Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014
19.8.2014 | 16:06
Hraðskákkeppni taflfélaga: Nýliðar mætast í kvöld
Þrjár viðureignir fóru fram í Hraðskákkeppni taflfélaga í gærkveldi eins og áður hefur komið fram á Skák.is. Huginn, Bolvíkingar og Fjölnismenn komust þá áfram. Reyknesingar höfðu áður tryggt sér keppnisrétt í átta liða úrslitum. Í kvöld heldur áfram því þá eru tvær viðureignir. Í annarri þeirri tefla unglingasveit TR og UMSB en bæði lið eru að hefja frumraun sína í keppninni. Hins vegar mætast svo Vinaskákfélagið og Skákdeild Hauka.
Það verður fróðlegt að fylgjast með unglingasveit TR sem hefur innanborðs marga sterka hraðskákmenn og Borgnesinga sem hafa verið að sanka að sér nýjum félagsmönnum síðustu daga. Gæti orðið mjög spennandi viðureign. Viðureignin fer fram Skákhöll TR og hefst kl. 19:30.
Hin viðureignin er á milli Vinaskákfélagsins og Skákdeildar Hauka. Þær mætast tvö sterk annarrar deildar félög og þar má jafnframt búast við jafnri og spennandi viðureign. Viðureignin fer fram í Vin og hefst kl. 19:30.
Fyrstu umferð lýkur svo 21. ágúst.
Áhorfendur eru velkomnir á báða mótsstaði.
Röðun/úrslit fyrstu umferðar- Taflfélag Bolungavíkur - Skákdeild Hugins b-sveit 39½-38½
- Skákdeild Hauka - Vinaskákfélagið (19. ágúst kl. 19:30 í Vin)
- Skakfélags Selfoss og nágrennis - Taflfélag Reykjavíkur (21. ágúst, kl. 20 í Fischersetrinu)
- UMSB - Taflfélag Reykjavíkur unglingasveit (19. ágúst, kl. 19:30 í TR)
- Taflfélag Vestmannaeyja - Skákfélagið Huginn a-sveit 16½-55½
- Taflfélag Garðabæjar - Skákdeild Fjölnis 18-56
- Skákfélag Íslands - Víkingaklúbburin (21. ágúst, kl. 20 í SÍ)
- Skákfélag Akureyrar - Skákfélag Reykjanesbæjar 33-39
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2014 | 12:46
Bolvíkingar sigruðu Hugin-b eftir bráðabana!
Í gærkvöld fóru fram tvær toppviðureignir í Hraðskákkeppni taflfélaga. Annars vegar mættust lið Taflfélags Bolungarvíkur og b-sveit Hugins í hörkuspennandi slag.
Flestum á óvart höfðu Huginsmenn lengst af forystu, þótt stigalægri væru, en Bolvíkingar náðu að saxa á forskotið í lokin og jöfnuðu metin í síðustu umferð: 36-36.
Grípa þurfti til bráðabana og þar tryggði TB sér sigurinn með minnsta mun: 3,5-2,5. Flesta vinninga Bolvíkinga fengu Bragi Þorfinnsson, Jón Viktor Gunnarsson og Dagur Arngrímsson en hlutskarpastir Huginsmanna voru Kristján Eðvarðsson, Andri Áss Grétarsson og Hlíðar Þór Hreinsson.
Í hinni viðureign kvöldsins bar a-sveit Hugins sigurorð af Taflfélagi Vestmannaeyja með allmiklum mun. Þess ber að geta að í sveit Eyjamanna vantaði báða stórmeistarana, þá Helga Ólafsson og Henrik Danielsen, og munar um minna. Huginn náði hins vegar að tefla fram sínu sterkasta liði og var styrkleikamunurinn á liðunum, mældur í skákstigum, um 200 elóstig að meðaltali. Flesta vinninga Huginsmanna hlaut Hjörvar Steinn Grétarsson, fullt hús, en Helgi Áss Grétarsson, Þröstur Þórhallsson og Magnús Örn Úlfarsson komu þar skammt á eftir.
Hlutskarpastir Eyjamanna voru Ingvar Þór Jóhannesson, Sigurbjörn Björnsson og Björn Ívar Karlsson.
Hraðskákkvöld þetta fór hið besta fram. Vel fór á með keppendum og stutt var í gamanmálin þó svo að hart væri tekist á og jafnvel grimmilega á köflum.
Áhorfendur virtust skemmta sér vel enda spennan magnþrungin á köflum. Höfðu nokkrir á orði að tilþrif eflanda og baráttuvilji gæfu góð fyrirheit um komandi leiktíð á hvítum reitum og svörtum.
Kristjáni Eðvarðssyni og öðrum starfsmönnum Sensu er þakkað kærlega fyrir afnot að hinum vistlegu húsakynnum félagsins.
Á heimasíðu TB er skemmtileg umfjöllun um keppnina.
Úrslitin má nálgast á Chess-Results (þar er þó ekki bráðabaninn)
Spil og leikir | Breytt 20.8.2014 kl. 08:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2014 | 03:34
Ólympíuskákmótið 2014 - Uppgjör liðsstjóra kvennaliðs
Áður hafði ég ritað pistla um fyrstu umferðirnar og mótsstaðinn auk þess sem ritaður var pistill þegar mótið var hálfnað. Mun reyna að skrifa um það sem gerðist hjá okkur seinni part móts ásamt því að gera aðeins upp árangurinn og annað.
Árangur í "seinni hálfleik"
Fyrstu sex umferðirnar hafði kvennasveitin meira og minna unnið þær sveitir sem þær átti að vinna en fylgt því svo eftir með því að tapa 3,5-0,5 gegn þeim sterkari. Nokkur styrkleikamunur var í þeim viðureignum en engu að síður voru töpin og stór og sérstaklega gegn Venezuela sem virðst hafa eitthvað tak á okkar sveit.
Sigurinn á Bangladesh var þó góður þar sem sú sveit var örlítið stigahærri en okkar. Í 7. umferð unnum við annan góðan sigur á svipaðri sveit þar sem Mexíkó lá í valnum 2,5-1,5 þó að við höfum snemma lent 0-1 undir í þeirri viðureign.
Áframhald varð á jójó-inu og enn töpuðum við 3,5-0,5 og nú gegn nokkuð þéttri tékkneskri sveit. Fyrir þetta tap var kvittað strax í næstu umferð með mjög góðum 4-0 sigri á sveit IBCA (fatlaðir) sem þó voru aðeins örlítið stigalægri en okkar sveit.
Tapið gegn El Salvador voru nokkur vonbrigði í 10. umferðinni en þar tapaðist viðureignin með minnsta mun en fyrirfram hélt ég að við ættum að hafa þar sigur.
Mótið kláruðum við þó á góðum nótum með 3,5-0,5 sigri gegn Jamaíku en þar náðu ansi margar stöður að snúast okkur í hag því snemma stefndi ekki í svo góðan sigur!
Í seinni hálfleik hjá karlaliðinu vannst fínn skyldusigur á Pakistan 3,5-0,5 og því var fylgt eftir með þéttum sigri á nokkuð reyndri skoskri sveit 3-1. Í kjölfarið komu tvö jafntefli gegn Katar og Tyrklandi sem voru fín úrslit þó sóknarfæri hefði e.t.v. mátt reyna að finna gegn Katar.
Þessi fíni endasprettur þýddi að mikið sóknarfæri var í síðustu umferð gegn Egyptum þar sem möguleiki var að ná besta sæti sveitarinnar í mjög langan tíma. Því miður hittum við ekki áð góðan dag og úr varð gott mót í stað frábærs móts.
Ég mun fara yfir einstaklingsárangur í niðurlagi þessa pistils.
Kasparov-partýið
FIDE kosningarnar voru á mánudaginn 11. ágúst en laugardaginn 9. ágúst hélt Kasparov smá teiti þar sem meðal annars Nigel Short spilaði á gítar, Elisabeth Paetz tók lagið með honum og magnaður töframaður frá Indlandi lék listir sínar. Ýmis hamagangur var einnig á sviðinu eins og sjá má hér:
Þeir sem hamast þarna á sviðinu voru þeir sem dregnir voru í happdrætti aðgangsmiða en gefnir voru heilir þrettán (auðvitað 13!!) Samsung Tablets. Gummi var með miða nr. "H 13" og sturlaðist þegar lesið var "H thirtee.........TWO"
Myndir úr partýinu:
Töframaðurinn að störfum, hann var frábær...að neðan er stutt myndbrot þar sem hann hafði verið bundinn af fjórum sjálfboðaliðum. Það varði ekki lengi!

Kosningarnar
Boltinn var misskemmtilegur. Mjög gaman var þegar jöfn og vel spilandi lið voru á ferðinni en auðvitað er allur gangur á því og sumir blessunarlega mjööööög góðir í skák því hreyfigeta þeirra ekki beint á háu stigi!
Á leiðinni upp.
Helga varð á orði við upphafi móts við liðsstjóra Dana (Lars Schandorff) þegar hann var spurður hvort hann væri að tefla: "I can still play some chess you know!"
3. borð Tinna Kristín
5. borð Elsa María
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 03:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2014 | 00:19
Fjölnismenn lögðu Garðbæinga
Skákdeild Fjölnis vann öruggan sigur á Taflfélagi Garðabæjar í fyrstu umferð (16 liða úrslitum) Hraðskákkeppni taflfélaga. Á Facebook-síðu TG segir:
Okkar menn voru full gjafmildir á vinninga í kvöld gegn sterkum andstæðingum frá Skákdeild Fjölnis í hraðskákkeppni taflfélaga, auk þess sem okkar menn voru einum færri fram að hálfleik vegna mismunandi ástæðna, Svanberg Pálsson sem kom inn sem varamaður tefldi því bara 6 skákir.
Staðan í hálfleik var 9,5 vinningur TG gegn 26,5 vinning. Lokastaðan varð svo 16 vinningar gegn 56 og TG því úr leik í mótinu í ár.
Guðlaug Þorsteinsdóttir var sú eina sem eitthvað stóð í andstæðingunum með 6 vinninga af 12. mögulegum. Hjá Fjölnismönnum var stórmeistarinn Héðinn Steingrímsson bestur með 10,5 vinning af 11 og sama vinningshlutfall var hjá Tómasi Björnssyni. Aðrir fengu lítið minna.
TG óskar Fjölnismönnum góðs gengis í framhaldinu.
Tvær aðrar viðureignir fóru fram í kvöld. Huginn vann öruggur sigur á TV. Taflfélag Bolungarvíkur vann b-sveit Hugins í æsispennandi viðureign eftir bráðabana en nánar verður fjallað um þær tvær viðureignir á morgun.
Tvær aðrar viðureignir fara fram á morgun. Annars mætast UMSB og unglingasveit TR og hins vegar mætast Haukar og Vinaskákfélagið. Nánar verður sagt frá þeim viðureignum einnig á Skák.is á morgun.
Úrslitn (hægt að stækka)
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 00:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2014 | 10:25
Hraðskákkeppni taflfélaga: Topplið mætast í kvöld
Í kvöld fara fram toppviðureignir í Hraðskákkeppni taflfélaga. Í kvöld mætast annars Skákfélagið Huginn og Taflfélag Vestmannaeyja og hins vegar Taflfélag Bolungarvíkur og b-sveit Hugins. Allt eru þetta sveitir sem eiga sæti í efstu deild Íslandsmóts skákfélaga og samtals eru átta íslenskir stórmeistarar í þessum þremur félögum. Búast má því við hörkuviðureignum.
Áhorfendur eru velkomnir enda ekki á hverjum degi sem að tækifæri gefst til sjá sterkustu hraðskákmenn okkar að tafli
Teflt verður í hinum vistlegu húsakynnum Sensu, Kletthálsi 1, og hefst viðureignirnar kl. 20:00. Áhorfendur velkomnir
Röðun/úrslit fyrstu umferðar
Aðeins einni viðureign er lokið en flestar viðureignirnar fara fram á allra næstu dögum. Ritstjóri hefur ekki upplýsingar um dagsetningu á einni viðureign (SFÍ-Víkingar)
- Taflfélag Bolungavíkur - Skákdeild Hugins b-sveit (18. ágúst)
- Skákdeild Hauka - Vinaskákfélagið (19. ágúst)
- Skakfélags Selfoss og nágrennis - Taflfélag Reykjavíkur (21. ágúst)
- UMSB - Taflfélag Reykjavíkur unglingasveit (19. ágúst)
- Taflfélag Vestmannaeyja - Skákfélagið Huginn a-sveit (18. ágúst)
- Taflfélag Garðabæjar - Skákdeild Fjölnis (18. ágúst)
- Skákfélag Íslands - Víkingaklúbburinn (???)
- Skákfélag Akureyrar - Skákfélag Reykjanesbæjar 33-39
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.8.2014 | 20:00
Skákþáttur Morgunblaðsins: Heimsmeistarataktar í Tromsö
Kvennasveitin hefur hlotið 11 ½ vinning úr skákum sem er nokkuð eftir bókinni. Sjö þjóðir eru með 9 stig en í efsta sæti á stigum er sveit Aserbaídsjan. Í kvennaflokknum leiða Kínverjar með 10 stig.
Norska sjónvarpið hefur verið með beinar útsendingar alla keppnisdagana og beinist athyglin mest að heimsmeistaranum Magnúsi Carlsen. Honum hefur verið fylgt hvert fótmál eftir sigurinn í heimsmeistaraeinvíginu sl. haust og skákir hans frá ýmsum mótum sem hann hefur tekið þátt í eftir Indlandseinvígið oft í beinni á norsku sjónvarpsstöðvunum. Ungur landi hans, Frode Urkedal, sem teflir fyrir Noreg 2, stal þó senunni er hann lagði Vasilí Ivantsjúk að velli í 2. umferð. Tapið virðist hafa slegið Ivantsjúk út af laginu en hann tapaði aftur í fimmtu umferð og er nú vart mönnum sinnandi.
Opni flokkurinn er fyrir bæði kynin en aðeins fjórar konur tefla á þeim vettvangi. Judit Polgar er að venju farsæl og hefur unnið allar skákir sínar hingað til fyrir ungversku sveitina.
Aðstæður eru að mörgu leyti góðar í Tromsö og flestir virðast vera búnir að gleyma þeirri óvissu sem ríkti áður en mótið hófst. Öryggisgæsla er afar ströng.
Aftur að Magnús Carlsen. Eftir dauft jafntefli i fyrstu umferð gegn Finnanum Tomi Nyback vann hann næstu skák án þess að sýna mikið en í fjórðu umferð komu loks heimsmeistaratilþrif. Pólverjinn Wojtaszek er geysiöflugur skákmaður og er vel heima í flóknum byrjanaafbrigðum. En eins og stundum áður vék Magnús frá alfaraleiðum, fór í smiðju til Spasskí þegar hann valdi lokaða afbrigðið gegn Sikileyjarvörn og vann með tilþrifum:
Magnús Carlsen - Radoslaw Wojtaszek
Sikileyjarvörn
1. e4 c5 2. Rc3 d6 3. g3 Rc6 4. Bg2 g6 5. d3 Bg7 6. Be3
Spasskí tefldi lokaða afbrigðið yfirleitt með því að leika 6. f4 strax.
6. ... e5 7. Rh3 Rge7 8. f4 Rd4 9. O-O O-O 10. Dd2 Bd7 11. Rd1 Dc8 12. Rdf2!?
Fram að þessu hefur þetta allt verið eftir bókinni en þessi leikur er óvenjulegur.
12. ... Rdc6 13. c3 b5 14. fxe5 Rxe5 15. Bh6 R7c6 16. Bxg7 Kxg7 17. Rf4 Dd8 18. Had1 Hc8 19. De2!
Eftir rólega byrjun þar sem leikir svörtu drottningarinnar hafa kannski orkað tvímælis finnur Magnús góða áætlun. Bein hótun er nú 20. d4.
19. ... h5 20. d4 cxd4 21. cxd4 Rg4 22. h3 Rxf2 23. Dxf2 Re7 24. Hd3!
Beinir spjótum að f7-peðinu.
24. ... b4 25. Hf3 De8?
Slakur varnarleikur. Hann gat haldið í horfinu með 25. ... Kg8.
26. g4!?
Blæs til sóknar. Annar góður leikur var 26. d5!
26. ... hxg4 27. hxg4 Bb5 28. He1 Dd8 29. g5! Db6 30. Bh3 Hcd8
Bætir biskupinum í sóknina.
31. ... Be8 32. Rd5 Rxd5 33. Bxd5
og Pólverjinn gafst upp. Aðalhótun svarts er 34. Hh3 og 35. Df6+. Svartur á engan nothæfan leik, t.d. 33. ... De7 34. Hh4 f6 35. Hh7+! Kxh7 36. Dh4+ og 37. Dh6 mát. Glæsileg skák tefld í sönnum heimsmeistarastíl.
Helgi Ólafsson helol@simnet.is
----------------------------------------------
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.
Grein þessi birtist í Laugardagsmogganum, 9. ágúst 2014
Spil og leikir | Breytt 13.8.2014 kl. 18:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2014 | 10:43
Hraðskákmót Hugins (suðursvæði) fer fram á fimmtudaginn
Hraðskákmót Hugins í Mjóddinni hefur verið frestað til fimmtudagsins 21. ágúst nk. vegna viðureigna í Hraðskákkeppni taflfélaga. Teflt er í félagsheimili Hugins í Álfabakka 14a og hefst taflið kl. 20. Tefldar verða 7 umferðir 2*5 mínútur.
Stefnt er að því að reikna mótið til hraðskákstiga. Heildarverðlaun á mótinu eru kr. 20.000.
Núverandi hraðskákmeistari Hellis er Hjörvar Steinn Grétarsson. Þetta er í nítjánda sinn sem mótið fer fram. Björn Þorfinnsson og Davíð Ólafsson hafa hampað titlinum oftast eða fjórum sinnum.
Verðlaun skiptast svo:
- 10.000 kr.
- 6.000 kr.
- 4.000 kr.
Þátttökugjöld eru kr. 400 fyrir félagsmenn en kr. 600 fyrir aðra. Fyrir unglinga í Huginn eru þau kr. 300 en kr. 400 fyrir aðra.
Minnt er á skráning í Meistaramót Hugins (suðursvæði) er í gangi á Skák.is.
16.8.2014 | 15:25
Skákstuð Skákakademíunnar á Menningarnótt!
Rétt eins og síðustu ár stendur Skákakademían fyrir skemmtilegum skákdegi á Menningarnótt. Nú verður aðaláherslan á Alheimsmótið í leifturskák. Keppendur munu aðeins hafa eina mínútu á klukkunni og tefla tvær skákir sín á milli. Þegar hafa nokkrir af bestu leifturskákmönnum borgarinnar staðfest þátttöku sína. Má þar á meðal nefna stórmeistarann Hjörvar Stein Grétarsson og Íslandsmeistarann Guðmund Kjartansson. Þá eru ónefndir landsliðsþjálfari kvenna Ingvar Þór Jóhannesson, formaður TR Björn Jónsson, formaður SFÍ Kristján Örn Elíasson og kantmaðurinn knái Halldór Brynjar Halldórsson sem fór mikinn í viðureign SA og Skákfélag Reykjanesbæjar sem háður var nýverið en þar krækti hann í ellefu vinninga af tólf sem dugðu þó skammt fyrir Norðanmenn. Keppendur verða alls um 12-14.
Samhliða taflmennskunni verða spilaðir skemmtilegir tónar á torginu góða þar sem Alheimsmótið fer fram. Herlegheitin fara fram á Vitatorgi sem er nýtt torg við Hverfisgötu, rétt neðan Vitastígs. Sjálft mótið hefst um 14:30. Að loknu móti munu meistararnir taka skákir við gesti og gangandi auk þess sem allir geta gripið í tafl sín á milli frá því tvö um daginn.
http://menningarnott.is/skakstud-skakakademiunnar
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2014 | 10:34
Lokapistill Ólympíuskákmótsins
Íslensku sveitirnar enduðu í 39. og 55. sæti á Ólympíuskákmótinu sem lauk í gær í Tromsö. Bæði liðin stóðu því sig betur en upphaflega styrkleikaröðun gaf til kynna (43. og 66. sæti).
Varðandi toppbaráttuna bendir ritstjóri á ljómandi úttekt Hrafns Jökulssonar á heimasíðu Hróksins.
Æfintýrið hófst 1978
Margt hefur ritað um sigurgöngu Kínverjanna. Frábær frammistaða og virkilega öruggur og sanngjarn sigur. Tefldu einfaldlega best allra. Jón L. og Helgi rifjuðu það upp að Kínverjarnir tóku fyrst þátt í Ólympíuskákmótinu árið 1978 í Buenos Aires. Í fyrstu umferð mættu þeir Íslendingum og unnu mjög óvænt 3-1.
Jóni L. og Helgi upplifuðu því upphafið af kínverska ævintýrinu sem og hápunktinn á því! Helgi endaði umræðuna á þessum nótum
Rétt er að taka fram að það var ég sem vann"
Lokaumferðin
Til að byrja með stefndi í jafna skemmtilega viðureign við Egypta en þegar tímamörkin fóru að nálgast fór að halla undan fæti. Þröstur lék af sér í tímapressu í hróksendatafli gegn Ahmed Adly og Hannes Hlífar tapaði einnig. Helgi Ólafsson lék sig í mát og Hjörvar Steinn mátti sætta sig við jafntefli. Verulega svekkjandi úrslit gegn sterkri sveit Egypta.
Kvennaliðið vann hins vegar afar góðan sigur á Jamaíka. Halla, Tinna og Jóhanna unnu en Lenka gerði jafntefli.
Opinn flokkur
Íslenska liðið hlaut 13 stig og endaði í 39. sæti. Okkur finnst þessi staða ekki endurspegla frammistöðu liðsins. Hún var betri.
Hannes, Þröstur og Hjörvar eru allir í stigaplús. Hannes hækkar um 13 stig, Þröstur um 11 stig og Hjörvar um 5 stig.
Gummi og Helgi lækka á stigum. Gummi um 9 stig en Helgi um 12 stig.
Hannes var taplaus þar til í lokaumferðinni og var ákaflega traustur á mótinu. Hjörvar stóð sig vel á öðru borði. Hann var taplaus og traustur. Hans besta Ólympíuskákmót til þessa.
Gummi náði sér ekki strik á sínu fyrsta Ólympíuskákmóti. Gumma skortir smá reynslu, eðli málsins samkvæmt. Það er öðruvísi að tefla á Ólympíuskákmóti en á öðrum mótum t.d. vegna þess að þar ekki teflt alla daga og rytminn er annar.
Þröstur, stóð sig venju samkvæmt vel. Þröstur er ákaflega traustur og góður liðsmaður og vert er að minnast frammistöðu hans á Ólympíuskákmótinu fyrir tveimur árum síðan. Sú ákvörðun Jóns að velja Þröst var skynsamleg.
Það var frábært að fá Helga Ólafsson aftur í landsliðið. Helgi var taplaus þar til í lokaumferðinni þegar hann lék sig slysalega í mát. Það veitir liðinu gífurlegt öruggi að vita af svo traustum manni á fjórða borði.
Svo er vert að benda á Jón L. Árnason sem kom frábær inn í liðsstjórahlutverkið. Jón er ákaflega jákvæður einstaklingur sem liðsmenn bera mikla virðingu fyrir og er jafnframt félagi liðsmanna. Slíkt er gríðarlega mikilvægt fyrir liðsstjóra og ég sannarlega vona að Jón sé kominn til að vera
Semsagt. Mjög ásættanlegur árangur þrátt fyrir mótið hefði mátt enda á annan hátt.
Kvennaflokkur
Íslenska liðið endaði í 55. sæti en var fyrirfram raðað í það í 66. á stigum.
Hallgerður stóð sig afar vel og hækkar um 26 stig. Ákaflegur traustur liðsmaður en hún tefldi allar skákirnar. Eini íslenski liðsmaðurinn sem gerði það.
Elsa hækkar um 8 stig og Tinna um 7 stig. Jóhanna stóð í stað. Lenka tapaði átta stigum.
Það er komin gríðarleg reynsla í kvennaliðið. Hins vegar er ljóst að töluverðar breytingar geta orðið á liðinu fyrir EM 2015 þar sem bæði Hallgerður og Jóhanna stefna út í nám.
Ingvar kom sterkur inn í liðsstjórahlutverkið. Mikill gleðigjafi rétt eins og Jón.
Lokahófið
Skáksamband Íslands bauð keppendum og skákstjórum í veislu að loknu móti. Þar gerðum við okkur góðan dag. Sérstaka kátínu vakti ljóðabálkur Jóns L. Árnasonar en hann samdi vísu eftir hverja umferð.
Lokahófið var að mörgu leyti fínt. Reyndar var ekki bar á staðnum fyrir þyrsta keppendur.
Veitt voru verðlaun fyrir bestan árangur í ýmsum flokkum. Vinir okkar Egyptarnir unnu b-flokkinn eftir burstið í lokaumferðinni. Það var sérstakt að veitt voru verðlaun í a-flokki (lið styrkleikaröðuð 1-35) og þau veitt liðinu í fjórða sæti Rússunum sem höfðu engan áhuga á þeim! Einn þeirra hafði greinilega fengið sér í vel staupinu og hvorki Kramnik né Svidler létu sjá sig.
Það var einnig sérstakt að veitt voru fyrst verðlaun í opnum flokki og svo í kvennaflokki. Tilgangurinn var ljósleg sjá að enda mótið á rússneska þjóðsöngnum. Mjög svo lýsandi fyrir Ólympíuskákmótið 2014 - þar sem rússneski björninn hefur að mörgu leyti vakað yfir og stjórnað.
Tveir menn létust
Eins og fram hefur komið létust tveir skákmenn síðasta daginn. Afar sorglegt og sérkennileg tilviljum að slíkt skuli gerast. Um var að ræða skákmann frá Seychelles-eyjum sem lést á skákstað og heyrnarlausan skákmann frá Úsbekistan sem lést á hótelherbergi sínu.
Ég og Róbert Lagerman sitjum inn á VIP-barnum í lokaumferðinni. Allt í einu sjáum við 20-30 manns hlaupa framhjá okkur og út. Við botnum ekkert í þessu og höldum okkar striki. Héldum jafnvel að hér væri eitthvað grín á ferð. Við sjáum fljótt að svo var ekki en sáum einnig að engin hætta væri á ferðinni því sumir eru rólegir við dyr skáksalarins. Á leiðinni upp á hótel mætum við sjúkrabíl
Jón L. var inn í skáksal. Hann upplifir það að það kemur maður hlaupandi og öskrar medic". Einhvern riðlast allt og sumir virðast hafa uppskilið upphrópunina og héldu að hér hafi átt sér einhver sprengjuhótun. Jón L. sýndist Kínverjarnir vera fyrstir til þar sem þeir hlupu út. Skiptu þá engu máli að fjöldi fólks hleypur út í paník. Jón L. fylgdi með og hljóp einnig. Þegar Jón er kominn út sér þarna Þröst Þórhallsson sér við hlið.
Einn erlendur vinur minn var úti að reykja. Sér hann þar allt í einu fullt af fólki koma hlaupandi út bæði út um VIP-útganginn og aðalútganginn. Hleypur svo fólkið að einhverju leyti á móti hvoru öðru.
Reynt var að lífga manninn en því miður gekk það ekki upp. Eftir hlé á mótinu komu þeir skákmenn sem enn voru að tefla og kláraðu sínar skákir við þessi erfiðu skilyrði
Hinn maðurinn lést á hótelherbergi sínu. Um kvöldið verð ég var við sjúkraliða en vissi ekkert hvað var að gerast. Ég frétti svo af því degi síðar hvað hefði gerst.
Reykjavíkurskákmótið
Ég hafði ætlað að koma frá mér þessum pistli í gær en hafði ekki tök á því að klára það. Dagurinn var að einhverju leyti notaður til vinnu því ég hitti tvo aðila. Annars hitti ég Lawrence Trent, sem hefur verið með skákskýringar (live commentary) á ýmsum mótum. Þar með talið Ólympíuskákmóinu.
Hins vegar hitti ég Macauley Peterson frá Chess24 sem hefur áhuga á samstarfi varðandi Reykjavíkurskákmótið og EM landsliða en þeir sáu um beinar útsendingar og heimasíðu Ólympíuskákmótsins.
Ég skynja gríðarlegan áhuga á Reykjavíkurskákmótinu 2015. Jafnvel meiri en nokkurn sinni fyrr.
Að lokumMinnisstæðu Ólympíuskákmóti er lokið. Íslensku fulltrúarnir voru kátir og glaðir eftir skemmtilegt mót. Þeir stóðu sig með sóma og stemmingin og glaðværðin í hópnum mjög góð. Liðsstjórarnir nýju, Jón L. og Ingvar Þór, eru einnig miklir gleðigjafar.
Eitt alskemmtilegasta og minnisstæðasta Ólympíuskákmót sem ég hef upplifað!
Gunnar Björnsson
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 14:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2014 | 10:04
Gróskumikið starf T.R. á komandi vetri
Mótahald Taflfélags Reykjavíkur á 115. starfsári þess hófst með pomp og prakt á sunnudag þegar fimm skákmenn deildu efsta sætinu á fjölmennu Stórmóti félagsins í samstarfi við Árbæjarsafn. Á mánudag fór síðan fram hið árlega Borgarskákmót sem Taflfélag Reykjavíkur stóð að í samstarfi við hið nýja skákfélag Hugin. 61 keppandi tók þátt og deildu alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson og Ólafur B. Þórsson efsta sætinu.
Taflfélag Reykjavíkur stendur fyrir vel á annan tug skákviðburða á komandi haustvertíð og eru þá ekki meðtaldar hinar fjölmörgu barna- og unglingaæfingar ásamt fimmtudagsmótunum sem hefjast nú aftur eftir nokkurt hlé. Af nægu er að taka en stærsti viðburðurinn verður án efa áttatíu ára afmælismót Haustmóts félagsins sem hefst um miðjan september. Þá má nefna nýjan byrjendaflokk á barnaæfingunum, bikarsyrpu ætlaða yngri kynslóðinni og framhald á skemmtikvöldunum sem vöktu mikla lukku á síðastliðnu starfsári.
Þeim sem hafa gaman að skáklistinni, hvort sem er sem iðkendur eða áhorfendur, er bent á að fylgjast vel með starfi félagsins í vetur því þar verður sannarlega eitthvað í boði fyrir alla. Hægt er að sækja starfsáætlun félagsins með því að smella á hlekkinn hér að neðan.
Við hlökkum til að vera með ykkur og eiga saman skemmtilegt skáktímabil!
Starfsáætlun TR starfsárið 2014-15
Nýjustu færslur
- Ný vefsíða Skák.is!
- Loftur fær Héðin í fyrstu umferð
- Tveir fyrrum heimsmeistarar bættust við á keppendalistann á l...
- Ný alþjóðleg skákstig
- Carlsen vann Aronian - með vinningsforskot og aftur yfir 2850
- Skákklúbburinn Æsir - vertíðarlok
- Fundargerð aðalfundar SÍ
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open hefst á föstudaginn
- Carlsen vann Caruana í fyrstu umferð Altibox Norway Chess
- Þrír efstir og jafnir eftir fyrsta minningarmót Vinaskákfélag...
Tenglar
Mót í gangi
Mót sem eru í gangi hverju sinni
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open Valsheimilið, 1.-9. júní
- Altibox Norway Chess 27. maí - 8. júní: Carlsen og flestir sterkustu skákmenn heims
Lykilvefir
- Skáksamband Íslands Heimasíða SÍ
- Mótaáætlun SÍ
- Vefsvæði Friðriks Ólafssonar Vefsíða tileinkuð Friðriki Ólafssyni
- Skákskóli Íslands
- Skáksögufélagið
- F3-klúbburinn Vildarvinir skákíþróttarinnar á Íslandi
- Tímaritið Skák
- Fischersetur Selfoss
- Skákbækur til sölu
- Bobbý skáksverslun
- Skákhornið Spjallþráður skákmanna
- Skáklandið Stefán Bergsson bloggar
- Skákmyndir
Kennsluvefir
Íslensk taflfélög
Ef þú vilt tefla á netinu!
- Vinaskákfélagið
- Skákfélagið Hrókurinn
- Skákfélagið Huginn
- Taflfélag Reykjavíkur
- Víkingaklúbburinn
- Skákfélag Akureyrar
- Taflfélag Garðabæjar
- Taflfélag Vestmannaeyja
- Æsir
- Skáksamband Austurlands
- Skákdeild Fjölnis
- Skákfélag Sauðárkróks
- Taflfélag Bolungarvíkur
- Skákfélag Selfoss og nágrennis
- Skákdeild Breiðablik
- Skákdeild KR
- Skákdeild Breiðabliks
- Gallerý Skák
- Riddarinn
- Félag íslenskra bréfskákmanna
Erlendir skákvefir
- FIDE Alþjóðlega skáksambandið
- ECU
- The Week in Chess
- ChessBase
- Chess Vibes
- Chessdom
- Your Chess News Umsjón Jóhann H. Ragnarsson
- Bergens Schakklub Besta norræna skákfréttasíðan
- Færeyska skáksambandið
- Bloggsíða Susan Polgar
- ChessCafe Pistlar og greinar
Almanök
Teflt á netinu
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.8.): 15
- Sl. sólarhring: 15
- Sl. viku: 146
- Frá upphafi: 8779658
Annað
- Innlit í dag: 14
- Innlit sl. viku: 125
- Gestir í dag: 13
- IP-tölur í dag: 13
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Það hefur vakið athygli hér heima að sumar stelpurnar okkar hafa verið að klára skákirnar sínar (tapað) með klukkutíma eftir á skáklukkunni (hafa leikið nær viðstöðulaust). Hvet þær til að nýta tímann betur, tefla í botn og hafa gaman af þessu!