"Framkvæmdin hefur gengið sérlega vel og allir eru ánægðir," segir Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, um Evrópumót landsliða í skák sem fer fram þessa dagana í Laugardalshöll og lýkur á morgun.

Eins og fram hefur komið er Evrópumótið stærsti skákviðburðurinn á Íslandi síðan Bobby Fischer og Boris Spasskí háðu einvígi um heimsmeistaratitilinn í Laugardalshöll 1972. Nú tefla meðal annars 150 stórmeistarar í skáksveitum frá 35 þjóðum og þar á meðal norski heimsmeistarinn Magnus Carlsen.

Langur aðdragandi

Mótshaldið á sér langan aðdraganda. "Við Björn Þorfinnsson fengum hugmyndina um að halda mótið á Evrópumóti landsliða í Grikklandi 2011," rifjar Gunnar upp. Hann segir að þeir hafi ekki látið þar við sitja heldur rætt strax við mótshaldara og fengið ýmsar upplýsingar. Við heimkomuna hafi þeir haldið áfram undirbúningsvinnu og meðal annars fengið vilyrði hjá þáverandi ríkisstjórn um töluverðan fjárstuðning. "Við sóttum um að halda mótið 2012, fengum það og markviss undirbúningur hefur staðið yfir síðan."

Framkvæmdin er á herðum fjölmargra sjálfboðaliða og Gunnar nefnir til dæmis að í hverri umferð séu yfir 20 skákstjórar. Aðsóknin hefur líka verið meiri en Skáksambandið á að venjast. "Það hafa verið allt upp í 70 til 80 manns í einu í skákskýringarsalnum fyrir utan alla þá sem eru inn í skáksal eða í kaffiteríunni að horfa á skákirnar á skjá," segir Gunnar. "Þetta eru tölur sem við höfum ekki séð áður."

Gert er ráð fyrir að kostnaður við mótið verði um 40 milljónir króna. Ríkisstjórnin lagði fram 25 milljónir í verkefnið og borgin lét Skáksambandið fá Laugardalshöll án leigugjalds. "Áætlanir miða við að ná endum saman og við verðum í kringum núllið," segir Gunnar.

Opna Reykjavíkurmótið hefur lengi verið ein helsta skrautfjöður Skáksambandsins og þar hafa margir þekktir skákmenn verið á meðal keppenda. Gunnar segir að keppendahópurinn nú sé öðruvísi, meira um keppendur frá Austur-Evrópu.

Höllin heppileg

salurinnLaugardalshöll er heppilegur staður fyrir svona mót, að sögn Gunnars, og keppendur eru ánægðir með hana. Sagan skemmir ekki fyrir og munir frá heimsmeistaraeinvíginu 1972, sem eru til sýnis í Höllinni, vekja athygli. „Keppendur láta almennt mjög vel af öllu,“ segir Gunnar og bætir við að Höllin sé einn glæsilegasti skákkeppnisstaður sem hann hafi séð. „Hér er hátt til lofts, góð lýsing, gott loft og rúmt. Við lögðum áherslu á að teppaleggja gólfið og það er allt annað en hörð íþróttahúsagólf.“

Gunnar segir að allt sé samkvæmt áætlun og engin vandamál. "Einu kvartanirnar sem við höfum heyrt eru í sambandi við veðrið, sumir keppendur kvarta yfir kulda, en við ráðum ekki við hann og ekki er við okkur að sakast í því efni."

Stjórn Skáksambandsins hefur einbeitt sér að þessu móti og ekki hugsað um önnur mót á meðan fyrir utan Reykjavíkurmótið. "Þetta gefur okkur byr í seglin að taka að okkur önnur stórverkefni í framtíðinni," segir Gunnar.

Frakkar öflugir og endaspretturinn skiptir miklu máli

bivark"Það hefur fátt komið á óvart," segir Björn Ívar Karlsson skákkennari um Evrópumótið og spáir spennandi lokaumferðum.

Rússar voru sigurstranglegastir fyrir mót og hafa staðið undir væntingum í opnum flokki og kvennaflokki. "Það hefur vakið athygli mína hvað Frakkarnir eru öflugir miðað við það sem hefur verið að gerast í Frakklandi," segir Björn.Rússar-Frakkar

Heimsmeistarinn Magnus Carlsen vann sína fyrstu skák í fyrradag. Margir hafa velt fyrir sér slöku gengi hans. Björn segir að bent hafi verið á að hugsanlega sé hann orðinn saddur eftir góðan árangur undanfarin ár og vanti nýtt markmið. "Hann hefur unnið allt sem hægt er að vinna og hefur ekki verið sannfærandi núna."

Björn segir að Íslendingarnir hafi verið á pari. Kvennasveitin hafi byrjað vel, þar sem Lenka Ptacnikova og Guðlaug Þorsteinsdóttir dragi vagninn, og Jóhann Hjartarson hafi staðið sig best í gullaldarliðinu en allir í A-liði Íslands hafi verið svipaðir.

íslenska liðið"Þeir [skákmennirnir í A-liðinu] hafa verið traustir í flestum viðureignum og haldið jöfnu í mörgum skákum," segir Björn og bendir á að mikilvægt sé að enda mótið vel. "Það getur breytt miklu upp á stöðuna að standa sig vel í síðustu umferðunum."

Björn segir eðlilegt að mennirnir í gullaldarliðinu séu orðnir þreyttir og því megi búast við því að endaspretturinn verði erfiðari fyrir þá en A-landsliðsmennina. Sama sé að segja um konurnar. „Þetta snýst svolítið um að vera heppinn með andstæðinga,“ segir hann.

Áttunda umferðin hefst klukkan 15 í Laugardalshöll í dag og síðasta umferð klukkan 11 í fyrramálið, en verðlaunaafhending verður í Hörpu annað kvöld.

Steinþór Guðbjartsson (steinthor@mbl.is).