Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Skákþættir Morgunblaðsins

Skákþáttur Morgunblaðsins: 47 sveitir skráðar til leiks á Íslandsmóti skákfélaga

Fyrri hluti Íslandsmóts taflfélaga hófst í Rimaskóla í Reykjavík á fimmtudagskvöldið með keppni í 1. deild en í henni eiga sæti tíu félög. Alls eru 47 sveitir skráðar til leiks í fjórum deildum og má búast við því að á fjórða hundrað manns sitji að tafli í Rimaskóla um helgina. Núverandi Íslandsmeistarar er skáksveit Hugins og á pappírunum er sveitin með sterkasta liðið en Taflfélag Reykjavíkur er einnig sigurstrangleg. Seinni hluti keppninnar fer fram í mars á næsta ári. 

Dawid Kolka skákmeistari Hugins

Meistaramót Hugins lauk um síðustu helgi þegar þrír ungir skákmenn, Dawid Kolka, Óskar Víkingur Davíðsson og Heimir Páll Ragnarsson, háðu aukakeppni um sæmdarheitið Skákmeistari Hugins eftir að hafa lent í 7.-10. sæti á meistaramóti félagsins. Í aukakeppninni stóð Dawid uppi sem sigurvegari og vann þessa nafnabót í annað sinn. En í aðalmótinu tefldu einnig skákmenn sem eru skráðir í önnur félög og þar urðu efstir:

1. Davíð Kjartansson 6½ v. (af 7 ) 2.-3. Sævar Bjarnason og Jón Trausti Harðarson 5 v. 4.-6. Björgvin Víglundsson, Mikael Jóhann Karlsson og Dagur Ragnarsson 4½ v.

Haustmót TR er nýhafið og eftir þrjár umferðir í A-riðli er Þorvarður Ólafsson efstur með 2½ vinning af þremur en í 2. sæti koma Ingvar Þór Jóhannesson og Oliver Aron Jóhannesson með 2 vinninga. Í B-riðli er Aron Þór Mai efstur með 3 vinninga og í C-riðli eru Ólafur Evert Úlfsson og Héðinn Briem efstir með 3 vinninga.

Tal-mótið á frægu listasafni

Þessa dagana fer fram í mót helgað minningu Mikhael Tal sem lést langt fyrir aldur fram um mitt sumar árið 1992. Þetta mót fer fram í nýstandsettu Tretjakov-listasafninu í Moskvu, en forseti rússneska skáksambandsins, milljarðamæringurinn Andrei Filatov, hefur það á stefnuskrá sinni að halda meiriháttar skákviðburði á listsöfnum. Þetta er ekki ný hugmynd; þegar Hollendingar héldu upp á 75 ára afmæli Max Euwe fór afmælismótið fram í Van Gogh-safninu í Amsterdam. 

Tal-mótið, sem var haldið í fyrsta skipti fyrir 10 árum, dregur til sín fremstu stórmeistara heims þó að Magnús Carlsen og Sergei Karjakin sitji yfir undirbúningi fyrir HM-einvígið í næsta mánuði. Í ár var byrjað var á hraðskákmóti en fimm efstu vinna sér rétt til að tefla einu sinni oftar með hvítu í aðalmótinu. Aserinn Mamedjarov vann yfirburðasigur, en eftir tvær fyrstu umferðirnar voru Giri, Anand og Nepomniachtchi efstir með 1½ vinning. Sá síðastnefndi veiddi andstæðing sinn í gildru í skák þeirra í fyrstu umferð:

Ian Nepomniachtchi – Evgení Tomashevsky

Skoski leikurinn

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. d4 exd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rxc6 bxc6 6. e5 De7 7. De2 Rd5 8. c4 Ba6 9. b3 g6 10. f4 Bg7 11. Df2 Rf6?! 12. Ba3 d6 13. Rc3 O-O 14. O-O-O!

Svona einfalt er það. Þó að byrjunarleikir svarts hafi allir sést áður er eins og þessi einfalda leið hafi skotist framhjá mönnum. Svarta staðan er óteflandi.

14. ... Re8 15. g3! Bb7 16. Bg2 f6 17. exd6 Rxd6

Eða 17. ... cxd6 18. Hhe1 Dc7 19. f5! o.s.frv.

18. c5 Rf5 19. Hhe1 Df7

GSO109FH220. Bf1!

Og nú finnst engin vörn við hótuninni 21. Bc4.

20. ... Hfd8 21. Hxd8 Hxd8 22. Bc4 Hd5 23. De2

– Hrókurinn á d5 má bíða, Nepo knýr fyrst fram drottningaruppskipti og svartur lagði niður vopnin.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 1. október 2016

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Björn Þorsteinsson lærði af Paul Keres

bjorn_orsteinssonSkákkeppni stofnana á áttunda áratug síðustu aldar: Guðmundur Pálmason og Ólafur Magnússon að tefla fyrir Orkustofnun, Jón Kristinsson, Bragi Kristjánsson, Leifur Jósteinsson og Stefán Þormar fyrir Búnaðarbankann, Jóhann Örn Sigurjónsson og Hilmar Viggósson fyrir Landsbankann, Guðmundur Ágústsson fyrir Sveinsbakarí, Friðrik Ólafsson og Baldur Möller fyrir Stjórnarráðið, Ingvar Ásmundsson, Stefán Briem og Bragi Halldórsson að tafli fyrir MH, Guðmundur Sigurjónsson á 1. borði fyrir Orator. Og svona mætti lengi telja. Það var ekki leiðinlegt fyrir unga menn að fylgjast með þessum meisturum safnast saman í sal Taflfélags Reykjavíkur við Grensásveg. Eitt virtist óumbreytanlegt, skáksveit Útvegsbanka Íslands var ávallt skipuð Birni Þorsteinssyni, Gunnari Gunnarssyni, Braga Björnssyni og Jóhannesi Jónssyni og yfir þeim vakti viðburðastjóri bankans, Adolf Björnsson. Sveitin var afar sigursæl á þessum vettvangi en átti oft í harðri keppni við Búnaðarbankann og Stjórnarráðið.

Björn Þorsteinsson, sem féll frá á dögunum 76 ára gamall, vann ýmis önnur og stærri afrek á löngum skákferli. Hann varð Íslandsmeistari 1967 og aftur 1975, tók yfirleitt þátt í þrem stóru mótunum innanlands, haustmóti TR, Skákþingi Reykjavíkur og Skákþingi Íslands. Var einn sigursælasti skákmaður landsins á ákveðnu tímabili í kringum 1970, tefldi nokkrum sinnum fyrir Íslands hönd á Ólympíuskákmótum 1962, 1964, 1968 og 1976 og var magnaður hraðskákmaður. Öllum var ljóst að þessi dagfarsprúði maður hafði allt sem þurfti til að ná langt á alþjóða mælikvarða, sem hann sóttist ekki eftir. Fyrir mína kynslóð var hins vegar alveg ómetanlegt að fá að kljást við svo öflugan meistara sem hafði m.a. öðlast styrk sinn með því að þaulkanna allar skákir sem hann komst yfir og Paul Keres hafði teflt. Hann hafði fyrir sið að bjóða aldrei jafntefli. Við athugun mína á skákum Björns blasti raunar við stórkostleg eyða í gagnagrunnum. En þá rifjaðist upp dagstund í Norræna húsinu á sumri hallanda 1971 viðureign hans við annan tvöfaldan Íslandsmeistara. Björn Þorsteinsson og Jón Kristinsson háðu marga hildi á þessum tíma og gekk á ýmsu. En að þessu sinni hafði Björn betur:

Skákþing Norðurlanda 1971:

Björn Þorsteinsson – Jón Kristinsson

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 d6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rc3 e6 6. Bc4 Be7 7. Bb3 Rc6 8. Be3 O-O 9. De2 a6 10. O-O-O-O Dc7 11. Hhg1 b5 12. g4 b4 13. Rxc6 Dxc6 14. Rd5!

Ræðst strax til atlögu. Hér er hugmyndin að svara 14. .. exd5 með 15. g5 Rxe4 16. Bxd5 og hvítur vinnur lið til baka. 

GJL108J8I14. ... Rxd5

Velimirovic-árásin var ekki vel þróuð á þessum tíma og nú þykir best að leika 14. .. exd5 15. g5 Rxe4 16. Bxd5 Da4 17. Bxe4 Be6 með ýmsum færum.

15. exd5 Dd7 16. dxe6 fxe6 17. f4 d5 18. f5 Bb7 19. fxe6 Dxe6 20. Dd2 Kh8 21. Bd5 a5 22. Hde1 Df7 23. Ba4

Hvíta staðan er betri vegna staka d-peðsins auk þess sem biskuparnir eru ógnandi.

23. ... Bd6 24. Kb1 Hac8 25. Bb5 Dc7 26. Bd3 Bc5?

GJL108J8QGengur beint í gildruna. Svartur varð að loka á drottninguna og leika 26. ... Hf4 og staðan er enn tvísýn. 

27. Dh6!

Óvæntur hnykkur. Svartur er óverjandi mát og gafst upp.

 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 24. september 2016

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Óvænt endalok á afmælismóti Taflfélags Vestmannaeyja

G54107E0ITaflfélag Vestmannaeyja var stofnað fyrir 90 árum og enginn kann betur sögu þess en Arnar Sigurmundsson, núverandi formaður félagsins og aðalskipuleggjandi dagskrár vegna afmælisins, sem náði hámarki með afmælismóti TV um síðustu helgi. Arnar var 13 ára gamall þegar TV var endurvakið árið 1957. Á dögunum stóð TV fyrir útgáfu sérrrits um sögu félagsins sem dreift var með Fréttum og í það ritaði, auk Arnars, Karl Gauti Hjaltason, sem rakti einhverja mögnuðustu sókn fram á við sem um getur þegar ungmenni úr Eyjum studd af vel virkum foreldrum, skólayfirvöldum og góðum leiðbeinendum tóku skákina með trompi í hinum ýmsum skólakeppnum innanlands og utan í keppni við bestu grunnskóla Skandinavíu á Norðurlandamótum. Karl Gauti hefur einnig vakið athygli á því að meðal félagsmanna TV um miðja síðustu öld var Björn Kalman sem margir telja að sé fyrirmyndin að hr. B í sögu Stefan Zweig, Manntafl.

Afmælismótið dró til sín marga skákmenn sem voru virkir á öðrum blómatíma skákarinnar í Eyjum rétt fyrir gos og hafa haldið tryggð við skákgyðjuna síðan. Alls voru keppendur 24 talsins og við athugun kom í ljós að sjö þeirra höfðu á einhverjum tíma gegnt formennsku, auk Arnars þeir Andri Hrólfsson, Einar B. Guðlaugsson, Óli Á. Vilhjálmsson, Stefán Gíslason, Ólafur Hermannsson og Ægir Páll Friðbertsson. Á mótinu var hvert borð merkt með númerum úr krossvið sem smíðuð voru sérstaklega fyrir keppnir milli Austurbæjar og Vesturbæjar í Eyjum uppúr 1960.

Á mótinu voru tefldar níu umferðir og efstir urðu:

1. Helgi Ólafsson 8 v. (af 9) 2.-3. Davíð Kjartansson og Oliver Aron Jóhannesson 6½ v. 4.-6. Stefán Bergsson, Sævar Bjarnason og Ólafur Hermannsson 5½ v. 7.-10. Elvar Guðmundsson, Einar B. Guðlaugsson, Vigfús Vigfússon og Hörður Aron Hauksson 5 v.

Af úrslitunum mætti draga þá ályktun að sigur undirritaðs hafi verið öruggur en það gekk á ýmsu. Skákin við Elvar Guðmundsson tók undarlega stefnu þegar sóknartilburðir svarts virtust vera að renna út í sandinn og Elvar með tvær drottningar á borðinu:

90 ára afmælismót TV; 4. umferð:

Elvar Guðmundsson – Helgi Ólafsson

Slavnesk vörn

1. d4 d5 2. c4 c6 3. Rf3 Rf6 4. e3 Bf5 5. Rc3 e6 6. Bd3 Bxd3 7. Dxd3 Rbd7 8. O-O Be7 9. e4 dxe4 10. Rxe4 Rxe4 11. Dxe4 O-O 12. b3 a5 13. Bb2 a4 14. Hfd1 Db6 15. Dc2 Bf6 16. g3 Hfd8 17. Kg2 h6 18. Hd3 axb3 19. axb3 Hxa1 20. Bxa1 Da6 21. Bc3 Ha8 22. Hd1 b5 23. d5 cxd5 24. Ha1 Db7 25. Hxa8+ Dxa8 26. Bxf6 Rxf6 27. cxb5 Da7 28. Dc8+ Kh7 29. Da6 Dc5 30. Dc6 Db4 31. b6 Re4 32. Dc7 Dxb3 33. b7 Db2

G44107DUL34. Rd2!

„Elvar bombaði riddaranum ofan í bæði drottningu og riddara Helga. Sú sleggja knúði fram unnið tafl,“ stóð skrifað á skak.is.

34. ... Dxd2 35. Df4! De2 36. b8(D) Rd2!

Hótar 37. .. Df1 mát.

37. h4 Df1+ 38. Kh2 De2 39. Dxf7!

Best en ég átti allt eins von á 39. g4 f5 með hugmyndinni 40. gxf5? e5! o.s.frv.

39. ... Rf3+

Kóngurinn á tvær leiðir – önnur leiðir til sigurs – hin til glötunar!

40. Kh3?

40. Kg2! vinnur.

40. ... Df1+ 41. Kg4 Rh2+! 42. Kh5 De2+ 43. f3 Dxf3+ 44. Dxf3

Og hér héldu margir að svartur yrði að taka drottninguna en þá kom...

44. ... g6 mát!

G44107DUPÓvænt endalok. Lokastaðan á síðasta orðið um 90 ára afmælismót Taflfélags Vestmannaeyja.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 17. september 2016

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Sögulegur sigur Bandaríkjamanna

GO51077IGBandaríkjamenn unnu sögulegan sigur í opnum flokki Ólympíuskákmótsins í Bakú á þriðjudaginn þegar liðið vann öfluga sveit Kanada, 2½:1½, en keppinautar þeirra Úkraínumenn unnu einnig. Bandaríkjamenn og Úkraínumenn hlutu 20 stig en þeir fyrrnefndu voru mun hærri á mótsstigum. Rússar urðu svo í þriðja sæti. Bandaríkjamenn unnu gullið síðast í Haifa árið 1976 og sigruðu þrisvar á millistríðsárunum, 1933, 1935 og 1937. Bandaríska skáksambandið lagði mikið undir að þessu sinni og sigurinn var sannfærandi og sanngjarn, en sveitina skipuðu Fabiano Caruana, Hikaru Nakamura, Wesley So, Samuel Shankland og Ray Robson.

Í kvennaflokki staðfestu Kínverjar yfirburði sína og unnu Rússa í lokaumferðinni 2½:1½. Kínverjar hlutu 20 stig, Pólverjar urðu í 2. sæti og Úkraína í 3. sæti en báðar þjóðirnar fengu 17 stig.

Segja má að íslenska liðið í opna flokknum hafi botnað á kolvitlausum tíma; 60. sæti er ekki viðunandi niðurstaða. Sá sem þessar línur ritar er ekki mikill aðdáandi þeirra breytinga sem gerðar voru á keppninni fyrir nokkrum árum; við það að fækka umferðum úr þrettán í ellefu og láta stig gilda er hættan sú að ýmsar niðurstöður verði full tilviljanakenndar. En lengi var íslenska sveitin á réttri leið og tókst það sem að var stefnt – að komast í góð færi fyrir lokasprettinn – en það hafðist með góðum sigri á Slóvakíu í 8. umferð. En í lokaumferðunum þremur gekk allt á afturfótunum og sveitin fékk aðeins eitt stig.

Hægt er að tína til ýmislegt sem betur hefði mátt fara en þess má geta að þrír af fimm liðsmönnum bættu ætlaðan árangur sinn og frammistaða Hjörvars Steins Grétarssonar var með ágætum. Hvorki honum né Braga Þorfinnssyni tókst þó að fylgja eftir frábærri byrjun, en Hjörvar var látinn tefla með svart í fimm af sex síðustu skákum sínum og jafnteflistilboð sem hann fékk í betri stöðu í næstsíðustu umferð kallaði á að liðsstjórinn svaraði með afdráttarlausum hætti en hann kaus að varpa ábyrgðinni frá sér. Þá var hinn öflugi stórmeistari Jóhann Hjartarson hvíldur fjórum sinnum, sem var sérkennileg ráðstöfun þegar litið er til þess að á EM í fyrra tefldi hann allar skákirnar fyrir lið sitt og stóð sig glimrandi vel. Hannes Hlífar var ekki sannfærandi á 1. borði, vann aðeins tvær skákir í upphafi móts gegn andstæðingum með í kringum 2.200 Elo-stig. Ingvari Þór Jóhannessyni liðsstjóra tókst vel upp með íslenska liðið á EM í fyrra en var ekki farsæll í Bakú.

Árangur liðsmanna, vinningar og reiknaður árangur var þessi:

1. borð: Hannes Hlífar Stefánsson 5 v. af 10 – 2.537 Elo

2. borð: Hjörvar Steinn Grétarsson 7 v. af 10 – 2.617 Elo.

3. borð: Jóhann Hjartarson 3½ v. af 7 – 2.472 Elo.

4. borð: Guðmundur Kjartansson 5 v. af 9 – 2.466 Elo.

1. varamaður: Bragi Þorfinnsson 5 v. af 8 – 2.469 Elo.

GO5107862Íslenska kvennaliðið hafnaði um mitt mót, eða í 78. sæti. Lenka Ptacnikova hefur um langa hríð verið akkerið í þessu liði og ágætur grunnur Hallgerðar Helgu Þorsteinsdóttur skilaði stigahækkun upp á 35 Elo-stig. Hrund Hauksdóttir og Veronika Steinunn Magnúsdóttur bættu báðar ætlaðan árangur sinn en Guðlaug Þorsteinsdóttir var langt frá sínu besta. Þegar allt er tekið saman skilaði liðstjóri kvennaliðsins, Björn Ívar Karlsson, góðu verki.

Árangur liðsins var þessi:

1. borð: Lenka Ptacnikova 7 v. af 11 – 2.276 Elo

2. borð: Guðlaug Þorsteinsdóttir 2 v. af 9 – 1.893 Elo.

3. borð: Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir 6½ v. af 10 – 2.135 Elo.

4. borð: Hrund Hauksdóttir 2½ v. af 6 – 1.846 Elo.

1. varamaður: Veronika Steinunn Magnúsdóttir 2½ v. af 6 – 1.802 Elo.

 

Torre hetja Ólympíumótsins

Ólympíuskákmótin eru gríðarlega stór viðburður þar sem saman safnast skákmenn úr öllum heimshornum undir kjörorði FIDE, Gens una sumus – Við erum ein fjölskylda. Athyglin beinist oft að þeim sem fremst standa á hverjum tíma. Heimsmeistarinn Magnús Carlsen hóf mótið á byrjunarleik sem ekki sést oft, 1. e2-e3. Hann fékk 7½ vinning af 10 mögulegum og var taplaus. Andstæðingur hans í HM-einvíginu í New York í haust, Sergei Karjakin, hlaut sex vinninga úr níu skákum. 

Filippseyingurinn Eugenio Torre, góðvinur og velgjörðarmaður Bobby Fischer, er 64 ára gamall og tefldi á sínu fyrsta Ólympíumóti í Siegen í V-Þýskalandi árið 1970. Hann var fyrsti stórmeistari Asíu eftir árangur á Ól í Nice í Frakklandi sumarið 1974. Hann tefldi á sínu 23 Ólympíumóti, sem er þátttökumet. Frammistaða hans í Bakú verður lengi í minnum höfð; hann hlaut flesta vinninga allra keppenda, 10 vinninga af ellefu mögulegum, árangur sem reiknast upp á 2.836 Elo stig.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 15. september 2016

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Stóra viðureign Ólympíumótsins fer fram í dag

P1040621Íslendingar töpuðu 1:3 fyrir Grikkjum í 7. umferð opna flokks Ólympíuskákmótsins í gær. Þetta var einfaldlega ekki góður dagur hjá okkar mönnum, baráttan samt á engu undanhaldi en eftir langar og strangar viðureignir máttu Bragi og Hannes Hlífar játa sig sigraða. Jóhann Hjartarson var látinn hvíla í þriðja sinn og reyndist það ekki góð ákvörðun. En þrátt fyrir allt eru horfur fyrir lokasprettinn góðar. Íslendingar tefla við Slóvaka í dag og við erum með tvo menn í hörkuformi; Hjörvar Steinn Grétarsson hefur teflt í öllum sjö umferðunum og hlotið sex vinninga þó hann hafi haft svart fimm sinnum. Hann er ofarlega meðal þeirra sem berjast um borðaverðlaun; árangur sem reiknast upp á 2736 elo-stig. Bragi Þorfinnsson hefur hlotið 4 ½ v. af sex mögulegum. 

Bandaríkjamenn efstir – tefla við Rússa í dag

Indverjar, sem tefla án Anands, náðu forystu í opna flokknum með því að vinna sex fyrstu viðureignir sínar. Í gær töpuðu þeir hinsvegar fyrir Bandaríkjamönnum, ½: 3 ½, sem náðu toppsætinu. Í dag fer fram hin stóra viðureign þessa Ólympíumóts milli Rússa og Bandaríkjamanna. En staðan á toppnum er þessi: 

1. Bandaríkin 13 stig 2. – 7. Rússland, Indland, Úkraína, Lettland, Georgía og England 12 stig.

Í kvennaflokknum eru Rússar, Bandaríkjamenn, Kínverjar, Aserar og Hollendingar í forystu með 12 stig hver þjóð.

Kvennalið Íslands tapaði í gær fyrir Spáni, ½ : 3 ½. Sveitin er nú um mitt mót og teflir við Marokkó í dag. Sveitin er skipuð reynslumiklum skákkonum annarsvegar og nýliðunum Hrund Hauksdóttur og Veroniku Steinunni Magnúsdóttur hinsvegar. Reynsla á þessum vettvangi skiptir vitaskuld máli eins og kom fram í skák Hallgerðar Helgu Þorsteinsdóttur í sigrinum á Englendingum. Handbragð hennar í miðtaflinu var með miklum ágætum:

Ól 2016; 4. umferð:

Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir – Sarah Longson

Ítalskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bc4 Rf6 4. d3 Bc5 5. c3 a6 6. Bb3 Ba7 7. Rbd2 O-O 8. O-O d6 9. h3 Re7 10. He1 Rg6 11. Rf1 h6 12. Be3 Bxe3 13. fxe3 d5 14. exd5 Rxd5 15. Rg3 Be6 16. d4 exd4 17. Rxd4 Dg5 18. Re4 De5 19. Rxe6 fxe6 20. Dd4 b6 21. Had1 Had8 22. Hf1 Hfe8 23. Hf3 c5 24. Dxe5 Rxe5 25. Hg3 c4 26. Ba4 Hf8 27. Hd4 Re7 28. Rd6 b5 29. Bc2 Hd7 30. a4 R7c6 31. Re4 Rxd4 32. exd4 Rc6 

GME106NNPByrjun þessarar skákar fór eftir hefðbundnum leiðum og Hallgerður sá þann kost vænstan að láta skiptamun af hendi. Hún er með nokkrar bætur fyrir og nýtir færi sín vel.

33. Rc5 He7 34. Be4 Rd8 35. a5 Hf4 36. Bf3 Ha7 37. Bg4 Kf7 38. Bh5+ Kf8 39. He3 He7 40. Rxa6 Rb7

Kannski ætlaði sú enska að leika 40. ... Ha7 en eftir 41. Rc5 Hxa5 kemur 42. Hxe6! o.s.frv.

41. Bg4 e5 42. dxe5 Rxa5 43. Rc5 Kg8 44. e6!

E-peðið tekur á rás. Það er líka heilmikið jafnvægi í liðsskipan hvíts.

44. ... Hf8 45. Rd7 Hc8 46. Re5 Rc6 47. Rg6 Hee8 48. e7! Hb8?

Tapleikurinn. Hún varð að leika 48. ... Hc7 þó hvítur hafi jafntefli í hendi sér og sennilega eitthvað meira.

49. Bd7

Nákvæmara var 49. Be6+ Kh7 50. Bf7 því að svartur getur nú leikið 49. ... Kf7.

49. ... Ra5 50. Bxe8 Hxe8 51. Hf3! Kh7 52. Hf8 Kxg6 53. Hxe8 Kf7 54. Ha8

- og svartur gafst upp.

Umferðin í dag hefst hefst kl. 11 að íslenskum tíma. Gott er að fylgjast með á chess24 og Chessbomb.com.

– og svartur gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 10. september 2016

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Hjörvar og Bragi hafa unnið allar skákir sínar í Bakú

ICELAND_Maria EmelianovaÍslensku liðin á Ólympíuskákmótinu í Bakú í Aserbaídsjan hafa byrjað af feikna krafti og í opna flokknum eru Íslendingar með átta stig af tíu mögulegum eftir fimm umferðir og sitja í 7.-25. sæti ásamt ýmsum stórþjóðum skákarinnar. Hjörvar Steinn Grétarsson og Bragi Þorfinnsson hafa unnið allar skákir sínar, Hjörvar hefur teflt í öllum fimm umferðunum en Bragi hefur hvílt einu sinni. Leita þarf aftur til Ólympíumótsins í Buenos Aires 1939 til að finna viðlíka sigurgöngu en þá vann Jón Guðmundssonar allar tíu skákir sínar í úrslitakeppninni en Íslendingar unnu Copa Argentina, sigurlaun b-riðils. Fróðleiksfúsum er bent á ágæta vefsíðu, olimpbase.org, þar sem rakin eru úrslit og skákir Ólympíumótanna frá upphafi.

Í gær var frídagur en sjötta umferð fer fram í dag og þá mæta Íslendingar Tyrkjum í opna flokknum en í kvennaflokknum eru mótherjarnir Perú. Kvennaliðið vann Englendinga í 3. umferð og Moldóvíu í 4. umferð. Með miklu harðfylgi tókst Lenku Ptacnikovu og Hallgerði Helgu að knýja fram sigur í báðum skákum sínum af miklu harðfylgi. Taflmennska Hallgerðar í lokakafla skákarinnar við England var afburðagóð. Í miklu tímahraki tókst Lenku að snúa töpuðu tafli við og sigra í viðureigninni við Moldóvíu. Vinningshlutfall hennar er 80%. Þó að smávegis bakslag hafi komið hjá íslensku kvennasveitinni er frammistaðan góð.

Hollendingar, Úkraínumenn og Indverjar leiða opna flokkinn með 10 stig en mikla athygli vakti er Úkraínumenn unnu Rússa, 2 ½ : 1 ½ í 4. umferð.

Í kvennaflokki eru Rússar og Úkraínumenn í efsta sæti með 10 stig. Íslenska sveitin er í 44. –58. sæti með sex stig.

Hinn ágæti meðbyr sem lið Íslands í opna flokknum hefur fengið gefur vonir um hátt sæti en vel heppnaður lokasprettur er vitaskuld forsenda þess. Sveitin hefur einu sinni teflt „upp fyrir sig“ en tapaði þá 1:3 fyrir Tékkum. Þar vann Hjörvar Steinn hinn öfluga stórmeistara Laznicka á sannfærandi hátt:

Ól 2016; 2. umferð:

Hjörvar Steinn Grétarsson – Viktor Laznicka

Móttekið drottningarbragð

1. d4 d5 2. c4 dxc4 3. e4 Rf6 4. e5 Rd5 5. Bxc4 Rb6 6. Bd3 Rc6 7. Re2 Bg4 8. Be3 Dd7 9. Rbc3 O-O-O 10. a4!?

Peðsfórn sem Hjörvar hafði greinilega skoðað fyrir skákina þar sem svipuð staða hafði komið fyrir áður í skákum Tékkans. Atburðarásin í næstu leikjum er þvinguð.

10. ... Rxe5 11. Bb5 c6 12. dxe5 Dxd1 13. Rxd1 cxb5 14. axb5 Kb8 15. e6! (sjá stöðumynd).

G9D106844Þessi skemmtilegi peðsleikur sem er dæmigerður fyrir hinn dýnamíska stíl Hjörvars virðist hafa slegið Laznicka út af laginu. Hann á þó að geta varist.

15. ... Bxe6 16. Bf4+ Kc8 17. Hc1+ Kd7 18. Hc7+ Ke8 19. Hxb7 g5!?

A7-peðið er í hættu og falli það er b-peðið farið að ógna. Annar möguleiki var 19. ... Bd5.

20. Bxg5 Hg8 21. Be3 Ha8?

Tapleikurinn. Kannski hefur Laznicka óttast að hrókurinn lokaðist af eftir 21. ... Hxg2! 22. Rg3 og misst af 22. ... Bd5! Og 22. Rf4 má svara með 22. ... Bg4! o.s.frv. Jafnvægi ríkir eftir 22. Hxa7 Rd5.

22. Bxb6 axb6 23. Hxb6 Bc4 24. Rec3 Hg5 25. Re3 Bd3 26. f4 Hc5 27. Kf2 Bg7 28. Hd1

Allir menn hvíts eru komnir á stjá og eftirleikurinn er auðveldur.

28. ... Bxc3 29. Hxd3 Bxb2 30. Kf3 f5 31. Hb7 Hd8 32. Hb3 Bd4 33. b6 Hdc8 34. Hd3 Hd8 35. Hb3 Hdc8 36. Ha7 Hb8 37. b7 Kd7 38. Hd3

– og svartur gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 8. september 2016

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Íslensku liðin hófu Ólympíumótið með stórsigri

Íslensku liðin unnu stórsigur, 4:0, í fyrstu umferð Ólympíuskákmótsins sem hófst í gær í höfuðborg Aserbaídsjan, Bakú. Í opna flokknum þurftu menn að hafa svolítið fyrir hlutunum gegn Eþíópíu en andstæðingur Hjörvars Steins Grétarssonar átti vænlega stöðu lengi vel en missti tökin í kringum 40. leikinn. Jóhann Hjartarson hvíldi en Hannes Hlífar Stefánsson, Hjörvar Steinn, Guðmundur Kjartansson og Bragi Þorfinnsson skiluðu vinningum í land.

Í kvennaflokki unnu íslensku stúlkurnar lið Maldíveyja einnig 4:0. Lenka Ptacnikova, Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir, Hrund Hauksdóttir og Veronika Steinunn Magnúsdóttir unnu en Guðlaug Þorsteinsdóttir hvíldi. Mikill elo-stigamunur er á íslensku liðunum og mótherjunum og því varla hægt að líta á viðureignirnar nema sem góða upphitun.

Allar umferðir mótsins hefjast kl. 11 að íslenskum tíma að lokaumferðinni undanskilinni. Hægt er fylgjast með öllum viðureignum á hinum ýmsu vefsvæðum, t.d. Chess24, Chessbomb, ICC og svo er sent út frá heimasíðu skipuleggjenda. Tefldar verða ellefu umferðir í báðum flokkum og eru gefin 2 stig fyrir sigur og eitt fyrir jafntefli. Alls eru 180 lið skráð til keppni í opna flokknum og í kvennaflokknum eru þátttökuþjóðirnar 140 talsins.

Úrslit í gær voru undantekningarlaust eftir bókinni. Í opna flokknum unnu átta stigahæstu liðin 4:0 og í kvennaflokknum unnu 14 sterkustu liðin með sömu tölum og íslensku liðin. Armenar sem hafa þrisvar unnið ólympíugull taka ekki þátt en þeir hafa átt í harðvítugum deilum við Asera um héraðið Nagorno Karabak. 

40 ár frá sigri Bandaríkjamanna í Haifa

Fyrir greinarhöfnd sem horfir yfir sviðið eftir að hafa tekið þátt í næstum því hverju einasta Ólympíumóti yfir 40 ára tímabil er tæknibylting skákarinnar stærsta breytingin. Gönguferðir um söguslóðir Biblíunnar gera fyrsta Ólympíumót mitt í Haifa í Ísrael árið 1976 eitt það minnisstæðasta. Það fór samt fram við aðstæður sem hafa komið fyrir í sögu keppninnar; nokkrar aðildarþjóðir FIDE virtust hafa gleymt merkingu einkennisorða FIDE, Gens una sumus. Sovétmenn og önnur ríki Varsjárbandalagsins sátu heima. 

Keppnin um gullið stóð á milli Bandaríkjamanna og Hollendinga. Þeir fyrrnefndu höfðu sigur eftir harða keppni en í sveitinni voru gamlir og góðir Bandaríkjamenn, Robert Byrne, William Lombardy og Larry Evans.

Og nú 40 árum síðar gætu Bandaríkjamenn unnið aftur. Þeir eru með þrjá ása uppi í erminni: Caruana, Nakamura og So. Forseti Rússneska skáksambandsins, Andrei Filatov, staðhæfir að Garrí Kasparov sé þjálfari Bandaríkjamanna en ætti samt að geta andað rólega; Rússar eru með sterkasta liðið á pappírnum. Vladimir Kramnik teflir á 1. borði og áskorandinn Sergei Karjakin á 2. borði. Ekki má heldur gleyma Kínverjum sem eru núverandi ólympíumeistarar. 

Magnús Carlsen er mættur

Búast hefði mátt við því að heimsmeistarinn Magnús Carlsen myndi safna kröftum fyrir HM-einvígið í New York í nóvember. En hann er mættur til leiks en hvíldi í gær. Magnús hefur átt misjöfnu gengi að fagna í sveitakeppnum, tapaði tveim skákum á EM í fyrra og einnig tveimur á ÓL í Tromsö 2014. Á 2. borði norsku sveitarinnar er félagi hans og aðstoðarmaður, Jon Ludwig Hammer.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 3. september 2016

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Systkinin gera það gott á EM ungmenna í Prag

14125124_153524358420977_5698749473928475194_o (1)Heimsmeistara- og Evrópumót ungmenna eru stærstu skákmótin fyrir unga skákmenn í dag. Þau eru haldin árlega og eru opin piltum og stúlkum í sex aldursflokkum á aldrinum 8-18 ára. Þar sem alþjóðlega skáksambandið, FIDE, hefur haft aðsetur í Rússlandi í meira en 20 ár hefur þróunin orðið sú að þessi mót hafa nær undantekningarlaust verið haldin í grennd við höfuðstöðvarnar; Tyrkland, Svartfjallaland, Slóvenía, Grikkland og Georgía eru nokkur lönd sem íslensk ungmenni hafa átt kost á að sækja heim á undanförnum árum.

Evrópumót ungmenna sem lýkur um helgina fer fram Prag í Tékklandi og þar tefla íslensku keppendurnir, sem er ellefu talsins, við geysiöflugt lið því austurblokkin með Rússa, Úkraínumenn, Asera og Armena, svo nokkrar þátttökuþjóðir séu nefndar, hefur að venju sterka viðveru.

Yngstu íslensku keppendurnir eru þeir Bjartur Þórisson 7 ára og Tómas Möller sem er 8 ára og tefla þeir í keppnisflokki drengja 8 ára og yngri. Ásamt Benedikt Þórissyni sem teflir í 10 ára flokknum fá þeir sér þannig reynslu sem síðar mun reynast dýrmæt. Það sést best á frammistöðu hinnar 10 ára gömlu Freyju Birkisdóttur sem hefur hlotið 4 vinninga af sjö mögulegum en hún tefldi á HM ungmenna í Grikklandi í fyrra og þekkir því vel til á þessum vettvangi.

Akureyringarnir Símon Þórhallsson og Jón Kristinn Þorgeirsson hafa virkað æfingalausir þrátt fyrir góða spretti. Það sama gildir um Gauta Pál Jónsson og Robert Luu. Þrír íslensku keppendanna tefldu á Ólympíumóti 16 ára og yngri í Slóvakíu á dögunum: Vignir Vatnar Stefánsson hefur ekki náð sér á strik og er með 3 ½ vinning af sjö mögulegum sem er nokkuð undir ætluðum árangri þó hann hafi yfirleitt skilað góðum árangri á þessum mótum. Tvíburabræðurnir Björn Hólm og Bárður Örn Birkissynir hafa hinsvegar náð góðum árangri og Bárður, sem er með 4 vinninga, hefur verið í mikilli framför undanfarin misseri. Þegar frammistaða Freyju bætist við geta þau systkin verið ánægð með sinn hlut í Prag. Í 6. umferð vann Bárður hollenskan skákmann á sannfærandi hátt í eftirfarandi skák:

EM ungmenna 2016:

Kevin Nguyen – Bárður Örn Birkisson

Spænskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 a6 4. Ba4 Rf6 5. d3 d6 6. c3 g6 7. h3 Bg7 8. Bg5 h6 9. Be3 O-O 10. Rbd2 Rh5 11. g3 Bd7 12. Bc2 De8!

Uppbygging svarts minnir á kóngsindverska vörn. Drottningin gefur f-peðinu lausan tauminn með því að valda riddarann á h5 óbeint.

13. De2 f5 14. O-O-O f4 15. gxf4 exf4 16. Bd4 Rxd4 17. Rxd4 b5

Hann gat líka leikið 17. ... c5, nú er ein hótunin 18. ... b4 o.s.frv.

18. R2f3 c5 19. Bb3+ Kh7 20. Rc2 Bc6 21. Hhe1 a5 22. Dd2?

Byrjun hvíts hefur verið stefnulaus og þessi leikur bætir ekki úr skák. Hann varð að forða biskupinum með 22. Bd5.

GNQ104M1P22. ... c4!

Króar biskupinn af.

23. dxc4 a4 24. cxb5 axb3 25. axb3 Bxb5 26. Dxd6 Hf6 27. Dd5 Bc6 28. Dd3 Hf7 29. Rfd4 Bd7 30. e5 He7 31. e6

E-peðið var að falla og ekkert mótspil hefst upp úr þessu.

31. ... Bxe6 32. De4 Ha6 33. b4 Bf6 34. b5 Hd6 35. Dd3 Bd7 36. c4 Hxe1 37. Hxe1

GNQ104M1G

37. ... Hxd4!

Nú fellur enn meira lið. Eftirleikurinn er auðveldur.

38. Df3 Df7 39. Rxd4 Bxd4 40. De2 Bxh3 41. b4 Rg7 42. Hd1 Da7 43. Dd2 Da3+

- og hvítur gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 27. ágúst 2016

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Wesley So vann stórmótið í St. Louis

so_2016_sinquefield_cup
 
Filippseyingurinn Wesley So sem mun tefla fyrir Bandaríkin á Ólympíumótinu í Baku í Aserbaídsjan sem hefst 1. september nk. varð einn efstur á stórmótinu í St. Louis sem lauk um síðustu helgi. Mótshaldararnir, bandaríski auðmaðurinn Rex Sinquefield og kona hans, hafa byggt upp magnað skákstarf í St. Louis með sýningarhöll og safni þar sem t.d. má finna taflmennina sem notaðir voru í hinni frægu 3. einvígisskák Fischers og Spasskís frá 1972. Þarna er einnig afbragðs kennsluaðstaða og reglulega sækja staðinn margir af bestu skákmönnum heims. Kasparov var meðal gesta um síðustu helgi en hann tók þarna þátt í frægu hraðskákmóti í vor þar sem hann varð að láta minni pokann fyrir Filippseyingnum í fimm hraðskákum. Þetta er stærsti sigur Wesley So á skákferlinum:

1. So 5 ½ v. (af 9) 2. –5. Anand, Aronjan, Topalov og Caruana 5 v. 6.-7. Nakamura og Vachier-Lagrave 4 ½ v. 8. Liren Ding 4 v. 9. Svidler 3 ½ v. 10. Giri 3 v.

Mótstaflan ber með sér að allt var opið hvað varðaði efsta sætið fram á lokadag. Þá gat Topalov komist upp við hlið So en missti niður unnið hrósendatafl í jafntefli í skák sinni við Aronjan. Hinn tæplega fimmtugi fyrrverandi heimsmeistari Wisvanthan Anand var öryggið uppmálað og var einnig nálægt því að ná efsta sæti.

Hollendingar hafa um nokkurt skeið bundið miklar vonir við hinn unga Anish Giri en hann virðist vera algjörlega „vatnslaus“ um þessar mundir. Á þremur stórmótum á þessu ári hefur honum ekki tekist að vinna eina einustu skák.

Bandaríkjamenn hljóta að vænta mikils af ólympíuliði sínu og að því takist að vinna gullið í Baku með Nakamura, Caruana og So innanborðs. En þó að „járntjaldið“ sé fallið hefur reynst erfitt að sækja sigur í Austurveg og geta ýmsir þættir eins og heppni hreinlega ráðið úrslitum. Ólympíumótið fer fram í Kristalhöllinni í Baku – á sama stað og Eurovision-söngkeppnin árið 2012.

En Nakamura er beittur þess dagana:

Sinquefield cup 2016; 9. umferð:

Hikaru Nakamura – Liren Ding

Slavnesk vörn

1. d4 d5 2. c4 c6 3. Rf3 Rf6 4. Rc3 e6 5. Bg5 h6 6. Bh4 dxc4 7. e4 g5 8. Bg3 b5 9. Be2 Bb7 10. h4 g4 11. Re5 Rbd7 12. Rxd7 Dxd7 13. Be5 De7 14. b3 cxb3 15. axb3 a6 16. Dc1!?

Allt saman sést áður fram að þessum leik sem er nýr af nálinni.

16. ... Hg8 17. O-O Rh5 18. d5!?

Ræðst strax til atlögu. Ein einföld hugmynd er 18. ... cxd5 19. Rxb5! o.s.frv.

18. ... Dxh4?

Þetta hefði hann betur látið ógert, 18. ... f6 eða 18. ... exd5 var betra.

19. g3 Dg5? 20. dxc6! Dxe5

Eða 20. ... Dxc1 21. cxb7! og vinnur.

21. cxb7 Hb8

G70103HBN
22. Rd5!

Drottningin ryðst inn eftir c-línunni og svartur er varnarlaus.

22. ... exd5 23. Dc8+ Ke7 24. Hxa6 Rxg3 25. Bxb5 Re2+ 26. Bxe2 f6 27. He6+! Dxe6 28. Dxb8

- og Liren Ding gafst upp. 

 

 

 

Lenka Íslandsmeistari kvenna í áttunda sinn

 

Íslandsmót kvenna

Lenka Ptacnikova varð Íslandsmeistari kvenna um síðustu helgi en hún vann þá Veroniku Steinunni Magnúsdóttur í lokaumferð mótsins og vann mótið með fullu húsi. Þetta er í áttunda sinn sem hún verður Íslandsmeistari í skák. Lokaniðurstaðan varð þessi: 1. Lenka Ptacnikova 5 v. (af 5) 2. – 3. Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir og Guðlaug Þorsteinsdóttir 3 v. 4. Veronika Steinunn Magnúsdóttir 2 v. 5. Hrund Hauksdóttir 1 ½ v. 6. Tinna Kristín Finnbogadóttir ½

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 20. ágúst 2016

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Tveir nýliðar í kvennaliði Íslands á Ólympíumótinu í Baku

Hrund og Veró
 
Tveir nýliðar eru í sveit Íslands sem tekur þátt í kvennaflokki Ólympíumótsins í Baku í Aserbaídsjan sem hefst 1. september nk. Sá háttur hefur verið hafður á undanfarin ár að þjálfari og liðsstjóri, sem í tilviki kvennaliðsins er Björn Ívar Karlsson, gerir tillögu um hópinn sem teflir fyrir Íslands hönd. Á 1. borði verður okkar langsterkasta skákkona, Lenka Ptacnikova, en aðrar í sveitinni eru Guðlaug Þorsteinsdóttir, Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir og nýliðarnir Hrund Hauksdóttir og Veronika Steinunn Magnúsdóttir. Guðlaug tefldi síðast á Ólympíumótinu í Dresden árið 2008.

„Lokaæfingin“ fyrir Ólympíumótið fer fram þessa dagana í húsakynnum SÍ þar sem stendur yfir keppni í landsliðsflokki kvenna og allar í ólympíusveitinni eru með. Líklegt er að úrslit hafi ráðist á fimmtudagskvöldið en þá vann Lenka Ptacnikova Guðlaugu Þorsteinsdóttur. Þær höfðu báðar unnið fyrstu þrjár skákir sínar. Staðan fyrir síðustu umferð sem fram fer í dag er þessi:

1. Lenka Ptacnikova 4 v. (af 4) 2. Guðlaug Þorsteinsdóttir 3 v. 3. – 4. Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir og Veronika Steinunn Magnúsdóttir 2 v. 5. Hrund Hauksdóttir 1 v. 6. Tinna Kristín Finnbogadóttir 0 v.

Í fjórðu umferð mættust einnig nýliðarnir Hrund og Veronika. Hrund vann Hallgerði í fyrstu umferð mótsins en í þessari skák var uppbygging hennar gegn sikileyjarvörn ekki nægilega markviss og Veronika leysti úr læðingi mikinn kraft í eftirfarandi stöðu:

Skákþing Íslands 2016:

G2T102L9IHrund – Veronika

25. ... f4!

26. Dxf4 Rf3+!

27. Kf1 Dxf4

28. gxf4 Bc4+!

29. Bd3

Ekki 29. Re2 Hg1 mát.

29. .. Bxd3+!

– og Hrund gafst upp þar sem hún verður hrók undir eftir 30. Hxd3 Hg1+ 31. Ke2 Rxd4+ og 32. ... Hxa1.

 

Minningarmót um Birnu Norðdahl

Það er vel við hæfi í aðdraganda ólympíumótsins og að loknu Íslandsmóti kvenna að halda minningarmót um merkan brautryðjenda, Birnu Norðdahl. Mótið fer fram laugardaginn 20. ágúst að Reykhólum við Breiðafjörð og hafa kunnir kappar á borð við Friðrik Ólafsson, Jóhann Hjartarson og Jón L. Árnason boðað komu sína og þátttöku. Tefldar verða átta umferðir með 10 mínútna umhugsunartíma. 

Birna Norðdahl, sem var bóndi og listamaður, dreif áfram af miklum krafti þá hugsjón sína að íslenskar konur tækju þátt í ólympíuskákmótum. Henni tókst ætlunarverk sitt og fyrsta íslenska kvennaliðið var sent á Ólympíumótið í Buenos Aires haustið 1978 Birna sem þá var tæplega sextug tefldi á 3. borði en aðrar í þessari ólympíusveit Íslands voru Guðlaug Þorsteinsdóttir, Ólöf Þráinsdóttir og Svana Samúelsdóttir.

Skákfélagið Hrókurinn er aðal-skipuleggjandi minningarmótsins en nánari upplýsingar má finna á skak.is og hrokurinn.is. 

So efstur á Sinquefield cup

Filippseyingurinn Wesley So vann Búlgarann Veselin Topalov í 6. umferð stórmótsins í St. Louis og komst við það í efsta sætið. Tíu skákmennt taka þátt í mótinu. Magnús Carlsen sá sér ekki fært að vera með vegna undirbúnings fyrir heimsmeistaraeinvígið við Karjakin í New York í haust en staðan þegar þrjár umferðir eru eftir er þessi:

 

1. So 4 v. (af 6) 2. – 3. Anand og Topalov 3 ½ v. 4. – 8. Vachier Lagrave, Aronjan, Nakamura og Liren Dind 3 v. 9. Giri 2 ½ v. 10. Svidler 1 ½ v.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 13. ágúst 2016

Skákþættir Morgunblaðsins


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.7.): 2
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 166
  • Frá upphafi: 8779126

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 102
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband