Leita í fréttum mbl.is

Björn Þorfinnsson: Pistill frá Riga

Bræður Bragi og BjörnHér birtist pistill frá Birni Þorfinnssyni frá Riga í fyrra í ágúst.

Pistill Björns

Í byrjun ágúst héldum við bræðurnir til Ríga-borgar í Lettlandi til að taka þátt í þriðja Riga Open mótinu. Ríga er náttúrulega afar þekktur staður í skáksögunni þökk sé töframanninum sem þar fæddist og bjó en þrátt fyrir það hefur verið skortur af alþjóðlegum mótum þar fyrir almennan skákmann. Nú hefur orðið breyting þar á með móthaldi Egons Lavendelis og félaga og metnaðurinn er mikill - mótið á að verða eitt sterkasta opna mót heims.

Það er óhætt að segja það að Lavendelis sé að gera margt gott. Sjálft mótið er sérstaklega þétt (þökk sé flokkaskiptingu þar sem A-flokkur er yfir 2150), verðlaunin er nokkuð góð þó að þeir ætli að gera betur þar á næstu árum og öll skipulagning var með miklum ágætum. Staðsetning mótsins var svo algjörlega frábær - í hjarta gamla bæjarins í Ríga sem er einstaklega fallegur og iðandi mannlíf hvert sem augu litu.

Hinsvegar er náttúrulega ýmislegt sem að mátti bæta og helst voru það sjálfar aðstæður á skákstað því að teflt var í Riga Technical University sem er hreint ekkert svo tæknilegur, amk ekki sjálf byggingin. Engin loftræsting var á skákstað og þar sem mikill hiti var í Riga í ágústmánuði þá var oft ansi loftlaust og agalegt á skákstað. Skipuleggjendur brugðu á það ráð að hafa alla glugga opna, sem gerði í raun lítið gagn, en þá bárust inn iðandi tónar frá einhverju þéttasta brassbandi sem ég hef heyrt í. Þetta ágæta brassband spilaði á torginu fyrir framan skákstaðinn frá morgni til kvölds, stanslaust allan daginn. Ég var fullur aðdáunnar yfir vinnuseminni til að byrja með en til lengri tíma var þetta orðið ansi þreytandi.

Eitt sérstaklega skemmtilegt móment tengt sveitinni átti sér stað í fyrstu umferð hjá mér þegar ég skrúfaði niður sterkum leik sem var síðasti naglinn í líkkistu andstæðingsins. Uppgjöf hans var eini raunhæfi kosturinn en á meðan hann hugsaði sinn gang þá byrjaði sveitin að spila frábæra útgáfu af "We are the champions" með Queen!

Annað stórkostlegt atriði átti sér stað um miðbik mótsins, á afar heitum degi þegar að tvöföld umferð fór fram. Ég var að rölta um salinn þegar mér verður litið til skákmanns (sem síðar kom í ljós að var Lithái) sem fer allt í einu að vagga skringilega. Ég hélt fyrst að maðurinn væri drukkinn en svo allt í einu sé ég hvernig það hreinlega slokknar á honum og hann hrynur í gólfið eins og kartöflupoki. Ég verð að viðurkenna að ég fraus á þessu augnabliki, enda sannfærður um að maðurinn væri dauður, en sem betur fer voru aðrir aðilar fljótir á vettvang og veittu manninum aðhlynningu. Hann náði fljótlega meðvitund og steig á fætur en var augljóslega frekar ringlaður. Hringt var á sjúkrabíl að sjálfsögðu og skákstjórar lögðu hart að manninum að koma fram og reyna að jafna sig. Þá kom það í ljós að maðurinn sat enn að tafli og það gegn enskum vini mínum Ed Player. Playerinn hafði fylgst með því sem gekk á og seinna á veitingarstað sem við sóttum gjarnan sagði hann mér: "I wasnt hoping he was dead or anything, I was just hoping he would have to resign the game!". Þess má þó geta að þrátt fyrir þetta tækifærissinnaða svar Players þá er drengurinn einstakt heiðursmenni eins og síður kemur í ljós. En aftur að Litháanum. Á þessu augnabliki ruddist hann að borði þeirra Players, þar sem hann átti leik, og fór að hugsa næsta leik. Player bauð honum þá jafntefli sem var fallega gert því hann var mun stigahærri en Litháinn. Litháinn leit þá upp, og ég mun seint gleyma því hvað hann var gjörsamlega vankaður á að líta, og neitaði þessu jafnteflisboði samstundis! Einstakt karlmenni þar á ferðinni! Niðurstaðan varð þó sú að þegar að sjúkraflutningsmennirnir komu að ná í manngarminn þá sættust þeir félagarnir á skiptan hlut.

En að mótinu sjálfu. Bragi bróðir mun fjalla um sinn árangur í öðrum pistli og því verður þetta eingöngu egósentrískur pistill af eigin óförum.

Mótið byrjaði vel hjá mér gegn sigrum gegn tveimur ungum skákmönnum frá Litháen og Eistlandi. Sá fyrsti, Tavrijonas frá Litháen, féll í gömlu góðu gildruna mína í Cozio-afbrigðinu í Spanjólanum. Þar tapaði hann peði og ég kláraði það mjög sannfærandi. Ég var afar sáttur við það enda sá ég drenginn tefla hraðskákir fyrir umferðina og var frekar smeykur að mæta honum. Hann var líka bara skráður með 2117 stig en endaði með því að taka grjótharðan IM-norm í mótinu og græða 57 stig! Eins og áður segir þá var næsta skák gegn Havame frá Eistlandi sem að fékk að vera með í A-flokki á undanágu enda aðeins með 1985 (græddi svo yfir 30 stig í mótinu). Ég var eiginlega miður mín yfir þessari pörun í því að skv. öllum líkindum hefði ég átt að vera í neðri hluta þeirra sem höfðu 1 vinning og mæta þá sterkum stórmeistara og það með hvítt. Vegna ótrúlegs fjölda af óvæntum úrslitum í fyrstu umferð þá var ég allt í einu kominn í efri hópinn og fékk þar af leiðandi stigalægsta manninn með 1 vinning. Þetta þýddi að meðalstigin mín voru farin til fjandans og Björninn var orðinn neikvæður og fúll strax í byrjun móts. En skákin sjálf var góð þar sem að ég sá einum leik lengra en andstæðingurinn í langri þvingaðri atburðarás og vann lið og stuttu seinna skákina.

Skákin í þriðju umferð var gegn vini mínum og allra Íslendinga, Aloyzas Kveinys. Einhverja hluta vegna þá gengur mér ömurlega gegn kallinum og því bölvaði ég þessari pörun í hástert þegar hún var birt. Þá erum við komnir að kjarnanum í málinu og að mínu mati helstu ástæðunni fyrir ömurlegu móti - en það voru neikvæðar hugsanir. Strax í fyrstu umferð fannst mér ég óheppinn með andstæðinga og það var gegnum gangandi allt mótið og það leiddi af sér enn fleiri slíkar hugsanir og að endingu, um miðbik mótsins, þeirri niðurstöðu að þetta væri hreinlega ekki "mitt mót". Það leiddi svo eiginlega til andlegrar uppgjafar og kæruleysis. Ég er búinn að hugsa mikið um þetta síðan ég kom heim og held að ég hafi lært gífurlega á þessari reynslu, amk vona ég það. Maður verður einfaldlega að temja sér jákvæðar hugsanir og halda fullri einbeitingu í erfiðum mótum.

En ég fór samviskusamlega niður eins og spangólandi hundur gegn Aloyzas og skil ekki enn hvað gerðist. Fannst ég vera með fína stöðu eftir byrjunina en allt í einu var erfitt að finna góða leiki og svo var ég bara kominn í djúpan skít :)

Næsta skák gegn Lettanum Mustaps var eiginlega vendipunkturinn. Ég var hægt og rólega að kreista úr honum drulluna í Benköbragði þegar ég lék af mér peði og þar með vinningsstöðu í fáránlegri fljótfærni. Ég titraði af taugaveiklun eftir þessi mistök og var næstum því búinn að leika samstundis leik sem hefði verið svarað nánast með sama trikkinu og það þýtt að ég hefði getað gefist upp. Sem betur fer náði ég að hemja mig, anda rólega og finna leið sem gerði mér kleift að halda jafntefli með herkjum.

Næstu skákir voru gegn 2200-mönnum sem voru í fínum áfangamöguleikum og þrátt fyrir harðar baráttur og miklar sviptingar þá tókst mér ekki að vinna þær. Skákin gegn Kretainis var t.d. helsjúk og sveiflaðist á alla kanta í brjáluðu tímahraki. Kretainis fékk svo frábæran IM-norm.

Síðasti þriðjungur mótsins var svo algjör harmsaga þar sem að ég fékk aðeins 1 af 3 og sá vinningur var algjör tröllagrís gegn ungum Letta sem bugaðist algjörlega eftir að ég slapp með skrekkinn. Á þessum tímapunkti var ég farinn að tefla afar kæruleysislega og þó að það virki stundum hjá mér þá toppaði ég það með því að tefla líka ömurlega illa í þokkabót. Ég var feginn þegar mótið var búið og niðurstaðan 4,5 af 9 og 18 stig í mínus er árangur sem að ég verð í smátíma að jafna mig af.

Hvað sem harmsögu minni í mótinu líður þá var mót þetta frábær upplifun í alla staði. Ég get ekki mælt nógsamlega með Rígaborg og þar sem að metnaður mótshaldara er mikill þá held ég að það sé óhætt að mæla með því að menn skoði það að herja á Rígaborg að ári.

Virðingarfyllst,

Björn Þorfinnsson,
International master of disaster.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 7
  • Sl. sólarhring: 32
  • Sl. viku: 142
  • Frá upphafi: 8765246

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 113
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband