Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2014

Skákgetraun - skilafrestur lengdur

Nú er í fullum gangi getraun fyrir Íslandsmótið í skák. Þar geta áhugasamir spáð fyrir um röð fimm efstu keppenda mótsins. Vegna breytinga á keppendalista mótsins hefur skilafrestur verið lengdur til upphafs þriðju umferðar á sunnudag kl. 13. Þeir sem hafa þegar skilað inn svörum geta skilað inn nýjum svörum. Skili sami aðili inn fleiri enn einni einni spá - verður nýjasta spáin sú gilda.

Veitt eru 5 stig fyrir rétt efsta sæti, 4 stig fyrir rétt annað sæti og svo koll af kolli. Séu menn jafnir í sætum að vinningum (t.d. 2.-3. sæti) er nægjanlegt að giska á annað hvort sæti hjá viðkomandi til að fá rétt svar.

Fjöldi verðlauna verða í boði. Meðal annars 15.000 kr. úttekt á Hereford-steikhúsi. Aðrir aðilar sem gefa verðlaun eru Gullöldin, 12 tónar og Sögur útgáfa.

Við upphaf þriðju umferðar verður birt samantekt spádómsgáfu skákmanna, þ.e. líklegasta lokaröð keppenda að mati íslenskra skákáhugamanna.

Hafi menn nefnt Björn og Stefán í sínum spáum - og ekki skilað inn nýrri spá - verður notast við nöfn staðgengla þeirra í mótinu, þ.e. Guðmundar Gíslasonar (fyrir Björn) og Einars Hjalta (fyrir Stefán)

Getraunin fer fram hér.


Fyrsta umferð Íslandsmótins í skák í fullum gangi

P1010505Fyrsta umferð Íslandsmótsins í skák hófst í dag þegar Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, lék fyrsta leikinn í skák Hjörvars Steins Grétarssonar og Héðins Steingrímssonar. Skákin var reyndar sú fyrsta að klárast en þeir sömdu um jafntefli eftir 31 leik. Bragi Þorfinnsson var fyrsta allra til að vinna þegar hann vann Þröst Þórhallsson og Henrik Danielsen og Guðmundur Kjartansson gerðu jafntefli.

Þegar þetta er ritað eru aðrar skákir enn í gangi en reyndarP1010513 hófst skák Helga Áss Grétarssonar og Einars Hjalta Jenssonar fyrst kl. 19:30 en Einar Hjalti kom inn í mótið með mjög skömmum fyrirvara vegna forfalla Stefáns Kristjánssonar.

P1010526Í áskorendaflokki taka 43 skákmenn þátt sem er prýðisþátttaka. Í upphafi umferðar var Gylfa Þórhallssyni, heiðursfélaga Skáksambands Íslands, færðar gjafir en hann á 60 ára afmæli í dag.  Skáksambandið færði Gylfa blóm en gjöf Skákfélags Akureyrar var í fljótandi formi.

Rétt er að benda á veglegar útsendingar frá mótinu semP1010527 eru þrenns konar. Það er hefðbundin beint útsending, útsending með tölvuskýringum frá Chessdom og svo skýringar Ingvars Þórs Jóhannessonar. Bein útsending er einnig frá borðum 1-5 í áskorendaflokki.

Umferðin á morgun hefst kl. 13.


Spáðu fyrir úrslitin í landsliðsflokki

Nú er í fullum gangi getraun fyrir Íslandsmótið í skák. Þar geta áhugasamir spáð fyrir um röð fimm efstu keppenda mótsins. Góð þátttaka er í getrauninni og hafa þegar um 60 manns skilað inn niðurstöðu.

Veitt eru 5 stig fyrir rétt efsta sæti, 4 stig fyrir rétt annað sæti og svo koll af kolli. Séu menn jafnir í sætum að vinningum (t.d. 2.-3. sæti) er nægjanlegt að giska á annað hvort sæti hjá viðkomandi til að fá rétt svar.

Fjöldi verðlauna verða í boði. Meðal annars 15.000 kr. úttekt á Hereford-steikhúsi. Aðrir aðilar sem gefa verðlaun eru Gullöldin, 12 tónar og Sögur útgáfa.

Lokað verður fyrir getraunina við upphaf annarrar umferðar, þ.e. kl. 13 laugardaginn 24. maí. Þá verður birt samantekt spáarinnar, þ.e. líklegasta lokaröð keppenda að mati íslenskra skákáhugamanna.

Rétt er að taka fram vegna breytinga á keppendalistanum að menn geta skilað inn nýrri spá . Sé það ekki gert verður nafni Björns Þorfinnssonar breytt í Guðmund Gíslason - hafi menn spáði Birni meðal fimm efstu.

Getraunin fer fram hér.


Guðmundur Gíslason í landsliðsflokk - skráningu í áskorendaflokk lýkur á hádegi

FIDE-meistarinn Guðmundur Gíslason (2315) hefur tekið sæti í landsliðsflokki. Hann tekur sæti Björns Þorfinnssonar sem dró sig út úr mótinu af persónulegum ástæðum. Skráningu lýkur á hádegi í áskorendaflokki en þar eru 46 keppendur skráðir til leiks. 

Í fyrstu umferð landsliðsflokks mætast;

  • Hjörvar (2530) - Héðinn (2537)
  • Helgi Áss (2462) - Stefán (2494)
  • Bragi (2459) - Þröstur (2437)
  • Henrik (2483) - Guðmundur K. (2439)
  • Guðmundur G. (2315) - Hannes (2548)

Keppendalista áskorendaflokks má finna hér.

Heimasíða Íslandsmótsins í skák

Íslandsmótið í skák hefst á morgun

Íslandsmótið í skák - hefst á morgun. Landsliðsflokkur, þar sem þátt taka tíu skákmenn, hefst kl. 16 en áskorendaflokkur hefst kl. 17. Teflt er í Stúkunni við Kópavogs en þar er einkar glæsileg aðstaða til skákiðkunnar.

Í fyrstu umferð landsliðsflokks mætast:

  • Hjörvar (2530) - Héðinn (2537)
  • Helgi Áss (2462) - Stefán (2494)
  • Bragi (2459) - Þröstur (2437)
  • Henrik (2483) - Guðmundur (2439)
  • Björn (2389) - Hannes (2548) - verður frestað fram á frídag (27. mái)

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, setur mótið og leikur fyrsta leik þess.

Meðalstigin er 2478. Hvorki hafa meðalstig verið hærri né hafa fleiri stórmeistarar (sjö talsins) tekið þátt í Íslandsmótinu í skák.

Áskorendaflokkurinn er einnig afar sterkur og hefur sjaldan eða jafnvel aldrei verið sterkari. Stigahæstu keppendur þar eru:

Einar Hjalti Jensson (2350), Davíð Kjartansson (2342), Guðmundur Gíslason (2319), Sigurður Daði Sigfússon (2290), Lenka Ptácníková (2267), Daði Ómarsson (2240),  Kristján Eðvarðsson (2194), Magnús Teitsson (2184), Oliver Aron Jóhannesson (2146), Dagur Ragnarsson (2139), Gylfi Þór Þórhallsson (2132) og Sævar Bjarnason (2075).

Íslandsmót kvenna er hluti af áskorendaflokknum. Þar taka þátt flestar sterkustu skákkonur landsins. Auk Lenku má nefna: Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir (1982), Tinna Kristín Finnbogadóttir (1930), Jóhanna Björg Jóhannsdóttir (1856), Elsa María Kristínardóttir (1830) og Sigríður Björg Helgadóttir (1758).

Taflmennska í áskorendaflokki hefst kl. 17 á morgun.  Opið er fyrir skráningu til kl. 12 á morgun. Skráning fer fram á Skák.is.

Heimasíða Íslandsmótsins í skák

Wow air mótinu lokið

Hinu nýja Vormóti Taflfélags Reykjavíkur lauk síðastliðið mánudagskvöld þegar sjöunda og síðasta umferðin var tefld við hinar bestu aðstæður í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur að Faxafeni 12. Mótið var sérlega glæsilegt og vel skipað en það var haldið í samstarfi við WOW air sem er einn af öflugustu bakhjörlum félagsins.

Hugmyndina að Vormótinu átti formaður TR, Björn Jónsson, en því er ætlað að svara kalli skákmanna eftir sterkari mótum þar sem uppfylla þarf stigalágmörk til að eiga keppnisrétt.  Þá var haft að leiðarljósi að hafa fyrirkomulag umferða sem þægilegast og því var aðeins teflt einu sinni í viku en mikið hefur verið rætt um það hvaða „hraði" á mótum henti best.

Mótinu var skipt í tvo flokka.  Í A-flokki voru skákmenn með 2200 Elo stig og meira og í B-flokki voru skákmenn með 2000 Elo stig og meira.  Að auki var nokkrum skákmönnum sem ekki uppfylltu stigalágmörkin boðin þátttaka og var þar helst horft til ungra og efnilegra skákmanna sem þarna myndu fá gott tækifæri og öðlast dýrmæta reynslu.  Fjölmargir verðugir keppendur sóttu um boðssætin og valið var ekki auðvelt.

Keppendalisti A-flokks var sannarlega vígalegur.  Fyrstan ber að nefna fyrsta stórmeistara Íslendinga, Friðrik Ólafsson, sem verður áttræður á næsta ári.  Forvígismenn Taflfélags Reykjavíkur eru sannarlega stoltir af því að hafa meistara Friðrik um borð og kunna honum bestu þakkir fyrir þátttöku sína í mótinu.  Stigahæstur keppenda var margfaldur Íslandsmeistari, Hannes Hlífar Stefánsson, en næstur í stigaröðinni kom nýjasti stórmeistari Íslendinga, Hjörvar Steinn Grétarsson.

Alls tóku þátt í mótinu fimm stórmeistarar, tveir alþjóðlegir meistarar, fjórir Fide meistarar og einn stórmeistari kvenna.  Auk þeirra mátti finna Íslandsmeistara barna, Unglingameistara Reykjavíkur og Taflfélags Reykjavíkur sem og fyrrverandi Norðurlandameistara barna, Vigni Vatnar Stefánsson.  Sömuleiðis var Stúlknameistari Reykjavíkur og Taflfélags Reykjavíkur, Veronika Steinunn Magnúsdóttir, þátttakandi í B-flokknum.

Fyrirfram var ljóst að baráttan myndi standa á milli Hjörvars Steins og Hannesar Hlífars.  Eftir óvænt jafntefli Hannesar við Fide meistarann Ingvar Þór Jóhannesson í annarri umferð og síðan tap gegn Hjörvari í þeirri fjórðu leit út fyrir að fátt gæti komið í veg fyrir sigur Hjörvars Steins.  Það varð enda raunin því Hjörvar hafði fullt hús vinninga fyrir lokaumferðina og hafði þegar tryggt sér sigurinn þar sem hann var tveimur vinningum á undan næstu mönnum.

Í lokaumferðinni gerði Hjörvar jafntefli við stórmeistarann Þröst Þórhallsson og lauk keppni með 6,5 vinning og hækkun upp á 15 Elo stig.  Hannes kom næstur með 5 vinninga en hann vann hinn unga og efnilega Dag Ragnarsson.  Þröstur og alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson fylgdu á eftir með 4,5 vinning.  Árangur Dags, sem var næststigalægstur í flokknum, var eftirtektarverður en hann hlaut 4 vinninga og vann m.a. Guðmund.

Í B-flokki sigraði Magnús Pálmi Örnólfsson eftir að hafa verið á toppnum allt mótið.  Magnús tapaði ekki skák og hlaut 5,5 vinning.  Fjórir skákmenn komu næstir með 4,5 vinning og koma þeir allir úr Taflfélagi Reykjavíkur; Kjartan Maack skákmeistari TR, Hrafn Loftsson, Vignir Vatnar Stefánsson og Gauti Páll Jónsson.  Árangur Vignis Vatnars og Gauta Páls er glæsilegur og skutu þeir mörgum stigahærri keppendum ref fyrir rass.  Báðir hækka þeir um u.þ.b. 40 Elo stig og þá tapaði Vignir Vatnar ekki skák.  Með sigrinum ávann Magnús Pálmi sér þátttökurétt í A-flokki að ári.

Glæsileg verðlaunaafhending fór fram á þriðjusdagskvöld þar sem Friðrik hafði m.a. á orði að hann hafi einmitt verið ellefu ára, líkt og Vignir Vatnar er nú, þegar hann tók þátt í sínu fyrsta skákmóti árið 1946.  Vignir Vatnar hafði síðan lukkuna með sér ásamt Hjörvari Steini þegar þeir unnu veglegar skákklukkur í happdrætti sem fór fram meðfram verðlaunaafhendingunni.

Skákstjórar voru Ríkharður Sveinsson og Ingibjörg Edda Birgisdóttir. Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum sem þátt tóku í mótinu og vonast til að þetta nýja og glæsilega mót verði árlegur viðburður héreftir.


Spáðu fyrir um úrslitin á Íslandsmótinu í skák - góð verðlaun í boði fyrir getspaka

Nú er í fullum gangi getraun fyrir Íslandsmótið í skák. Þar geta áhugasamir spáð fyrir um röð fimm efstu keppenda mótsins. Góð þátttaka er í getrauninni og hafa þegar um 40 manns skilað spá.

Veitt eru 5 stig fyrir rétt efsta sæti, 4 stig fyrir rétt annað sæti og svo koll af kolli. Séu menn jafnir í sætum að vinningum (t.d. 2.-3. sæti) er nægjanlegt að giska á annað hvort sæti hjá viðkomandi til að fá rétt svar.

Fjöldi verðlauna verða í boði. Meðal annars 15.000 kr. úttekt á Hereford-steikhúsi. Aðrir aðilar sem gefa verðlaun eru Gullöldin, 12 tónar og Sögur útgáfa.

Lokað verður fyrir getraunina við upphaf annarrar umferðar, þ.e. kl. 13 laugardaginn 24. maí. Þá verður birt samantekt spáarinnar, þ.e. líklegasta lokaröð keppenda að mati íslenskra skákáhugamanna.

Getraunin fer fram hér.


Davíð Kjartansson sigraði á XD skákmótinu 2014

Davíð Kjartansson XD-meistariSjálfstæðisfélögin í Grafarvogi, Árbæ og Grafarholti efndu til skákmóts í kosningamiðstöð félaganna að Stórhöfða í gær. Skákmótið er skemmtileg nýjung í kosningastarfinu og var öllum velkomið að taka þátt í mótinu. Eftir að Lára Óskarsdóttir frambjóðandi á lista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar hafði sett mótið og leikið 1. leikinn rann mótið af stað undir stjórn Helga Árnasonar formanns Skákdeildar Fjölnis.

Tefldar voru 5 umferðir og boðið upp á pylsur og gos í skákhléi. Þátttakendur voru allt frá byrjendum upp í FIDE-meistarann Davíð Kjartansson. Það var einmitt Davíð sem sigraði á mótinu og hlaut XD 2014 bikarinn og bíómiða að launum. Davíð hefur komið að þjálfun skákkrakka í Grafarvogi og verið liðsstjóri skáksveitar Rimaskóla fyrir Norðurlanda-og Evrópuskákmót með frábærum árangri. Þrír efstu keppendurnir og þrjár efstu í kvennaflokki hlutu verðlaunapeninga að launum.

Þátttakendur voru mjög ánægðir með mótið þar sem léttleikinn sveif yfir vötnunum og enginn var tapsár. Sjálfstæðisfélögin austan Elliðaáa stefna á að gera þennan viðburð árlegan.


Yfirlýsing frá stjórn Myndstefs

Skák.is hefur borist eftirfarandi yfirslýsing frá Myndstefi.

Yfirlýsing frá Myndstefi vegna eftirgerðar Fischer einvígistaflborðs sem var til sýningar í Fischer Setrinu á Selfossi, en höfundur frumverksins er Gunnar Magnússon.

Tilurð málsins:

Í ágúst 2013 barst Myndstefi ábending um meinta ólögmæta eintakagerð og opinbera notkun á Fischer taflborði Gunnars Magnússonar. Í samræmi við vinnureglur Myndstefs var leitað gagna og upplýsinga um notkunina og þá mögulegt brot á höfundarétti myndhöfundar.

Við öflun upplýsinga kom í ljós að meint eintakagerð hefði verið í höndum Gunnars Finnlaugssonar, og að eftirlíkingin væri nú til sýnis í Fischersetrinu á Selfossi, á ábyrgð Magnúsar Matthíassonar. Við gagnaöflun kom einnig fram að kynningartexti fylgdi með eftirlíkingunni, þar sem skýrt var tiltekið að um væri að ræða eftirlíkingu á Fischer einvígstaflborðinu og að „hönnuður borðanna og fylgiborðanna var Gunnar Magnússon húsgagnaarkitekt".

Þótti Myndstefi ástæða til að ætla að ekki hafði fengist leyfi frá höfundi til hvorki eftirgerðarinnar né annarrar opinberrar notkunar verksins, en samkvæmt höfundalögum nr. 73/1972 á höfundur eignarétt að verki sínu og hefur þar með einkarétt til að heimila eða banna eintakagerð eða birtingu verka sinna. Öll notkun verka höfundar - eintakagerð, eftirgerð, gerð eftirlíkinga, birting, sýning, miðlun eða önnur notkun - þarf leyfis höfundar, rétthafa hans, eða höfundaréttarsamtaka sem fara með höfundaréttargæslu höfunda á viðkomandi sviði.

Myndstef eru slík höfundaréttarsamtök, en Myndstef fer með höfundaréttargæslu myndhöfunda og telst hönnun og taflborð Gunnars Magnússonar myndverk, og fellur því undir lögin og þar með undir réttindagæslu samtakanna. Myndstef eru lögformlega viðurkennd samtök og er tilgangur þeirra að fara með höfundarétt vegna opinberra endurbirtinga og sýninga á verkum myndhöfunda og stuðla að almennri höfundaréttargæslu á þessu sviði. Myndstef innheimtir þóknun fyrir notkun á höfundarétti félagsmanna sinna og kemur henni til skila til þeirra. Samtökin eru ekki rekin í hagnaðarskyni.

Málavextir og lagarök:

Vegna þessa var ábyrgðaraðilum sent bréf þann 29. ágúst 2013, þar sem viðeigandi reglur og lög voru kynnt og tiltekið að ef ekki hefði fengist leyfi fyrir eftirgerðinni eða birtingunni (sýningunni) væri um brot á höfundarétti Gunnars Magnússonar að ræða, og þar með brot á höfundalögum  nr. 73/1972. Í bréfinu kom fram að Myndstef myndi innheimta þóknun vegna notanna og auk þess gera þá kröfu að borðið yrði fjarlægt tafarlaust úr opinberri sýningu og/eða því fargað.

Ábyrgðaraðilum var gefinn frestur til verða við kröfum Myndstefs eða setja sig í samband við Myndstef og semja um frekari leiðir, skilmála og greiðslufyrirkomulag.

Ekki barst svar frá ábyrgðarmönnum fyrr en 18. september, þar sem bréf og krafa Myndstefs var ranglega nefnt ,,kæra" og og einnig var höfundaréttur Gunnars Magnússonar dreginn í efa, auk annarra atriða. Því bréfi var svarað og sendur reikningur vegna notanna 23. september 2013 upp á 120.000 kr.

Myndstef bauð upp á sættir og að afturkalla reikninginn ef höfundur féllist á slíkt, eða leita annarra og frekari leiða til sátta. Myndstef tók fram að ef yfirlýsing kæmi frá ábyrgðaraðilum að borðið væri ekki lengur til sýnis opinberlega, myndu samtökin ekki fara fram á förgun borðsins, gegn því að málið myndi leysast farsællega og fljótt. Að auki var ábyrgðaraðilum enn og aftur gefinn kostur á að sýna Myndstefi fram að upplýsingar þær er Myndstef hefði undir höndum og forsendur krafna væru ekki réttar.

Í kjölfarið hófust mikil tölvupóstsamskipti og fyrirspurnir sem var öllum svarað með von og trú um að mál þetta myndi leysast farsællega og þannig að sem minnst tjón yrði fyrir alla aðila máls. Málið tafðist hins vegar fram á vetur 2013 og var ítrekun send á ábyrgðaraðila þann 26. nóvember 2013, þar sem fyrri reikningur var ítrekaður og einnig sérstaklega sú krafa að broti yrði hætt og taflboðið fjarlægt úr sýningu Fischersetursins. Ef ekki yrði við kröfum Myndstefs og látið af brotum á rétti myndhöfundar, yrði að leita aðstoðar sýslumanns til innsetningar og fjarlægja borðið af sýningunni og láta farga því.

Málið tafðist enn frekar og fátt var um svör, og að lokum var send lokaítrekun þann 23. janúar 2014. Ítrekun þeirri var svarað samdægurs af lögmanni Fischersetursins, sem síðar staðfesti að borðið væri ekki lengur til sýnis í setrinu. Tók Myndstef á móti þeirri staðfestingu og tók hana gilda og ítrekaði að borðið yrði ekki sett í sýningu síðar meir, ,,ella verður nauðsynlegt fyrir okkur og rétthafa að fá borðið fjarlægt með innsetningu hjá sýslumanni. Við vonum svo sannarlega að ekki þurfti til þess að koma".

Í kjölfarið hófust tölvupóstsamskipti við lögmann Fischersetursins, er beindi kröfum Myndstefs til Gunnars Finnlaugssonar. 28. febrúar 2014 ítrekaði Myndstef að kröfum væri beint in solidum til forstöðumanns Fischersetursins og framleiðanda eftirlíkingarinnar, enda varðaði brotið bæði einkarétt höfundar til eintakagerðar, auk sýningar á þeirri eftirlíkingu. Nokkrir fleiri tölvupóstar bárust frá lögmanni Fischersetursins þar sem kom fram að kröfum ætti að beina til Gunnars Finnlaugssonar, en ekki til setursins. Þeim samskiptum var öllum svarað á svipaðan máta og fyrri tölvupóstar: að krafan væri in solidum.

Þann 1. mars 2014 kom loks tölvupóstur frá Gunnari Finnlaugssyni um að hann sé tilbúinn til að borga 100.000 kr, en hafnar þó ábyrgð.  Tveimur dögum síðar var tilboðið dregið til baka með eftirfarandi setningu: ,,Vinir mínir á Selfossi eru búnir að fá meir en nóg af hroki þínum og leita annar leiða. Gunnar"

Myndstef hélt áfram samskiptum við lögmann Fischersetursins, og komist var að samkomulagi um að ef upphafleg krafa yrði greidd, auk áfallins innheimtukostnaðar, væri mál þetta úr sögunni og borðið gæti farið aftur til eiganda, gegn því að borðið væri ekki, og yrði ekki gert opinber síðar meir.

Þessu tilboði var tekið og skuld greidd, þann 23. mars 2014 og var málinu þar með lokið.

Niðurlag:

Að mati stjórnar Myndstefs er máli þessu lokið, og hefur Myndstef engu við það að bæta, enda hafa samtökin beitt sér í hvívetna við að reyna að sætta málið og leysa á farsællegan hátt og jafnvel gengið skemur en lög mæla fyrir um, með von um skjótar sættir, og að sjálfsögðu með þeim fyrirvara að brot haldi ekki áfram og að borðið verði ekki til sýnis í safninu.

Að auki munu samtökin ekki svara þeim rangyrðum er Gunnar Finnlaugsson telur sig greinilega tilneyddan til að fara með í fjölmiðla, auk þeirra fjölmargra tölvupósta, fullyrðinga, rangtúlkana og persónulegra árása sem Gunnar Finnlaugsson hefur látið fara um samtökin og starfmenn þeirra.

Virðingarfyllst,

Stjórn Myndstefs


Sæbjörn kom sá og sigraði í Stangarhyl í dag

Sæbjörn GuðfinnssonÆsir tefldu sinn síðasta hefðbundna skákdag í dag á þessari vetrarvertíð sem var sá þrítugasti í röðinni. Næsta þriðjudag verður svo Vorhraðskákmótið haldið en þá teflum við níu umferðir með sjö mínútna umhugsun. Þá verða hinir svokölluðu Vetrarhrókar verðlaunaðir en það eru þeir þrír sem hafa fengið flesta vinninga samanlagt á öllum skákdögum vetrarins. Allir skákmenn karlar 60+ og konur 50+ eru velkomnir á hraðskákina.

Sæbjörn Larsen var sigursælastur í dag hann fékk 9½ vinning af 10 mögulegum. Björgvin Víglundsson varð í öðru sæti með 8 vinninga og Páll G Jónsson í þriðja sæti með 7 vinninga.

Eins og sjá má á meðf. töflu þá var nokkuð mikið jafnræði með mönnum í dag en það munaði aðeins hálfum vinningi á fimmta manni og þeim sautjánda.

Tuttugu og fjórir mættu til leiks í dag.

Sjá meðf. mótstöflu.

 

p5200015_1235099.jpg

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.6.): 1
  • Sl. sólarhring: 37
  • Sl. viku: 225
  • Frá upphafi: 8766272

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 178
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband