Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2017

Stórt tap gegn Georgíu - Hannes með jafntelfi

Hjörvar og Héðinn

Íslenska lið steinlá fyrir liði Georgíu í þriðju umferð EM landsliða sem fram fór í dag á Krít. Úrslitin urðu 3½-½. Hannes Hlífar Stefánsson gerði jafntefli en aðrar skákir töpuðust. Til að byrja með leit umferðin vel út en svo fór að halla undir fæti. Guðmundur Kjartansson tapaði fyrstur. Hjörvar Steinn Grétarsson tefldi afar spennandi skák á 2. borði en missti af jafnteflisleið í tímahraki og tapaði. Hannes Hlífar Stefánsson gerði öruggt jafntefli á þriðja borði og er taplaus. Héðinn lenti í vandræðum uppúr 30. leik og náði ekki að verja stöðuna.

P1050049

Svekkjandi tap. Það sjöunda í röð gegn Georgíu á Ólympíuskákmótum og EM landsliða. Okkur gengur greinilega ekki vel á móti Georgíumönnum. 

Ekki liggur enn fyrir við hverja Ísland teflir við á morgun. Umferð morgundagsins hefst kl. 13. 

Ingvar fer frekar yfir gang mála síðar. 

 


Fjórir efstir og jafnir í Bikarsyrpu helgarinnar

20171029_180810-1024x576

Blikapilturinn knái, Gunnar Erik Guðmundsson, sigraði í þriðja móti Bikarsyrpu TR sem fram fór um nýliðna helgi. Eftir æsispennandi lokasprett þar sem síðustu skákinni lauk ekki fyrr en að ganga sjö að kveldi sunnudags varð úr að hvorki fleiri né færri en fjórir keppendur komu jafnir í mark með 5,5 vinning af sjö mögulegum. Ásamt Gunnari voru það Benedikt Briem, Magnús Hjaltason og Kristján Dagur Jónsson. Gunnar var sjónarmun á undan Benedikt sem hlaut annað sætið, en aðeins munaði hálfu mótsstigi (samanlagðir vinningar andstæðinga) á þeim félögum. Þriðja sætið féll svo Magnúsi í skaut en Kristján Dagur var mjög skammt undan. Efst stúlkna var Batel Goitom Haile sem dró 5 vinninga að landi þrátt fyrir að missa af einni umferð. Ekki langt á eftir, með 4,5 vinning, komu liðsfélagar Batel hjá TR, þær Ásthildur Helgadóttir og Anna Katarina Thoroddsen.

Bikarsyrpuhelgarnar eru langar og strangar en að sama skapi sérlega skemmtilegar og spennandi ásamt því að vera mikilvægar fyrir börnin sem fá dýrmæta reynslu og góða æfingu. Mótið nú var hið fjölmennasta í tvö ár, og raunar það næstfjölmennasta frá upphafi Bikarsyrpunnar, en alls tóku þátt 33 efnilegir skákkrakkar og var ánægjulegt að sjá að þriðjungur þeirra var stúlkur. Þá voru 60% keppenda stigalaus, þ.e. ekki komin inn á hinn rómaða Elo-stigalista, en það er töluverð aukning eftir að þeim hafði fækkað fullmikið. Bikarsyrpumótin eru nefnilega prýðis tækifæri fyrir þau börn sem eru styttra á veg komin í skáklistinni til að bæta sig gegn hinum reyndari.

Allt mótahald fór vel fram og voru börnin til mikillar fyrirmyndar við skákborðin jafnt sem utan þeirra og fá þau þakkir fyrir sína þátttöku. Foreldrar og forráðamenn eiga líka hrós skilið fyrir sína aðkomu enda ekki sjálfgefið að taka heila helgi undir stífa taflmennsku. Ástundunin skilar sér þó margfalt til barnanna – það sjá þeir best sem mest fylgjast með, bæting þeirra við skákborðin er óumdeilanleg.

Sjáumst í næsta móti, helgina 16.-18. febrúar!

  • Öll úrslit helgarinnar má sjá hér og þá er stór hluti skákanna aðgengilegur hér

Nánar á heimasíðu TR.


Georgía í dag - Baadur Jobava hvílir

P1050007

Ísland mætir Georgíu í 3. umferð EM landsliða í kvöld. Liðsskipan Georgíu kemur okkur nokkuð á óvart en þeir hvíla sinn langbesta mann, Baadur Jobava (2705), í dag. Engu að síður er sveit Georgíu mun sterkari á pappírnum en okkar sveit. Stigalægsti meðlimir þeirra sveitar er stigahærri en okkar stigahæsti maður, Héðinn Steingrímsson. Meðlimir sveitarinnar eru á þröngu stigabili eða á milli 2580-2601.

Viðureign dagsins

Clipboard02


Við höfum þrívegis mætt Georgíu á EM landsliða og ávallt tapað.. Árið 2011 í Porto Carras töpuðum við 3-1. Helgi Ólafsson vann Gagunashvili á fjórða borði glæsilega en aðrar skákir töpuðust. Helgi tók borðaverðlaun það árið. Hjörvar sem þá tefldi á fyrsta borði tapaði fyrir Jobava. Hann náði samt stórmeistaraáfanga á mótinu.

Árið 2007 á Krít steinlágum við í fyrstu umferð ½-3½. Aðeins Henrik Danielsen gerði jafntefli. Héðinn tapaði þá fyrir Jobava. Bestu úrslitin voru árið 2001 en þá töpuðum við 1½-2½. Hannes, Jón Viktor Gunnarsson og Bragi Þorfinnsson gerðu jafntefli. Bragi tefldi þá við Jobava sem þá tefldi kornungur á þriðja borði.

Tefldum við þá þrjú Ólympíumót í röð 1994-98 og töpuðum ávallt. Tölfræðin er ekki með með okkur en með hverri viðureigninni styttist í það að við náum stigi/stigum á móti Georgíu.

Aðstæður á skákstað eru til mikillar fyrirmyndar. Eins og ávallt þegar teflt er á Grikklandi. Gríðarlega vandaðir mótshaldarar. Skáksalurinn er mjög góður. Rétt hjá hótelinu sem er frábært. Stutt í sjóinn en þangað kíkjum við Adrian Mikhalchishin flesta daga og fáum okkur smá sundsprett skömmu eftir upphaf umferðar. Mjög hressandi. Adrian fullyrðir að þetta lengi lífið!

Umferð dagsins hefst kl. 13. Hægt er að nálgast viðureignina hér.

Gunnar Björnsson

 


Atkvöld hjá Hugin í kvöld

Atkvöld verður hjá Huginn mánudaginn 30. október 2017 og hefst mótið kl. 20:00. Fyrst eru tefldar 3 hraðskákir þar sem hvor keppandi hefur 3 mínútur + 2 sekúndur á hvern leik. Síðan verða  þrjár atskákir með umhugsunartímanum tíu mínútur + 5 sekúndur á hvern leik.. Teflt er í félagsheimili Hugins í Álfabakka 14a í Mjóddinni. Mótið verður reiknað til hraðskák- og atskákstiga.

Sigurvegarinn á atkvöldinu fær í verðlaun máltíð fyrir einn á Saffran eða pizzu frá Dominos. Einnig verður dreginn út af handahófi annar keppandi sem fær sama val. Þar eiga allir jafna möguleika, án tillits til árangurs á mótinu.

Þátttökugjöld eru kr. 300 fyrir félagsmenn (kr. 200 fyrir 15 ára og yngri) og kr. 500 fyrir aðra (kr. 300 fyrir 15 ára og yngri).


EM Landsliða - Liðsstjórapistill 2. umferðar

P1050028Í annarri umferð á EM landsliða beið okkar það hlutverk að kljást við Albani. Við vorum stigahærri á öllum borðum og því kærkomið tækifæri að koma sterkir til baka eftir 1-3 tapið í fyrstu umferð gegn ógnarsterkum Ungverjum.

Undirbúningur var nokkuð auðveldur þar sem að Albanir eru mættir til leiks hér með fjóra liðsmenn eins og við og enga varammenn. Menn gátu því hafið undirbúning í gærkvöldi þegar pörun lá fyrir.

Mótið er eins og áður hefur komið fram mjög sterkt þrátt fyrir að nokkra sterka pósta vanti úr heimselítunni. Óvæntustu úrslit fyrstu umferðar voru án vafa sigur Ítala á Azerbaijan. Mikil vonbrigði fyrir Azera sem höfðu mikinn metnað fyrir árangri á þessu móti.

 

En færum okkur yfir í viðureign dagsins í 2. umferð

Clipboard03

 

Okkar reyndustu menn stýrðu báðir hvítu mönnunum og við auk þess stigahærri á öllum borðum eins og áður sagði. Krafan var því augljóslega sigur! Yfirferð yfir skákirnar kemur hér á eftir í þeirri röð sem þær kláruðust.

P1050028

3. borð Hannes hvítt gegn Ashiku

Hannes tefldi af gríðarlegum krafti á 1. borði. Andstæðingur hans var yngstu Albana og e.t.v. hættulegasti andstæðingurinn sem hægt var að fá en Hannes var ekki í stuði fyrir neitt rugl í dag!

EM 2017_2nd_Hannes_1 

 

Hannes tefldi gambít með d4 og svo c3 (sjá stöðumynd). Að sjálfsögðu ekki Dxd4? sem er þekkt byrjanagildra sem kölluð er "Örkin hans Nóa" af einhverjum ástæðum og ef ég man rétt! Stöðuna eftir 9...dxc3 10.Dh5 þekkti Hannes og vissi að svartur ætti að leika De7 eða Df6. Albaninn lék 10...g6? sem Hannes vissi að væri vitlaus leikur sem ætti að refsa og það gerði hann svo sannarlega!

EM 2017_2nd_Hannes_2

Hér er Hannes að hóta að opna stöðuna með e5 og nýta sér mikið rými og skjótari liðsskipan.  Svartur lenti í miklum vandræðum þar sem honum tókst ekki að ljúka liðsskipan og kóngurinn var fastur á miðborðinu. Hannes kláraði dæmið í aðeins 27. leikjum

 

EM 2017_2nd_Hannes_3

Hér eftir ...b4 í erfiðri stöðu kom einfaldlega Bb6 hjá Hannesi sem hótar svörtu drottningunni og ef hún hreyfir sig kemur Hd8+ sem er mát í næsta leik. Svartur drap á e5 og gaf svo eftir Hd8+

Flottur sigur hjá Hannesi sem gaf liðinu góðan meðbyr mjög snemma í viðureigninni.

 

EM2017_2nd_Hedinn

1.borð Héðinn hvítt gegn Mehmeti

Héðinn fékk strax mjög þægilega stöðu gegn hættulítilli byrjun andstæðings síns.

EM 2017_2nd_Hedinn_1

Eftir 20 leiki var Héðinn svo einfaldllega kominn með ALLA stöðuna, biskupaparið, rými, sókn, veikleikar til að tefla upp á....you name it!

EM 2017_2nd_Hedinn_2

Mjög fljótt fjaraði undan svörtu stöðunni og Mehmeti fór í einhverjar vafasamar "desperation" aðgerðir hér:

EM 2017_2nd_Hedinn_3

Svartur lék semsagt ...Hxf7 sem er náttúrulega "enginn leikur".  Eftirleikurinn var mjög auðveldur hjá Héðni sem vann og tryggði okkur vænlega 2-0 stöðu, jafntefli í versta falli og þurftum við nú aðeins hálfan vinning í hinum skákunum til að tryggja sigur í viðureigninni.

 

EM2017_2nd_Gummi

4. borð Guðmundur með svart gegn Seitaj

Gummi beit Pirc með svörtu og jafnaði í raun taflið frekar auðveldlega og snemma þar sem andstæðingur hans var í raun ekki að tefla upp á neitt.

EM 2017_2nd_Gummi_1

Morgunljóst er að hvítur er ekki með neitt hér og svartur jafnvel með ööööörlítið betra. Vandamálið er hinsvegar að mjög erfitt er að komast eitthvað áfram fyrir svartan. Guðmundur tefldi framhaldið vel og for í framrás á drottningarvæng. Í kjölfarið fékk Gummi smá vinningssénsa þegar andsætðingur hans leyfði honum að fá frelsingja á a-línunni.

EM 2017_2nd_Gummi_2

Hér kom fyrsta krítíska mómentið í skákinni. Mig minnir að það hafi verið í þessari stöðu frekar en einum leik síðar. Gummi átti um 4 mínútur eftir á klukkunni og andstæðingur hans (sem er með mikla reynslu) fór í A-Evrópu skítatrikks-reynslubankann og bauð jafntefli á tíma Gumma. Þetta fipaði okkar mann eitthvað og hafði nokkuð mikið áhrif.

Gummi hélt áfram þó hann hefði verið sleginn aðeins út af laginu en líklega hefði hann átt að spyrja mig út í jafnteflisboðið þar sem á þessum tímapunkti hefði það tryggt sigur í viðureigninni og staðan hjá Hjörvar engan veginn ljós.

 

EM 2017_2nd_Gummi_3

Næsta krítíska augnablik var öllu krítískara en þar fór skákin úr jafntefli yfir í tap. Síðasti leikur hvíts var 40.Dxe5+ en áður en honum var leikið var smá reikistefna þar sem klukkan Guðmundar hafði þegar gefið honum aukatíma eins og hann hefði klárað 40 leiki. Skákstjórinn þurfti því að tala við þá, stilla teljarann á 39 leiki aftur og setja klukkuna í eina mínútu og 32 sekúndur hjá Guðmundi. Mögulega missti Gummi smá einbeitinguna við þetta og var áður búið að fipa hann eilítið með siðlausu jafnteflisboði.

Í stöðunni hefði Guðmundur að sjálfsögðu átt að leika 40...Kh7 og taka SVO ákvörðun eftir að hafa fengið viðbótartímann í 40. leik. Þar sem GK hefur tamið sér að standa upp eftir 40 leiki hefði hann aldrei leikið þessum afleik að yfirlögðu ráði og úrslitin því orðið ljós á þessum tímapunkti.

Þess í stað opnuðust flóðgáttir og albanski alþjóðlegi meistarinn kláraði dæmi og Albanir eygðu nú allt í einu von í stöðunni 2-1 fyrir Ísland.

 

EM2017_2nd_hjorvar

2. borð Hjörvar svart gegn Pasko

Undirbúningur Hjörvars gekk algjörlega upp. Hann valdi drottningarbragð með ...a6 og eins og hvítur tefldi þetta þurfti hann snemma að taka ákvöðrun með drottningarbiskupinn og valdi að setja hann á f4. Þá lék Hjörvar strax ...Bd6 og miðað við hefðbundið drottningarbragð á svartur mun auðveldara um vik. Svartur jafnaði taflið mjög snemma og Hjörvar var fljótlega eftir það kominn með aðeins þægilegri stöðu.

EM 2017_2nd_Hjorvar_1

Albaninn fór þá í mótspilsaðgerðir með f4-f5 framrás og Hjörvar taldi þar skynsamlegast að fórna peði og líklegast var rétt hjá honum að hann var alltaf með nægar bætur fyrir það. Svartur var í raun með smá svona "positional bind" og hvítur var í raun aldrei að hóta að bæta stöðuna að neinu ráði.

EM 2017_2nd_Hjorvar_2

Þegar Hjörvar náði hér að vinna peðið til baka með ...Hxe3 róaðist ég aðeins niður en það var á svipuðum tíma og skákin hjá Guðmundi var að tapast. 

Í stöðunni 2-1 fyrir okkur fór hinsvegar verulega um mig og Gunnar hér eftir Hd8 hjá Albananum. Hér var spennan gríðarleg og lítill tími á klukkuni. Hér liggur beinast við að ýta b-peðinu en svartur þarf að passa sig þar sem 54...b3 55.Hf8 b2 57.Hxf7+ Kg8 58.Hg7+ Kf8 (...Kh8 þá Rg6#) 60.Re6+ Ke8 51.f7+ og það er hvítur sem vinnur!

EM 2017_2nd_Hjorvar_3

Hjörvar missti þó af vinningi hér þar sem það kemur á daginn að 54...b3 55.Hf8 Re6! 56.Hxf7+ Kg8 vinnur þar sem riddarinn valdar g7 reitinn og svarta frípeðið er of hættulegt.

Hjörvar fann þó 54..:Re4 og eftir 55.Hf8 og 55...Hf2+ með grettu hjá Pasko sem var svo sannarlgea ekkert Páska-lamb að leika sér við!

Ljóst var að eftir ..Hf2+ og ...Hxf6 að öll taphætta var úr sögunni og við gátum andað léttar. Hjörvar reyndi aðeins að vinna en Albaninn varðist þeim tilraunum og jafntefli niðurstaðn í þessari skák og 2,5-1,5 sigur hjá okkar mönnum.

Clipboard04

 

Á morgun bíður gríðarlega sterk sveit Georgíumanna og ljóst að við þurfum góðan dag hjá öllum til að ná úrslitum.

Ungverjar eru efstir með flesta vinninga eftir 3,5-0,5 stórsigur á Rúmenum. Ítalir halda áfram góðu móti og unnu Tyrki, frábær úrslit hjá þeim. Rússar og Armenar hafa einnig fullt hús en Úkraínumenn eru ekki í þeim hóp eftir óvænt tap gegn Hollandi.

Í kvennaflokki hef ég lítið fylgst með en þar ætti sigur Rússa að vera nánast formsatriði...aldrei segja aldrei þó.

 

Kveðja frá Krít,

Ingvar Þór Jóhannesson

 

Að neðan er SnapChat saga dags #2, smá flipp og grín. Addið Ingvar77 til að vera með ;-)

 

 


Sigur gegn Albaníu - mæta Georgíu á morgun

P1050012

Ísland vann Albaníu, 2½-1½ í annarri umferð EM landsliða sem er nýlega lokið. Héðinn Steingrímsson og Hannes Hlífar Stefánsson, unnu sínar skákir á 1. og 3. borði, Hjörvar Steinn Grétarsson gerði jafntefli á því öðru í hörkuskák en Guðmundur Kjartansson tapaði.

P1050028 

Hannes Hlífar var fyrstur til að klára. Hann yfirspilaði andstæðing sinn og vann afar góðan og sannfærandi sigur. Héðinn vann einnig afar sannfærandi sigur. Staðan var orðin 2-0 og allt leit út fyrir öruggan sigur. Guðmundi Kjartanssyni urðu á mistök í 40. leik þegar hann hafnaði þráskák og tapaði sinni skák. Staðan hjá Hjörvari var óljós og var farið að fara um liðsstjórann. Hjörvar snéri hins vegar á hann og var kominn með vænlegt tafl. Andstæðingurinn, Llambi Pasko, var hins vegar ekkert lamb að eiga við og rétt hékk á jafntefli. 

Góður 2½-1½ sigur staðreynd. 

Úrslit dagsins

Clipboard04

 


Ísland er í 24. sæti með 2 stig og efst Norðurlandanna. Hin Norðurlöndin hafa ýmist 1 eða 0 stig.

Sjö þjóðir hafa fullt hús stiga. Þar vekur frammistaða Ítala mesta athygli. Unnu Tyrki í dag. 

Andstæðingar morgundagsins er Georgía. Meðalstig Georgíu eru 2622 skákstig á móti 2527 skákstigum Íslands. Það verður því ramman reip að draga. Baadur Jobava (2705) teflir á fyrsta borði.

Lið Georgíu

Clipboard01


Ingvar fer nánar yfir gang mála umferðarinnar í kvöld. 

 


Skákir fyrstu deildar Íslandsmóts skákfélaga

Daði Ómarsson hefur slegið inn skákir fyrstu deildar Íslandsmóts skákfélaga. Tekið skal fram að allmargar skákir fimmtu umferðar vantar. Þeim verður bætt við þegar þær koma í leitirnar. 

 


EM landsliða: Albanía í dag

P1040994

Ísland mætir Albaníu í annarri umferð EM landsliða sem hefst kl. 13 í dag. Albanía hefur ekki tekið þátt í mótinu síðan í Leon í Frakklandi árið 2001. Albanska liðið er töluvert lakara en það íslenska á pappírnum. Hafa að meðaltali 2372 skákstig á móti 2527 skákstigum íslenska liðsins. Líkur eru hins vegar á því að þeir séu sterkari en stigin gefa til kynna. Sérstaklega má benda á annað borð en sá ku vera ekkert (páska)lamb að leika sér við. 

Viðureign dagsins 

Clipboard03

Ísland og Albanía mættust einmitt árið 2001. Þá unnu Íslendingar 3-1. Tveir af liðsmönnum Albana voru liðinu þá. Ilir Seijai tefldi þá á öðru borði og tapaði fyrir Jóni Viktori. Fyrsta borðs maðurinn Drian Mahmeti var þá stigalaus á fjórða borði og tapaði fyrir Stefáni Kristjánssyni. Hannes Hlífar Stefánsson vann á fyrsta borði en Bragi Þorfinnsson tapaði á því þriðja. Hannes er sá eini í íslenska liðinu nú sem þá var í liðinu. 

Við höfum þrívegis mætt þeim á ólympíuskákmótum. Unnum þá 3-1 1970 og 2006 og gerðum 2-2 jafntefli við þá árið 1982. Okkur hefur því gengið vel á móti Albönum í gegnum tíðina. 

Afar óvænt úrslit urðu í gær þegar Ítalir unnu Asera, næst stigahæsta liðið í gær. Moldóvar gerðu jafntefli við Englendinga og Carlsen-lausir Norðmenn náðu sömu úrslitum gegn Ísraelum. Norðmenn eru eina Norðurlandaþjóðin sem náði stigi í gær. Aðrar töpuðu.


Andri Freyr með 1½ vinning í Uppsölum

471_Andri_Freyr_Bjorgvinsson-281x300Tvær umferðir voru tefldar í gær á alþjóðlega unglingamótinu í Uppsölum í Svíþjóð. Andri Freyr Björgvinsson (1937) fékk í þeim 1½ vinning. Hann gerði jafntelfi við Svíann Joakim Nilsson (1937) og vann Færeyinginn Janus Skalle (1897) á afar laglegan hátt. Símon Þórhallsson (2027) vann einnig áðurnefnda Skaale en tapaði svo fyrir Anna Kubicka (2215).

Fjórða umferð fer fram í dag og hefst kl. 14. Hægt er að fylgjast með þeim félögum í beinni í gegnum Chess24. Sjá tengil hér að neðan. 

 

 


EM Landsliða - Pistill liðsstjóra (1. umferð)

P1040987EM Landsliða hófst í dag á eyjunni Krít á Grikklandi. Við fengum hið verðuga verkefni að eiga við gríðarlega sterkt lið Ungverja sem eru sjöundu í stigaröðinni. Mótið er sterkt en engu að síður vantar hér nokkrar "kannónur" eins og Carlsen, MVL, Karjakin, Kramnik ásamt nokkrum öðrum. Sterkasti skákmaðurinn hér er Aronian sem við mættum einmitt í göngutúr okkar í kvöld þegar Gummi heilsaði vini sínum Hrant Melkumyan.

En að viðureign dagsins. Uppröðun Ungverja kom okkur mjög á óvart en liðin tilkynntu uppröðun liða sinna á liðsstjórafundi í gær. Leko var efstur á lista hjá þeim en að Viktor Erdös með 2624 elóstig skildi vera á öðru borði var sannarlega óvænt. Leko hvíldi gegn okkur þannig að Erdös var á fyrsta borði.

EM2017_1st_Pairings.

Segja má að snemma viðureignar hafi styrkleikamunur strax farið að segja til sín. Ungverjar voru að meðaltali vel yfir 100 elóstigum hærri á hverju borði. Frekar snemma tafls fannst mér ljóst að skákirnar þar sem við höfðum hvítt voru í besta falli í jafnvægi fyrir okkar menn en skákirnar þar sem við höfðum svart vorum við strax komnir í mun meira krefjandi vörn og með verra tafl.

1. borð Viktor Erdos - Héðinn

Fyrsta skákin til að klárast var á fyrsta borði þar sem áðurnefndur Erdos tefldi mjög vel. Erdos kom Héðni nokkuð á óvart í byrjanavali en Héðinn átti ekki von á að hann myndi beita þessu afbrigði. Í ljós kom þó eftir skákina að Erdos hafði eytt deginum í að undirbúa þetta afbrigði ansi langt. Hann hafði teflt þetta fyrr á árinu gegn Karjakin en fékk lítið sem ekkert þar og því mættur til leiks með endurbætur!

EM 2017_Erdos_Hedinn_1

Hér drap Erdos á f6 og skildist mér að það hefði verið undirbúið. Skv. skyndikönnun á tölvuforritum ætti svartur að drepa með biskup en Héðinn drap með peði. Héðinn fékk biskupaparið en hvítur frumkvæði. Ljóst var að hvítur þyrfti að tefla af fítonskrafti til að nýta frumkvæðið og Erdos gerði það.

EM 2017_Erdos_Hedinn_2

Hér fórnaði Erdos skiptamun með Hxd5 og í kjölfarið kemur drottningin inn á f5. Á daginn kom að erfitt var að verja kóngsstöðuna og hvítu reitina og Erdos vann í aðeins 24. leikjum sem er mjög óvenjulegt hjá Héðni og sýnir hversu vel undirbúinn og sterkur skákmaður Erdos er!

 

2. borð Hjörvar - Richard Rapport

Þótt Peter Leko sé að öllum líkindum sögulega sterkasti skákmaður Ungverja þá er það mitt mat að Richard Rapport sé í dag þeirra sterkasti maður. Fyrr á árinu fór Rapport yfir 2750 elóstig sem sýnir ógnarstyrkleika hans. Hans galli er hinsvegar að hann teflir mjög "glannalega" og tapar kannski óþarfa skákum hér og þar á milli þess sem hann vinnur glæsilega. Skiljanlega gerir þetta Rapport að gríðarlega vinsælum skákmanni.

Hjörvar stóð frammi fyrir óöfundusverðu hlutverki þegar hann þurfti að reyna að giska á hvaða byrjanir hann þyrfti að undirbúa sig fyrir. Óhætt er að segja að Rapport hafi teflt "allt undir sólinni" og því nánast ómögulegt að giska á hvað væri að fara að koma upp. Það sem kom upp (drottningarindverji) var kannski það sem Hjörvar átti síst von á þar sem Rapport hefur aðeins verið að beita þeirri byrjun gegn 2700+ skákmönnum.

Hjörvar hafði því ekki miklar áhyggjur af þeim varíanti og kannski minnstur tími sem fór í undirbúning þar. Upp kom nokkuð jöfn staða snemma. Miðtaflið virtist í miklu dýnamísku jafnvægi

EM 2017_Hjorvar_Rapport_1

Hér væri líklega auðveldara að velja svörtu stöðuna en að sama skapi ef Hjörvar hefði valið hér a3 í stað Re1 gæti orðið erfitt fyrir svartan að virkja menn sína á drottningarvængnum. Þess í stað átti svartur ...a3 sjálfur og náði að virkja þungu mennina sína nokkuð fljótt.

EM 2017_Hjorvar_Rapport_2

Upp kom endatafl sem var augljóslega aðeins verra á Hjörvar en ég skildi ekki alveg af hverju Hjörvar drap ekki einfaldlega á f7 hér. Samt virðist Rf4 vera fínn leikur en fyrir okkar á lægri levelunum er einfaldara að telja bara peðin og þar sem ég sá engan rakin vinning hefði ég persónulega drepið á f7 sjálfur. Í kjölfarið átti Rapport tvö peð á móti einu og líklegast ennþá töluvert tæknilegt verkefni eftir en þá lenti Hjörvar í leppun sem þýddi tap á nóinu. 

Rapport sýndi styrk sinn í þessari skák með því að setja aftur og aftur lítil vandamál fyrir Hjörvar sem hann þurfti að eyða tíma í að leysa og þar af leiðandi lenti Hjörvar í tímahraki sem kostaði hann á endanum skákina.

 

3.borð Zoltan Almasi - Hannes Hlífar

 

Héðinn bjóst við að Almasi myndi tefla eins og hann gerði þ.e. með svona 1.Rf3 "poti". Almasi er gríðarlega sterkur stöðulegur skákmaður og er þesssi misserin "réttu megin" við 2700 stiga múrinn.

EM 2017_Almasi_Hannes_1

Ég taldi að Almasi væri með töluvert þægilegra tafl hér og í raun aðeins hvítur sem getur teflt til vinnings. Riddarinn á d5 er algjört skrímsli, biskup svarts bítur í raun í tómt og hvítur á einfalt plan að henda í minnihlutaárás á drottningarvæng með því að setja hrókana á b-línuna og ýta a-peðinu áfram. Að því sögðu þá þarf hvítur samt að vanda sig í úrvinnslunni

EM 2017_Almasi_Hannes_2

Eftir tímamörkin tapaði Hannes peði og hér er hann í erfiðri stöðu. Hann getur valið að þjást peði undir eða að gefa skiptamun. Hann valdi mun praktískari leiðina hér og fórnaði skiptamun sem gaf honum peðið á f2. Hvítur hlýtur eiginlega fræðilega að hafa unnið tafl en úrvinnslan er gríðarlega erfið þar sem kóngur hvíts er veikur og þráskák alltaf yfirvofandi.

EM 2017_Almasi_Hannes_3

Almasi klikkaði á úrvinnslunni og þegar hér var komið við sögu munaði örlitlu að hann klúðraði skákinni með því að falla á tíma. Hann hugsaði og hugsaði og rétt náði að leika hér Hc7 með EINA sekúndu á klukkunni en ég er alveg viss um að það var nær því að vera hálf sekúnda. 

Hc7 gaf reyndar Hannesi færi á því að leika hér ...c2 og hvítur á enga leið til að bæta taflið. Almasi drap á g7 og þar sem hvítur á gangandi þráskák var jafntefli samið. Viðbrögð Almasi voru nokkuð plebbaleg en hann var rosalega svekktur, grýtti skorblaðinu yfir á Hannes og kvittaði með miklum hroka á sín skorblöð þar sem þau lágu hjá Hannesi. Einstaklega asnaleg og leiðinleg viðbrögð, sérstaklega í ljósi þess að úrslit skákarinnar skiptu engu máli fyrir úrslit viðureignar Íslands og Ungverjalands!

 

4. borð Guðmundur - Ferenc Berkes

Gummi fann klárlega fyrir flugþreytu í byrjuninni þegar hann eiginlega lék stöðulega af sér og þurfti að gefa biskupaparið.

EM 2017_Gummi_Berkes_1

Gummi viðurkenndi hér að hafa einfaldlega misst af þessari leið hjá svörtum. ...Re5 þýðir að hvítur þarf að gefa biskupaparið. Þótt að hvítur nái í kjölfarið að einfalda taflið þá er það aðeins svartur sem getur teflt upp á vinninginn með biskupaparið.

Þrátt fyrir þessi mistök var Gummi alltaf inni í skákinni en ljóst var þó að aðeins svartur var að tefla til vinnings.

EM 2017_Gummi_Berkes_2

Berkes reyndi að pressa í endatafli og í þessari stöðu ákvað Berkes að gefa mann með ...Hxh4+.  Í kjölfarið náði hann öllum peðum hvíts en Gummi náði með góðum útreikningum að skipta upp á hrókum og stoppa peðaframrásir svarts og tryggja jafnteflið.

 

Niðurstaðan varð því 3-1 sigur Ungverjum í vil og þó það sé stórt tap þá stefni á tímabili í mun stærra tap en okkar menn sýndu góðan karakter og baráttuvilja á síðustu tveim borðunum og tryggðu að við komumst á blað. Vonandi gefur þetta okkar mönnum byr í seglin.

P1040968

Guðmundur á 4. borði og Hannes á 3.borði hér ásamt liðsstjóra. Þeir björguðu því sem bjargað varð í erfiðri viðureign gegn Ungverjum.

Í 2. umferð sem fer fram á morgun mætum við sveit Albana sem er neðarlega í styrkleikaröðuninni og við ættum að geta sett kröfu um sigur. Ekki halda þó að sigurinn verði auðveldur þar sem margir skákmenn hjá Albönum eru e.t.v. sterkari en stigin gefa til kynna þar sem þeir fá ekki mikið af möguleikum til að tefla á alþjóðlegum mótum.

Albanir hafa einungis fjóra menn á mótinu og því verður undirbúningur okkar manna jafn "auðveldur" og andstæðinga okkar þar sem ekki er hægt að skipta neinum mönnum inná.

 

Kveðjur til Íslands,

Ingvar Þór Jóhannesson

Liðsstjóri

 

p.s.

 

Að neðan er fyrsti hluti í SnapChat story liðsstjóra. Ég reyni að senda einhver snöpp á hverjum degi eins og hægt er. Addið mér eftir notendanafinu: Ingvar77 og ég samþykki um leið og ég kemst í síma!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 71
  • Sl. sólarhring: 75
  • Sl. viku: 237
  • Frá upphafi: 8764680

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 146
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband