Leita í fréttum mbl.is

Ólympíumót: 7. umferð í opnum flokki

7th_teamÞví miður er undirritaður ekki alveg í sama ritstuði og í gær og því hætt við að pistillinn að þessu sinni verði heldur styttri. Það er líka þannig að það er aðeins erfiðara að tjá sig eftir svona lýjandi viðureign heldur en þegar úrslitin eru góð.

Við semsagt láum í valnum gegn Grikkjum 1-3 sem hafa reynst okkur erfiðir á síðustu árum. Ég bullaði reyndar í gær þegar ég sagði þá nr. 18 í stigaröðinni þar sem hið rétta er að þeir eru nr. 27 í röðinni. Engu að síður eru þeir gríðarlega þéttir og hafa verið í miklu stuði hér í Baku. Þeir hafa aðeins tapað einni skák allt mótið og gefa ekki mikil færi á sér.

Við vorum komnir niður af sviðinu að þessu sinni en ekki langt. Aðeins einu þrepi frá sviðinu og þangað vildum við aftur en verður erfitt eftir úrslit dagsins. Í stuttu máli sagt hitti enginn á góðan dag og eiginlega mætti segja að við hefðum aldrei átt möguleika í þessari viðureign. Við vorum eins og pútt með halla á flötinni sem fer undir brotið og á aldrei möguleika á að fara ofaní.

Kíkjum á gang mála í skákunum:

1. borð Hannes hvítt á Papaioannou

Hannes ákvað að tefla sama afbrigði og Jóhann í umferðinni á undan, Be2 afbrigðið í Najdorf með Dd3. Jóhann var að skoða þetta með Hannesi fyrir umferð og því var ég bjartsýnn þegar ég sá Dd3 á borðinu.

7th_hannes

Hér er víst best að leika 15.Bg5 skv. Jóhanni og tölvurnar eru því sammála. Þess í stað virtist Hannes aðeins verða planlaus. Þó ekkert hefði verið enn að stöðunni fannst mér öll þægindi og frumkvæði færast yfir á svartan eftir að mislitu biskuparnir voru komnir á borðið. Fór svo að Ioannis fórnaði peði á þematískan hátt og tók algjörlega valdið á svörtu reitunum á borðinu og skildi hvítareitabiskupinn eftir grjótpassífan. Hannes hafði vissulega valdað frípeð en það var langt í það gæti farið að skipta máli.

Rd7_hannes_2

Staðan eftir peðsfórnina, svartur stjórnar í raun borðinu peði undir.

Manni fannst Hannes þó aldrei veri i taphættu en það var ljóst að allir erfiðleikarnir voru hans megin og hann þurfti mikið að glíma við erfiðar skammtímahótanir og þegar svoleiðis stress hleðst upp leik eftir leik er hætta á að varnarleikurinn fari eitthvað að gefa sig. Hannes virtist þó heppinn þegar hann slapp úr óverjandi drottningartapi/máti í 40. leik. Það dugði þó ekki til og Grikkinn tefldi skínandi vel og hálfgerða módelskák í að sýna mismun á frumkvæði þegar annar aðilinn ræður algjörlega yfir einum "lita-complex" á borðinu.

Hannes reyndi að loka að fórna biskupi sínum fyrir þráskák en þegar ljóst var að svarti kóngurinn var að komast í skjól á b6 lagði Hannes niður vopn.

 

2. borð: Hjörvar svart á Hristos Banikas

7th_hjorvar

Hjörvar tefldi byrjunina sýndist mér af nokkru öryggi og virtist ekki glíma við mikil vandmál.

7th_hjorvar_1

Hér er Hjörvar með nálægt jöfnu tafli en mér reyndari menn vilja meina að hér hefði t.d. 16...Dc8 verið málið. Þess í stað var 16...Ne4 mögulega of mikil "kraftataflmennska". Eftir mögulega einhverja vafasama leiki til viðbótar var hvítur kominn með alla sénsa í stöðunni og Hjörvar í vandræðum. Hann varðist þó af þrótti en vildi meina að hann hefði verið með tapað tafl á einhverjum tímapunkti, honum allavega leið þannig. Hann vitnaði í 27. leik hvíts Db2 en þá hefði Hd4 mögulega bara unnið peðið á e4 fyri hvítan.

Rd7_hjorvar_2

Hér hefði Hd4 verið erfiður

Hjörvar hélt vel velli í þessari skák og hélt jafntefli eftir erfiða vörn. Þetta var önnur skák dagsins að klárast.


3. borð Guðmundur hvítt á A.Mastrovasilis

Á borðið kom hefðbundið drottningarbragð en sá gríski valdi sjaldgæft afbrigði, lék ...Bd6 snemma og svo kom b6 með uppskiptum á a6 og riddarinn settur á ...c7. Allt hið furðulegasta, ég allavega hef ekki séð þetta áður. Manni fannst að hvítur hlyti að vera með eitthvað smá í stöðunni en mér fannst eins og Gummi hlyti að hafa misst þráðinn þarna snemma án þess að ég skilji fyllilega hvar. Kannski var Da4 og svo e4 í kjölfarið ekki tímasett rétt. 

7th_gummi_1

Svartur fékk fullkomna blokkeringu gegn stöku peði hvíts og þegar búinn að skipta upp á tveimur léttum mönnum sem er yfirleitt góð þumalputtaregla gegn staka peðinu. Svarta staðan reyndist mun auðteflanlegri og hann í raun bætti stöðu sína smátt og smátt. Sem betur fer missti Mastroinn af leið til að vinna skiptamun í 27. leik og Gummi greip tækifærið og náði að einfalda skákina niður í algjörlega öruggt jafntefli. Þetta var fyrsta skákin að klárast í viðureigninni.

 

4. borð: Bragi svart gegn Halkias

7th_team

Bragi fékk Íslandsvininn Stelios Halkias á 4. borði. Gaman er að segja frá því að þessir tveir mættust fyrsta árið 1992 á barnaskákmóti! Þá skildu þeir jafnir. Bragi notaði þá skák þó ekki í undirbúningi dagsins en engu a síður var mikið að undirbúa ar sem Stelios hefur verið í Rf3/d4/c4 og meira að segja aðeins kominn í e4 líka.

Bragi var því heppinn að fá hluta af undirbúningi upp í afbrigði í enskri vörn. Þar hafði hann undirbúið þekkta peðsfórn með ...d6 leiknum en Stelios "smelled a rat" og ákvað að fara ekki í krítískustu leiðina í því afbrigði og tefldi rólega. Raunar tefldi hann eiginlega of rólega og Bragi jafnaði taflið meira og minna.

Líklegast hefði Bragi getað gert sér mun auðveldara fyrir með því að skipta upp á öllum hrókum og verja drottningarendataflið. Engu að síður varðist hann vel og í raun er erfitt að benda á klár mistök í vörninni hjá Braga. Mögulega hefði verið hægt að stilla peðunum á kóngsvæng öðruvísi upp fyrr en líklegast er líka ...Hc1 í stað ...Hc5 auðveldara jafntefli þar sem svarti kóngurinn verður ekki jafn passífur og í skákinni.

Rd7_bragi_stelios

Hér lék Steilos Hf3! sem er eini vinningsleikurinn í stöðunni skv endataflsgrunnum.

Það skal ekki tekið af Stelios að hann tefldi lokin mjög vel og fann nánast einu leiðirnar til að skapa leiðindi og svo til að stýra vinningnum í höfn. Svekkjandi tap hjá Braga og síðasta skák dagsins og 1-3 tap niðurstaðan.

Heilt yfir því mjög sanngjarnt tap eftir dapran dag hjá okkar mönnum. Nóg er þó eftir og endaspretturinn alltaf mikilvægur.


                ********************************


Kíkjum á nokkra mola úr mótinu:

- Eugino Torre reynsluboltinn frá Filipseyjum sem er að tefla á sínu 23. Ólympíumóti og hefur jafnframt set met yfir flestar skákir tefldar á mótinu. Gamli kallinn er algjörlega "on fire" með 6/7 vinninga á mótinu. Spurning hvort hann gisti í Flame Towers?!

- Íran er með ungt og spennandi lið. Þeir voru á 9. borði, því sem við tefldum á í gær, og unnu þar stóran sigur á Mongólíu. Ivan Sokolov þjálfar þá en í liðinu eru mjög ungir strákar og meðal annars hið ofvaxna undrabarn Parham Maghsoodloo. Hann er taplaus í mótinu. Þarna er á ferðinni mikið efni og heimsmeistari U-16 og í ÓL U16 sigurliði Írana. Ávallt er hægt að finna hann í sama vestinu enda lítill tími til að skipta um föt þegar menn stúdera 16 tíma á dag!

7th_parham

- Bandaríkjamenn leiða mótið eftir stórsigur á Indverjum sem detta niður í deilt annað sætið ásamt fimm öðrum þjóðum. Þar er óvæntasta liðið Lettar með Shirov og Kovalenko en þeir lögðu Hollendinga í umferð dagsins. Þessi moli ætlar eitthvað að lengjast því þegar mér dettur þessi viðureign í hug þá dettur mér í hug skák Shirovs gegn Giri. Þar notaði Giri "beisiklí" engan tíma á skákin og átti 1:35 á klukkunni (5 mínútum meira en byrjað er með) þegar hann þvingaði þráskák rétt eftir 20. leik svarts. Shirov hinsvegar notaði mikinn tíma og starði ítrekað algjörlega gal út í tómarúmið en þegar Shirov gerir það velur hann sér oft punkt sem þá yfirleitt er manneskja á sviðinu og starir örugglega algjörlega ómeðvitað á þá manneskju með einhverskonar morðaugnaráði. Björn Ívar lenti einmitt í því í það síðustu umferð! 

- Ian Nepomniachti er algjörlega í einhverjum eigin heimi með 7 vinninga úr 7 skákum og grettir sig bara yfir hvað andstðingarnir með 2600+ elóstig eru að leika slökum leikjum og drekkur svo kókið sitt: linkur á skákina

- Magnus Carlsen er venjulega merktur sponsor sínum í VG eða klæddur einhverjum vönduðum jökkum. Í dag var hann frekar casual á því:

7th_mc

- Fyrst við vorum að tala um eigin heim hjá Nepomniachti kíkji á byrjunina hjá Jobava...hvað er að frétta segi ég nú bara! linkur á skákina

- Englendingar eru "back in the game" eftir að þeir flengdu Kínverja óvænt 3-1 í dag. Englendingar voru sendir með skottið milli lappana eftir 3,5-0,5 tap gegn Hollendingum fyrr í mótinu en hafa komið sterkir til baka. Michael Adams sveið Wang Yue (júúú) úr gjörsamlega engri stöðu, ég og Björn Ívar höfðum gert grin að því snemma í skákinni hvað þetta væri öruggt jafntefli. linkur á skákina

- Geðveiki dagsins, kíkjið á skák Marcus Ragger gegn Sebastian Maze. Næstum 30 leikir af Kóngsindverja teoríu gjörsamlega "úðað" út á báða bóga. linkur á skákina. Frakkar halda áfram að ströggla og eru jafnir okkur þrátt fyrir að hafa næst stigahæsta skákmann heims í sínum röðum.

- Þessi er frá Kyrgystan. Þeir tefla alltaf með þessa hatta!7th_kyrgystan

- Þessi mannvera biður kærlega að heilsa :-)  ...meistari Luis Galego frá Portúgal, mikill Íslandsvinur.

7th_galego

- Ekki er hægt að ljúka pistlinum án þess að minnast a´uppáhalds sveit okkar Björns Ívars en það er Suður-Súdan. Þeir unnu í dag auðveldan sigur á Sao Tome & Principe 3-1. Sao Tome er með stigamenn á öllum borðum þó stigalágir séu. Deng, Diing og Deng unnur allir en Deng tapaði....altso Michael Deng.

- Finnbjörn Vang, FIDE-dindill (uppnefni okkar hér á FIDE delegate) þeirra Færeyinga tefldi sína fyrstu skák á Ólympíumóti í 6. umferð í gær til þess væntanlega að Helgi Dam Ziska ætti betri möguleika á GM áfanga þar sem skák við 1960 stiga mann var ekki að gera neitt fyrir meðalstigin hans. Finnbjörn spreytti sig aftur í dag en afraksturinn er aðeins háflur vinningur.

- Hammer-vaktin. Jón Lúðvík landaði sínu sjöunda jafntefli í jafn mörgum skákum. Við bíðum en aftur alvöru "Hammer-blow"

- Maturinn á hótelinu hérna er orðinn aðeins þreyttur. Azerarnir virðist eiga það til að ofsteikja allt og fyrirbrigðið sósa er ekki í hávegum haft hér. Engu að síður var góður punktur hjá Gullu að eftir þeir steikja allt í drasl að þá allavega drepa þeir bakteríur eins og Salómon Elías. Við Bragi brutum þetta upp í kvöld og fundum Dominos pizza stað hér stutt frá hótelinu. Fín pizza og cheesy garlic bread. Sáttir.

 

Látum þetta gott heita af ADHD punktum dagsins. Á morgun mætum við Slóvökum....einhverjir apakettir (þeir vita hverjir þeir eru) höfðu sagt að við myndum mæta Slóvenum en á því er mikill munur! Sá misskilningur var þó leiðréttur fljótlega. Við mætum semsagt sveit sem leidd er af Ljubomir Ftacnik, gamla brýninu....eða Fantastic eins og túlkur landsliðsins kallaði hann ;-)  Slóvakar eru númer 49 í stigaröðinni og þvi ekki of kröfuhart að vonast eftir sigri á morgun þó búast megi við jafnri og spennandi viðureign. 

Ingvar Þór Jóhannesson - liðstjóri í opnum flokki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 31
  • Sl. viku: 184
  • Frá upphafi: 8764055

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 151
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband