu er hægt að útskrifast með fimm mismunandi gráður þar sem FIDE Senior Trainer er hæsta gráðann. Næst á eftir kemur FIDE Trainer en við Íslendingarnir ásamt IM Jonathan Grant fengum þá gráðu á meðan aðrir sem sátu það fengu hinar sem eru t.d. FIDE Instructor og National Instructor.
Í lok námskeiðsins var svo próf þar sem spurt var úr námsefninu en einnig ýmsar sögulegar spurningar svosem hver er núverandi forseti FIDE og hversu margir forsetar hafa verið IGM's....það var nú hálfgerð svindlspurning fyrir okkur Íslendingana enda F.Olafsson frekar auðvelt svar og þurftum svo að bæta Euwe við.
Fyrir prófið hafði ég haft spurnir af því að hann spyr stundum um Heimsmeistarana og sem betur fer er ég nú með röðina á þeim á hreinu og hefði ekki átt í vandræðum með það. Hinsvegar náði ég að hjálpa kollega mínum frá Lesotho. Þannig vildi til að síðasta hléinu á námskeiðinu áður en prófaði byrjaði spurði ég hann hvort hann þekkti röðina á Heimsmeisturunum. Hann var ekki með það allt á hreinu þannig að ég sagði honum að Petrosian væri í uppáhaldi hjá Grivas (sko...maður náði eitthvað að fylgjast með!) og tilkynnti ég honum að hann væri níundi Heimsmeistarinn og hann skildi nú reyna að muna það.
Ég átti svo erfitt með að þurrka af mér skítaglottið þegar ég leit á 13. spurning prófsins sem var einmitt "Who was the 9th World Champion". Aðrar almennar spurningar voru t.d. hvaða frægu bók skrifaði Bronstein, hvað sagði Anand um innsæi (e. intuition) og hvaða klassísku hugmynd gaf Lasker skákheiminum.
Við fengum reyndar ekki að sjá svörin við öllu en ég vildi ná FIDE Trainer gráðunni og tókst það og því mjög sáttur.
Knattspyrna
Eins og kom fram í síðasta pistli hefur verið spilaður fótbolti hér nánast öll kvöld. Undirritaður hefur nokkurn veginn verið fastagestur ásamt Hjörvari Steini og Guðmundi Kjartanssyni. Þeir sem mæta oftast af útlendingunum eru Alexander Ipatov, nokkrir franskir með Maze í fararbroddi, Pólverjar, Kólumbíumenn og svo nokkrir Norsarar með Magnus Carlsen í fararbroddi.
Á myndinni að ofan má sjá stórmeistarann Denis (Kadrec held ég) frá Bosníu kljást við GM Sebastien Maze. Á miðri mynd er Hjörvar Steinn í United búning og svo Magnus í hvítum bol. Undirritaður er svo í einhverjum furðulegum aðgerðum í gulum skóm, líklegast að reima!
Það hefur verið gaman að fylgjast með Magnusi en hann sýnir ekki af sér mikinn hroka og hefur gaman af boltanum og er nokk sama um úrslit. Hann er greinilega í mjög góðu líkamlegu formi og ásamt öðru greinilega lykilinn að árangri hans.
Það hefur á köflum komið upp smá krakki í manni og t.a.m. hef ég aldrei einsett mér jafnmikið að vinna tæklingu/baráttu um boltann og þegar ég lenti í slíkri baráttu við Magnus upp við battann í einum leiknum. Boltinn vannst og söng skömmu síðar í netinu. Litli "fanboy-inn" inn í mér rifnaði svo úr stolti þegar við Magnus vorum saman í liði daginn eftir og Magnus hrópaði tvisvar á nafn hins vörpulega Ingvars til að fá sendingu.
Veðrið hér hefur verið almennt gott fyrir utan mikla rigninu í tvö skipti. Menn létu sig þó hafa það og þrátt fyrir rigningu og þrumur og eldingar var spilað! Undirritaður var ræstur í boltann snemma á frídeginum þegar ég var að versla mér Burger King (fyrsti og eini skyndibiti ferðarinnar!) og hélt ég á fóboltavöllinn þegar þvílíka rigningin byrjaði. Enginn virtist ætla að mæta og þegar ég hafði lokið "máltíðinni" í einhverskonar skjóli fyrir rigningunni þá tæmdi ég pokann og sat eftir með risastóran bréfapoka frá BK sem ég byrjaði að hlaupa niður brekkuna með og notaði sem regnhlíf. Mætti ég þá Hjörvar og Gumma sem löbbuðu á móti mér ásamt Magnusi Carlsen í mestu makindum og hlógu að þessari "improvised" regnhlíf undirritaðs. Úr varð svo um 2ja tíma bolti í hellirigningu og pollum en skemmtilegur var hann!
Bermuda Partý
Hefð hefur skapast fyrir því að kvöldið fyrir fyrri frídag Ólympíumótsins haldi lið Bermuda hið svokallaða Bermudapartý þar sem öllum keppendum er boðið að stinga saman nefjum og kynnast.
Flestir okkar Íslendinganna kíktum við og áttum skemmtilega kvöldstund. Partýið var á allavega þrem ef ekki fjórum hæðum í nokkuð stóru húsnæði með DJ, dansgólfi og tilheyrandi. Mætingin var hreint gríðarlega góð hjá keppendum og allir spakir.
Undirritaður ásamt Larry frá Bermuda og Fionu sem er orðinn góður Íslandsvinur.
Helv#$& verðlagið
Í fyrradag var ákveðið hjá kvennaliðinu (ásamt Hjörvari) að brjóta aðeins upp kvöldmatinn á hótelinu og kíkt út að borða á pizzastað. Það var í stuttu máli dýrt þó maturinn hafi verið fínn. Guði sé lof að eingöngu var um að ræða pizzur! Ef farið hefði verið á almennilegan stað hefði þurft að greiða með einhversskonar raðgreiðslum!
Eins og margt er skemmtileg hér er verðlagið algjörlega út í hött og örugglega að gera út um budduna hjá mörgum!
Í stuttu máli er miðstærð af pizzu norðanmegin við 4.000 kall og mun sunnar við 5.000 kallinn. Kók með mat 1.000. Bjórinn er líka rándýr hér hef ég heyrt!!
Klósettin
Nakamura tweetaði um daginn að klósett-aðstaðan á skákstað væri óviðunandi og "absolutely disgusting". Hann hafði að einhverju leiti eitthvað til síns mál því þó að um góð ferðaklósett sé að ræða eru þetta samt ferðaklósett og það er ekkert rosalega spennandi að sjá botnfylli af saur úr 3-4 heimsálfum undir manni.
Norðmennirnir mega þó eiga það að flest hefur verið í mjög góðu standi hér og menn almennt ánægðir með mótshaldið. Varðandi klósettinn bættu þeir í fólkið sem er að þrífa þau og nú er mikið um að þau séu skoluð og hreinsuð og í gær var komin mjög góð lykt inn á þau öll og einhverskonar ilmsölt eða hvað það nú heitir komið fyrir þannig að lyktin inni á þeim er mjög góð.
Árangurinn
Hingað til má eins og áður sagði segja að staðan hjá liðunum sé eilítið undir væntingum. Ef einstaklingsárangur er skoðaður sést að flestir eru að tefla í kringum stigin sín og flestir í raun að hækka. Hjá karlalðinu eru flestir í smá plús en Gummi í smá mínus sökum klaufaskaps í gær. Hefði sú skák dottið væri árangurinn í raun bara nokkuð góður. Það skilur lítið á milli.
Hjá kvennaliðinu er það sama sagan, þrjár eru í plús en tvær í mínus. Lenka mun klára vel og verið óheppin ef eitthvað er. Eina sem ég hef verið óánægður með voru 2-3 skákir sem töpuðust of auðveldlega vegna einbeitingaskorts og fljótfærni. Að öðru leiti hafa stelpurnar staðið sig vel og á köflum verið að gera mjög fína hluti.
Kosningabaráttan
Það styttist í kosningarnar sem verða vægast sagt fróðlegar. Verður loksins hægt að losna við spillingarvélina hans Kirsan?
Bæði Kasparov og Kirsan hafa gefið keppendum veglegar gjafir. Allir keppendur eiga bol frá báðum og geta því sýnt stuðning og hefur undirritaður um 80%+ séð fólk í Kasparov bolum. Kasparov er klárlega vilji meirahluta fólks en því miður snýst þetta ekki um það.
Bæði Kirsan og Kasparov gefa daglega út "bulletin" en reyndar byrjaði lið Kasparov á því og Kirsan hermdi fljótlega eftir því. Kosningabarátta Kirsan snýst að mestu um að skíta menn Kasparov út en minna um málefni. Held að flestir séu að fara að skipta yfir í að kjósa Kirstan útaf meintum skandölum varðandi fulltrúa í Afghanistan!
Friðrik Ólafsson skrifaði nýverið stuðningsbréf sem birt var á heimasíðu framboðs Kasparovs. Vonandi hefur skoðun þess mikla heiðursmanns einhver áhrif.
Því miður er raunin þó sú að eins og ég sagði áðan snýst þetta ekki um það sem fólkið vill. Það eru fulltrúarnir sem ráða og í gangi eru allskonar beinar og óbeinar mútur. T.d. var einn úr liði Kirsan sem boraði ógreidd mótsgjöld fyrir einhver Afríkuliðin með beinhörðum peningum (cash money!). Liðin skulda ekki peninga til baka....en augljóslega er gert ráð fyrir að þau séu skuldbundin á einhvern hátt til baka.
Einhver sagði um lið Kirsan eftir að annar hafði sagt..:"they know all the tricks in the book".....þá var svarað "no.....they wrote the book!"
Atvik í viðureign við Ísrael
Í gær átti sér stak örlítið leiðindaatvik í viðureigninni við Ísrael. Liðsstjóri Ísrael...sem lítur einhverveginn svona út:
....virtist hafa áhyggur af öryggi sigurs í viðureigninni í stöðunni 2-0 fyrir Ísrael. Lenka var að hrifsa til sín frumkvæðið meðan skák Elsu var reyndar lok lok og læs eins og menn segja. Allavega, Lenka var nýbúin að hafna jafntefli þegar hann gengur að borðinu og segir á ensku við sinn liðsmann að hún megi bjóða jafntefli. Þetta var sagt það hátt að það er truflandi og auk þess á tíma andstæðingsins. Í þriðja lagi var þetta gert án þess að kalla til skákdómara sem eru reglurnar.
Eftir þetta fór hann svo á fjórða borð þar sem Elsa sat að tafli og fór að spjalla á hebresku við hana sem endaði með því að hún bauð jafntefli þó líklegast gegn betri vilja. Aftur hefði hann átt að tala á ensku og líka kalla til skákstjóra.
Liðsstjóri þessi hefur áður valdið Íslendingum hugarangri en það var á EM Taflfélaga 2001. Það er því ljóst að hann vissi alveg hvað hann varð að gera og beitti þarna sálfræðihernaði til að gulltryggja sigurinn þó þessi hafi varla verið þörf.
Hann passaði svo að sjálfsögðu að nýta sér að skákdómarinn var óreynd stúlka frá Kenýa og hann passaði auk þessi að leika þennan leik ekki fyrr en ég brá mér frá að fá mér að borða.
Við höfum ritað smá kvörtun til yfirskákstjóra þar sem við tökum fram að þetta sé ekki í anda leiksins en förum að sjáflsögðu ekki fram á neinar refsingar eða neitt slíkt en þó er rétt að benda á svona framkomu!
Sviðssetning
Fyrir flestum er væntanlega augljóst að við Gunnar brugðum á leik hér þegar liðsstjóri Ísrael svaf á vaktinni (að safna kröftum fyrir voðaverk síðar?) og við þóttumst vera að gera slíkt hið sama....."Vakið yfir liðunum" ....hinsvegar hefur sýnt sig að örfáir virðast annaðhvort ekki hafa tekist að þróa með sér húmor eða hafa furðulegar hvatir að baki ýmsum fáranlegum fullyrðingum.
Respect
Lítið atvik en mikið hægt að lesa úr því. Kasparov var gangandi um skáksalinn en eins og menn vita þá nýtur hann mikillar virðingar og yfirleitt menn sem beygja sig fyrir honum. Mér fannst það bera vott um mikla virðingu þegar Kasparov gekk að "Mr. Arnasan" með útréttan spaðann og tók þéttingsfast í hönd Jóns L. sem hafði ekki séð Kasparov koma fyrr en útréttur spaðinn var kominn í átt að honum.
Segi þetta gott að þessu sinni. Í dag er það Mexíkó í kvennaflokki og Pakistan í karlaflokki. Pakistan komið á óvart með þrjá stigalausa og annað borðið þeirra er með 4 af 6 og taplaus. Við erum vongóð um tvöfaldan sigur í dag.
mbk,
Ingvar Þór Jóhannesson
Liðsstjóri kvennaliðs Íslands og nýbakaður FIDE Trainer
p.s. allar skoðanir og skot í pistlinum eru mínar. Þeim sem líkar það ekki er sem fyrr bent á að troða sokk í holu eða gat að eigin vali.
Ól 2014 | Breytt s.d. kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.8.2014 | 00:14
Ólympíumótið í Tromsö - Fyrstu umferðir
Undirritaður var spenntari við brottför til Tromsö aðfararnótt föstudagsins heldur en 21 árs stelpa í H&M með platinum kreditkort. Stefnan semsagt á Ólympíumótið í skák og verður að viðurkennast að það hefur alltaf verið draumur að komast á þetta mót. Það eru allir sammála um að þetta er toppurinn, hér mæta bestu skákmenn heims í slagtogi við skákmenn af öllum getustigum frá löndum sem sumir hafa ekki einu sinni heyrt um!
Ferðalagið til Tromsö gekk nokkuð snuðrulaust fyrir sig og þurftu nokkrir flughræddir liðsmenn ekki að sprauta sig með hestadeyfilyfinu sem var tiltækt. Flugin voru reyndar tvö þar sem Tromsö er í töluverðri fjarlægð frá Osló og þaðan þurfi að taka um 2ja tíma flug einnig. Biðin á milli var um 1,5 tími en allt gekk vel og án áfalla.
Þegar komið var til Tromsö var tekið vel á móti okkur og fyrstu vísbendingar um nokkuð gott skipulag mótsins. Á flugvellinum biðu sjálfboðaliðar til að taka við liðsmönnum þess lands sem þeim hafði verið úthlutað og tók hin fagra snót Lin við okkur og fylgdi okkur út í rútu og gaf okkur góðar leiðbeiningar um hvert skyldi fara, hvar borða o.s.frv.
Ekki er hægt að fara lengra án þess að minnast á 5-aur ferðinnar (so far) en hann kom í rútunni og Tinna Kristín átti heiðurinn af honum!
Allt gekk þetta mjög hratt og þegar komið var á hótelið fengum við herbergin nánast á nóinu og hægt var að kíkja umsvifalaust á Radisson Blu hótelið þar sem liðin voru staðfest og við fengum afhent auðkenniskortin okkar auk gjafapoka þar sem ýmislegt var að finna svosem forláta vatnsflösku (munaðarvara víðsvegar í heiminum!), kort af bænum, gríðarlega glæsilegan mótsbækling/blað og forláta nælu mótsins.
Hlaðborð var tekið fyrsta kvöldið áður en setningarathöfnin fór fram og maturinn lofar mjög góðu og ljóst að undirritaður mun svoleiðis úða í sig laxi alla helgina en hann er gríðarlega gómsætur hjá þeim norsku. Eini gallinn við matinn er eins og annarsstaðar hið stórkostlega verðlag en reiða þarf fram rétt tæpar eitt þúsund krónur til að fá sér Pepsi flösku með matnum!!
Margir í hópnum fóru svo á setningarathöfn mótsins en hún var vel heppnuð og að mörgu leiti skemmtilegri en margir þorðu að vona. Auðvitað er alltaf þvingað að koma með klisjukennd þjóðleg atriði en aldrei er hægt að segja að manni hafi leiðst. Annars gat tónlist spiluð af Hekla Stålstrenger náttúrulega aldrei klikkað!
Setningarathöfnin var öll sýnd í norska sjónvarpinu og meira að segja endurtekin síðar um kvöldið. Mótinu er gerð gríðarlega góð skil í norskum fjölmiðlum og engu um það logið að Norðmenn eru gríðarlega spenntir fyrir mótinu og algjör skáksprengja að eiga sér stað hér í Noregi.
Jens Hjorth borgarstjóri sá að mestu um setningarathöfnina en ásamt tónlistaratriðum kom norska liðið upp á sviðið þar sem mest var talað við Magnus Carlsen en einnig tók Kjetil Lie að sé að "jinxa" all hressilega skák sína sem fram fór daginn eftir. Einnig flutti Kirsan ávarp ehn það verður að teljast hinn furðulegasti fýr og óskiljanlegt hvað hann hefur hangið lengi við völd. Vonandi nær Kasparov að skáka honum í kosningunum....talandi um það. Bærinn er nánast undirlagðu af auglýsingaspjöldum, skiltum og fánum þar sem framboð Kasparovs er auglýst. Það er greinilega öllu tjaldað til!
Búð fyrir dónakalla...fyrir þá sem ekki vita hvað dónakall er þá bendi ég á eftirfarandi myndband til skýringar:
Liðsmenn Tanzaníu að tefla á útitaflinu. Það mátti eitthvað bæta tæknina i hróksendataflinu en innlifunin og einbeitingin var gríðarlega einlæg!
Búinn að finna hárgreiðslustofu hárgreiðslustofanna hér í Tromsö!
Í fyrstu umferð á laugardeginum áttu bæði lið nokkuð náðugan dag. Við í kvennaliðinu áttum "rematch" frá því í Istanbul gegn Namibíu en þær voru með tvæ í liðinu sem voru einnig síðast. Þær eru ennþá allar stigalausar og töpuðu allar mjög auðveldlega nema fyrsta borðið sem náði að láta Hallgerði aðeins hafa fyrir hlutunum á fyrsta borði þó úrslitin hafi alltaf verið nokkuð ljós. Ótrúlegt reyndar að fá sömu pörun tvö mót í röð og í bæði skiptin klúðrast beina útsendingin þannig að nöfnin víxluðust!
Karlaliðið átti einnig góðan og slysalausan dag gegn Eþíópíu og því tveir 4-0 sigrar í hús.
Þar sem fyrsta umferðin var frekar náðug notaði undirritaður tímann til að skoða sig vel um í salnum. Virkilega gaman að sjá öll þessi þjóðlönd samankomin og fólk frá löndum sem maður mun aldrei heimsækja og því alveg hreint mögnuð lifsreynsla. Ekki skemmir fyrir að geta labbað um skáksalinn og séð kunnugleg andlit nánast allsstaðar. Á staðnum eru skákdómararnir Don Robert Lagerman, Steinþór Baldursson, Ingibjörg Edda Birgisdóttir, Guðmundur Sverrir Þór og Omar Salama.
Sem fyrr rekst maður á kunnuleg andlit út um allt og ekki laust við að það sé kominn verkur í "spaðann" af öllum handaböndunum. Meistarar eins og Predrag Nikolic, Ivan Sokolov, Lorin D'Costa, Robin Van Kampen, Eric Hansen, Kveinys, Doggers, Fiona...semagt endalaust af Íslandsvinum enda ekki liítið af fólki sem hefur komið á Reykjavik Open og fleiri mót í gegnum tíðina.
Í annarri umferð sem fram fór í dag (þegar þessi orð eru rituð) gátum við Jón L minna fylgst með liðinu þar sem við erum á svokölluðu FIDE Trainer námskeiði en slíkt er skylda. Líkt og í öðrum íþróttagreinum er ekki lengur leyfilegt að vera þjálfari nema hafa tilskilin réttindi. Meðan því er komið í gagnið er boðið upp á námskeið meðan á mótinu stendur til að ganga frá því.
Námskeiðið verður einnig næstu þrjá daga og því eitthvað minna sem hægt verður að fylgjast með liðunum. Við Jón vorum þó með tölvu og gátum fylgast með gengi okkar fólks í beinni útsendingu á netinu. Við fengum fínar kennslubækur (ekki hægt að kaupa neinsstaðar) og þeir sem þekkja mig vita að mér leiðast ekkert bækurnar!
Jæja...klukkan orðin margt hér og svosem litlu við þetta að bæta.....en ég ætla nú samt að gera það. Við semsagt töpuðum í dag í kvennaliðinu 3,5-0,5 og mótið að byrja nánast nákvæmlega eins og ÓL 2012 í Istanbul. Við fáum einnig svipaðan andstæing og þá nú í 3. umferð og vonandi verði úrslitin svipuð en við unnum 3-1 gegn Wales 2012. Við fáum lið IPCA sem er lið fatlaðra skákmanna "héðan og þaðan"
Of snemmt er að dæma um formið á liðinu en heilt yfir hefur taflmennskan verið nokkuð góð og kannski hægt að lesa aðeins meira í hvað stelpurnar ætla sér í næstu 2-3 umferðum.
Karlaliðið vann góðan sigur á Írlandi sem er líklegast með sitt sterkasta lið frá upphafi. Á morgun eru það sterkir Serbar. Jón Loftur er með nokkuð þægilegt vandamál að þurfa að velja á milli manna sem allir hafa byrjað nokkuð vel og mórallinn í liðinu flottur.
Framboð Kasparovs gaf í dag (og á morgun) nokkuð veglega gjöf til allra keppenda en allir keppendur fá bók eftir Kasparov og bol með "The Boss" framaná.
Jæja....gamli ætlaði í háttinn en verð að ljúka þessu með því að minnast á fótboltann. Ipatov minntist á það við mig og Hjörvar að spilaður hafi verið fótbolti hér á hverju kvöldi af skákmönnum (margir komu nokkrum dögum á undan okkur). Við höfum síðustu tvö kvöld slegist í hópinn og tekið þátt í bolta. Í honum hafa verið margir sterkir skákmenn eins og Carlsen, Vachier-Lagrave, Salgado Lopez, Cheaprinov og auðtivað Alexander "Beefcake" Ipatov.
Lofa ekki alveg þessari lengd á öllum pistlum en reyni að skrifa þegar tími gefst en hann er því miður alltof lítill ;-)
Góðar stundir,
Ingvar Þór Jóhannesson
P.S. Allar skoðanir og einkahúmor endurspegla ekki á nokkurn hátt ritstjórastefnu Skak.is og þeir sem hafa kvartanir geta sent þær til gleymdu@hugmyndinni.is
Ól 2014 | Breytt s.d. kl. 00:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.8.2014 | 21:36
Ólympíuskákmótið: Dagur 1
Opinber upphafsdagur Ólympíuskákmótsins var í dag en mótið hófst formlega með mótssetningu í kvöld. Setningin var frábær. Auðvitað lágstemmdari en í Khanty Manskiesk 2010 en gríðarlega elegant í alla staði. Var eiginlega glæsileg. Hana má nálgast í heilu lagi hér. Óhætt er að segja að allt hafi gengið óaðfinnanlega í dag - sem vonandi lofar góðu með mótshaldið sjálft. Fyrsta umferð hefst kl. 13 á morgun.
Ferðalagið Íslendinganna gekk vel í dag en fyrst var millilent í Osló þar sem tveggja tíma flug var til Tromsö. Móttökur í Tromsö voru til fyrirmyndar. Afar lítil bið eftir rútum og menn komnir á áfangastaði nánast á núinu. Búið var að tékka menn inn á hótelin og því engin töf til staðar. Að mínu mati hefur verið vel að öllu staðið staðið hingað til. Allt tilbúið án allra tafa.
Hannes og Lenka mættu svo um kl. 21 - nokkuð þreytt eftir erfitt flug. Guðmundur kemur svo enn síðar í kvöld/nótt. Keppendurnir búa á Thon-hótelinu en ég hef herbergi (eignlega frekar skáp) á Radisson Blu sem er í 300-400 metra fjarlægð. Keppendurnir borða á Radisson. Bæði hótelin eru svo nálægt keppnisstaðnum. Herbergin hér virðast vera almennt lítil og eru sjálfagt fyrst og fremst hugsuð fyrir menn sem eru hér í 1-3 nætur. Að sjálfsögðu tökum við þessu með jafnaðargeði.
Ekki er svo öll liðin svo heppin. Sum eru í tölvuverði fjarlægð og sum liðin búa í heimahúsum, sem kölluð eru Private Luxary Villa". Í sumum tilfellum getur það verið gott en í öðrum örugglega heldur lakara.
Tromsö er fallegur bær. Hér búa um 70.000 manns og að einhverju leyti minnir hann mann á Akureyri. Í kvöld settist ég niður með vini mínum Jöran Aulin-Jansson, forseta norska skáksambandsins. Með okkur við borðið var Siv Jansson fjármálaráðherra Noregs, sem með réttu hefði átt að taka reikninginn en ekki var nú lífið svo gott!
Í dag fékk ég athyglisvert samtal. Í mig hringdi rússneska sendiráðið á Íslandi og spurði mig mig um afstöðu í forsetakosningum FIDE (á íslensku með rússneskum hreim). Ég sagði hreint út að Ísland myndi styðja Garry Kasparov og skynjaði viss vonbrigði hinum megin. Íslenska liðinu var í framhaldinu óskað góðs gengis!
Þegar þetta er ritað (um kl. 23:30) er hér skjannabjart. Við erum á 70. breiddargráðu og sólin skín enn lengur en á Íslandi.
Læt þetta duga í bili. Stefnt er að daglegum pistlum frá Tromsö.
Gunnar Björnsson
Ól 2014 | Breytt s.d. kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.7.2014 | 10:25
Ólympíufarinn: Jón L. Árnason
Ólympíuskákmótið verður sett á morgun en sjálf taflmennskan hefst á laugardag kl. 13. Í dag verður síðasti Ólympíufarinn kynntur til sögunnar en það er Jón L. Árnason, sem tekur þátt í sínu fyrsta Ólympíuskákmóti í heil 20 ár!
Jón L. Árnason
Taflfélag
Taflfélag Bolungarvíkur
Staða
Landsliðseinvaldur og liðsstjóri í opnum flokki.
Hvenær tókstu fyrst þátt á Ólympíuskákmót og hversu oft hefur þú tekið þátt?
Ég hef tekið þátt í níu ólympíuskákmótum, frá Buenos Aires 1978 til og með Moskvu 1994.
Minnisstæðasta skák á Ólympíuskákmóti og þá af hverju?
Ætli ég nefni ekki skákina við enska stærðfræðinginn og stórmeistarann John Nunn frá Novi Sad ´92, sem lauk með skemmtilegri mátsókn.
Minnisstæða atvik
Það er af mörgu að taka. Ég minnist þess þegar leið yfir andstæðing Margeirs frá Litháen í miðri skák í loftleysinu á ólympíumótinu í Moskvu ´94 og hann steinlá. Við töldum víst að hann hefði skilið við þetta jarðlíf og það eftir tiltölulega sakleysislegan peðsleik Margeirs. En það tókst að koma nokkru lífi í hann á ný og skömmu síðar buðu Litháar okkur Margeiri jafntefli á tveimur borðum, sem við þáðum. Það er gaman að geta þess að í sjónvarpsútsendingu frá mótinu var sérstaklega tekið fram hversu góðan íþróttaanda íslenska liðið hefði sýnt við þessar aðstæður.
Hverjar eru þínar væntingar/vonir um gengi íslensku liðanna?
Mér sýnist íslenska liðið í opnum flokki vera nálægt 43. sæti í styrkleikaröðinni af 170 þátttökuþjóðum. Sveitin varð í 47. sæti á síðasta ólympíumóti. En ég hef fulla trú á því að liðið geri betur nú og tel að raunhæft markmið sé að verða í hópi 25 efstu þjóða. Kvennasveitin mun einnig standa sig vel. Við hræðumst ekki bjartar sumarnætur og ferskt sjávarloftið frá norður heimskautinu.
Hverju spáir þú fyrir um sigurvegara?
Það er erfitt að spá, margir kallaðir, fáir útvaldir. Þetta gæti orðið Krímskagarimma milli Rússa og Úkraínumanna, sem verða með tvær stigahæstu sveitirnar. Í kvennaflokki eru kínversku stúlkurnar sigurstranglegar.
Hver er/verður þinn undirbúningur fyrir Ól?Það er erfitt að spá, margir kallaðir, fáir útvaldir. Þetta gæti orðið Krímskagarimma milli Rússa og Úkraínumanna, sem verða með tvær stigahæstu sveitirnar. Í kvennaflokki eru kínversku stúlkurnar sigurstranglegar.
Hefurðu áður teflt fyrir norðan heimskautsbaug?
Helgarskákmót Jóhanns Þóris sumarið 1981 í Grímsey er ógleymanlegt. Þá var slegið upp hraðskákmóti um miðnætti og borðum raðað eftir heimskautsbaugnum sjálfum, þannig að annar keppandinn sat sunnan baugs og hinn norðan meginn. Ég og Helgi Ólafsson tókum báðir þátt í þessu móti og getum miðlað öðrum keppendum af reynslu okkar.
Eitthvað að lokum?
Ég hlakka til að mæta aftur til leiks á ólympíuskákmót eftir 20 ára hlé þó að það verði nú í eilítið öðru hlutverki. Ólympíumótin eru mikil skákhátíð og ætíð eftirminnileg, hvert með sínu sniði.
Stofnaður hefur verið sér færsluflokkur á Skák.is þar sem haldið er utan um allar fréttir tengdar Ólympíuskákmótinu í Tromsö og FIDE-kosningunum.
Ól 2014 | Breytt s.d. kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2014 | 11:32
Ólympíufarinn: Gunnar Björnsson
Í dag eru aðeins tveir dagar þar til Ólympíuhátíðin hefst. Í dag er Gunnar Björnsson, fararstjóri hópins og fulltrúi á FIDE-þinginu, kynntur til leiks.
Gunnar Björnsson
Taflfélag
Skákfélagið Huginn
Staða
Fararstjóri, FIDE-fulltrúi og blaðamaður
Hvenær tókstu fyrst þátt á Ólympíuskákmót og hversu oft hefur þú tekið þátt?
Fór sem liðsstjóri 2004 á Mallorca á Spáni sem liðsstjóri í opnum flokki, fór sem fararstjóri og liðsstjóri kvennaliðsins á Khanty Mansiesk 2010 og sem fararstjóri 2012 í Istanbul. FIDE-fulltrúi 2010 og 2012.
Mótið nú er því mitt fjórða Ólympíuskákmót.
Minnisstæðasta skák á Ólympíuskákmóti og þá af hverju?
Einstök stemming í lokaumferðinni í Khanty þegar Lenka tefldi við stúlku frá Jamaíka í lokaumferðinni. Í kringum skákina voru u.þ.b. tíu landar hennar að fylgjast með (á meðan Íslendingarnar fyldust með upp á hóteli í gegnum netið) sem vonaðu að stúlkan þeirri náði jafntefli og þar jafntefli í viðureigninni. Þegar Lenka lék einu með eina sekúndu eftir kom þvílík vonbrigðastuna. Lenka vann fyrir rest.
Minnisstæða atvik
Af þessu þremur mótum sem ég hef farið á stendur mótið í Khanty Mansiesk algjörlega uppúr. Stemmingin var sérstök í aðdragenda mótsins en höfðu fréttir borist að því að hótelið okkar væri jafnvel ekki tilbúið. Þegar á staðinn var komið reyndust aðstæður hins vegar að langflestu leyti vera algjörlega frábærar. Mannafli í Rússlandi er ekki vandamál. Það fór ekki framhjá manni.
FIDE-kosningarnar 2010 og lætin í Kasparov í kringum þær er mér það minnistæðasta frá mótunum þremur.
Hverjar eru þínar væntingar/vonir um gengi íslensku liðanna?
Topp 30 og topp 50.
Hverju spáir þú fyrir um sigurvegara?
Ég held að það sé loks kominn tími á Rússanna í opnum flokki eftir 12 ára eyðimerkurgöngu. Kínverjum spái ég sigri í kvennaflokki.Hver er/verður þinn undirbúningur fyrir Ól?
Fyrst og fremst skipulagning en ég verð í alls konar hlutverkum á mótinu.
Hefurðu áður teflt fyrir norðan heimskautsbaug?
Nei. Ég tefldi reyndar á Skákþingi Norðlending á Grímsey úppúr aldarmótunum en þá var teflt sunnan heimskautsbaug.
Eitthvað að lokum?
Ég hvet íslenska skákáhugamenn til að fylgjast vel með mótinu. Ég mun leggja mikla áherslu á fréttaflutning frá mótinu. Á Skák.is verða ítarlegar fréttir og pistlar en ég stefni á að nota Twitter (@skaksamband) og Facebook til að koma á framfæri einstökum úrslitum og fréttum af FIDE-þinginu. Fréttirnar koma því fyrst á Twitterinn!
Stofnaður hefur verið sér færsluflokkur á Skák.is þar sem haldið er utan um allar fréttir tengdar Ólympíuskákmótinu í Tromsö og FIDE-kosningunum.
Ól 2014 | Breytt s.d. kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2014 | 10:28
Ólympíufarinn: Lenka Ptácníková
Nú er aðeins þrír dagar í setningu Ólympíuskákmótsins. Í dag kynnum við til sögunnar Lenku Ptácniková sem teflir á fyrsta borði í kvennaliðinu.
Lenka Ptácníková
Taflfélag
Huginn
Staða
Fyrsta borð í kvennaliðinu
Hvenær tókstu fyrst þátt á Ólympíuskákmót og hversu oft hefur þú tekið þátt?
Í fyrsta sinn 1994 og öllum eftir það!
Minnisstæðasta skák á Ólympíuskákmóti og þá af hverju?
Minnisstæða atvik
Byltingin í Jerevan var ógleymanleg. [Aths. ritstjóra - Lenka segir ítarlega frá því hér.]Hverjar eru þínar væntingar/vonir um gengi íslensku liðanna?
Vona að bæði liðin lenda á ofarlega en þeim er raðað fyrir mót og mæti heim með fullt af stigum! :)
Hverju spáir þú fyrir um sigurvegara?
Í opnum flokki Armenía einu sinni en, reyndar eru mjög óánægðir með því að vita fyrir fram að geta ekki teflt í 2016 í Bakú (Armenar mega ekki koma í landið). Í kvennaflokki Kína.Hver er/verður þinn undirbúningur fyrir Ól?
Ég var að keppa ansi mikið í ár og auðvitað stúdera eitthvað nýtt á milli
Hefurðu áður teflt fyrir norðan heimskautsbaug?
Nei.
Eitthvað að lokum?
Stofnaður hefur verið sér færsluflokkur á Skák.is þar sem haldið er utan um allar fréttir tengdar Ólympíuskákmótinu í Tromsö og FIDE-kosningunum.
Ól 2014 | Breytt s.d. kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.7.2014 | 12:29
Ólympíufarinn: Hannes Hlífar Stefánsson
Áfram höldum við með kynningar á Ólympíuförunum. Í dag kynnum við til leiks fyrsta borðs manninn, Hannes Hlífar Stefánsson.
Hannes Hlífar Stefánsson
Taflfélag
Taflfélag Reykjavíkur
Staða
Ég mun víst tefla!
Hvenær tókstu fyrst þátt á Ólympíuskákmót og hversu oft hefur þú tekið þátt?
Tók fyrst þátt 1992 og hef teflt síðan. Þá er bara telja!
Minnisstæðasta skák á Ólympíuskákmóti og þá af hverju?
Minnisstæðasta skákin þegar ég tefldi á móti Rúmenanum Istratescu 1992. Hann skipti upp á öllu og bauð jafntefli eftir 10 leiki en ég hafnaði og náði að svíða hann!
Minnisstæða atvik
Minnisstæðasta Ólympíumótið er Elista 1998 en þá var skákþorp byggt fyrir keppendur og bjó íslenska liðið í íbúð með eldabusku sem eldaði fyrir liðið reyndar var mótinu frestað um nokkra daga og sama dag og mótið átti að hefjast var íslenska liðið keyrt lengst út í sveitabæ þar var slegið upp veislu þótt klukkan væri einungis um hádegi þá var öllum sveitamatnum stillt upp á risastóru borði og kössum af vodka staflað á borðið!
Þýddi lítið að segja nei við gestgjafana þá var tekið hlé af átinu og kassettutæki stillt upp á hlaði og dansaði ólympíuliðið við heimasæturnar svona gekk þetta 4-5 umferðir étið, drukkið, dansað og sungnir ættjarðarsöngvar þangað til að rökkva tók. Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins birtist mynd af Þresti í sjómanni við einn heimamanninn!
Hverjar eru þínar væntingar/vonir um gengi íslensku liðanna?
Væntingar til liðsins hef trú að allir eigi eftir að tefla ofar getu.
Hverju spáir þú fyrir um sigurvegara?
Spái Kínverjum sigurvegara í bæði karla og kvennaliðinu!
Hver er/verður þinn undirbúningur fyrir Ól?
Hef verið að tefla í Tekklandi í sumar.
Hefurðu áður teflt fyrir norðan heimskautsbaug?
Hef aldrei teflt fyrir norðan heimskautbaug
Eitthvað að lokum?
Stofnaður hefur verið sér færsluflokkur á Skák.is þar sem haldið er utan um allar fréttir tengdar Ólympíuskákmótinu í Tromsö og FIDE-kosningunum.
Ól 2014 | Breytt 29.7.2014 kl. 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2014 | 13:00
Ólympíufarinn: Steinþór Baldursson
Áfram er haldið með kynningar á Ólympíufarana. Í dag er kynntur til leiks Steinþór Baldursson, sem verður einn af fimm íslenskra skákstjóra á mótinu. Gríðarlega vönduð svör hjá Steinþóri.
Steinþór Baldursson
Taflfélag
Huginn
Staða
Skákstjóri
Hvenær tókstu fyrst þátt á Ólympíuskákmót og hversu oft hefur þú tekið þátt?Fyrsta skiptið sem ég fæ þann heiður að eiga aðild að Ólympíuskákmóti. Vonandi verða þau fleiri í framtíðinni.
Minnisstæðasta skák á Ólympíuskákmóti og þá af hverju?
Ekki mjög þekktur fyrir taflmennsku sem myndi sóma sér á Ólympíuskákmóti :-). Eg nýt þess bara enn frekar að fá tækifæri til að fylgjast með þeim kunna meira fyrir sér í þessu vandaða sporti. Í því sambandi finnst mér sérstaklega gaman að fá tækifæri til að fylgjast með Simon Williams og þar er mér minnisstæð skák frá Reykjavik Open 2013 þar sem Simon teflir með svart við Simon Bekker-Jensen. Stuttu áður hafði ég heyrt Einar Hjalta vin minn útskýra fyrir syni mínum að þegar maður væri byrjaður að fórna þá væri oft best að halda áfram þeirri iðju og tefla þannig mjög hvasst. Mér fannst þessi lýsing eiga vel við skák þeirra Simonar og Simonar. Eintóm skemmtun. Ég vona að ég fái tækifæri til að fylgjast með mörgum svona viðureignum í Tromsö.
Hverjar eru þínar væntingar/vonir um gengi íslensku liðanna?Flott liðin bæði tvö með öfluga þjálfara. Getum bara get góða hluti. Ég veit að við verðum öll stolt af þeim óháð endalegri niðurstöðu.
Hverju spáir þú fyrir um sigurvegara?
Armenar taka opna flokkinn og þær rússnesku taka kvennaflokkinn.
Hver er/verður þinn undirbúningur fyrir Ól?
Hef verið mjög virkur við skákstjórn í vor og vetur. Ég mun síðan leita í smiðju Ómars vinar mín um góð ráð og leiðbeiningar sem skákstjóri á mínu fyrsta stórmóti.
Hefurðu áður teflt fyrir norðan heimskautsbaug?
ÉG tefldi einu sinni við Schredder á IPadinum mínum í 33 þús fetum yfir norðurpólnum. Telur það með? [Aths. ritstjóra: Já]
Eitthvað að lokum?
Þetta getur ekki orðið annað en frábær upplifun og skemmtun.
Stofnaður hefur verið sér færsluflokkur á Skák.is þar sem haldið er utan um allar fréttir tengdar Ólympíuskákmótinu í Tromsö og FIDE-kosningunum.
Ól 2014 | Breytt s.d. kl. 09:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2014 | 14:00
Ólympíufarinn: Ingvar Þór Jóhannesson
Í dag kl. 13 er nákvæmlega vika þar til að 41. Ólympíuskákmótið hefst í Tromsö í Noregi. Í tilefni þess kynnum við Ingvar Þór Jóhannesson, liðsstjóra kvennaliðsins, til leiks.
Ingvar Þór Jóhannesson
Taflfélag
Taflfélag Vestmannaeyja
Staða
Skotbakvörður, Djúpur á miðjunni, landsliðsþjálfari, Center í 3ja-dómarakerfi....fer eftir hvað er í gangi hverju sinni ;-)
Hvenær tókstu fyrst þátt á Ólympíuskákmót og hversu oft hefur þú tekið þátt?
Fyrsta mót sem ég kem að, alltaf verið aðdáandi. Þetta verður eins og að fá súkkulaðiköku í barnaafmæli 6 ára aftur!
Minnisstæðasta skák á Ólympíuskákmóti og þá af hverju?
Nogueiras - Helgi Ólafsson í Dubai. Ef menn þekkja ekki hugtakið "raðtækni" þá er Helgi með grunnnámskeið í henni í þessari skák!
Minnisstæðasta atvik á Ólympíuskákmóti?
Mér fannst alltaf sjokkerandi sagan af Rúmenanum sem bauð nafna Ásmundssyni jafntefli í biðskák á ÓL (78 held ég). Þegar mætt var til leiks var hinsvegar ekki kannast við neitt.
Hverjar eru þínar væntingar/vonir um gengi íslensku liðanna?
Það er alltaf erfitt að pikka út eitthvað sæti. Fer rosalega eftir andstæðingum. Ég er sáttur við stelpurnar ef allar tefla yfir stigum og við vinnum nokkra match á móti stigahærri liðum! Sama með strákana, held að liðsandinn verði lykillinn hjá báðum liðum.
Hverju spáir þú fyrir um sigurvegara?
Það er kominn tími á Rússana, hlýtur að koma að því að "pappírinn" skili sér! Í kvennaflokki ætla ég að tippa á þær kínversku ef Hou Yifan er með þeim, er í fínu formi og nánast hreinsaði sterkt kvennamót ekki alls fyrir löngu.
Hver er/verður þinn undirbúningur fyrir Ól?
Æfingar og undirbúningur með liðinu. Líka bara að halda minni almennu þekkingu vel gangandi í júlí svo hugmyndir komi betur í undirbúningi fyrir einstakar skákir þegar á hólminn er komið.
Hefurðu áður teflt fyrir norðan heimskautsbaug?
Spurning með Gausdal, veit ekki hvað það er norðarlega ;-)
Eitthvað að lokum?
Nei bara fínn, er ekki Magnús annars bestur? [Aths. ritstj. Jú]
Stofnaður hefur verið sér færsluflokkur á Skák.is þar sem haldið er utan um allar fréttir tengdar Ólympíuskákmótinu í Tromsö og FIDE-kosningunum.
Ól 2014 | Breytt 27.7.2014 kl. 09:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjustu færslur
- Ný vefsíða Skák.is!
- Loftur fær Héðin í fyrstu umferð
- Tveir fyrrum heimsmeistarar bættust við á keppendalistann á l...
- Ný alþjóðleg skákstig
- Carlsen vann Aronian - með vinningsforskot og aftur yfir 2850
- Skákklúbburinn Æsir - vertíðarlok
- Fundargerð aðalfundar SÍ
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open hefst á föstudaginn
- Carlsen vann Caruana í fyrstu umferð Altibox Norway Chess
- Þrír efstir og jafnir eftir fyrsta minningarmót Vinaskákfélag...
Tenglar
Mót í gangi
Mót sem eru í gangi hverju sinni
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open Valsheimilið, 1.-9. júní
- Altibox Norway Chess 27. maí - 8. júní: Carlsen og flestir sterkustu skákmenn heims
Lykilvefir
- Skáksamband Íslands Heimasíða SÍ
- Mótaáætlun SÍ
- Vefsvæði Friðriks Ólafssonar Vefsíða tileinkuð Friðriki Ólafssyni
- Skákskóli Íslands
- Skáksögufélagið
- F3-klúbburinn Vildarvinir skákíþróttarinnar á Íslandi
- Tímaritið Skák
- Fischersetur Selfoss
- Skákbækur til sölu
- Bobbý skáksverslun
- Skákhornið Spjallþráður skákmanna
- Skáklandið Stefán Bergsson bloggar
- Skákmyndir
Kennsluvefir
Íslensk taflfélög
Ef þú vilt tefla á netinu!
- Vinaskákfélagið
- Skákfélagið Hrókurinn
- Skákfélagið Huginn
- Taflfélag Reykjavíkur
- Víkingaklúbburinn
- Skákfélag Akureyrar
- Taflfélag Garðabæjar
- Taflfélag Vestmannaeyja
- Æsir
- Skáksamband Austurlands
- Skákdeild Fjölnis
- Skákfélag Sauðárkróks
- Taflfélag Bolungarvíkur
- Skákfélag Selfoss og nágrennis
- Skákdeild Breiðablik
- Skákdeild KR
- Skákdeild Breiðabliks
- Gallerý Skák
- Riddarinn
- Félag íslenskra bréfskákmanna
Erlendir skákvefir
- FIDE Alþjóðlega skáksambandið
- ECU
- The Week in Chess
- ChessBase
- Chess Vibes
- Chessdom
- Your Chess News Umsjón Jóhann H. Ragnarsson
- Bergens Schakklub Besta norræna skákfréttasíðan
- Færeyska skáksambandið
- Bloggsíða Susan Polgar
- ChessCafe Pistlar og greinar
Almanök
Teflt á netinu
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.5.): 27
- Sl. sólarhring: 42
- Sl. viku: 243
- Frá upphafi: 8753252
Annað
- Innlit í dag: 22
- Innlit sl. viku: 178
- Gestir í dag: 16
- IP-tölur í dag: 16
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Það hefur vakið athygli hér heima að sumar stelpurnar okkar hafa verið að klára skákirnar sínar (tapað) með klukkutíma eftir á skáklukkunni (hafa leikið nær viðstöðulaust). Hvet þær til að nýta tímann betur, tefla í botn og hafa gaman af þessu!