Gullaldarlið Íslands tapaði sinni fyrstu viðureign í 5. umferð á HM skákliða 50 ára og eldri í Dresden á fimmtudag. Íslenska stórmeistarasveitin beið lægri hlut fyrir mjög öflugri sveit Armeníu, 3-1, og er nú í 3.-7. sæti. Fjórar umferðir eru eftir á mótinu og ljóst að seinni hálfleikurinn verður æsispennandi.
Jóhann Hjartarson mætti hinum goðsagnakennda Rafael Vaganian á 1. borði. Armeninn var um árabil í hópi sterkustu skákmanna heims og varð m.a. skákmeistari Sovétríkjanna 1989. Þeir Jóhann tefldu sjö kappskákir á árunum 1989-92 og þá hafði okkar maður sannkallað fantatak á Vaganian: sigraði fimm sinnum, gerði eitt jafntefli og tapaði aðeins einni skák.

Jóhann Hjartarson
En Vaganian tefldi glæsilega með svörtu mönnunum í Dresden og fórnaði snemma skiptamun. Tölvuheilarnir töldu Jóhann með mun betri stöðu en Vaganian hafði kafað dýpra.
Halldór Grétar Einarsson liðstjóri: ,,Þótt skakreiknarnir gefi stöðuna +1 á hvítan þá er öllum mannlegum ljóst að svartur var með mun betri stöðu í raun, vegna þess hve mikið auðveldara var að tefla hana. Jóhann var óánægður með leiki 40 til 42 hjá sér. Hann var búinn að tefla vörnina mjög vel, en þarna tapaði hann tveimur tempóum, sem skiptir miklu máli í svona stöðu.

Jóhann Hjartarson Rafael Vaganian. 40. Hb1+ (stöðumynd) Kxa4 41. Bc2+ Ka3 42. f5 Ka2. Jóhann var óánægður með leiki 40 til 42 hjá sér. Hann var búinn að tefla vörnina mjög vel, en þarna tapaði hann tveimur tempóum, sem skiptir miklu máli í svona stöðu. HGE

Jón L. Árnason
Jón L. Árnason lenti snemma í klemmu gegn stórmeistaranum Sergey Galduntsá 4. borði eftir að peðsfórn skilaði ekki tilætluðum árangri.
Halldór: ,,Jón var ekki ánægður með 15. Rxd5. Mun betri leikur var 15. Bc8 sem hefði skilað ágætum bótum fyrir peðsfórnina.

Sergey Galdunts Jón L. Árnason. 15. De1 (stöðumynd) Rxd5. ,,Jón var ekki ánægður með 15. Rxd5. Mun betri leikur var 15. Bc8 sem hefði skilað ágætum bótum fyrir peðsfórnina.
Skákir Helga Ólafssonar við Ashot Anastasian og Margeirs Péturssonar gegn Karen Movsziszian voru allan tímann í jafnvægi, og lauk báðum með jafntefli.

Margeir Pétursson
Halldór segir að sigur Armena hafi verið verðskuldaður: ,,Þeir áttu skilið að vinna. Þeir tefldu betur í dag og sérstaklega var mikilvægur sigurinn á 1. borði.
Fimm lið munu berjast um sigur á HM að mati Halldórs, enda langbest skipuð: Armenía, Þýskaland, England, Íslands og þýska skákfélagið Emanuel Lasker Gesellschaft.
Englendingar unnu stórsigur á skáksveit frá Úkraínu í 5. umferð, Þýskaland lagði kvennasveit Rússlands og Emanuel Lasker Gesellschaft sigraði þýska félagið Forchheim.
Armenar og Þjóðverjar eru nú efstir, hafa sigrað í öllum sínum viðureignum. Gullaldarliðið er í 3.-7. sæti og mætir sveit Þýskalands í 6. umferð. Þjóðverjarnir eru í miklu stuði og ætla sér greinilega að landa heimsmeistaratitlinum á heimavelli.
Sveitina leiðir Uwe Bönsch sem hefur 4 vinninga af 5, og á 2. borði hefur Klaus Bischoff unnið allar fimm skákir sínar og reiknast árangur hans til þessa upp á 3001 skákstig!
Eini veiki hlekkur sveitarinnar til þessa er alþjóðameistarinn Karsten Volke á 3. borði, með 3 vinninga af 5. Á 4. borði hefur stórmeistarinnRaj Tischbirek rakað saman 4 vinningum í jafnmörgum skákum.

Halldór Grétar býst við háspennu í lokaumferðunum fjórum:
,,Það eru fimm jafn sterk lið í mótinu. Þau munu öll tefla innbyrðis. Við höfum teflt við tvö af fjórum. Þurfum helst að vinna hin tvö til að eiga möguleika á sigri, myndi ég halda. Hin liðin hafa teflt einu sinni við annað lið í topphópnum.
Og liðstjórinn er hvergi banginn:
,,Í nótt kemur flugvél með áhorfendur frá Íslandi eiginkonurnar! Þær mæta um hádegisbil. Við ætlum að færa þeim sigur á Þjóðverjum.
Nánar á vefsíðu Hróksins.