Færsluflokkur: Skákþættir Morgunblaðsins
13.8.2016 | 20:00
Skákþáttur Morgunblaðsins: Jóhann teflir á Ólympíumótinu í Bakú
Íslenska liðið sem teflir í opna flokknum er skipað Jóhanni Hjartarsyni, Hannesi Hlífari Stefánssyni, Hjörvari Steini Grétarssyni, Guðmundi Kjartanssyni og Braga Þorfinnssyni. Jóhann tefldi síðast á Ólympíumótinu í Tórinó á Ítalíu fyrir 10 árum.
Athygli vekur að einvaldurinn og liðsstjórinn, Ingvar Jóhannesson, valdi ekki Héðin Steingrímsson. Héðinn fékk 17½ vinning samanlagt úr 22 skákum á tveim síðustu Íslandsmótum og m.a. vegna þeirrar frammistöðu telja margir óverjandi að ganga fram hjá honum. Pálmi Pétursson sagði sig frá landsliðsnefnd þegar niðurstaðan lá fyrir.
50 ár frá merku Ólympíumóti
Við vorum nokkrir sem tókum þátt í heimsmeistaramótunum í atskák og hraðskák í Berlín sl. haust. Við opnunarhöfnina var keppendum boðið að sjá ræmuna Pawn sacrifice sem fjallar um einvígi Fischers og Spasskís í Reykjavík 1972. Þar sem við höfðum flestir séð myndina áður yfirgáfum við kvikmyndasalinn en á hæð neðar hittum við heiðursgest þessarar samkomu, Borís Spasskí. Hann tók okkur fagnandi og lék á als oddi þrátt fyrir fötlun sína. Og þessi dægrin rifjast upp barátta Spasskís við Bobby Fischer á tveim mótum árið 1966, fyrst á Piatigorski-mótinu í Kaliforníu sem hófst í ágúst og síðar á Ólympíumótinu í Havana á Kúbu í nóvember. Ýmis atvik þar má líta sem einhverskonar forleik að dramatíkinni hér á landi sex árum síðar. Viðureign Sovétmanna og Bandaríkjanna bar upp á helgan hvíldardag þeirrar evangelísku kirkjudeildar sem Fischer tilheyrði á þeim tíma. Sovétmenn höfnuðu tillögu að viðureigninni yrði frestað og Bandaríkjamenn mættu ekki og úrslitin 4:0. En svo barst boð að ofan frá Moskvu þess efnis og þjóðirnar skyldu tefla á næsta frídegi mótsins. Heimsmeistarinn Tigran Petrosjan eftirlét Spasskí að tefla við Bobby Fischer á 1. borði. Skákinni lauk með jafntefli, Tal vann Robert Byrne og úrslitin urðu 2½ :1½.Petrosjan fékk svo gullið á 1. borði, hlaut 11½ vinning úr 13 skákum eða 88,46% á móti árangri Fischers sem tefldi nær allar skákir mögulegar og hlaut 15 v. af 17 eða 88,23%.
Viktor Kortnoj sem tefldi í Havana taldi að Spasskí hefði ekki dregið nægilegan lærdóm af skákinni við Fischer þó að hann hefði verið í mikilli taphættu í þessari stöðu:
Ólympíumótið í Havana 1966:
Fischer Spasskí
Talið hefur verið að Fischer hafi getað unnið þessa stöðu með hinum einfalda leik 38. He3 en teygði sig eftir a-peðinu og lék 38. Dxa6. Spasskí svaraði fyrir sig með 38.... Hc8! og eftir 39. Hd6 Hxc3 40. Hxf6 kom 40.... Be6! Fischer varð að láta skiptamun og hélt jafntefli í 57 leikjum eftir að skákin hafði farið í bið. Sílikonvinurinn Houdini lætur sér fátt um finnast og mælir með 38. Bxe5! Vinninginn má sækja í endatafli sem kemur upp eftir 38.... Hxe5 39. Dxb8 Hxb8 40. Hxd7 He7 41. Hxe7 Bxe7 42. Hc1 Hb7 43. Bd5 Ha7 44. Kf1! Einn vandi svarts er sá að hinum eðlilega leik 44.... a5 má svara með 45. a4! bxa4 46. b5! með góðum vinningsmöguleikum.
Helgi Ólafsson helol@simnet.is
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 6. ágúst 2016
Skákþættir Morgunblaðsins | Breytt 8.8.2016 kl. 15:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Alls eru tefldar níu umferðir og nýtt stórveldi skákarinnar virðist vera að koma fram: Íranir. Þeir hafa þegar tryggt sér ólympíugullið með 15 stig, í 2. sæti koma Rússar og Armenar í 3. sæti. Í lokaumferðinni dróst Ísland á móti sterkri sveit Moldavíu.
Fyrirkomulag mótsins er nýtt; fimm í sveit þar af ein stúlka en teflt er á fjórum borðum. Varamaður sveitarinnar, Svava Þorsteinsdóttir, er að stíga sín fyrstu skref á þessum vettvangi, hún vann sannfærandi í fyrstu umferð og byggði upp góðar stöður í næstu tveim skákum en tapaði. Vignir Vatnar Stefánsson sem er 13 ára gamall hefur teflt vel og er með 4 ½ vinning af sjö mögulegum. Bárður Örn Birkisson er einnig með 4 ½ vinning af sjö á 2. borði. Björn Hólm hefur hlotið 3 ½ vinning af átta og Hilmir Freyr Heimisson er í banastuði; eftir jafntefli í tveim fyrstu umferðunum vann hann fimm skákir í röð, 6 vinningar af sjö mögulegum á 4. borði!
Þátttökuþjóðirnar eru 54 talsins og Íslandi var fyrirfram raðað í 32. sæti. Indland verður vettvangur Ólympíumóts 16 ára og yngri árið 2017 samkvæmt mótaáætlun FIDE.
Niðurstaða þessa móts er í takt við stöðu Íslands á alþjóðavettvangi meðal ungra skákmanna og talsvert betri ef eitthvað er.
Hjörvar við toppinn í Kaupmannahöfn
Íslenskir skákmenn sitja einnig að tafli í Kaupmannahöfn þar sem fram fer hið svonefnda Xtracon-mót sem hét áður Politiken cup. Stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson gerði jafntefli í sjöundu umferð og var með 5 ½ vinning í toppbaráttunni en Egyptinn Amin Bassem er efstur með 6 ½ vinning.
Á opna tékkneska meistaramótinu í Pardubice í Tékklandi bar helst til tíðinda að Oliver Aron Jóhannesson vann stórmeistarann Jansa í fjórðu umferð. Oliver Aron og Dagur Ragnarsson eru báðir með 3 ½ v. af sjö mögulegum og voru að ná árangri umfram væntingar í A-flokknum þar sem Armeninn Movsesian og Indverjinn Ganguly voru efstir.
Magnús Carlsen sigraði með yfirburðum
Magnús Carlsen vann hið sterka mót í Bilbao á Spáni sem lauk um síðustu helgi. Gefin voru þrjú stig fyrir sigur og eitt fyrir jafntefli og lokaniðurstðan var þessi:
Carlsen 17 stig, 2. Nakamura 12 stig, 3. 4. So og Wei Yi 11 stig, 5. Karjakin 9 stig, 6. Giri 7 stig.
Heimsmeistarinn á síðasta orðið. Andstæðingi hans virðist standa stuggur af nálega öllum leikjum Magnúsar, saklausum peðsleikjum eins 9. a3 og 10. b4. Og svo kemur hrina snilldarleikja, 17. De1, 18. Rd2, 19. Rc4. So leggur niður vopnin þegar hann stendur frammi fyrir mátsókn:
Bilbao 2016; umferð:
Magnús Carslen Wesley So
Spænskur leikur
1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 Rf6 4. d3 Bc5 5. Bxc6 dxc6 6. De2 De7 7. Rbd2 Bg4 8. h3 Bh5 9. a3 Rd7 10. b4 Bd6 11. Rc4 f6 12. Re3 a5 13. Rf5 Df8 14. bxa5 Hxa5 15. O-O Df7 16. a4 Rc5 17. De1 b6 18. Rd2 Hxa4 19. Rc4 Bf8 20. Be3 Kd7 21. Dc3 Rxe4
22. Rxb6+ cxb6 23. dxe4 Dc4 24. Dd2+ Kc7 25. g4 Bg6 26. Hfd1
- og svartur gafst upp.
Helgi Ólafsson helol@simnet.is
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 30. júlí 2016
Skákþættir Morgunblaðsins | Breytt 30.7.2016 kl. 11:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ef velja ætti fimm skákmenn úr skáksögunni sem á sinni tíð höfðu algera yfirburði yfir samtíðarmenn sína koma margir til greina en ég hygg að óhætt sé að setja Magnús Carlsen á þann lista, slíkir eru yfirburðir hans um þessar mundir. Garrí Kasparov er þarna vitaskuld líka; á 20 ára ára tímabili, 1985-2005, trónaði hann einn á toppi elo-listans. Síðan koma José Raul Capablanca, Bobby Fischer og Anatolí Karpov. Aðra kandídata má telja Emanuel Lasker sem var yfirburðamaður í byrjun 20. aldar, Alexander Aljekín á árunum í kringum 1930 og Mikhail Tal eftir einvígið við Botvinnik árið 1960.
Það vakti athygli á dögunum á mótinu í Bilbao á Spáni að Magnús Carlsen tapaði í fyrstu umferð fyrir Nakamura. Norðmaðurinn hefur unnið fjögur síðustu mót sem hann hefur tekið þátt í og vaknaði sú spurning hvort efsta sætið í móti, þar sem þrjú stig eru gefin fyrir sigur og eitt fyrir jafntefli væri í hættu. Hann svaraði fyrir sig með því að vinna næstu þrjár skákir og var nálægt því að leggja Giri, sem hann hefur aldrei unnið í kappskák, með svörtu í fimmtu umferð. Eftir fyrri umferð mótsins blasti sú staðreynd við að hrein úrslit höfðu aðeins fengist í skákum Magnúsar; öllum öðrum viðureignum hafði lokið með jafntefli og staðan þessi:
1. Carlsen 10 stig 3 ½ v. af 5. 2. Nakamura 7 stig 3 v. 3. Giri 5 stig 2 ½ v. 4.- 6. Karjakin, Wei og So 4 stig 2 v.
Viðureignar Magnúsar við áskorandann Sergei Karjakin í þriðju umferð var beðið með mikilli eftirvæntingu og Magnús brást ekki aðdáendum sinum og vann glæsilega. Fátt sem bendir til annars en að hann verji heimsmeistaratitilinn í New York í haust.
Í skákinni sem hér fer á eftir grípur Karjakin hvað eftir annað í tómt þegar hann er að reyna að skapa sér færi á drottningarvæng. Fyrirvaralaust stendur hann frammi fyrir miklum ógnunum á kóngsvæng, sem Carlsen hefur undirbúið af slægð. Vinningsleikurinn byggist á banvænni leppun.
Bilabo 2016; 3. umferð:
Magnús Carlsen Sergei Karjakin
Sikileyjarvörn
1. e4 c5 2. Rf3 d6 3. c3 Rf6 4. Be2 g6 5. O-O Bg7 6. Bb5+!?
Sérkennilegt tempótap sem gefist hefur furðu vel.
6....Rc6 7. d4 Db6 8. Ba4 cxd4 9. cxd4 O-O 10. d5 Rb8 11. Rc3 Bg4 12. h3 Bxf3 13. Dxf3 Rbd7 14. Hb1 Hfc8 15. Bc2 Re5 16. De2 Rfd7 17. Bg5 h6 18. Bh4 g5 19. Bg3 Da6 20. Dd1 Hc4 21. Kh1 Hac8 22. f4 gxf4 23. Bxf4 Db6 24. Dh5 Rf6 25. Df5!
Þarna setur drottningin óþægilega pressu á kóngsstöðu svarts.
25....Dd8 26. Bb3 Hd4 27. Bxe5 dxe5 28. Hbd1 Dd7 29. Df3!
Hafnar öllum óskum um uppskipti og viðheldur hótuninni 30. Hxd4 exd4 31. e5 o.s.frv.
29....Hb4 30. Hd2 Hf8 31. g4!
Peð eru líka sóknarmenn!
31....a5 32. Hg2 Rh7 33. h4 Hb6 34. g5 Kh8 35. Hfg1 f5?
Gerir illt verra. Eina vörnin var fólgin í 35....Hg6.
Banvæn leppun.
36....Hb4 37. gxh6 Bxh6 38. Dg3!
Hótar 39. Dg8+! og mátar.
38....Rf6 39. Dg6 Rg4 40. Hxg4
- og Karjakin gafst upp.
Í Þýskalandi dró til tíðinda þegar Vachier-Lagrave vann hið árlega skákmót í Dortmund með yfirburðum, hlaut 5 ½ vinning af sjö mögulegum og varð 1 ½ vinningi fyrir ofan næstu menn, Kramnik, Caruana og Dominguez. Úrslitin þýða að þessi hógværi franski stórmeistari er nú kominn í 2. sæti heimslistans með 2811 elo-stig.
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 23. júlí 2016
Skákþættir Morgunblaðsins | Breytt s.d. kl. 20:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2016 | 20:00
Skákþáttur Morgunblaðsins: Í mestri taphættu í fyrstu umferð
Skákunnendur sem bíða í ofvæni eftir því að heimsmeistaraeinvígi Magnúsar Carlsen og Sergei Karjakin hefjist áttu ekki von á því að sjá þá að tafli fyrir uppgjörið mikla í nóvember. Þeir voru báðir skráðir til leiks á norska mótinu í vor en Karjakin sá sér ekki fært að vera með og bar við þreytu en þá blésu Baskar til ofurmóts í Bilbao þar sem sex skákmenn tefla tvöfalda umferð og þeir eru báðir með Carlsen og Karjakin! Aðrir þátttakendur eru Nakamura, So, Hollendingurinn Giri og Kínverjinn Wei Yi.
Í Bilbao kemur aftur á daginn að norski heimsmeistarinn er aldrei í meiri taphættu en í fyrstu umferð hvers móts. Í þetta sinn tapaði hann fyrir Bandaríkjamanninum Hikaru Nakamura og mun það vera í fyrsta sinn sem Nakamura vinnur Magnús í kappskák; þeir hafa teflt 30 slíkar og Magnús unnið 12 sinnum með 27 jafnteflum. Þrátt fyrir þetta óvænta tap eiga flestir von á Magnúsi sterkum þegar líða tekur á keppnina.
Hvað Bandaríkjamenn varðar liggur fyrir að þeir stefna á ólympíugull. Liðið sem teflir í Baku er ekki árennilegt með Nakamura, Caruana og Wesley So í broddi fylkingar. Nú eru 40 ár síðan Bandaríkin unnu Ólympíumót síðast en austurblokkin sat heima. Nakamura er á mikilli siglingu þessa dagana og sýndi það í eftirfarandi skák:
Magnús Carlsen Hikaru Nakamura
Sikileyjarvörn
1. e4 c5 2. Re2
Keres átti það til að leika riddaranum þangað. Fljótlega beinist taflið yfir í þekkta stöðu.
2. ... d6 3. Rbc3 a6 4. g3 g6 5. Bg2 Bg7 6. d4 cxd4 7. Rxd4 Rf6 8. 0-0 0-0 9. b3 Rc6 10. Rxc6 bxc6 11. Bb2 Da5 12. Ra4 Bg4 13. De1 Dh5 14. f3 Bh3 15. g4 Dh6 16. Hd1
Hann gat teygt sig eftir peði með 16. Bc1 g5 en eftir 17. Bxg5 Dxg5 18. Bxh3 Rh5! og Rf4 er svarta staðan betri og 17. Bxh3 Dxh3 18. Bxg5 er svarað með 18. ... Rxg4! o.s.frv.
16. ... g5 17. Bc1 Bxg2 18. Kxg2 Dg6 19. h4 gxh4 20. Dxh4 d5
Eftir fremur óhefðbundna byrjun er einfaldast og best að leika 21. exd5 cxd5 (eða 21. ... Rxd5 22. c4) 22. c3 og hvíta staðan er eilítið betri. En Magnús velur aðra leið og lakari.
21. g5? dxe4 22. f4 e6!
( Stöðvar f-peðið. )
23. c4 Hfd8 24. Hde1 Re8 25. Rc5 Rd6 26. Df2 f5!
Nakamura vill alls ekki láta peðið af hendi. Og brátt segir liðsmunurinn til sín.
27. Bb2 Rf7 28. Bxg7 Kxg7 29. Dg3 Hd6 30. Hd1 Had8 31. Hxd6 Hxd6 32. Dc3 Kg8 33. Hf2 Dh5!
Svartur stendur vel til varnar og sóknar. Það er ekki nokkur leið fyrir hvítan að verja þessa stöðu.
34. Dh3 Dd1 35. De3 e5! 36. Dg3 Hg6 37. Kh2 exf4 38. Dxf4 Dh5+ 39. Kg1 Dd1+ 40. Kh2 Dh5+ 41. Kg1 Rxg5 42. Db8+ Kg7 43. De5+ Kh6 44. Df4 Dd1 45. Kh2 Dd4 46. b4 Kg7 47. Dc7 Kh8 48. Dc8 Hg8 49. Dxf5 Rf3 50. Kh3
Enn er smá von: 50. ... Dxf2 51. Df6+ Hg7 52. Df8+ og hvítur þráskákar.
50. ... Dd6!
Hótar 51. .. Dg3 mát og 51. ... Dh6+. Það er engin vörn. Magnús gafst upp.
Hjörvar Steinn vann opna mótið í Suður-Wales
Hjörvar Steinn Grétarsson vann öruggan sigur á opna skákmótinu sem lauk í Cardiff í Suður-Wales sl. miðvikudag. Hjörvar hlaut 8 vinninga af tíu mögulegum og var ½ vinningi fyrir búlgörsku stórmeistarana Boris Chatalbashev og Marian Petrov en Hjörvar vann þá báða í sjöundu og áttundu umferð svo sigurinn var sanngjarn og jákvætt skref fram á við eftir Skákþing Íslands á dögunum.
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 16. júlí 2016
Skákþættir Morgunblaðsins | Breytt s.d. kl. 20:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þjóðverjar unnu nauman sigur á heimsmeistaramóti skáksveita skipaðra keppendum 50 ára og eldri þeir fengu 16 stig, jafnmörg Armenum, en aðrir þættir sem teknir eru inn þegar sveitir verða jafnar voru Þjóðverjum hagstæðari. Fyrsta borðs maður þeirra, Uwe Bönsch, náði frábærum árangri og hlaut 7½ vinning úr níu skákum. Bronsverðlaun hlutu Englendingar, en þeir höfðu innanborðs hina þekktu stórmeistara John Nunn og Jonathan Speelman.
Íslensku sveitina skipuðu Jóhann Hjartarson, sem fékk fjóra vinninga af átta mögulegum á 1. borði, greinarhöfundur hlaut fimm vinninga af átta á 2. borði, Margeir Pétursson hlaut sex vinninga af átta og hlaut silfurverðlaun 3. borðsmanna, 4. borðsmaðurinn Jón L. Árnason hlaut fimm vinninga af átta mögulegum og Friðrik Ólafsson hlaut þrjá vinninga af fjórum mögulegum.
Fyrir fram var Íslandi raðað í efsta sæti styrkleikalistans en alls tóku 57 lið þátt í 50+ flokknum. Þess vegna er 7. sæti vonbrigði. Þó gerðist það einn góðan veðurdag í Dresden að okkur leið öllum eins og sigurvegurum og var það vegna íslenska knattspyrnulandsliðsins sem snerti einhvern streng út yfir alla Evrópu og víðar sem náði langt út fyrir knattspyrnuna.
Skák Jóhanns við Vaganjan í viðureign Íslands og Armeníu er kannski lýsandi fyrir lánleysi liðsins en var þó einn af hápunktum mótsins og gat Jóhann verið stoltur af taflmennsku sinni þrátt fyrir tapið:
Dresden 2016 HM 50+; 6. umferð:
Jóhann Hjartarson( Ísland) Rafael Vaganjan (Armenía)
Frönsk vörn
1. e4
Gefur kost á franskri vörn, uppáhaldsbyrjun Vaganjans.
1. ... e6 2. d4 d5 3. e5 c5 4. c3 Rc6 5. Rf3 Db6 6. Be2 Rh6 7. Bxh6! gxh6
Jóhann vissi að b2-peðið er eitrað; eftir 7. ... Dxb2 kemur 8. Be3! Dxa1 9. Dc2! og svarta drottningin er í vanda.
8. Dd2 Bg7 9. O-O O-O 10. Ra3 cxd4 11. cxd4 Bd7 12. Rc2 f6 13. exf6 Hxf6 14. b4 a6 15.a4 Hxf3!?
Skiptamunsfórn sem sést hefur áður. Vandinn er sá að það er auðveldara að tefla svörtu stöðuna. Og Vaganjan tefldi mjög hratt!
16. Bxf3 Rxd4 17. Rxd4 Dxd4 18. Dxd4 Bxd4 19. Ha2 Hc8 20. Hb1 Kf7 21. g3 Ke7 22. Kg2 Kd6 23. Bg4 h5!? 24. Bxh5 e5 25. b5 a5 26. Hd1 Bc3 27. Bf3 Be6 28. Hc2 b6
Hvítur er skiptamun yfir en peðastaða svarts er sterk og einnig kóngsstaðan. Samt eru vinningsmöguleikarnir allir hvíts megin.
29. Be4! d4 30. f4 exf4! 31. gxf4 Kc5!
Kóngurinn heldur í tvísýnt ferðalag. Dæmigert fyrir Vaganjan.
32. He2 Kb4 33. Bc2 Bc4 34. He7 Ka3 35. Hd7 Be2 36. Hb1 Ka2 37. Bxh7 Hf8 38. Kg3 He8
39. Hg1
Jóhann taldi að hann hefði leikið skákinni niður með þessum leik rétt fyrir tímamörkin. En tapleikurinn kemur síðar þó að 39. h4! eða 39. Kf2 hefði verið betra.
39. ... Kb3 40. Hb1+ Kxa4 41. Bc2+
41. h4! var best.
41. ... Ka3 42. f5?
Og nú var best að leika 42. Hd6 og enn á hvítur sigurmöguleika.
42. ...Ka2 43. Hg1 Kb2! 44. Ba4 d3 45. Kf2 He5
Skyndilega er svartur kominn með unnið tafl.
46. Hg5 Bd2 47. Hg3 Hxf5+ 48. Kg2 Hg5 49. Hxg5 Bxg5 50. Kf2 Ka3 51. Hd4 Be7 52. Hc4 Bb4 53. Bc2 dxc2
og Jóhann gafst upp.
Rússar unnu flokk keppenda 65 ára og eldri, en í sveit þeirra voru kunnir kappar á borð við Balasjov, Vasjúkov og Svesnikov. Næsta heimsmeistaramót öldunga fer fram í strandbænum Eretríu í Grikklandi undir lok apríl á næsta ári.
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 9. júlí 2016
Skákþættir Morgunblaðsins | Breytt s.d. kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.7.2016 | 20:00
Skákþáttur Morgunblaðsins: Brögð og brellur á HM 50+ í Dresden
Eftir fjóra sigra í fyrstu umferðum HM skáksveita skipaðra skákmönnum 50 ára og eldri hefur íslenska sveitin misst dampinn, fyrst með því að tapa mikilvægri viðureign fyrir Armeníu og síðan kom fyrir Þjóðverjum. Ekki verður sagt að heppnin hafi verið með okkur þessa dagana, t.d. missti Jóhann Hjartarson niður afar vænlega stöðu gegn Vaganjan á fimmtudaginn og í gær voru bæði Jóhann og Jón L. Árnason með góð færi í miðtaflinu en töpuðu aftur. Af þessu má ráða að óraunhæft hafi verið að gera sér vonir um sigur fyrir fram þó að íslenska sveitin hafi verið sú stigahæsta í mótinu þegar lagt var af stað. Ýmsar aðrar sveitir virðast vera í betri æfingu og eru vanari hinum óvenjulega upphafstíma hverrar umferðar, kl. 9.30 að morgni. Eftir umferð gærdagsins eru Þjóðverjar efstir með 12 stig og síðan koma Armenar með 11 stig. Fram að þessu er það einungis Margeir Pétursson sem hefur teflt að fullum styrk, en hann hefur hlotið fjóra vinninga úr fimm skákum. En með góðum endaspretti er hægt að ná viðunandi árangri.
Heimsmeistaramótið er háð í tveimur aldursflokkum, 50 ára og eldri og 65 ára og eldri. Það fer fram í Radebeul, sem er úthverfi Dresden, en meðal þess sem hægt er að sjá og skoða er safn um útgefandann Karl May, mikinn ævintýramann sem kom undir sig fótunum með því að skrifa bókaflokk um indíána. Dómarinn úr einvígi aldarinnar, Lothar Schmid, átti og rak forlagið síðustu æviár sín.
Samsetning mótsins er þannig að ýmsir þýskir klúbbar geta verið með. Þannig tefldum við í fyrstu umferð við sveit skipaða hinum svonefndu Dettman-bræðrum, en styrkleikinn þar á bæ var æði misjafn. Einn bræðranna komst býsna nálægt því að ná jafntefli við greinarhöfund en smá brella gerði honum lífið leitt:
Gerd Dettman Helgi
Hvítur hafði ekki tekið neina áhættu og stefndi að miklum uppskiptum og jafntefli. Það bærast ýmsar tilfinningar í brjósti þess sem gera sér vonir um ná sigri og hjá undirrituðum var það aðallega ergelsi yfir því að hafa villst út í þessa leiðinlegu stöðu. Ég hafði nýverið lagað peðastöðu mína með því að leika 25. ...h6-h5 en meira virtist ekki spunnið í þann leik. En peðið valdar g4-reitinn og sennilega hefur það komið bróður Dettman á óvart þegar ég bauð drottningaruppskipti og lék:
26. ... De6!
Hvítur gerir nú best í því að víkja drottningunni til en ég þóttist sjá að með 27 ... Rxe2+ 28. Dxe2 Db3 gæti svartur skapað sér einhver færi. Hvítur á hins vegar svarið 29. Ha1! og jafnteflið er ekki langt undan. En hann gekk í gildruna ...
27. Dxe6? Rxe2+ 28. Kf1 Rxc1!
Girt er fyrir allt aðgengi drottningarinnar að d1-reitnum og hvítur neyddist til að leika 29. Dd7 en eftir 29. ... Hxd7 30. Hxd7 Rb3 31. Hxb7 a5 vann svartur án teljandi erfiðleika.
Í fjórðu umferð vann íslenska sveitin öfluga þýska sveit, Thüringen, og það var Margeir sem tryggði sigurinn:
Andstæðingi Margeirs var umhugað um að verða ekki kæfingarmát 38. Rf7+ Kg8 39. Rh6+ Kh8 40 Dg8+! Hxg8 41. Rf7 mát til að valda f7-reitinn kyrfilega lék hann 37. ... Hc8-c7. En samt kom:
38. Rf7+ Kg8
Eftir 38. .. Hcxf7 vaknar þemað mát í borði, 39. Dxf7! Hxf7 40. Hd8+ og mátar.
39. Rd8+ Kh8 40. Re6!
Fjölskyldugaffall. Svartur gafst upp.
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 2. júlí 2016
Skákþættir Morgunblaðsins | Breytt s.d. kl. 20:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2016 | 20:00
Skákþáttur Morgunblaðsins: Skákþorsti Viktors Kortsnoj
Eftirmæli sem fallið hafa um Viktor Kortsnoj sem lést þann 6. júní sl. 85 ára að aldri eru flest á þann veg, að þar sé genginn eftirminnilegur baráttujaxl. Garrí Kasparov hafði orð á því að Kortsnoj hefði verið trúandi fyrir því að snúa á manninn með ljáinn í einhverju flóknu hróksendatafli. En það gerðist ekki og því gefst tækifæri til að gera upp einstæðan skákferil stórmeistara sem kom margoft við sögu hér á landi.
Kortsnoj og Paul Keres eru fyrstir nefndir meðal skákmanna sem næst hafa komist því að hampa heimsmeistaratitlinum; á árunum 1974-1981 háði Kortsnoj þrjú einvígi við Anatoli Karpov, hið fyrsta var í reynd um heimsmeistaratitilinn en Bobby Fischer neitaði að verja titil sinn. Hvað langlífi á skáksviðinu varðar á Kortsnoj engan sinn líka og Emanuel Lasker sá eini sem stenst einhvern samanburð.
Eftir stórmót IBM í júlí árið 1976 gekk Kortsnoj inn á lögregustöð í Amsterdam og baðst hælis sem pólitiskur flóttamaður. Þetta var stærsta frétt The New York times þann daginn. Hann var 45 ára gamall, hafði átt fast sæti í sovéska landsliðinu, tekið þátt i fjórum áskorendakeppnum og unnið mýmörg alþjóðleg mót. En orð voru dýr í þá daga og Kortnoj hafði látið ýmislegt flakka í viðtali við júgóslavneskt dagblað um þann mikla aðstöðumun sem var á honum og óskabarninu Anatolí Karpov. Hann var látinn gjalda fyrir ummæli sín með árs keppnisbanni á erlendri grund en þegar leyfið var endurvakið var hann farinn að hugsa sér til hreyfings. Kortsnoj blómstraði skáklega séð í útlegðinni en fjölskyldan heima fékk að glíma við margháttaða erfiðleika, einkasonurinn Igor neitaði að gegna herþjónustu og sat í fangelsi í tvö ár. Bella eiginkona Kortsnojs fékk að yfirgefa Sovétríkin vorið 1982. Þá var hann tekinn saman við aðra konu, Petru Lewerwijk.
Ef velja á úr mót eða einvígi frá meira en 60 ára ferli vandast málið. Ég hef alltaf haldið upp á taflmennsku hans á millisvæðamótinu 1973 en ætla að velja kafla úr ferli hans sem sýndi magnaðan keppnisþrótt. Heimsmeistaraeinvígið í Baguio á Filippseyjum stóð í meira en þrjá mánuði var frá byrjun heilmikill farsi þar sem helst voru í fréttum dulsálfræðingurinn Zoukhar, spegilgleraugu, jógúrt, Ananda- marga lið með vafasama fortíð, svikull aðstoðarmaður og þar fram efir götunum. Kortsnoj virtist ekki ætla að ráða við hinn útsmogna stíl Karpovs og eftir 27 skákir var staðan 5:2 Karpov í vil en teflt var uppá sex sigra. Í næstu fjórum skákum vann Kortsnoj þrisvar og gerði eitt jafntefli. Sigrarnir voru fengnir í löngum og ströngum endatöflum sem Kortsnoj tefldi frábærlega vel. Staðan var 5:5 en 32. skákina vann Karpov og hélt titlinum. Nokkrum dögum síðar gekk Kortsnoj inn í skáksal Ólympíumótsins í Buenos Aires. Þá var klappað fyrir honum. Hann tefldi fyrir Sviss og náði bestum árangri fyrsta borðs manna, hlaut 9 vinninga af ellefu mögulegum og hélt eftirminnilega skáksýningu sem jafnast á við þá sem Fischer hélt í Havana 1966 og Kasparov í Manila 1992. Síðustu árin voru Kortsnoj erfið. Hann fékk heilablóðfall árið 2011 og var bundinn við hjólastól upp frá því. Hann virtist haldinn óslökkvandi skákþorsta og undir það síðasta tefldi hann á hverjum degi við einn vin sinn í kringum 100 hraðskákir á dag.
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 25. júní
Skákþættir Morgunblaðsins | Breytt s.d. kl. 20:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2016 | 20:00
Skákþáttur Morgunblaðsins: Verðskuldaður sigur Jóhanns á Íslandsmótinu
Jóhann Hjartarson varð Íslandsmeistari í sjötta sinn þegar keppni í landsliðsflokki sem fram fór á Seltjarnarnesi lauk um síðustu helgi. Jóhann hlaut 8 ½ vinning af ellefu mögulegum og varð ½ vinningi á undan meistara síðasta árs, Héðni Steingrímssyni. Þessir tveir voru í nokkrum sérflokki á mótinu eins og lokaniðurstaðan ber með sér:
1. Jóhann Hjartarson 8 ½ v. (af 11) 2. Héðinn Steingrímsson 8 v. 3. 5. Bragi Þorfinnsson, Jón Viktor Gunnarsson og Björn Þorfinnsson 6 ½ v. 6. Guðmundur Gíslason 6 v. 7. Guðmundur Kjartansson 5 ½ v. 8. 9. Einar Hjalti Jensson og Davíð Kjartansson 5 v. 10. Örn Leó Jóhannsson 4 ½ v. 11. Hjörvar Steinn Grétarsson 3 v. 12. Jóhann Ingvason
Jóhann varð fyrst Íslandsmeistari árið 1980 og síðan aftur árin 1984, 1994, 1995 og 1997. Jóhann, sem er 53 ára gamall, er eftir því sem næst verður komist elsti Íslandsmeistari skáksögunnar en jafnframt sá þriðji yngsti. Hann komast í ´ann krappan i nokkrum skákum en keppnisreynslan skilaði góðu verki á örlagastundu og sigurinn var verðskuldaður. Þó að Jóhann hafi verið með tapað tafl gegn Einar Hjalta og um tíma einnig gegn Héðni átti hann síðar góða vinningsmöguleika í þeirri skák og var með gjörunnið tafl gegn Guðmundi Kjartanssyni í 9. umferð en missti báðar skákirnar niður í jafntefli.
Áður hefur verið vikið að góðri frammistöðu Guðmundar Gíslasonar sem tefldi manna fjörlegast á mótinu. Í pistli fyrir hálfum mánuði sveik minnið greinarhöfund sem varð til þess að Guðmundi Kjartanssyni var sleppt í upptalningu um Íslandsmeistara fyrri ára og er beðist velvirðingar á því.
Yngsti keppandinn, hinn 22 ára gamli Örn Léo Jóhannsson, háði prófraun sína á þessum vettvangi og bætti stigatölu sína um rösklega 30 stig. Hann tapaði að vísu fyrir föður sínum Jóhanni Ingvasyni náði en átti marga góða spretti sbr. eftirfarandi skák sem tefld var undir lok mótsins:
Skákþing Íslands 2016; 9. umferð:
Örn Leó Jóhannsson Davíð Kjartansson
Frönsk vörn
1. e4 e6 2. d4 d5 3. Rd2 Rf6 4. e5 Rfd7 5. Bd3 c5 6. c3 Rc6 7. Re2 Db6 8. Rf3 Be7 9. O-O a5 10. b3 h6 11. a3 g5 12. Be3 cxd4 13. cxd4 Rf8 14. Re1 Bd7 15. Rc2 Rg6 16. Bxg6 fxg6 17. Dd3 O-O-O?
Kóngurinn er betur geymdur á kó0gsvæng. Eftir 17. .. Kf7 er staðan í jafnvægi.
18. b4 Kb8 19. Hfb1 a4 20. Rc3 Ra7 21. b5 Hc8 22. Rxa4 Bxb5 23. Dd2 Dc7 24. Rc5 He8 25. a4 Bxc5 26. dxc5 Bc4 27. Rd4 Dxe5 28. Db2 Dc7 29. Rb5 Dc6 30. De5 Ka8 31. Rxa7 Kxa7 32. Hb6 Dc7
Skilur drottninguna eftir í dauðanum en ekki gengur 33. ... dxe5 vegna 34. Hxb7+ Ka8 (eða 34. ... Ka6 35. Ha7 mát) 35. Ha7+ Kb8 36. Hb1+ og mátar. 33. ... Dxb6 34. Bxb6+?
Hér vantar aðeins upp á slagkraftinn. Eftir 34. Hb1! getur svartur gefist upp, t.d. 34. ... Hxc6 35. Hxb6 Hxb6 36. Db2 o.s.frv.
34. ... Kxb6 35. cxb7 Kxb7 36. Hb1 Kc6 37. a5 Kc5 38. Hb6 Hc6 39. De3 Kd6 40. Hxc6 Kxc6 41. Db6 Kd7 42. a6 Bxa6 43. Dxa6 Ke7 44. Da7 Kf6 45. Dd4 Kf7 46. g3 Hc8 47. Kg2 Hc4 48. Dd3 g4 49. De3 h5 50. Dh6 He4 51. Dh7+ Kf6 52. Dg8 Hc4 53. Df8+
Stundum hægt að hanga á svona stöðum ef varnaraðilinn nær að valda peðin kirfilega. Því verður ekki við komið núna.
33. ... Ke5 54. Dg7 Kd6 55. Dxg6 d4 56. Dxh5 d3 57. Dg5 Hd4 58. Dd2 Kd5 59. f3 e5 60. Kf2
- og svartur gafst upp.
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 18. júní
Skákþættir Morgunblaðsins | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2016 | 20:00
Skákþáttur Morgunblaðsins: Þurfti sigur í lokaumferðinni
Ernesto Inarkiev sigraði glæsilega á Evrópumóti einstaklinga sem lauk í Gjakova í Kosovo sl. mánudag. Hann hlaut 9 vinninga af ellefu en í 2. sæti varð Lettinn Kovalenko með 8 ½ vinning og í 3.-5. sæti urðu Jobava, Navara og Vallejo Pons með 8 vinninga.
Alls voru 23 sæti í boði í heimsbikarkeppni FIDE og fyrir lokaumferðina var Héðinn Steingrímsson í færum á að ná því sæti ef hann ynni. Hann hafði hvítt gegn Rússanum Evgení Najer en tefldi byrjunina ónákvæmt og tapaði. Héðinn hlaut 6 ½ vinning, Hannes Hlífar og Björn Þorfinnsson fengu báðir 6 vinninga og Guðmundur Kjartansson 5 ½ vinning.
Einungis Héðinn náði að bæta ætlaðan árangur sinn. Hann hefur margt til brunns að bera á skáksviðinu en hefði sennilega aukið möguleika sína með þátttöku í fleiri mótum á undirbúningsferlinum. Þá þarf hann að huga betur að skapandi hlið skáklistarinnar. Framan af gekk hvorki né rak hjá honum en í seinni hlutanum sótti hann í sig veðrið og vann m.a. hinn fræga Alexander Beljavskí:
EM einstaklinga 2016; 10. umferð:
Héðinn Steingrímsson Alexander Beljavskí
Ítalski leikurinn
1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bc4 Bc5 4. c3 Rf6 5. d3 d6 6. O-O O-O 7. He1 a6 8. Bb3 Ba7 9. h3 Re7 10. Rbd2 Rg6 11. Rf1 Be6 12. Rg3 h6 13. d4 Rh7 14. Be3 exd4
Það er í þessari uppskiptahrinu sem Beljavskí missir þráðinn.
15. Rxd4 Bxb3 16. Dxb3 Re5 17. Dxb7!
Seilist eftir eitraða peðinu. Beljavskí tekst ekki að sýna fram á neinar bætur.
17.... Dd7 18. Db3 Hab8 19. Dc2 Rc4 20. Bc1 d5 21. b3 Re5 22. exd5 Dxd5 23. Be3 Bxd4 24. Bxd4 Rc6 25. Be3 f5 26. Had1 Df7 27. Re2
Óþarfa varkárni. Eftir 27. Bc5! er svarta staðan gjörtöpuð.
27.... Re5 28. c4 Hfe8 29. Rf4 Rg5 30. Kh1 Hbd8 31. Hxd8 Hxd8 32. Rd5 Rg6 33. Dc1 Re6 34. f3 c6 35. Rb4 Db7 36. Dc3 Rgf8 37. Rd3 Dc7 38. b4 a5 39. bxa5 c5 40. Bg1 Ha8 41. He5 Hxa5 42. De1 Db6 43. a3!
Laglegur leikur. Svartur getur sig hvergi hrært.
43.... g6 44. Hd5 Hxa3 45. Rxc5 Ha2 46. Rxe6 Dxe6 47. He5 Dd7 48. He8 Kf7 49. Hb8 Dd2
Tapar strax en aðrir leikir eru jafn vonlausir.
50. De8+
- og Beljavskí gafst upp.
Feðgar í landsliðsflokki
Keppni í landsliðsflokki Skákþings Íslands hefst í Tónlistarskóla Seltjarnarness nk. þriðjudag, 31. maí. Athygli vekur að Jóhann Hjartarson er aftur meðal keppenda og Íslandsmeistarinn Héðinn Steingrímsson er einnig skráður til leiks. Í fyrsta sinn í skáksögunni eru feðgar meðal þátttakenda, Örn Leó Jóhannsson og Jóhann Ingvason. Keppendalistinn í elo-stigaröð:
1. Hjörvar Steinn Grétarsson 2. Héðinn Steingrímsson 3. Jóhann Hjartarson 4. Guðmundur Kjartansson 5. Jón Viktor Gunnarsson 6. Bragi Þorfinnsson 7. Björn Þorfinnsson 8. Davíð Kjartansson 9. Einar Hjalti Jensson 10. Guðmundur Gíslason 11. Örn Leó Jóhannsson 12. Jóhann Ingvason.
GAMMA styður Meistaramót Skákskóla Íslands
Keppni á Meistaramóti Skákskóla Íslands í flokki keppenda með 1600 elo-stig og minna lauk um síðustu helgi með sigri Stefáns Orra Davíðssonar sem er aðeins 9 ára gamall. Stefán hlaut 6 ½ vinning úr átta skákum og varð vinningi fyrir ofan næstu menn. Keppni stigahærri flokknum hófst svo í gær og mótinu lýkur á morgun, sunnudag. Þá mun Agnar Tómas Möller frá GAMMA, aðalstyrktaraðila mótsins, afhenda verðlaun en fimm farmiðavinningar eru í boði í hinum ýmsu styrkleikaflokkum.
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 28. maí 2016
Skákþættir Morgunblaðsins | Breytt 28.5.2016 kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2016 | 20:00
Skákþáttur Morgunblaðsins: Navara efstur á Evrópumóti einstaklinga
Eftir sjöundu umferð Evrópumóts einstaklinga sem lauk á fimmtudaginn í bænum Gjakova í Kosovo voru Hannes Hlífar Stefánsson, Héðinn Steingrímsson og Guðmundur Kjartansson allir með 4 vinninga og voru í 69.-116. sæti af 245 keppendum. Björn Þorfinnsson var þrepi neðar með 3 ½ vinning. Aðeins með góðum endaspretti geta þeir náð háu sæti en tefldar verða ellefu umferðir. Keppendalistinn sýnir svo ekki verður um villst að mótið er geysisterkt þó að sundurgreining á frammistöðu okkar manna leiði í ljós að þeir sigrar sem dregnir hafa verið í land koma úr viðureignum við mun stigalægri skákmenn; Hannes Hlífar hefur þar gert best með sigri á Svisslendingnum Gabriel Gaehwiler sem er þó aðeins með 2352 elo-stig.
Tékkinn David Navara var fyrir umferðina í gær efstur ásamt Rússanum Ernesto Inarkiev en báðir voru með 6 vinninga af sjö mögulegum. Þar á eftir komu sex skákmenn með 5 ½ vinning. Prúðmennið Navara er magnaður skákmaður. Í eftirfarandi skák bregður hann nýju ljósi á vinsælt afbrigði Caro-Kann varnar:
EM einstaklinga 2016, 5. umferð:
Sergei Zhigalko David Navara
Caro-Kann vörn
1. e4 c6 2. d4 d5 3. e5 Bf5 4. Rf3 e6 5. Be2 c5 6. Be3 cxd4 7. Rxd4 Re7 8. Rd2 Rbc6 9. R2f3 Be4 10. O-O Bxf3 11. Rxf3 Dc7 12. Bf4?!
Ekki er víst að nauðsynleg sé að valda þetta peð.
12. ... Rg6 13. Bg3 O-O-O 14. c4 h5!
Gallinn við stöðu biskupsins á g3 kemur strax í ljós og það á ekkert eftir að lifna yfir honum það sem eftir lifir skákar.
15. h4 Kb8 16. cxd5 Hxd5 17. Da4 Be7 18. Hfd1 Hhd8 19. Hxd5 Hxd5 20. De4 Db6 21. Bc4 Hd8 22. b3 Rd4 23. Hd1 Rf5!
Lipurlega stígur riddarinn dansspor til vinstri. Beina hótunin er 24. ... Rxg3.
24. Hxd8+ Dxd8 25. Be2 Da5 26. a4 Bc5 27. Kh2 Db6 28. a5?
Þó að hvíta staðan sé vissulega erfið var óþarfi að henda þessu peði frá sér. Hægt var að berjast með 28. Dd3 eða 28. Rg5.
28. ... Dxa5 29. Rg5 Rxg3 30. fxg3 Da1 31. Rf3 a6! 32. Bc4 Re7 33. Dh7 Rf5!
Lokar á drottninguna og hótar 34. ... Bf2.
34. Bd3 Rh6!
og hvítur gafst upp.
Stefán Arnalds sigraði á Öðlingamóti Ólafs Ásgrímssonar
Taflfélag Reykjavíkur hefur um margra ára skeið skeið staðið fyrir skákmóti öðlinga en það var hinn kunni skákdómari Ólafur Ásgrímsson sem hratt hugmyndinni að þessu mótshaldi í framkvæmd. Nú eru 40 ár liðin síðan Ólafur steig fyrst fram á sjónarsviðið sem skákdómari en það var á sögufrægu Skákþingi Reykjavíkur veturinn 1976. Örlögin höguðu svo að Ólafur fékk frægt og erfitt úrlausnarefni upp í hendurnar þegar upp spratt deila milli vinanna Kristjáns Guðmundssonar og Ómars Jónssonar í A-flokki mótsins vegna galla í skákklukku. Var atburðarásin furðu lík þeirri er Tigran Petrosjan, heimsmeistari 1963- ´69, féll á tíma í jafnteflisstöðu gegn V-Þjóðverjanum Robert Hübner á OL í Skopje 1972 og tapaði þar sinni einu skák á tíu Ólympíumótum frá árunum 1958 til 1978. Allar þessar deilur eru löngu hljóðnaðar og hefur Ólafur reynst farsæll skákdómari á löngum ferli.
Keppnin á öðlingamótinu var spennandi en þátttakendur voru 27 talsins. Svo fór að Stefán Arnalds varð einn efstur, hlaut 5 ½ vinnina arf sjö mögulegum, í 2. 4. sæti komu Þorvarður Ólafsson, Siguringi Sigurjónsson og Sigurður Daði Sigfússon með 5 vinninga.
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 14. maí 2016
Skákþættir Morgunblaðsins | Breytt s.d. kl. 20:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjustu færslur
- Ný vefsíða Skák.is!
- Loftur fær Héðin í fyrstu umferð
- Tveir fyrrum heimsmeistarar bættust við á keppendalistann á l...
- Ný alþjóðleg skákstig
- Carlsen vann Aronian - með vinningsforskot og aftur yfir 2850
- Skákklúbburinn Æsir - vertíðarlok
- Fundargerð aðalfundar SÍ
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open hefst á föstudaginn
- Carlsen vann Caruana í fyrstu umferð Altibox Norway Chess
- Þrír efstir og jafnir eftir fyrsta minningarmót Vinaskákfélag...
Tenglar
Mót í gangi
Mót sem eru í gangi hverju sinni
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open Valsheimilið, 1.-9. júní
- Altibox Norway Chess 27. maí - 8. júní: Carlsen og flestir sterkustu skákmenn heims
Lykilvefir
- Skáksamband Íslands Heimasíða SÍ
- Mótaáætlun SÍ
- Vefsvæði Friðriks Ólafssonar Vefsíða tileinkuð Friðriki Ólafssyni
- Skákskóli Íslands
- Skáksögufélagið
- F3-klúbburinn Vildarvinir skákíþróttarinnar á Íslandi
- Tímaritið Skák
- Fischersetur Selfoss
- Skákbækur til sölu
- Bobbý skáksverslun
- Skákhornið Spjallþráður skákmanna
- Skáklandið Stefán Bergsson bloggar
- Skákmyndir
Kennsluvefir
Íslensk taflfélög
Ef þú vilt tefla á netinu!
- Vinaskákfélagið
- Skákfélagið Hrókurinn
- Skákfélagið Huginn
- Taflfélag Reykjavíkur
- Víkingaklúbburinn
- Skákfélag Akureyrar
- Taflfélag Garðabæjar
- Taflfélag Vestmannaeyja
- Æsir
- Skáksamband Austurlands
- Skákdeild Fjölnis
- Skákfélag Sauðárkróks
- Taflfélag Bolungarvíkur
- Skákfélag Selfoss og nágrennis
- Skákdeild Breiðablik
- Skákdeild KR
- Skákdeild Breiðabliks
- Gallerý Skák
- Riddarinn
- Félag íslenskra bréfskákmanna
Erlendir skákvefir
- FIDE Alþjóðlega skáksambandið
- ECU
- The Week in Chess
- ChessBase
- Chess Vibes
- Chessdom
- Your Chess News Umsjón Jóhann H. Ragnarsson
- Bergens Schakklub Besta norræna skákfréttasíðan
- Færeyska skáksambandið
- Bloggsíða Susan Polgar
- ChessCafe Pistlar og greinar
Almanök
Teflt á netinu
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.7.): 24
- Sl. sólarhring: 25
- Sl. viku: 188
- Frá upphafi: 8779148
Annað
- Innlit í dag: 16
- Innlit sl. viku: 117
- Gestir í dag: 12
- IP-tölur í dag: 12
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar