Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Skákþættir Morgunblaðsins

Skákþáttur Morgunblaðsins: Stefnir í þátttökumet á Reykjavíkurskákmóti

Jóhann Hjartarson verður meðal keppenda á Reykjavíkurskákmótinu sem hefst í Hörpu þann 19. apríl nk. Jóhann tefldi síðasta Reykjavíkurskákmótið árið 1996 og hann hefur tvívegis verið í hópi sigurvegara þess, árin 1984 og 1992. Þá verður Hannes Hlífar Stefánsson einnig með en búast má við því að þeim fjölgi, bestu íslensku skákmönnunum, eftir því sem líður nær móti. Undanfarin ár hafa Reykjavíkurskákmótin verið haldin í byrjun mars en ákveðnir erfiðleikar vegna pantana urðu til þess að það var fært fram í apríl. Það skapar að vísu ákveðinn vanda hjá framhaldsskólanemendum sem eru í óða önn að undirbúa sig fyrir vorpróf.

Alls eru 277 keppendur skráðir til leiks og gæti mótið hæglega orðið það fjölmennasta frá upphafi. Reykjavíkurmótið hefur unnið sér sess sem eitt skemmtilegasta og sterkasta opna skákmótið í skákheiminum í dag og þegar hafa nokkrir þekktir kappar boðað komu sína. Stighæstir eru Hollendingurinn Anish Giri, Rússinn Dmitry Andreikin og Georgíumaðurinn Baadur Jobava sem eru allir yfir 2700 elo stigum. Þá má nefna skákmenn á borð við Alexei Shirov, Gata Kamsky, Gawain Jones og Filippseyinginn Eugenio Torre. 

Athyglin beinist að Praggnanandaah

GSK112C9CFjölmargir indverskir skákmenn munu verða með á Reykjavikurmótinu að þessu sinni og sumir koma ár eftir ár eins og t.d. skákdrottningin Tania Sadchev. En í ár mun athyglin sennilega beinast að Ramesh Praggnanandaah sem er aðeins 11 ára gamall og orðinn alþjóðlegur meistari. Hann vekur athygli hvar sem hann teflir. Sl. haust tefldi hann á sterku alþjóðlegu móti á eyjunni Mön þar sem hann vann þekktan meistara í aðeins 18 leikjum með svörtu. Skákina tefldi hann geysilega vel en stenst þó vart samanburð við skák sem Bobby Fischer tefldi við Donald Byrne 13 ára:

 

Axel Bachman – Ramesh Praggnanandaah

Kóngsindversk vörn

1. d4 Rf6 2. Bf4 g6 3. Rc3 d5 4. Dd2 Bg7 5. Bh6

Þetta virkar hálf frumstætt en svona gerast nú kaupin á eyrinni í dag.

5. ... O-O 6. Bxg7 Kxg7 7. O-O-O c5 8. e3 Rc6 9. f3 c4 10. e4 b5!

Svarar sókn á miðborði með kröftugum hætti. Hvítur hættir ekki á að opna b-línuna.

11. exd5 Rb4 12. Rxb5 Rxa2+! 13. Kb1 Dxd5

Í fljótu bragði virðist hvítur geta leikið 14. Rc7 en eftir 14. ... Db7! 15. Rxa8 kemur 15. ... c3! og vinnur.

14. Ra3 c3! 15. bxc3 Hb8+ 16. Ka1 Da5 17. Kxa2 Rd5 18. Re2 Be6!

GRK112C9L– og þar sem engin vörn finnst gegn riddaraskák á c3 gafst Bachmann upp, t.d. 19. c4 Rb4+ 20. Kb2 Rd3+ 21. Ka2 Hb2+ og mátar.

 

Keppni í landsliðsflokki hefst 9. maí

Ákveðið hefur verið að keppni í landsliðsflokki á Skákþingi Íslands fari fram í Hafnarfirði dagana 9. – 20. maí og verða keppendur tíu talsins, en ekki 12 eins og venja er. Jóhann Hjartarson hyggst ekki verja titil sinn en keppendalistinn lítur þannig út: 1. Héðinn Steingrímsson 2. Hannes Hlífar Stefánsson 3. Guðmundur Kjartansson 4. Þröstur Þórhallsson 5. Björn Þorfinnsson 6. Vignir Vatnar Stefánsson 7. Sigurbjörn Björnsson 8. Bárður Örn Birkisson og síðan er keppt um tvö sæti að auki í Áskorendaflokki Skákþings Íslands sem hefst þann 1. apríl nk.

------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 25. mars 2017

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Akureyringarnir á Íslandsmóti skákfélaga

Á Íslandsmóti skákfélaga sem lauk í Rimaskóla á dögunum sáust að venju stórskemmtileg tilþrif. Hvað varðar baráttuna um efsta sætið í 1. deild er sennilega hægt fallast á þá skýringu að keppnin, sem stendur ár eftir ár milli Hugins og Taflfélags Reykjavíkur, minni heilmikið á baráttu Celtic og Rangers í skoska boltanum. Þessi lið er skipuð titilhöfum á flestum borðum og styrkleikamunurinn sem kemur fram í miklum stigamun gerir það að verkum að barátta þeirra við önnur lið er oft skoðuð með tilliti til þess hversu marga vinninga þau missa í einstökum viðureignum. Vert er að taka fram að stig eru ekki látin ráða eins og t.d. í þýsku Bundesligunni, heldur samanlagður vinningafjöldi.

Akureyringar hafa oft í þessum viðureignum náð dýrmætum vinningum frá toppliðunum. Þeir hafa gert lítið af því að sækja skákmenn út fyrir landsteinana en byggja á reyndum skákmönnum í bland við yngri. Það er heilmikill félagslegur auður í þessu liði þeirra. Þegar keppnin hófst að nýju fimmtudagskvöldið 2. mars vann a-sveit TR Akureyringana 5:3 og við það að TR missti þrjá vinninga jukust sigurlíkur Hugins í keppninni. Þar vakti athygli glæsilegur sigur hins unga Jóns Kristins Þorgeirsson yfir einum af máttarstólpum TR-inga.

Jón Kristinn Þorgeirsson (SA) – Arnar Gunnarsson (TR)

Ítalskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bc4 Bc5 4. c3 Rf6 5. d4 exd4 6. cxd4 Bb4 7. Bd2!?

Þetta afbrigði ítalska leiksins nýtur nokkurra vinsælda. Löng og þvinguð leið sem hefst með 7. Rc3 Rxe4 8. O-O Bxc3 9. d5 Bf6! gefur svarti betri möguleika.

7. ... Bxd2+ 8. Rbxd2 d5 9. exd5 Rxd5 10. Db3 Rce7 11. 0-0 0-0 12. Hfe1 Rb6!?

Svartur ætti að geyma riddarann á d5 og því er 12. .... c6 sennilega betri leikur.

13. Had1 Rf5 14. Db4 Dd6 15. Dc5! Ra4?

Arnari hefur sennilega sést yfir næsti leikur hvíts en hvíta staðan er ógnandi.

16. Bxf7+! Kh8 17. Dc2 b5 18. Re4 Df4 19. Bd5 Hb8 20. Reg5 g6 21. He5 Rg7 22. Dxc7 Rxb2 23. He8!

GEI111AH2Glæsilega leikið. „Þungu fallstykkin“ í herbúðum hvíts eru öll í uppnámi. Samt er svartur varnarlaus.

23. ... Be6 24. Hxb8

og hvítur gafst upp.

Óvæntustu úrslit Íslandsmóts skákfélaga urðu þegar KR-ingar náðu jafntefli við a-sveit Hugins, 4:4. Ingvar Þ. Jóhannesson hafði unnið nálega allar skákir sínar fyrir Hugin en gætti ekki að sér í eftirfarandi viðureign:

Jón Bergþórsson (KR) – Ingvar Þ. Jóhannesson (Huginn)

Síðasti leikur Ingvars var 27. .... Be8-c6 og Jón greip tækifærið og tefldi sóknina af mikilli nákvæmni:

GEI111AH628. Rf6+! gxf6 29. gxf6! Kh8?

Eftir 29. ... Bxf3 30. Dg3+ Kf8 31. Dg7+ Ke8v 32. Dg8+ Kd7 33. Dxf7+ Kc6 34. Dxe6+ og Hxf3 er hvíta staðan betri en þetta var samt besti möguleiki svarts.

30. Bxc6 b5 31. Be4 Hd4 32. Bxh7! Bxe5 33. Dh4! Bxf6 34. Dxf6+ Kxh7 35. Dxf7+ Kh8 36. Df6+ Kh7 37. Hf3 Hd1+ 38. Kf2 Hd2+ 39. Ke1 Hxh2 40. Df7+ Kh8 41. Hg3!

– og svartur gafst upp.

Taflfélag Garðabæjar sigraði örugglega í 2. deild og endurkoman í 1. deild á næsta ári verður skemmtileg. Þá verður gaman að fylgjast með Hrókum alls fagnaðar, sem unnu 3. deildina og stefna hærra. Ýmis önnur lið hafa verið að endurskipuleggja sig, t.d. Taflfélag Vestmanneyja, sem leggur nú meiri áherslu á grasrótina en vann sæti í 3. deild á næsta keppnistímabili.

------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 18. mars 2017

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Huginn Íslandsmeistari þriðja árið í röð

A-sveit Hugins er Íslandsmeistari skákfélaga þriðja árið í röð eftir æsispennandi lokahrinu Íslandsmóts taflfélaga sem fram fór í Rimaskóla um síðustu helgi. Sem fyrr áttu Huginsmenn í harðri keppni um titilinn við A-sveit Taflfélags Reykjavíkur. Lokumferðirnar einkenndust af óvæntum úrslitum en þegar Íslandsmótið hófst aftur að kvöldi fimmtudags í síðustu viku hafði Huginn 2½ vinnings forskot á TR-inga, sem minnkuðu strax muninn í einn vinning. Á föstudagskvöldið töpuðu TR-ingar hins vegar þrem vinningum gegn hinni félagslega sterku sveit Skákfélags Akureyrar. Arnar Þorsteinsson, Jón Kristinn Þorgeirsson og Gylfi Þórhallsson unnu Stefán Kristjánsson, Arnar Gunnarsson og Daða Ómarsson. Við þessi úrslit og 6:2 sigur Hugins yfir Víkingasveitinni juku Huginsmenn forystuna og formsatriði virtist að ljúka mótinu. En að morgni laugardags sáu dagsins ljós óvæntustu úrslit keppninnar er skákdeild KR hélt jöfnu við Hugin, 4:4 en TR-ingar unnu þá Bolungarvík 5½:2½ og munaði því aðeins hálfum vinningi á liðunum fyrir lokaumferðina þegar TR mætti Fjölni og Huginn tefldi við b-sveit TR.

Gamlir nemendur Rimaskóla, Dagur Ragnarsson og Oliver Aron Jóhannesson, unnu Aman Hamelton og Björn Þorfinnsson og þó að TR hafi unnið samanlagt 5½:2½ dugði það ekki þar sem Huginn fékk sex vinninga gegn b-sveit TR. Lokaniðurstaðan í 1. deild varð þessi:

1. Huginn 52 v. (af 72) 2. TR 51 v. 3. Fjölnir 38½ v. 4. Víkingaklúbburinn 36 v. 5. Taflfélag Bolungavíkur 34½ v. 6. Huginn b-sveit 32½ v. 7. Skákfélag Akureyrar 31½ v. 8. KR 29 v. 9. Skákfélag Reykjanesbæjar 28½ v. 10. TR b-sveit 26½ v.

Í 2. deild sigraði Taflfélag Garðabæjar, í 3. deild sigruðu Hrókar alls fagnaðar og í 4. deild vann b-sveit Víkingaklúbbsins. 

Bragi náði áfanga að stórmeistaratitli

Eftir að fram kom tillaga um að fjölga umferðum í efstu deild Íslandsmóts skákfélaga í níu opnuðust möguleikar til sóknar að alþjóðlegum titlum. Tveir áfangar sáu dagsins ljós þegar Bragi Þorfinnsson og Davíð Kjartansson slíðruðu sverðin í síðustu umferð viðureignar TR og Fjölnis. Bragi hlaut 7 vinninga af níu en árangur hans reiknast upp 2.623 Elo-stig. Davíð náði árangri upp á 2.451 Elo-stig. 

Íslandsmót skákfélaga er umfram allt skemmtileg keppni þar sem dregin eru á flot skemmtileg lið og kunnir kappar. Kristján Guðmundsson, kennari við HR og Kvennaskólann í Reykjavík, var vinsæll leiðbeinandi ungra skákmanna hjá TR og farsæll liðsstjóri íslenska ólympíuliðsins á árunum 1984-´92. Í eftirfarandi skák tíndi hann upp leikvinningana og rak kóng andstæðingsins á flótta út á mitt borð:

Kristján Guðmundsson (Huginn) – Stefán Sigurjónsson (Reykjanesbær)

Frönsk vörn

1. e4 e6 2. d3 d5 3. Rd2 dxe4 4. dxe4 e5 5. Rgf3 Bd6 6. Rc4 Bb4+?!

Upphaf að ferðalagi biskups en betra var 6. ... De7 eða 6. .. Rc6.

7. c3 Dxd1+ 8. Kxd1 Bc5 9. Rcxe5 Bxf2 10. Bc4 Be6 11. Bxe6 fxe6 12. Hf1 Bb6 13. Rg5!

Svartur hefur tapað miklum tíma og getur ekki varið e6-peðið.

13. ... Rf6 14. Rxe6 Rxe4 15. Rxg7+ Ke7 16. Hf7+ Kd6 17. Bf4 Kc5 18. b4+ Kd5 19. Kc2 Rxc3!?

Stefán er útsjónarsamur og hyggst nú svara 20. Kxc3 með 20. ... Bd4+.

GS7110ADF20. Hf5! Hg8 2. Rd3+ Kc4 22. Rb2+ Kd4 23. Re6+

- og svartur gafst upp.

------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 11. mars 2017

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Á svona augnablikum ræðst gengi manna

Um miðjan ágúst sl. brast á hið svokallaða "demantsafmæli" undirritaðs. Í tilefni þess hófust miklar heitstrengingar um þátttöku á öflugu skákmóti og þá var ekki verið að hugsa um eitt af þessum túristamótum sem nú eru haldin út um allar koppagrundir, heldur „djúpu laugina“, „Volga, Volga mikla móða“. A-flokkur hins endurreista Aeroflot-móts í Moskvu og Gíbraltar-mótið eru sterkustu opnu mót ársins. Aeroflot-mótið rakst að vísu á heimsbikarmót FIDE sem fram fór í Sameinuðu arabísku furstadæmunum en á Cosmos-hótelið í Moskvu voru mættir til leiks margir af sterkustu ungu skákmönnum heims og stigalágmörk sett við 2550 elo.

Aðstæður mínar voru aðrar en flestra; ef undan eru skildar ýmsar flokkakeppnir hef ég aðeins tekið þátt í tveim einstaklingsmótum sl. tíu ár. Ýmsar aðvörunarbjöllur klingdu: æfingaleysi getur leitt til rangra ákvarðana, þreytu; sjálfstraust kann að hrapa. En hafði maður ekki lent í verðlaunasæti á þessum vettvangi árið 2004? Mótið var keyrt áfram – enginn frídagur og langar setur reyndu á úthaldið eða það sem Rússarnir kalla taugaorkuna. Lögmál Murphys um að allt sem getur farið úrskeiðis fari úrskeiðis virtist allsráðandi í fyrstu tveim skákunum: 

Irriturizaga – Helgi

GG710VBHK64. ... Bb8??

"Lært úrræðaleysi," voru svona mistök kölluð í eina tíð af gömlum félögum mínum. Ég hafði tvisvar áður misst af jafntefli og drýgði nú þá höfuðsynd að gefa upp alla von. Það blasir við að eftir 64. ... Bxg3! þvingar svartur fram jafntefli því að eftir 65. hxg3 er svartur patt.

Ekki gott vegarnesti að tapa þessari skák sem kostaði gríðarleg orkuútlát og 6 klst. taflmennsku.

„Það er kannski fulldjúpt í árinni tekið að halda því fram að ónákvæmni í 18. leik snemma móts geti skipt sköpum en ég hef nú samt á tilfinningunni að þarna hafi ég misst af 1. verðlaunum,“ skrifaði Bent Larsen um glatað tækifæri í skák sem hann tefldi við Anatolí Karpov í San Antonio í Texas haustið 1972. Larsen karlinn talaði oft digurbarkalega en áratuga keppnisreynsla hafði kennt honum að á nákvæmlega svona augnablikum ræðst gengi manna á skákmótum.

Annars staðar í salnum sat hinn frægi Gata Kamsky með tapað tafl gegn Serbanum Indjic:

 

Indjic – Kamsky

GG710VBHOIndic lék nú 59. f5 og eftir 59. ... Kf7 60. f6 Kf8 61. Ke6 Ke8 62. f7+ Kf8 63. Kf6 h6 64. Kg6 h5! varð hvítur að sættast á skiptan hlut.

"Aðeins sá sem hefur lært af mér getur leyst þessa þraut," skrifaði persneski skáksnillingurinn As Suli sem fæddur var árið 880 um skákdæmi sem hann birti í skákkennslubók sem lá gleymd og grafin í meira en þúsund ár eða þar til elsti núlifandi stórmeistari heims, Júri Averbakh, vakti athygli á henni og dæminu á Ólympíumótinu í Dubai árið 1986. "Reitirnir kallast á". Í því hugtaki lá lausnin sem Averbakh fann. Andspæni í ýmsum myndun: á ská, þversum og langsum, er gott íslenskt orð um þá tegund leikþvingunar sem Persinn kunni full skil á.

Aftur að stöðumyndinni: As Suli hefði ekki verið lengi að finna vinninginn: 59. h5 Kf7 60. Kd6 Kf6 61. h6! Kf7 62. Kd7! og vinnur, t.d. 62. ... Kf6 63. Ke8 o.s.frv.

Í B-flokki tefldu Guðmundur Kjartansson, Dagur Ragnarsson og Sigurður Daði Sigfússon. Þeir tveir síðastnefndu bættu ætlaðan árangur sinn og Guðmundur var á pari. 

------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 4. mars 2017

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Sókndjarfir fótgönguliðar

G2E10UDQDÁ hinu árlega Norðurlandamóti ungmenna sem fram fór í Drammen í Noregi um síðustu helgi tefldu Íslendingar fram ágætu liði í fimm aldursflokkum frá 10 til 19 ára aldurs. Við vorum með þrjá nýliða í hópnum en einnig stigahæsta keppandann, Vigni Vatnar Stefánsson, sem þurfti því miður að kljást við slæma hálsbólgu meðan á keppni stóð.

Aðrir liðsmenn Íslands voru Dagur Ragnarsson, Oliver Aron Jóhannesson, Hilmir Freyr Heimisson, Bárður Birkisson, Nansý Davíðsdóttir, Óskar Víkingur Davíðsson, Robert Luu, Stefán Orri Davíðsson og Gunnar Erik Guðmundsson, en tveir síðastnefndu voru nýliðar. Fararstjórar og þjálfarar voru undirritaður og Guðmundur Kjartansson.

Á NM ungmenna er keppt um verðlaun í fimm aldursflokkum og mótið er einnig keppni allra sex Norðurlandaþjóðanna þar sem samanlagður vinningafjöldi ræður niðurstöðunni. Þessi keppni hefur fengið síaukið vægi undanfarin ár. Fyrir síðustu unferð voru Íslendingar með 1 ½ vinnings forskot á gestina, Norðmenn, og með góða stöðu með tilliti til sigurs í tveim flokkum. En í lokaumferðinni var eins og hin stífa dagskrá, tvær kappskákir á dag, kæmi loksins niður á einbeitninni. Dagur Ragnarsson, Oliver Aron og Óskar Víkingur voru allir með unnar stöður en uppskeran var rýr, aðeins ½ vinningur úr þessum þrem mikilvægu skákum og til að bæta gráu ofan á svart þá sigldu Norðmenn fram úr okkur í 6-landa keppninni þar sem íslenska liðið endaði í 2. sæti, Svíar urðu í 3. sæti, Finnar og Danir í 5. sæti og Færeyingar ráku lestina. Oliver Aron fékk silfur í sínum flokki og Robert Luu brons. Þeir hlutu báðir 4 vinninga en Dagur, Vignir, Óskar Víkingur og Bárður fengu allir 3 ½ vinning.

Framkvæmd norsku skipuleggjendanna var með miklum ágætum.

Á mótinu voru tefldar fjölmargar skemmtilegar skákir en skák Dags í 5. umferð var án efa sú fallegasta. Það verður aldrei nógsamlega brýnt fyrir ungum skákmönnum að peð eru líka sóknarmenn; d- og h-peð hvíts ruddu brautina í eftirfarandi glæsiskák:

NM ungmenna 2017:

Dagur – Ragnarsson – Mikkel Jakobsen

1. d4 d5 2. c4 c6 3. Rf3 Rf6 4. Rc3 e6 5. Bg5 h6 6. Bxf6 Dxf6 7. e3 Rd7 8. Bd3 g6 9. O-O Bg7 10. Hc1 dxc4 11. Bxc4 O-O 12. He1 Hd8 13. e4 e5 14. d5 Rb6 15. Bb3 Be6?!

Óvenjulegur leikur í þekktri byrjun sem býður uppá þann athyglisverða möguleika að gefa drottninguna fyrir hrók og léttan. En Dagur ákvað að bíða átekta.

16. He3 cxd5 17. exd5 Df5 18. Re1 e4?!

Vafasamur leikur. Og nú voru öll bestu skilyrði fyrir hendi til að láta drottninguna af hendi.

G2E10UDQI19. dxe6! Hxd1 20. exf7+ Kh7 21. Hxd1 Hc8 22. Rxe4 Rc4 23. He2 Db5 24. Hc2!

Óþægileg leppun eftir c-línunni.

24. De5 25. Bxc4 Dxe4 26. Bd3! Dg4 27. Hxc8 Dxc8

28. Dxd1 29. Kf1 dugar skammt.

G2E10UDQN

 

 

 

28. h4!

Loftar út og hótar 29. h5.

28. ... h5 29. Rf3 Bxb2?

Þetta peð er eitrað. Hann gat enn barist með 29. Bf6 sem hvítur svarar best með 30. b3 ásamt 31. Bc4. Að endingu mun f7-peðið alltaf ráða úrslitum.

30. Rg5+ Kg7 31. He1! Ba3 32. He6! Dc1+ 33. Kh2 Df4+ 34. g3 Dxf2+ 35. Kh3

Vel reiknað, svartur á ekki fleiri skákir.

35. Kf8 36. He8+ Kg7 37. Hg8+

- og svartur gafst upp. Eftir 37. ... Kf6 vinnur 38. f8(D)+ eða 38. Re4+ Kxf7 39. Bc4+ og síðan fellur drottningin.

 

------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 25. febrúar 2017

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Daði og Þröstur efstir á Nóa Síríus mótinu

2017-02-14 19.03.55Fyrir síðustu umferð Nóa Síríus mótsins, sem hófst í Stúkunni á Kópavogsvelli í ársbyrjun og hefur silast áfram með einni umferð á viku, voru jafnir í efsta sæti þeir Daði Ómarsson og Þröstur Þórhallsson. Næstu menn voru vinningi á eftir og þess vegna kom ekki sérlega á óvart að þessir tveir skyldu slíðra sverðin eftir stutta viðureign og deila efsta sætinu. Í A-riðli voru keppendur 42 talsins og efstu menn urðu:

1.-2. Daði Ómarsson og Þröstur Þórhallsson 5 v. (af 6) 3.-4. Guðmundur Kjartansson og Jón Viktor Gunnarsson 4½ v. 5.-9. Benedikt Jónasson, Jóhann Hjartarson, Magnús Örn Úlfarsson, Björgvin Jónsson og Oliver Aron Jóhannesson 4 v.

Frammistaða Daða Ómarsson stendur upp úr og leiðir samanburður á frammistöðu hans og Þrastar í ljós að andstæðingar Daða voru mun stigahærri og árangur hans, sem reiknast uppá 2.798 Elo-stig, er frábær.

Jón Viktor Gunnarsson sat yfir í tveim fyrstu umferðunum en fékk 3½ vinning úr þeim skákum sem hann tefldi. Friðrik Ólafsson tefldi fimm skákir og gerði jafntefli í þeim öllum. Jón L. Árnason virkaði örlítið ryðgaður og sigurstranglegasti keppandinn, Jóhann Hjartarson, tapaði fyrir einum sem ekki gefst upp fyrr en í fulla hnefana; Benedikt Jónasson hækkaði um meira en 40 Elo-stig og einungis Daði Ómarsson og Björn Hólm Birkisson slógu honum við í þeim efnum.

Í B-riðli urðu efstir tveir úr Rimaskóla, Hörður Aron Hauksson og Jón Trausti Harðarson, en í 3. sæti varð ungur og efnilegur skákmaður, Stephan Briem.

Eins og áður hefur komið fram er það Jón Þorvaldsson markaðsráðgjafi sem hefur staðið fyrir þessum mótum undanfarin ár í samvinnu við styrktaraðila og tekist að búa til skemmtilega stemningu á skákstað.

 

Lundar Reykjavíkur í skemmtilegri netkeppni

Af ýmsum ástæðum hafa skipulagðar keppnir á netinu átt erfitt uppdráttar þar sem möguleikar á svindli hafa eyðilagt góðar fyrirætlanir um mótahald. En eftirlit með svindli á stóru vefsvæðunum hefur aukist og í seinni tíð hafa menn miskunnarlaust verið settir út af sakramentinu vegna grunsemda um tölvusvindl. Undanfarin miðvikudagskvöld hefur sveit sem nefnir sig Lundar Reykjavíkur tekið þátt í sterku alþjóðlegu netmóti á Chess.com og hafa unnið eina viðureign, gert eitt jafntefli en tapað þrisvar og eiga þegar tvær umferðir eru eftir enn veika von um að komast áfram í sérstaka úrslitakeppni. Þarna hafa teflt mest bræðurnir Björn og Bragi Þorfinnssynir og Jón Viktor Gunnarsson en einnig Ingvar Þ. Jóhannesson, Einar Hjalti Jensson, Jóhann Hjartarson og Hjörvar Steinn Grétarsson. Tímamörkin eru 15 2. Björn Þorfinnsson átti góðan dag þegar Lundarnir mættu sveit frá Stokkhólmi:

 

Björn Þorfinnsson – Evgení Agrest

Vængtafl

1. c4 c6 2. g3 d5 3. Bg2 Rf6 4. Rf3 Bg4 5. Re5 Bh5 6. cxd5 Rxd5 7. Rc3 e6 8. O-O Bd6 9. Rc4 Bc7 10. He1 O-O 11. Db3 b5 12. Re3 Rxe3 13. dxe3 a6 14. a4 Ba5 15. Hd1 Db6 16. axb5 axb5 17. e4 Ra6 18. Be3 Dc7 19. e5 Bb6

20. Rxb5!

Hugmyndin með þessum snjalla leik kemur fram eftir 24. leik hvíts.

20. ... cxb5 21. Bxa8 Hxa8 22. Bxb6 Dxb6 23. Hd6 Db7 24. Da2! Bxe2

24. ... Rc7 strandaði á 25. Dxa8+ og síðan mát í borðinu.

25. Dxa6 Dxa6 26. Hdxa6 Hxa6 27. Hxa6 g5 28. f4 gxf4 29. gxf4 Kg7 30. Kf2 Kg6 31. Kxe2

- og svartur gafst upp.

 

------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 18. febrúar 2017

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Guðmundur Kjartansson Skákmeistari Reykjavíkur 2017

GI110SBJHGuðmundur Kjartansson varð skákmeistari Reykjavíkur 2017. Fyrsti sigur Guðmundar á þessum vettvangi en fyrir lokaumferðina hafði hann ½ vinnings forskot á Dag Ragnarsson og Lenku Ptacnikovu. Guðmundur hafði í 8. umferð unnið lykilskák gegn Birni Þorfinnssyni sem rakin var í síðasta pistli. Tap fyrir Lenku í 3. umferð hægði örlítið á ferð hans en þó ekki meira en svo að hann vann sex síðustu skákir sínar. Rétt fyrir síðustu áramótin vann Guðmundur alþjóðlegt mót í Færeyjum en næsta verkefni hans er þátttaka á Aeroflot-mótinu í Moskvu sem hefst 21. febrúar. Þar sem Björn Þorfinnsson vann Dag Ragnarsson og Lenka tapaði fyrir Guðmundi Gíslasyni náði Björn einn 2. sæti en lokaniðurstaðan varð þessi:

1. Guðmundur Kjartansson 8 v. (af 9) 2. Björn Þorfinnsson 7 v. 3.- 6. Lenka Ptacnikova, Guðmundur Gíslason, Dagur Ragnarsson og Daði Ómarsson 6½ v. 7.-10. Örn Leó Jóhannsson, Björgvin Víglundsson, Benedikt Jónasson og Jóhann Ingvason 6 v.

Á Nóa Síríus mótinu dró svo til tíðinda sl. þriðjudagskvöld þegar Daði Ómarsson vann Guðmund Kjartansson og náði forystu fyrir lokaumferðina ásamt Þresti Þórhallssyni. Þeir eru báðir með 4½ vinning en Daði fékk ½ vinnings yfirsetu í 3. umferð og hefur því unnið allar fjórar skákirnar sem hann hefur teflt og reiknast árangur hans uppá 3.237 Elo-stig; 100% árangur skorar hátt á Elo-kvarðanum!

Í 3.-7. sæti koma Guðmundur Kjartansson, Jóhann Hjartarson, Helgi Áss Grétarsson, Björgvin Jónsson og Jón Viktor Gunnarsson með 3½ vinning. Þröstur hefur hvítt gegn Daða í lokaumferðinni.

 

Dellutaflmennska Hou Yifan á Gíbraltarmótinu

Frægasta delluskák sem sögur fara af fór fram á heimsmeistaramóti stúdenta í Graz í Austurríki sumarið 1972. Tveir „ófúsir ferðalangar“, v-þýski stórmeistarinn og papýrusfræðingurinn Robert Hübner og bandaríski stórmeistarann Kenneth Rogoff, sem síðar haslaði sér völl á vettvangi hagfræðinnar, áttu að tefla á 1. borði í viðureign stórþjóðanna. Af einhverjum ástæðum vildu þessir heiðursmenn ekki tefla þennan dag og sömdu jafntefli án taflmennsku. Skákstjórinn greip inn í atburðarásina og krafðist þess að þeir tefldu „almennilega skák“. Ákveðið „afstöðuvandamál“ er ekki óþekkt meðal skákmanna og það braust fram með eftirminnilega hætti þennan dag. Aftur settust Hübner og Rogoff að tafli og tefldu eftirfarandi skák:

 

Hübner – Rogoff

1. c4 Rf6 2. Rf3 g6 3. Rg1 Bg7 4. Da4 O-O 5. Dxd7+ Dxd7 6. g4 Dxd2+ 7. Kxd2 Rxg4 8. b4 a5 9. a4 Bxa1 10. Bb2 Rc6 11. Bh8 Bg7

GI110SBJL- Samið jafntefli.

Á opna mótinu á Gíbraltar, sem lauk um síðustu helgi með sigri bandaríska stórmeistarans Hikaru Nakamura, trúðu menn vart eigin augum þegar heimsmeistari kvenna, kínverska skákdrottningin Hou Yifan, gafst upp með hvítu eftir fimm delluleiki gegn Indverjanum Babu Lalith í lokaumferð mótsins: 1. g4 d5 2. f3 e5 3. d3 Dh4+ 4. Kd2 h5 5. h3 hxg4 og hvítur gaf.

Hou Yifan baðst síðar afsökunar á framgöngu sinni en sagði ástæðuna þá að mótsstjórnin á Gíbraltar hefði sveigt reglur um pörun á þann hátt að í sjö skákum af tíu hefði hún mætt konum og þeim viðureignum verið stillt upp sem einhvers konar uppgjöri við heimsmeistara kvenna. Hefði þetta haft slæm áhrif á sig og því hefði hún mótmælt með þessum hætti.

------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 11. febrúar 2017

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Umtöluð yfirsjón heimsmeistarans í Wijk aan Zee

carlsen-giri (1)Á Nóa-Síríus mótinu sl. þriðjudagskvöld vakti ein viðureign alveg sérstaka athygli. Friðrik Ólafsson og Jón Hálfdánarson mættust þá aftur í kappskák en þá var liðin næstum hálf öld frá síðustu viðureign þeirra sem fram fór á Skákingi Íslands vorið 1969. Þar varð Friðrik Ólafsson Íslandsmeistari í sjötta sinn eftir harða keppni við Guðmund Sigurjónsson en jafnaldrar hans tveir og skólabræður Jón Hálfdánarson og Haukur Angantýsson voru þá einnig meðal þátttakenda. Friðrik gerði jafntefli við Jón árið 1969 og aftur í Stúkunni á Kópavogsvelli. Þar eru línur aðeins teknar að skýrast þrátt fyrir yfirsetur og frestaða skák Jóhanns Hjartarsonar og Andra Áss Grétarssonar. Staða efstu manna: 1.-6. Guðmundur Kjartansson, Daði Ómarsson, Björn Þorfinnsson, Dagur Ragnarsson, Þröstur Þórhallsson og Magnús Örn Úlfarsson 2½ v. ( af 3 ).

Á Skákþingi Reykjavíkur eru nokkrir sömu „höfuðpaurarnir“ í toppbaráttunni en tefldar hafa verið sex umferðir: 1. Dagur Ragnarsson 5½ v. 2.-3. Guðmundur Kjartansson og Björn Þorfinnsson 5 v. 4.-6. Lenka Ptacnikova, Örn Leó Jóhannsson, Daði Ómarsson og Jóhann Ingvason. 4½ v. Á sunnudaginn mætast Dagur og Guðmundur. 

Wesley So með vinnings forskot í Wijk aan Zee

Wesley So halda engin bönd á stórmótinu í Wijk aan Zee sem lýkur um helgina en sl. miðvikudag vann hann auðveldan sigur á Pólverjanum Wojtaszek og náði við það vinningsforskoti á næstu menn. Umtalaðasta atvik mótsins átti sér stað í 7. umferð þegar þessi staða kom upp: 

GUI10QCE5Wijk aan Zee 2017: 

Magnús Carlsen – Anish Giri

Magnus átti nægan tíma á klukkunni og gat með sigri komist upp í efsta sætið. Nú sá hvert mannsbarn í salnum rakið mát:

56. Hc8+ Kg7

56.... He8 57. Hxe8+ Dxe8 58. Bxe8 er auðvitað vonlaust.

57. Hf7+ Kh6 58. Hh8 mát!

En í stað þess valdi hann:

56. Bf7+?? Kh8 57. Hh5+ Kg7 58. Bxe6+ Kf6 59. Hh6+ Ke5 60. Bh3 Dd2+ 61. Bg2 Dxh6 62. Hxc6

– og þó að hvítur eigi vinningsmöguleika í þessari stöðu náði Giri jafntefli eftir 128 leiki.

Vinningsleiðin minnir heilmikið á lokaskák einvígisins við Karjakin sl. haust, lykilreitirnir f7 og h8 eru þarna aftur mættir.

Viðureign tók sinn toll; þeir töpuðu báðir daginn eftir en Magnús vann í 9. umferð og er enn með í baráttunni en staða efstu manna eftir tíu umferðir var þessi:

1. Wesley So 7 v. (af 10) 2. – 6. Magnús Carlsen, Aronjan, Eljanov, Karjakin, Wei Yi 6 v. 7. Adhiban 5 ½ v.

Sigurskák Wesley So sem hér fylgir einkennist af óvenjumörgum snjöllum leikjum:

Wijk aan Zee; 10. umferð:

Wesley So – Radoslaw Wojtaszek

Katalónsk byrjun

1. c4 Rf6 2. Rf3 e6 3. g3 d5 4. d4 Be7 5. Bg2 0-0 6. Dc2 c5 7. 0-0 Rc6 8. dxc5 d4 9. a3 a5 10. Hd1 e5 11. Rc3 Bxc5 12. Rd5!

Leikbragð sem byggist á hugmyndinni 12.... Rxd5 13. cxd5 Dxd5 14. Rg5! o.s.frv.

12.... h6 13. Bd2 a4 14. Bb4 Rxb4 15. axb4 Rxd5 16. bxc5 Rb4 17. Dd2 Rc6 18. b4! De7 19. Db2 Bg4 20. He1 Hfd8 21. Rd2 Be6 22. b5 Rb8 23. Db4 f5 24. Rb3! Rd7 25. Bxb7 Hab8 26. Hxa4 Hxb7 27. c6 Dxb4 28. Hxb4 Hc7 29. cxd7 Hxc4 30. Hxc4 Bxc4 31. Hc1! 

GUI10QCE031.... Be6

Eða 31.... Bxb3 32. Hc8 og vinnur.

32. Hc8! Hxc8 33. dxc8=D Bxc8 34. b6

– og svartur gafst upp. Hann verður að gefa biskupinn fyrir b-peðið.

 

------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 28. janúar 2017

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Dagur í efsta sæti í tveim mótum

Á þeim tveim sterku mótum sem þessa dagana fara fram á höfuðborgarsvæðinu, Skákþingi Reykjavíkur og Nóa-Síríus mótinu, er komin upp sú staða að sami skákmaðurinn er efstur í báðum mótunum. Hinn 19 ára gamli Dagur Ragnarsson hefur teflt sex skákir í þessum mótum og unnið þær allar.

Nóa-Síríus mótið er afar vel skipað eins og áður hefur komið fram en það skekkir aðeins myndina að keppendur eiga tvisvar kost á hálfs vinnings hjásetu og nokkrir hafa enn ekki hafið keppni. Staða efstu manna:

1.-3. Dagur Ragnarsson, Guðmundur Kjartansson og Daði Ómarsson 2 vinningar. Tíu skákmenn eru með 1½ vinning þ. á m. stigahæsti keppandinn Jóhann Hjartarson, sem gerði jafntefli við Örn Leó Jóhannsson í 2. umferð.

Á Skákþingi Reykjavíkur hafa verið tefldar fjórar umferðir og þar er Dagur efstur ásamt Lenku Ptacnikova sem vann Guðmund Kjartansson nokkuð óvænt í 3. umferð. Þau eru með 4 vinninga en Björn Þorfinnsson og Guðmundur Gíslason koma næstir með 3½ vinning. 

Wesley So efstur í Wijk aan Zee

Wesley So, sem er fæddur og uppalinn á Filippseyjum en söðlaði um fyrir nokkru og tefldi fyrir Bandaríkin á síðasta Ólympíumóti, er í 4. sæti á janúarlista FIDE með 2.808 Elo-stig. Þar trónir á toppnum sem fyrr norski heimsmeistarinn Magnús Carlsen, sem teflir á sínu fyrsta móti með venjulegan umhugsunartíma eftir titilvörnina í New York á dögunum. Fátt bendir til annars en að þessir tveir muni berjast um efsta sætið á A-flokki hinnar árlegu skákhátíðar í Wijk aan Zee í Hollandi á næstu dögum.

Úkraínumaðurinn Eljanov hóf mótið af miklum krafti en á fimmtudag tapaði hann fyrir Levon Aronjan og við það komst So einn í efsta sætið. Staðan:

1. So 4 v. (af 5) 2.–3. Carlsen og Eljanov 3½ v. 4. Aronjan 3 v. 5.–10. Giri, Karjakin, Wojtaszek, Harikrishna, Wei og Andreikin 2½ v. 11.–12. Nepomniachtchi og Adhiban 2 v. 13. Rapport 1½ v. 14. van Wely ½ v.

Hollendingar binda enn vonir við hinn unga Anish Giri en hinn heimamaðurinn, Loek van Wely, er heillum horfinn. Vandinn við Giri, sem Nigel Short kallaði túrbó-útgáfuna af Leko á Twitter um daginn, er sá að hann vill festast í jafnteflisgír og öllum skákum hans í Wijk hefur lokið með jafntefli. Þá hefur Karjakin heldur ekki náð sér á strik og í 5. umferð tapaði hann fyrir lítt þekktum Indverja sem vann B-flokkinn í fyrra:

Sergei Karjakin – Baskaran Adhiban

Frönsk vörn

1. e4 e6 2. d4 d5 3. Rc3 Rf6 4. e5 Rfd7 5. f4 c5 6. Rf3 Rc6 7. Be3 Be7 8. Dd2 a6 9. a3 O-O 10. dxc5 Rxc5 11. Df2 Rd7 12. Rd4 Rxd4 13. Bxd4 f6 14. exf6 Bxf6 15. Bxf6?

Merkileg ónákvæmni. Það er eins og Karjakin hafi ekki viljað hrókera langt vegna 15. ... e5 með hugmyndinni 16. fxe5 Bg5+ og drottningin fellur. En hann getur leikið 16. Bc5 með ágætri stöðu.

15. ... Dxf6 16. g3 g5 17. O-O-O gxf4 18. Kb1 f3 19. g4?!

Betra var 19. Hd4 með hótuninni 20. Hf4.

19. ... Re5 20. g5 Dg7 21. g6?

Reynir að slá ryki í augu Indverjans.

21. ... hxg6 22. Bd3 Bd7 23. Hdg1 Rxd3 24. cxd3 Hf5 25. Hg4 Haf8 26. Hhg1 Be8!

„Franski biskupinn“ valdar g6-peðið kirfilega. Hvíta staðan er töpuð.

27. Rd1 Hh5 28. h4 He5 29. Re3 Bb5 30. Hd4

Reynir að halda stöðunni saman en næsti leikur gerir út um taflið.

30. ... He4! 31. Hxg6 Bxd3+

– og Karjakin gafst upp.

 

------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 21. janúar 2017

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Nafntogaðir kappar á Nóa Síríus-mótinu

GPK10OI4FNóa Síríus-mótið fer fram í tveim riðlum þar sem teflt er einu sinni í viku. Þetta er að öllum líkindum best skipaða innlenda mótið af þessu tagi sem farið hefur fram hér á landi. Í fyrstu umferð vakti athygli að Daði Ómarsson vann Jón L. Árnason og Mikael Jóhann Karlsson vann Sigurbjörn Björnsson. Þá var Guðmundur Kjartansson hætt kominn gegn Jóni Hálfdánarsyni en vann að lokum. En úrslit voru samt mikið eftir bókinni.

Einn helsti kostur þess móts er sá að fjölmargir ungir þátttakendur fá tækifæri til að tefla við þrautreynda skákmenn; fimm stórmeistarar eru meðal keppenda. Friðrik Ólafsson sest að tafli á þriðjudagskvöldið og mætir þá hinum unga Oliver Aron Jóhannessyni. 

Leikur ársins 2016

Hið virta hollenska skáktímarit New in Chess hefur nokkrum sinnum valið „Leik ársins“ og einvalalið þess komst að þeirri niðurstöðu að sá leikur ársins 2016 hefði komið fyrir í skák í Evrópukeppni taflfélaga sem haldin var í Novi Sad í Serbíu sl. haust. Einn besti skákmaður heims, Armeninn Levon Aronjan, var fórnarlambið. Staðan kom upp eftir 27. leik hvíts: 

Levon Aronjan – Richard Rapport

Tsjígorin-vörn

1. d4 d5 2. c4 Rc6 3. Rc3 Rf6 4. cxd5 Rxd5 5. Rf3 e5 6. dxe5 Bb4 7. Bd2 Rxc3 8. bxc3 Ba5 9. e3 O-O 10. Da4 Bb6 11. Df4 De7 12. h4 f6 13. exf6 Hxf6 14. Dc4+ Kh8 15. Bd3 Bf5 16. Bxf5 Hxf5 17. Rg5 Re5 18. De4 Dd7 19. O-O He8 20. Dc2 h6 21. Re4 Hh5 22. Rg3 Hxh4 23. Had1 Hf8 24. Bc1 Dg4 25. Hd5 Dg5 26. De2 c6 27. Hd4

GNK10OFHPHvítur reynir að stugga við hinum herskáa hrók á h4 og myndi glaður samþykkja 27. ... Bxd4 28. exd4 og hvítur er með unnið tafl. En Ungverjinn hafði séð þetta fyrir og lék... 

27. ... Hh1+! 28. Kxh1

28. Rxh1 er svarað með 28. ... Rf3+! og svartur vinnur drottninguna.

28. ... Bxd4 29. f3

Ekki 29. exd4 Dh4+ 30. Kg1 Rg4 og vinnur.

29. ... Bb6 30. Re4 Dh5 31. Kg1 Bc7 32. Kf2 Dh2 33. Ke1 Hd8

Ferðalag kóngsins er misráðið en hvíta staðan var erfið. Nú er svartur kominn með unnið tafl.

34. Bd2 Rd3+ 35. Kd1 De5 36. g4 Db5 37. Dg2 Rb2+ 38. Kc2 Rc4 39. Bc1 Hd5 40. g5 Ra5 41. Bd2 Dd3+

- og hvítur gafst upp, 43. Kc1 er svarað með 43. .... Hb5. 

Magnús Carlsen teflir í Wijk aan Zee

Um helgina hefst hin árlega skákhátíð í Wijk aan Zee í Hollandi, en þar tefla nokkur hundruð manns í fjölmörgum flokkum. Eins og jafnan áður beinist athyglin fyrst og fremst að a-riðli mótins, en þar er heimsmeistarinn og sigurvegarinn frá því í fyrra, Magnús Carlsen, stigahæstur. Aðrir keppendur í stigaröð eru Wesley So, Sergei Karjakin, Levon Aronjan, Anish Giri, Jan Nepomniachtchi, Pentala Harikrishna, Pavel Eljanov, Radoslav Wojtaszek, Dmitry Andreikin, Yi Wei, Richard Rapport, Loek Van Wely, Baskaran Adhiban.

------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 14. janúar 2017

Skákþættir Morgunblaðsins


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.7.): 3
  • Sl. sólarhring: 26
  • Sl. viku: 171
  • Frá upphafi: 8779109

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 107
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband