Leita í fréttum mbl.is

EM Landsliða - Pistill liðsstjóra (1. umferð)

P1040987EM Landsliða hófst í dag á eyjunni Krít á Grikklandi. Við fengum hið verðuga verkefni að eiga við gríðarlega sterkt lið Ungverja sem eru sjöundu í stigaröðinni. Mótið er sterkt en engu að síður vantar hér nokkrar "kannónur" eins og Carlsen, MVL, Karjakin, Kramnik ásamt nokkrum öðrum. Sterkasti skákmaðurinn hér er Aronian sem við mættum einmitt í göngutúr okkar í kvöld þegar Gummi heilsaði vini sínum Hrant Melkumyan.

En að viðureign dagsins. Uppröðun Ungverja kom okkur mjög á óvart en liðin tilkynntu uppröðun liða sinna á liðsstjórafundi í gær. Leko var efstur á lista hjá þeim en að Viktor Erdös með 2624 elóstig skildi vera á öðru borði var sannarlega óvænt. Leko hvíldi gegn okkur þannig að Erdös var á fyrsta borði.

EM2017_1st_Pairings.

Segja má að snemma viðureignar hafi styrkleikamunur strax farið að segja til sín. Ungverjar voru að meðaltali vel yfir 100 elóstigum hærri á hverju borði. Frekar snemma tafls fannst mér ljóst að skákirnar þar sem við höfðum hvítt voru í besta falli í jafnvægi fyrir okkar menn en skákirnar þar sem við höfðum svart vorum við strax komnir í mun meira krefjandi vörn og með verra tafl.

1. borð Viktor Erdos - Héðinn

Fyrsta skákin til að klárast var á fyrsta borði þar sem áðurnefndur Erdos tefldi mjög vel. Erdos kom Héðni nokkuð á óvart í byrjanavali en Héðinn átti ekki von á að hann myndi beita þessu afbrigði. Í ljós kom þó eftir skákina að Erdos hafði eytt deginum í að undirbúa þetta afbrigði ansi langt. Hann hafði teflt þetta fyrr á árinu gegn Karjakin en fékk lítið sem ekkert þar og því mættur til leiks með endurbætur!

EM 2017_Erdos_Hedinn_1

Hér drap Erdos á f6 og skildist mér að það hefði verið undirbúið. Skv. skyndikönnun á tölvuforritum ætti svartur að drepa með biskup en Héðinn drap með peði. Héðinn fékk biskupaparið en hvítur frumkvæði. Ljóst var að hvítur þyrfti að tefla af fítonskrafti til að nýta frumkvæðið og Erdos gerði það.

EM 2017_Erdos_Hedinn_2

Hér fórnaði Erdos skiptamun með Hxd5 og í kjölfarið kemur drottningin inn á f5. Á daginn kom að erfitt var að verja kóngsstöðuna og hvítu reitina og Erdos vann í aðeins 24. leikjum sem er mjög óvenjulegt hjá Héðni og sýnir hversu vel undirbúinn og sterkur skákmaður Erdos er!

 

2. borð Hjörvar - Richard Rapport

Þótt Peter Leko sé að öllum líkindum sögulega sterkasti skákmaður Ungverja þá er það mitt mat að Richard Rapport sé í dag þeirra sterkasti maður. Fyrr á árinu fór Rapport yfir 2750 elóstig sem sýnir ógnarstyrkleika hans. Hans galli er hinsvegar að hann teflir mjög "glannalega" og tapar kannski óþarfa skákum hér og þar á milli þess sem hann vinnur glæsilega. Skiljanlega gerir þetta Rapport að gríðarlega vinsælum skákmanni.

Hjörvar stóð frammi fyrir óöfundusverðu hlutverki þegar hann þurfti að reyna að giska á hvaða byrjanir hann þyrfti að undirbúa sig fyrir. Óhætt er að segja að Rapport hafi teflt "allt undir sólinni" og því nánast ómögulegt að giska á hvað væri að fara að koma upp. Það sem kom upp (drottningarindverji) var kannski það sem Hjörvar átti síst von á þar sem Rapport hefur aðeins verið að beita þeirri byrjun gegn 2700+ skákmönnum.

Hjörvar hafði því ekki miklar áhyggjur af þeim varíanti og kannski minnstur tími sem fór í undirbúning þar. Upp kom nokkuð jöfn staða snemma. Miðtaflið virtist í miklu dýnamísku jafnvægi

EM 2017_Hjorvar_Rapport_1

Hér væri líklega auðveldara að velja svörtu stöðuna en að sama skapi ef Hjörvar hefði valið hér a3 í stað Re1 gæti orðið erfitt fyrir svartan að virkja menn sína á drottningarvængnum. Þess í stað átti svartur ...a3 sjálfur og náði að virkja þungu mennina sína nokkuð fljótt.

EM 2017_Hjorvar_Rapport_2

Upp kom endatafl sem var augljóslega aðeins verra á Hjörvar en ég skildi ekki alveg af hverju Hjörvar drap ekki einfaldlega á f7 hér. Samt virðist Rf4 vera fínn leikur en fyrir okkar á lægri levelunum er einfaldara að telja bara peðin og þar sem ég sá engan rakin vinning hefði ég persónulega drepið á f7 sjálfur. Í kjölfarið átti Rapport tvö peð á móti einu og líklegast ennþá töluvert tæknilegt verkefni eftir en þá lenti Hjörvar í leppun sem þýddi tap á nóinu. 

Rapport sýndi styrk sinn í þessari skák með því að setja aftur og aftur lítil vandamál fyrir Hjörvar sem hann þurfti að eyða tíma í að leysa og þar af leiðandi lenti Hjörvar í tímahraki sem kostaði hann á endanum skákina.

 

3.borð Zoltan Almasi - Hannes Hlífar

 

Héðinn bjóst við að Almasi myndi tefla eins og hann gerði þ.e. með svona 1.Rf3 "poti". Almasi er gríðarlega sterkur stöðulegur skákmaður og er þesssi misserin "réttu megin" við 2700 stiga múrinn.

EM 2017_Almasi_Hannes_1

Ég taldi að Almasi væri með töluvert þægilegra tafl hér og í raun aðeins hvítur sem getur teflt til vinnings. Riddarinn á d5 er algjört skrímsli, biskup svarts bítur í raun í tómt og hvítur á einfalt plan að henda í minnihlutaárás á drottningarvæng með því að setja hrókana á b-línuna og ýta a-peðinu áfram. Að því sögðu þá þarf hvítur samt að vanda sig í úrvinnslunni

EM 2017_Almasi_Hannes_2

Eftir tímamörkin tapaði Hannes peði og hér er hann í erfiðri stöðu. Hann getur valið að þjást peði undir eða að gefa skiptamun. Hann valdi mun praktískari leiðina hér og fórnaði skiptamun sem gaf honum peðið á f2. Hvítur hlýtur eiginlega fræðilega að hafa unnið tafl en úrvinnslan er gríðarlega erfið þar sem kóngur hvíts er veikur og þráskák alltaf yfirvofandi.

EM 2017_Almasi_Hannes_3

Almasi klikkaði á úrvinnslunni og þegar hér var komið við sögu munaði örlitlu að hann klúðraði skákinni með því að falla á tíma. Hann hugsaði og hugsaði og rétt náði að leika hér Hc7 með EINA sekúndu á klukkunni en ég er alveg viss um að það var nær því að vera hálf sekúnda. 

Hc7 gaf reyndar Hannesi færi á því að leika hér ...c2 og hvítur á enga leið til að bæta taflið. Almasi drap á g7 og þar sem hvítur á gangandi þráskák var jafntefli samið. Viðbrögð Almasi voru nokkuð plebbaleg en hann var rosalega svekktur, grýtti skorblaðinu yfir á Hannes og kvittaði með miklum hroka á sín skorblöð þar sem þau lágu hjá Hannesi. Einstaklega asnaleg og leiðinleg viðbrögð, sérstaklega í ljósi þess að úrslit skákarinnar skiptu engu máli fyrir úrslit viðureignar Íslands og Ungverjalands!

 

4. borð Guðmundur - Ferenc Berkes

Gummi fann klárlega fyrir flugþreytu í byrjuninni þegar hann eiginlega lék stöðulega af sér og þurfti að gefa biskupaparið.

EM 2017_Gummi_Berkes_1

Gummi viðurkenndi hér að hafa einfaldlega misst af þessari leið hjá svörtum. ...Re5 þýðir að hvítur þarf að gefa biskupaparið. Þótt að hvítur nái í kjölfarið að einfalda taflið þá er það aðeins svartur sem getur teflt upp á vinninginn með biskupaparið.

Þrátt fyrir þessi mistök var Gummi alltaf inni í skákinni en ljóst var þó að aðeins svartur var að tefla til vinnings.

EM 2017_Gummi_Berkes_2

Berkes reyndi að pressa í endatafli og í þessari stöðu ákvað Berkes að gefa mann með ...Hxh4+.  Í kjölfarið náði hann öllum peðum hvíts en Gummi náði með góðum útreikningum að skipta upp á hrókum og stoppa peðaframrásir svarts og tryggja jafnteflið.

 

Niðurstaðan varð því 3-1 sigur Ungverjum í vil og þó það sé stórt tap þá stefni á tímabili í mun stærra tap en okkar menn sýndu góðan karakter og baráttuvilja á síðustu tveim borðunum og tryggðu að við komumst á blað. Vonandi gefur þetta okkar mönnum byr í seglin.

P1040968

Guðmundur á 4. borði og Hannes á 3.borði hér ásamt liðsstjóra. Þeir björguðu því sem bjargað varð í erfiðri viðureign gegn Ungverjum.

Í 2. umferð sem fer fram á morgun mætum við sveit Albana sem er neðarlega í styrkleikaröðuninni og við ættum að geta sett kröfu um sigur. Ekki halda þó að sigurinn verði auðveldur þar sem margir skákmenn hjá Albönum eru e.t.v. sterkari en stigin gefa til kynna þar sem þeir fá ekki mikið af möguleikum til að tefla á alþjóðlegum mótum.

Albanir hafa einungis fjóra menn á mótinu og því verður undirbúningur okkar manna jafn "auðveldur" og andstæðinga okkar þar sem ekki er hægt að skipta neinum mönnum inná.

 

Kveðjur til Íslands,

Ingvar Þór Jóhannesson

Liðsstjóri

 

p.s.

 

Að neðan er fyrsti hluti í SnapChat story liðsstjóra. Ég reyni að senda einhver snöpp á hverjum degi eins og hægt er. Addið mér eftir notendanafinu: Ingvar77 og ég samþykki um leið og ég kemst í síma!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 21
  • Sl. sólarhring: 46
  • Sl. viku: 249
  • Frá upphafi: 8764938

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 168
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband