Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

EM landsliða: Liðsstjórapistill nr. 10

Heine og HannesÞað var súrt tapið gegn Dönum í dag en viðureignin tapaðist með minnsta mun 1,5-2,5 eftir að hafa litið harla vel út um tíma.  Á morgun mætum við enn einni norðurlandaþjóðinni Finnum og höfum þá mætt þeim öllum nema Svíum.  Jafnframt er þetta í fyrsta skipti sem við teflum niður fyrir okkur allt mótið.

Fyrst að viðureign dagsins.

Henrik og Lars gerðu stutt jafntefli.  Greinilegt að þeim danska (þ.e. Lars!) langaði ekki of mikið að vinna skákina og skipti upp á öllu með hvítu og stutt jafntefli samið.

Á fyrsti borði virtist Hannes hafa a.m.k. jafnað taflið en hann lék illa af sér og tapaði skákinni.Sune, Lars og Henrik

Á öðru borði fékk Héðinn heldur vænlegra tafl og síðar lék Sune af sér og fékk Héðinn unnið tafl.  Héðinn gerði svo mistök þegar drap peð á b7 og Sune náði að knýja fram jafntefli.   Héðinn hefur annars teflt glimrandi vel á mótinu þrátt fyrir þetta slys. 

Á fjórða borði hafði Þröstur hvítt og virtist um tíma hafa vænlegt tafl.  Í lokastöðunni er hins ljóst að þar er ekkert fyrir hann að hafa og var því jafntefli samið.  Ljóst er að svartur getur einfaldlega sett hrók á c7 og riddara og f6 og allt í lás og engin leið fyrir hvítan að kreista fram vinning.  Þröstur mat stöðuna þannig að það væri einfaldlega enginn möguleiki á sigri og treysti ég því mati enda fáfundnari meiri baráttuhundar en einmitt Þröstur eins og íslensku skákheimur veit.

ÞrösturLoks kom að því Rússarnir ynnu ekki.  Kenning mín um fjögur jafntefli var reyndar kolröng því hart var barist í viðureign þeirra og Spánverja þótt hún endaði með skiptum hlut.  Rússarnir hafa engu að síður tryggt sér sigur á mótinu, hafa 15 stig.  Ísraelar og Armenar koma næstir með 12 stig. 

Hlutirnir í „norðurlandamótinu" eru fljótir að breytast því með tapinu hrukku Íslendingar niður í fjórða sæti og eru í 25. sæti með 7 stig og 16,5 vinning.  Danir eru efstir, Norðmenn aðrir eftir 2-2 jafntefli gegn Svartfellingum og Svíar gerðu gott jafntefli gegn Hollendingum þar sem TG-ingurinn Cicak batt enda á sigurgöngu Ivans.  Vonandi að náum að rétta okkar hlut okkar eitthvað á morgun með góðum úrslitum gegn Finnum. 

 

 

Staða norðurlandanna er sem hér segir:

Þjóð

Sæti

Stigaröð

Stig

Vinn

Danmörk

16.

20.

8

16,5

Noregur

21.

27.

8

17

Svíþjóð

23.

21.

7

15,5

Ísland

25.

31.

7

16,5

Finnland

28.

34.

7

15

Þrátt fyrir hól úr óvæntri átt á horninu í gær hef ég lítið af spennandi „insight information" núna.  Hannes hvílir eins og áður hefur komið fram.  Westerinen hvílir hjá Finnunum en honum hafa verið mislagðar hendur á mótinu.  

Skákin byrjar kl. 9 og sjálfsagt mun ég láta reglulega í mér heyra með SMS-sendingum til Björns.  Ég treysti áfram á góðu strauma að heima eins og hingað til.  Ég veit ekki hvenær ég næ að birta lokapistilinn.  Á morgun er langt ferðalag til Íslands með þremur flugum fyrst til Aþenu, kl. 7 í fyrramálið, svo London og að lokum Reykjavíkur. 

Nóg í bili, meira............seinna!

Krítarkveðja,
Gunnar

 


EM taflfélaga: Liðsstjórapistill nr. 9

Hannes og AlmasiNiðurstaðan í gær var naumt tap fyrir Ungverjum sem var heldur svekkjandi.  Engu að síður ekki slæm úrslit þannig séð þegar horft er á stigamun sveitanna.  Hannes, Héðinn og Henrik gerðu jafntefli en Stefán tapaði.  Í dag mætum við Dönum og þá hvílir Stefán en Þröstur kemur inn en Þröstur hefur oft komur sterkur inn í lokaumferðunum.  Danirnir komu okkur á óvart með því að hvíla Lars Bo Hansen en fyrirfram átti ég von á því að einhver hinna þriggja neðstu myndu hvíla.  Sem fyrr teflum við upp fyrir okkur, áttundu umferðina í röð og erum stigalægri á öllum borðum. 

 

Viðureign dagsins er því:

20

DENMARK (DEN)

Rtg

31

ICELAND (ISL)

Rtg

GM

Nielsen Peter Heine

2626

GM

Stefansson Hannes

2574

GM

Hansen Sune Berg

2564

IM

Steingrimsson Hedinn

2533

GM

Schandorff Lars

2520

GM

Danielsen Henrik

2491

IM

Rasmussen Karsten

2495

GM

Thorhallsson Throstur

2448

Varðandi umferðina í gær hef ég í raun og veru litlu við bæta þær skýringar sem þegar hafa verið birtar á Horninu.

Hannes hafði hvítt og fékk e.t.v. örlítið frumkvæði.  Staðan var þó flókin og en leystist upp í jafntefli. Héðinn og Hannes

Héðinn tefldi flókið og leist mér ekkert á stöðuna.  Héðinn var seigur að vanda og varðist vel.  Eins og fram kemur á Horninu átti andstæðingur hans algjöra sleggju, 28. He4!! sem hvorugur sá og ekki einu sinni við stúderingar eftir á enda leikur sem gífurlega erfitt er að finna yfir borðinu.  Héðinn er nú með fimmta besta skor allra á öðru borði.

Henrik náði ágætis stöðu á þriðja borði en aldrei neinu áþreifanlegu.  Þessum þremur skákum lauk nánast samtímis.

Á fjórða borði átti Stefán í vök að berjast og í miklu tímahraki.  Honum tókst ekki að verjast og tap því með minnsta mun staðreynd.

Rússarnir horfa allir í sömu áttinaRússarnir héldu áfram sigurgöngu sinni, hafa fullt hús stiga, 14 samtals, og unnu Frakka 2,5-1,5 og eru svo gott sem búnir að tryggja sér sigur á mótinu.  Aðrir eru Armenar með 11 stig og í næstu sætum eru Slóvenar, Ísraelar og Aserar.  Rússar mæta Spánverjum í dag og kæmi mér ekki á óvart þótt búið væri að semja á öllum borðum eftir u.þ.b. hálftíma, þ.e. Rússarnir geri jafntefli í öllum skákum sem eftir eru.  Þeir hvíla Svidler sem hefur farið stórum með 5 af 6 en Moro hefur þó staðið sig enn betur hefur 6 af 7.. 

Ísland er nú efst norðurlandanna, er í 19. sæti með 7 stig og 15 vinninga.  Öll hin löndin nema Finnland hafa einnig 7 stig og það er mikil spennan hlaupin í „norðurlandamótið".  Finnarnir koma skammt undan með 6 stig. Magnús og Ketill

Í gær unnu Danirnir Króatana og eru þeir króatísku víst ekkert afskaplega ánægðir með norðurlandaþjóðirnar núna eftir 2 töp í röð!  Norðmenn tóku 1 vinning á Ísrael þar sem Magnús gerði jafntefli við Sutovsky.  Þröstur og Henrik voru algjörlega gáttaðir að því að hann skyldi geta haldið jafntefli þar sem hann hafi haft koltapað endatafl.  „Næst gæti hann labbað á vatni!" sagði Henrik.  Það er greinilega mikið spunnið í þennan dreng.  Svíarnir gerðu 2-2 jafntefli við Litháa og Finnarnir unnu Skotana 3-1.  

 

 

Staða norðurlandanna er sem hér segir:

Þjóð

Sæti

Stigaröð

Stig

Vinn

Ísland

19.

31.

7

15

Noregur

20.

27.

7

15

Danmörk

22.

20.

7

14

Svíþjóð

24.

21.

7

13,5

Finnland

28.

34.

6

13

Þegar við skoðuðum stöðuna í gær var okkur ljóst að fengjum sennilega Dani eða Litháa eða jafnvel Svía þótt það síðarnefnda væri ólíklegast.

Ég spurði Henrik hreint út hvort honum þótt það óþægilegt að tefla við fyrrum landa sína en Henrik sagði svo alls ekki vera og sagði svo gullkorn dagsins:  „Let´s beat those f...... Danish!"  Niðurstaðan var því sú að Stefán hvíldi. 

Skömmu síðar komu Sune og Karsten til okkar.  Sune byrjaði strax að fiska í gruggugu vatni.  „Henrik cannot play, he is Danish"  Svo horfði hann á okkur til skiptist að reynda fiska svipinn á okkur en mætti bara glottandi andlitum. 

Er ég talaði við Henrik síðar um kvöldið og sagði honum að ég teldi að hann myndi sennilega tefla við Sune var hann alls ekki viss.  Málið er að Henrik hefur gengið afskaplega með Sune í gegnum tíðina sem e.t.v. skýrir þann leik Dananna að hvíla Lars þannig að Sune færist upp.

Og ekki má sleppa því að segja frá Ivan vini mínu.  Hann er hér alltaf með nokkur gullkorn.  Í fyrradag kom hann til mín mjög alvarlegur á svip og sagði „Throstur have to play tomorrow, he can´t be here in vacation"  Og aftur í gær fékk í sömu ræðuna og loks fær Ivan ósk ósk sína uppfyllta.  Eina umferðina var hann algjörlega hneykslaður á andstæðingi sínu, sagði hann lélegan, tefldi bara upp á trikk og það meira að segja léleg, og einnig hneykslaður á því hversu lengi hann tefldi með koltapað.  „I am totally disgusted how longed he playd".  Hann kom seint en hefur farið á kostum á skákborðinu og unnið allar þrjár sínar skákir og teflir við Svíann Cicak í dag. 

Topalov virðist vera farinn og virðist aðeins hafa teflt fjórar fyrstu skákirnar. 

Rétt er að vekja athygli á góðri frammistöðu Pólverja sem eru skyndilega komnir í hóp efstu liða með 9 stig eftir að hafa tapað fyrir Íslandi og Svartfjallalandi í tveimur fyrstu umferðunum og mæta Úkraínumönnum í dag.  

Ivanchuk í MamadarjovFramkoma Ivanchuk hefur og vakið athygli hér.  Í gær var hann tefla við Mamedyarov.  Er ég leit á skákina var hann að venju samkvæmt að horfa eitthvað út í loftið.  Svo lék sá aserski og Ivanchuk svaraði um hæl eins og væri í tímahraki.  Er ég kíkti á klukkuna stóð þar 1:43 svo það virtist stemma en ég skoðaði hana betur átti hann eftir eina klukkustund og 43 mínútur eftir rúmlega 40 leiki!  Kann ekki góðri lukku að stýra enda tapaði hann.  Á kvöldin gengur hann um og skoðar stöðurnar á þeim borðum þar sem það er verið stúdera og leitar af athyglisverðum stöðum.  Nýlega t.d. settist hann niður hjá Finnunum þegar hann staðan var greinilega verið þess virði að kíkja betur á og stúderaði með þeim góða stund.  Kannski réttara að segja að Finnarnir hafi horft á hann fara með heilu leikjaraðirnar!

Ég geri ráð fyrir fjörlegum skýringum á horninu í dag og hvet menn til að fylgjast með en umferðin hefst kl. 13:30 að íslenskum tíma. 

Lokaumferðin, sem fram fer á morgun, hefst hins vegar kl. 9 að íslenskum tíma og á liðsskipan allra liða að vera tilbúinn kl. 22:30 í kvöld.

Að veðrinu hér er það að frétti að hér rigndi áðan!  Annars er hlýtt að vanda og enn hef ég ekki haft not fyrir síðerma bol.

Nóg í bili, meira á morgun.

Krítarkveðja,
Gunnar


EM taflfélaga: Liðsstjórapistill nr. 8

Héðinn og HannesÞað voru flott úrslit í gær þegar sterk sveit Króatíu var lögð að velli 3-1.  Enn á ný eru það Héðinn og Henrik sem fara fram með góðu fordæmi og unnu sínar skákir.  Stefán var einnig grátlega nærri því að vinna sína skák.  Okkur hefur því gengið vel með fyrrum lýðveldi Júgóslavíu á mótinu.  Í dag mætum við Ungverjum sem hafa oft reynst okkur erfiðir og er skemmst að minnast 4-0 taps gegn þeim á síðasta ólympíuskákmótinu.  Í dag verður loks viðureign Íslands í beinni. 

Þröstur hvílir í dag enda allir hinir að standa sig afar vel. 

 

Viðureign dagsins er því:

Bo.

31

ICELAND (ISL)

Rtg

-

12

HUNGARY (HUN)

Rtg

0 : 0

8.1

GM

Stefansson Hannes

2574

-

GM

Almasi Zoltan

2691

    

8.2

IM

Steingrimsson Hedinn

2533

-

GM

Gyimesi Zoltan

2610

    

8.3

GM

Danielsen Henrik

2491

-

GM

Balogh Csaba

2561

    

8.4

IM

Kristjansson Stefan

2458

-

GM

Ruck Robert

2561

    

Ljóst er að töluvert hallar á okkar menn en Ungverjarnir er mun stigahærri á hverju borði.  Minnstur er munurinn á Henrik og Balough eða „aðeins" 70 stig.

Í gær var Hannes fyrstur að klára.  Hann hafði svart og náði að jafna taflið.  Á krítísku augnabliki bauð hann jafntefli sem andstæðingur hans tók eftir töluverða umhugsun en það hefði verið áhætta fyrir hann að reyna að vinna stöðuna.  

Henrik var næstfyrstur að klára.  Hann kom andstæðingi sínum þegar á óvart í fyrsta leik er er hann svaraði 1. e4 með 1. - e5 en slíkt er nánast óþekkt hjá Henrik.  Henrik hafði séð í gagnagrunnum að andstæðingi sínum hafi gengið illa með Berlínarvörnina.  Þegar Henrik lék svo 3. -Rf6 sagðist hann hafa skynjað vonbrigðin hjá andstæðingi sínum.  Henrik ýtti svo peðunum upp á kóngsvæng og hreinlega rúllaði yfir hann.  Glæsileg skák.  Þriðji sigur hans í röð!

Skákin hjá Stefáni var sú mest spennandi.  Stefán fékk opna og skemmtilega stöðu, fórnaði hrók og flest virtist stefna í mátsókn en báðir voru komnir í bullandi tímahrak.  Andstæðingur hans nánast þræddi einstigi og náði að halda taflinu en Stefán átti þó vinning um tíma sem sást með hjálp Fritz.  Á einu augnabliki lék þó Stefán af sér en andstæðingur náði ekki að notfæra sér stað.  Í lokastöðunni má Stefán jafnvel halda áfram taflinu þótt hann væri manni undir og en hann tók þá ákvörðun að semja enda nokkuð ljóst að Héðinn myndi ekki tapa og því sigur í viðureigninni í húsi og ekki skynsamlegt að taka of mikla áhættu.

Héðinn var síðastur að klára eins og venjulega!  Hann fékk biskupaparið gegn riddarapari andstæðings og saumaði smá saman að honum og vann góðan sigur.  Mjög góð skák hjá Héðni og hans annar sigur í röð.  

Rússarnir eru sem fyrr efstir eftir sigur á Ísrael 3-1.  Það lið skipa reyndar að mestu einnig Rússar.   Rússarnir hafa fullt hús en aðrir mjög óvænt eru Slóvenar með 10 stig en þeir eru aðeins 19. stigahæsta sveitin.  Úkraínar, Frakkar og Armenar hafa 9 stig. 

Ísland er í 15. sæti með 7 stig og 13,5 vinning sem verður að teljast afar gott í ljósi þess að liðið hefur ávallt teflt upp fyrir sig.  Norðmenn eru sem fyrr efstir norðurlandaþjóðanna en þeir hafa hálfum vinningi meira en við.  Seigt lið sem nær greinilega mjög vel saman og náði 2-2 jafntefli við Holland í gær þar sem Magnus og Espen unnu.  Jon Hammer féll af tíma í erfiðri stöðu.  Magnus er búinn að standa sig frábærlega og hefur 5 vinninga á fyrsta borði.  Norðmenn fá erfiða andstæðinga í dag en þeir mæta Ísraelunum. 

Svíar gerðu 2-2 gegn Goggunum (Georgíu) þar sem Pontus Carlsson vann á fjórða borði.Eftir góða byrjun hefur heldur betur fjarað undir Dönunum sem töpuðu fyrir Svisslendingum 1,5-2,5.  Finnarnir gerðu 2-2 jafntefli við Ítali.

Staða norðurlandanna er sem hér segir:

Þjóð

Sæti

Stigaröð

Stig

Vinn

Noregur

13.

27.

7

14

Ísland

15.

31.

7

13,5

Svíþjóð

25.

21.

6

11,5

Danmörk

26.

20.

5

11,5

Finnland

32.

34.

4

10

Og enn að Ivan Sokoov .  Hann er hérna á kostum.  Fyrir viðureignina í gær hafði hann ætlað að veðja á Króatíu í einhverri króatískri lengju en hafði svo frétt að Kozul myndi hvíla og hætti því að veðja.  Er hann sagði mér og Þresti frá sagði ég honum að ætti þá að betta á Ísland.  Honum fannst það nú ekki merkilegt og taldi mögulega okkar greinilega ekki mikla.  Ég hitti hann svo í gær og sagði: „You should have bet on Iceland like I told you" en Ivan hafði reyndar lítinn húmor fyrir því.

Lítið verður um SMS í dag til Björns nema að ég þurfi að koma einhverju á framfæri sem ekki sést í beinni.  Hvet menn til að fylgjast með í beinni og með horninu þar sem skákirnar verða væntanlega skýrðar beint af vitringunum sem þar eru. 

Af öðru héðan er að frétta að hér er ljómandi veður!  Kalt á Íslandi?  Wink

Nóg í bili, meira á morgun.

Krítarkveðja,
Gunnar

 


EM landsliða: Liðsstjórapistill nr. 7

Henrik svaraði e4 með e5!Pistill dagsins verður eðli málsins samkvæmt stuttur enda búið að gera upp taflmennsku gærdagsins.  Í dag mætum við liði Króatíu eins og áður hefur komið.  Liðsuppstilling þeirra kemur e.t.v. einhverjum á óvart en þeir hvíla fyrsta borðs manninn Koluc sem hefur tapað tveimur í röð. Hjá okkur kemur Stefán aftur inn fyrir Þröst sem hvílir

 

 

 

Viðureignin er því:

Bo.

18

CROATIA (CRO)

Rtg

-

31

ICELAND (ISL)

Rtg

0 : 0

11.1

GM

Palac Mladen

2567

-

GM

Stefansson Hannes

2574

    

11.2

GM

Zelcic Robert

2578

-

IM

Steingrimsson Hedinn

2533

    

11.3

GM

Brkic Ante

2577

-

GM

Danielsen Henrik

2491

    

11.4

GM

Jankovic Alojzije

2548

-

IM

Kristjansson Stefan

2458

    

Heldur  hallar á okkar menn en á góðum degi getum við gert þeim skráveifu auk þess okkar menn hafa teflt vel á mótinu og halda því vonandi áfram.

Ég og Þröstur kíktum á sitjum nú í lobbýinu og horfum á Arsenal og ManU.  Héðinn og Hannes

Þegar ég labbaði úr skáksalnum voru u.þ.b. 10 mínútur búnar.  Andstæðingar Hannesar var ekki mættur, Héðinn fékk á sig Nimzo-indverska vörn, Henrik svaraði e4 með e5 sem er ekki algengt á þeim bænum og beitti Berlínarvörn og Stefán lék 2. c3 gegn Sikileyjarvörn.  

Í gær var lítið gert enda menn dálítið þreyttir og hvíldinni fegnir.  Sjálfur fór ég snemma upp í rúm og hafði allar rifur lokaður til að losna við þennan moskítóófögnuð og vaknaði því illa morkinn í morgun í þungu lofti en vel úthvíldur.  Vaknaði í morgun um kl. 6 við að einhver væri að banka en þegar að gáð var enginn frammi.  Hvort þetta var misheyrn eða draumur veit ég ekki.  Kannski moskítóflugurnar að að hefna sín fyrir blóðleysið. J

Á viðureigninni á móti Sviss um daginn gekk hefðbundinn rúnt um skákirnar og mér til mikillar undrunar litu stöðurnar allt í einu allt öðru vísi út.  Það var ekki fyrr en ég fattaði að ég var skoða skákirnar hjá Finnunum, sem ég tefldu á næsta borði, en ekki Íslendingum að ég fattaði af hverju.  

Í gær hitti ég Ivan og spurði hann við hvern hann ætti að tefla.  Hann á að tefla við Kjetil A. Lie og svaraði aðspurður hvort ekki að vinna:  „Of course" eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Einnig spjallaði ég dálítið við Lúxemborgarann, sem teflir fyrir þá fyrsta borði, Fred Berend við sundlaugina í dag.  Hann er endurskoðandi og vinnur hjá PriceWaterhouse.  Hans skrifstofa endurskoðar Landsbankans og í næsta húsi við hans skrifstofu er Glitnir.  Einnig þekkir hann Fons vel.  Hann sagði mér einnig að hann teldi að Kaupþing Open færi fram í Lúxemborg í júní nk. 

Fullt af myndum má finna undir myndaalbúm m.a. frá umferðinni í dag. 

Hvet skákáhugamenn að fylgja með Horninu.  Ég mun sem fyrr senda reglulega fréttir í gegnum SMS til Björns Þorfinnssar. 

Nóg í bili, meira á morgun.

Krítarkveðja,
Gunnar


EM landsliða: Liðsstjórapistill nr. 6

 

Liðið að fagna góðum sigri

 

Við vorum glaðbeittir Íslendingarnir eftir stórsigur á Svartfellingum í gær.  Svartfellingar byrjuðu glimrandi vel á sínu fyrsta skákmóti sem sérstök þjóð en var kippt af harkalega niður af íslenskum víkingum.  Í dag er frídagur en á morgun mætum við Króötum sem er 18. stigahæsta þjóðin svo enn teflum við upp fyrir okkur.

Þröstur gerði stutt jafntefli á fjórða borði svo hann Ivan vinur okkar hafði rétt fyrir.  Í öllum hinum skákunum var áberandi hversu miklu betri tíma okkar menn höfðu.  Vantaði greinilega Stefán í liðið sem er alltaf í tímahraki.  Strax miklu afslappaðra að vera liðsstjóri þegar hann hvílir!

Hannes sem hafði svart fékk verra tafl en trikkaði andstæðinginn í tímahraki hans eftir að hafa þurft að feta einstigi til að tapa ekki.  Hannes hefur unnið báðar skákirnar með svart en tapað báðum með hvítum.  Við erum því í góðum málum á morgun enda Hannes með svart!

Henrik kom með nýjung í byrjuninni en tefld var slavnesk vörn.  Andstæðingur hans lagði of mikið á stöðina og Henrik vann góða sigur.

Héðinn var síðastur að klára.  Hann fékk fljótlega betra og ýtti svo andstæðing sínum smásaman af borðinu sem tefldi nánast.fram í mát

Í gær fór svo liðið út að borða saman og er þessi mynd af tekin af þeirri skemmtun.  Menn undu glaðir við sitt og máttu líka vera það eftir góðan sigur.  Um kvöldið var svo farið á diskótek og eitthvað tjúttað fram eftir kvöldi.

Í dag eru menn svo að hvíla sig og safna kröftum.  Sjálfur er ég velta því fyrir mér að taka þátt í atskákmóti sem fram fer á morgun og hinn en á reyndar síður von á því að láti til leiðast.  Er bara svo spennandi að horfa á skákirnar.

Á morgun er það svo Króatía.  Í þriðja skipti teflum við á 11. borði en aðeins viðureignirnar á 10 fyrstu borðunum eru sýndar beint. Býsna sterk sveit.  Skákmennirnir eru á litlu stigabili en aðeins munar 61 stigi á þeim stigahæsta og stigalægsta.

Bo.

 

Name

Rtg

FED

1

2

3

4

5

Pts.

Rp

rtg+/-

1

GM

Kozul Zdenko

2609

CRO

1

0

1

0

0

2,0

2539

-4,5

2

GM

Palac Mladen

2567

CRO

1

½

½

0

1

3,0

2623

4,6

3

GM

Zelcic Robert

2578

CRO

1

0

½

0

 

1,5

2423

-7,4

4

GM

Brkic Ante

2577

CRO

1

0

 

 

½

1,5

2432

-4,6

5

GM

Jankovic Alojzije

2548

CRO

 

 

1

½

½

2,0

2660

4,5

Við erum þegar búnir að ákveða liðið þótt ég ætli ekki að gefa það upp fyrr en í fyrramálið.  Erfitt er með spá í það hver hvíli á Króötunum en ég spái að það verði annaðhvort fyrstaborðsmaðurinn Kozul, sem hefur tapað tveimur skákum í röð eða fjórða borðsmaðurinn Brikc.  Zelcic kemur væntanlega inn eftir kælingu en það er svo sem ekki víst enda hafa Króatarnir haft það verklag að hvíla menn 2 skákir í röð hingað til.

Rússar unnu Asera og eru nú efstir með fullt hús stiga.  Slóvenar, Ísraelar og Aserar koma næstir með 8 stig.   Sigur Bacrot á Ivanchuk vakti athygli en sá síðarnefndi rúllað fyrir Úkraínumanninn með svörtu sem var enn áttavilltri á svipinn en vanalega eftir skákina.  .

Dönum var kippt harkalega á jörðina í gær þegar liðið steinlá 0,5-3,5 fyrir Ungverjum, Norðmenn unnu góðan 3-1 sigur á Eistum, Svíar töpuðu fyrir Slóvenum og Finnar töpuðu fyrir Þjóðverjum.  Við erum nú næst efstir norðurlandanna.   Norðmenn eru hæstir en þar hafa bæði Magnús og Jón Lúðvík 4 vinninga í 5 skákum.  

Staða Norðurlandanna:

Þjóð

Sæti

Stigaröð

Stig

Vinn

Noregur

14.

27.

6

12

Ísland

19.

31.

5

10,5

Danmörk

23.

20.

5

10

Svíþjóð

25.

21.

5

9,5

Finnland

31.

34.

3

8

Ég og Þröstur komum okkur makindalega fyrir fram sundlaugina í dag og létum þreytuna renna af okkur.  Loks kom sól og gekk minn inn í búðina og keypti sólaráburð.  Skömmu síðar dró ský fyrir sólu þannig að flest stefnir nú í snjóhvítan Gunnar Björnsson.  

Sjálfur hef ég verið nokkuð stunginn af moskító.  Hannes hefur verið líka bitinn en aðrir hafa sloppið að ég best veit.  Ákvörðun hefur nú verið tekin um algjört loftleysi á nóttunni.

Á morgun ætla ég og sá sem hvílir að veita okkur þann munað að hverfa af skákstað í svolitla stund og taka seinni hálfleikinn í mikilvægum leik um silfrið á milli Arsenal og ManU.  

Pistillinn á morgun verður væntanlegra í styttra og seinna lagi en áfram verða sendar reglulegar SMS-sendingar á mafíuósann Björn Þorfinnsson svo ég hvet menn til að fylgjast með horninu. 

Nóg í bili, meira á morgun.

Krítarkveðja,
Gunnar


EM taflfélaga: Liðsstjórapistill nr. 5

Jafntefli gegn Sviss var niðurstaðan í gær og enn sátu okkar menn lengst allra við skákborðið - að þessu sinni Héðinn sem tefldi rúmlega 100 leikja skák og freistaði þess að vinna sína skák fram í rauðan dauðann en náði því ekki. Í dag mætum við Svartfellingum sem hafa staðið sig vel og eru stigahærri en við rétt eins og allar sveitirnar hingað til.

Hannes fékk gott tafl en lék ónákvæmt og fékk upp úr því erfitt tafl sem hann náði ekki að halda og tapaði fyrir fyrstu tímamörkin.

Henrik fékk fljótt betra tafl og vann öruggan sigur á andstæðingi sínum. Vel teflt hjá Henrik sem hefur teflt mjög vel á mótinu.

Stefán fékk heldur verra, var peði undir og í tímahraki. Strákurinn var hins vegar seigur og hélt jafntefli nokkuð örugglega. Í restina þegar sé austurríski hafði riddara og peð gegn biskupi Stefáns lék hann h7-h8 og vakti upp riddara við nokkra kátína þeirra sem horfðu. Stefán ákvað að drepa hann í stað þess að halda djókinu áfram og lék Bb2-a1!

Héðinn virtist hafa þrengra en staðan leyndi á sér og gaf Jenni peð (hér er bannað að koma með Tomma og Jenna brandara en Héðinn reyndi það og var sagt að þetta væri þreyttasti brandari í heimi, hafi verið algjörlega ofnotaður síðustu ár!). Héðinn hafði hrók og 4 gegn hróki og þremur peðum Jenna og síðar 3 gegn 2 og lokum eitt peð eftir. Sennilega er þetta unnið á einhverjum tímapunkti með bestu taflmennsku að mati Héðins en vinur Tomma (sorry ég bara varð Smile) var seigur, tefldi endataflið vel og hélt jafntefli.

Í dag mætum við Svartfellingum eins og áður hefur komið fram. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem þeir tefla sem sjálfstæð þjóð og byrjuðu vel með 3,5-0,5 á Pólverjum, en töpuðu svo naumt fyrir Ísraelum og stórt fyrir Búlgörum og gerði svo jafntefli við Ítalíu í síðustu umferð.

Enn ein 50-50 viðureignin hjá okkur og vonandi fellur lukkan nú með okkur. Hannes hafði svart og tefldur spænskur leikur, Héðinn hafði hvítt og tefld var drottningarvörn, Henrik hafði svart og tefld var drottningarindversk vörn og Þröstur hafði hvítt og þar var tefld frönsk vörn.

Ivan Sokolov kom loks í gærkveldi og í góðum gír þegar ég og Þröstur hittum hann í morgun. „Your opponent is very solid player. It will by draw. Don´t spend your time analyzing, it will end by draw anyway". Kemur í ljós hvort spá Ivans gangi eftir.

Aserar og Rússar eru efstir en báðar þjóðirnar hafa unnið allar sínar viðureignir og mætast í 5. umferð.

Danirnir halda áfram að gera góðu hluti og gerðu 2-2 jafntefli við Armena í gær og eru í 12. sæti, Svíar eru einnig að gera ágætis hluti og gerðu jafntefli við Englendinga og eru fimmtándu. Norðmenn lágu fyrir Frökkum þar sem „börnin" Carlsen og Hammer á 1. og 4. borði gerðu jafntefli. Hammer-inn er einn þriggja keppenda á mótinu sem hafa 3,5 vinning. Norðmenn eru í 19. sæti. Íslendingar eru í 29. sæti og Finnarnir í því þrítugasta. Athyglisvert er að allar norðurlandasveitirnar standa betur en stigatala þeirra fyrir mótið gefur til kynna. Færeyingar eru ekki með.

Staða Norðurlandanna:

ÞjóðSæti StigaröðStigVinn
Danmörk 12. 20. 5 9,5
Svíþjóð 15. 21. 5 8
Noregur 19. 27. 4 9
Ísland 29. 31. 3 7
Finnland 30. 34. 3 6,5

Annars er nokkuð sérstakt veður hérna. Hlýtt en nánast sólarlaust alla daga. Ég mun því koma jafnhvítur til baka með sama áframhaldi! Ég lét mig loks hafa það að fara í sjóinn í dag og fannst mér hann ískaldur og fannst Agrest ég var algjör kveif og hristi hausinn yfir þessum auma Íslendingi. Veit hann ekki hvað ég er ötull? Smile.

Engar myndir í dag þar sem liðsstjórinn klikkaði á að hlaða myndavélina. Ótrúlegur klaufaskapur og mætti halda að liðsstjórinn sé heimskari en skólakrakki.

Á morgun er frídagur. Í kvöld ætlar liðið að gera sér glaðan dag og fara á veitingarhús í borginni. Pistill morgundagsins mun koma einhvern tíma eftir hádegið.

Hvet menn til að fylgjast með Horninu í dag þar sem ég mun reglulega koma boðum um gang mála til Björns Þorfinnssonar í gegnum SMS. Ágætis skákskýringar þar á köflum þótt sum skeytin og sumar skýringarnar séu „veruleikafirrtar".

Nóg í bili, meira á morgun.

Krítarkveðja,
Gunnar


EM taflfélaga: Liðsstjórapistill nr. 4

Frá EM 2007Það var heldur súrt að tapa fyrir Norsurum í 3. umferð í gær. Lengi vel leit þetta illa út en heldur hjarnaði yfir skákunum en á síðustu stundu þegar stefndi í 2-2 rétt misstum við af jafntefli og tap með minnsta mun staðreynd. Í dag mætum við Sviss sem er heldur sterkari en við á pappírnum. Henrik kemur inn fyrir Þröst sem hvílir.

Skák Hannesar og Carlsens var fyrst til að klárst. Fyrst hélt ég og fleiri að Hannes hefði platað undradrenginn en þegar betur var skoðað var það ekki svo heldur hafði sá norski séð lengra og Bxd4 vinnur á mjög fallegan hátt eins og örugglega einhver á eftir á sýna á horninu.

Eftir tap Hannesar leist mér ekkert á blikuna. Héðinn hafði teflt rúlluskautavaríant þar sem hann vann mann fyrir þrjú peð og staðan þar mjög óljós. Stefán tefldi nánast á viðbótartíma strax eftir 20 leiki og Þröstur virtist í beyglu.

Fyrst að skák Héðins. Hún var alltaf flókin en á ákveðnum punkti missti hann af vænlegu framhaldi og skákin fór í þráskák. Héðinn hefði getað forðast hana en mat stöðuna þannig að það væri of „shaky" og mögulega taphætta á ferðinni. Skynsamleg ákvörðun.

Stefán telfdi vel og ýtti andstæðing sínum smásaman út af borðinu. Góð skák hjá Stefáni sem hefur teflt feiknavel.

Mesta fjörið var hjá Þresti. Hann lenti í beyglu en náði að trikka andstæðing sinn og varð peði yfir. Þrátt fyrir það voru sénsarnir sennilega betri hjá hinum unga Jon Ludwig Hammer. Þröstur lék af sér og eftir það þurfti hann að tefla nákvæmt til að halda á jafntefli en á mikilvægu augnabliki eftir rúmlega 100 leiki lék hann illa af sér og Norðmennirnir unnu sigur á borðinu og viðureigninni. Súrt í broti en þetta var síðasta skákin til að klárast í umferðinni og greinilegt að það hlakkar í þeim miðað við fréttaskrif Ketils. Menn verða bæði að kunna að vinna og tapa en Norðmennirnir virðast eiga erfitt með fyrrnefnda.

Í dag mætum við Svisslendingum en þeir eru 27. stigahæsta sveitin eða fjórum sætum fyrir ofan okkur. Rétt eins og viðureignin gegn Norðmönnunum er þetta 50-50 viðureign. Enginn Korchnoi er með núna.

Bo.

31

ICELAND (ISL)

Rtg

-

28

SWITZERLAND (SUI)

Rtg

15.1

GM

Stefansson Hannes

2574

-

GM

Pelletier Yannick

2609

15.2

IM

Steingrimsson Hedinn

2533

-

GM

Jenni Florian

2511

15.3

GM

Danielsen Henrik

2491

-

IM

Landenbergue Claude

2452

15.4

IM

Kristjansson Stefan

2458

-

IM

Ekstroem Roland

2478

Þegar þetta er ritað er viðureignin rétt hafin og allt í járnum. Hannes er með hvítt og tefld er drottningarindversk vörn. Héðinn teflir Najdorf-varíantinn, Henrik tefldi 1. e4 enn og ný og skákaði á b5 í þriðja leik gegn Sikileyjarvörn. Stefán fékk á Björnowski, þ.e. Bg5 í öðrum leik. Lítið er enn að segja um stöðurnar.

Slóvenar eru efstir og verður það teljast óvænt. Þeir mæta Rússum í dag og líklegt að þeir færist niður. Danirnir eru seigir og töpuðu með minnsta mun fyrir Aserum.

Í gær þegar nánast allar skákirnar voru búnar heyrðist símhringing í salnum. Sá sem hafði símann er einn af varaforsetum FIDE, Makrapolis og hirti ekki um að vera kominn úr salnum þegar hann svaraði og talaði svo hátt og skýrt í símann svo það fór ekki fram hjá neinum sem hlustaði. Spurning hvort ætti að kenna FIDE-gaurnum FIDE-reglurnar?

Af liðinu er annars allt gott að frétta. Menn sprækir og hressir og ákafir að snúa við við blaðinu Við erum töluvert spurðir um Reykjavíkurmótið og t.d. hefur Georgíumaðurinn (Gogginn) Baadur Jobava lýst áhuga sínum að koma hingað.

Topalov og hinn frægi umboðsmaður hans Danilov eru hérna. Topalov mætir alltaf til leiks eins og „bankamaður", í óaðfinnanlegum jakkafötum og með bindi en flestir eru frjálslega klæddir við skákborðið.

Í gær setti ég inn fullt af myndum loksins og má skoða þær undir „myndaalbúm" ofarlega til vinstri.

Í gær talaði ég um hlutverk liðsstjóra. Þar gleymdi ég að tala um lykilhlutverkið en það er að færa skákmönnum kaffi sem það vilja. Enginn getur talið sem sig alvöru liðsstjóra fyrr en hann hefur lært hvaða kaffi á að færa hverjum og á hvaða tíma Smile

Frá EM 2007 Í dag var hálfgert haustveður hérna. Hávaðarok og laufblauð að fjúka. Helsti munurinn gagnvart Íslandi var þó að hitinn er í kringum 25 gráður. Ég tók hinn daglega göngutúr eftir hádegið. Greinilegt að það er komið „off season". Margar búðir búnar að loka. Eftirtektarverð að engir svona alþjóðlegir veitingarstaðir eins og McDonalds eru sjáanlegir. Grikkirnir eru mikið á mótorhjólum og stundum hrekkur maður í kút þegar þeir bruna fram hjá manni en gangstéttirnar eru stundum ekki staðar hér.

Í kringum borðin eru bönd eins og gengur og gerist. Þau eru hins vegar í mjórra lagi og hef ég labbað á þau og datt nánast um kol. Bíð eftir því að einhver detti með látum. Á örugglega eftir að gerast.

Best að fara upp að kíkja á strákana. Ég er ekki mikið nettengdur á meðan teflt er en mun reglulega koma SMS-um til Björns Þorfinnssonar sem mun koma fersku efni á hornið. Menn verða að virða það við liðsstjóra að e.t.v. er ekki stöðumatið alltaf fullkomið þrátt fyrir 2852 stiga frammistöðu í fyrri hluta Íslandsmóts skákfélaga!

Nóg í bili, meira á morgun.

Krítarkveðja,
Gunnar

 


EM landsliða: Þriðji pistill liðsstjóra

Það gekk ljómandi vel gegn Pólverjum í gær þegar góður og óvæntur 3-1 sigur vannst á þessari sterku sveit.  Í þriðju umferð sem nú fer fram teflum við enn upp fyrir okkar að þessu sinni við Norðmenn sem eru heldur sterkari en við á pappírnum.  Sveitin er kornung og meðalaldur um tvítugt.  Undradrengurinn Magnus Carlsen á fyrsta borði og teflir nú við Hannes.

Það leit snemma vel út í gær.  Stefán hreinlega rúllaði yfir andstæðing sinn á fjórða borði þar sem riddararnir dönsuðu á svörtu reitunum. 

Andstæðingur Hannes hafði örlita yfirburði en hafnaði jafntefli í krítísku augnabliki og örlitlu seinna var Hannes kominn með betra og hafði sigur í hróksendatafli.  Vel tefld skák af hálfu Hannesar.  

Henrik hafði vænlega stöðu en ofmat sína möguleika á krítísku augnabliki, valdi ranga leið, fékk verra og tapaði..

Héðinn tefldi æsilega og flókna skák.  Eftir mikla baráttu og mjög vel teflda skák að hálfu Héðins hafði hann góðan sigur.

Mjög góður 3-1 sigur í höfn og ljóst að Pólverjar hafa ekki fengið þá byrjun sem þeir hafa vænst og sennilega ein bestu úrslit sem íslenskt landslið hefur náð í langan tíma í einni viðureign.  Sune Berg Hansen sagði mér og Þresti það í gær að Pólverjar hefðu ákveðið kynslóðarskipti og skipt um þeim eldri og ákveðið að treysta ungu strákunum.  E.t.v. tekið of stórt skref í þá átt.

Danirnir hafa verið að slá í gegn.  Unnu Georgíumenn og tefla nú á öðru borði gegn Aserum.  

Í dag eru það Norðmenn.  Eitt yngsta lið keppninnar en elsti maður þeirra er yngri en sá yngsti hjá okkur.  Þeir eru bara fjórir og því ljóst strax í gær hverjir myndu tefla.  Henrik hvílir og kemur því Þröstur aftur inn í liðið.

Enn á ný verð ég hæla Grikkjunum fyrir flotta skipulagningu.  Allt óaðfinnanlegt og afslappað.  Að sögn Hannesar sem er þrautreyndur er þetta meðal bestu aðstæðna sem hann hefur séð.

Fyrir liðsstjórann er þetta mikil rútína.  Vaknað á morgna og liðið tilkynnt, þarf reyndar ekki þegar a-liðið keppir.  Morgumatur.  Upp úr 10:15 er farið á vaktina og beðið eftir upplýsingum hverjir tefla fyrir andstæðingana, það þyrfti þó ekki í morgun þar sem Norsararnir eru fjórir.  Upplýsingum um andstæðinga komið til okkar manna. 

Svo hefur maður frjálsan tíma fram til hádegis og meðan skákmennirnir stúdera. 

Taflið hefst kl. 15:30, pistill skrifaður á meðan þeir tefla, kvöldmatur, stúderað og lið morgundagsins ákveðið og svo hefst ferillinn upp á nýtt.

Að lokum ein saga af tveimur Íslandsvinum.  Í morgun hitti ég Stuart Conquest niður í morgunmat og var hann kátasti.  Eftir hefðbundið „góðan daginn" spurði ég við hann tefldi í dag.  Hann svaraði um hæl.  „Finnland, ég tefla við Heikki, Heikki er vinur minn" og skellihló svo!

Jæja, best að kíkja upp, sýndist stefna í svakalegan hasar hjá Héðni. 

Nú kom ég með myndavélasnúruna en því miður virðist vera vandamál með að koma þeim inn á vefinn.  Reyni aftur síðar í dag. 

Nóg í bili, meira á morgun.

Krítarkveðja,
Gunnar


EM landsliða í skák: Pistill liðsstjóra nr. 2

Ekki gekk vel hjá okkar mönnum gegn Georgíumönnum í gær.  Stórt tap staðreynd 0,5-3,5 en það var Henrik sem hélt upp heiðri landans.  Í dag mætum við sterkri sveit Pólverja og er sú viðureign nýhafin þegar þetta er ritað.

Héðinn tefldi sína fyrstu landsliðsskák fyrir Íslands hönd í gær í býsna langan tíma þegar hann mætti Baadur Jobava.  Tefld var Sikileyjarvörn.  Satt að segja tefldi Jobava snilldarskák fórnaði manni gegn Héðni og vann öruggan sigur.  Fall er fararheill. 

Henrik tefld 1. e4 í gær sem er ekki algengt á þeim bæ.  Henrik segist afar sjaldan leika þeim leik en minntist sigur sem hann unnið á Bent Larsen fyrir löngu síðan.  Tefld var Philidor-vörn.  Henrik fórnaði manni og þráskákaði en full vafasamt virtist vera að tefla til vinnings í lokastöðunni.

Stefán tefldi ófhefðbundið á þriðja borði, svaraði 1. Rf3 með Rc6.  Um tíma hélt ég að hann hefði ágætis jafnteflismöguleika en um kvöldið þegar skákin var skoðuð kom í ljós að hann hafði í raun og veru aldrei haft neitt í hendi.

Þröstur misreiknaði sig á fjórða borði er hann fórnaði manni, sá ekki millileik andstæðingsins og átti ekki möguleika eftir það.

Tap 0,3-3,5 staðreynd. 

Eftir skákina fórum við niður í hótel og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að komast í sjónvarp og sjá lokamínúturnar í leik Liverpool og Arsenal þar sem hinir síðarnefndu náðu víst að hanga á jafntefli með marki skoruðu á lokamínútunum.  Við sáum sjónvarp  og fótbolta og fullt af fólki vera að horfa en viti menn, voru Grikkirnir ekki að horfa á einhvern grískan leik!  Ég meina...............

Við urðum létt hissa í gærkveldi þegar við sáum pörunina gegn Pólverjum sem er 10. sterkasta þjóðin.  Í ljós kom að þeir hefðu steinlegið fyrir Svartfellingum þrátt fyrir að vera mun stigahærri.  Nú er bara vona að þeir hafi lemstrað sjálfstraust eftir þá meðferð.  Full bjartsýnn eða...............?

Hannes kemur inn á fyrsta borð og Þröstur hvílir og var búinn að koma sér vel fyrir út við sundlaug í morgun. 

Grikkjunum verð ég hæla fyrir góða skipulagningu og hversu „easy going" þeir eru.  Afslappaðir og þægilegir og ekki jafn stífir og Spánverjarnir voru á Mallorca árið 2004.  Reyndar kannski stundum of „easy" því ekki eru enn skákirnar komnar á netið né mótsblað fyrstu umferðar komið.  

Í gær mættu ekki Bosníumennirnir og fengu Úkraínumenn 4-0 fyrir sigurinn á þeim.  Ekki veit ég hvað gerðist en svo virðist sem þeir hafi hætt við að vera með án ekki látið vita fyrr en of seint.  Sérstök yfirlýsing er á heimasíðunni frá ECU og mótshöldurum vegna málsins enda þurfti greinilega sérstakan úrskurð til að dæma þeim 4-0 sigur.  Nú er skotta búinn að taka sæti Bosníumannanna.

Í gær spjallaði við Wales-arana.  Þeir þurfa að borga allt sjálfir flug og gistingu.  Á ólympíumótunum borgar hins sambandið fyrir þá uppihaldið til viðbótar.  Sérstakt þegar menn tefla fyrir hönd síns eigin lands og ljóst að Skáksamband Wales er ekki það öflugasta í Evrópu.  Athygli vekur hversu slök skoska sveitin er en þar vantar alla stórmeistaranna, Rowson, Shaw og McNab.  Ekki veit ég skýringuna á því en mig grunar að þar geti verið kjaramál á ferðinni.  Í enska liðið vantar svo bæði Short og McShane þannig að þeir hafa verið sterkari.  Alltaf gaman að mæta hinum brosmilda Stuart Conquest sem alltaf segir „góðan daginn" þegar sér okkur!

Í gær spjölluðu ég og Þröstur við Íslandsvininn Heikki Westerinen í gær og hann vill óður og uppvægur koma til landsins til að tefla og „kvartaði" yfir því að langt væri síðan honum hafi verið boðið á mót.   Ljóst er að íslenskir mótshaldarar verða að muna eftir þessum eðalfinna þegar íslensk mót eru skipulögð.  

Því miður gleymdi ég myndavélasnúrunni svo engar nýjar myndir núna en ég set inn í kvöld eða í fyrramálið

Jæja, ætla að fara upp að kíkja á strákana. 

Nóg í bili, meira á morgun.

Krítarkveðja,
Gunnar


EM landsliða - fyrsti pistill

Stefán einbeittur í byrjun skákarÞað beið okkur langt og strangt ferðalag til að komast á áfangastað.  Leigubíllinn frá heimili mínu lagði af stað um 5 um morgunin til Keflavíkur, og eftir flug til Heathrow, akstur til Gatwick, þar sem þurftum að bíða í 5 gíma eftir 1,5 tíma seinkun og svo flug til Krítar og svo rútuferðar á hótelið vorum við því komnir á skákstað um kl. 1 um nótina að grískum tíma.

Alls konar tímahringli lentum við í.  Fyrst flýtti klukkan sér um klukkutíma á Bretlandi, svo um tvo til viðbótar á Krít og svo um nóttina kl. 3 færðist klukkan þar aftur um klukkutíma!

Ekki væsir um menn á hótelinu.  Hér er fimm stjörnu hótel, með sundlaug og um 1 mínútna gangur á ströndina.   Reyndar smá vonbrigði að nettenging sé ekki á herbergjum en fínt þráðlaust netsamband er í lobbýinu. 

Aðstæur á skákstað virðast vera til fyrirmyndar.  Sjálfur sit ég nú á neðri hæðinni en þar er þráðlaust og mjög gott netsamband

Grikkirnir komu mér á óvart þegar þeir byrjuðu umferðina á réttum tíma en við mætum Georgíumönnum í fyrstu umferð.  Hannes Hlífar hvílir enda mætti hann ekki á skástað fyrr en undir hádegi eftir langt og strangt ferðalag frá Osló eftir Glitnir Blitz.  Héðinn teflir því á fyrsta borði og er það væntanlega í fyrsta sinn sem hann leiðir íslenska landsliðið.  Viðureignin er á 11. borði og því miður sýna Grikkirnir bara 10 fyrstu borðin. Þröstur

Ég lenti í smáveseni í gær en Grikkirnir höfðu raðað liðinu vitlaust upp þ.e. eftir gömlum stigum og höfðu Henrik fyrir ofan Héðin og Þröst fyrir ofan Stefán og voru ekkert of uppvægir þegar ég bað þá um að leiðrétta.  Ég mætti ekki á liðsstjórafundinn enda þá í flugvél.  Þeir breyttu þó liðinu til þess horfs sem ég vildi en fleiri lið lentu í einnig í slíkum erfiðleikum.  .

Ljóst er að viðureign dagsins verður erfið enda Georgíumenn mun  stigahærri á öllum borðum.  Minnstu munar á fyrsta borði eða 111 stigum.  Okkar menn koma þó vel stemmdir til leiks og vonandi náum við góðum úrslitum gegn Georgíumönnum.

Rétt er að benda á myndaalbúm frá mótinu sem hægt er að finna ofarlega til vinstri á síðunni.   

Nóg í bili.

Krítarkveðja,
Gunnar


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 33
  • Sl. viku: 232
  • Frá upphafi: 8764921

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 152
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband