Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Skákþættir Morgunblaðsins

Skákþáttur Morgunblaðsins: Jóhann, Hjörvar og Héðinn hófu Íslandsmótið með sigri

Íslandsmeistarinn frá því í fyrra Guðmundur Kjartansson hóf titilvörn sína með því að gera jafntefli við Henrik Danielsen í 1. umferð Íslandsmótsins sem hófst í Hörpu á uppstigningardag. Sigur Guðmundar í fyrra kom verulega á óvart og hann er til alls vís í keppni landsliðsflokksins í ár. Mótið í ár vekur einkum athygli fyrir þátttöku Jóhanns Hjartarsonar og Jóns L. Árnasonar sem hefja þarna undirbúning sinn fyrir EM landsliða sem fram fer hér á landi í nóvember. Þegar dregið var um töfluröð varð útkoman þessi:

1. Henrik Danielsen 2. Sigurður Daði Sigfússon 3. Jón L. Árnason 4. Héðinn Steingrímsson 5. Einar Hjalti Jensson 6. Jóhann Hjartarson 7. Lenka Ptacnikova 8. Hjörvar Steinn Grétarsson 9. Bragi Þorfinnsson 10. Björn Þorfinnsson 11. Hannes Hlífar Stefánsson 12. Guðmundur Kjartansson.

Jóhann, Héðinn og Hjörvar unnu fremur auðvelda sigra í 1. umferð en Hannes Hlífar lenti í tapstöðu:

Daði-Hannes

Sigurður Daði Sigfússon – Hannes Hlífar Stefánsson

Hér at hvítur gert út um taflið með 21. Rxh7+ Kc7 22. Bf6 Hg8 23. De2! Kannski hefur Sigurður ekki tekið eftir því að leiki svartur 23.... Dg4 er hægt að taka riddarann á e5 með skák. Hann valdi hinsvegar að þráleika með 21. Rg4+ Ke8 22. Rf6+ Kd8 23. Rg4+ og nagar sig sennilega í handarbökin fyrir það.

Því er við að bæta að Friðrik Ólafsson, sem skoðaði þessa stöðu heima hjá sér, kom strax auga á leik sem „skákreiknarnir“ voru ekki með: 21. De2! Eftir 21. ... h6 22. Be3 Db4 á hvítur nokkra góða kosti t.d. 23. Hf4! Db8 24. Bc5! Rd7 25. Hd4 og vinnur. Það sem er athyglisvert við þessa stöðu að svartur getur bókstaflega engu leikið, t.d. 25. ... Dc7 26. De1! og drottningin er á leið til b4 eða h4.

Aðstæður á 8. hæð Hörpunnar eru prýðilegar með stórfenglegu útsýni yfir Faxaflóann, Esjuna, Akrafjall og Skarðsheiði. Aðstaðan er hinsvegar óviðunandi frá sjónarhóli áhorfenda þar sem einungis eru sýndar fjórar skákir á sýningartjaldi {Aths. ritstj. - átti aðeins við í fyrstu umferð vegna tæknimála - eftir það voru allar skákir sýndar). Vonandi bætir mótshaldarinn úr því. Hinsvegar er hægt er að fylgjast með öllum skákum í beinni útsendingu á netinu.

Alls hafa fimm þátttakendur einhvern tímann orðið Íslandsmeistarar. Hjörvar Steinn Grétarsson sem er 22 ára gamall hefur nokkrum sinnum reynt og kannski kemur röðin að honum í ár. Ef ekki þá er bara að vera þolinmóður; sá sem á flesta titla, Hannes Hlífar Stefánsson, varð Íslandsmeistari fyrst í tólftu tilraun. Hjörvar vann sannfærandi sigur á Einari Hjalta sem kom inn í mótið á síðustu stundu en Þröstur Þórhallsson og Stefán Kristjánsson hættu við þátttöku:

Skákþing Íslands 2015; 1. umferð:

Einar Hjalti Jensson – Hjörvar Steinn Grétarsson

Hollensk vörn

1. d4 f5 2. c4 d6 3. Rc3 Rf6 4. Rf3 g6 5. g3 Bg7 6. Bg2 0-0 7. 0-0 c6

Leningrad-afbrigði Hollensku varnarinnar nýtur mikilla vinsælda um þessar mundir. Svona tefldi Shkariyar Makedyarov á Reykjavíkurskákmótinu í vetur.

8. b3 Ra6 9. Bb2 Dc7 10. d5 e5 11. dxe6 Bxe6 12. Rg5 Hae8 13. Rxe6 Hxe6 14. Dc2 Rc5 15. e3 Rfe4 16. Re2 Hee8 17. b4?

Ekkert lá á þessum leik. Gott er 17. Hfd1 eða 17. Rd4.

17.... Bxb2 18. Dxb2 Rd3! 19. Da3 Re5 20. Hfd1 Rxc4 21. Dxa7 d5 22. Dd4 Ra3 23. Hdc1 De7 24. Rf4 Ha8 25. Rd3 Rb5 26. Db2 Ha3!

Lokar á framrás a-peðið og nær yfirráðum yfir a-línunni.

27. Re1 Dg7 28. Dxg7 Kxg7 29. Rc2 Ha4 30. Bf1 Rbc3 31. Rd4 Hfa8

Einar-Hannes32. f3

Hann varð að reyna 32. b5.

32.... Hxa2 33. fxe4 Hxa1 34. Hxc3 fxe4 35. Kg2 H8a3 36. Hxa3 Hxa3 37. Kf2 Kf6 38. Be2 Ha2

Með tvö peð yfir á hrókurinn alls kostar við léttu menn hvíts.

39. b5 c5 40. Rb3 b6 41. Kf1 Hb2 42. Bd1 Hxh2 43. Be2 Hh1 44. Kf2 Hb1 45. Rd2 Hb2 46. Ke1 Ke5 47. Kd1 c4

– og hvítur gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 16. maí 2015.

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Tvöfaldur sigur á Norðurlandamóti stúlkna

NansýNansý Davíðsdóttir varði Norðurlandameistaratitil sinn í aldursflokki C á Norðurlandamóti stúlkna, sem fram fór í Kolding í Danmörku um síðustu helgi. Nansý hafði nokkra yfirburði fram yfir stöllur sínar í flokknum og hlaut 4½ vinning af fimm mögulegum. Meðal keppinauta hennar var Anna Cramling Bellon, sem hlaut 3½ vinning í 2. sæti, en hún er dóttir Piu Cramling, skákdrottningar Svía, og spænska stórmeistarans Juans Manuels Bellons.

Keppt var í þremur aldursflokkum í Danmörku og í þeim elsta, sem skipaður var stúlkum fæddum 1994-1997, náði Hrund Hauksdóttir efsta sæti ásamt Jessicu Bengtson frá Svíþjóð, þær hlutu fjóra vinninga af fimm mögulegum en Jessicu Bengtson var dæmdur sigur eftir stigaútreikning. Frammistaða Hrundar er sérstaklega góð ef horft er til þess að áður en mótið hófst var hún númer 11 í stigaröðinni af 12 keppendum. Íslendingar áttu sex keppendur í mótinu og allar bættu stúlkurnar sig miðað við ætlaðan árangur. 

Spennandi Íslandsmót hefst í Hörpu 14. maí

Háuloft, skemmtilegur salur efst í Hörpu, verður vettvangur keppni landsliðsflokks á Skákþingi Íslands sem hefst hinn 14. maí. Mótið í ár vekur sérstaka athygli fyrir þær sakir að tveir Íslandsmeistarar frá síðustu öld snúa nú aftur; stórmeistararnir Jóhann Hjartarson, sem tefldi á Akureyri 1997 og vann þá sigur, og Jón L. Árnason, sem tefldi síðast á Íslandsþingi í Garðabæ haustið 1991, en hann varð Íslandsmeistari 16 ára gamall árið 1977. Endurkoma þeirra á sér þær skýringar að í nóvember nk. teflir Ísland fram „gullaldarliði“ á Evrópumóti landsliða, en Ísland má sem mótshaldari stilla upp tveimur liðum a.m.k. Aðrir keppendur í landsliðsflokknum verða Íslandsmeistarinn Guðmundur Kjartansson, Hannes Hlífar Stefánsson, Hjörvar Steinn Grétarsson, Héðinn Steingrímsson, Henrik Danielsen, Stefán Kristjánsson, Þröstur Þórhallsson, Bragi Þorfinnsson, Sigurður Daði Sigfússon og Lenka Ptacnikova. 

Leikur ársins

Hollenska tímaritið New in chess heldur stöðu sinni sem virtasta skáktímarit heims. Í síðasta hefti þess er grein eftir Jan Timman um leik ársins 2015. Slíkur leikur þarf að vera nægilega fjarstæðukendur til að hljóta slíkan sess í skáksögunni og kom fyrir á Evrópumóti einstaklinga sem fram fór í Jerúsalem í vetur sem leið: 

EM 2015; 10. umferð:

Khismatullin – Eljanov

GKUU2HLTStaðan kom upp eftir 43. leik Úkraínumannsins Eljanovs. Þó að kóngur hans sé á vergangi blæs heldur ekki byrlega í herbúðum hvíts, t.d. 44. He1 Hf6! 45 f4+ Kh4 og svartur vinnur!

Hvítur lék: 44. Kg1!! og eftir 44.... Dxd1+ 45 Kh2 Hxc6 46. De7+ Kh6 47. Df8+ Kg5 kom 48. Dxf7! Hf8 (hvað annað?)49. f4+ Kh6 50. Dxf6 De2 51. Df8+ Kh5 52. Dg7! h6 53. De5+ Kh4 54. Df6+ Kh5 55. f5! gxf5 56. Dxf5+ Kh4 57. Dg6!gafst svartur gafst upp. Það er engin haldgóð vörn gegn hótuninni 58. Dxh6+ Dh5 59. g3 mát. Þessi sigur Rússans fleytti honum í 2.-4. sæti en sigurvegari Evrópumótsins varð landi hns Evgení Najaer. Eftir skákina komust menn að því með aðstoð öflugra skákreikna að besti leikur svarts er annar fjarstæðukenndur leikur, 44.... Hd5! til að finna hróknum stað á f5.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 9. maí 2015.

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Magnús Carlsen á sigurbraut í Aserbadsjan

Magnus Carlsen - mblMagnús Carlsen er aftur sestur að tafli og heldur uppteknum hætti að veita ráðningu kunningjum sínum í efstu sætum heimslistans. Viðkomustaður hans á þessari mögnuðu sigurgöngu er nú borgin Shamkir í Asderbadsjan þar sem tíu manna mót stendur yfir og lýkur um helgina. Mótið er haldið til minningar um dáðan stórmeistara Asera, Vugar Gashimov. Eftir sex umferðir er Magnús efstur með 4 ½ vinning, næstur er Filippseyingurinn Wesley So með 4 vinninga, í 3. sæti er Anand með 3 ½ vinning, Caruana og Mamedyarov eru í 4. – 5. sæti með 3 vinninga; í 6. – 9. sæti með 2 ½ vinning eru Kramnik, Mamedov, Vachier-Lagrave og Giri. Lestina rekur svo Michael Adams með 2 vinninga. Þó mótið sé augljóslega vel skipað vantar nokkra toppmenn, t.d. Nakamura og Aronjan.

Magnús hefur eins og áður hefur komið fram verið óútreiknanlegur hvað byrjanaval snertir. Á því hefur Caruana fengið að kenna undanfarið. Ítalinn hvíldi kóngspeðið í skák þeirra í þriðju umferð. Gegn drottningarpeðsbyrjun kaus Magnús að tefla grjótgarðsafbrigði hollensku varnarinnar og vann örugglega. Þessi byrjun sem kom mikið við sögu í heimsmeistaraeinvígi Botvinniks og Bronsten árið 1951, komst aftur í tísku áratugum síðar eða uppúr 1985. Þá var „grjótgarðurinn“ aftur farinn að bíta og skákmenn á borð við Artur Jusupov, Nigel Short og Simen Agdestein beittu þessari byrjun við hvert tækifæri. Einfaldasta starategía hvíts hefur löngum verið talin sú að ná fram uppskiptum á svartreita biskupunum og tefla síðan upp á hægfara þrýsting á drottningarvæng og miðborði. Eitthvað fór að halla undan fæti hjá helstu merkisberum grjótgarðsins; og sumir gerðust afhuga uppbyggingu sem býður uppá þungaflutninga og skotgrafahernað.

En sagan endurtekur sig alltaf – líka í skákinni. Samt er eins og Magnús Carslen veki skyndilega upp gamlan draug. Fyrr árinu beitti hann grjótgarðinum gegn Anand og vann á skákmóti í Þýskalandi. Nú var komið að Caruana:

Fabiano Caruana – Magnús Carlsen

Hollensk vörn

1. d4 f5 2. g3 Rf6 3. Bg2 e6 4. c4 c6 5. Rf3 d5 6. O-O Bd6 7. b3 De7

Leikur Jusupovs, svartur hindrar uppskipti á svartreita biskupum að hætti Botvinniks með – Ba3.

8. Bb2 b6 9. Re5 Bb7 10. Rd2 O-O 11. Hc1 a5

Þekkt úr skákum níunda áratugarins og mikilvægur þáttur í uppbyggingu svarts, drottningarriddarinn stendur best á a6.

12. e3 Ra6 13. Rb1 Bxe5!?

Þriðja vers. Svartur gerir best í að losa sig við þennan riddara.

14. dxe5 Re4 15. De2 a4 16. Rc3 axb3 17. axb3 Db4 18. Rxe4 dxe4 19. Dc2 Rc5 20. Bc3 Dxb3 21. Dxb3 Rxb3 22. Hb1 Rc5 23. Hxb6 Ra4 24. Hxb7 Rxc3 25. He7 Hfe8 26. Hxe8 Hxe8 27. Ha1 Hd8 28. Bf1 c5 29. Ha3 Rb1 30. Ha1 Rd2 31. Be2?

Betra var 31. Kg2.

31. ... Rf3+! 32. Bxf3 exf3 33. h3 h5 34. g4 fxg4 35. hxg4 h4 36. Kh2 Hd2 37. Kh3 g5 38. e4

Leggur lúmska gildru fyrir Magnús, 38. ... Hxf2 blasir en hvítur á svarið 39. Ha8+ Kf7 40. Ha7+ Ke8 41. He7+! og eltir síðan kónginn eftir 7-reitaröðinni. Hirði kóngurinn hrókinn er hvítur patt!

G4GU025C38. ... Hd4!

Eftir þetta falla hvítu peðin eins og flugur.

39. Ha8 Kf7 40. Ha3 Hxc4 41. Hxf3 Ke7 42. He3 Hd4 43. f3 c4 44. Ha3 Hd3 45. Ha7 Kd8 46. Kg2 c3 47. Ha4 c2 48. Hc4 Hd2 49. Kh3 Kd7 50. Hc5 Hf2 51. f4 Hf3 52. Kh2 Hxf4

– og Caruana gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 25. apríl 2015.

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Snjallsímasvindl, Wesley So og Nakamura

Þetta átti að vera skáklega útgáfan af Guðföðurnum: Michael Corleone (Al Pacino) gengur inn á salerni, nær í skammbyssu falda í vatnskassa gengur síðan aftur inn í matsalinn og sallar síðan niður borðnauta sína. Í skák-útgáfunni á stórmóti í Dubai fyrr í þessum mánuði hafði skákmeistari Georgíu, Gajos Nigalidze, falið snjallsíma inni á salerni. Annað veifið gerði hann sér ferð þangað inn til að sækja upplýsingar úr skákforriti símans sem starfaði á ofurkrafti á meðan skákinni stóð. En upp komst um strákinn Tuma: Andstæðingur hans Armeninn Tigran Petrosjan bað skákstjórann um að fylgjast með tíðum ferðum Georgíumannsins á salernið og niðurstaðan liggur nú fyrir. Gajos Nigalidze var rekinn úr mótinu með skömm og hlýtur vonandi langt keppnisbann.

Þetta mál er eitt fjölmargra sem komið hafa upp á seinni árum en þau frægustu eru svindl Frakkans Sebastian Feller á Ólympíumótinu í Khanty Manyisk 2010 og „Toilet-gate“-þrefið mikla vegna tíðra salernisferða Vladmir Kramniks í heimsmeistaraeinvíginu við Topalov í Kalmykíu haustið 2006. Þó að FIDE hafi þegar samþykkt hertar reglur sem varðar allt það tæknidót sem menn og konur geta borið á sér hefur fræjum tortyggni verið sáð í skáksölum heims.

Annað mál sem á sér sennilega skýringar í klaufaskap eða hugsunarleysi kom upp á dögnum hefur vakið mikla athygli fjölmiðla og varðar eina helstu vonarstjörnu skákarinnar í dag, Filippseyinginn Wesley So sem er í 8. sæti á stigalista FIDE . Hann settist nýlega að í Bandaríkjunum og naut um skeið styrks frá Webster-háskólanum St. Louis, vann milljón dollara mótið í Las Vegas rétt fyrir jólin og varð í 2. sæti á stórmótinu í Wijk aan Zee í ársbyrjun. Sem sagt: allt í lagi hjá pilti eða allt þar til á útmánuðum að upp blossaði einhvers konar forræðisdeila um þennan annálaða sómasvein. Af fréttum að dæma virðast helstu aðilar þess máls auk So vera móðir hans, Leny So, sem þrátt fyrir blóðböndin var bönnuð á vettvangi síðasta móts sonarins, og fósturforeldrar hans frá Minnesota. Í miðri orrahríðinni settist So niður til að tefla í fyrsta sinn á meistaramóti í St Louis í Mississippi-ríki. Sér til hugarhægðar var hann að krota einhver hvatningarorð á skorblað sitt og nýbúinn að leika sínum sjötta leik gegn Varuzhan Akobian í 9. umferð þegar dómarinn stöðvaði skyndilega skáklukkuna og dæmdi Akobian sigur. So hafði víst fengið viðvörun áður en fannst eins og ýmsum öðrum full langt gengið í refsigleðinni.

Mál Wesey So dró athygli frá sigurvegara bandaríska meistaramótsins í fjórða sinn, Hikaru Nakamura vann í fjórða sinn, So náði þrátt fyrir allt þriðja sæti. Í St. Louis tefldi Nakamura af miklum krafti og vann glæsilega sigra sbr. eftirfarandi viðureign:

Kayden Troff – Hikaru Nakamura

Benony-vörn

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rf3 c5 4. d5 exd5 5. cxd5 d6 6. Rc3 g6 7. g3 Bg7 8. Bg2 0-0 9. 0-0 He8 10. He1 a6 11. a4 Rbd7 12. e4 Rg4 13. Rd2 Rge5 14. Bf1 g5 15. h3 Df6 16. Dh5 Bh6 17. Rd1 g4 18. Re3 Bxe3 19. Hxe3 Dg7 20. hxg4 Rxg4 21. Hc3 Rdf6 22. Dh1 He5 23. Df3 Bd7 24. Dd3 Dh6 25. Bg2 Dh2 26. Kf1

GIFTUUA626. ... Rxf2! 27. Kxf2 Bh3 28. Df1 Hxe4 29. Rxe4 Rxe4 30. Ke3 Bxg2 31. Df4 Rxc3 32. Dg5 Kf8 33. bxc3 He8 34. Kf2 Bh1

- og hvítur gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 18. apríl 2015.

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Hjörvar Steinn vann áskorendaflokk Íslandsmótsins

Hjörvar og DagurDanski stórmeistarinn Bent Larsen á eina skákbyrjun sem ber nafn hans: Larsens-byrjun hefst með hinum hógværa peðsleik 1. b2-b3. Leikurinn einn sér er í sjálfu sér ekki merkilegur, hvítur vill koma biskupinum fyrir á hornalínunni og þeir sem fylgdust með taflmennsku Larsens á sjöunda áratug síðustu aldar vissu að hann sérhæfði sig í vængtöflum og spegilmynd þessa leiks á kóngsvængnum, 1. g2-g3, kom einnig fyrir í skákum hans. Árið 1970 tefldi Larsen eina sína frægustu skák. Á 1. borði heimsliðsins í keppni við úrvalslið Sovétríkjanna mætti hann heimsmeistaranum Boris Spasskí. Larsen hóf taflið með 1. b2-b3. Allt ætlaði um koll að keyra í Sava-center í Belgrad þar sem keppnin fór fram þegar Spasskí vann skákina í 17 leikjum! Eftir það fækkaði skákum Larsen með þessari byrjun, a.m.k. í viðureignum hans við þá bestu. Bobby Fischer, sem hafði gefið eftir að tefla á fyrsta borði fyrir heimsliðið, fylgdist grannt með því sem Larsen tók sér fyrir hendur og í fjórum skákum þetta ár valdi hann upphafsleik Larsens og vann allar skákirnar með glæsibrag. Nálgun hans var samt önnur; í skákunum sem hann tefldi við Svíann Ulf Anderson og Úkraínumanninn Vladimir Tukmakov fékk hann upp ákveðna stöðutýpu sem líktist Sikileyjarvörn og þar var hann öllum hnútum kunnugur.

Byrjun Larsens kom við sögu í einni skák áskorendaflokks Íslandsmótsins sem lauk um síðustu helgi með öruggum sigri Hjörvars Steins Grétarssonar sem hlaut 7 ½ vinning af 9 mögulegum. Keppt var um tvö sæti í landsliðsflokki árið 2016 og hitt sætið kom í hlut Guðmundar Gíslasonar sem hlaut 7 vinninga. Í 3. sæti varð Davíð Kjartansson með 6 ½ vinning. Þar á eftir komu svo Lenka Ptacnikova og nokkrir ungir skákmenn sem allir áttu möguleika á landsliðsæti fram á síðasta dag. Einn þeirra, Dagur Ragnarsson, sem nýlega vann það afrek að hækka meira á stigum millli mánaða en dæmi eru um, tefldi við Hjörvar Stein í lokaumferðinni og tapaði. Hann hafði byrjað illa en vann svo fimm skákir í röð. Í næstsíðustu umferð mætti hann Lenku Ptacnikovu og ákvað að fylgja í fótspor Larsens:

Skákþing Íslands 2015 – áskorendaflokkur; 8. umferð.

Dagur Ragnarsson – Lenka Ptacnikova

Larsens-byrjun

1. b3 e5 2. Bb2 Rc6 3. e3 d6 4. d4 exd4 5. exd4 d5 6. Rf3 Bb4+ 7. Rbd2 Rf6 8. a3 Be7 9. Bd3 a6 10. Re5 Rb8 11. O-O c5

Byrjunarleikir svarts eru fremur ómarkvissir og þessi hjálpar til við virkja biskupinn á b2.

12. He1 O-O 13. dxc5 Bxc5 14. Df3 Be6 15. Rf1 He8 16. Rg3 Bf8 17. Rh5!

Svartur á þegar í miklum erfiðleikum, 17. ... Rbd7 strandar á 18. Rxd7 Rxd7 19. Bxg7! og vinnur, 19. ... Bxg7 er svarað með 20. Dg3.

17. ... Rxh5 18. Dxh5 h6

Hvað annað? 18. ... g6 er svarað með 19. Rxg6! fxg6 20. Bxg6! og vinnur.

GBKTTUPQ19. Rxf7! Bxf7 20. Df5! He4

20. ... g6 liggur beinast við en hvíta drottningin kemst á hornalínuna a1-h8 með 21. Hxe8! t.d. 21. .... Bxe8 22. De5 eða 21. ... Dxe8 22. Df6 og vinnur.

21. Hxe4 Dg5

Þetta er vonlaust framhald en 21. ... dxe4 22. Bxe4 g6 23. De5 kemur í sama stað niður.

22. Dxg5 hxg5 23. Hg4 Be7 24. He1 Bf6

Eða 24. ... Rc6 25. h4 Bh5 26. Hxe7! Rxe7 27. Hxg5 o.s.frv.

25. Bxf6 gxf6 26. h4 Bh5 27. Hg3 g4 28. f3 Rc6 29. fxg4 Bf7 30. g5

- og svartur gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 11. apríl 2015.

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Lenka efst í áskorendaflokki Íslandsmótsins

Lenka Ptacnikova er efst í áskorendaflokki á Skákþingi Íslands þegar fjórar umferðir hafa verið tefldar. Hún vann Oliver Aron Jóhannesson í 4. umferð sem tefld var á þriðjudagskvöldið og hefur þegar þetta er ritað vinnings forskot á næstu menn. Áskorendaflokkurinn gefur tvö sæti til þátttöku í landsliðsflokki að ári en landsliðsflokkurinn 2015 fer fram í Hörpunni í lok maí nk. Meðal keppenda í áskorendaflokknum er stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson. Það er í sjálfu sér ekki eftir neinu að slægjast fyrir hann þar sem hann hefur öll réttindi hvað varðar landsliðsflokkinn. Hjörvar hefur áður kosið að tefla í þessum flokki til að halda sér í æfingu og margir af efnilegustu skákmönnum okkar fá nú tækifæri til að tefla kappskák við öflugan stórmeistara. Einn þeirra, Bárður Örn Birkisson, gerði jafntefli við Hjörvar Stein í fyrstu umferð og var raunar lengst af með unnið tafl eftir að hafa snúið á Hjörvar í miðtaflinu. Bárður tefldi skínandi vel en stigamunur á þessum tveimur er meiri en 700 elo-stig en Hjörvar mun ef að líkum lætur láta að sér kveða á lokasprettinum. Staða efstu manna:

1. Lenka Ptacnikova 4 v. (af 4) 2.-3. Jón Trausti Harðarson og Davíð Kjartansson 3 ½ v. 4. Oliver Aron Jóhannesson, Guðmundur Gíslason, Gylfi Þórhallsson, Emil Sigurðsson og Hjörvar Steinn Grétarsson 3 v.

Í opna flokknum eru þrír skákmenn efstir en það eru Ýmir Nikulás Valgeirsson, Birkir Ísak Jóhannsson og Stefán Orri Davíðsson sem er aðeins átta ára gamall. Eftir þessa miklu skáktörn kemur smá hlé en fjölmörg verkefni bíða vorsins og seinni helming þessa árs og ber þar vitaskuld hæst Evrópumót landsliða sem fram fer í Reykjavík í nóvember. Heimsmeistaramót ungmenna fer fram í Grikklandi í október og Evrópumót ungmenna í Króatíu í september. Ekki er von á öðru en íslensk ungmenni stefni á þessi mót og þá einkum á það fyrrnefnda en í 3. umferð mættust þessi tvö sem þegar hafa öðlast nokkra reynslu á alþjóðlegum vettvangi:

Skákþing Íslands; 3. umferð:

Tinna Kristín Finnbogadóttir – Dawid Kolka

Caro-Kann vörn

1. e4 c6 2. d3 d5 3. Rd2 e5 4. Rgf3 Bd6 5. d4 exd4 6. exd5 cxd5 7. Bb5+ Rc6 8. O-O Re7 9. Rxd4 O-O 10. R2f3

Þessi staða hefur margsinnis komið upp í Tartakower-afbrigði frönsku varnarinnar – munurinn er hinsvegar sá að hvítur á yfirleitt leik!

10. ... Bg4 11. Rxc6 bxc6 12. Bd3 Dc7!?

Það kann að vera að þessi leikur sem hótar 13. ... Bxh2+ sé byggður á yfirsjón en þó hvítur vinni nú peð hefur svartur gott spil fyrir það.

13. Bxh7+ Kh8 14. Dd4! Dd7

14. .... Bxf3 strandaði á 15. Dh4! sem vinnur.

15. Bd3 c5 16. De3 d4

Betra var 16. ...c4 og síðan Hfe8.

17. De4?!

Tinna átti 17. Dg5! en þá hefur svartur engar bætur fyrir peðið.

17. ... f5 18. De2 Hae8 19. Bb5 Rc6 20. Dd1 Db7! 21. Ba4 He6?!

Missir af 21. .... Re5 sem vinnur því eftir 22. Bxe8 Bxf3 23. gxf3 Rxf3+ 24. Kh1 Hxe7 er hvítur nánast leiklaus.

22. h3 Bh5 23. Bxc6 Dxc6 24. Rxd4 De8 25. g4?

Opnar of mikið á kóngsstöðuna. Hægt var að leika 25. Rf3 og varnir hvíts halda.

25. ... Bxg4 26. hxg4 cxd4 27. g5 f4! 28. Dg4 f3 29. Bd2 Dg6 30. Dh3+ Kg8 31. Hae1 Be5! 32. c3 Hf5! 33. cxd4 

GEETT7HS33. ... Hxg5+! 34. Bxg5 Dxg5+ 35. Kh1 Hh6

- og hvítur gafst upp enda blasir mátið við.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 4. apríl 2015.

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Huginn öruggur sigurvegari á Íslandsmóti skákfélaga en leikreglur sæta gagnrýni

Íslandsmeistarar Hugins2

Skákfélagið Huginn, A-sveit, vann sannfærandi sigur á Íslandsmóti skákfélaga sem lauk í Rimaskóla um síðustu helgi. Huginn hlaut 56½ vinning af 72 mögulegum. Taflfélag Reykjavíkur varð 2. sæti með 55 vinninga og Taflfélag Vestmannaeyja varð í 3. sæti með 52½ vinning. Þessar sveitir höfðu umtalsverða yfirburði yfir önnur lið.

Taflfélag Vestmanneyja hefur mörg undanfarin ár lent í öðru eða þriðja sæti keppninnar en munurinn á sveit TV og t.d. sveit Hugins núna og sigurvegurum fyrri ára virðist liggja í því að keppinautarnir hafa haft meiri breidd. Sveit Hugins tefldi fram 18 liðsmönnum á keppnistímabilinu 2014-2015 þar af átta stórmeisturum og þrem þeirra vel yfir 2600 elo-stigum. Við þessu er ekkert að segja. Leikreglurnar að öðru leyti teljast varla sanngjarnar, er þá einkum litið til þess þegar öflugustu félögin eru með tvö lið í efstu deild. Huginn var að þessu sinni eina félagið sem var í aðstöðu til tefla fram B-sveit. Á það hefur verið bent að meðalstig B-sveitar Hugins í viðureigninni við Taflfélag Reykjavíkur hafi verið 2238 elo-stig; þegar B-sveitin mætti A-sveit Hugins voru meðalstigin dottin niður í 1854 elo-stig.

Það blasir við að breytinga er þörf á þessu fyrirkomulaginu; í öðrum keppnisgreinum þekkist þetta fyrirkomulag ekki; síðasta skráða dæmið um B-lið í alvarlegri keppni verður maður að sækja til ársins 1968 þegar B-lið KR komst alla leið á Melavöllinn í úrslitaleik bikarkeppni KSÍ í knattspyrnu.

Íslandsmót taflfélaga er eitt allsherjar gallerí af karakterum; Áskell Örn Kárason skartaði bleikum Lennon-gleraugum sem fóru honum mjög vel og Héðinn Steingrímsson kom með sérstakan skrifstofustól til að sitja í. Ekkert nýtt er að skákmenn haldi tryggð við sinn stól; stóll Fischers frá áskorendaeinvíginu við Tigran Petrosjan haustið 1971 kom nokkrum mánuðum síðar fljúgandi frá Buenos Aires til Íslands.

Aftur að liðunum í efstu deild: Kjarninn hjá Skákfélagi Akureyrar samstendur af liðsmönnum sem stigu sín fyrstu skref í skákinni hjá þessu frábæra félagi. Einn þeirra, Rúnar Sigurpálsson, lagði í glannalega fórn í fyrstu umferð gegn greinarhöfundi og tapaði. Í næstu umferð gekk betur. Hann tefldi þá við portúgalska stórmeistarann Louis Galego:

Louis Galego (Víkingaklúbburinn) – Rúnar Sigurpálsson (SA)

Sikileyjarvörn

1. e4 Rf6 2. d3 d6 3. f4 g6 4. Rf3 Bg7 5. Be2 0-0 6. 0-0 c5 7. Rc3 Rc6 8. De1 Rd4 9. Bd1

Þessa byrjun má einnig kalla hollenska vörn með skiptum litum.

9.... Bg4 10. Rxd4 cxd4 11. Re2 Db6 12. h3 Bxe2 13. Dxe2 Rd7 14. g4 Hac8 15. h4 e6 16. h5 gxh5?! 17. gxh5?!

Peðaframrás hvíts á kóngsvængum er ekki ýkja hættuleg en hér átti Galego tvímælalaust að leika 17. g5 og taka síðan h5-peðið við tækifæri.

17.... h6 18. Hf2 Kh8 19. b3 Hg8 20. Df3

Það er erfitt að andæfa á g-línunni þegar drottningarvængurinn situr eftir.

20.... f5 21. exf5 exf5 22. Hg2 Bf6 23. Dd5?

Hann varð að leika 23. Hg6! og þá er staðan í jafnvægi.

23.... Hxg2+! 24. Kxg2 Db4! 25. De6 Dc3 26. Hb1 Dc6+

Rúnar nær að knýja fram sigur með nokkrum hárbeittum leikjum.

27. Kh2 Hg8 28. De2

Valdar g2-reitinn en þessi leikur dugar skammt.

G7ATS75628. ... Re5! 29.Df1

Eða 29. fxe5 Bxe5+ 30. Kh3 Dh1+ og mátar.

29.... Rg4+ 30. Kh3 Rf2+

– og Galego gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 28. mars 2015.

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Skákfélagið Huginn varð Íslandsmeistari

Íslandsmeistarar Skákfélagsins Hugins

Skákfélagið Huginn er Íslandsmeistari skákfélaga keppnistímabilið 2014-2015 en fjórar síðustu umferðir Ísllandsmótsins fóru fram í Rimaskóla um helgina. Fyrir lokasprettin sóttu sveitir Taflfélags Reykjavíkur og Taflféags Vestmannaeyja hart að efsta liðinu en þrátt fyrir stóra sigra hélt Huginn forystunni allt til enda. Tíu sveitir tefldu í efstu deild og fór keppnin fram á átta borðum í hverri umferð. Lokaniðurstaðan varð þessi:

1. Huginn 56½ v. (af 72 mögulegum) 2. Taflfélag Reykjavíkur 55 v. 3. Taflfélag Vestmannaeyja 52½ v. 4. Fjölnir 38 v. 5. Taflfélag Bolungarvíkur 36 v. 6. Skákfélag Akureyrar 33½ v. 7. Vikingaklúbburinn 29½ v. 8. Huginn b-sveit 25 v. 9. Skákfélag Reykjanesbæjar 17½ v. 10. Skákfélag Íslands 16½ v.

Íslandsmótið fer fram samkvæmt hefð í tveimur hlutum en fyrri hlutinn fór fram sl. haust. Reglur keppnnnar gera ráð fyrir að erlendir keppendur megi vera tveir í hverri umferð. Meðal erlendu stórmeistaranna sem tefldu með sveit Hugins voru Englendingurinn Gawain Jones, Búlgarinn Cheparinov, Hollendingurinn Robin Van Kampen og Kanadamaðurinn Eric Hansen. Hjörvar Steinn Grétarsson og Stefán Kristjánsson tefldu allar níu umferðirnar fyrir Hugin.

Íslandsmótið fór fram í fjórum deildum. Í 2. deild sigrað Taflfélag Reykjavíkur. Í 3. deild sigraði c-sveit Taflfélags Reykjavíkur og í 4. deild sigraði d-sveit Taflfélags Reykjavíkur. 

Jón beið í 45 ár eftir sigri yfir stórmeistara

Talsvert var um óvænt úrslit í keppni helgarinnar. Baldur Kristinsson sem tefldi fyrir b-sveit Hugins vann stórmeistarann Margeir Pétursson í 6. umferð. Í 7. umferð vann Rúnar Sigurpálsson Portúgalann Louis Galego, Stefán Bergsson vann Helga Áss Grétarsson í 8. umferð og í sömu umferð vann Guðmundur Kjartansson sigur á Jóhanni Hjartarsyni. 

Þegar seinni hluti Íslandsmótsins hófst sl. fimmtudagskvöld var það hinn 72 ára Jón Kristinsson sem átti sviðið er hann vann Henrik Danielsen sem tefldi fyrir Taflfélag Vestmanaeyja á sannfærandi hátt. Jón var einn sigursælasti skákmaður Íslands á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Um miðjan áttunda áratuginn var hann ráðinn útbússtjóri Búnaðarbanka Íslands á Hólmavík og hætti þá taflmennsku að mestu leyti. En hann er byrjaður aftur og hefur verið með á tveim síðustu Reykjavíkurskákmótum. Á Reykjavíkurmótinu árið 1970 vann hann stórmeistarana Friðrik Ólafsson og Milan Matulovic og í Rimaskóla 45 árum síðar kom næsti sigur:

Jón Kristinsson - Henrik Danielsen

1. d4 d6 2. c4 e5 3. Rc3 exd4 4. Dxd4 Rc6 5. Dd2 Rf6 6. g3 Be6 7. Rd5 Re5 8. b3 Re4 9. Dc2 Rc5?! Svartur átti sterkari leik 9.... Bf5.

10. Bb2 c6 11. Rf4 Be7 12. b4 Bf6 13. Hc1 Rd7 14. Rxe6 fxe6 15. Bh3 0-0 16. f4 Db6? Hæpin mannsfórn. Eftir 16.... Rf7 17. Bxe6 hefur svartur vissar bætur fyrir peðið.

17. fxe5 Rxe5 18. Dd2 Had8 19. Bd4 c5 20. Be3 d5

Hann varð að bregðast hart við liðskipunaráformum svarts.

21. Bxc5 Da6 22. b5 Da4 23. Bxe6+ Kh8 24. Bxd5 Hfe8 25. Bd4 Hxd5 26. cxd5 Bg5 27. e3! Rg4 28. Hc3 Bxe3 29. Bxe3 De4 30. Rf3! Dxf3 31. Hf1 De4 32. d6 Rxe3 33. Hxe3! 

G8PTRCSV33.... Db1+

Gegn leiknum sem blasir við: 33.... Dxe3+ hafði Jónfundið snjalla vinningsleið:

34. Dxe3+ Hxe3 35. Kf2! He8 36. d7 Hd8 37. He1! og vinnur.

34. Ke2 Dxb5+ 35. Dd3 Db2+ 36. Kf3

og svartur gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 23. mars 2015.

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: "Peðin er sál skákarinnar"

Við óperuhúsið í París stendur meðal fjölmargra minnismerkja brjóstmynd af Francois André Philidor einu helsta tónskáldi Frakka á 18. öld. Þessum franska aðalsmanni var margt til lista lagt en í dag er hann sennilega þekktastur fyrir afrek sín á skáksviðinu. Um miðja 18. öld var hann langfremsti skákmaður heims og er stundum talinn í hópi hinna óopinberu heimsmeistara ásamt Paul Morphy og Adolph Andersen – þeim er tefldi „Ódauðlegu skákina“. Árið 1749 kom út eftir Philidor-bókin Skákrannsóknir. Nokkrar stöður sem hann tók til meðferðar í bókinni segja heilmikið um dýpt athugana hans t.d. er vinningsleið í endataflinu kóngur, hrókur og biskup gegn kóng og hrók ekkert minna en tær snilld.

„Peðin eru sál skákarinnar,“ er frægasta setning bókarinnar. Orð voru dýr í þá daga. Ritskoðunarmenn töldu að þessi lína væri dulbúin hvatning til uppreisnar gegn Loðvík fimmtánda og Philidor var rekinn frá óperuhúsinu. Byltingin kom 40 árum síðar en þá var Philidor staddur í London og þrátt fyrir setninguna um peðin var hann settur á dauðalista nýrra stjórnvalda.

Þegar greinarhöfundur var að labba um ganga Hörpu á meðan á Reykjavíkurmótinu stóð tók ég eftir því að Henrik Danielsen, sem stóð sig einna best íslensku keppendanna, tefldi nokkrum sinnum upp þá einu byrjun sem ber nafn Philidor. Hún hefur aldrei notið mikilla vinsælda en Henrik hefur náð góðum tökum á henni og vann með henni hinn öfluga tékkneska stórmeistara David Navara:

Reykjavíkurskákmótið 2015; 10. umferð:

David Navara – Henrik Danielsen

Philidors-vörn

1. e4 d6 2. d4 Rf6 3. Rc3 e5 4. Rf3 Rbd7 5. Bc4 Be7

Hér er komin fram eitt helsta afbrigði Philidor varnarinnar. Ein leið sem ti boða stendur er 6. Bxf7++!? Kxf7 7. Rg5+ Kg8 8. Re6 De8 9. Rxc7 Dg6 og svartur heldur velli.

6. a4 0-0 7. 0-0 c6 8. He1 exd4 9. Rxd4 Re5 10. Ba2 He8 11. h3 a5 12. Be3 Bf8 13. Dd2 Rg6 14. f3 Be6 15. Rxe6 fxe6 16. f4 Kh8 17. f5 exf5 18. exf5 Re5 19. Bd4

Navara sem er geysisterkur í byrjunum hefur byggt upp vænlega stöðu þó varnir svarts séu traustar.

19.... Red7 20. Hxe8 Dxe8 21. He1 Dh5 22. Be6 d5 23. De3

Eðlilegra er að stilla drottningunni upp á f2 en Navra vildi hafa vald á h3-peðinu.

23.... Dh4 24. g4

Þetta var hugmyndin. Hvítur hótar 25. g5. En Navara var grandalaus um hætturnar sem leynsast í stöðunni.

GP4TR0IR– sjá stöðumynd

24.... Bc5! 25. He2??

Gerir illt verra. Hann varð að leika 25. Bxc5 Rxc5 26. He2 eða 25. Hd1. Í báðum tilvikum er svarta staðan betri.

25.... Rxg4! 26. f6 Dxf6!

Vitaskuld ekki 26.... Rxe3 27. fxg7+ mát! Nú hrinur hvíta staðan til grunna.

27. Bxf6 Rgxf6 28. Bxd7 Rxd7 29. Dxc5 Rxc5 30. He7 Kg8 31. Re2 Kf8 32. Hc7 He8 33. Kf1 He3 34. c3 Hxh3 35. b4 axb4 36. cxb4 Rxa4 37. Hxb7 Hh4 38. Kf2 Rb2 39. Kf3 Rd3

- og Navara gafst upp. 

Úrslit á Íslandsmóti skákfélaga ráðast um helgina

Skákfélagið Huginn, Taflfélag Reykjavíkur og Taflfélag Vestmannaeyja eiga í harðri baráttu um sigurinn á Íslandsmóti skákfélaga en seinni hluti keppninnar hófst í Rumaskóla á fimmtudagskvöldið. Huginn var fyrir lokasprettinn með 28 ½ vinning í efsta sæti, TR er með 28 vinninga og TV er í 3. sæti með 27 ½ vinning. Langt er í fjórða lið en Fjölnir situr þar með 23 vinninga. Meira um keppnina síðar.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 21. mars 2015.

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Öruggur sigur þrátt fyrir óvænt tap

G8DTQRHGHollendingurinn Erwin L'Ami sigraði á Reykjavíkurskákmótinu sem lauk í Hörpu í gær, hlaut 8 ½ vinning af 10 mögulegum. Hann hafði tryggt sér sigurinn fyrir umferðina í gær en tapaði þá nokkuð óvænt með hvítu fyrir sigurvegaranum frá Reykjavíkurmótinu 2013, Úkraínumanninum Pavel Eljanov sem varð varð í 2. – 3. sæti ásamt Frakkanum Fabien Libiszewski. Þeir hlutu báðir 8 vinninga.

Íslensku skákmennirnir náðu ekki að blanda sér í baráttuna um efsta sætið en flesta vinninga hlutu þeir Henrik Danielsen, sem vann David Navara glæsilega í lokaumferðinni, og Hannes Hlífar Stefánsson sem vann án taflmennsku þar sem andstæðingur hans, rúmenska skákkonan Christina Foisor gat ekki mætt til leiks vegna breytingar á ferðáætlun. Þeir hlutu báðir 7 ½ vinninga og urðu í 4.–14. sæti. Hannes raðast í 11. sæti og Henrik í 12. sæti.

Það er nánast hefð fyrir því í sögu Reykjavíkurmótanna að við eigum a.m.k. einn keppanda sem er í færum um að berjast um sigurinn og Hannes Hlífar hefur ekki látið sitt eftir liggja á því sviði og hefur fimm sinnum orðið efstur einn eða með öðrum. En þegar nokkrar umferðir voru eftir af mótinu var útséð um að nokkur okkar manna ætti möguleika á sigri. Fyrirfram mátti ætla að Hannes Hlífar og Hjörvar Steinn ættu bestu möguleikana á toppsæti. 

Misráðin ákvörðun

Það reyndist hinsvegar misráðin ákvörðun hjá þeim báðum að taka ½ vinnings yfirsetu. Þeir virtust báðir gleyma því að þetta Reykjavíkurskákmót með tíu umferðum og tæplega 300 þátttakendum er meira í ætt við spretthlaup en langhlaup og hvíld er einfaldlega ekki í boði ætli menn sér að vinna mótið.

Mótshaldið sem kalla mætti skákhátíð var skákhreyfingunni til mikils sóma og lögðu fjölmargir hönd á plóg. Hliðarviðburðir á borð við „barna-blitz“, knattspyrnukeppni og „pub-quiz“ lífguðu heilmikið uppá mótshaldið, einnig koma heimsmeistarans Magnúsar Carlsen sem ásamt landa sínum Jon Ludwig Hammer færði spurningakeppnina vinsælu upp á nýtt plan.

Þá heimsótti Kirsan Iljumzhinov, forseti FIDE, Ísland í fyrsta sinn, einnig Zurab Azmaparashvili, forseti evrópska skáksambandins, en þeir áttu báðir brýnt erindi vegna Evrópukeppni landsliða sem fram fer í Reykjavík í nóvember á þessu ári.

Fagmannlega var staðið að streymis-útsendingum sem voru í höndum Ingvars Jóhannessonar og vinkonu okkar frá Luxemburg, Fionu Stein-Atoni. Nýr aðalmagni Reykjavíkurmótsins fjárfestingarfyrirtækið Gamma vann vel með mótshaldaranum og einn forsprakki þess, Agnar Tómas Möller, tók sjálfur þátt í mótinu og stóð sig vel.

Einn aðalkosturinn við þetta form Reykjavíkurmótsins er að fjölmargir ungir skákmenn öðlast mikilsverða reynslu og margir hækkuðu duglega að stigum. Topp fimm lítur svona út:

1. Óskar Víkingur Davíðsson 150 stig, 2. Hilmir Freyr Heimissson 112 stig, 3. Heimir Páll Ragnarsson 103 stig, 4. Veronika Steinunn Magnúsdóttir 86 stig, 5. Oliver Aron Jóhannesson 82 stig.

Hvað varðar góða frammistöðu annarra keppenda má nefna að Áskell Örn Kárason hlaut 6 ½ vinning og ungu mennirnir i Skákfélagi Akureyrar, Símon Þórhallsson og Jón Kristinn Þorgeirsson, áttu báðir gott mót og hækkuðu einnig myndarlega að stigum.

Hinn 17 ára gamli Oliver Aron Jóhannesson átti frábært mót, hlaut 7 vinninga eins og Hjörvar Steinn Grétarsson og urðu þeir í 15. – 31. sæti. Oliver gerði sér lítið fyrir og vann fjórar síðustu skákir sínar og í næst síðustu umferð lagði hann þekktan sænskan stórmeistara.

Reykjavíkurskákmótið 2015; 9. umferð:

Oliver Aron Jóhannesson – Ralf Åkesson

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 e6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 a6 5. Bd3 Bc5 6. Rb3 Be7 7. Dg4 g6 8. De2 d6 9. O-O Rd7 10. c4 b6 11. Rc3 Bb7 12. f4 Dc7 13. Bd2 Rgf6 14. Hae1 h5 15. Rd4 Hc8 16. e5?!

Vafasamur leikur sem lukkast vel. Mun betra er 16. Kh1 eða 16. b4.

16. ...dxe5 17. fxe5 Bc5?

Það er fuðurlegt að svartur skuli ekki nýta sér helstu kosti þess að hafa leikið 14. ... h5. Eftir 14. ... Rg4! riðar e5-peðið til falls og fórnir á g6 eða e6 ganga ekki upp.

18. exf6 Bxd4+ 19. Kh1 Rxf6

Og hér var betra að hrókera stutt.

G8DTQRHP20. Bxg6! Dxc4

Ekki gengur 20. ... fxe6 21. Dxe6+ Kf8 22. Hxf6+ Bxf6 23. Dxf6+ Kg8 24. He7 og vinnur.

21. Dxc4 Hxc4 22. Hxe6+! Kd7 23. Bxf7 Hc6 24. He2 Hh7 25. Bg6! Hg7 26. Bf5+ Kd8 27. Bh6!

Biskuparnir fara hamförum.

27. ... He7 28. Hd2 Hc4 29. Re2!

– og Åkesson gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 19. mars 2015.

Skákþættir Morgunblaðsins


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 106
  • Frá upphafi: 8780629

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 87
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband