Gullaldarlið Íslands lagði þýska félagið Thüringen í þriðju umferð Heimsmeistaramóts skákliða 50 ára og eldri í Dresden á þriðjudag með tveimur og hálfum vinningi gegn einum og hálfum. Íslenska liðið hefur unnið allar viðureignir sínar á mótinu, líkt og fimm önnur lið, en alls keppa 59 sveitir á mótinu. Í fjórðu umferð mætir Gullaldarliðið sterkri þýskri sveit, sem skartar goðsögninni Arthur Jusupov á efsta borði.
Viðureignin við Thüringen var afar spennandi. Jóhann Hjartarson mætti stórmeistaranumPeter Enders á 1. borði í mjög flókinni og skemmtilegri skák. Jóhann stóð til vinnings en missteig sig í flókinni stöðu og virtist um tíma með tapað tafl. Hann fann snjalla björgunarleið og lauk skákinni með jafntefli.

45
H8d3 Enders var nýbúinn að spyrja liðsfélaga sínu um stöðuna í viðureigninni og vissi að hann þyrfti að vinna. Hann lék því þessum leik með nokkru stolti. 46. Dxc5+! Þetta sá hann ekki. Ef drottningin er tekin þá mátar hvítur með He8+ og Hg8+. HGE
- Ítarlega skákskýringu Halldórs Grétars um skák Jóhanns má lesa á Skákhorninu.

Margeir Pétursson
Helgi Ólafsson fékk ívið verri stöðu á 2. borði gegn alþjóðlega meistaranumThomas Casper, en Þjóðverjinn féllst fúslega á jafntefli. Jón L. Árnason náði vænlegri stöðu gegn stórmeistaranumLutz Espig á 4. borði og vann peð, en hinum gamalreynda þýska meistara tókst að læsa stöðunni og jafntefli varð niðurstaðan.
Margeir Pétursson var því hetja sveitarinnar, en hann vann afar öruggan sigur á alþjóðlega meistaranum Joachim Brüggemann. Friðrik Ólafsson hvíldi að þessu sinni.

Svartur (Bruggemann) lék 36..Dxb5 sem var svarað með 37. Dd5 (stöðumynd) Hvítur hótar Rf7+. Svartur styrkti varnirnar á f7 með 37. Hc7 en Margeir lét það sem vind um eyru þjóta og lék samt 38. Rf7+! Kg8 39. Rd8+ (39.Rd6+ var hin leiðin!) Kh8 40. Re6 og svartur gafst upp.
- Halldór Grétar Einarsson skýrði skákina og birti á Skákhorninu.
Af öðrum úrslitum má nefna að enska stórmeistarasveitin, með Nunn og Speelman í broddi fylkingar mátti þakka fyrir nauman sigur gegn mun stigalægri sveit Slóvakíu, og Armenar með Rafael Vaganian á efsta borði unnu stórsigur á þýska félaginu SC Forchheim.
Sex sveitir hafa unnið allar viðureignir sínar: Þýskaland, Armenía, England, þýska félagið Emanuel-Lasker Gesellschaff, Ísland og Kanada.


Arthur Jusupov
Búast má við mjög spennandi viðureign Gullaldarliðsins og Emanuel-Lasker Gesellschaff í fjórðu umferð. Arthur Jusupov, sem teflir á fyrsta borði í sveitinni sem kennd er við annan heimsmeistarann í skák, var um árabil í hópi allra sterkustu skákmanna heims.
Hann fæddist í Moskvu 1960, varð heimsmeistari ungmenna 1977, stórmeistari 1980, tvítugur að aldri og árunum 1986 til 1992 komst hann þrisvar sinnum í undanúrslit heimsmeistarakeppninnar. Hann flutti til Þýskalands eftir hrun Sovétríkjanna og er einn virtasti skákbókahöfundur samtímans.
Dr. Gerhard Köhler, sem mætir Jóni L. Árnasyni á 4. borði, er þekktur m.a. fyrir það að hafa teflt þúsundir hraðskáka við Viktor Korsnoj þegar hann dvaldi í Dresden eftir að heilsu hans hafði hrakað mikið. Tefldi við hann stanslaust frá morgni til kvölds !
Halldór Grétar Einarsson liðstjóri Gullaldarliðsins segir góða stemmningu í hópnum: ,,Margeir er að koma mjög sterkur til leiks og Jóhann leggur allt í skákirnar. Jón L. og Helgi eru aðeins ryðgaðir ennþá, en þeir munu fara í gang núna þegar alvaran er að byrja. Viðureignin við Jusupov og félaga er ágæt prófraun á liðið.
Ítarleg umfjöllun og skákirnar á heimasíðu Hróksins.