Færsluflokkur: Spil og leikir
10.9.2016 | 09:23
ÓL: Slóvakía og Marokkó í dag - USA og Rússland mætast
Nú þegar styttist í að skákklukkur verði ræstar í 8.umferð Ólympíuskákmótsins í Bakú má greina mikla spennu í skákheimum. Í opnum flokki mætir Ísland liði Slóvakíu á meðan kvennalið Íslands glímir við Marokkó. Þó svo hinn almenni skákáhugamaður verði að öllum líkindum á sætisbrúninni á eftir þá eru það þó ekki okkar tvær viðureignir sem skapa slíka ólgu í hugarfylgsnum skákmanna, nema hugsanlega einhverra heima á Íslandi. Það eru aðrar tvær viðureignir sem allra augu munu beinast að á eftir. Á efsta borði í opnum flokki mætast nefnilega Bandaríkin og Rússland. Það merkilega er að á sama tíma berjast sömu þjóðir á efsta borði í kvennaflokki.
Ísland mætir Slóvakíu í dag í opnum flokki og hinn sjóðheiti Hjörvar Steinn Grétarsson hvílir að þessu sinni. Þessi viðureign er afar jöfn sé litið til skákstiga en dagsskipunin er einföld; tvö stig skulu bætast í sarpinn.
Í kvennaflokki mætir Ísland liði Marokkó og Hrund Hauksdóttir hvílir. Ísland er stigahærra á öllum borðum og ætlar sér ekkert annað en sigur.
Flestra augu munu án efa beinast að viðureignum Bandaríkjanna og Rússlands, en þjóðirnar mætast í báðum flokkum.
10.9.2016 | 07:00
Íslandsmót öldunga 65+ fer fram í dag
Íslandsmót öldunga 65 ára og eldri verður haldið laugardaginn 10. september nk. í Ásgarði, félagsheimili FEB að Stangarhyl. Að þessu sinni standa báðir skákklúbbar eldri borgara á Höfuðborgarsvæðinu, RIDDARINN og ÆSIR, sameiginlega að mótinu, sem áður hefur farið fram á vegum hins fyrrnefnda í Hafnarfirði.
Þetta er í þriðja sinn sem slíkt Íslandsmót með atskákarsniði fer fram í þessum aldursflokki.
Tefldar verða 9 umferðir með 10 mínútna umhugsunartíma auk 3 sekúndna viðbótartíma á leik. Fjórar umferðir verða tefldar fyrir hádegi en lokaumferðirnar fimm eftir hádegisverðarhlé.
Mótið hefst kl. 10 árdegis og lýkur um kl. 16.30 með verðlaunaafhendingu.
Þátttökugjald er kr. 1000 og innifelur kaffi, svaladrykki og snarl meðan á móti stendur. Björgvin Víglundsson er núverandi Íslandsmeistari og hefur unnið mótið í bæði skiptin sem það hefur verið haldið.
Aðalverðlaun mótsins er kr. 50.000 ferðastyrkur á Norðurlandamótið í skák í Sastamala, Finnlandi, 22. -30. október nk. Auk verðlaunagripa sem gefnir eru af Sportvöruverzluninni JÓA ÚTHERJA, verða veitt vegleg bókaverðlaun og aldursflokkaviðurkenningar (65-70; 71-75; 76-80; 81 og eldri). Vænst er góðrar þátttöku sem víðast hvar að af landinu.
Mótsnefndina skipa fulltrúar "Öðlinganefndar SÍ" þeir: Einar S. Einarsson, formaður; Finnur Kr. Finnsson; Guðfinnur R. Kjartansson; Sigurður E. Kristjánsson og Össur Kristinsson.
Skráning fer fram á Skák.is (guli kassinn efst). Upplýsingar um þegar skráða keppendur má finna hér.
Spil og leikir | Breytt 29.8.2016 kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2016 | 05:41
Davíð efstur á Meistaramóti Hugins
Að lokinni 4. umferð á Meistaramóti Hugins er Davíðs Kjartansson einn efstur með 4v. Jafnir í 2. 6. sæti koma Sævar Bjarnason, Björgvin Víglundsson, Jón Trausti Harðarson, Mikael Jóhann Karlsson og Dawid Kolka með 3v. Í uppgjöri efstu manna í 4. umferð vann Davíð Sævar. Á öðru borði gerðu Björgvin Víglundsson og Vigfús Ó. Vigfússon jafntefli í lengstu skák umferðarinnar, sem reynar var í styttra lagi miðað við þær umferðir sem voru á undan. Á þriðja borði tefldu Aron Þór Mai og Mikael Jóhann Karlsson hörku skák sem lauk sigri Mikaels. Á fjórða borði áttu svo við Dawid Kolka og Heimir Pál Ragnarsson í annarri af tveimur viðureignum ungu strákanna í Huginn í kvöld. Þeirri viðureign lyktaði með sigri Dawid, sem er efstur Huginsmanna að loknum fjórum umferðum og fær gott vegarnesti í á Norðurlandamót grunnskólasveita, sem fram fer um helgina. Þar teflir Dawid á fyrsta borði fyrir Álfhólsskóla.
Þótt 4. umferðin væri sú styssta til þess virtist það samt ekki koma niður á taflmennsku keppenda, sem leit út fyrir að vera heildstæðari en í fyrri umferðum. Það verður að teljast eðlileg og jákvæð þróun á fyrsta kappskákmóti á haustmisseri að menn séu mistækir í upphafi og bæti sig svo þegar líður á mótið. Það kemur samt betur í ljós þegar búið verður að slá inn umferðir 3 og 4 en stefnt er að birta þær skákir með úrslitum 5. umferðar.
Næst umferð sú 5. fer fram á mánudaskvöldið 12. september og hefst kl. 19.30. Staðan í Chess-results.
9.9.2016 | 22:07
Ólympíumót: 7. umferð í opnum flokki
Því miður er undirritaður ekki alveg í sama ritstuði og í gær og því hætt við að pistillinn að þessu sinni verði heldur styttri. Það er líka þannig að það er aðeins erfiðara að tjá sig eftir svona lýjandi viðureign heldur en þegar úrslitin eru góð.
Við semsagt láum í valnum gegn Grikkjum 1-3 sem hafa reynst okkur erfiðir á síðustu árum. Ég bullaði reyndar í gær þegar ég sagði þá nr. 18 í stigaröðinni þar sem hið rétta er að þeir eru nr. 27 í röðinni. Engu að síður eru þeir gríðarlega þéttir og hafa verið í miklu stuði hér í Baku. Þeir hafa aðeins tapað einni skák allt mótið og gefa ekki mikil færi á sér.
Við vorum komnir niður af sviðinu að þessu sinni en ekki langt. Aðeins einu þrepi frá sviðinu og þangað vildum við aftur en verður erfitt eftir úrslit dagsins. Í stuttu máli sagt hitti enginn á góðan dag og eiginlega mætti segja að við hefðum aldrei átt möguleika í þessari viðureign. Við vorum eins og pútt með halla á flötinni sem fer undir brotið og á aldrei möguleika á að fara ofaní.
Kíkjum á gang mála í skákunum:
1. borð Hannes hvítt á Papaioannou
Hannes ákvað að tefla sama afbrigði og Jóhann í umferðinni á undan, Be2 afbrigðið í Najdorf með Dd3. Jóhann var að skoða þetta með Hannesi fyrir umferð og því var ég bjartsýnn þegar ég sá Dd3 á borðinu.
Hér er víst best að leika 15.Bg5 skv. Jóhanni og tölvurnar eru því sammála. Þess í stað virtist Hannes aðeins verða planlaus. Þó ekkert hefði verið enn að stöðunni fannst mér öll þægindi og frumkvæði færast yfir á svartan eftir að mislitu biskuparnir voru komnir á borðið. Fór svo að Ioannis fórnaði peði á þematískan hátt og tók algjörlega valdið á svörtu reitunum á borðinu og skildi hvítareitabiskupinn eftir grjótpassífan. Hannes hafði vissulega valdað frípeð en það var langt í það gæti farið að skipta máli.
Staðan eftir peðsfórnina, svartur stjórnar í raun borðinu peði undir.
Manni fannst Hannes þó aldrei veri i taphættu en það var ljóst að allir erfiðleikarnir voru hans megin og hann þurfti mikið að glíma við erfiðar skammtímahótanir og þegar svoleiðis stress hleðst upp leik eftir leik er hætta á að varnarleikurinn fari eitthvað að gefa sig. Hannes virtist þó heppinn þegar hann slapp úr óverjandi drottningartapi/máti í 40. leik. Það dugði þó ekki til og Grikkinn tefldi skínandi vel og hálfgerða módelskák í að sýna mismun á frumkvæði þegar annar aðilinn ræður algjörlega yfir einum "lita-complex" á borðinu.
Hannes reyndi að loka að fórna biskupi sínum fyrir þráskák en þegar ljóst var að svarti kóngurinn var að komast í skjól á b6 lagði Hannes niður vopn.
2. borð: Hjörvar svart á Hristos Banikas
Hjörvar tefldi byrjunina sýndist mér af nokkru öryggi og virtist ekki glíma við mikil vandmál.
Hér er Hjörvar með nálægt jöfnu tafli en mér reyndari menn vilja meina að hér hefði t.d. 16...Dc8 verið málið. Þess í stað var 16...Ne4 mögulega of mikil "kraftataflmennska". Eftir mögulega einhverja vafasama leiki til viðbótar var hvítur kominn með alla sénsa í stöðunni og Hjörvar í vandræðum. Hann varðist þó af þrótti en vildi meina að hann hefði verið með tapað tafl á einhverjum tímapunkti, honum allavega leið þannig. Hann vitnaði í 27. leik hvíts Db2 en þá hefði Hd4 mögulega bara unnið peðið á e4 fyri hvítan.
Hér hefði Hd4 verið erfiður
Hjörvar hélt vel velli í þessari skák og hélt jafntefli eftir erfiða vörn. Þetta var önnur skák dagsins að klárast.
3. borð Guðmundur hvítt á A.Mastrovasilis
Á borðið kom hefðbundið drottningarbragð en sá gríski valdi sjaldgæft afbrigði, lék ...Bd6 snemma og svo kom b6 með uppskiptum á a6 og riddarinn settur á ...c7. Allt hið furðulegasta, ég allavega hef ekki séð þetta áður. Manni fannst að hvítur hlyti að vera með eitthvað smá í stöðunni en mér fannst eins og Gummi hlyti að hafa misst þráðinn þarna snemma án þess að ég skilji fyllilega hvar. Kannski var Da4 og svo e4 í kjölfarið ekki tímasett rétt.
Svartur fékk fullkomna blokkeringu gegn stöku peði hvíts og þegar búinn að skipta upp á tveimur léttum mönnum sem er yfirleitt góð þumalputtaregla gegn staka peðinu. Svarta staðan reyndist mun auðteflanlegri og hann í raun bætti stöðu sína smátt og smátt. Sem betur fer missti Mastroinn af leið til að vinna skiptamun í 27. leik og Gummi greip tækifærið og náði að einfalda skákina niður í algjörlega öruggt jafntefli. Þetta var fyrsta skákin að klárast í viðureigninni.
4. borð: Bragi svart gegn Halkias
Bragi fékk Íslandsvininn Stelios Halkias á 4. borði. Gaman er að segja frá því að þessir tveir mættust fyrsta árið 1992 á barnaskákmóti! Þá skildu þeir jafnir. Bragi notaði þá skák þó ekki í undirbúningi dagsins en engu a síður var mikið að undirbúa ar sem Stelios hefur verið í Rf3/d4/c4 og meira að segja aðeins kominn í e4 líka.
Bragi var því heppinn að fá hluta af undirbúningi upp í afbrigði í enskri vörn. Þar hafði hann undirbúið þekkta peðsfórn með ...d6 leiknum en Stelios "smelled a rat" og ákvað að fara ekki í krítískustu leiðina í því afbrigði og tefldi rólega. Raunar tefldi hann eiginlega of rólega og Bragi jafnaði taflið meira og minna.
Líklegast hefði Bragi getað gert sér mun auðveldara fyrir með því að skipta upp á öllum hrókum og verja drottningarendataflið. Engu að síður varðist hann vel og í raun er erfitt að benda á klár mistök í vörninni hjá Braga. Mögulega hefði verið hægt að stilla peðunum á kóngsvæng öðruvísi upp fyrr en líklegast er líka ...Hc1 í stað ...Hc5 auðveldara jafntefli þar sem svarti kóngurinn verður ekki jafn passífur og í skákinni.
Hér lék Steilos Hf3! sem er eini vinningsleikurinn í stöðunni skv endataflsgrunnum.
Það skal ekki tekið af Stelios að hann tefldi lokin mjög vel og fann nánast einu leiðirnar til að skapa leiðindi og svo til að stýra vinningnum í höfn. Svekkjandi tap hjá Braga og síðasta skák dagsins og 1-3 tap niðurstaðan.
Heilt yfir því mjög sanngjarnt tap eftir dapran dag hjá okkar mönnum. Nóg er þó eftir og endaspretturinn alltaf mikilvægur.
********************************
Kíkjum á nokkra mola úr mótinu:
- Eugino Torre reynsluboltinn frá Filipseyjum sem er að tefla á sínu 23. Ólympíumóti og hefur jafnframt set met yfir flestar skákir tefldar á mótinu. Gamli kallinn er algjörlega "on fire" með 6/7 vinninga á mótinu. Spurning hvort hann gisti í Flame Towers?!
- Íran er með ungt og spennandi lið. Þeir voru á 9. borði, því sem við tefldum á í gær, og unnu þar stóran sigur á Mongólíu. Ivan Sokolov þjálfar þá en í liðinu eru mjög ungir strákar og meðal annars hið ofvaxna undrabarn Parham Maghsoodloo. Hann er taplaus í mótinu. Þarna er á ferðinni mikið efni og heimsmeistari U-16 og í ÓL U16 sigurliði Írana. Ávallt er hægt að finna hann í sama vestinu enda lítill tími til að skipta um föt þegar menn stúdera 16 tíma á dag!
- Bandaríkjamenn leiða mótið eftir stórsigur á Indverjum sem detta niður í deilt annað sætið ásamt fimm öðrum þjóðum. Þar er óvæntasta liðið Lettar með Shirov og Kovalenko en þeir lögðu Hollendinga í umferð dagsins. Þessi moli ætlar eitthvað að lengjast því þegar mér dettur þessi viðureign í hug þá dettur mér í hug skák Shirovs gegn Giri. Þar notaði Giri "beisiklí" engan tíma á skákin og átti 1:35 á klukkunni (5 mínútum meira en byrjað er með) þegar hann þvingaði þráskák rétt eftir 20. leik svarts. Shirov hinsvegar notaði mikinn tíma og starði ítrekað algjörlega gal út í tómarúmið en þegar Shirov gerir það velur hann sér oft punkt sem þá yfirleitt er manneskja á sviðinu og starir örugglega algjörlega ómeðvitað á þá manneskju með einhverskonar morðaugnaráði. Björn Ívar lenti einmitt í því í það síðustu umferð!
- Ian Nepomniachti er algjörlega í einhverjum eigin heimi með 7 vinninga úr 7 skákum og grettir sig bara yfir hvað andstðingarnir með 2600+ elóstig eru að leika slökum leikjum og drekkur svo kókið sitt: linkur á skákina
- Magnus Carlsen er venjulega merktur sponsor sínum í VG eða klæddur einhverjum vönduðum jökkum. Í dag var hann frekar casual á því:
- Fyrst við vorum að tala um eigin heim hjá Nepomniachti kíkji á byrjunina hjá Jobava...hvað er að frétta segi ég nú bara! linkur á skákina
- Englendingar eru "back in the game" eftir að þeir flengdu Kínverja óvænt 3-1 í dag. Englendingar voru sendir með skottið milli lappana eftir 3,5-0,5 tap gegn Hollendingum fyrr í mótinu en hafa komið sterkir til baka. Michael Adams sveið Wang Yue (júúú) úr gjörsamlega engri stöðu, ég og Björn Ívar höfðum gert grin að því snemma í skákinni hvað þetta væri öruggt jafntefli. linkur á skákina
- Geðveiki dagsins, kíkjið á skák Marcus Ragger gegn Sebastian Maze. Næstum 30 leikir af Kóngsindverja teoríu gjörsamlega "úðað" út á báða bóga. linkur á skákina. Frakkar halda áfram að ströggla og eru jafnir okkur þrátt fyrir að hafa næst stigahæsta skákmann heims í sínum röðum.
- Þessi er frá Kyrgystan. Þeir tefla alltaf með þessa hatta!
- Þessi mannvera biður kærlega að heilsa :-) ...meistari Luis Galego frá Portúgal, mikill Íslandsvinur.
- Ekki er hægt að ljúka pistlinum án þess að minnast a´uppáhalds sveit okkar Björns Ívars en það er Suður-Súdan. Þeir unnu í dag auðveldan sigur á Sao Tome & Principe 3-1. Sao Tome er með stigamenn á öllum borðum þó stigalágir séu. Deng, Diing og Deng unnur allir en Deng tapaði....altso Michael Deng.
- Finnbjörn Vang, FIDE-dindill (uppnefni okkar hér á FIDE delegate) þeirra Færeyinga tefldi sína fyrstu skák á Ólympíumóti í 6. umferð í gær til þess væntanlega að Helgi Dam Ziska ætti betri möguleika á GM áfanga þar sem skák við 1960 stiga mann var ekki að gera neitt fyrir meðalstigin hans. Finnbjörn spreytti sig aftur í dag en afraksturinn er aðeins háflur vinningur.
- Hammer-vaktin. Jón Lúðvík landaði sínu sjöunda jafntefli í jafn mörgum skákum. Við bíðum en aftur alvöru "Hammer-blow"
- Maturinn á hótelinu hérna er orðinn aðeins þreyttur. Azerarnir virðist eiga það til að ofsteikja allt og fyrirbrigðið sósa er ekki í hávegum haft hér. Engu að síður var góður punktur hjá Gullu að eftir þeir steikja allt í drasl að þá allavega drepa þeir bakteríur eins og Salómon Elías. Við Bragi brutum þetta upp í kvöld og fundum Dominos pizza stað hér stutt frá hótelinu. Fín pizza og cheesy garlic bread. Sáttir.
Látum þetta gott heita af ADHD punktum dagsins. Á morgun mætum við Slóvökum....einhverjir apakettir (þeir vita hverjir þeir eru) höfðu sagt að við myndum mæta Slóvenum en á því er mikill munur! Sá misskilningur var þó leiðréttur fljótlega. Við mætum semsagt sveit sem leidd er af Ljubomir Ftacnik, gamla brýninu....eða Fantastic eins og túlkur landsliðsins kallaði hann ;-) Slóvakar eru númer 49 í stigaröðinni og þvi ekki of kröfuhart að vonast eftir sigri á morgun þó búast megi við jafnri og spennandi viðureign.
Ingvar Þór Jóhannesson - liðstjóri í opnum flokki.
Spil og leikir | Breytt 10.9.2016 kl. 08:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2016 | 21:49
Ólympíuskákmótið: 7. umferð í kvennaflokki
Ísland ½ - Spánn 3½
Andstæðingar okkar í 7. umferð voru Spánverjar (meðalstig: 2335).
Úr viðureigninni við Spánverja í dag. Gáta fyrir glögga: Á myndinni sést stórmeistari, með rautt nef, sem hefur oft teflt á Íslandi og gegn Íslendingum. Hvaða landslið þjálfar hann?
Lenka hafði svart gegn WGM Monica Calzetta Ruiz (2249) á 1. borði. Upp kom Sikileyjarvörn með sama sniði og við höfðum skoðað fyrir skákina. Lenka fékk snemma fína stöðu og náði að setja Monicu undir talsverða pressu. Á einum tímapunkti í tímahrakinu átti Lenka afgerandi vinningsleið sem byggðist á flókinni fléttu.
Hér lék Lenka 36...Rxd6 og fór út í endatafl peði yfir. Hún átti þess í stað vinningsleið með 36...a3! 37. Rxc4 Hxd3 38. Bxd3 a2 39. Ha5 Bd5+! 40. Kg1 Ha8! og hvítur getur ekki stöðvað svarta a-peðið.
Lenka missti af vinningsleiðinni en valdi þess í stað að fara út í hróksendatafl peði yfir. Sú spænska varðist afar vel og hélt jafntefli á endanum eftir 107 leiki. Lenka fær stórt hrós fyrir að reyna að kreista blóð úr steini!
Guðlaug hafði hvítt gegn IM Sabrina Vega Gutierrez (2411). Gutierrez kom okkur ögn á óvart í byrjuninni með því að snúa Semi-slav yfir í grjótgarðsvörn snemma tafls. Gulla fékk engu að síður fína stöðu en varð á ónákvæmni í miðtaflinu og tapaði peði.
Gulla lék síðast 16. f3 og Gutierrez svaraði því með 16...cxd4! 17. exd4 Bxe5 18. dxe5 dxc4 19. Bxe4 fxe4 20. fxe4 Dc5+ og vann peð.
Eftir það hleypti sú spænska henni ekkert aftur inn í skákina og tap niðurstaðan.
Hrund hafði svart gegn IM Ana Matnadze (2383). Ana er hörku skákkona sem varð m.a. heimsmeistari barna/unglinga í tvígang, ef ég man rétt. Hrund fékk prýðilega stöðu út úr byrjuninni eftir að Ana hafði valið undarlegt framhald í þekktri stöðu. Sennilega hefur hana grunað að við hefðum kíkt vel á afbrigðið sem henni stóð til boða að tefla, sem var rétt hjá henni því við höfðum fundið skemmtilegar leiðir fyrir svartan fyrir skákina.
Hér vorum við búin að plotta ýmislegt djöfullegt eftir 7. e4, sem er eðlilegasti leikurinn. Matnadze er reynd skákkona og hefur sennilega ,,fundið lykt af rottunni" því hún lék 7. Rg5?! sem breytti karakter stöðunnar talsvert.
Upp kom staða þar sem svartur þurfti ekki að hafa neinar áhyggjur en í flækjunum í miðtaflinu missti Hrund af bestu leiðinni og tapaði tveimur peðum og í framhaldinu manni og neyddist til að gefast upp.
Veronika hafði hvítt gegn WIM Niala Collazo Hidalgo-Gato (2268). Við bjuggumst við að sú spænska myndi beita Sikileyjarvörn en hún kom okkur á óvart með 1...g6. Veronika tefldi ekki nógu markvisst í byrjuninni, gaf svörtum alltof mikinn tíma og lenti í vandræðum með að valda miðborðið sitt. Eftir að hafa lent í algjörri klemmu náði hún að losa um sig og stóð alls ekki verr um tíma. Þegar tímamörkunum var náð gat hún farið í uppskipti á drottningum og staðan er sennilega í jafnvægi. Þess í stað hélt hún drottningunum inni á borðinu en þá fékk Niala mikið spil sem Veronika réð ekki við og varð að lokum mát eftir flóttatilraun hvíta kóngsins.
Hér var líklega einfaldast fyrir Veroniku að leika 41. Dxf6+ Kxf6 41. Hd1 og jafntefli eru líklegustu úrslitin. Hún lék þess í stað 41. Dd7 og missti tökin á stöðunni eftir 41...Dc3
Eins og skákáhugamenn geta ímyndað sér er andrúmsloftið á skákstað nánast ólýsanlegt. Það er farin að færast töluverð spenna í toppbaráttuna og það er gaman að geta fylgst með bestu skákmönnum heims í miklu návígi. Við Ingvar getum nefnilega gengið á milli allra borða, þar sem við höfum sérstakt liðsstjóraspjald sem gefur okkur ,,frítt spil". Áhorfendur og aðrir gestir eru útilokaðir frá borðunum af sterklega byggðum azerskum öryggisvörðum sem taka vinnu sína mjög alvarlega. Í gær gekk ég framhjá viðureign Kazakhstan og Lettlands en þar er góðvinur okkar Alexei Shirov á 1. borði fyrir Letta. Ég velti fyrir mér í augnablik hvað var að gerast á borðinu og þegar ég leit upp og ætlaði að rölta áfram tók ég eftir því að Shirov starði í augun á mér.
Ég leit aftur á stöðuna í smá stund en þegar ég leit aftur upp var Shirov ennþá að horfa í augun á mér og nú með algjörri dauðastöru. Ég hélt augnsambandi við meistarann á meðan ég fikraði mig niður af sviðinu og hæfilega langt í burtu frá honum, aftur yfir í kvennahluta keppnissalarins. Þegar ég var kominn þangað, svona 30-40 metra í burtu, sá ég að hann horfði enn á mig. Kannski hélt hann að ég væri Grétarsson eða Jensson og hann ætti harm að hefna gegn mér. Minnið mig allavega á að forðast Shirov í framtíðinni.
Í 8. umferð mætum við skáksveit Marokkó. Við erum ögn stigahærri á öllum borðum og teljum okkur eiga fína möguleika á að sigra þá viðureign. Við hlökkum til morgundagsins!
Þangað til næst, bestu kveðjur frá Bakú.
Björn Ívar
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2016 | 18:36
ÓL: Brött brekka í Bakú í dag
Hún reyndist of brött brekkan sem íslensku landsliðin lentu í er 7.umferð var tefld á Ólympíuskákmótinu í Bakú í dag. Ísland tapaði fyrir Grikklandi 1-3 í opnum flokki og í kvennaflokki tapaði liðið fyrir firnasterku liði Spánar 0,5-3,5.
Í opna flokknum gerðu Hjörvar Steinn Grétarsson og Guðmundur Kjartansson jafntefli, en Hannes Hlífar Stefánsson og Bragi Þorfinnsson töpuðu sínum skákum. Jóhann Hjartarson hvíldi að þessu sinni.
Að lokinni 7.umferð er Ísland í 26.-49.sæti með 9 stig og eru þar í góðum hópi öflugra skákþjóða á borð við Frakkland, Spán og Þýskaland.
Í kvennaflokki hélt Lenka Ptacnikova uppteknum hætti og færði taflmenn sína um skákborðið af miklu sjálfstrausti. Lenka var nálægt því að vinna skákina með svörtu gegn stigahærri andstæðingi, en varð að lokum að sættast á skiptan hlut eftir 107 leikja baráttu. Guðlaug Þorsteinsdóttir, Hrund Hauksdóttir og Veronika Steinunn Magnúsdóttir töpuðu sínum skákum. Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir hvíldi í dag.
Að lokinni 7.umferð situr íslenska kvennaliðið í 77-98.sæti eftir þrjú töp í röð.
Í opna flokknum tók ofursveit Bandaríkjanna sig til og lagði efsta lið mótsins, Indland, með minnsta mun, 2,5-1,5. Bandaríkin hefur því tyllt sér í toppsætið með 13 stig að loknum sjö umferðum. Þá gerðu Englendingar sér lítið fyrir og unnu Kína 3-1 og deila þeir 2.sæti með Indlandi, Rússlandi, Úkraínu, Georgíu og Lettlandi.
Fimm lið eru efst í kvennaflokki með 12 stig; Rússland, Kína, Aserbaísjan, Bandaríkin og Holland. Rússland varð að gera sér jafntefli að góðu gegn Póllandi í dag og Kína lagði Úkraínu með minnsta mun í uppgjöri stigahæstu liða mótsins.
8.umferð verður tefld á morgun, laugardag, og verða klukkurnar settar í gang klukkan 11 að íslenskum tíma. Þá mætir Ísland (2527) liði Slóvakíu (2504) í opnum flokki, en kvennaliðið (2003) etur kappi við Marokkó (1824). Það verður fróðlegt að sjá hvernig íslensku liðin bregðast við mótlæti dagsins.
9.9.2016 | 12:04
Dagskrá skákæfinga TR um helgina (10.-11. sep)
Vegna fyrsta móts Bikarsyrpu TR verður fyrirkomulag skákæfinga nú um helgina með eftirfarandi hætti:
Laugardagur 10. september
- 10:40-11:00 Byrjendaflokkur I (Manngangskennsla).
- 11:15-12:15 Byrjendaflokkur II (Fyrir börn sem kunna mannganginn).
- 12:30-13:45 Skákæfing stúlkna.
- 14:00-16:00 Laugardagsæfing (opnar æfingar) fellur niður vegna Bikarsyrpunnar.
- 16:10-17:40 Afreksæfing A.
Sunnudagur 11. september:
- 10:45-12:15 Afreksæfing B fellur niður vegna Bikarsyrpunnar.
Jafnframt hvetjum við ykkur krakkar sem hafið verið að sækja skákæfingar félagsins, eða annarra félaga, til að vera með í Bikarsyrpunni enda er um afar gott æfingarmót að ræða sem jafnast á við margar skákæfingar. Upplýsingar um Bikarsyrpuna má sjá hér og hægt er að skrá sig til leiks hér. Bikarsyrpan hefst í dag föstudag kl. 17:30.
9.9.2016 | 08:12
Viðureignir dagsins: Grikkland og Spánn
Sjöunda umferð Ólympíuskákmótsins hefst kl. 11 í dag. Andstæðingar dagsins eru Grikkir í opnum flokki og Spánn í kvennaflokki. Rétt eins og í gær teflir íslenska liðið í opnum flokki upp á palli með hinum toppsveitunum.
Opinn flokkur
Jóhann Hjartarson hvílir í opnum flokki. Grikkir (2592) eru með átjánda sterkasta lið mótsins sé miðað við meðalstig en íslenska liðið (2527) er það 44. sterkasta
Kvennaflokkur
Íslenska kvennaliðið (2003) mætir afar sterkri sveit Spánverja (2335). Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir hvílir. Íslenska kvennaliðið er hið 61. sterkasta sé miðað við meðalstig en Spánn er það 14. sterkasta en hefur ekki staðið undir væntingum í Bakú og heldur því vonandi áfram í dag!
- Heimasíða mótsins
- Chess-Results
- Beinar útsendingar (hefjast kl. 11)
9.9.2016 | 07:00
Bikarsyrpa TR hefst í dag
Bikarsyrpa Taflfélags Reykjavíkur hefur fest sig í sessi undanfarin misseri og fer nú af stað þriðja árið í röð. Mót syrpunnar í vetur verða fimm talsins og hefur umferðum hvers móts verið fjölgað í sjö.
Fyrir börn sem vilja taka framförum í skák þá er gott að byrja sem fyrst að tefla í kappskákmótum, en hingað til hefur þeim börnum sem vilja tefla á alvöru mótum einkum staðið til boða að taka þátt í opnum mótum. Þar er styrkleikamunur oft mikill og mótin taka langan tíma, auk þess sem mörgum börnum óar við tilhugsuninni um að tefla við fullorðna á sínum fyrstu kappskákmótum. Bikarsyrpan er svarið við því. Þessi mótaröð TR er ekki síður sniðin að þörfum þeirra barna sem dreymir um að næla sér í sín fyrstu skákstig.
Einungis börn á grunnskólaaldri (fædd árið 2001 eða síðar) sem ekki hafa náð 1600 alþjóðlegum skákstigum geta tekið þátt í mótum Bikarsyrpunnar. Þannig er styrkleikamunurinn minni en ella og börnin njóta þess betur að tefla. Tímamörkin eru jafnframt styttri, og henta börnum betur en langar 90 mínútna skákir sem tíðkast á hefðbundnum kappskákmótum fullorðinna. Mótin uppfylla öll skilyrði Alþjóða skáksambandsins FIDE og eru reiknuð til alþjóðlegra skákstiga.
Fyrsta mót Bikarsyrpunnar hefst föstudaginn 9. september og stendur til sunnudagsins 11. september. Tefldar eru 7 umferðir eftir svissnesku kerfi. Tímamörk eru 30 mínútur + 30 sekúndur á hvern leik og geta skákirnar því varað í allt að tvær klukkustundir. Þó svo mikilvægt sé að börnin vandi sig og noti tímann vel, þá má gera ráð fyrir að margar skákir taki mun styttri tíma.
Dagskrá Bikarsyrpu I:
1. umferð: 09.september kl. 17.30 (fös).
2. umferð: 10.september kl. 10.00 (lau).
3. umferð: 10.september kl. 13.00 (lau).
4. umferð: 10.september kl. 16.00 (lau).
5. umferð: 11.september kl. 10.00 (sun).
6. umferð: 11.september kl. 13.00 (sun).
7. umferð: 11.september kl. 16.00 (sun).
Verðlaunaafhending fer fram strax að lokinni 7.umferð.
Tvær yfirsetur (bye) eru leyfðar í umferðum 1-5 og fæst 1/2 vinningur fyrir hverja yfirsetu. Tilkynna þarf skákstjóra um yfirsetu fyrir lok umferðarinnar á undan.
Þátttökugjald í mótið er 1.500kr. Börn sem eru félagar í TR greiða ekki þátttökugjald.
Sigurvegari mótsins hlýtur að launum bikar. Verðlaunapeningur eru veittur fyrir 2.sæti og 3.sæti. Sérstök verðlaun verða veitt næsta vor fyrir samanlagðan árangur í mótunum fimm, þar á meðal er veglegur farandbikar. Þá verða veitt sérstök verðlaun fyrir samanlagðan árangur fyrir börn sem eru félagar í TR, en það eru einkatímar hjá einhverjum af sterkustu skákmönnum félagsins; 1.sæti gefur 5 einkatíma, 2.sæti gefur 3 einkatíma og 3.sæti gefur 2 einkatíma.
Vinsamlegast skráið þátttakendur sem fyrst, það hjálpar til við undirbúning mótsins. Hlökkum til að sjá ykkur!
Spil og leikir | Breytt 29.8.2016 kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2016 | 23:00
Ólympíumót: 6. umferð í opnum flokki
Eftir stórgóða byrjun á mótinu þar sem hver sigurinn á fætur öðrum hefur unnist var komið að erfiðu liði Tyrkja. Tyrkir eru númer 19 í stigaröðinni en eina tap okkur í mótinu kom einmitt á móti liði á svipuðu róli eða Tékkum númer 17 í röðinni.
Tyrkirnir eru okkur að góðu kunnir enda höfum við mætt þeim á tveim síðustu stórmótum. Við urðum að lúta í gras á EM 2015 en gerðum jafntefli við þá á ÓL í Tromsö árið 2014. Við þekkjum því Tyrkina mjög vel og Ipatov reyndar okkur að góðu kunnur einnig enda teflt á Íslandi og margir í liðinu sem þekkja hann vel enda vinsamlegur fýr. Í Tromsö spiluðum við einmitt oft fótbolta með honum en Ipatov er mikill aðdáandi Barcelona liðsins. Þess má geta að Barcelona hafa farið vel af stað í spænska boltanum með tvo sigra í tveim leikjum með markatöluna 7-2. Er líka svo að Barcelona skarta fremsta knattspyrnumanni heims að margra mati, Lionel Messi frá Argentínu. Í framhaldi af því er gaman að segja frá þvi að Sandor Mareco frá Argentínu átti einmitt glæsilega fléttu gegn Wang Yue frá Kína. Wang Yue er sterkur skákmaður en þó ekki skildur Yao Ming á nokkurn hátt en hann er fremsti körfuknattleiksmaður Kínverja frá upphafi og einn af stærstu leikmönnum í sögu NBA deildarinnar. Einn stærsti leikmaður í sögu NBA deildarinnar var einmitt Manute Bol en hann er einn af tveimur NBA leikmönnum frá Súdan sem hafa spilað í NBA deildinni. Hinn er Luol Deng. Ég er að segja frá þessu því 1. borðs maður Suður-Súdan, Cepriano Rehan Deng er einmitt ekki skyldur Luol Deng. Suður-Súdan menn hafa samt slegið í gegn hér með þrjá stigalausa menn en hafa staðið sig frábærlega og meðal annars er þriðja borð þeirra með rating performance vel yfir 2100 og stefnir í flott byrjunarstig. Skák er merkilegt nokk vinsælasta sportið í Súdan en körfubolti er aðeins númer tvö þrátt fyrir almennt góða meðalhæð í landinu. Þegar við spurðum Deng hvar þeir tefldu helst í Súdan í klúbbum eða einhverju slíku var svarið einfalt...."We just play under the trees man!"... en jáhhh....aftur að umferðinni....
Að þessu sinni vorum við mættir upp á stóra sviðið. Ekki bara í líkindamáli heldur í orðsins fyllstu merkingu þar sem 10 efstu sveitirnar í opnum flokki og kvennaflokki tefla á upphækkuðu sviði sem brakar nokkuð vel í. Ég hafði á orði að við værum komnir á Saga Class og hér vildum við vera enda aðbúnaður betri þar sem keppendur hafa hálfgerð skrifborð með hólfum og allt mun vandaðra. Jóhann reyndar leiðrétti mig og benti á að þetta væri meira Economy Comfort en við værum að nálgast Saga Class!
Rétt fyrir neðan sviðið fundum við svo frændur okkar Norðmenn sem hafa átt mót vel undir væntingum. Nægir þar að nefna stórvin okkar Jón Lúðvík kenndan við Hamar en hann hefur gert jafntefli í öllum sínum skákum þrátt fyrir að tefla 150-300 stigum niður fyrir sig í hverri einustu skák. Engu að síður var öll athyglin á viðureign Norðmanna í upphafi umferðar en þar mætti forsetafrúin ungrú Haliev til að leika fyrsta leikinn fyrir Magnus Carlsen.
Ungfrú Haliev er hér að leika fyrsta leiknum fyrir Carlsen og virðist ætla að krefjast þess að hann api eftir 2. umferðinni þar sem Carlsen lék einmitt 1.e3 í fyrsta leik. Úr varð þó að peðinu var ýtt einum reit lengra.
Töfrar hennar dugðu þo skammt þar sem jafntefli varð niðurstaðan á öllum borðum gegn stigalægri sveit Filipseyja. Carlsen beitti uppskiptaafbrigðinu í franskri vörn en það hefur sjaldan verið talið líklegt til afreka og breytti Carlsen ekki ímynd þessa saklausa afbrigðis.
En færum okkur yfir í okkar menn:
1. borð Hannes hvítt á Dragan Solak
Hannes hafði sigur á Solak á ÓL í Tromsö árið 2014 sem var lykillinn að góðum úrslitum þar. Þá hafði Hannes líka hvítt. Skiljanlega splæsti Hannes því í 1.d4 í umferð dagsins. Snemma stefndi í rólegt tafl þar sem Hannes myndi njóta þess að eiga biskupaparið en svartur trausta stöðu.
Skjótt skipaðist hinsvegar veður í lofti og eftir að Dragan Solak drap með riddara á g4 lék Hannes ekki besta leiknum og lenti í algjörri beyglu. Hannes missti af 14...Df6 (bjóst við 14...Dh4 þegar 15.hxg4 er óljóst) og þvi miður var á ferðinni allt annað en léleg valdaránstilraun hjá Tyrkjanum.
Hér var Hannes í vondum málum eftir ...Df6!
Í stuttu máli reyndist erfitt að kæfa þessa valdaránstilraun niður þar sem Solak var í raun með hartnær kolunnið tafl eftir mistök Hannesar. Sem betur fer spýtti Hannes í lófana og eftir nokkra góða kaffibolla frá liðsstjóranum var Hannes einhvern veginn búinn að mjaka sér inn í skákina og eftir Bd2 var Hannes "back in the game" eins og maður segir og ÞÞ var sammála:
Þröstur reyndist þarna hafa rétt fyrir sér enda reyndur og góður Ólympíuliðsmaður. Skömmu síðar sá Solak engan annan kost en að taka þráskák. Sannkallað baráttujafntefli hjá Hannesi og gríðarlega mikilvægt fyrir liðið þar sem það leit á tímabili út fyrir tap með hvítu mönnunum. Þetta var fyrsta skákin til að klárast og gaf mönnum baráttuþrek á hinum borðunum.
2. borð: Hjörvar svart á Ipatov
Ipatov kom Hjörvari eilítið á óvart en Hjörvar hafði að mestu eytt undirbúningi í Catalan. Miðað við meðferðina sem Eistinn fékk í umferðinni á undan er kannski skiljanlegt að Ipatov hafði ákveðið að feta aðra braut. Niðurstaðan varð drottningarindversk vörn þar sem Ipatov valdi nokkuð saklaust afbrigði sem þó gaf honum aðeins betri stöðu. Á borðinu var hálfgert Noteboom afbrigði með skiptum litum ef svartur hefði drepið á b5 og leyft cxb5. Sú útgáfa hefði þó verið betri á hvítan en venjulegt Noteboom afbrigði.
Þrátt fyrir smá "tölvu-frumkvæði" hjá Ipatov virtist Hjörvar alltaf hafa fullt control á stöðunni og jafnaði taflið og var í raun stutt frá því að fá vinningssénsa sjálfur þegar Ipatov gaf peð. Íslandsvinurinn hafði þo nægar bætur að þvi er virðist og líklegast aldrei í neinni hættu þó Hjörvar hafi verið kominn með "betra í blöðunum" undir lokin.
Þessi staða er seint í taflinu. Hjörvar er peði yfir en virkni manna, peðastaða og biksupaparið tryggja Ipatov nægar bætur til að vera ekki í mikilli taphættu hér.
Jafntefli niðurstaðan og þessi skák kláraðist nánast á sama tíma og skák Braga.
3. borð: Jóhann hvítt á Yilmaz
Jóhann mætti enn og aftur gríðarlega vel undirbúinn til leiks. Ég hafði hvíslað því á Facebook að von væri á rólegu afbrigði í Najdorf en Jóhann hafði í raun "pinnað" það algjörlega niður hvað andstæðingurinn myndi tefla og ætlaði í Be2 afbrigðið gegn Najdorf.
Á daginn kom að Jói var nánast með þessa leiki alla, f3, g3, Hae1 og Ra1 í tölvunni fyrr um daginn. Þessi Ra1 manúvering er reyndar þekkt í þessum stöðum. Hugmyndin er Ra1-c2-b4 og hoppa inn á c6 reitinn. Þessi hugmynd þvingar oft ...a5 leikinn hjá svörtum en þá hefur svartur veikt sig og hvítur hefur ýmsa möguleika til að nýta sér það. Margir voru hrifnir af þessari manúveringu hjá Jóhanni:
Jóhann tefldi í raun algjöra módelskák í Karpov stíl í þessu afbrigði. Handbragðið algjörlega frábært. Ef Jóhann hefði fundið nákvæma leiki í kringum 30. leik hefði í raun verið um algjöra kennslubókarskák að ræða.
Á þessum timapunkti var Jóhann í raun búinn að búa til kebab úr svörtu stöðunni
Því miður missti Jóhann þráðinn á þeim punkti og Tyrkinn komst inn í skákina með góðri varnartaflmennsku, raunar svo góðri að hann neyddi Jóhann í skiptamunsfórn. Svartur hefur líklegast staðið betur en ekki var hlaupið að finna vinninginn.
Þegar fyrstu tímamörkum var náð vildi Tyrkinn í raun bjóða jafntefli. Hann bað liðsstjórann Krasenkow um leyfi en hann sagði honum að tefla áfram. Þegar þetta átti sér stað var staðan 1,5-1,5.
Yilmaz reyndi eitthvað áfram en Jóhann tefldi vel. Eftir tímamörkin eyddi Yilmaz miklum tíma í að reyna að finna leið til að tefla til vinnings en gekk brösulega. Ástæðan fyrir því var einfaldlega að flestar vinningstilraunir þýddu mikla áhættu og í raun það mikla að Jóhann hefði þá fína sénsa á að taka af honum vinninginn. Þegar klukka Yilmaz sýndi um 2 mínútur eftir á alla skákina var Krasenkow liðsstjóri Tyrkja orðinn svo stressaður að hann gaf skákstjóra merki um að hann ætlaði að tala við sinn liðsmann og bað hann vinsamlegast um að bjóða jafntefli hið snarasta.
Jóhanni var mikið létt þegar boðið kom en tók sér samt akademískar 30 sekúndur í að taka boðinu og tryggði þar gott jafntefli 2-2 við Tyrkina. Krasenkow var lítillega disgusted út í Yilmaz og spurði hann hvers vegna í fjandanum hann hefði skipt upp á drottningum. Ég spái honum hvíld á morgun!!
4. borð: Bragi svart á Can
Bragi mætti "heitur teitur" til leiks í þessa skák við Emre Can með fjóra vinninga úr jafn mörgum skákum. Emre þessi á sér alnafna í liði Liverpool í knattspyrnu sem hefur skapað ófáa brandarana á samskiptamiðlum.
Skák útgáfan af Emre Can virðist þó vera minna á bekknum og mætti galvaskur til leiks. Bragi líka og var vel undirbúinn. Upp kom Ragozin afbrigðið og Bragi var alls óhræddur við tilburði Tyrkjans. Snemma varð ljóst að Tyrkinn hafði í raun lítið fram að færa og fékk Bragi fína stöðu. Mannsaugað mat það þó svo að Tyrkinn stæði aðeins betur. Rannsóknir eftirá bentu þó til þess að Bragi hefði í raun að mestu haft betra í tölvunum og átt enn eina þétta og vel teflda skák.
Erfitt var að finna plan á báða bóga í lokin og þráleikið
Tyrkinn gerði í raun ekki neitt og staðan var í algjöru dýnamisku jafnvægi þegar upphófst endurtekning leikja. Tyrkinn vatt sér að Krasenkow liðsstjóra sem gaf leyfi fyrir þrátefli. Can lék og boltinn var hjá okkur. Bragi spurði mig ráða en aðeins voru um 3 mínútur á klukku Braga og Hjörvar við það að klára sína skák og því aðeins Jóhann eftir. Ég ákvað að jafnteflið væri skynsamlegt og við settum traustið á Jóhann. Jafntefli niðurstaðan og Bragi heldur áfram að tefla vel með 4,5 úr 5 skákum.
Í herbergi 537 þar sem Gulla og Lenka hafa það yfirleitt gott kom spurning um hvaða læti hefðu eiginlega verið rétt fyrir umferð í herbergi 535 (hvar undirritaður og Bragi voru staddir)....hér er svarið við því:
Greinilegt að motivation ræðurnar eru að virka hjá okkur :-)
Í ljósi þess að Tyrkirnir voru að meðaltali næstum 100 stigum hærri en við á öllum borðum verða þetta að teljast frábær úrslit.
Mótið
Þó lítill tími gefist í raun til að fylgjast með eru engu að síður gaman að labba á milli og bera alla fremstu skákmenn heims augum. Ekki er síður gaman að labba um neðri borðin og sjá flóruna af allskonar fólki frá öllum heimshornum. Eins og áður segir eru vinir okkar í Suður-Súdan i miklu uppháldi en ég tek alltaf rúnt fram hjá þeirra skákum. Í raun magnað að fylgjast með hvað þeir eru harðir, þrir þeirra stigalausir og ekki með neina þjálfun en margir hverjir að tefla vel yfir 2000 stigum að því er virðist.
Indverjar eru að slá í gegn hérna. Þeir hafa unnið allar sínar viðureignir og virðast vera að springa út með ungt og skemmtilegt lið. Í liði þeirra er enginn Anand sem fyrr og Krishnan Sasikirian ekki í liðinu og eins kemur á óvart að sjá ekki Abhijeet Gupta Íslandsvin.
Bandaríkin koma í öðru sæti en þeir hafa misst niður óvæntan hálfan matchpoint eftir jafntefli við Íslandsbanana frá Tékklandi. Bandaríkjamenn unnu góðan sigur á Úkraínu í 6. umferðinni. Úkraína var spútnikliðið ásamt Indverjum með fullt hús fyrir umferðina en þeir verða að sjálfsögðu áfram í toppbaráttu enda nú þegar búnir að leggja Rússa og Kínverja þrátt fyrir tapið gegn Bandaríkjamönnum. Caruana tryggði sigurinn með því að kreysta dropa úr steini gegn Eljanov. Bandaríkjamenn til alls líklegir.
Rússar, Kínverjar og Hollendingar koma svo í humátt á eftir með eitt tap á bakinu ásamt öðrum. Í þeim hópi er einnig skemmtileg lið Kanada sem mæta Úkraínu i 7. umferðinni. Nú fer virkilega að sverfa til stáls og verður gaman að fylgjast með næstu umferðum!
Einstaklingar að skara framúr
Hjörvar var í góðum hópi manna með fullt hús 5 af 5 fyrir umferðina. Eftir umferðina er aðeins einn eftir með 6 vinninga af 6 en Hjörvar kemur í humátt á eftir í góðum hópi.
7. umferðin
Í 7. umferð er komið að annarri traustri sveit. Grikkir eru númer 18 í röðinni og við því að fá sveitir 17-19 í þessu móti. Til marks um hvað Grikkir hafa verið traustir töpuðu þeir sinni fyrstu skák í dag þegar Stelios Halkias tapaði gegn Azerbaijan. Tyrkirnir hafa ekki enn tapað viðureign en hafa gert mikið af jafnteflum í stökum skákum. Ég tel okkur eiga finan séns á að ná úrslitum gegn þessari sveit þó að vissulega séu þeir traustir og stigahærri en við. Við búumst við að Halkias hvíli og að við mætum aðalliði þeirra.
Áfram Ísland, muna að negla og "I AM A CHAMPION!"
Frá Baku í Azerbaijan,
Ingvar Þór Jóhannesson - liðsstjóri í opnum flokki.
Spil og leikir | Breytt 9.9.2016 kl. 08:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjustu færslur
- Ný vefsíða Skák.is!
- Loftur fær Héðin í fyrstu umferð
- Tveir fyrrum heimsmeistarar bættust við á keppendalistann á l...
- Ný alþjóðleg skákstig
- Carlsen vann Aronian - með vinningsforskot og aftur yfir 2850
- Skákklúbburinn Æsir - vertíðarlok
- Fundargerð aðalfundar SÍ
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open hefst á föstudaginn
- Carlsen vann Caruana í fyrstu umferð Altibox Norway Chess
- Þrír efstir og jafnir eftir fyrsta minningarmót Vinaskákfélag...
Tenglar
Mót í gangi
Mót sem eru í gangi hverju sinni
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open Valsheimilið, 1.-9. júní
- Altibox Norway Chess 27. maí - 8. júní: Carlsen og flestir sterkustu skákmenn heims
Lykilvefir
- Skáksamband Íslands Heimasíða SÍ
- Mótaáætlun SÍ
- Vefsvæði Friðriks Ólafssonar Vefsíða tileinkuð Friðriki Ólafssyni
- Skákskóli Íslands
- Skáksögufélagið
- F3-klúbburinn Vildarvinir skákíþróttarinnar á Íslandi
- Tímaritið Skák
- Fischersetur Selfoss
- Skákbækur til sölu
- Bobbý skáksverslun
- Skákhornið Spjallþráður skákmanna
- Skáklandið Stefán Bergsson bloggar
- Skákmyndir
Kennsluvefir
Íslensk taflfélög
Ef þú vilt tefla á netinu!
- Vinaskákfélagið
- Skákfélagið Hrókurinn
- Skákfélagið Huginn
- Taflfélag Reykjavíkur
- Víkingaklúbburinn
- Skákfélag Akureyrar
- Taflfélag Garðabæjar
- Taflfélag Vestmannaeyja
- Æsir
- Skáksamband Austurlands
- Skákdeild Fjölnis
- Skákfélag Sauðárkróks
- Taflfélag Bolungarvíkur
- Skákfélag Selfoss og nágrennis
- Skákdeild Breiðablik
- Skákdeild KR
- Skákdeild Breiðabliks
- Gallerý Skák
- Riddarinn
- Félag íslenskra bréfskákmanna
Erlendir skákvefir
- FIDE Alþjóðlega skáksambandið
- ECU
- The Week in Chess
- ChessBase
- Chess Vibes
- Chessdom
- Your Chess News Umsjón Jóhann H. Ragnarsson
- Bergens Schakklub Besta norræna skákfréttasíðan
- Færeyska skáksambandið
- Bloggsíða Susan Polgar
- ChessCafe Pistlar og greinar
Almanök
Teflt á netinu
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (30.7.): 10
- Sl. sólarhring: 31
- Sl. viku: 176
- Frá upphafi: 8779160
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 111
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar