Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Pistlar

Pistill Nökkva: Opna skoska meistaramótið

Nökkvi SverrissonOpna skoska meistaramótið ætti ekki að þurfa að kynna fyrir hinum almenna skákáhugamanni. Mótið var fyrst haldið árið 1884 og hefur verið haldið næstum hvert einasta ár síðan þá og er það því elsta árlega skákmót veraldar. Þrátt fyrir það hafa Íslendingar ekki verið nógu duglegir að sækja þetta sögufræga mót.

Pörunin fyrstu 3 umferðirnar var með öðru sniði en hið vinsæla Monrad-kerfi en það átti að auka áfangasénsa manna í mótinu. Það virkaði þannig að keppendum var skipt í tvennt, sem sagt við miðju og þar kepptu menn innbyrðis. Þannig að í staðinn fyrir að fá einn af sterkustu mönnum mótsins fékk ég heimamanninn Daniel Thomas(1793). Ég varð snemma var við það að hann stóð ekki undir stigunum sínum en hann lék skelfilega af sér í byrjuninni sem gerði mér kleift að hirða frumkvæðið og eftir 26 leiki gafst hann upp.

Í annarri umferð fékk ég skoska landsliðsmannin Alan Tate(2346) og mér að óvörum bauð hann mér snemma jafntefli sem ég eðlilega tók enda 400 stigum lægri og staðan í jafnvægi.

Á þessum tímapunkti var ég mjög sáttur og gerði ráð fyrir að fá viðráðalegan andstæðing í þriðju umferð. Jacob Aagard (2506) hét sá maður og ætla ég að skýra þá tapskák hér á eftir.

Í fjórðu umferð gerði ég stutt jafntefli við Phillip M Giulian(2285).

Eftir pörun fimmtu umferðar gerði ég mér vonir um sigur en andstæðingurinn minn var Martin Mitchell (2217). Þrátt fyrir að vera með svart fékk ég snemma betra og var með unnið á tímabili en tefldi endataflið illa og þurfti að lokum að „sætta" mig við óþarfa tap.

Næsta skák var sú verst teflda að minni hálfu allt mótið en sem betur fer var andstæðingur minn, Eoin Campbell( 1868) ekki upp á sitt besta og lék af sér kalli í ellefta leik. Þrátt fyrir að vera kalli yfir tókst mér að lenda í stórfelldum vandræðum en hafði að lokum sigur.

Þrátt fyrir sigur gegn Boglarka Bea (2141) í sjöundu umferð get ég ekki verið sáttur við taflmennsku mína því að á þessum tímapunkti mótsins varð ég var við það að ég var í vandræðum með að klára unnar skákir, en heppnin var mér í hag og lék hún sig ofan í mátfléttu.

Áttunda umferð var enn eitt stutta jafnteflið, gegn Iain Swan(2259).

Í níundu umferð var þreytan farin að segja til sín, enda mörg stutt jafntefli samin. Þrátt fyrir að vera með töluðvert betri stöðu samdi ég jafntefli við Paul S Cooksey (2298) en ég var missti af góðu framhaldi.

Bestu kveðjur og þakkir fyrir stuðninginn

Nökkvi Sverrisson


Bolvíkingum spáð sigri

Ritstjóri hefur gert hina hefðbundu spá um Íslandsmót skákfélaga og er Bolvíkingum spáð sigri fimmta árið í röð.

Spá ritstjóra.

 


Pistill frá Jóni Trausta um Skotlandsferð

Jón Trausti HarðarsonScottish Chess Championship 2012 sem fram fór í Skotlandi

Í fyrstu umferð fékk ég Magee  Ronan (1965) sem er á svipuðum aldri og ég og er frá Írlandi. Ég fékk frekar  verra út úr byrjuninni en náði svo að jafna taflið en ég lék síðan afleik sem hann nýtti sér og vann svo skákina.

Eftir tapið í fyrstu umferð var ég mjög ákveðinn í að vinna andstæðinginn minn sem heitir McKenna Jason P (2115) frá Englandi. Ég tefldi Drekaafbrigðið og hann kunni það nokkuð vel. Fyrstu 14 leikirnir voru allt teoría en eftir það fór hann út í vitlaust plan og fékk mikið verra. Síðan tók tímahrak við hjá mér og mér tókst einhvern veginn að klúðra því og þegar ég átti 5 sekúndur eftir gat ég valið milli tveggja leikja  í endataflinu en valdi vitlausa leikinn  og þá var þetta búið, hinn leikurinn hefði verið jafntefli. Því miður fór þetta ekki eins og ég vildi.

Í þriðju umferð fékk ég ekki léttari andstæðing. Ég fékk WFM Bea Boglarka (2178) frá Ungverjalandi. Skákin var frekar stutt en ég fórnaði skiptamun fyrir góða sókn og náði ekki að gera betur en að Þráleika. Reyndar sá tölvan einhverja vinningsleið sem ég því miður sá ekki.

Þetta var ekki góð byrjun hjá mér á skoska meistaramótinu en ég var aðeins með hálfan vinning af þrem og ekki batnaði það mikið í fjórðu umferð þegar ég fékk Floros, Antonios(1774) frá Skotlandi. Skákin var mjög illa tefld hjá mér en ég endaði á því að tapa peði og þurfti að skipta upp á öllu til að ná því til baka og þá var þetta orðið steindautt jafntefli. Ég var ekki nógu sáttur með taflmennsku mína í þessum fjörum skákum.

Í fimmtu umferð lenti ég á móti Thomas Phil (1900) frá Skotlandi. Þessa skák tefldi ég vel og fékk mjög  þægilega  stöðu út úr byrjuninni og vann skiptamun mjög fljótt. Eftir það var þetta frekar auðvelt en samt gerði ég mér aðeins erfitt fyrir en vann á endanum. Eftir skákina var ég mjög sáttur að hafa loksins unnið skák og sjálfstraustið var orðið mikið.

Í  þessari umferð fékk ég  Walker  Duncan (1991) frá Skotlandi . Ég var með hvítt og hann tefldi Winawer afbrigðið  í franskri vörn. Skákin var mjög skemmtileg og ég fékk aðeins verra en síðan átti ég einn mjög góðan leik sem kláraði skákina.

Í sjöundu umferð fékk ég Bamber Elaine (2091) frá Skotlandi. Ég var með svartan og tefldi Frakkann. Skákin var mjög auðveld fyrir mig því ég fékk allt upp sem ég var búinn að stúdera fyrir skákina. Ég var fljótt búinn að jafna taflið og hún fann ekkert betra en að þvinga drottningaskipti. Þá fór þetta út í endatafl þar sem hún var með tvo biskupa en ég var með tvo mjög góða riddara. Þetta var alltaf frekar jafnt þar til hún lék af sér og ég náði að gaffla tvö peð hjá henni og vann á endanum. Ég mun skýra þessa skák á eftir.

Skákin í áttundu umferð var frekar illa tefld hjá mér og tapaði ég frekar fljótt. Andstæðingurinn minn var MacQueen Calum (2233) frá Skotlandi. Ég var með hvítt og hann tefldi Dragondorf. Hann hafði bara tefld venjulega Drekann í beisnum svo ég var ekki undirbúinn fyrir Dragondorf. Hann fékk mun betra út úr byrjuninni og vann á endanum.

Ekki er mikið hægt að segja frá níundu umferð en hann bauð mér jafntefli í 7 leik. Ég hugsaði mér um í smá tíma en ákvað svo að taka því af því að þá væri ég búinn að tryggja mér 1. verðlaun í flokknum undir 1800 stig. Anstæðingurinn minn var Doyle James (2020) frá Skotlandi.

Í lokin vil ég segja að þetta var mjög skemmtilegt mót og þakka fyrir allan stuðninginn

Jón Trausti Harðarson


Kánas 2012 - pistill eftir Gunnar Finnlaugsson

Gunnar Finnlaugsson, arkitekinn á bakvið ævintýriðTólfta Evrópumeistaramót einstaklinga í öldungaflokki fór fram 18. til 26. ágúst síðastliðinn. Teflt var í karlaflokki (karlar fæddir 1952 eða fyrr) og í kvennaflokki (konur fæddar 1962 eða fyrr). Í karlaflokki voru 103 þátttakendur og í kvennaflokki voru þær 21.

Mótið fór fram í Litháen og teflt var í borginni Kánas, sem er viðkunnanleg borg með u.þ.b. 350 000 íbúum. Mótið fór fram í skemmtilegum sal þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja.

Ísraelsmaðurinn Almog Blustein tók fyrir nokkrum árum viðPer Ofstad sem "seniorgeneral" af Per Ofstad innan Evrópusambandsins. Hann átti að vera innstur koppur í búri hér. En stuttu fyrir mót fékk Ofstad tölvupóst frá Blustein að hann myndi ekki koma og yrði mótstjóri í Dresden í staðinn! Ofstad sem nálgast áttrætt, hætti því við þátttöku sjálfur og var bakhjarl mótshaldara. Það var fróðlegt að ræða við Ofstad um tilhögun Evrópumótanna. Hann segist hafa spurt á fundum hvort mótin eigi að vera fyrir hina mörgu og sterku eða hina ríku. Besta dæmið um hina ríku eru Norðmenn sem flykkjast á öldungamótin en eru flestir komnir niður á lægri borðin eftir nokkrar umferðir. Hinir mörgu og sterku eru auðvitað skákmenn frá gömlu austurblokkinni.

Hvað verðlag varðar eru ýmsar "nauðsynjar" svo sem dós af góðum bjór helmingi ódýrari í Litháen en hér í Svíþjóð. Hins vegar fengu Norðmenn fjórar bjórdósir í Kánas fyrir sömu upphæð og þeir borga fyrir eina í Noregi. Ekki furða að þeir flýji að heiman þegar gott skákmót er í boði .

Norðmennirnir voru fjórtán talsins, Finnarnir sex, fimm Danir. Svíarnir tveir og ég var eini Íslendinurinn. Svíarnir virðast frekar vilja tefla í liðakeppninni og voru um 20 Svíar í Rogaska Slatina í mars síðastliðnum.

Mótið fer vel fram og er teflt eftir "öldungastaðli", þ.e.a.s. níu umferðir, ein á dag frá laugardegi til sunnudags. Það eina sem ég saknaði var að ekki var hægt að fylgjast með þeim skákum sem sendar voru beint á skjá í skáksalnum.

Umferðirnar byrjuðu klukkan 10, sem sumum okkar finnst of snemmt. Á þeim fundum sem ég hef verið á í öldunganefndum hefur aðal umræðuefnið verið hvenær umferðir skuli hefjast. Mér og fleirum tókst að afstýra morgunbyrjun á Norðurlandamótinu í Reykjavík í fyrra.

Evrópumeistarinn Nikolai PuskovHinn geðþekki rússi Nikolai Pushkov vann mótið eftir spennandi keppni. Fyrsta "tiebreak" var stigaárangur og var árangur hans einu stigi hærri en hjá Kupreichhik! Ég varð samferða Pushkov í leigubíl frá Kánas til Vilníus nóttina eftir að mótinu lauk. Þar eð hinn geðþekki Rússi talaði ekki ensku og rússneskan mín er takmörkuð voru viðræðurnar ekki langdregnar. Þó skildi ég að hans besta skák var með svörtu gegn Balashov í sjöttu umferð. Franska vörnin stendur fyrir sínu!

Í sömu umferð tefldi ég eftirfarandi skák. Mér að óvörum var hún valin best skák mótsins . Verðlaunin voru 100 evrur. 

1.    d4 Rf6 2. c4 c5 3. d5 b5 4. Rc3?! "Mjúkur" leikur. Betri valkostir eru 4.cxb5 og 4.Rf3 4...b4 5. Rb1 g6 6. b3 Bg7 7. Bb2 O-O 8. Rd2 Takið eftir "reitafári"þessa riddara í framhaldinu. 8...e6! Eðlilegur leikur vegna þess að drottningarvængurinn er nú hálflæstur og kóngsvængur hvíts er vanþróaður. 9. dxe6 fxe6 10. Rgf3 Bb7 Þessi biskup ásamt hinni hálfopnu f-línu eru aðaltromp svarts í framhaldinu 11. e3 De7 12. Be2 d6 13. O-O Rbd7 14. Dc2 Bh6!? Kann að virðast sérkennilegur leikur. Ég tefldi stíft til vinnings í þessari skák og vildi geta fært riddarann á f6 án þess að til uppskifta á biskupum kæmi. 15. h3 a5 16. Had1 e5 17. Rh2 Hae8 18. Rg4 Rxg4 19. Bxg4 Rf6 20. Bf3 e4 21. Be2 Rd7 22. Bg4 Be5 23. Bxe5 Dxe5 24. Rb1 Ha8 Hér gældi ég við hugmyndina að leika a4 og tvöfalda hrókana á a-línunni. Hvítur kemur til hjálpar og setur besta varnarmann kóngsins í "rangstöðu". 25. Bd7? Hfd8 26. Bb5 Bg7 27. De2 h5 28. Td2 Dg5 29. Hfd1 Be5 30. Kh1 Kg7 31. De1 Ha7 32. Dg1 Ba8! Hvítur fer sér að engu óðslega og kemur öllum mönnum sínum í óskastöður áður en lokaatlagan hefst.  33. Hc2 Hf7 34. Hcd2 Hf6 35. Hc1 Bb7 36. Hcd1 Hdf8 37.Hc1 Dh4 38. Hcc2 Bc8 39. Df1 Hf3!! Hvítur er varnarlaus. 40. g3 Betra var að gefst upp 40... Hxg3 og hvítur gafst upp.

Lars Grahn skrifaði um mótið (INTE BARA SCHACK) og hefur birt myndir. 

Heimasíða mótsins er http://www.escc2012.eu/

Einstaklingsmót Evrópusambandsins 2013 verður í Búlgaríu, en ekki er búið að ákveða hvar sveitakeppnin 2013 verður.

Myndaalbúm (GF)


Smári Rafn: Pistill frá Pardubice

Smári Rafn TeitssonÞriðjudaginn 10. júlí 2012 héldu þrír skákmenn af stað í skákferð til Pardubice í Tékklandi. Þetta voru þeir Smári Rafn Teitsson (2057), þjálfari Íslandsmeistara barnaskólasveita (Álfhólsskóla), og tveir nemendur hans: Dawíd Kolka (1532) og Róbert Leó Jónsson (1203). Flogið var til Stuttgart og svo var tekin lest til Munchen þar sem gist var á Siddiqi Pension lengst í útjaðri borgarinnar (neðanjarðarlest á síðustu stoppistöð og svo strætó líka á síðustu stoppistöð!). Gæðin á þeim gististað voru reyndar ekki meiri en svo að eftir að hafa sloppið þaðan heilu á höldnu gekk hann undir nafninu "Shit í kúk", en nóg um það.

11. júlí tókum við svo lest til Prag og þaðan aðra á áfangastaðinn Pardubice. Við fundum eftir talsverða leit blokkina sem við búum í (blokk F, íbúð 602), hún er staðsett um 1km frá skákhöllinni.

12. júlí byrjaði svo alvaran, fyrsta mótið af fimm sem drengirnir taka þátt í og fyrsta af fjórum hjá undirrituðum (strákarnir sitja nú, 17. júlí, að tafli í parahraðskákmóti). Um sjö umferða opna liðakeppni var að ræða, fjórir í liði (F-mótið). Við fundum unga þýska stelpu til að tefla með okkur sem fjórða mann, og þótt hún hafi ekki fengið vinning erum við henni þakklátir að hafa gefið okkur möguleikann á að taka þátt. Við kölluðum liðið okkar Iceland (og biðjum alla velvirðingar á að hafa endað í 91. sæti af 103!) .Bæði Dawíd og ég hækkum á stigum, og Róbert Leó, sem er ekki með alþjóðleg stig, sýndi frammistöðu upp á 1801 stig. Sannarlega glæsilegt hjá Róberti, sem er að tefla af meiri styrk en ég hef áður séð hjá honum. Róbert Leó vann góðan sigur á +1900 stiga manni í fyrstu umferð og kom í veg fyrir að við töpuðum á núllinu (við töpuðum aldrei á núllinu í þessu móti og vorum nokkuð sáttir með það, enda sterkt mót). Róbert vann einnig +1700 stiga mann og gerði traust jafntefli við +1800 stiga mann. Róbert Leó fékk 2,5 v. í sex tefldum skákum (við fengum skottu í 4. umferð).

Hjá Dawíd vantaði oft herslumuninn, en þessi ellefu ára strákur er hér að öðlast mikilvæga reynslu. Hann fékk 1,5 v. af sex og hækkar þó um 22 stig. Hann gerði jafntefli við 1922 stiga mann í 5. umferð og vann svo örugggan sigur á 1738 stiga manni í 7. og síðustu umferð.

Eftir að hafa tapað naumlega fyrir 2084 stiga manni í fyrstu umferð hrökk Smári í gang og tapaði ekki skák eftir það. Í 2. umferð pressaði ég (Smári) stíft til vinnings með hvítu gegn Markusi Bach (2060), sem varðist vel og á endanum tók ég jafntefliboði nr. 2. Í næstu tveimur skákum vann ég býsna örugga sigra gegn 1900 stiga mönnum og í 6. umferð kom heltraust jafntefli með svörtu á móti Karel Krondraf (2173).

7. umferðin er svo kapítuli út af fyrir sig. Í mínu tilviki fyrir það að skákin tefldist svona: 1 e4: 1-0. Búið. Mér fannst skrýtið strax í upphafi umferðarinnar að lið andstæðinganna samanstóð af þrem eldri mönnum sem settust á borð 2-4. Í ljós kom að maðurinn á 2. borði þorði einfaldlega ekki að tefla við mig og ákvað að hann ætti meiri séns á mót ellefu ára snáða. Ég get ekki neitað því að það hlakkaði dálítið í mér þegar Dawíd tók hann síðan gjörsamlega í bakaríið. Þessi maður hélt því fram við mig að e-r 2010 stiga maður myndi kannski og kannski ekki mæta innan klukkutíma og tefla á fyrsta borði. Lúalegt, því þessir þrír vissu allir að skráði fyrsta borðs maðurinn myndi aldrei mæta, því þegar ég fór og kvartaði til skákstjóranna kom í ljós að sá hafði ekki teflt eina einustu skák í mótinu. Skákstjórarnir sögðust þó ekkert geta gert í málinu, en að hert yrði á reglunum fyrir næsta mót (töluðu um sektir og jafnvel brottvísanir fyrir svona framkomu). Þetta kostaði okkur að hugsanlega fyrsti (og eini) sigur okkar í mótinu var tekinn af okkur vegna þessarar óíþróttamannslegu framkomu andstæðinganna. Ég og Dawíd unnum, en Róbert og Anushka töpuðu, en öll hefðu þau átt með réttu að fá léttari andstæðinga. Talandi um óíþróttamannslega framkomu þá var reyndar mesta dramatíkin á fjórða borði, þar sem andstæðingarnir pirruðu hina tólf ára gömlu Anushku með því að vera oft að tala á meðan umferðinni stóð, og vildi hún meina að þeir hafi verið að ræða leiki í skák hennar. Á endanum varð hún mjög reið og neitaði að tefla áfram, en pabbi hennar taldi hana á að halda áfram. Það gneistaði milli hennar og andstæðingsins og þurfti skákstjórinn að standa yfir þeim. Hann bað mig að segja henni eftir skákina að hún hefði sýnt óíþróttamannslega hegðun með því að gefa ekki fyrr (hún var vissuleg miklu liði undir). Rök hans voru m.a. þau að andstæðingurinn hefði getað fengið hjartaáfall og dáið. Þrátt fyrir að það sé vissulega alltaf möguleiki finnst mér vafasamt að ætla að banna henni að tefla til enda. Ég sagði honum að patt væri alltaf möguleiki, því hlyti hún að mega lifa í voninni um það.

Í gær 16. júlí var svo parakeppni, Czech pairs rapid open, umhugsunartími 10-5. Ég og Dawíd tefldum saman og Róbert tefldi með rússneskum skákmanni. Róbert hélt áfram að tefla vel og vann meðal annars 2060 stiga mann. Við Dawíd mættum í fyrstu umferð Rússunum GM Ramil Hasangatin (2504) og IM Iulia Mashinskaya (2285). Dawíd var hársbreidd frá jafntefli, en ég gerði hið óvænta og vann stórmeistarann, slíkt hefur ekki gerst hjá mér áður. Þetta var greinilega minn dagur, því ég vann einnig Vaclav Svoboda (2386) og fleiri góða, og endaði með sex v. af sjö í nokkuð sterku móti. Minn besti árangur á ferlinum held ég að ég geti fullyrt. Í lokin voru nokkur pör lesin upp og verðlaunuð, og þar á meðal Teitsson-Kolka. Ég veit reyndar ekki nákvæmlega fyrir hvað, en allavega fannst mér við alveg eiga skilið verðlaun! Við vorum jafntefliskóngarnir, með fimm jafnteflisviðureignir (1-1), einn sigur )2-0) og eitt tap (0-2). Gerðum samt engin jafntefli í skákum okkar!

Í dag 17. júlí tefldu svo Róbert og Dawíd á Blitz pairs open (umhugsunartími: 5-0) og enduðu í 23. sæti af 26. Mótið var sterkt, og árangurinn því fullkomlega viðunandi. Vegna góðs gengis Róberts í liðakeppninni varð úr að hann tefldi á fyrsta borði og Dawíd og 2. Róbert fékk 2,5 v. af 11 og Dawíd 6/11.

Í ferðinni það sem af er höfum við þrátt fyrir allt náð að gera sitthvað fleira en að tefla, meðal annars farið tvisvar í sundhöllina og tvisvar í bíó. Veðrið hefur verið sæmilegt, þó ekkert spes. Felix og pabbi hans koma í dag og brátt bætast einnig Hannes Hlífar, Hjörvar og Siggi Eiríks í hópinn. Á morgun og hinn tefla Smári, Róbert, Dawíd og Felix í Czech Rapid Open, umhugsunartími 15-10. Skákhátíðin í Pardubice samanstendur af mörgum mótum, aðalmótið Czech Open byrjar 20. júlí.

Skrifað í Pardubice 17. júlí 2012

Smári Rafn Teitsson


Pistill Hilmis Freys frá Ítalíu

Hilmir Freyr Heimisson hefur skrifað pistil um skákmót sem hann tók þátt í Salento í maí sl

Pistill frá Ítalíu, Open Internazionale di Scacchi del Salento 2012 - Ecoresort le Sirené

19. - 26.maí 2012

Hilmir tekur við sínum verðlaunum

Eftir flug til Amsterdam, lest til Eindhoven, rútuferð á flugvöllinn í Eindhoven og þaðan með flugi til Brindisi, þar sem við þurftum að bíða eftir að vera ferjuð yfir til Gallipoli (ferð sem tók rúma klukkustund) vorum við komin á áfangastað um miðnætti. Ferðalagið tók um 18 klukkustundir.

Daginn eftir hófst svo mótið kl.16

B-mótið var 8 umferðir.

1. umferð: Andstæðingurinn var Matteo Piccinno ungur Ítali með 1227 stig, ég vann hann örugglega í 24 leikjum. Ég var með svart.

2. umferð: Andstæðingurinn var Andrea Fasiello Ítali (1934). Ég tapaði skákinni þrátt fyrir að hafa teflt ágætlega. Ég var með hvítt. Andrea Fasiello er góður í skák.

3. umferð: Andstæðingurinn var sem fyrr stigahærri en ég, Cesare Caleffi (1958) frá Ítalíu. Ég var með svart og tapaði skákinni 1) d4 - d5 2) Rf3 - Rf6 3) Bg5 - Re4 4) Bh4 - Dd6 5) c3 - hér lék ég Bf5 en hefði átt að leika Dh6 þá hefði ég verið með betri stöðu eftir því sem Caleffi sagði þegar við fórum yfir skákina.

4. umferð: Ég var staðráðinn í að vinna eftir tvö töp í röð. Andstæðingurinn var Enrico Frangi (1647), ég var með hvítt. Ég mátaði hann í 21. leik og mun sýna skákina að neðan.Vignir með bikar og Hilmir

5. umferð: Andstæðingurinn félagi minn Vignir Vatnar (1512). Vignir Vatnar hafði hvítt var kominn á flug í mótinu og vann mig eftir 65 leiki. Ég lék af mér biskup og tapaði þannig. Við erum vanir að vinna hvorn annan til skiptis, hann hafði betur í þetta sinn.

6. umferð: Andstæðingurinn var Bassini Massimo (1588) ég var með hvítt og vann eftir 39 leiki. Ég lék Drottningarbragði.

7.umferð: Andstæðingurinn var Gaetani Quaranta Ítali (1838) sem tapaði fyrir Vigni Vatnari í fyrstu umferð, hann ætlaði sér ekki að vera þurrkaður út af tveimur íslenskum drengjum og telfdi hratt á móti mér. Ég lenti skiptimanni undir í 6. leik. Eftir það var róðurinn erfiður og skákinni lauk með tapi mínu eftir 59 leiki.

8.umferð: Andstæðingurinn var Jacopo Calogiuri (1440) frá Ítalíu. Ég var ákveðinn í að vinna seinustu umferð og gerði það í 26 leikjum. Ég náði að drepa riddarann hans í 19. leik og vann þannig skákina. Ég var með hvítt.

Ég var ekki sáttur með 4 vinninga af 8 en lærdómurinn af fyrsta móti erlendis var ómetanlegur. Andstæðingar mínir voru langflestir til í að fara yfir skákirnar með mér eftir að þeim lauk og það var frábært. Ég fékk 2.verðlaun U16 ára og var glaður með það, enda félagi minn Vignir Vatnar í því fyrsta.

 Björn og Hilmir - báðir með medalíurÉg ég vil þakka IM Birni Þorfinnssyni fyrir frábæran stuðning á Ítalíu og GM Helga Ólafssyni fyrir að æfa mig fyrir mótið. Stuðningsaðilum þakka ég líka.

Bestu kveðjur og takk fyrir stuðninginn.

Hilmir Freyr Heimisson.


HM áhugamanna 2012 - Porto Carras á Grikklandi - pistill Olivers Arons

Oliver Aron Jóhannsson - a promising Icelandic playerAllar styrktarþegar hjá SÍ eiga að skila pistli um þau mót sem þeir fá almenna styrki á.  Oliver Aron hefur skrifað pistil um þátttöku sína á HM áhugamanna sem fram fór í vor í Porto Carras á Grikklandi

HM áhugamanna 2012 - Porto Carras, Grikklandi
Saga mín í mótinu

1 umferð:
Eftir mjög langt og erfitt ferðalag sem tók yfir 30 klst, þá þurfti ég að tefla fyrstu umferðina aðeins 2 tímum eftir að við komumst loks á áfangastað. Andstæðingurinn var Torill Skytte(1963) frá Noregi Þetta var ekki vel tefld skák af minni hálfu enda var ég orðinn mjög þreyttur og lúinn eftir ferðalagið.

2 umferð: Andstæðingur minn í þessari umferð var Iliana Kokana sem er 10 ára stelpa frá Grikklandi, Ég var með hvítt og vann frekar auðveldlega.

3 umferð:  Ég tefldi við Marin-Dumitru Fantana(1892) frá Rúmeníu.  Í þessari skák tefldi ég Paulsen afbrigðið í Sikileyjarvörn þar sem að hann veikti sig of mikið á svörtu reitunum og ég vann skiptamun eftir um 15 leiki og restin reyndist auðveld.

4 umferð: Í fjórðu umferð tefldi ég við Bhave Kausik(1897) sem er 15 ára strákur frá Indlandi. Þetta var fimm tíma skák og mjög erfið en í endann náði ég að vinna.

5 umferð: Í fimmtu umferð tefldi ég við Sawas Maneledis(1915) með hvítt. Þessi skák byrjaði í spænska leiknum en þróaðist einhvernvegin út í Kóngindverska vörn. Þetta var fjörug skák en ég hafði sigur að lokum.

6 umferð:Í Þessari umferð tefldi ég við Ioannis Minas(1930) frá Grikklandi en hann er þekktur fyrir að vera nokkuð aggressívur skákmaður. Ég tefldi Winaver afbrigðið í franskri vörn, staðan var mjög dýnamisk en í jafnvægi þegar hann fórnaði peði sem ég tók og náði svo að vinna hann seinna í endatafli.

7 umferð: Í sjöundu umferð tefldi ég við Alexander Liberman (1988) frá Rússlandi. Þetta var spennandi skák sem að ég vann að lokum. Ég ætla að skýra hana hér á eftir.

8 umferð:  Í þessari umferð tefldi ég við Claus Riemann stigalausan Þjóðverja sem að var efstur í mótinu fyrir þessa umferð. Eftir minna en 10 leiki byrjaði hann að hrista hausinn og féll svo niður í gólfið. Keppendur á staðnum sem voru læknar byrjuðu strax að fremja hjartahnoð sem og starfsmenn sem voru þarna. Það var kallaður til sjúkrabíll sem að flutti hann svo á sjúkrahús. Eftir langa umhugsun dómaranna var klukkan sett í gang og tíminn rann út.

9 umferð: Í þessari umferð tefldi ég við Haralambos Tsakiris (1956) sem er 16 ára strákur frá Grikklandi. Ég tefldi slavneska vörn en tefldi kannski of passívt og lenti fljótt í erfiðri vörn. Það skiptist fljótt upp í endatafl þar sem að hann var með betri stöðu en samt smá jafnteflis sjénsar fyrir mig. Við lentum báðir í tímahraki þar sem að hann náði að klára skákina nokkurn veginn.

Í endann var ég nokkuð sáttur við þriðja sætið.

Bestu kveðjur og þakkir fyrir stuðninginn
Oliver Aron Jóhannesson

Heimasíða mótsins


Pistill frá Bjarna Jens um EM taflfélaga og mót í Osló

e.m. tafl 2011 014Ég undirritaður, Bjarni Jens Kristinsson, tefldi nýverið á tveimur skákmótum. Fyrst tefldi ég á Evrópumóti taflfélaga í Slóveníu með sveit Hellis 25. september til 1. október og strax að því loknu hélt ég til Noregs þar sem ég tefldi í Elo-grúppu alþjóðlegs móts, Oslo Chess International, 2.-9. október.

Evrópumót taflfélaga (e. European Club Cup) var að þessu sinni haldið í fallegum 'spa'-bæ við suðausturmörk Slóveníu, Rogaška Slatina. Með mér í sveit voru Hannes Hlífar Stefánssson, Björn Þorfinnsson, Hjörvar Steinn Grétarsson, Sigurbjörn Björnsson og Róbert Lagerman. Bolungarvík sendi einnig sveit á mótið en í henni tefldu Stefán Kristjánsson, Bragi Þorfinnssson, Jón Viktor Gunnarsson, Þröstur Þórhallsson, Dagur Arngrímsson og Guðmundur Gíslason. Evrópumótið var óvenju slakt í ár en það vantaði elítuna sem var að tefla á sama tíma á Stórslemmumótinu í Sao Paulo og Bilbao. Einnig var heimsbikarmót FIDE í Rússlandi nýafstaðið og sumir voru kannski of þreyttir eftir það til að tefla á Evrópumótinu. Þaðan komu samt Ponomariov (2758, nr. 8 á heimslistanum) og Grischuk (2757, nr. 9) glóðvolgir og voru stigahæstu menn Evrópumótsins.

Þetta var mitt fyrsta Evrópumót taflfélaga og jafnframt langsterkasta skákmót sem ég hef tekið þátt í. Ég tefldi 6 skákir á mótinu, þar af tvær við ofurstórmeistara með 2600+ stig! Ég tapaði báðum þeim skákum, sem og fyrir Guðmundi Gíslasyni þegar við tefldum við Bolungarvík í 3. umferð. Ég vann svo hinar fjórar skákirnar mínar; einn mætti ekki, annar var stigalaus og hinir tveir voru með rétt rúm 2200 stig. Fyrir vikið hækka ég um 17 stig sem verður að teljast gott fyrir svona stutt mót. Ég var í fínu formi á mótinu og undirbúningurinn fyrir hverja skák var góður. Það sýndi sig best í 2. umferð þegar ég kom GM Khismatullin (2635) á óvart í Alapin afbrigði Sikileyjarvarnarinnar með 10.d5!? sem ég sá fyrst í skák hjá Marie Sebag. Því miður náði ég ekki að fylgja undirbúningnum eftir og tapaði skákinni fyrir rest.

Það er margt sem stendur upp Slóveníu ferðinni og ég ætla bara að nefna nokkur atriði. Til að byrja með var æðislegt að fá að tefla í sama móti og 2700+ kanónur, þó ég hafi saknað 2800+ elítuna. Liðsandinn var frábær og Don Roberto stóð sig með prýði sem kapteinn liðsins. Bjössi og Vigfús sáu um öll skipulagsatriði og því þurfi ég bara mæta og tefla (like a boss). Sigurbjörn náði sínum fyrsta IM áfanga og Stebbi fór hálfa leið með að verða stórmeistari. Loks vil ég segja að Rogaška Slatina er einn fallegasti bær sem ég hef heimsótt!

Morguninn eftir mótið flaug ég til Noregs þar sem ég tefldi á 9 umferða kappskákmóti í miðborg Oslóar. Ég var 7. stigahæsti keppandinn af 54 og tefldi allt mótið niður fyrir mig. Heilt yfir gekk mér mjög illa en með góðum endaspretti rétti ég aðeins úr stigatapinu og endaði í 15. sæti og tapaði 15 stigum. Ég átti í miklum erfiðleikum með 7. borðið en á því borði tókst mér ekki að vinna skák heldur tapaði tveimur og gerði tvö jafntefli. Á þessu borði tapaði ég samtals 28 stigum!

Ég fékk að gista hjá systur minni í Osló þ.a. mótið var mjög ódýrt fyrir mig. Það var í rauninni eina ástæðan fyrir því að ég tók þátt í mótinu. Vissulega tapaði ég skákstigum á því en ég lagði inn í  Reynslubankann sem er að gefa góða vexti þessa dagana. Þeir segjast ætla að borga mér út arð áður en ég fer til Ungverjalands í nóvember að tefla á tveimur mótum!

Osló, 22. október

Bjarni Jens Kristinsson

Skákirnar fylgja með í PGN og CBV.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Pistill frá Sóleyju um Saint Ló

Sóley Lind Pálsdóttir, sem hlaut styrk til að taka þátt í alþjóðlegu unglingamóti í Saint Ló Frakklandi, hefur skrifað ítarlegan og myndskreyttan pistil um mótið sem hún tók þátt í nýlega.  Hér að neðan má sjá pistilinn.  Í PDF-viðhengi sem fylgir með má sjá hann myndskreyttan og tvær skákir skýrðar.  Sömu skákir fylgja einnig með fréttinni.  Slóð á viðhengið má finna hér.

Sóley fær kærar þakkir fyrir frábær efnistök.

Frakkland 2011 - Skákmótið í Saint Lo 7.-14. júlí

Mótið var sterkt.  Elstu krakkarnir voru fæddir 1993 og teflt var í mörgum flokkum frá U10 ára og upp í U18. Stigahæsti skákmaðurinn var með um 2400 FIDE-stig. Umhugsunartími var einn klukkutími og 30 mínútur á 40 leiki og svo bættist við hálftími til að klára. Auk þess bættust við 30 sekúndur á leik.

Í undirbúningi fyrir mótið þá var ég í skákkennslu hjá Daví ð Kjartanssyni með stelpuhóp úr Kópavogi og Garðabæ sem haldið var í Kópavogi.  Einnig fór ég í sumarbúðir í Svíþjóð þar sem ég var í kennslu hjá Vladimir Poley alþjóðlegum skákmeistara.

En þá aftur að mótinu sjálfu. Ég tefldi níu skákir og byrjaði vel með því að vinna 2 fyrstu skákirnar, en síðan fór heldur að halla á og ég fékk bara 2 jafntefli í viðbót í mótinu og var um að kenna að ég tefldi full passívt skv. þeim sem fóru yfir skákirnar mínar.

En þá að mótinu sjálfu.

Andstæðingur og úrslit.

Nafn

Stig

Flokkur

Land

Vinningur

DALARUN Adelie

1390

Min

FRA

1

GLOTIN Adrien

1490

Pup

FRA

1

CHAMERET Jean

1705

Min

FRA

0

AZOUNI Anais

1431

Pup

FRA

0

ERIKSSON Carl

1380

Ben

SWE

0

VERHAEGEN Valentine

1420

Ben

FRA

½

LEFEBVRE Alexandre

1450

Pou

FRA

½

PAILLARD Eliott

1508

Ben

FRA

0

AUBRUN Cecilia

1443

Min

FRA

0

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Samtals urðu þetta því 3 vinningar í 9 skákum og performance um 1330 sem er hærra en stigin mín en á móti tefldi ég 4 FIDE-stigaskákir og tapaði öllum.

Aðstæður á mótsstað voru góðar, og gistiaðstaðan einnig sæmileg.

Eftir allar skákirnar fór ég og fékk að yfirfara skákirnar með alþjóðlegum meisturum sem voru annað hvort Vladimir Poley eða einhver annar alþjóðlegur meistari.

Allir krakkarnir sem tefldu í unglingamótinu fóru heim með verðlaun.

Einnig fóru á mótið Páll Sigurðsson, pabbi minn sem tefldi í opnum fullorðinsflokki og frændi minn Baldur Teodor sem gekk mjög vel og endaði í 2 sæti í sínum flokki 10 ára og yngri . Þeir enduðu báðir með 5 vinninga af 9 mögulegum.

Til hliðar við mótið voru allskyns viðburðir.

T.d. tók ég þátt í liðakeppni í hraðskák þar sem hvert lið mátti ekki hafa meira en samtals 9900 skákstig. (6 í liði) og tefldum við Baldur í sameiginlegu liði íslendinga og Svía og lentum í 3. Sæti. Okkar lið var skipað þeim Patrick Lyrberg, Vladimir Poley, Adam Eriksson, Carl Eriksson, Teodor og mín.

Einnig kepptum við í svokölluðum fun games þar sem við þurftum að keppa í allskyns þrautum.

Auk þess þegar skák var lokið fór ég a.m.k. þrisvar sinnum með frænku minni á ströndina, sem var um 40 km norðar.

Tenglar mótstöflur og úrslit.

Að lokum koma hér 2 skákir úr mótinu. Þær eru einnig að finna í meðfylgjandi skrá.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

SA-pistill

Enn fjölgar pistlum um Íslandsmót skákfélaga.  Áskell Örn Kárason, formaður Skákfélags Akureyrar, hefur skrifað einn slíkan sem finna má á heimasíðu SA.   

Ritstjóri mun safna saman pistlum á einum stað og birta fréttir þegar fleiri pistlar liggja fyrir en a.m.k. pistill frá KR-ingum er væntanlegur í hús.   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 10
  • Sl. sólarhring: 27
  • Sl. viku: 145
  • Frá upphafi: 8765249

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 116
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband