Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Skákþættir Morgunblaðsins

Skákþáttur Morgunblaðsins: Kantpeðin ruddu brautina

Guðmundur að tafli í FinnlandiÞegar Bent Larsen var upp á sitt besta voru vængtöfl aðalsmerki hans. Hann hóf oft taflið með því að leika 1. g3 eða 1. b3 og síðarnefndi leikurinn ber nafn hans - Larsens-byrjun. Vængtöflin hafa á sér rólegt yfirbragð en þegar Larsen sat að tafli tókst honum oft að magna upp spennu með því að senda kantpeðin af stað. Í bók með 50 völdum sigurskákum, sem kom út fyrir meira en 40 árum, skrifaði hann stoltur að í meira en helmingi skákanna hefðu a- og h-peðin verið í stóru hlutverki. Eitt sinn heyrði ég hann útskýra galdurinn við framrás h-peðsins: „Þegar riddarinn á f6 hverfur frá þá er kominn tími til að ýta h-peðinu úr vör," sagði hann og veifaði vísifingri. Hann virtist hafa óbilandi trú á þessu leikbragði. Auðvitað hafði hann ýmislegt til síns máls; meira að segja svo ábyrgur skákmaður sem Botvinnik vann fræga skák af Gligoric í vængtafli þar sem h-peðið ruddi brautina til sigurs.

Vangaveltur af þessu tagi sóttu á mig þegar ég skoðaði skák sem hinn nýbakaði Íslandsmeistari Guðmundur Kjartansson tefldi á sterku lokuðu móti í Ellivuori í Finnlandi sem lauk 29. júní sl. Guðmundur hlaut þar 3 ½ vinning úr níu skákum og varð í 7. sæti af 10 keppendum. Hann mætti öflugum finnskum meistara meistara í 1. umferð og vann glæsilegan sigur. Eins og hjá Larsen ruddi kantpeðið brautina. Áður en varði var Guðmundur búinn að þrefalda á h-línunni. Það hlaut eitthvað undan að láta:

Guðmundur Kjartansson - Mikhael Agopov

Enskur leikur

1. Rf3 c5 2. c4 Rc6 3. Rc3 g6 4. g3 Bg7 5. Bg2 e6 6. d3 Rge7

Í bókaflokki sínum um Enska leikinn kallar rúmenski stórmeistarinn Marin þetta „Fischer-afbrigðið" með skírskotun til sigra Fischers á Tigran Petrosjan og Vasilí Smyslov árið 1970.

7. h4!?

Guðmundur hefst þegar handa. Larsen var vanur að hrókera og leika biskupinum til f4 eða g5. Nú er öruggast að leika 7. ... h6 þó að hvítur eigi góð færi eftir 8. Bd2 og eftir t.d. 8. ... b6 9. h5 g5 má reyna 10. Rxg5!? hxg5 10. Bxg5 en þannig tefldi Radjabov gegn Ivantsjúk ekki alls fyrir löngu - og vann!

7. ... d5 8. Bd2 b6 9. h5 Bb7 10. Da4 d4?!

Hæpið. Eftir 10. ... Dd7 má svartur vel við una.

11. Re4 O-O 12. hxg6 hxg6 13. O-O-O!

Það gefur augaleið að sóknarmöguleikar hvíts á kóngsvængnum er miklir og hljóta að hrekja svartan í grimma vörn.

13. ... f5 14. Reg5 Dd6 15. Hh7 e5 16. Hdh1 Rd8 17. Dd1!

Drottningin er á leið á h-línuna.

17. ... Df6 18. Dg1 e4 19. Dh2!

Hótar 20. Hh8+ Bxh8 21. Dh7 mát.

19. ... Hf7

Reynir að blíðka goðin með því að láta skiptamun af hendi en 19. .... He8 leiðir til svipaðrar niðurstöðu.

g19sl1gl.jpg20. Rxe4!

Þessi fórn snýst um að hrekja vald drottningarinnar á h8-reitnum.

20. ... fxe4 21. Bg5!

Hörfi drottningin kemur 22. Hh8+ og mátar.

21. ... exf3 22. Bxf6 Hxf6

Æskilegt væri að skjóta inn 22. ... fxg2 en þá kemur 23. Hh8+ og mátar.

23. Hxg7+! Kxg7 24. Dh8+ Kf7 25. Hh7+

Þungu fallstykkin sjá um sitt!

25. ... Ke6 26. Bh3+ Hf5 27. De8 Rdc6 28. Bxf5+ Kxf5

Tært og skemmtilegt væri: 28. ... gxf5 29. Hh6+ Ke5 30. exf3! Hxe8 31. f4 mát!

29. Dd7+ Kf6 30. Dd6+ Kf5 31. Hf7+

- og Agopov gafst upp. Hann er óverjandi mát, t.d. 31. Kg4 32. Df4+ Kh4 33. Hh7+ Kg2 34. Dxf3+ og 35. Hh1 mát.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

----------------------------------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Laugardagsmogganum, 5. júlí 2014

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Magnús Carlsen er þrefaldur heimsmeistari

Carlsen teflir við PotkinHeimsmeistarinn Magnús Carlsen varð að láta sér lynda 2. sætið á norska stórmótinu sem lauk í Stafangri um miðjan mánuðinn. En frá Noregi lá leiðin beint til Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum þar sem sem heimsmeistarakeppnin í atskák, 15 10, og hraðskák, 3 2, fór fram. Magnús vann báða titlana! Hann er því þrefaldur heimsmeistari í skák og engum blöðum um það að fletta að þessi misserin ber hann höfuð og herðar yfir aðra. Keppnin í atskákinni fór fram dagana 16.-18. júní og voru tefldar 15 umferðir eftir svissneska kerfinu. Keppendur voru 112 talsins og nær allir bestu skákmenn heims voru mættir til leiks. Lokaniðurstaðan:

1. Magnús Carlsen 11 v. (af 15) 2.-5. Caruana, Anand, Morozevich og Aronjan 10 ½ v.

Sigur Magnúsar var tæpur. Hann tapaði klaufalega fyrir Anand í 12. umferð en eftir það missti hann aðeins ½ vinning niður.

Svo til sami keppendahópur tók þátt í hraðskákmótinu sem fram fór dagana 19.-20. júní. Þar var tefld 21 umferð og Magnús tapaði einungis fyrir lítt þekktum Kínverja, Lu Shanglei. Lokaniðurstaðan:

1. Magnús Carlsen 17 v. (af 21) 2.-3. Ian Nepomniachtchi og Nakamura 16 v. 4. Le Queng Liem 14 ½ v.

Fastlega má búast við því að vægi styttri skáka muni aukast á næstu árum. Þetta kemur m.a. fram í því að FIDE birtir atskák- og hraðskákstig og endurskoðaðar hafa verið ýmsar reglur sem varða keppnisformið. Fyrsta opinbera heimsmeistaramótið í hraðskák fór fram í Saint John í Kanada árið 1988. Þar sigraði Mikhael Tal. Nokkur óopinber heimsmeistaramót höfðu áður verið haldin og það þekktasta er án efa mótið í Herceg Novi í Svartfjallalandi sumarið 1970 sem Bobby Fischer vann.

Greinarhöfundur fór yfir allar 36 skákirnar sem Magnús tefldi í Dubai og þar kennir margra grasa. Stundum koma fyrir svolítið skrýtnir leikir eins og t.d. í einni hraðskákinni þar sem hann hafði svart og hófst með: 1. e4 Rf6 og eftir 2. e5 lék hann 2. ... Rg8 og vann! Gegn miklum sérfræðingi Sikileyjarvarnar fann hann nýjan snúning í þekktu afbrigði:

Dubai 2014, atskák 3. umferð:

Magnús Carlsen - Vladimir Potkin

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 e6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rc6 5. Rc3 Dc7 6. Be3 a6 7. a3!?

Hindrar -Bb4. Leikurinn er margslungnari en sýnist í fyrstu. Algengast er að leika 7. Dd2 Rf6 8. O-O-O Bb4 9. f3 en það afbrigði þekkir Potkin betur en flestir.

7. ... Rf6 8. f4!

Þetta var hugmyndin, hvítur hótar 9. e5.

8. ... Rxd4 9. Dxd4 Rg4?!

Fullveiðibráður. Gott er 9. ... d6.

10. Db6! Bd6 11. e5 Rxe3 12. Dxe3 Be7 13. O-O-O b5 14. Re4 O-O 15. Bd3 Bb7

g59sk3q5.jpg16. Rf6+!

Í sjálfu sér er þessi fórn tiltölulega meinlaus ef svartur bregst rétt við.

16. ... Bxf6?

Afleikur. Best var 16. gxf6 17. Dg3+ Kh8 18. Dh4 f5 19. dxe7 Dd8! og svarta staðan er í lagi.

17. exf6 g6 18. f5!

Árásin er hafin! Hvítur hótar 19. h6.

18. ... Dd8 19. Dg5?!

19. Hhf1! vinnur strax og hér er best að leika 19. ... exf5 20. Bxf4 h6! og svartur getur varist.

19. ... Hc8? 20. fxg6 fxg6 21. Bxg6! Dxf6 22. Bxh7+! Kh8

Eða 22. ... Kxh7 23. Hxd7+ og vinnur.

23. Dh5 Kg7 24. Hxd7 Hf7 25. Bd3! Df4+ 26. Kb1 Hxd7 27. Dh7+ Kf6 28. Dxd7

- og svartur gafst upp. Eftir 28. ... Bxg2 er einfaldast að leika 29. Dxc8 Bxh1 30. Df8+ Kg5 (eða 30. ... Ke5 31. Db8+) 31. Dg7+ og biskupinn fellur.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

----------------------------------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Laugardagsmogganum, 28. júní 2014

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Simen Agdestein snýr aftur

P1010779Í vikunni var tilkynnt að heimsmeistaraeinvígi Magnúsar Carlsen og Viswanathan Anand færi fram í Sotsjí við Svartahaf og hæfist sögufrægan dag í sögu Rússlands, 7. nóvember næstkomandi. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, var við hlið Kirsan Iljumsjinov, forseta FIDE, þegar tilkynnt var um vettvang einvígisins og tók þannig af öll tvímæli um beinan stuðning Rússlandsstjórnar við Kirsan í kosningunum til forseta FIDE í ágúst næstkomandi, en andstæðingur hans þar er Garrí Kasparov.

Noregur er eitt helsta vígi Kasparovs í þeirri baráttu og þegar tilkynningin barst var Norska stórmótið, sem fram fer í Stavanger og Sandnes, rúmlega hálfnað. Mótið er kostað af norsku veðmálafyrirtæki en þar sem norsk löggjöf er slíkum fyrirtækjum andsnúin má ekki nota nafn þess við kynningu. Fyrir síðustu umferð var staðan þessi: 1. Karjakin 5 v. 2.-3. Carlsen, Caruana 4½ v. 4.-6. Topalov, Grisjúk og Kramnik 4 v. 7.-10. Agdestein, Svidler, Aronjan og Giri 3½ v.

Frammistaða fyrsta stórmeistara Norðmanna, Simen Agdestein, sem er 47 ára gamall, hefur vakið athygli. Hann gerði jafntefli í sjö fyrstu skákum sínum en teygði sig of langt og tapaði fyrir Topalov með hvítu í áttundu umferð. Hann átti að mæta Magnúsi Carlsen í lokaumferðinni. Simen hefur átt góða vinningsmöguleika í skákum sem hafa teflst upp úr franskri vörn. Samanburður við aðra þátttakendur hvað Elo-stig varðar er honum ekki hagstæður og er ástæðan helst sú að hann hefur lítið teflt undanfarið. Í umræðunni um frammistöðu hans virtust margir gleyma því að Simen, sem auk skákafreka er fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, er fæddur sigurvegari! Sú kynslóð sem ber uppi þetta mót er stórlega ofmetin þó að hún skreyti sig með hæstu skákstigum sem um getur í skáksögunni. Vil ég leyfa mér að fullyrða að enginn þessara meistara komist með tærnar þar sem Kasparov hafði hælana - að Magnúsi Carlsen þó undanskildum. Ef Anand, sem er af allt annarri kynslóð, er tekinn sem dæmi er hægt að rifja upp þá tíð þegar það þýddi varla fyrir Anand að stilla upp á móti Kasparov og það var á tíma þegar skákstyrkur Indverjans var mestur. Hæg en örugg afturför síðustu ára kom þó ekki í veg fyrir öruggan sigur hans í áskorendamótinu í Khanty-Mansiysk á dögunum.

Að Karjakin sé efstur fyrir lokaumferðina er með ólíkindum. Hann hafði heppnina með sér í 8. umferð þegar hann vann Hollendinginn Giri eftir 131 leik. Skákin þróaðist snemma í einhvers konar umsátursástand þar sem Karjakin gat vart hreyft legg né lið. Eftir 75 leik varð hann að láta skiptamun af hendi. Áfram hélt umsátrið en í 115 leik. fannst Giri nóg komið nóg og reyndi að brjótast í gegn. Í 120. leik missti hann af vinningsleik. Jafntefli með þráskák blasti loks við eftir 130 leiki en þá gerðist þetta:

Giri - Karjakin

Hér gat Giri leikið 131. Ka2 og eftir 131. ... Dg2+ er ekkert meira en jafntefli að hafa. Þannig dugar ekki að leika 131. ... d3 vegna 132. De8! og hvítur vinnur. En í stað þess að færa kónginn til a2 valdi Giri einn lélegasta leik mótsins:

g6nsi0l3.jpg131. Hc4??

og nú kom ...

131. .... Bc3!

og það er alveg sama hvað hvítur reynir í þessari stöðu. Það er engin vörn við hótununum 132. ... Dh1+ eða 132. ... De4+ og mát verður ekki umflúið. Giri gafst því upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

----------------------------------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Laugardagsmogganum, 14. júní 2014

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Verðskuldaður sigur

IMG 0387Sigur Guðmundar Kjartanssonar í landsliðsflokki á Skákþingi Íslands sem lauk um síðustu helgi virtist kom sumum á óvart, einkum þeim sem horfa á elo-stig sem nánast óbrigðulan mælikvarða. Þeir sem hafa verið að fylgjast með Guðmundi undanfarin misseri vita að hann má vera hagsýnni í ákvörðunum. Þar hefur hann enn verk að vinna en á Íslandsmótinu voru þessir þættir ekki vandamál. Guðmundur tefldi best allra og sigurinn var sanngjarn og hefði getað orðið stærri; í lokaumferðinni var hann peði yfir í endatafli og hafði allar forsendur til að halda áfram skákinni við Hjörvar Stein Grétarsson. En með jafntefli sló hann tvær flugur í einu höggi; varð Íslandsmeistari og samhliða datt inn áfangi að stórmeistaratitli. Lokastaðan var þessi:

1. Guðmundur Kjartansson 6 ½ v. (af 9) 2.-3. Héðinn Steingrímsson og Hannes Hlífar Stefánsson 5 ½ v. 4. - 5. Þröstur Þórhallsson og Henrik Danielsen 5 v. 6. Hjörvar Steinn Grétarsson 7. Helgi Áss Grétarsson 5 v. 8. - 9. Bragi Þorfinnsson og Einar Hjalti Jensson 3 ½ v. 10. Guðmundur Gíslason 2 v.

Henrik Danielsen tefldi betur en vinningatalan segir til um. Hannes og Héðinn reyna of oft að fá vinninga úr stöðum sem „tefla sig sjálfar". Stundum gengur það upp; Einar Hjalti rataði í stöðu gegn Hannesi, sem Bent Larsen fékk upp gegn Jens Enevoldsen árið 1956 eins og „aðvífandi áhorfandi" á hliðarlínunni var fljótur að benda á. Héðinn Steingrímsson reif sig upp um miðbik móts og átti góða möguleika á Íslandsmeistaratitlinum en tapaði fyrir Helga Áss í næstsíðustu umferð. Hjörvar Steinn virtist missa móðinn eftir góða byrjun.

Íslandsmeistaranum gekk sérlega vel með Hollensku vörnina, vann bæði Braga og Helga Áss. Sigurinn yfir Braga kom á besta tíma:

7. umferð:

Bragi Þorfinnsson - Guðmundur Kjartansson

Hollensk vörn

1. Rf3 f5 2. d3 Rc6 3. e4 e5 4. exf5 Rf6 5. d4 exd4 6. Rxd4 Rxd4 7. Dxd4 d5 8. Rc3 Bxf5 9. Bg5 Bxc2!

Guðmundur mætir hótun um langa hrókun - og eftir atvikum drottningarskák á e5 - með þessu bíræfna „peðsráni".

10. Kd2?!

Ekki var auðvelt að finna góða leiki, t.d. 10. Bxf6 Dxf6! 11. Dxf6 gxf6 12. Rxd5 O-O-O! og hvíta staðan riðar til falls.

10. ... Bg6 11. He1 Kf7 12. Kc1 c6! 13. g4 Db6 14. Df4 Bb4!

Svartur er með hartnær unnið tafl eftir aðeins 14 leiki!

15. Bxf6 gxf6 16. He3 Hae8 17. Bd3 Hxe3 18. Bxg6 hxg6 19. fxe3 Dc5 20. Kc2 Dd6

Guðmundur lætur sér nægja betra endatafl peði yfir. Hann gat leikið 20. ... g5! 21. Dc7+ Kg6 með vinningsstöðu eða 21. Df3 Bxc3! 22. bxc3 Da3 o.s.frv.

21. h4 Dxf4 22. exf4 He8 23. Kd3 Bd6 24. Re2 He4 25. Hf1 c5 26. b3 b5 27. Rc3 Hd4 28. Kc2 a6 29. Re2 He4 30. Rc3 Hxf4 31. Hxf4 Bxf4 32. Rxd5 Be5 33. Kd3 Ke6 34. Re3 f5 35. gxf5 gxf5 36. a4 f4

g39shaq1.jpg( STÖÐUMYND )

37. Rg4?

Eftir þennan leik knýr Guðmundur fram sigur. Eina vonin var að skjóta inn 37. axb5 þar sem 37. ... fxe3 strandar á 38. bxa6 Bb8 39. Kxe3 og hvítur heldur jafntefli. En eftir 37. ... axb5 ætti svartur að vinna.

37. ... c4+! 38. bxc4 bxa4

Með frípeð sitt á hvorum vængnum er eftirleikurinn auðveldur.

39. Kc2 f3 40. h5 Bd4 41. h6 f2 42. Rxf2 Bxf2 43. Kb2 Kf7 44. Ka3 Kg6 45. Kxa4 Bb6 46. c5 Bd8 47. Kb4 Kxh6 48. Kc4 Kg6 49. Kd5 a5 50. c6 Bc7

- og Bragi gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

----------------------------------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Laugardagsmogganum, 7. júní 2014

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Guðmundur Kjartansson efstur - æsispennandi Íslandsþing

IMG 0387Þegar þetta er ritað eru þrjár umferðir eftir í keppni landsliðsflokks á Skákþingi Íslands sem fram fer í Stúkunni á Kópavogsvelli og alt bendir til þess að lokaumferðirnar verði æsispennandi en úrslit margra skáka hafa komið hressilega á óvart. Fyrir mótið lét greinarhöfundur þau orð falla að Guðmundur Kjartansson væri til alls vís. Hann er einn efstur eftir sex umferðir með 4 ½ vinning og hefur náð að vinna löng og ströng endatöfl og hefur teflt af mestu öryggi allra keppenda. Henrik Danielsen kemur næstur með 4 vinninga, hefur m.a. unnið Hjörvar Stein og Braga. Í 3.-5. sæti koma svo Héðinn Steingrímsson, Hannes Hlífar Stefánsson og Bragi Þorfinnsson, með 3 ½ vinning.

Hannes komst í toppsætið eftir fjórar umferðir en tapaði þá fyrir Héðni og lék gróflega af sér í vænlegri stöðu gegn Þresti Þórhallssyni og tapaði aftur. Þröstur er í 6. sæti með 3 vinninga en sex efstu eiga allir möguleika á Íslandsmeistaratitlinum. Geta má þess að lokaumferðin sem tefld verður á morgun, sunnudag, býður uppá skákir Hannesar og Henriks, Hjörvars og Guðmundar og Héðins og Braga.

Aðstæður í Stúkunni á Kópavogsvelli, þar sem einnig fer fram keppni í áskorendaflokki, en þar er Magnús Teitsson efstur með 5 ½ vinning af sex, eru prýðilegar. Hrósa ber frábærri heimasíðu sem býður uppá fjölbreyttar beinar útsendingar frá öllum skákum landsliðsflokks og valinna skáka áskorendaflokks. Hins vegar fær Stefán Kristjánsson ekki mikið hrós fyrir að hætta við þátttöku 2 klst. áður en keppni hófst. Þeir sem hlaupa í skarðið með stuttum fyrirvara geta ekki undirbúið sig fyrir svo harða keppni og tefla þ.a.l. við ójafnar aðstæður á við aðra keppendur.

Þröstur Þórhallsson er alltaf sami baráttujaxlinn og vann glæsilegan sigur á Héðni Steingrímsson í 3.P1010565 umferð en hafði tapað í tveim fyrstu umferðunum:

Héðinn Steingrímsson - Þröstur Þórhallsson

Vængtafl

1. c4 e6 2. g3 d5 3. Bg2 Rf6 4. Rf3 Be7 5. O-O O-O 6. b3 c5 7. Bb2 Rc6 8. e3 b6 9. Rc3 Ba6 10. De2 Hc8 11. Hac1 Dd7 12. Rb5

Þetta ferðalag riddarans lítur ekki illa út en svartur gerir best í því að láta hann afskiptalausan.

12. ... Hfd8 13. d4 cxd4 14. exd4 De8 15. Hfd1 h6 16. a4

Óþarfur leikur sem skapar vissa veikleika á drottningarvængum. Gott var 16. Re5.

16. ... Bb7 17. Re5 a6 18. Rxc6 Hxc6 19. Rc3 Hcc8 20. cxd5 exd5 21. Dd3?!

Annar ónákvæmur leikur. Betra var 21. Bh3.

21. ... Dd7 22. Hc2 Bb4 23. Hdc1 He8 24. Ra2 Hxc2 25. Dxc2 Bd6 26. Rc3 h5!

Smátt og smátt hefur svartur náð frumkvæðinu og þessi framrás h-peðsins á eftir að reynast örlagarík.

27. Dd2 Df5 28. Dd1

Það er erfitt að finna áætlun, 28. He1 strandar á 28. ... Hxe1+ 29. Dxe1 Dc2! o.s.frv.

28. ... h4 29. Df3 Dg5 30. Hd1 hxg3 31. hxg3 Rg4!

Óveðursskýin hrannast upp, 32. Bh3 má svara með 32. .. Bc8 með ýmsum hótunum tengdum riddaranum.

32. Bc1 Dh5 33. Bf4 Bb4!

Ein hugmynd svarts er að skipta uppá c3 og leika - a5 til að finna a6-reitinn fyrir biskupinn.)

34. Rxd5

giesg02j.jpg34. ... Be1!

Beint til upprunans! Byrjendur vita flestir að f7- og f2-peðin eru sérstaklega viðkvæm.

35. Rf6+ gxf6 36. Dxb7 Bxf2+ 37. Kf1 Rh2+ 38. Kxf2 Dxd1 39. Be4 Rg4+ 40. Kg2 De2+

- og Héðinn gafst upp. Tapið hægði á honum en sló hann þó ekki út af laginu.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

----------------------------------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Laugardagsmogganum, 31. maí 2014

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Spennandi barátta um Íslandsmeistaratitilinn framundan

Spámenn góðir hafa getið sér til um að nafn sigurvegarans í landsliðsflokki á Skákþingi Íslands sem hófst í gær byrji á bókstafnum H. Dregið var um töfluröð í vikunni og lítur taflan þannig út: 1. Henrik Danielsen 2. Björn Þorfinnsson 3. Helgi Áss Grétarsson 4. Bragi Þorfinnsson 5. Hjörvar Steinn Grétarsson 6. Héðinn Steingrímsson 7. Þröstur Þórhallsson 8. Stefán Kristjánsson 9. Hannes Hlífar Stefánsson 10. Guðmundur Kjartansson.

Það kemur á daginn þegar taflan er skoðuð að stigahæstir eru Hannes, Héðinn, Hjörvar og Henrik og svo má bæta við fimmta h-inu; Helgi Áss Grétarssyni hefur ekki tekið þátt í Íslandsmóti í tíu ár en er til alls vís og það á líka við um Guðmund Kjartansson - nái hann samkomulagi við klukkuna og læri þá lexíu að betri sé einn fugl í hendi en tveir í skógi.

Í aðdraganda þessa móts hafa keppendur verið að hita upp. Hannes, Þröstur og Bragi tóku þátt í Copenhagen Chess Challenge á dögunum án þess að bæta miklu við orðstír sinn og töpuðu í kringum tíu elo-stigum hver. Henrik stóð sig betur, varð í 2.-5. sæti af 68 keppendum.

Wow-air mótinu lauk svo sl. mánudagskvöld þegar skákvinurinn Skúli Mogensen forstjóri afhenti verðlaun. Þar vann Hjörvar Steinn Grétarsson glæsilegan sigur, hlaut 6 ½ v. af 7 mögulegum. Hannes Hlífar kom næstur með 5 v. og í 3.- 4. sæti urðu Guðmundur Kjartansson og Þröstur Þórhallsson með 4 ½ v. Úrslitin í B- flokki vöktu athygli vegna góðrar frammistöðu tveggja ungra manna. Þar vann Bolvíkingurinn Magnús Pálmi Örnólfsson sigur með 5 ½ v. af 7 en í 2.-5. sæti urðu Kjartan Maack, Hrafn Loftsson, Vignir Vatnar Stefánsson og Gauti Páll Jónsson með 4½ v. Gauti Páll Jonsson sem er 15 ára hefur tekið stórstígum framförum undanfarið. Hugmyndaríkur stíll hans blómstraði í eftirfarandi skák:

Gauti Páll Jónsson - Sverrir Örn Björnsson

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 d6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rc3 Rc6 6. Be2 e6 7. O-O Be7 8. Be3 O-O 9. Kh1 Dc7 10. g4

Í takti við Keres-afbrigðið. Svartur gerir sennilega best í því að leika nú 10. ... d5.

10. ... a6 11. a4 b6 12. g5 Rd7 13. f4 Rxd4 14. Bxd4 Bb7 15. De1 e5 16. Be3 exf4 17. Bxf4 Rc5

Það er oft gallinn við peðasókn hvíts að svartur nær að reka fleyg í peðin og hefur færi eftir e-línunni.

18. Bf3 Hfe8 19. Dh4 Bf8?

Of mikil „rútína". Betra var 19 ... Re6 og hótar í sumum tilvikum 20. ... h6.

20. Rd5 Bxd5 21. exd5 Rd7 22. Bg4 Re5 23. Bxe5?!

Þessi uppskipti náðu að rugla Sverri í ríminu 23. Bf5 var „betra" en að baki lá skemmtileg hugmynd.

23. ...Hxe5 24. Ha3!

Þessum hrók er ætlað stórt hlutverk.

24. ... Be7?!

Betra var 24. ... Dxc2.

g8fseuo5.jpg- sjá stöðumynd -

25. Hxf7! Kxf7

Það er ekki nokkur leið að finna vörn eftir hróksfórnina. Einhver stakk uppá 25. ... Dc4 en þá kemur 26. Hf8+!! Kxf8 (annars fellur drottningin eftir 27. Be6+) 27. Hf3+ Bf6 28. gxf6 með sterkri sókn og 25. ... Dxc2 er svarað með 26. Be6! Kh8 27. Haf3 með vinningsstöðu.

26. Dxh7 Hxg5

Eða 26. .... Bf8 27. Bh5+ Ke7 28. Hf3! og vinnur.

27. Be6+ Kf6 28. Hf3+ Ke5 29. Dd3 Dc5 30. De2+

- og svartur gafst upp. Hann er mát í næsta leik.

Í áskorendaflokki er m.a. keppt um Íslandsmeistaratitil kvenna. Þar eru rösklega 40 keppendur skráðir til leiks. Stigahæstur er Einar Hjalti Jensson.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

----------------------------------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Laugardagsmogganum, 24. maí 2014

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Hjörvar Steinn með fullt hús á WOW-air mótinu

HjörvarKeppni í landsliðsflokki á Skákþingi Íslands hefst í Stúkunni a Kópavogsvelli þann 23. maí nk. og eins og fyrir tveimur árum þegar mótið fór fram á þessum sama stað er það vel skipað en þessir 10 skákmenn eru skráðir til leiks: Hannes Hlífar Stefánsson, Héðinn Steingrímsson, Hjörvar Steinn Grétarsson, Stefán Kristjánsson, Henrik Danielsen, Bragi Þorfinnsson, Helgi Áss Grétarsson, Guðmundur Kjartansson, Þröstur Þórhallsson og Björn Þorfinnsson.


Þessa móts er beðið með talsverðri eftirvæntingu; Íslandsmeistaratitillinn gefur sjálfkrafa sæti í ólympíulið Íslands en nýr landsliðseinvaldur, Jón L. Árnason, mun velja ólympíuliðið eftir mótið. Hannes Hlífar Stefánsson á titil að verja en af öðrum þátttakendum hafa Héðinn Steingrímsson, Þröstur Þórhallsson og Henrik Danielsen áður hampað Íslandsmeistaratitlinum.

Ekki er hægt að útiloka neinn keppendanna í því að vinna þetta mót. Þar sem keppendur eru tíu en ekki tólf eins og venja er getur Dagur Arngrímsson ekki verið með og er það miður. Á Íslandsmótinu fyrir tveim árum var hann aðeins ½ vinningi á eftir efstu mönnum.

Dagur er í hópi nokkurra sem hafa verið að tefla á WOW-air móti Taflfélags Reykjavíkur. Þar er teflt einu sinni í viku og þetta hæga tempó virðist ekki vera að virka fyrir alla. Hjörvar Steinn Grétarsson hefur þar skotið öðrum keppendum langt aftur fyrir sig og hefur unnið allar fimm skákir sínar. Guðmundur Kjartansson er í 2. sæti með 3 ½ vinning en í 3.-8. sæti koma Dagur Ragnarsson, Hannes Hlífar, Dagur Arngrímsson, Stefán Kristjánsson, Ingvar Þ. Jóhannesson og Þröstur Þórhallsson allir með 3 vinninga.

Í B-flokki er Magnús Pálmi Örnólfsson efstur með 4 ½ vinning en Kjartan Maack er annar með 3 ½ vinning.

Hjörvar Steinn hafði unnið Hannes Hlífar og Stefán Kristjánsson fremur auðveldlega í fyrri umferðum og sl. mánudagskvöld mætti hann Degi Arngrímssyni:

Hjörvar Steinn Grétarsson - Dagur Arngrímsson

Hollensk vörn

1. d4 d5 2. c4 c6 3. Rf3 e6 4. e3 Bd6 5. b3

Skákin hefst með slavneskri vörn en Dagur snýr byrjuninni yfir í grjótgarðinn hollenska.

5. ... Rd7 6. Bb2 f5 7. Bd3 Re7?! 8. Re5 Bb4+!?

Það verður Degi að falli að hann leggur út í beinar aðgerðir án þess að hafa lokið liðsskipan. Ekkert var að því að hrókera stutt.

9. Rd2 Rxe5 10. dxe5 dxc4 11. Bxc4 Rd5 12. a3 Ba5 13. b4 Bb6 14. Dh5+!

Öflugur leikur sem miðar að því að hindra hrókun sem kemur t.d. fram í afbrigðinu 14. ... g6 15. Dh6.

14. ... Kf8 15. Df3 Kg8 16. e4 fxe4 17. Rxe4 Df8 18. Dg4

Hjörvar sá riddarafórnina, 18. Rf6+!, en ekki fundist hún áhættunnar virði. Eftir 18. ... gxf6 19. exf6 hótar hvítur 20. f7+ og 19. ... Df7 dugar skammt vegna 20. Dg4+ Kf8 21. Dg7+! og vinnur.

18. ... Df4 19. De2 Re3 20. fxe3 Dxe4 21. O-O

Hvítur lætur sér það í léttu rúm liggja þó e3-peðið falli. Samt var 21. Hd1 betri leikur.

21. ... Dxe3 22. Dxe3 Bxe3 23. Kh1 h5 24. Hf3 Bg5 25. Haf1 Kh7

Eina vonin lá í 25. ... Bd7 t.d. 26. f7 b5 27. Bb3 Be8! 28. Bxe6+ Kh7 og svartur er með í leiknum.

26. Bd3+ Kh6

gbgscsqk.jpg27. h4!

- og svartur gafst upp. „Houdini" gefur upp að eftir 27. ... Bxh4 sé svartur óverjandi mát í átta leikjum sem hefst með 28. Bc1+ Bg5 29. Bxg5+ Kxg5 20. Hg3+ Kh6 30. Hf7! o.s.frv.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

----------------------------------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Sunnudagsmogganum, 11. maí 2014

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Nansý Davíðsdóttir Norðurlandameistari stúlkna

NMGirls2014LastDay 015Nansý Davíðsdóttir vann gullverðlaun í yngsta aldursflokki á Norðurlandamóti stúlkna á Bifröst um síðustu helgi. Nansý hlaut 4 ½ vinning af fimm mögulegum en hún vann helsta keppinaut sinn í c-flokki mótsins með svörtu í næstsíðustu umferð. Íslendingar voru nálægt því að hreppa einnig gullið í b-flokki og segja má að einungis tæknileg atriði við jafntefliskröfu hafi komið í veg fyrir að Sóley Lind Pálsdóttir myndi sigra þar en í úrslitaskák hennar í fjórðu umferð kom sama staðan upp þrisvar, en Sóley ógilti kröfuna með því að leika fyrst og krefjast síðan jafnteflis en reglur FIDE gera ráð fyrir að fyrst sé leikur skráður, klukkan stöðvuð og síðan kallað á dómara. En Sóley Lind tefldi skák mótsins í 2. umferð en meðal áhorfenda að þeirri viðureign var Illugi Gunnarsson menntamálráðherra sem kom á laugardagsmorguninn til að heilsa upp á keppendur:

Sóley Lind Pálsdótir - Brandy Paltzer (Svíþjóð)

Sikleyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 d6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rc3 a6 6. Be3 Rc6 7. Rb3 g6 8. Be2 Bg7 9. Dd2 Be6 10. f3 O-O 11. O-O-O Re5 12. Bh6 Bxh6?!

Það er alltaf varasamt að taka strax á h6. Þar er drottningin stórhættuleg en hvítur hefur sparað sér tíma miðað við þekkt afbrigði með því að staðsetja biskupinn á e2 en ekki b3.

13. Dxh6 Hc8 14. h4 Dc7?

Annar slakur leikur. Fórnin á c3, 14. ... Hxc3! 15. bxc3 Dc7 er eina leiðin til að skapa mótspil.

15. h5 Rxh5 16. g4 Rf6 17. Hh2!

Útsmoginn leikur sem villir sýn á aðalhluverki hróksins sem er að valda c2-peðið!

17. ... Hfd8 18. g5 Rh5 19. f4 Rg4 20. Bxg4 Bxg4 21. Rd5 Dd7

Meira viðnám, veitti 21. ... Dc4 en eftir 22. Rxe7+ Kh8 23. He1! stendur hvítur til vinnings. En nú kemur glæsileg leikflétta.

gbesbq9s.jpg22. Hxh5! Bxh5 23. Rf6+! exf6 24. gxf6 Hxc2+ 25. Kb1! Hc1+ 26. Hxc1 De8 27. Dg7 mát.

Hjörvar efstur á Wow air-mótinu

Hjörvar Steinn Grétarsson hefur unnið allar skákir sínar á Wow air-móti Taflfélags Reykjavíkur. Hann vann Hannes Hlífar Stefánsson í 4. umferð og hefur vinningsforskot á næsta mann sem er Dagur Arngrímsson. Þeir tefla saman í fimmtu umferð. Allar líkur benda til þess að Hjörvar komist upp fyrir Hannes Hlífar og Héðin Steingrímsson á næsta stigalista FIDE. Skák Hjörvars og Hannesar lauk eftir aðeins 25 leiki en baneitraður 20. leikur Hjörvars gerði í raun út um taflið:

Hjörvar Steinn Grétarsson - Hannes Hlífar Stefánsson

Drottningarindversk vörn

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rf3 Bb4 4. Bd2 Bxd2 5. Rbxd2 d5 6. g3 O-O 7. Bg2 c6 8. O-O Rbd7 9. Dc2 b6 10. e4 Rxe4 11. Rxe4 dxe4 12. Dxe4 Bb7 13. Hfd1 Dc7 14. Re5 Rxe5 15. Dxe5 Hac8 16. c5 Hfd8 17. b4 Ba6 18. Hac1 Bb5 19. De3 a5 20. d5

gbesbqa4.jpg20. ... bxc5 21. dxe6 cxb4 22. Bh3 Hb8 23. e7 Hxd1 24. Hxd1 c5 25. Df4!

- og Hannes gafst upp.

Enn sigrar Magnús Carlsen

Skákheimurinn rak upp stór augu þegar Magnús Carlsen tapaði tveim skákum í röð í fyrri helmingi minningarmótsins um Vugar Gashimov í Aserbaídsjan. En í seinni hlutanum vann hann strax tvær skákir með svörtu og knésetti helsta keppinaut sinn, Ítalann Caruana, í lokaumferðinni:

Lokaniðurstaðan: 1. Magnús Carlsen 6 ½ v. (af 10) 2. Caruana 5 ½ v. 3.-5. Karjakin, Nakamura og Radjabov 5 v. 6. Mamedyarov 3 v.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

----------------------------------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Sunnudagsmogganum, 4. maí 2014

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Fyrsta tapskák heimsmeistarans

Carlsen og CarunaMagnús Carlsen hefur ekki teflt ýkjamikið síðan hann varð heimsmeistari í fyrra; minningarmótið um Azerann Vugar Gashimov, sem fram fer þessa dagana í borginni Shamkir í Aserbadsjan, er annað mótið sem hann tekur þátt eftir einvígið við Anand. Gashimov var í framvarðarsveit Azera og m.a. í sigurliði þeirra á Evrópumóti landsliða í Novi Sad 2009. Hann var kornungur greindur með heilaæxli og féll frá 10. janúar sl., aðeins 28 ára gamall. Árangur hans á skáksviðinu var magnaður í ljósi veikinda hans en um tíma var hann níundi stigahæsti skákmaður heims. Hans var minnst af mikilli virðingu og hlýju enda var maðurinn hvers manns hugljúfi.

Magnús hóf keppnina af miklum krafti, vann Shakriyar Mamedyarov og Hikaru Nakamura í tveim fyrstu skákum, var síðan nálægt því að leggja Sergei Karjakin með svörtu í þriðju umferð en í fjórðu umferð tapaði hann sinni fyrstu skák sem heimsmeistari. Berlínarvörnin sem hefur dugað hefur honum svo vel m.a. í einvíginu við Anand hrundi til grunna í 25. leik er hann missti peð og eftirleikurinn reyndist hinum tæknilega sterka ítalska stórmeistara auðveldur:

Fabiano Caruana - Magnús Carlsen

Spænskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 Rf6 4. O-O Rxe4 5. d4 Rd6 6. Bxc6 dxc6 7. dxe5 Rf5 8. Dxd8 Kxd8 9. h3 h6 10. Hd1 Ke8 11. Rc3 Bd7 12. Bf4 Hd8 13. Re4 Be7 14. g4 Rh4 15. Rxh4 Bxh4 16. Kg2 Be6 17. f3 b6 18. b3 c5 19. c4 Hd7 20. Bg3 Be7 21. Hxd7 Bxd7 22. Rc3

Rétti staðurinn fyrir riddarann sem stefnir á d5 reitinn, svartur má varla leika 22. ... c6 vegna veikingarinnar á d6-reitnum.

22. ... Kd8 23. Rd5 He8 24. Hd1! Kc8?

Hvítur hefur uppi mikinn þrýsting á stöðu svarts en svo virðist sem Magnús hafi alveg verið lokaður fyrir svarleik Caruana, a.m.k. gjörsamlega frábitinn þeirri hugmynd að leika peði til c6 sem er þó best úr því sem komið er. ) viðfangs.

gnosasbq.jpg25. Rxc7!

Með hugmyndinni 25. ... Kxc7 26. e6+ og vinnur, t.d. 26. ... Kc6 27. Hxd7 fxe6 28. Hc7 mát!

25. ... Hd8 26. Rd5 He8 27. Be1 Bd8 28. Bc3 g6 29. Kg3 b5

Svartur reynir allt sem hann getur til að skapa sér mótspil jafnvel þó ýmsir veikleikar skapist í leiðinni.

30. cxb5 Bxb5 31. Re3 He6 32. f4 Ha6 33. Hd2 h5 34. gxh5 gxh5 35. Rf5 Hg6+ 36. Kh2 Bc6 37. Rd6 Kb8 38. f5 Hg8 39. f6 Bb6 40. Rc4 He8 41. Rd6 Hg8 42. Rxf7

Caruana gat gert þetta í 40. leik en þá var lítill tími aflögu en eftir að hafa náð tímamörkunum gat hann reiknað dæmið betur.

42. ... c4 43. h4 Hg4 44. e6 Be3 45. Be5+ Ka8 46. Hd8+ Kb7 47. Bg3 c3 48. Hb8+ Ka6 49. Hc8 Bd5 50. Hxc3 Bd4 51. Hd3 He4 52. Hd2 Hxe6 53. Rg5

- betra en 53. Hxd4 He2+ 54. Kg1 (en ekki 54. Kh3 Be6+ og mátar) sem vinnur einnig. En hér stöðvaði Magnús klukkuna og gafst upp. Fyrsta tapskák hans í tíu kappskákum sem heimsmeistari.

Sex af fremstu stórmeisturum heims tefla tvöfalda umferð. Staðan eftir fjórar umferðir: 1. - 2. Magnús Carlsen og Caruana 2 ½ v. 3. - 5. Karjakin, Radjabov og Nakamura 2 v. 6. Mamedyarov 1 v.

B-flokkur minningarmótsins er ekki síður vel skipaður en þar tefla tíu keppendur einfalda umferð. Eftir fjórar umferðir var Frakkinn Etienne Bacrot efstur með 3 vinninga en í 2.-3. sæti voru Úkraínumaðurinn Pavel Eljanov og Pólverjinn Radoslaw Wojtaszek en þeir voru báðir með 2 ½ vinning.


Helgi Ólafsson helol@simnet.is

----------------------------------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Sunnudagsmogganum, 27. apríl 2014

Skákþættir Morgunblaðsins


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skákþáttur Morgunblaðsins: Vopn sem dugði

Helgi Ólafsson„Hvað á að gera á móti þessum leik," spurði frægur stórmeistari og lék kóngspeðinu fram um tvo reiti. Skákmenn eru alltaf að glíma við þessa spurningu og það er ekkert svar rétt. Í þrem einvígjum átti Viktor Kortsnoj erfitt með að finna haldgott vopn gegn kóngspeði Karpovs sem síðar átti við þetta sama vandamál að stríða þegar hann mætti Kasparov. Frumkvæðið liggur hjá hvítum og eina markmiðið sem svartur getur haft í byrjun tafls er að fá teflanlega stöðu. Þannig komst ungverski stórmeistarinn Lajos Portisch að orði og lærimeistari hans, Mikhael Botvinnik, hefur áreiðanlega verið á sömu skoðun. Botvinnik valdi yfirleitt byrjanir sem hann taldi liggja vel að stíl hans. Í öðru einvígi sínu við Tal árið 1961, sem hann vann 13:8, reyndist Caro-Kann vörnin það vopn sem dugði. Þessi byrjun lætur ekki mikið yfir sér og er frekar auðlærð. Í einni af úrslitaviðureignum Íslandsmóts skákfélaga á dögunum milli Taflfélags Vestmannaeyja og GM Hellis sló þeirri hugsun niður hjá greinarhöfundi að Caro-Kann vörnin væri rétta vopnið. Fyrr en varði vorum við komnir a slóðir Tal og Botvinnik:

Þröstur Þórhallsson GM Hellir _ Helgi Ólafsson TV

Caro Kann

1. e4 c6 2. d4 d5 3. e5 c5

Leikur Botvinniks. Algengara er 3. .... Bf5.

4. dxc5 e6 5. Rf3 Bxc5 6. Bd3 Rc6 7. O-O Rge7 8. He1 Rg6 9. c3 O-O 10. Be3 Be7

Uppskipti komu einnig til greina en hvítur á vandræðum með að staðsetja e3-biskupinn.

11. Bd2 Bd7 12. a4 f6 13. exf6 Bxf6 14. Ra3 e5 15. Db3 Bg4 16. Be4 Be6 17. Bxg6 hxg6 18. Dxb7

Hvítur seilist eftir „eitraða" peðinu en svartur hefur nægar bætur.

18. ... Ra5 19. Da6 Bc8! 20. Db5 a6 21. De2 Bg4 22. h3 Bxf3 23. gxf3

Alls ekki 23. Dxf3 vegna 23. ... Bh4 og 24. .... Bxf2+.

23. ... Dd7 24. Dd3 Rb3 25. Had1 Had8 26. Kg2 Dxa4 27. Dxg6 Hd6 28. Be3 Dc6 29. Dg4?

Eftir þennan leik á hvítur í erfileikum. _Houdini" mælir með 29. Dc2 með jöfnu tafli en forsenda slíks mats eru útreikningar sem ekki nokkur skákmaður hefur vald yfir!

29. ... Be7 30. h4 Hg6 31. Bg5 Hf4! 32. Dg3

Hvítur reynir að halda stöðu sinni saman á kóngsvæng en nú fellur fyrsta sprengjan.

gcqsa5uo.jpg32. .. Hxh4! 33. Hxe5

Lítt stoðar 33. Dxh4 Hxg5+ 34. Kh3 De6+ 35. Kh2 Hg2+og drottningin fellur.

33. ... Hh5 34. f4

Eða 34. Hdxd5 Dxd5! 35. Hxd5 Hhxg5 og vinnur mann.

34. ... d4+ 35. f3 Bf6! 36. cxd4 Rxd4!

Hvítur vonaðist eftir 36. ... Bxe5? 37. dxe5 og hvítur heldur velli.

37. Hxd4 Bxe5 38. Hc4

- og gafst upp um leið því staðan er vonlaus eftir t.d. 38. .... Dd7. Hann gat veitt meira viðnám með 38. Hd8+ Kh7 39. Dg4 en þá kemur 39. ... Hgxg5! 40. fxg5 Hh2+ 41. Kf1 Dc1+ og mát í næsta leik.

Helgi Áss með á Íslandsþingi

Keppni í landsliðsfokki á Skákþingi íslands fer fram í Stúkunni á Kópavogsvelli dagana 23. maí-1. júní. Þetta er sami keppnisstaður og á mótinu fyrir tveim árum. Keppendur verða tíu talsins og meðal þeirra er Helgi Áss Gretarsson sem tefldi síðast á Íslandsmóti fyrir tíu árum. Þessir eru skráðir til leiks: Hannes Hlífar Stefánsson, Héðinn Steingrímsson, Hjörvar Steinn Grétarsson, Stefán Kristjánsson, Henrik Danielsen, Bragi Þorfinnsson, Helgi Áss Grétarsson, Þröstur Þórhallsson, Guðmundur Kjartansson og Björn Þorfinnsson.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

----------------------------------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Sunnudagsmogganum, 20. apríl 2014

Skákþættir Morgunblaðsins


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 5
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 110
  • Frá upphafi: 8780633

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 91
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband