Færsluflokkur: Spil og leikir
10.8.2014 | 15:28
Dagur 10 - verður Kasparov með töfra á morgun?
Í gær sóttu margir Íslendinganna Kasparov-partýið þar sem boðið var uppá töfrabrögð. Menn bíða spenntir eftir því einnig verði boðið upp á slíkt í FIDE-kosningum á morgun. Góð úrslit hjá báðum liðum í gær.
Umferð gærdagsins
Góður og öruggur sigur á Pakistönum. Það er reyndar nokkuð ótrúlegt að liðið þeirra sé aðeins það 160. sterkasta hér - enda sjötta fjölmennasta þjóð heims! Þeir búa við þá vandamál að þar eru tvö skáksambönd. Að sjálfsögðu viðurkennir FIDE það sem styður Kirsan en ekki hitt sem styður Kasparov hefur mun fleiri skákmenn sterka skákmenn í sínum röðum.
Hannes og Helgi unnu örugglega. Þröstur ákvað á þeim tímapunkti að tryggja sigurinn enda lítið í stöðunni. Hjörvar vann svo eftir smá hjálp andstæðingsins.
Stelpurnar unnu afar góðar sigur á Mexíkóum. Lenka og Elsa unnu og Hallgerður gerði jafntefli. Jóhanna tapaði.
Umferð dagsins
Í dag teflum við Skota í opnum flokki. Við höfum mætt þeim átta sinnum. Unnið þá tvisvar, tapað einu sinni en gert fimm sinnum jafntefli. Staðan er 17-15 fyrir okkur.
Síðast tefldum við þá árið 2004 og gerðum þá 2-2 jafntefli. Hannes Hlífar vann, Þröstur og Arnar Gunnarsson gerðu jafntefli en Helgi tapaði.
Að öllu jöfnu eigum við að vinna Skota en þeir eru heldur stigahærri en Færeyingar sem við tefldum við fyrr í mótinu og gerðum jafntefli
Stelpurnar tefla við Tékka og þar hallar verulega á okkur stigalega séð. Við höfum aldrei mætt Tékkum á Ólympíuskákmóti.
Kasparov-partýið
Ég hef sjaldan hlegið jafn mikið og á Kasparov-partýinu. Þar var indverskur töframaður sem var ótrúlega fyndinn. Kasparov fór á kostum og sérstaklega var fyndið að sjá hann á golfinu nánast trylltan af hlátri.
FIDE-kosningarnar
Á morgun fara fram FIDE-kosningarnar. Ég er ekki bjartsýnn fyrir hönd okkar manns - því miður. Ég tel hann vera að tapa.
Á morgun fara fram einnig ECU-kosningar. Þar er líka hart barist en þar berjast Silvio Danaliov, núverandi forseti og Zurab Azmaiparashvili frá Georgíu um forsetastólinn.
Aðalfundur ECU hófst í morgun og þar sem fór ekki spennan framhjá manni Að einhverju leyti er stuðningsmenn Danalivo þeir sömu og Kasparovs og sömu á hinn veginn. Þó ekki alltaf.
Málefni Rússlands og Úkraínu komu til umræðu og vöktu ummæli Andrei Filatov, forseta rússneska skáksambandsins, að menn ættu ekki að blanda saman skák og pólitík nokkra kátínu viðstaddra!
Kosningarnar í ECU fara fram að loknum kosningum i FIDE.
Að lokum
Pistla- og fréttaskrif verða í minna lagi hjá mér á næstinni vegna FIDE- og ECU-þinga. Ég mun þó tísta reglulega af fundinum á morgun varðandi FIDE-kosningarnar.
Ég treysti að liðsstjóri kvennaliðsins muni að einhverju leyti taka vaktina.
Gunnar Björnsson
10.8.2014 | 12:31
Viðureignir dagsins: Skotar og Tékka
Íslenska liðið í opnum flokki teflir við sveit Skota í dag og íslenska kvennaliðið teflir við sveit Tékka.
Ísland - Skotland
Hannes Hlífar hvílir en John Shaw hjá Skotanum. Meðalstig íslenska liðsins eru 2493 skákstig á móti 2392 skákstigum Skotanna.
Bo. | 43 | Iceland (ISL) | Rtg | - | 66 | Scotland (SCO) | Rtg | 0 : 0 |
15.1 | GM | Gretarsson, Hjorvar Steinn | 2543 | - | GM | McNab, Colin A | 2441 | |
15.2 | IM | Kjartansson, Gudmundur | 2448 | - | IM | Greet, Andrew N | 2431 | |
15.3 | GM | Thorhallsson, Throstur | 2426 | - | FM | Tate, Alan | 2347 | |
15.4 | GM | Olafsson, Helgi | 2555 | - | IM | McKay, Roderick M | 2349 |
Tékkland - Ísland
Jóhanna Björg hvílir hjá stúlkunum. Meðalstig okkar eru 2002 skákstig á móti 2253 svo búast má við erfiðari viðureign.
Bo. | 27 | Czech Republic (CZE) | Rtg | - | 64 | Iceland (ISL) | Rtg | 0 : 0 |
22.1 | WIM | Havlikova, Kristyna | 2215 | - | WGM | Ptacnikova, Lenka | 2273 | |
22.2 | WIM | Olsarova, Karolina | 2237 | - | Thorsteinsdottir, Hallgerdur | 1982 | ||
22.3 | WGM | Sikorova, Olga | 2289 | - | Finnbogadottir, Tinna Kristin | 1915 | ||
22.4 | WIM | Olsarova, Tereza | 2271 | - | Kristinardottir, Elsa Maria | 1839 |
Bein útsending
Á morgun teflum við í Skota í opnum flokki og við Tékka í kvennaflokknum.Nánar um þær viðureignir á morgun.
- Heimasíða mótsins
- Beinar útsendingar
- Chess-Results (opinn flokkur)
- Chess-Results (kvennaflokkur)
- Myndaalbúm (Facebook)
10.8.2014 | 10:10
Stórmót TR og Árbæjarsafns fer fram í dag
Stórmót Taflfélags Reykjavíkur og Árbæjarsafns fer fram í tíunda sinn sunnudaginn 10. ágúst. Teflt verður í Árbæjarsafni og hefst taflið kl. 14. Tefldar verða sjö umferðir með umhugsunartímanum 7 mín. á skák. Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í Stórmótinu, 15.000 kr., 10.000 kr. og 5.000 kr.
Þátttökugjöld í Stórmótinu eru kr. 1.300 fyrir 18 ára og eldri, en ókeypis fyrir yngri en 18 ára, eldri borgara (67) og öryrkja. Þátttökugjöld eru jafnframt aðgangseyrir að safninu en þeir sem þegar hafa aðgang, t.d. með menningarkorti, þurfa ekki að borga þátttökugjald.
Frekari upplýsingar veitir Torfi Leósson, netfang: (torfi.leosson@gmail.com) eða í síma 697-3974. Mótið er jafnan upphafsviðburður skákársins, og við vonumst til að sjá sem flesta á þessu skemmtilega móti.
9.8.2014 | 23:57
Tveir góðir sigrar í dag - Íslendingar efstir Norðurlandanna - Tékkar unnu Rússa - Carlsen tapaði
Það gekk afar vel hjá íslensku liðunum í sjöundu umferð Ólympíuskákmótsins í dag. Í opnum flokki vannst sannfærandi 3½-½ á Pakistönum og eftir umferð dagsins eru Íslendingar efstir á "Norðurlandamótinu". Kvennaliðið vann sveit Mexíkóá 2½-1½ þrátt fyrir að vera á veikari á pappírnum. Stærstu tíðindi dagsins voru 3-1 sigur Tékka á Rússum og það að Magnus Carlsen (2877) tapaði fyrir þjóðverjanum Arkadij Naiditsch (2707).
Umferð dagsins
Sigurinn á Pakistönum var afar sannfærandi. Hannes Hlífar og Helgi unnu mjög góða sigra en Hjörvar Steinn þurfti að hafa meira fyrir hlutunum. Þröstur gerði jafntefli á mikilvægum punkti til að tryggja sigurinn í viðureigninni.
Sigurinn á Mexíkó var enn betri. Þar vann Elsa María mjög góðan sigur á fjórða borði sem og Lenka á fyrsta borði. Hallgerður Helga gerði jafntefli en Jóhanna Björg tapaði. Afar góður sigur.
Toppbaráttan
Tékkar unnu Rússa afar sannfærandi 3-1. Enn einu sinni virðast Rússar sitja eftir með öngulinn í rassinum á Ólympíuskákmóti.
Eftir umferð dagsins eru Íslendingar efstir Norðurlandanna í 28. sæti með 9 stig. A- og b-lið Noregs hafa einnig 9 stig.
Aserar, sem unnu Kúbumenn, eru efstir með 13 stig. Kínverjar, Tékkar, Búlgarar og Rúmenar hafa 12 stig. Rússar eru aðeins í 16. sæti.
Rússar sem unnu Kínverja eru efstir í kvennaflokki með fullt hús stiga. Kínverjar, Ungverjar og Pólverjar hafa 12 stig. Íslendinga eru í 55. sæti með 8 stig.
Morgundagurinn
Á morgun teflum við í Skota í opnum flokki og við Tékka í kvennaflokknum.Nánar um þær viðureignir á morgun.
- Heimasíða mótsins
- Beinar útsendingar
- Chess-Results (opinn flokkur)
- Chess-Results (kvennaflokkur)
- Myndaalbúm (Facebook)
9.8.2014 | 14:25
Dagur 9 - Wesley So mætir á Reykjavíkurskákmótið 2015!
Úrslitin gegn Færeyjum sem og viðureignin hefur vakið nokkra athygli. Jafntefli varð 2-2 sem eru eðil málsins samkvæmt ekki góð úrslit. Ótrúlegt atvik átti sér stað í skák Guðmundar og Olafs Berg.
Wesley So staðfesti í morgun að hann yrði meðal keppenda á Reykjavíkurskákmótinu 2015 en hann hefur nú 2755 skákstig!
Vildi ekki drottninguna
Hannes Hlífar Stefánsson vann glæsilegan og öruggan sigur á Helga Dam Ziska á fyrsta borði. Hjörvar Steinn Grétarsson og Helgi Ólafsson gerðu jafntefli á 2. og 4. borði með svörtu og því var allt undir í skák Guðmundar Kjartanssonar og Olafs Bergs á þriðja borði.
Færeyingurinn leikur hins vegar af sér drottningunni í 30. leik. Skildi hana einfaldlega eftir oní riddara Guðmundar. Guðmundi var hins vegar fyrirmunað að sjá það - afþakkaði drottninguna og þurfti að gefast upp 10 leikjum síðar.
Jón L. og Helgi Áss horfðu á þetta gerast og gjörsamlega göptu af undrun þegar Gummi ákvað frekar að skipta upp á hrókum, eftir um hálfrar mínútu umhugsun, frekar en að drepa drottningu Olafs. Ótrúleg skákblinda af beggja hálfu.
Svekkjandi að gera 2-2 jafntefli við Færeyinga. Þrátt fyrir að þeim hafi farið mikið fram eigum við að öllu jöfnu að vinna þá.
Stelpurnar töpuðu 3½ - ½ fyrir Ísrael sem er í samræmi við styrkleikamun sveitanna en þær ísraelsku voru miklum mun stigahærri. Elsa María Kristínardóttir gerði jafntefli en Lenka Ptácníková, Hallgerður Helga og Tinna Kristín töpuðu sínum skákum
Leiðindaatvik kom upp í þeirri viðureign en við urðum vitni af íþróttamannslegri hegðun af hálfu liðsstjóra Ísraelsmanna. Ingvar fjallar um það í pistli sínum. Liðsstjórinn sá er gamall kunningi frá frá EM taflfélaga 2001 en virtist vera glaðvakandi eftir tímahrakið en sama átti ekki við í byrjun umferðar.
Spennandi toppbarátta
Aserar og Kúbumenn eru efstir í opnum flokki með 11 stig. Tíu þjóðir hafa 10 stig. Þar á meðal eru Rússar, Kínverjar og Armenar.
Í kvennaflokki leiða svo Rússar og Kínverjar með fullt hús. Pólverjar eru í þriðja sæti með 11 stig.
Árangur Íslendinganna
Ísland er nú í 50. sæti en fyrirfram var liðinu raðað í 43. sæti. Séu skákstigin skoðuð kemur í ljós að Hannes, Þröstur og Hjörvar eru í stigagróða, Helgi á sléttu og Gummi í smá mínus.
Stelpurnar eru í 74. sæti en var fyrifram raðað í það 64. Þar gildir það sama. Þrjár eru í gróða (Tinna, Elsa og Hallgerður) en Lenka og Jóhanna eru í mínus.
Ég sé að menn eru að kvarta yfir frammistöðunni á Fésbókinni en samt er það þannig að liðin bæði eru í stigaplús. Eðlilega eru menn samt mjög svekktir með úrslitin í gær.
Norðmenn í stuði
Ólympíuskákmótið í Noregi vekur gríðarlega athygli. Beinar útsendingar eru alla daga í norska ríkissjónvarpinu og fjölmiðlalætin fara ekki framhjá neinum. Sterkustu skákmenn Norðmanna eru skyndilega orðnir vel þekktir einstaklingar í heimalandi sínu og margir þeirra vinna við norska fjölmiðla í kringum mótið.Miklar kröfur eru gerðar til Norðmanna og virðast þeir ætla að standa undir þeim. Í gær unnu þeir Ítali 3-1 sem verða að teljast afar góð úrslit. Heimsmeistarinn í skák, Magnus Carlsen, vann Ítalann unga Fabiano Caruna, sem margir telja munu verða helsta andstæðing Magnúsar á komandi misserum.
Magnus lætur ekki skákina duga sér því hann er duglegur að spila fótbolta á kvöldin - meðal annars við íslensku keppendurna.
Rymur í rússneska birninum
Það vakti athygli í aðdraganda mótsins þegar rússneska kvennaliðinu var meinuð þátttaka á mótinu. Það var gert vegna þess að skráning þess barst ekki í tæka tíð. Skýringin var að Rússarnir voru að bíða eftir því að ríkisfang Katharyna Lagno frá Úkraínu yfir til Rússlands gengi í gegn.Þegar það loks gekk í gegn hjá alþjóðlega sambandinu voru ríkisfangsskipti hennar undirrituð af sjálfum Vladimir Pútín!
Norðmenn gáfu eftir og leyfðu rússneska kvennaliðinu að taka þátt sem og öðrum þjóðum sem ekki skráðu sig í tíma. Rússarnir láta hins vegar ekki þar við sitja og hafa kært mótshaldarana fyrir norskum yfirvöldum og krefja þá um 1,2 milljónir norskra króna eða um 22 milljónir íslenskra króna! Þeir segja það eingöngu vera fyrir lögfræðikostnaði og áskilja sér rétt til að koma með frekari kröfur síðar.
Kæra þessi veldur eðlilega mikilli gremju og reiði meðal Norðmannanna.
Friðrik styður Kasparov
Í dag birtist yfirlýsing Friðriks Ólafssonar, fyrrverandi forseta FIDE, á heimasíðu Kasparovs. Friðrik lýstir þar stuðningi við Kasparov með þeim orðum að hann voni að skákheimur eigi eftir að upplifa Kasparov sem forseta FIDE. Kosningarnar fara fram 11. ágúst.
Yfirlsýsinginuna er hægt að finna hér.
9.8.2014 | 13:00
Hálfleikspistill liðsstjóra kvennaliðsins á ÓL 2014
Nú þegar Ólympíumótið er um það bil hálfnað og menn farnir að pressa á gamla að henda inn öðrum pistli er tilvalið að taka aðeins stöðuna og fara yfir gang mála. Í gær kláraðist 6. umferð og er árangurinn hingað til aðeins undir væntingum en þó auðvitað mikið eftir til að hreinsa það upp.
Karlaliðið var frekar óheppið á móti sterki sveit Serba þar sem leit út fyrir jafnvel stóran sigur á tímapunkti en þess í stað endaði viðureignin með tapi. Í kjölfarið hafa komið slakir matchar á móti Svíum og Færeyjum á milli þess sem góður skyldusigur vannst á blindum.
Kvennasveitin hefur verið að vinna lakari sveitirnar en tapa stórt á móti þeim sterkari. Undirritaður hefði viljað sjá meiri baráttu gegn þeim sterkari en gegn Ísrael í gær leit út fyrir það á kafla en hlutirnir duttu ekki fyrir okkur.
Ég ætla nú aðeins að "úða" eins og við köllum það stundum og fara svona yfir ýmsa hluti og atvik eins og ég man...
Allur skalinn!
Eins og komið hefur fram eru hér "allra þjóða kvikindi" á svæðinu. Virkilega gaman að sjá og spjalla við fólk frá löndum sem maður fær líklegast aldrei tækifæri á að heimsækja.
Hef ég t.a.m. spjallaði við liðsstjóra frá Guyana, Lesotho, Palau o.fl. auk þess að spila fótbolta við Sómali og mann frá Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum. Spjallaði auk þess lengi við fulltrúa Nígeríumanna á þinginu og spjölluðum við um kosningarnar (þeir kjósa Kasparov) auk þess sem ég lýsti yfir hrifningu minni á knattsprynuliði Nígeríu sérstaklega 1998. Hann lýsti því yfir að nú væri að koma upp sterk kynslóð knattspyrnumanna í Nígeríu og hlutirnir myndu verða flottir þar fljótlega.
FIDE Trainer námskeið
Umferðirnar frá síðastliðnum sunnudegi voru nokkuð strembnar. Þá þurftum við Jón L. Árnason að sitja svokallað FIDE Trainer námskeið en ekki er heimilt að vera liðsstjóri nema að hafa sótt slíkt námskeið. FIDE vill hafa þetta líkt og í fótboltanum að menn hafi réttindi til að þjálfa.
Þar sem enn er verið að innleiða þetta hafa þeir verið og munu á næstunni bjóða upp á þennan kost, þ.e. að menn geti sótt námskeið meðan á mótinu stendur. Um var að ræða á milli 3-4 klukkutíma hvern dag og meðan á umferð stóð. Af þeim orsökum var viðvera í þessum umferðum í lágmarki en þó kíktum við yfir í skáksalinn í hléum eins og kostur var og ef tími gafst til. Við gátum fylgst með skákum í beinni á netinu á námskeiðinu og því hlaupið yfir ef tilefni þótti til.
Að ofan má sjá inngang á skákstaðinn. Hér eru öryggisleitarhlið líkt og notuð eru á flugvöllum og fólk í fullu starfi hér að sjá til þess að enginn fari með síma inn á skákstað. Hvort sem það var brandari eða gríðarlegur einfeldningsháttur þökkum við samt Facebook skríbentum fyrir hláturskrampann sem við fengum þegar undirritaður var "skammaður" fyrir að vera á "feisbúkk í símanum" á skákstað.
En aftur að námskeiðinu. Fyrirlesari var Efstratios Grivas, grískur stórmeistari og hafði hann margt mjög merkilegt fram að færa að mínu mati og held ég að Jón L hafi verið sammála mér. Eða "Mr. Arrnasan" eins og Grivas kallaði hann :-)
Farið var um víðan völl í námsefninu og skáklega fékk ég gríðarlega margar hugmyndir að uppbyggingu á ýmsu kennsluefni og meiri skilning á mörgu. Grivas þessi heldur því fram að "talent" sé mjög ofmetið fyrirbæri og sé í raun ekki til. Það sé alltaf gríðarleg vinna sem liggi að baki. Uppruni orðsins sjálfs er í raun grískur og merkir í raun að eiga næga pening eða auð til að sækja sér þekkingu þannig að segja má að skilningur á orðinu hafi skolast til í tímanna rás.
Á námskeðinu situr fólk með ýmsan styrkleika og það kannski eina gagnrýnin á það sem slíkt. Af námskeiðnu er hægt að útskrifast með fimm mismunandi gráður þar sem FIDE Senior Trainer er hæsta gráðann. Næst á eftir kemur FIDE Trainer en við Íslendingarnir ásamt IM Jonathan Grant fengum þá gráðu á meðan aðrir sem sátu það fengu hinar sem eru t.d. FIDE Instructor og National Instructor.
Í lok námskeiðsins var svo próf þar sem spurt var úr námsefninu en einnig ýmsar sögulegar spurningar svosem hver er núverandi forseti FIDE og hversu margir forsetar hafa verið IGM's....það var nú hálfgerð svindlspurning fyrir okkur Íslendingana enda F.Olafsson frekar auðvelt svar og þurftum svo að bæta Euwe við.
Fyrir prófið hafði ég haft spurnir af því að hann spyr stundum um Heimsmeistarana og sem betur fer er ég nú með röðina á þeim á hreinu og hefði ekki átt í vandræðum með það. Hinsvegar náði ég að hjálpa kollega mínum frá Lesotho. Þannig vildi til að síðasta hléinu á námskeiðinu áður en prófaði byrjaði spurði ég hann hvort hann þekkti röðina á Heimsmeisturunum. Hann var ekki með það allt á hreinu þannig að ég sagði honum að Petrosian væri í uppáhaldi hjá Grivas (sko...maður náði eitthvað að fylgjast með!) og tilkynnti ég honum að hann væri níundi Heimsmeistarinn og hann skildi nú reyna að muna það.
Ég átti svo erfitt með að þurrka af mér skítaglottið þegar ég leit á 13. spurning prófsins sem var einmitt "Who was the 9th World Champion". Aðrar almennar spurningar voru t.d. hvaða frægu bók skrifaði Bronstein, hvað sagði Anand um innsæi (e. intuition) og hvaða klassísku hugmynd gaf Lasker skákheiminum.
Við fengum reyndar ekki að sjá svörin við öllu en ég vildi ná FIDE Trainer gráðunni og tókst það og því mjög sáttur.
Knattspyrna
Eins og kom fram í síðasta pistli hefur verið spilaður fótbolti hér nánast öll kvöld. Undirritaður hefur nokkurn veginn verið fastagestur ásamt Hjörvari Steini og Guðmundi Kjartanssyni. Þeir sem mæta oftast af útlendingunum eru Alexander Ipatov, nokkrir franskir með Maze í fararbroddi, Pólverjar, Kólumbíumenn og svo nokkrir Norsarar með Magnus Carlsen í fararbroddi.
Á myndinni að ofan má sjá stórmeistarann Denis (Kadrec held ég) frá Bosníu kljást við GM Sebastien Maze. Á miðri mynd er Hjörvar Steinn í United búning og svo Magnus í hvítum bol. Undirritaður er svo í einhverjum furðulegum aðgerðum í gulum skóm, líklegast að reima!
Það hefur verið gaman að fylgjast með Magnusi en hann sýnir ekki af sér mikinn hroka og hefur gaman af boltanum og er nokk sama um úrslit. Hann er greinilega í mjög góðu líkamlegu formi og ásamt öðru greinilega lykilinn að árangri hans.
Það hefur á köflum komið upp smá krakki í manni og t.a.m. hef ég aldrei einsett mér jafnmikið að vinna tæklingu/baráttu um boltann og þegar ég lenti í slíkri baráttu við Magnus upp við battann í einum leiknum. Boltinn vannst og söng skömmu síðar í netinu. Litli "fanboy-inn" inn í mér rifnaði svo úr stolti þegar við Magnus vorum saman í liði daginn eftir og Magnus hrópaði tvisvar á nafn hins vörpulega Ingvars til að fá sendingu.
Veðrið hér hefur verið almennt gott fyrir utan mikla rigninu í tvö skipti. Menn létu sig þó hafa það og þrátt fyrir rigningu og þrumur og eldingar var spilað! Undirritaður var ræstur í boltann snemma á frídeginum þegar ég var að versla mér Burger King (fyrsti og eini skyndibiti ferðarinnar!) og hélt ég á fóboltavöllinn þegar þvílíka rigningin byrjaði. Enginn virtist ætla að mæta og þegar ég hafði lokið "máltíðinni" í einhverskonar skjóli fyrir rigningunni þá tæmdi ég pokann og sat eftir með risastóran bréfapoka frá BK sem ég byrjaði að hlaupa niður brekkuna með og notaði sem regnhlíf. Mætti ég þá Hjörvar og Gumma sem löbbuðu á móti mér ásamt Magnusi Carlsen í mestu makindum og hlógu að þessari "improvised" regnhlíf undirritaðs. Úr varð svo um 2ja tíma bolti í hellirigningu og pollum en skemmtilegur var hann!
Bermuda Partý
Hefð hefur skapast fyrir því að kvöldið fyrir fyrri frídag Ólympíumótsins haldi lið Bermuda hið svokallaða Bermudapartý þar sem öllum keppendum er boðið að stinga saman nefjum og kynnast.
Flestir okkar Íslendinganna kíktum við og áttum skemmtilega kvöldstund. Partýið var á allavega þrem ef ekki fjórum hæðum í nokkuð stóru húsnæði með DJ, dansgólfi og tilheyrandi. Mætingin var hreint gríðarlega góð hjá keppendum og allir spakir.
Undirritaður ásamt Larry frá Bermuda og Fionu sem er orðinn góður Íslandsvinur.
Helv#$& verðlagið
Í fyrradag var ákveðið hjá kvennaliðinu (ásamt Hjörvari) að brjóta aðeins upp kvöldmatinn á hótelinu og kíkt út að borða á pizzastað. Það var í stuttu máli dýrt þó maturinn hafi verið fínn. Guði sé lof að eingöngu var um að ræða pizzur! Ef farið hefði verið á almennilegan stað hefði þurft að greiða með einhversskonar raðgreiðslum!
Eins og margt er skemmtileg hér er verðlagið algjörlega út í hött og örugglega að gera út um budduna hjá mörgum!
Í stuttu máli er miðstærð af pizzu norðanmegin við 4.000 kall og mun sunnar við 5.000 kallinn. Kók með mat 1.000. Bjórinn er líka rándýr hér hef ég heyrt!!
Klósettin
Nakamura tweetaði um daginn að klósett-aðstaðan á skákstað væri óviðunandi og "absolutely disgusting". Hann hafði að einhverju leiti eitthvað til síns mál því þó að um góð ferðaklósett sé að ræða eru þetta samt ferðaklósett og það er ekkert rosalega spennandi að sjá botnfylli af saur úr 3-4 heimsálfum undir manni.
Norðmennirnir mega þó eiga það að flest hefur verið í mjög góðu standi hér og menn almennt ánægðir með mótshaldið. Varðandi klósettinn bættu þeir í fólkið sem er að þrífa þau og nú er mikið um að þau séu skoluð og hreinsuð og í gær var komin mjög góð lykt inn á þau öll og einhverskonar ilmsölt eða hvað það nú heitir komið fyrir þannig að lyktin inni á þeim er mjög góð.
Árangurinn
Hingað til má eins og áður sagði segja að staðan hjá liðunum sé eilítið undir væntingum. Ef einstaklingsárangur er skoðaður sést að flestir eru að tefla í kringum stigin sín og flestir í raun að hækka. Hjá karlalðinu eru flestir í smá plús en Gummi í smá mínus sökum klaufaskaps í gær. Hefði sú skák dottið væri árangurinn í raun bara nokkuð góður. Það skilur lítið á milli.
Hjá kvennaliðinu er það sama sagan, þrjár eru í plús en tvær í mínus. Lenka mun klára vel og verið óheppin ef eitthvað er. Eina sem ég hef verið óánægður með voru 2-3 skákir sem töpuðust of auðveldlega vegna einbeitingaskorts og fljótfærni. Að öðru leiti hafa stelpurnar staðið sig vel og á köflum verið að gera mjög fína hluti.
Kosningabaráttan
Það styttist í kosningarnar sem verða vægast sagt fróðlegar. Verður loksins hægt að losna við spillingarvélina hans Kirsan?
Bæði Kasparov og Kirsan hafa gefið keppendum veglegar gjafir. Allir keppendur eiga bol frá báðum og geta því sýnt stuðning og hefur undirritaður um 80%+ séð fólk í Kasparov bolum. Kasparov er klárlega vilji meirahluta fólks en því miður snýst þetta ekki um það.
Bæði Kirsan og Kasparov gefa daglega út "bulletin" en reyndar byrjaði lið Kasparov á því og Kirsan hermdi fljótlega eftir því. Kosningabarátta Kirsan snýst að mestu um að skíta menn Kasparov út en minna um málefni. Held að flestir séu að fara að skipta yfir í að kjósa Kirstan útaf meintum skandölum varðandi fulltrúa í Afghanistan!
Friðrik Ólafsson skrifaði nýverið stuðningsbréf sem birt var á heimasíðu framboðs Kasparovs. Vonandi hefur skoðun þess mikla heiðursmanns einhver áhrif.
Því miður er raunin þó sú að eins og ég sagði áðan snýst þetta ekki um það sem fólkið vill. Það eru fulltrúarnir sem ráða og í gangi eru allskonar beinar og óbeinar mútur. T.d. var einn úr liði Kirsan sem boraði ógreidd mótsgjöld fyrir einhver Afríkuliðin með beinhörðum peningum (cash money!). Liðin skulda ekki peninga til baka....en augljóslega er gert ráð fyrir að þau séu skuldbundin á einhvern hátt til baka.
Einhver sagði um lið Kirsan eftir að annar hafði sagt..:"they know all the tricks in the book".....þá var svarað "no.....they wrote the book!"
Atvik í viðureign við Ísrael
Í gær átti sér stak örlítið leiðindaatvik í viðureigninni við Ísrael. Liðsstjóri Ísrael...sem lítur einhverveginn svona út:
....virtist hafa áhyggur af öryggi sigurs í viðureigninni í stöðunni 2-0 fyrir Ísrael. Lenka var að hrifsa til sín frumkvæðið meðan skák Elsu var reyndar lok lok og læs eins og menn segja. Allavega, Lenka var nýbúin að hafna jafntefli þegar hann gengur að borðinu og segir á ensku við sinn liðsmann að hún megi bjóða jafntefli. Þetta var sagt það hátt að það er truflandi og auk þess á tíma andstæðingsins. Í þriðja lagi var þetta gert án þess að kalla til skákdómara sem eru reglurnar.
Eftir þetta fór hann svo á fjórða borð þar sem Elsa sat að tafli og fór að spjalla á hebresku við hana sem endaði með því að hún bauð jafntefli þó líklegast gegn betri vilja. Aftur hefði hann átt að tala á ensku og líka kalla til skákstjóra.
Liðsstjóri þessi hefur áður valdið Íslendingum hugarangri en það var á EM Taflfélaga 2001. Það er því ljóst að hann vissi alveg hvað hann varð að gera og beitti þarna sálfræðihernaði til að gulltryggja sigurinn þó þessi hafi varla verið þörf.
Hann passaði svo að sjálfsögðu að nýta sér að skákdómarinn var óreynd stúlka frá Kenýa og hann passaði auk þessi að leika þennan leik ekki fyrr en ég brá mér frá að fá mér að borða.
Við höfum ritað smá kvörtun til yfirskákstjóra þar sem við tökum fram að þetta sé ekki í anda leiksins en förum að sjáflsögðu ekki fram á neinar refsingar eða neitt slíkt en þó er rétt að benda á svona framkomu!
Sviðssetning
Fyrir flestum er væntanlega augljóst að við Gunnar brugðum á leik hér þegar liðsstjóri Ísrael svaf á vaktinni (að safna kröftum fyrir voðaverk síðar?) og við þóttumst vera að gera slíkt hið sama....."Vakið yfir liðunum" ....hinsvegar hefur sýnt sig að örfáir virðast annaðhvort ekki hafa tekist að þróa með sér húmor eða hafa furðulegar hvatir að baki ýmsum fáranlegum fullyrðingum.
Respect
Lítið atvik en mikið hægt að lesa úr því. Kasparov var gangandi um skáksalinn en eins og menn vita þá nýtur hann mikillar virðingar og yfirleitt menn sem beygja sig fyrir honum. Mér fannst það bera vott um mikla virðingu þegar Kasparov gekk að "Mr. Arnasan" með útréttan spaðann og tók þéttingsfast í hönd Jóns L. sem hafði ekki séð Kasparov koma fyrr en útréttur spaðinn var kominn í átt að honum.
Segi þetta gott að þessu sinni. Í dag er það Mexíkó í kvennaflokki og Pakistan í karlaflokki. Pakistan komið á óvart með þrjá stigalausa og annað borðið þeirra er með 4 af 6 og taplaus. Við erum vongóð um tvöfaldan sigur í dag.
mbk,
Ingvar Þór Jóhannesson
Liðsstjóri kvennaliðs Íslands og nýbakaður FIDE Trainer
p.s. allar skoðanir og skot í pistlinum eru mínar. Þeim sem líkar það ekki er sem fyrr bent á að troða sokk í holu eða gat að eigin vali.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.8.2014 | 12:46
Viðureignir dagsins: Pakistan og Mexíkó
Íslenska liðið í opnum flokki mætir sveit Pakistan í dag. Guðmundur Kjartansson hvílir í dag. Stelpurnar tefla við lið Mexíkó og eru eilítið stigalægri
Ísland-Pakistan
Bo. | 159 | Pakistan (PAK) | Rtg | - | 43 | Iceland (ISL) | Rtg | 0 : 0 |
25.1 | IM | Lodhi, Mahmood | 2335 | - | GM | Stefansson, Hannes | 2536 | |
25.2 | Syed, Ahmad Ali | 0 | - | GM | Gretarsson, Hjorvar Steinn | 2543 | ||
25.3 | Younus, Muhammad | 0 | - | GM | Thorhallsson, Throstur | 2426 | ||
25.4 | Iqbal, Mudasir | 0 | - | GM | Olafsson, Helgi | 2555 |
Ísland-Mexíkó
Bein útsendingBo. | 64 | Iceland (ISL) | Rtg | - | 53 | Mexico (MEX) | Rtg | 0 : 0 |
31.1 | WGM | Ptacnikova, Lenka | 2273 | - | WIM | Garcia Morales, Ivette | 2113 | |
31.2 | Thorsteinsdottir, Hallgerdur | 1982 | - | WIM | Guerrero Rodriguez, Alejandra | 2089 | ||
31.3 | Johannsdottir, Johanna Bjorg | 1862 | - | WIM | Real Pereyra, Diana Carime | 2061 | ||
31.4 | Kristinardottir, Elsa Maria | 1839 | - | WCM | Duran Juarez, Citlali | 1982 |
- Heimasíða mótsins
- Beinar útsendingar
- Chess-Results (opinn flokkur)
- Chess-Results (kvennaflokkur)
- Myndaalbúm (Facebook)
8.8.2014 | 17:53
Jafntefli gegn Færeyjum - tap gegn Ísrael
Íslenska liðið í opnum flokki gerði 2-2 jafntefli gegn Færeyingum í sjöttu umferð Ólympíuskákmótsins. Kvennaliðið tapaði hins vegar ½-3½ gegn Ísrael.
Hannes Hlífar Stefánsson vann glæsilegan og öruggan sigur á Helga Dam Ziska á fyrsta borði. Hjörvar Steinn Grétarsson og Helgi Ólafsson gerðu jafntefli á 2. og 4. borði með svörtu og því var allt undir í skák Guðmundar Kjartanssonar og Olafs Bergs á þriðja borði. Þar var Guðmundur í vörn.
Færeyingurinn leikur hins vegar af sér drottningunni í 30. leik. Skyldi hana einfaldlega eftir oní riddara Guðmundar. Guðmundi var hins vegar fyrirmunað að sjá það - afþakkaði drottninguna og þurfti að gefast upp 10 leikjum síðar.
Elsa María gerði jafntefli en aðrar skákir töpuðust.
Spil og leikir | Breytt 9.8.2014 kl. 06:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2014 | 13:40
Dagur 8 - Aftur til hversdagsleikans
Þá er lífið í Tromsö komið aftur í sinn vanagang" eftir frídaginn. Í dag mætum við Færeyingum og Ísraelmönnum. Gegn þeim fyrrnefndum erum við umtalsvert stigahærri en það snýst við gagnvart Ísraelsmönnum og rúmlega það.
Umferð dagsins
Færeyingar eru sýnd veiði en ekki gefin. Þeim hefur farið mikið fram síðustu ár og hafa nú meðal skákstigin 2378 á móti 2521 skákstigi okkar. Á fyrsta borði teflir alþjóðlegi meistarinn Helgi Dam Ziska sem hefur bersýnilega styrkleika stórmeistara.
Vert er að benda einnig sérstaklega á Högna Nielsen, sem er aðeins, 17 ára og teflir á fjórða borði. Hann er skákmeistari Færeyinga en hann vann mótið með fullu húsi fyrir skemmstu. Hann er bæði sá yngsti sem hefur orðið skákmeistari Færeyja auk þess að vera sá eini sem hefur unnið mótið með fullu húsi!
Að tefla við Færeyinga er svolítið no win situation". Það er ekkert gaman að vinna Færeyinga annað en t.d. Svía eða Dani.
Við höfum einu sinni mætt þeim áður. Það var í lokaumferðinni Ólympíuskákmótsins í Mallorca árið 2004. Þá unnum við 3-1. Hannes Hlífar og Þröstur unnu en Helgi og Stefán Kristjánsson gerðu jafntefli.
Stelpurnar tefla við visst ofurefli", þ.e. sveit Ísraels. Á meðan meðalstig stelpnanna eru 2008 eru meðalstig Ísraelsmanna 2256.
Við höfum teflt við þá tvívegis, 2004 og 2012. Við fengum hálfan vinning í hvort skipti. Það var Lenka sem gerði jafntefli í bæði skiptin. Viðureignin í dag getur orðið erfið.
Liðstjórarnir.
Í keppnum eins og Ólympíuskákmótunum er mjög mikilvægt að hafa liðsstjóra sem vaka yfir liðum sínum. Sumir fæa liðinu sínu kaffi á maðan aðrir safna kröftum.
Toppbaráttan
Sjö lið eru efst og jöfn með 9 stig. Það eru Aserar, Serbar, Kasakar, Búlgarar, Kúbverjar, Úsbekar og Georgíumenn.
Rússar, Frakkar og Armenar eru meðal þeirra sem hafa 8 stig.
Kínverjar, Ungverjar og Rússar eru efst í kvennaflokki með fullt hús stiga.
Norðurlandamótið
B-lið Noregs er efst í Norðurlandakeppninni með 8 stig! Norðmenn hafa 7 stig en við erum þriðju með 6 stig.
Í kvennaflokki eru Svíar efstir með 7 stig. Norðmenn hafa 6 stig ásamt okkur.
FIDE-þing
Það styttist í FIDE-kosningarnar en þær fara fram á mánudaginn. Í gær bauð Kasparov okkur stuðningsmönnum sínum úr Evrópu í bátsferð um fjörðinn þar sem boðið var uppá úrvalsveitingar eins og sels- og hvalskjöt og ferskan fisk beint uppúr sjónum!
Kasparov og hans menn skoðuðu sérstaklega hverjir mættu og ekki síst hverjir mættu ekki en t.d. vantaði fulltrúa Andorra. Atkvæði sem menn telja nú ekki mögulega á að ná í.
Kirsan Ilyumzhinov, forseti FIDE, lét sjá sig á skákstað í dag og horfði vel og lengi á nýjasta liðsmann rússneska kvenna, Katharyna Lagno!
Þegar þetta er ritað birtast hér VIP-herberginu Kirsan og Andrey Filatov, forseti rússneska skáksambandsins og með þeim fylgir fjöldinn allur af fylgifiskum. Hér eru mennirnir sem stjórna alheimshreyfingu skákhreyfingarinnar. Að sumra í mati í umboði Vladimírs Pútíns.
Læt þetta duga í bili.
Gunnar Björnsson
8.8.2014 | 08:06
Viðureignir dagsins: Færeyjar og Ísrael
Íslenska liðið í opnum flokki mætir sveit Færeyja í dag. Þröstur Þórhallson hvílir í dag.
Ísland-Færeyjar
Bo. | 43 | Iceland (ISL) | Rtg | - | 73 | Faroe Isles (FAI) | Rtg | 0 : 0 |
24.1 | GM | Stefansson, Hannes | 2536 | - | IM | Ziska, Helgi Dam | 2507 | |
24.2 | GM | Gretarsson, Hjorvar Steinn | 2543 | - | IM | Rodgaard, John | 2361 | |
24.3 | IM | Kjartansson, Gudmundur | 2448 | - | FM | Berg, Olaf | 2320 | |
24.4 | GM | Olafsson, Helgi | 2555 | - | Nielsen, Hogni Egilstoft | 2256 |
Íslendingar eru stigahærri á öllum borðum.
Stelpurnar mæta Ísrael í dag og þar snýst það við því þær ísraelsku eru stigahærri á öllum borðum. Jóhanna Björg Jóhannsdóttir hvílir í dag.
Bo. | 64 | Iceland (ISL) | Rtg | - | 26 | Israel (ISR) | Rtg | 0 : 0 |
18.1 | WGM | Ptacnikova, Lenka | 2273 | - | WIM | Shvayger, Yuliya | 2275 | |
18.2 | Thorsteinsdottir, Hallgerdur | 1982 | - | WIM | Vasiliev, Olga | 2276 | ||
18.3 | Finnbogadottir, Tinna Kristin | 1915 | - | IM | Borsuk, Angela | 2198 | ||
18.4 | Kristinardottir, Elsa Maria | 1839 | - | WIM | David Glaz, Ilana | 2200 |
Umferðin hefst kl. 12 í dag.
- Heimasíða mótsins
- Beinar útsendingar
- Chess-Results (opinn flokkur)
- Chess-Results (kvennaflokkur)
- Myndaalbúm (Facebook)
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 08:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjustu færslur
- Ný vefsíða Skák.is!
- Loftur fær Héðin í fyrstu umferð
- Tveir fyrrum heimsmeistarar bættust við á keppendalistann á l...
- Ný alþjóðleg skákstig
- Carlsen vann Aronian - með vinningsforskot og aftur yfir 2850
- Skákklúbburinn Æsir - vertíðarlok
- Fundargerð aðalfundar SÍ
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open hefst á föstudaginn
- Carlsen vann Caruana í fyrstu umferð Altibox Norway Chess
- Þrír efstir og jafnir eftir fyrsta minningarmót Vinaskákfélag...
Tenglar
Mót í gangi
Mót sem eru í gangi hverju sinni
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open Valsheimilið, 1.-9. júní
- Altibox Norway Chess 27. maí - 8. júní: Carlsen og flestir sterkustu skákmenn heims
Lykilvefir
- Skáksamband Íslands Heimasíða SÍ
- Mótaáætlun SÍ
- Vefsvæði Friðriks Ólafssonar Vefsíða tileinkuð Friðriki Ólafssyni
- Skákskóli Íslands
- Skáksögufélagið
- F3-klúbburinn Vildarvinir skákíþróttarinnar á Íslandi
- Tímaritið Skák
- Fischersetur Selfoss
- Skákbækur til sölu
- Bobbý skáksverslun
- Skákhornið Spjallþráður skákmanna
- Skáklandið Stefán Bergsson bloggar
- Skákmyndir
Kennsluvefir
Íslensk taflfélög
Ef þú vilt tefla á netinu!
- Vinaskákfélagið
- Skákfélagið Hrókurinn
- Skákfélagið Huginn
- Taflfélag Reykjavíkur
- Víkingaklúbburinn
- Skákfélag Akureyrar
- Taflfélag Garðabæjar
- Taflfélag Vestmannaeyja
- Æsir
- Skáksamband Austurlands
- Skákdeild Fjölnis
- Skákfélag Sauðárkróks
- Taflfélag Bolungarvíkur
- Skákfélag Selfoss og nágrennis
- Skákdeild Breiðablik
- Skákdeild KR
- Skákdeild Breiðabliks
- Gallerý Skák
- Riddarinn
- Félag íslenskra bréfskákmanna
Erlendir skákvefir
- FIDE Alþjóðlega skáksambandið
- ECU
- The Week in Chess
- ChessBase
- Chess Vibes
- Chessdom
- Your Chess News Umsjón Jóhann H. Ragnarsson
- Bergens Schakklub Besta norræna skákfréttasíðan
- Færeyska skáksambandið
- Bloggsíða Susan Polgar
- ChessCafe Pistlar og greinar
Almanök
Teflt á netinu
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (31.7.): 2
- Sl. sólarhring: 22
- Sl. viku: 173
- Frá upphafi: 8779179
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 103
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar