Leita í fréttum mbl.is

Yfirlýsing frá stjórn Myndstefs

Skák.is hefur borist eftirfarandi yfirslýsing frá Myndstefi.

Yfirlýsing frá Myndstefi vegna eftirgerðar Fischer einvígistaflborðs sem var til sýningar í Fischer Setrinu á Selfossi, en höfundur frumverksins er Gunnar Magnússon.

Tilurð málsins:

Í ágúst 2013 barst Myndstefi ábending um meinta ólögmæta eintakagerð og opinbera notkun á Fischer taflborði Gunnars Magnússonar. Í samræmi við vinnureglur Myndstefs var leitað gagna og upplýsinga um notkunina og þá mögulegt brot á höfundarétti myndhöfundar.

Við öflun upplýsinga kom í ljós að meint eintakagerð hefði verið í höndum Gunnars Finnlaugssonar, og að eftirlíkingin væri nú til sýnis í Fischersetrinu á Selfossi, á ábyrgð Magnúsar Matthíassonar. Við gagnaöflun kom einnig fram að kynningartexti fylgdi með eftirlíkingunni, þar sem skýrt var tiltekið að um væri að ræða eftirlíkingu á Fischer einvígstaflborðinu og að „hönnuður borðanna og fylgiborðanna var Gunnar Magnússon húsgagnaarkitekt".

Þótti Myndstefi ástæða til að ætla að ekki hafði fengist leyfi frá höfundi til hvorki eftirgerðarinnar né annarrar opinberrar notkunar verksins, en samkvæmt höfundalögum nr. 73/1972 á höfundur eignarétt að verki sínu og hefur þar með einkarétt til að heimila eða banna eintakagerð eða birtingu verka sinna. Öll notkun verka höfundar - eintakagerð, eftirgerð, gerð eftirlíkinga, birting, sýning, miðlun eða önnur notkun - þarf leyfis höfundar, rétthafa hans, eða höfundaréttarsamtaka sem fara með höfundaréttargæslu höfunda á viðkomandi sviði.

Myndstef eru slík höfundaréttarsamtök, en Myndstef fer með höfundaréttargæslu myndhöfunda og telst hönnun og taflborð Gunnars Magnússonar myndverk, og fellur því undir lögin og þar með undir réttindagæslu samtakanna. Myndstef eru lögformlega viðurkennd samtök og er tilgangur þeirra að fara með höfundarétt vegna opinberra endurbirtinga og sýninga á verkum myndhöfunda og stuðla að almennri höfundaréttargæslu á þessu sviði. Myndstef innheimtir þóknun fyrir notkun á höfundarétti félagsmanna sinna og kemur henni til skila til þeirra. Samtökin eru ekki rekin í hagnaðarskyni.

Málavextir og lagarök:

Vegna þessa var ábyrgðaraðilum sent bréf þann 29. ágúst 2013, þar sem viðeigandi reglur og lög voru kynnt og tiltekið að ef ekki hefði fengist leyfi fyrir eftirgerðinni eða birtingunni (sýningunni) væri um brot á höfundarétti Gunnars Magnússonar að ræða, og þar með brot á höfundalögum  nr. 73/1972. Í bréfinu kom fram að Myndstef myndi innheimta þóknun vegna notanna og auk þess gera þá kröfu að borðið yrði fjarlægt tafarlaust úr opinberri sýningu og/eða því fargað.

Ábyrgðaraðilum var gefinn frestur til verða við kröfum Myndstefs eða setja sig í samband við Myndstef og semja um frekari leiðir, skilmála og greiðslufyrirkomulag.

Ekki barst svar frá ábyrgðarmönnum fyrr en 18. september, þar sem bréf og krafa Myndstefs var ranglega nefnt ,,kæra" og og einnig var höfundaréttur Gunnars Magnússonar dreginn í efa, auk annarra atriða. Því bréfi var svarað og sendur reikningur vegna notanna 23. september 2013 upp á 120.000 kr.

Myndstef bauð upp á sættir og að afturkalla reikninginn ef höfundur féllist á slíkt, eða leita annarra og frekari leiða til sátta. Myndstef tók fram að ef yfirlýsing kæmi frá ábyrgðaraðilum að borðið væri ekki lengur til sýnis opinberlega, myndu samtökin ekki fara fram á förgun borðsins, gegn því að málið myndi leysast farsællega og fljótt. Að auki var ábyrgðaraðilum enn og aftur gefinn kostur á að sýna Myndstefi fram að upplýsingar þær er Myndstef hefði undir höndum og forsendur krafna væru ekki réttar.

Í kjölfarið hófust mikil tölvupóstsamskipti og fyrirspurnir sem var öllum svarað með von og trú um að mál þetta myndi leysast farsællega og þannig að sem minnst tjón yrði fyrir alla aðila máls. Málið tafðist hins vegar fram á vetur 2013 og var ítrekun send á ábyrgðaraðila þann 26. nóvember 2013, þar sem fyrri reikningur var ítrekaður og einnig sérstaklega sú krafa að broti yrði hætt og taflboðið fjarlægt úr sýningu Fischersetursins. Ef ekki yrði við kröfum Myndstefs og látið af brotum á rétti myndhöfundar, yrði að leita aðstoðar sýslumanns til innsetningar og fjarlægja borðið af sýningunni og láta farga því.

Málið tafðist enn frekar og fátt var um svör, og að lokum var send lokaítrekun þann 23. janúar 2014. Ítrekun þeirri var svarað samdægurs af lögmanni Fischersetursins, sem síðar staðfesti að borðið væri ekki lengur til sýnis í setrinu. Tók Myndstef á móti þeirri staðfestingu og tók hana gilda og ítrekaði að borðið yrði ekki sett í sýningu síðar meir, ,,ella verður nauðsynlegt fyrir okkur og rétthafa að fá borðið fjarlægt með innsetningu hjá sýslumanni. Við vonum svo sannarlega að ekki þurfti til þess að koma".

Í kjölfarið hófust tölvupóstsamskipti við lögmann Fischersetursins, er beindi kröfum Myndstefs til Gunnars Finnlaugssonar. 28. febrúar 2014 ítrekaði Myndstef að kröfum væri beint in solidum til forstöðumanns Fischersetursins og framleiðanda eftirlíkingarinnar, enda varðaði brotið bæði einkarétt höfundar til eintakagerðar, auk sýningar á þeirri eftirlíkingu. Nokkrir fleiri tölvupóstar bárust frá lögmanni Fischersetursins þar sem kom fram að kröfum ætti að beina til Gunnars Finnlaugssonar, en ekki til setursins. Þeim samskiptum var öllum svarað á svipaðan máta og fyrri tölvupóstar: að krafan væri in solidum.

Þann 1. mars 2014 kom loks tölvupóstur frá Gunnari Finnlaugssyni um að hann sé tilbúinn til að borga 100.000 kr, en hafnar þó ábyrgð.  Tveimur dögum síðar var tilboðið dregið til baka með eftirfarandi setningu: ,,Vinir mínir á Selfossi eru búnir að fá meir en nóg af hroki þínum og leita annar leiða. Gunnar"

Myndstef hélt áfram samskiptum við lögmann Fischersetursins, og komist var að samkomulagi um að ef upphafleg krafa yrði greidd, auk áfallins innheimtukostnaðar, væri mál þetta úr sögunni og borðið gæti farið aftur til eiganda, gegn því að borðið væri ekki, og yrði ekki gert opinber síðar meir.

Þessu tilboði var tekið og skuld greidd, þann 23. mars 2014 og var málinu þar með lokið.

Niðurlag:

Að mati stjórnar Myndstefs er máli þessu lokið, og hefur Myndstef engu við það að bæta, enda hafa samtökin beitt sér í hvívetna við að reyna að sætta málið og leysa á farsællegan hátt og jafnvel gengið skemur en lög mæla fyrir um, með von um skjótar sættir, og að sjálfsögðu með þeim fyrirvara að brot haldi ekki áfram og að borðið verði ekki til sýnis í safninu.

Að auki munu samtökin ekki svara þeim rangyrðum er Gunnar Finnlaugsson telur sig greinilega tilneyddan til að fara með í fjölmiðla, auk þeirra fjölmargra tölvupósta, fullyrðinga, rangtúlkana og persónulegra árása sem Gunnar Finnlaugsson hefur látið fara um samtökin og starfmenn þeirra.

Virðingarfyllst,

Stjórn Myndstefs


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ÆÆÆ

Áskell Örn Kárason (IP-tala skráð) 21.5.2014 kl. 19:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 35
  • Sl. viku: 231
  • Frá upphafi: 8764920

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 151
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband