Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Pistlar

Pistill Braga frá Riga

Bragi Þorfinnsson

Pistill frá Braga Þorfinnssyni þar sem hann fjallar um alþjóðlegt mót í Riga í fyrrasumar.

Eftir miklar vangaveltur í sumar ákváðum við bræður að leggja land undir fót og skella okkur á skákmót. Það höfðum við ekki gert tveir saman síðan við lögðum upp í mikla frægðarför til Hastings á því dramatíska og sögulega ári 2001. (Þar tapaði ég 20 stigum og Björn sópaði upp 20 stigum ef minnið svíkur mig ekki). Miðað við árangur okkar að þessu sinni er líklegt að við tökum aftur skákferð saman eftir svona tíu ár. Fyrir valinu varð alþjóðlegt mót í Ríga, Lettlandi. Björn var sérstaklega hlynntur að tefla þarna þar sem að með því bætti hann við öðru landi, í fáránlega kúl landaleikinn sinn (sem gengur einfaldlega út á það að hann heimsæki sem flest lönd). Ég var líka með einhverjar rómantískar Tal sögur í kollinum, beint upp úr bókum Sosonko, þannig að ég var auðveldlega sannfærður. Ríga var málið. Það var allt að því barnsleg tilhlökkun í okkur, þegar við lögðum af stað í þessa reisu. Gleði Björns bróður er jafnan einlæg og smitandi. Það er skemmst frá því að segja, að við náðum ekki að sýna okkar bestu hliðar í þetta skiptið. Þó var ekki um að ræða einhvern harmleik á 64 reitum en við vitum báðir að við eigum að gera betur. En ferðin var ánægjuleg í alla aðra staði og lærdómsrík á marga vegu.

 Ég hef aldrei verið sérstaklega mikill aðdáandi morgunumferða og það sýndi sig í þessu móti. Helsti gallinn á því var að tvisvar sinnum voru tefldar tvær umferðir á dag (2. og 3. umferð, sem og 5. og 6. umferð) Þá voru tímamörkin 90 30 á alla skákina, þ.e. enginn viðbótartími eftir 40. leikina. Maður var einfaldlega mættur í gamla góða íslenska deildakeppnisfyrirkomulagið þarna úti.  Það hentaði mér e.t.v. illa þar sem ég var frekar æfingalaus eftir sumarið. Ég fór þó ágætlega af stað í mótinu og var kominn með 3 af 4. Hlutirnir fóru að fara úrskeiðis í 5. og 6. umferð. Í þeirri fyrri mátti ég sætta mig við tap í langri skák gegn ungum óbilgjörnum Rússa, en í þeirri síðari missti ég gjörunna stöðu niður í jafntefli gegn lettneskum heimamanni. Ég náði aðeins að laga stöðuna með 1,5 af 2 í næstu umferðum en tap í síðustu (eldhress morgunumferð) lét mann verða fyrir vonbrigðum með mótið í heild. Það er alltaf mikilvægt að tapa ekki í síðustu umferð á skákmótum.

Við bræður nutum þess þó vel að vera í Ríga, það er falleg borg sem hefur upp á margt að bjóða. Við kíktum m.a. minnisvarða um Mikhail Tal, sem var staðsettur í stórum og blómlegum almenningsgarði. Það er einnig vel hægt að mæla með þessu móti, af mörgum ástæðum. Keppnisstaðurinn er vel ásættanlegur og mótið er sterkt. Þá er stutt að ganga í allar áttir og góðir veitingastaðir út um allt. Þá sýndi það sig að það er einnig heppilegt fyrir áfangaveiðara. Til dæmis náði Færeyingurinn og öðlingspilturinn Helgi Ziska sínum fyrsta stórmeistaraáfanga í mótinu og það var ánægjulegt að verða vitni að því.

En að lokum kemur hér skák sem ég tefldi við ísraelskan skákmann í 2. umferð mótsins: 

Bragi Þorfinnsson


Pistlar Guðmundar Kjartanssonar

Guðmundur Kjartansson í DubaiÍslandsmeistarinn Guðmundur Kjartansson er um þessar mundir að tafli á alþjóðlegu móti í Finnlandi Á meðan beðið er frétta af Guðmundi í dag er tilvalið að renna yfir eldri pistla frá honum um mótahald á Spáni, Kosta Ríka og Kolumbíu í fyrra.

Með pistlunum fylgja með 7 skákir/skákbrot frá þessum mótum.

 

Spánn 2013

Hæ! Nú er ég staddur í Figueres, Spáni þar sem ég er að klára fimmta mótið af sjö sem ég tek þátt í í sumar, sem er aðeins meira heldur en ég er vanur. Ég ákvað að skella mér hingað til Spánar því hér get ég tekið mót eftir mót í Katalóníu mótaröðinni. Fyrsta mótið sem ég tók þátt í var í Montcada sem er nánast í Barcelona, og verður að teljast þrælmorkinn staður! Ef menn eru að hugsa um að taka mót hér á Spáni eða nálægt þá mæli ég frekar með Benasque eða Andorra sem eru virkilega flottir staðir upp í fjöllunum! Eftir Andorra fór ég svo aftur til Barcelona og tók þátt í fjórða mótinu og loksins hingað til Figueres!

Hingað til hefur ekki gengið neitt sérstaklega en samt hefur alltaf verið eitthvað jákvætt í hverju móti og er ég viss um að þetta muni allt saman skila sér fyrr eða síðar!

Figueres er líka nokkuð skemmtilegur staður, teflum í kastala eða kastala virki, sem er ekki hægt að kvarta yfir. Svo er hinn frægi súrrealiski listamaður og einn helsti listamaður Spánar fyrr og síðar, Salvador Dali, héðan. Ég er reyndar enn þá eftir að kíkja á safnið, en geri það líklega í dag eða á morgun. En það sem stendur upp úr í þessu móti er atvik sem átti ser stað í gær í sjöundu umferðinni. Einn keppanda í mótinu mætti með yfirvaraskegg í skákina sem væri ekki frásögu færandi, nema hvað..... að í kringum fimmtánda leik var yfirvaraskeggið horfið!! Mikil ráðgáta sem er óleyst enn þann dag í dag.

Á morgun klárast mótið og fæ ég þá loksins smá hvíld þangað til næsta mót hefst í Barcelona 23.ágúst, Sants Open, sem er líklega sterkasta mótið sem ég tek þátt í í sumar svo ég er nokkuð spenntur fyrir því. Eftir það tek ég þátt í móti í Sabadell sem er ekki langt frá Barcelona.... og svo loksins heim!

Undanfarið hef ég verið að leggja meiri áherslu á endatöfl og var ég nýlega að klára að lesa bók eftir GM Jesús de la Villa sem heitir „100 endatöfl sem er mikilvægt að þekkja" sem ég mæli eindregið með, ætti að vera hægt að fá hana hjá Sigurbirni!

Ég hef teflt mikið af áhugaverðum endatöflum núna í sumar, m.a. 4 hróksendatöfl sem ég ætla að fara yfir. Út af stuttum tímamörkum eru þessi endatöfl reyndar frekar illa tefld. Ég er aðeins með FireBird 1.31 en ekki Houdini svo það er mjög líklegt að það séu einhverjar villur í stúderingunum.

 

Kosta Ríka og Kólumbía 2013 

Eftir EM landsliða í nóvember sl. fórum við Hannes Hlífar til Kosta Ríka til að taka þátt í deildakeppninni þar í landi. Eftir mótið stóð til að hafa nokkuð sterkan lokaðan stórmeistaraflokk en því miður var hætt við það og í staðinn haldið opið mót sem var ekkert sérstakt. Svo fór Hannes til Nicaragua til að taka þátt í öðru móti en ég ákvað að taka þátt í opnu móti í Kólumbíu í staðinn, Hannes vann öruggan sigur í Nicaragua en ég lenti í 4. sæti í mínu móti, hér eru 2 áhugaverðar stöður sem komu upp hjá mér.  

 


Björn Þorfinnsson: Pistill frá Riga

Bræður Bragi og BjörnHér birtist pistill frá Birni Þorfinnssyni frá Riga í fyrra í ágúst.

Pistill Björns

Í byrjun ágúst héldum við bræðurnir til Ríga-borgar í Lettlandi til að taka þátt í þriðja Riga Open mótinu. Ríga er náttúrulega afar þekktur staður í skáksögunni þökk sé töframanninum sem þar fæddist og bjó en þrátt fyrir það hefur verið skortur af alþjóðlegum mótum þar fyrir almennan skákmann. Nú hefur orðið breyting þar á með móthaldi Egons Lavendelis og félaga og metnaðurinn er mikill - mótið á að verða eitt sterkasta opna mót heims.

Það er óhætt að segja það að Lavendelis sé að gera margt gott. Sjálft mótið er sérstaklega þétt (þökk sé flokkaskiptingu þar sem A-flokkur er yfir 2150), verðlaunin er nokkuð góð þó að þeir ætli að gera betur þar á næstu árum og öll skipulagning var með miklum ágætum. Staðsetning mótsins var svo algjörlega frábær - í hjarta gamla bæjarins í Ríga sem er einstaklega fallegur og iðandi mannlíf hvert sem augu litu.

Hinsvegar er náttúrulega ýmislegt sem að mátti bæta og helst voru það sjálfar aðstæður á skákstað því að teflt var í Riga Technical University sem er hreint ekkert svo tæknilegur, amk ekki sjálf byggingin. Engin loftræsting var á skákstað og þar sem mikill hiti var í Riga í ágústmánuði þá var oft ansi loftlaust og agalegt á skákstað. Skipuleggjendur brugðu á það ráð að hafa alla glugga opna, sem gerði í raun lítið gagn, en þá bárust inn iðandi tónar frá einhverju þéttasta brassbandi sem ég hef heyrt í. Þetta ágæta brassband spilaði á torginu fyrir framan skákstaðinn frá morgni til kvölds, stanslaust allan daginn. Ég var fullur aðdáunnar yfir vinnuseminni til að byrja með en til lengri tíma var þetta orðið ansi þreytandi.

Eitt sérstaklega skemmtilegt móment tengt sveitinni átti sér stað í fyrstu umferð hjá mér þegar ég skrúfaði niður sterkum leik sem var síðasti naglinn í líkkistu andstæðingsins. Uppgjöf hans var eini raunhæfi kosturinn en á meðan hann hugsaði sinn gang þá byrjaði sveitin að spila frábæra útgáfu af "We are the champions" með Queen!

Annað stórkostlegt atriði átti sér stað um miðbik mótsins, á afar heitum degi þegar að tvöföld umferð fór fram. Ég var að rölta um salinn þegar mér verður litið til skákmanns (sem síðar kom í ljós að var Lithái) sem fer allt í einu að vagga skringilega. Ég hélt fyrst að maðurinn væri drukkinn en svo allt í einu sé ég hvernig það hreinlega slokknar á honum og hann hrynur í gólfið eins og kartöflupoki. Ég verð að viðurkenna að ég fraus á þessu augnabliki, enda sannfærður um að maðurinn væri dauður, en sem betur fer voru aðrir aðilar fljótir á vettvang og veittu manninum aðhlynningu. Hann náði fljótlega meðvitund og steig á fætur en var augljóslega frekar ringlaður. Hringt var á sjúkrabíl að sjálfsögðu og skákstjórar lögðu hart að manninum að koma fram og reyna að jafna sig. Þá kom það í ljós að maðurinn sat enn að tafli og það gegn enskum vini mínum Ed Player. Playerinn hafði fylgst með því sem gekk á og seinna á veitingarstað sem við sóttum gjarnan sagði hann mér: "I wasnt hoping he was dead or anything, I was just hoping he would have to resign the game!". Þess má þó geta að þrátt fyrir þetta tækifærissinnaða svar Players þá er drengurinn einstakt heiðursmenni eins og síður kemur í ljós. En aftur að Litháanum. Á þessu augnabliki ruddist hann að borði þeirra Players, þar sem hann átti leik, og fór að hugsa næsta leik. Player bauð honum þá jafntefli sem var fallega gert því hann var mun stigahærri en Litháinn. Litháinn leit þá upp, og ég mun seint gleyma því hvað hann var gjörsamlega vankaður á að líta, og neitaði þessu jafnteflisboði samstundis! Einstakt karlmenni þar á ferðinni! Niðurstaðan varð þó sú að þegar að sjúkraflutningsmennirnir komu að ná í manngarminn þá sættust þeir félagarnir á skiptan hlut.

En að mótinu sjálfu. Bragi bróðir mun fjalla um sinn árangur í öðrum pistli og því verður þetta eingöngu egósentrískur pistill af eigin óförum.

Mótið byrjaði vel hjá mér gegn sigrum gegn tveimur ungum skákmönnum frá Litháen og Eistlandi. Sá fyrsti, Tavrijonas frá Litháen, féll í gömlu góðu gildruna mína í Cozio-afbrigðinu í Spanjólanum. Þar tapaði hann peði og ég kláraði það mjög sannfærandi. Ég var afar sáttur við það enda sá ég drenginn tefla hraðskákir fyrir umferðina og var frekar smeykur að mæta honum. Hann var líka bara skráður með 2117 stig en endaði með því að taka grjótharðan IM-norm í mótinu og græða 57 stig! Eins og áður segir þá var næsta skák gegn Havame frá Eistlandi sem að fékk að vera með í A-flokki á undanágu enda aðeins með 1985 (græddi svo yfir 30 stig í mótinu). Ég var eiginlega miður mín yfir þessari pörun í því að skv. öllum líkindum hefði ég átt að vera í neðri hluta þeirra sem höfðu 1 vinning og mæta þá sterkum stórmeistara og það með hvítt. Vegna ótrúlegs fjölda af óvæntum úrslitum í fyrstu umferð þá var ég allt í einu kominn í efri hópinn og fékk þar af leiðandi stigalægsta manninn með 1 vinning. Þetta þýddi að meðalstigin mín voru farin til fjandans og Björninn var orðinn neikvæður og fúll strax í byrjun móts. En skákin sjálf var góð þar sem að ég sá einum leik lengra en andstæðingurinn í langri þvingaðri atburðarás og vann lið og stuttu seinna skákina.

Skákin í þriðju umferð var gegn vini mínum og allra Íslendinga, Aloyzas Kveinys. Einhverja hluta vegna þá gengur mér ömurlega gegn kallinum og því bölvaði ég þessari pörun í hástert þegar hún var birt. Þá erum við komnir að kjarnanum í málinu og að mínu mati helstu ástæðunni fyrir ömurlegu móti - en það voru neikvæðar hugsanir. Strax í fyrstu umferð fannst mér ég óheppinn með andstæðinga og það var gegnum gangandi allt mótið og það leiddi af sér enn fleiri slíkar hugsanir og að endingu, um miðbik mótsins, þeirri niðurstöðu að þetta væri hreinlega ekki "mitt mót". Það leiddi svo eiginlega til andlegrar uppgjafar og kæruleysis. Ég er búinn að hugsa mikið um þetta síðan ég kom heim og held að ég hafi lært gífurlega á þessari reynslu, amk vona ég það. Maður verður einfaldlega að temja sér jákvæðar hugsanir og halda fullri einbeitingu í erfiðum mótum.

En ég fór samviskusamlega niður eins og spangólandi hundur gegn Aloyzas og skil ekki enn hvað gerðist. Fannst ég vera með fína stöðu eftir byrjunina en allt í einu var erfitt að finna góða leiki og svo var ég bara kominn í djúpan skít :)

Næsta skák gegn Lettanum Mustaps var eiginlega vendipunkturinn. Ég var hægt og rólega að kreista úr honum drulluna í Benköbragði þegar ég lék af mér peði og þar með vinningsstöðu í fáránlegri fljótfærni. Ég titraði af taugaveiklun eftir þessi mistök og var næstum því búinn að leika samstundis leik sem hefði verið svarað nánast með sama trikkinu og það þýtt að ég hefði getað gefist upp. Sem betur fer náði ég að hemja mig, anda rólega og finna leið sem gerði mér kleift að halda jafntefli með herkjum.

Næstu skákir voru gegn 2200-mönnum sem voru í fínum áfangamöguleikum og þrátt fyrir harðar baráttur og miklar sviptingar þá tókst mér ekki að vinna þær. Skákin gegn Kretainis var t.d. helsjúk og sveiflaðist á alla kanta í brjáluðu tímahraki. Kretainis fékk svo frábæran IM-norm.

Síðasti þriðjungur mótsins var svo algjör harmsaga þar sem að ég fékk aðeins 1 af 3 og sá vinningur var algjör tröllagrís gegn ungum Letta sem bugaðist algjörlega eftir að ég slapp með skrekkinn. Á þessum tímapunkti var ég farinn að tefla afar kæruleysislega og þó að það virki stundum hjá mér þá toppaði ég það með því að tefla líka ömurlega illa í þokkabót. Ég var feginn þegar mótið var búið og niðurstaðan 4,5 af 9 og 18 stig í mínus er árangur sem að ég verð í smátíma að jafna mig af.

Hvað sem harmsögu minni í mótinu líður þá var mót þetta frábær upplifun í alla staði. Ég get ekki mælt nógsamlega með Rígaborg og þar sem að metnaður mótshaldara er mikill þá held ég að það sé óhætt að mæla með því að menn skoði það að herja á Rígaborg að ári.

Virðingarfyllst,

Björn Þorfinnsson,
International master of disaster.


Heimir Páll: Pistill frá Pardubice

Heimir PállÞá er haldið áfram með birtingu pistla frá síðasta ári. Að þessu sinni er það pistill Heimis Páls Ragnarssonar frá Czech Open.

Haldið var af stað til Tékklands þann 19. júli til að taka þátt í Czech Open. Dawid Kolka og Felix voru með ásamt pabba Felix honum Steinþóri.  Ég hef aldrei áður komið til Tékklands og fannst mér Prag mjög flott borg en við forum þangað fyrst áður en við komum til Pardubice þar sem skákmótið var haldið.  Við fengum fínt hótelherbergi, bara við strákarnir sér, Steinþór var i öðru herbergi.  Steinþór og pabbi voru samt eitthvað að kvarta yfir engri loftræstingu.

Þegar við mættum fyrsta skákdag á staðinn þar sem mótið var haldið þá fannst mér frekar heitt enda var  líka um 34-37 stiga hiti úti alla ferðina. Þetta var í stórum íþróttasal, íshokkíhöll held ég. Ég verð að viðurkenna að fyrir fyrstu skákina þá var ég stressaður. Ég lenti á móti gömlum Tékka sem var með 1770 elo stig.  Ég náði góðu jafntefli sem ég var mjög sáttur við.  Lék þar góðum drottningarleik sem tryggði mér þráskák.

Steinþór hafði það sem reglu að fyrir hverja umferð að við skildum fara með honum yfir skákina frá umferðinni áður og reyna að skoða næsta andstæðing. Eftir skákgreiningu gerðum við oft eitthvað skemmtilegt áður en næsta umferð byrjaði. Fyrir aðra umferð fórum við t.d. í borðtennis. Í þeirri umferð lenti ég á móti öðrum tékkneskum manni sem var með um 1750 stig og gerði ég þar einnig jafntefli í hörkuskák.

Í þriðju umferð vann ég rússneskan strák sem var einu ári yngri en ég en hann var með 1755 stig. Ég var minna stressaður nú en fyrir fyrstu skákina. 

Sama dag var tefld 4. umferð þar sem ég tapaði fyrir öðrum Tékka en hann var með 1823 stig. Langur dagur fengum okkur KFC og horfðum á bíómynd. Okkur strákunum gekk illa á tvöfalda deginum - töpuðum allir.

Steinþór fór með okkur í Lazertag fyrir 5. umferð, það var mjög gaman.

Fimmta og sjötta umferð voru ekki góðar, lék af mér illa í 19. leik og tapaði fyrir enn einum Tékkanum með yfir 1700 stig. Hefði vel getað haldið jafntefli  á móti þýskri stelpu í 6 umferð en missti af því. Hér hafði ég tapað þremur skákum í röð og sjálfstraustið svoldið farið. En ég átti mjög góðan endasprett!

Pabbi kom eftir 6. umferð og var með okkur út ferðina.  Eftir skákgreiningu fórum við í mjög skemmtilegt klifur í köðlum hátt uppi og var það frábært.

Í sjöundu umferð náði  ég góðum sigri á móti þýskum manni með 1616 stig, hefði reyndar geta tapað en eftir skákina sá ég að hann hefði lokað drottninguna mína inni.

Í áttundu og næstsíðustu umferðinni var ég búinn að fá sjálfstraustið aftur eftir sigurinn í umferðinni áður.  Þessi skák var miklu styttri en hinar eða aðeins 17 leikir. Ég bauð jafntefli þar sem mér fannst staðan vera mjög jöfn eða jafnvel verri á mig.

Átti langa góða skák á móti þýskri skákkonu með rúmlega 1700 stig í síðustu umferð. Í lok skákar var ég með mjög lítinn tíma en auka 30 sekúndur á leik urðu til þess að ég gat klárað það sem ég ætlaði mér.  Semsagt góður sigur í síðustu skák. Mín besta skák á mótinu sem ég skýri hérna á eftir.

Ég lærði mikið í þessari ferð enda töluvert öðruvísi en því sem ég var vanur heima. Fyrir frammistöðuna hækkaði ég um heil  49 skákstig.

Heimir Páll Ragnarsson.


Jón Trausti: Pistill frá Pardubice

Jón TraustiEnn höldum við áfram með óbirta skákpistla. Síðari pistill dagsins er frá Jón Trausti Harðarsyni sem fjallar um Czech Open-mótið í Pardubice eins og frá svo mörgum öðrum sem sóttu það mót. 

Ég og nokkrir aðrir Íslendingar lögðum á stað til Tékklands þann 18. júlí. . Mótið var haldið í Pardubice og voru aðstæður mjög fínar. Þegar við vorum komnir á áfangastað og ætluðum að fara skrá okkur inná Harmony hotel en þá hafði orðið einhver misskilningur um dagsetninguna. Við áttum pantað herbergi í júní! og öll herbergin voru full. Við létum þetta ekkert á okkur hafa og löbbuðum um miðbæinn að leita af nýju hóteli. Við fundum ágætt hótel sem heitir Hotel laba. Það var mjög nálægt skákstað en það var engin nettengin né loftkæling.

1. umferð

Í fyrstu umferð fékk ég Grigorian Roudolph ungling frá Frakklandi með 2062 stig. Ég lék 1.d4 eins og ég var búinn að undirbúa fyrir mótið en hann svaraði með 1.d6. Ég ákvað þá bara að fara út í pirc vörn með því að leika 2.e4. Skákin var alltaf mín megin en það var ekki fyrr en seint í skákinni sem hann lék smá ónákvæmt sem kostaði hann skákina. Fyrsti sigurinn kominn í hús.

2.umferð

Ég var eiginlega ekkert búinn að undirbúa fyrir þessa umferð enda var andstæðingurinn Stock Andreas (2096 stig) minn búinn að tefla nánast allt. Hann tefldi eitthvað decline afbrigði á móti grunfeld vörn sem ég kunni lítið sem ekkert í. Skákin var frekar spennandi á köflum en í endataflinu stefndi þetta í jafntefli. Í 27.leik bauð hann mér svo jafntefli en það var akkúrat þegar hann lék lélegum leik. Ég fattaði það og auðvitað neitaði. Þetta var samt ekki búið. Staðan var (-0,47) en ég endaði bara á því að svíða hann í hróksendataflinu.

3.umferð

Í þriðju umferð fékk Stock Andreas (2096 stig) mann frá Þýskalandi. Hann var alltaf búinn að tefla benko gambit og ég var með skothellt vopn á móti því svo ég var bara frekar feginn.  Ég mætti mjög rólegur í skákina en andstæðingurinn minn ákvað þá auðvitað að eyðileggja það allt með því að tefla eitthvað sem kallast gamli benko gambiturinn. Leikjaröðin var svona 1.d4 c5 2.d5 Rf6 3.c4 b5 4. cxb5 a6 5. bxa6 e6. Ég er bara nýbyrjaður að tefla 1.d4 þannig að ég hafði aldrei séð þetta áður. Eftir byrjunina fékk ég skítastöðu en náði að fara útí aðeins verra endatafl á mig og halda því. Skákin endaði því með jafntefli.

4. umferð

Í fjórðu umferð fékk ég næst stigahæsta skákmanninn í B-flokk. Hann heitir Jan Turner og er með 2362 stig. Ég var með svart í þessari skák. Hann tefldi ekkert sérstaka byrjun og náði ég að jafna taflið mjög fljótt. Mér tókst einhvern veginn að klúðra stöðunni minni og þá var ekkert meira en jafntefli sem ég gat náð. Ég var búinn að halda endataflinu mjög vel en það var síðan í sirka 70. leik sem ég staðsetti kónginn minn illa og þá tapaði ég annars hefði þetta verið steindautt.

5. umferð

Í fimmtu umferð mætti ég þjóðverja að nafni Webner Dennis (2057 stig). Ég fékk mjög góða stöðu en lék síðan klaufalega af mér tveimur peðum. Skákin var samt ekki búinn því að ég komst útí gott endatafl með mislituðum biskupum. Líklegast var það jafntefli en mér tókst ekki að halda því svo ég tapaði skákinni.

6. umferð

Þessa skák mun ég skýra hér fyrir neðan en þá var ég að tefla við Drozdov Vladimir E (2027 stig) frá Rússlandi.

7. umferð

Í sjöundu umferð mætti ég Tékkneskum manni með 2090 stig. Ég var með hvítt og hann tefldi Von hennig -Schara gambit sem er 4. cxd4 í Tarrash vörn. Skákin var frekar stutt því mér tókst að leika af mér og tapa skákinni.

8. umferð

Í áttundu umferð mætti ég konu frá Póllandi með 2028 stig. Ég telfdi Breyer afbrigði í spænska leiknum. Þessi skák var líklegast sú lélegasta hjá mér á mótinu. Ég hélt að allt væri í gúddi þangað til ég missti af taktík og tapaði skákinni.

9. umferð

Í níundu umferð fékk ég andstæðing frá Tékklandi með 2008 stig. Ég lék 1.d4 og hann svaraði því með benoni defence. Ég tefldi sideline sem hann greinilega kannaðist ekkert vel við því ég fékk miklu betri stöðu eftir byrjunina. Hann komst eitthvað smá inn í skákina í endann en það var samt ekkert hættulegt svo ég endaði á því að vinna.

Ég endaði með 4,5 vinning á mótinu og græddi 31 stig. Ég er alveg sáttur en þetta hefði alveg getað verið betra. Í  lokin vil ég þakka Skáksambandi Íslands fyrir frábæran stuðning.

Jón Trausti Harðarson


Felix: Pistill frá Pardubice

img_5868_1233317.jpgÁfram verður haldið með birtingu pistla frá síðasta ári. Fyrri pistill dagsins er Felix Steinþórssyni sem sótti heim Czech Open í Pardubice.

Í vor ákváðum við félagarnir ég, Dawid og Heimir úr Helli að fara á Czech Open í Pardubice.  Skákhátíðin í Pardubice er alveg frábær og hægt er að velja úr fjölda viðburða. Ég fór á mótið í fyrra og hafði mjög gaman þannig að ég var spenntur fyrir að fá að komast aftur á þetta mót.

Við skráðum okkur í keppni D þ.e.a.s. opinn flokk þar sem hámarksstig voru 2000. Það voru ríflega 220 aðilar sem tóku þátt í þessum flokki en í heildina voru yfir 1100 þátttakendur í mótinu í heild. Auk okkar þriggja Hellisbúanna voru á mótinu nokkrir aðrir íslendingar sem voru reyndar allir að keppa í efri flokkunum utan pabba sem skráði sig í 1800 stiga flokkinn svona til að hann hefði eitthvað að gera meðan við strákarnir vorum að tefla.

Aðstæður í Pardubice eru allt aðrar en við eigum að venjast. Mótið er haldið í stórri íþróttahöll. Með yfir 1100 manns á gólfinu í einu er erfitt að gera ráð fyrir 100% þögn í salnum og í rauninni var nokkuð ónæði af klið og braki í tréplönkunum sem voru notaðir sem gólf. Það var þröngt á þingi en allt var þetta svo sem allt í lagi. Kannski erum við hreinlega of góðu vön heima í Íslandi.

Það var mjög heitt í Pardubice allan tímann og við höfðum valið hótel sem var ekki með loftkælingu. Sú ákvörðun var tekin í hagræðingarskyni en með þeim afleiðingum að það svaf engin í hópnum mjög vel og því fundum við fyrir verulegri þreytu þegar líða fór á vikuna.

Ég byrjaði mótið ágætlega og gerði jafntefli við tæplega 1800 stiga Tékka. Í 2 umferð tapaði ég naumlega fyrir 1823 stiga Þjóðverja í ágætri skák. Þá var komið að tveggja umferða deginum. Ég tefldi tæplega 5½ klst. 105 leikja skák í fyrri umferð dagsins sem ég tapaði fyrir samblöndu af slysni og þreytu eftir að staðan hafði verið hnífjöfn í 40 - 50 leiki. Seinni skák þann daginn klúðraði ég í endataflinu eftir að hafa náð góðri stöðu. Eftir 4 umferðir var staðan því orðin svört. Ég aðeins með ½ vinning af 4 mögulegum. Seinni hluti mótsins gekk mun betur hjá mér og ég tók 4 af þeim 5 vinningum sem þar voru í boði. Ég endaði því með 4½ vinninga af  9 og rp upp á 1718. Ég var heilt yfir sáttur en mjög þreyttur. Meðfylgjandi er skák sem ég tefldi við Jonas Piela frá Ítalíu í 8 umferð. Þetta er örugglega ekki mín besta skák en ég var samt sáttur með jafnteflið sem ég náði eftir að hafa lent í verulegum erfiðleikum í miðtaflinu. Þetta er því fyrst og fremst skák fyrir mig að læra helling af og mér því ánægja að deila með ykkur.

Það er ómetanleg reynsla að fá tækifæri til að taka þátt í svona móti og ég vona að þessi reynsla komi að góðum notum í verkefnum framtíðarinnar. Ég þakka Skáksambandinu og Taflfélaginu Helli fyrir styrkina sem ég fékk vegna ferðarinnar.


Dagur Ragnarsson: Pistill um Pardubice

DagurHér á næstum dögum verða nokkrir pistlar birtir sem hafa beðið birtingar frá síðasta ári. Við byrjum á Degi Ragnarssyni sem fjallar hér um Czech Open.

Ég fór ásamt nokkrum félögum mínum til Tékklands til að tefla á hinu fræga móti,  Czech Open sem fór fram  í Pardubice,  dagana 19. - 27. júlí. Við félagarnir hófum ferðina klukkan 4 um nótt hér í Reykjavík. Flugum til London, biðum í rúmlega 7 klukkutíma á Gatwick- airport þar til við stigum um borð í vélina sem flaug með okkur til Prag. Þá tók við tveggja tíma lestarferð til Pardubice og um miðnættið, eftir 20 tíma ferðalag,  komum við þreyttir á hótelið sem við höfðum pantað. Þar hafði orðið einhver misskilningur og ekkert herbergi á lausu. Við héldum því af stað um miðja nótt að leita að öðrum svefnstað og fengum inni í frekar slöku hóteli, án allrar loftkælingar og internettengingar. Hótelið hafði í raun bara einn kost umfram hitt,  það var nær skákstaðnum svo við ákváðum að leysa loftkælingarvandamálið með því að kaupa okkur viftu og létum okkur hafa það að vera þarna allan tímann.  En við vorum komnir til að tefla, vorum skráðir í B- flokk (þar voru skráðir skákmenn með  1750- 2382 ELO stig)  og það voru 9 krefjandi umferðir í boði.

1. umferð

Ég mætti frekar þreyttur og svangur í umferðina og fékk 1730 stiga Tékka á mínum aldri til að glíma við. Ég  var með hvítt, lék enska leiknum og andstæðingurinn svaraði með Grunfeld afbrigðinu. Þetta var lína sem ég þekkti ágætlega og eftir frekar  langt endatafl vann ég skákina. Góð byrjun á mótinu.

2. umferð.

Ég mætti betur sofinn  og nærður í þessa umferð en ekki neitt undirbúinn gegn þessum andstæðingi, þar sem ekkert sem ekkert var til um hann á ChessBase. Þetta var  2160 stiga Þjóðverji. Ég var með svart  og fékk að glíma við enska leikinn. Ég telfdi Reverse- Dragon afbrigðið gegn honum og fékk betra tafl úr byrjuninni en tefldi ekki nákvæmt í miðtaflinu og lék eiginlega af mér stöðunni. En sá þýski náði ekki að innbyrða sigurinn og þvældist staðan á milli okkar þar til hann í tímahraki þurfti nauðsynlega að komast á klósett og lék þá nokkrum slæmum leikjum sem kostuðu hann skákina.

3. umferð.

Í þriðju umferðinni fékk ég 2125 stiga Rússa og var með hvítt. Ég tefldi enska leikinn enn og aftur og andstæðingurinn var greinilega búinn að undirbúa sig vel því hann svaraði  fyrstu fjórum leikjunum strax með afbrigði sem kallast  Anti-Queens gambit accept og leikjaröðin var svona. 1.c4 Rf6 2. g3 e6 3. Bg2 d5 4. Rf3 dxc4 og hérna lék ég Ra3 sem er mainline og þá hugsaði hann í fimm mínútur og hafði greinilega ekki átt von á þessum leik og féll í byrjunargildru. 5. Ra3 Rbd7 6. Rxc4 c5 7. o-o b5?! 8. Rce5 Bb7?  9. Rxf7! sem vinnur peð og rústar kóngsvörninni. Eftir það tefldi ég rétt og vann skákina auðveldlega.

4. umferð.

Eftir gott gengi í þremur fyrstu umferðunum var ljóst að andstæðingur minn í þeirri fjórðu yrði enginn byrjandi. Hann reyndist vera Rússi Gennandi Kuzminn sem var með 2290 stig.  Ég var með svart og Kuzmin tefldi drottningarafbrigði sem ég svaraði með Tarrash -vörn.  Ég fékk ágæta stöðu úr byrjuninni en lék einum mjög ónákvæmum leik sem kostaði mig skákina.

5. umferð.

Næst settist ég á móti 2148 stiga Hollendingi.  Ég undirbjó mig vel fyrir þessa skák og fékk afbrigði sem ég var búinn að stúdera fyrir. Mér fannst ég vera með skákina í hendi mér en þá ákvað ég að fórna skiptamanni. Ákvörðun sem átti næstum eftir að kosta mig skákina. Andstæðingurinn gat unnið mig á einum tímapunkti  í einum leik en hann sá það ekki og við sömdum jafntefli eftir 54 leiki.

6. umferð.

Mótherji minn í 6. umferðinni var  tékknesk, WFM  með 2121 stig. Ég tefldi bara venjulega franska vörn og var reyndar í vörn allan tímann  og tók því jafnteflisboði hennar  fegins hendi,  en eftir að hafa farið með Hannesi Stefánssyni yfir skákina seinna um daginn, hefði ég líklega ekki átt að taka boðinu, heldur tefla áfram til sigurs.

7. umferð.

Ég hélt áfram að tefla við Tékka og að þessu sinni var það  2119 stiga skákmaður.  Þetta er líklega slakasta skákin mín í mótinu. Ég lék illa af mér í 20. leik og náði aldrei að jafna taflið eftir það.

8. umferð.

Í þessari umferð var andstæðingur minn  2143 stiga skákmaður frá Þýskalandi.  Í þessari skák var ég með hvítt og fékk ágæta stöðu úr byrjuninni en lenti í frekar erfiðu miðtafli og tapaði peði þar. Ég fórnaði skiptamuni fyrir betra spil en lék ónákvæmt og tapaði að lokum í hróksendatafli.

9. umferð.

Eftir að hafa tapað tveimur skákum í röð fékk ég loksins stigalægri mann en mig og var það 1884 stiga maður frá Lúxemborg sem var andstæðingur minn í seinustu umferðinni. Ég var staðráðinn í að vinna þessa skák. Ég var með hvítt og lék enska leikinn og andstæðingurinn svaraði með Reverse-Dragon afbrigðinu. Ég fékk betra úr byrjuninni en fór svo allt í einu að tefla vörn og hélt stöðunni í jafnvægi. Þá ákvað andstæðingur minn að skipta upp tveimur hrókum og einni drottningu fyrir tvo hróka og eina drottningu og bauð jafntefli. Ég sá að staðan bauð ekki upp á jafntefli og neitaði því og tefldi endataflið eins og vél og hafði sigur að lokum í 55 leikjum.

Ég endaði því með 5 vinninga af 9 og hækkaði mig um 20 ELO stig og er bara í heildina sáttur við frammistöðuna í mótinu, þó auðvitað hefði ég viljað tefla sumar skákirnar betur.  Það var mikil og góð reynsla að taka þátt í þessu móti og ég mæli með því fyrir alla skákmenn enda margir flokkar sem hægt er að keppa í. Ég vil þakka Skáksambandinu fyrir veittan stuðning og félögum mínum fyrir samveruna í ferðinni.

Dagur Ragnarsson


N1 Reykjavíkurskákmótið 2014 - vel heppnað 50 ára afmælismót

 

IMG 0018

 

Enn heldur aðsóknin á N1 Reykjavíkurskákmótið áfram að aukast. Í ár tóku 255 skákmenn þátt frá 35 löndum sem að sjálfsögðu er met. Mótshaldið gekk að þessu sinni ákaflega smurt og áfallalaust fyrir sig. Kínverski stórmeistarinn Li Chao kom, sá og sigraði en Helgi Ólafsson var meðal þeirra sem enduðu í 2.-5. sæti. Bandaríkjamaðurinn (Walter) Browne vakti svo mikla athygli fyrir fjörlega framkomu og taflmennsku. Ungstirnið Richard Rapport, vakti einnig gífurlega athygli fyrir frumlega og skemmtilega taflmennsku. Það var þó Garry Kasparov sem stal senunni með stórskemmtilegri heimsókn.

 

DSC08946

 

Skákstaðurinn

Harpa er einstakur skákstaður.  Algjörlega magnaður. Það er nánast eins og húsið hafið verið hannað sem skákhöll en svo tónlistarhús verið byggt í leiðinni. Smá tónlist setti svip sinn á mótið - eins og einstaka sinnum hefur komið fyrir áður en var þó ekki til stórra vandræða. Búið  er að byggja hljóðvegg frá Munnhörpunni þannig að það vandamál leystist í eitt skipti fyrir öll.

 

DSC09105

 

Framtíð mótsins er í Hörpu en um þessar mundir er verið að ganga frá samningi um veru mótsins þar 2015-17.

Toppbaráttan

Fyrir mótið voru tveir skákmenn yfir 2700 skákstig. Annars vegar Þjóðverjinn Arkadij Naiditsch (2706) og hins vegar áðurnefndur Li Chao (2700). Þeim síðarnefnda hlekktist á strax í fyrstu umferð þegar hann gerði jafntefli við Kanadamanninn Daniel Abrahams (2055). Hann fór svo í mikið stuð og vann næstu fjórir skákir, gerði jafntefli við Mikail Kobalia (2646) í sjöttu umferð en vann svo þrjár næstu. Sigurinn tryggði hann sér með jafntefli í lokumaferðinni gegn Robin Van Kampen (2603).

 

DSC08040

 

Egyptinn Dr. Bassem Amin (2607) byrjaði hins vegar allra best keppenda. Hann hafði hlotið 6½ vinning í sjö fyrstu skákunum. Kasparov lék hins vegar fyrir hann upphafsleikinn í áttundu umferð og það var ekki góðs viti því hann tapaði öllum skákunum eftir það!

 

DSC09085

 

Það var hins vegar Helgi Ólafsson (2546) sem gladdi okkur Íslendinganna með fjörlegri og skemmtilegri taflmennsku!

Íslendingarnir

Helgi varð efstur Íslendinga með 8 vinninga. Eftir áfall í fjórðu umferð, tap gegn Simon Bekker-Jensen (2418) fór hann í banastuð og vann fimm skákir í röð. Jafntefli í lokaumferðinni gegn Eric Hansen (2587) þýddi svo 2.-5. sæti, aðeins hálfum vinningi á eftir Li Chao.

Helgi ákvað í kjölfarið að gefa kost á sér ólympíuliðið fyrir Ólympíuskákmótið 2014 og hefur sagt upp stöðu sinni sem landsliðsþjálfari. Þar verður Helga auðvitað sárt saknað en enn meira fagnaðarefni er koma hans í landsliðið á ný.

 

DSC08840

 

Hannes Hlífar Stefánsson (2541) og Hjörvar Steinn Grétarsson (2511) urðu næstir Íslendinga með 7½ vinning og í 6.-10. sæti. Hannes er alltaf til alls líklegur á N1 Reykjavíkurskákmótum enda fimmfaldur sigurvegari. Hjörvar tefldi kraftmikið og lagði meðal annars Gawain Jones (2651) að velli í kröftugri skák.

Henrik Danielsen (2501) hlaut 7 vinninga. Þröstur Þórhallsson (2453) og Stefán Kristjánsson (2503) komu svo næstir með 6½ vinninga.

 

DSC09223

 

Lenka Ptácníková (2239) varð efst íslenskra skákkvenna en hún hlaut 6 vinninga. Með árangri sínum náði hún áfanga að alþjóðlegum meistaratitli. Stjórn SÍ hefur í kjölfarið boðið Lenku að taka þátt á EM kvenna sem fram fer í Plovdid í Búlgaríu í maí nk.

Sé skoðað hverjir stóðu sig best miðað við "performance" er Helgi (2598) efstur. Í næstu sætum eru Hjörvar (2588), Hannes (2567), Henrik (2486) og Þröstur (2444).

 

DSC08530

 

 Sé skoðað hverjir hækkuðu mest á stigum kemur fáum á óvart Vignir Vatnar Stefánsson (1844) er efstur en hann hækkaði um 55 stig fyrir frammistöðuna. Í næstu sætum eru Jón Kristinn Þorgeirsson (46), Birkir Karl Sigurðsson (41), Gauti Páll Jónsson (41) og Páll G. Jónsson (40). Gaman að sjá Pál á þessum lista en hann var elstur keppenda, fæddur árið 1933.

 

IMG 1110

 

 


 

Eftirtaldir hækkuðu um 30 stig eða meira:

1

Stefansson Vignir Vatnar

1844

55

2

Thorgeirsson Jon Kristinn

1883

46

3

Sigurdsson Birkir Karl

1738

41

4

Jonsson Gauti Pall

1618

41

5

Jonsson Pall G

1802

40

6

Thorhallsson Simon

1636

38

7

Fridgeirsson Dagur Andri

1803

37

8

Heimisson Hilmir Freyr

1761

36

9

Johannesson Oliver

2115

35

10

Ontiveros John

1710

32

11

Ptacnikova Lenka

2239

31

12

Einarsson Oskar Long

1599

30

 

Ýmiss tölfræði

255 skákmenn tóku þátt í mótinu en voru 227 í fyrra. 100 íslenskir en 155 erlendir. Norðmenn voru fjölmennastir eins og svo oft áður en 28 Norðmenn tóku þátt. Næstfjölmennastir voru Þjóðverjar (25) en í næstum sætum komu Bandaríkin (12), Kanada (11) og Svíþjóð (10). Hvorki Færeyingar né Finnar tóku þátt.

28 stórmeistarar og 24 alþjóðlegir meistarar tóku þátt. Alls voru titilhafarnir 88.

28 konur tóku þátt og mætti það hlutfall gjarnan vera hærra. 

Kasparov

 

DSC08962
Garry Kasparov var á landinu 9.-11. mars. Meðal annars áritaði hann bækur, heimsótti leiði Fischers, heimsótti Fischer-setrið og sótti fundi með stjórn Skáksambands Norðurlanda en hana skipa forsetar Norrænu skáksambandanna. Stjórnarmennirnir komu til landsins vegna komu Kasparovs og fór yfir áherslur hans fyrir FIDE-þingið í Tromsö í ágúst nk.

 

Það var gríðarlega gaman að fá Kasparov hingað. Ég var mikið með kappanum í þá tvo daga sem hann var hérna. Útgeislun hans er gífurleg og krafturinn ótrúlegur. Hann var alltaf að - aldrei dauður tími. Húmorískur og skemmtilegur - en á köflum mislyndur.

Ég á eftir að setja saman smá grein um komu hans, aðdraganda hennar og hvernig hann kom mér fyrir sjónir.

Einnig kom hingað til leiks Silvio Danaliov, forseti Evrópska skáksambandsins.

Sérviðburðir

Margir skemmtilegir sérviðburðir fóru fram í tengslum við mótið. Stefán Bergsson hafði yfirumsjón með þeim og fórst það afar vel úr hendi.

Eftirfarandi sérviðburðir fóru fram:

Opnunarpartý (3. mars)

Opnunarpartý N1 Reykjavíkurskákmótsins fór fram mánudaginn 3. mars á Sky Bar eða degi fyrir mót. Gekk afar vel og margir sóttu. Björn Þorfinnsson fór yfir mótið, sögu þess og sagði frá fyrirkomulagi og sérviðburðunum.

Mjög góð stemning náðist og keppendur kynntust betur en ella. Viðburður sem er kominn til að vera.

Setning mótsins (4. mars)

 

DSC08070
KK flutti lag, Eggert Benedikt Guðmundsson, forstóri N1, Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra og Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs héldu ræður. Sá hinn síðastnefndi setti svo mótið og lék fyrsta leikinn í skák Arkadij Naiditsch og Guðlaugar Þorsteinsdóttur. N1 Reykjavíkurskákmótið var hafið!

 

Gullni hringurinn (6. mars)

Á hverju eru ári er boðið upp á Special Golden Circle. Þátttaka eykst ár frá ári. Nú tóku um 70 þátt sem er nálægt því að vera helmingur erlendra keppenda. Um er að ræða hinn hefðbundna Gullna hring en komið er við á leiði Fischers sem og Fischer-setrinu á Selfossi. Meðal þeirra sem fóru var Richard Rapport og Li Chao.

Reykjavik Open Pub Quiz (7. mars)

 

DSC08709

Vinsældir hafa aldrei verið meiri. Um 70-80 manns sóttu Sky Bar þar sem keppnin fór fram. Spyrjendur og spurningahöfundir voru Stefán Bergsson og Ingvar Þór Jóhannesson. Sigurvegarar urðu Dirk Jan ten Geuzendam, ritstjóri New In Chess, og Helgi Ólafsson, sem eru nú að skrifa grein um mótið sem birist í næsta tölublaði New In Chess.

 

Reykjavík Open Barna Blitz (8. mars)

Átta skákmenn tefldu til úrslita sem höfðu unnið sér keppnisrétt eftir undanrásir. Undanrásirnar fóru fram á æfingum hjá skákdeild Fjölnis, GM Helli og TR. Síðustu undanrásirnar fóru fram í Hörpu degi fyrir útslitin.  Hilmir Freyr Heimisson sigraði örugglega í úrslitunum.

Teflt án tafar - Even Steven (8. mars)

Hraðskákmótið Even Steven fór fram í annað sinn. Veitt var rífleg tímaforgjöf til stigalægri keppenda en hver 100 stig sem voru á milli keppenda dró þá sundur um eina mínútu í hvora átt. Ef munurinn var meiri en 400 stig var sá stigalægri með 9 mínútur gegn einni þess stigahærri. Þó voru allir með viðbótarsekúndu eftir hvern leik. Um 60 skákmenn tóku þátt. Sigurvegari mótsins var Vladimir Hamitevic frá Móldovíu. Góð stemming í Hörpu og hörkumót. Lokastöðu mótins má finna hér.

Fyrirlestur Kobalia (9. mars)

Rússneski stórmeistarinn og yfirþjálfari rússneska unglingalandsliðsins, Mikhail Kobalia, flutti fyrirlestur um uppbyggingu skákþjálfunar í Rússlandi. Fyrirlesturinn var vel sóttur en um 35 sóttu hann, þar af flestir sem hafa verið viðriðnir þjálfun og kennslu.

Fótbolti (9. mars)

Ísland sigraði heiminn 6-2 í æsispennandi fótboltaleik sem fram fór í Kórnum.

Áritun Kasparovs (10. mars)

Garry Kasparov áritaði bækur og annað við upphaf umferðar. Löng röð myndaðist og allar bækurnar sem Sigurbjörn bóksali hafði til sölu seldust upp! Kasparov setti svo umferðina.

Lokahóf og verðlaunaafhending (12. mars)

IMG 0011
Lokahóf mótsins fór fram í Ráðhúsi Reykjavíkur, gömlum keppnisstað mótsins. Elsa Hrafnhildur Yeoman, forseti borgarstjórnar, setti hófið. Björn Þorfinnsson stjórnaði lokahófinu að myndarskap sem tókst vonum framar og vakti ánægju keppenda.


Fyrirkomulag mótsins

Umræður um fyrirkomulag mótsins eru sígildar og hefjast í kringum hvert N1 Reykjavíkurskákmót. Sitt sýnist hverjum og góð og gild rök hafa komið fram um flokkaskiptingu. Þau snúa fyrst og fremst að tvennu. Minnka hin svokölluð „jó-jó áhrif" og einnig að auka möguleika á áföngum fyrir áfangaveiðara.

Stjórn SÍ og mótsstjórn hefur komið til móts við titilveiðara á tvennan hátt. Í fyrsta lagi með því að fjölga liðum í efstu deild upp í 10 lið á Íslandsmóti skákfélaga. Þar með er fyrsta deildin orðin áfangavæn fyrir titilveiðara. Þarna er semsagt búið að búa til heilt nýtt áfangavætt mót sem lengi hefur verið kallað eftir. Enginn áfangi náðist reyndar í hús í ár en þrír keppendur voru nærri því, þar á meðal Halldór Brynjar Halldórsson.

Einnig var umferðum á N1 Reykjavíkurskákmótinu fjölgað í 10. Með því er titilveiðurum gert mun auðveldara um vik. Hægt er t.d. að strika út skákina í fyrstu umferð, sem oft hefur verið kvartað yfir þar sem styrkleikamunurinn er mikill, og hækka þar með meðalstigin umtalsvert. Sex áfangar náðust í hús á mótinu. Tveir viðbótaráfangar náðust með tíundu umferðinni.

Þarfir keppenda á N1 Reykjavíkurskákmótanna er margvíslegar. Sumir koma hingað til að reyna að vinna mótið, aðrir stefna á áfanga og aðrir koma til að tefla sér til ánægju. Árangurinn er jafnvel aukaatriði. Suma dreymir auðvitað um draumaúrslit og sumir eru jafnvel svo heppnir að ná slíkum. Má þar nefna Kanadamanninn Daniel Abrahams sem náði jafntefli gegn Li Chao í fyrstu umferð. Hafa verður í huga hagsmuni heildarinnar - ekki hagsmuni einstakra hópa.

Ég tók við sem mótsstjóri (Tournament Director) árið 2010. Skoðum þróun mótsins á þessum árum.

 

Keppendur

Breyting

Íslenskir

Erlendir

2010

104

-5%

51

53

2011

166

60%

67

99

2012

198

19%

85

113

2013

227

15%

79

148

2014

255

12%

100

155


Breytingin 2011 var mikil en þá var mótið opnað mun meira en það hafði verið. Síðan þá hefur verið samfelld aukning keppenda. Fjölgun erlendra keppenda hefði orðið enn meiri hefði ekki orðið vart við hótelskort á miðborgarsvæðinu á meðan mótinu stóð nú sem og að EM einstaklinga fór fram á sama tíma.

Fjölgun innlendra keppenda er mjög ánægjuleg og þess má geta að hún kemur fram á öllum aldursbilum - alls ekki bara í yngsta aldursflokknum.

Mótið 2012 var kjörið þriðja besta alþjóðlega mót ársins sem verður að teljast frábær árangur. Mótin tvö á undan okkar voru í allt öðrum flokki hvað varðar fjármagn, þ.e. Gíbraltar og Aeroflot.

Keppendur á N1 Reykjavíkurskákmótinu 2014 voru 255 eins og áður sagði. Heildarverðlaun voru €15.000. Keppendur á sterkasta opna móti hvers ár, EM einstaklinga, voru 259 en þar voru heildarverðlaun €160.000 eða ríflega 10 sinnum hærri.

Silvio Danaliov, forseti ECU, vakti einmitt athygli á þessu við hvern sem vildi, þegar hann var hérna á landinu, og benti á að þetta segði nú sitthvað um mótshaldið hér. Það sé ljóst að verðlaunin séu ekki aðalmálið - nema þá fyrir afmarkaðan hóp. Þetta segir okkur sem mótshöldurum að við erum að gera eitthvað rétt.

Mér sjálfum finnst það hálfsérkennilegt að gjörbreyta fyrirkomulaginu frá því sem nú er í ljósi ofangreinds. Auðvitað mega menn ekki staðna - og þurfa að vera sífellt á tánum. Styrkja má hitt og þetta í mótshaldinu. Mér hefur t.d. dottið í hug að hafa helgarmót samhliða, t.d. 5-6 umferða fyrir þá sem ekki hentar að tefla á sjálfu mótinu, t.d. frá fimmtudegi til sunnudags. Opið fyrir alla, með lægri þátttökugjöldum, en að sama skapi með fremur lágum verðlaunum.

Ég satt best að segja veit ekki hvað gerist verði mótinu breytt og finnst slíkt töluverð áhætta. Stjórn SÍ hefur hafist handa við að útbúa könnun sem send verður til keppenda þar sem þeir verða spurðir ýmissa spurninga, t.d. hvort að flokkaskipting myndi auka, minnka eða breyta engu um þátttöku þeirra í framtíðinni.

Þess fyrir utan er ljóst að með flokkaskiptingu myndi afkoma mótsins versna umtalsvert. Það er ekki hægt að rukka inn sömu þátttökugjöld í neðri flokkum auk þess sem aukið verðlaunafé þyrfti. Mótið nú er það fyrsta síðan ég tók við sem er réttu megin við núllið. Ég hef engar töfralausnir um auðfengið rekstarfé - en á köflum skynja ég á á köflum á spjallþráðum skákmanna að það sé lítið mál „að tækla fjárhagslegu hliðina" - en þeir sem þekkja til vita að slíkt er mikið hark.

Mótið gengur betur og betur ár hvert. Hví að gjörbreyta því sem gengur svo vel?

Þakkir

Mót eins og  N1 Reykjavíkurskákmótið gengur ekki upp án góðs starfsfólks. Þeir sem tóku virkastan þátt í starfi mótsstjórnar voru Ingibjörg Edda Birgisdóttir, Ingvar Þór Jóhannesson, Omar Salama, Óskar Long Einarsson, Pálmi R. Pétursson, Stefán Bergsson og Steinþór Baldursson.

Skákstjórn var ákafleg öflug. Yfirdómari mótsins var Ríkharður Sveinsson, aðstoðaryfirdómari var Omar Salama en aðrir dómarar voru G. Sverrir Þór, Páll Sigurðsson, Ólafur S. Ásgrímsson og Róbert Lagerman. Páll hélt jafnframt utan um pörun. Þarna er á ferðinni einvalalið dómara.

Beinar útsendingar frá skákum mótsins voru í höndum Steinþórs Baldurssonar og Omar Salama og hafa aldrei gengið betur en í ár.

Sama má segja um innsláttinn. Hann var í höndum Kjartans Maack og Péturs Atla Lárussonar. Hann hefur aldrei gengið betur og hef ég ekki enn heyrt um neina villu!

Myndatökur voru í höndum Hrafns Jökulssonar og Fionu Steil-Antoni.

 

DSC09056
Ingvar Þór Jóhannesson var með beinar sjónvarpsútsendingar. Með honum í settinu var Fiona Steil-Antoni. Umsjón með tæknimálunum í þeim höfðu Peter Doggers og Lennart Ooates en útsendingarnar voru í umsjón Chess.com.  Þær útsendingar gengu frábærlega.

 

Pálmi R. Pétursson og félagar í Menningarfélaginu Mátum stóð fyrir útgáfu hins frábæra Tímaritsins Skák.

Ingibjörg Edda Birgisdóttir og Donika Kolica voru svo ómissandi hjálparhendur. Inga var svona „altmuligkvinde" og greip meðal annars inn í skákstjórn þegar vantaði.

Alltaf er gott að leita til Jóns Þorvaldssonar um góð ráð. Jón er ótrúlega úrræðagóður maður.

Að öðrum ólöstuðum voru það Stefán Bergsson og Ingvar Þór Jóhannesson sem báru þunga mótsins og undirbúnings á skákstaðnum ásamt undirrituðum og Ásdísi Bragadóttur, framkvæmdastjóra SÍ. Hún vinnur hin ósýnilegu störf sem eru algjörlega nauðsynleg en fáir taka eftir. Án hennar væri Reykjavíkurskákmótið á allt öðrum öðrum stað.

„Hin konan" í lífi mín, Andrea Margrét Gunnarsdóttir, fær sérstakar þakkir fyrir öll hennar góðu ráð og vera alltaf til staðar þegar þess þurfti! Sérstaklega reyndist hún mér vel þegar mesta álagið var á undirrituðum í kringum komu Kasparovs.

Styrktaraðilar mótsins fá sínar þakkir.  Má þar sérstaklega nefna Reykjavíkurborg sem með sanni hefur verið helsti samstarfsaðili SÍ varðandi mótshaldið í hálfa öld og halda t.d. ávallt hið mjög svo vinsæla lokahóf mótsins.

N1 hefur verið helsti styrktaraðili mótsins og það er ákaflega þægilegt að vinna með starfsfólki þess. Án sterks styrktaraðila væri mótið hvorki fugl né fiskur.

Gagnaveita Reykjavíkur og CCP reyndust drjúgir samstarfsaðilar. DHL gaf okkur flutning skáksetta frá Noregi, Epli.is lánaði okkur tölvu. Tölvulistinn lánaði tölvur og annan tæknibúnað og fá miklar þakkir fyrir. Og hér má nefna fleiri aðila sem reyndust okkur vel. Einkar gott var t.d. að vinna með starfsfólki Hörpu og Center Hotels. Mikil fagmennska þar á ferðinni.

Reykjavíkurskákmótið er eitt elsta opna skákmót heims og ein elsta hátíðin sem kennd er við Reykjavíkurborg. Mótið dregur að sér yfir hundrað erlenda skákmenn, sem eru einnig almennir ferðamenn hér í landi og kynna sér land og þjóð samhliða taflmennskunni. Erlendu keppendurnir voru ánægðir með dvölina, og nefndu margir þann vinalega brag sem einkennir hátíðina. Mótið stækkar og stækkar og áhrif þess og vægi innan hins alþjóðlega skákheims síaukast. Skákhátíðin í marsmánuði ár hvert í Reykjavíkurborg göfgar skáklíf landsins svo um munar.

Nokkur ummæli erlendu gestanna

DSC08851

IM Tania Sachdev (Indlandi)

 

Fantastic event love playing here. See you next year Iceland!

 

DSC08838

 


GM Alexander Colovic ( Makedóníu)

I am very happy to have come to Reykjavik. I have played a lot of open tournaments, but this is one of the rare ones where the player feels welcomed and taken care of. The organisation was perfect and the event ran smoothly. Congratulations to the organisers on a job well done!


GM Robin Van Kampen (Hollandi)

 

DSC08857

 

Had the best 2 weeks ever in Iceland where Eric Hansen and I had a a great tournament.

WGM Alina L'Ami (Rúmeníu)

 

DSC08512

 

Back home after ten days of intense chess in ReykjavikOpen! I already know what I'll do next year


Johan Sigeman (Svíþjóð) - Mótsstjóri Sigeman-mótanna í Svíþjóð


En fantastiskt väl genomförd och trevlig tävling! Kan rekommenderas.


Tyler Longo (Kanada)

The playing hall is large and spacious, and overlooks the Reykjavik harbour, with the two adjoining rooms used for live commentary and skittles. The organizers are doing a great job, and the whole tournament feels extremely professional.


Sjáumst 10.-18. mars 2015 í Hörpu!

Gunnar Björnsson,
formaður mótsstjórnar N1 Reykjavíkurmótsins


TR-pistill Þóris Ben

Þórir BenediktssonÞórir Benediktsson, Taflfélagi Reykjavíkur hefur skrifað pistil um gengi liða Taflfélags Reykjavíkur í fyrri hluta mótsins, en ekkert félaga hafði á fleirum liða að skipa en einmitt TR.  Í pistli Þóris segir meðal annars:

Fjórir erlendir skákmenn styrktu A-liðið að þessu sinni, úkraínsku stórmeistararnir Yuriy Kryvoruchko og Mikhailo Oleksienko, og dönsku alþjóðlegu meistararnir Jakob Vang Glud og Simon Bekker Jensen.  Sögulegt verður þó að teljast að íslensku stórmeistararnir, Friðrik Ólafsson og Margeir Pétursson, tefldu þrjár skákir hvor fyrir félagið og virtist þátttaka þeirra efla andann innan liðsins til mikilla muna.

Pistil Þóris má nálgast í heild sinni á heimasíðu TR.

 


GM-pistill Jóns Þorvaldssonar

Jón Þorvaldsson

Jón Þorvaldsson, liðsstjóri a- og b-sveita Goðans Máta hefur ritað pistil um framgöngu sveitanna á Íslandsmóti skákfélaga. Jón fer mikinn í pistilinum og er skáldlegur mjög eins og honum er einum lagið.

Í pistlinum segir meðal annars:

Þegar í Rimaskóla var komið gengum við fylktu liði og sperrtum brjóskassa inn í keppnissalinn, álíka upplitsdjörf og forfeður okkar og formæður þegar þau skunduðu á Þingvöll á söguöld, en þó vantaði litklæði Spiderman-búningsins í sýningu þessa. Reyndar var Hermanni formanni létt eftir á þegar hann áttaði sig á því að ef A-liðið hefði íklæðst Spiderman-búningnum og Goðinn-Mátar unnið stórsigur, hefði mátt bera okkur þeim sökum að Gawain Jones hefði teflt allar skákirnar.  

og 

Tæpast er unnt að lýsa þeirri stórkostlegu stemningu sem mætti okkur á skákstað. Loftið var mettað breiðu litrófi tilfinninga: tilhlökkun, vinarþeli, grimmd, sigurvilja, ótta, auðmýkt, hroka, háspennu, svekkelsi og sigurvímu. Mitt í þessu lævi blandna andrúmslofti lék mönnum þó bros á vör og það bros er ekta. Keppendum eru upp til hópa vel til vina og liðsstjórar líkjast bændum sem fylgjast hreyknir með gripunum sínum í réttunum. Stöku forvígismenn ofmetnast kannski um stund en sjá fljótlega að sér og verða sömu ljúfmennin og fyrr. Sérstaklega var gaman að sjá tvær af goðsagnapersónum íslenskrar skáksögu, þá Friðrik Ólafsson og Margeir Pétursson, setjast að tafli á ný. Þátttaka þeirra ein og sér lyfti þessum viðburði á hærra plan.  

Pistil Jóns má nálgast í heild sinni á heimasíðu Goðans.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 38
  • Sl. viku: 273
  • Frá upphafi: 8764851

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 149
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband