Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Skákþættir Morgunblaðsins

Skákþáttur Morgunblaðsins: Erwin L'ami lagði Mamedyarov og er efstur

Magnús fylgist meðHollendingurinn Erwin L'ami er efstur þegar sjö umferðir hafa verið tefldar á Reykjavíkurskákmótinu í Hörpu en í uppgjöri efstu manna í gær vann hann Aserann Mamedyarov í aðeins 21 leik. Þrjár umferðir eru eftir af mótinu og línur teknar að skýrast hvað varðar baráttuna um efsta sætið en illa gekk hjá okkur mönnum á efstu borðum. Hannes Hlífar Stefánsson var ekki vel með á nótunum í hvössu afbrigði Caro-Kann varnar í skákinni við Perúmanninn Granda Zuniga og tapaði með hvítu í aðeins 18 leikjum. Afbrigðið er það sama og Kasparov tefldi í lokaskák einvígisins við ofurtölvu IBM Dimmblá vorið 1997 og tapaði sem frægt varð í aðeins 19 leikjum.

Jón Viktor Gunnarsson hafði fyrir umferðina hlotið 5 vinninga af sex mögulegum í viðureignum við hvern stórmeistarann á fætur öðrum. Hann missti niður afar vænlega stöðu gegn Kanadamanninum Eric Hansen í áttundu umferð og tapaði. Fyrir áttundu umferð sem fram fer í dag er staða efstu manna þessi:

1. Erwin L'ami (Holland) 6½ v.( af 7) 2.-5. Pavel Eljanov ( Úkraína ) Daniel Naroditsky (Bandaríkin), Granda Zuniga (Perú) og Eric Hansen (Kanada) 6 v.

Henrik Danielsen er sem stendur efstur íslensku skákmannanna og er með með 5½ vinning ásamt 12 öðrum skákmönnum. Með 5 vinninga eru Jón Viktor Gunnarsson, Hannes Hlífar Stefánsson, Hjörvar Steinn Grétarsson, Héðinn Steingrímsson og Dagur Arngrímsson. Þeir geta allir náð háu sæti með góðum endaspretti.

Mamedyarov sem vann fimm fyrstu skákir sínar á mótinu einsetti sér greinilega að flækja taflið gegn Hollendingum L'ami og lagði ýmsar gildrur fyrir hann í miðtaflinu. Það kom svo flatt uppá menn þegar hann féll á eigin bragði:

Reykjavíkurskákmótið 7. umferð

Erwin L´ami – Shakriyar Mamedyarov

Enskur leikur

1. d4 d6 2. c4 e5 3. Rc3 exd4 4. Dxd4 Rc6 5. Dd2 g6 6. b3 Bg7 7. Bb2 Rf6 8. g3 O-O 9. Bg2 He8 10. Rf3 Bf5 11. Rh4 Bd7 12. O-O Dc8 13. Hfe1 Bh3 14. Bh1 Dg4 15. Rg2 Dd4 16. Had1 Re4 17. Dxd4 Bxd4 18. Hxd4 Rxd4 19. Rf4 Rg5 20. Rxh3 Rxh3 21. Kf1 

GOHTQCI1 (1)Í þessari stöðu lagði Mamedyarov niður vopnin og fannst mönnum það sérkennilegt þegar slíkur baráttujaxl á í hlut. Þó hann sé skiptamun undir er staðan töpuð, t.d. 21. ... c6 22. Re4! o.s.frv. eða 21. ... Rc6 22. Rd5 Hec8 23. f4 og riddarinn á h3 sleppur ekki út.

Fjölmargir skákmenn eru að ná góðum árangri á þessu Reykjavíkurmóti og sjá fram á mikla stigahækkun. Einn þeirra er hinn 13 ára gamli Hilmir Freyr Heimisson sem vann þrautreyndan skákmann, Erling Þorsteinsson, í 33 leikjum í gær. Lok skákarinnar vöktu athygli: 

Hilmir Freyr Heimisson – Erlingur Þorsteinsson

Hilmir hafði fórnað manni snemma tafls, Erlingur hitti ekki á bestu vörnina og átti í vök að verjast þegar hér var komið sögu:

GOHTQCHU (1)33. Hb7+!

– og svartur gafst upp því mátið blasir við, 33. .... Bxb7 34. Dc7+ Ka8 35. Hd8+ Hxd8 36. Dxd8+ Bc8 37. Dxc8 mát.

Heimsmeistarinn Magnús Carlsen kom til landsins seinni part föstudagsins og vann um kvöldið hina vinsælu „pub-quiz“ keppni ásamt landa sínum Jon Ludwig Hammer. Mætti í Hörpuna á laugardaginn og skýrði nokkrar skákir í „streymis-útsendingum“ mótshaldarans, fór á pöbba-rölt um kvöldið og mætti síðan í hefðbundna knattspyrnukeppni á sunnudagskvöldið sem fór fram í Mýrinni.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 16. mars 2015.

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Hjörvar og Jón Viktor í fararbroddi

Hjörvar Steinn Grétarsson vann Zhansaya Abdumalik frá Kasakstan í fjórðu umferð Reykjavíkurskákmótsins á fimmtudagskvöldið og var með fullt hús vinninga ásamt fimm öðrum fyrir fimmtu umferð sem fram fór í gærkvöldi. Hann átti að tefla við Aserann Shakriyar Mamedyarov í toppslag umferðarinnar. Íslensku skákmennirnir hafa margir hverjir staðið sig prýðilega þó enginn eins vel og Jón Viktor Gunnarsson sem hafði hlotið 3 ½ vinning úr fjórum skákum eftir sigur á Gawain Jones á fimmtudagskvöldið. Hann gerði jafntefli við næststigahæsta keppanda mótsins, Tékkann David Navara, sem mátti berjast fyrir jafntefli peði undir í erfiðu hróksendatafli.

Með 3 vinninga af fjórum voru meðal annarra Hannes Hlífar Stefánsson, Einar Hjalti Jensson, Guðmundur Kjartansson, Henrik Danielsen, Einar Valdimarsson og Þröstur Þórhallsson. Athygli vekur einnig frammistaða hins unga Jóns Kristins Þorgeirssonar sem er með 2 ½ vinnning eftir jafntefli við indverska stórmeistarann Sahaj Grover í 4. umferð. Í þeirri umferð var heldur meira jafnræði með keppendum en í þeim fyrstu og margar stórskemmtilegar baráttuskákir sáu dagsins ljós. Mikla athygli vakti skák Héðins Steingrímssonar við Aserann Shakriyar Mamedyarov en Mamedyarov hafði sigur eftir að hafa náð að snúa á Héðin í miðtaflinu.

Jón Viktor Gunnarsson dróst á móti Svíanum Nils Grandelius í umferð gærdagsins. Það vita flestir að hann á heilmikið inni og gæti hæglega nælt sér í áfanga að stórmeistatatitli ef svo heldur fram sem horfir. Hann fann glæsilega vinningsleið gegn Gawain Jones þegar margir töldu að hann þyrfti að taka jafntefli með þráskák.

Gawain Jones – Jón Viktor Gunnarsson

Enskur leikur

1. c4 c5 2. Rf3 g6 3. g3 Rc6 4. Rc3 Bg7 5. Bg2 d6 6. O-O Bf5 7. d3 Dd7

Þetta dálítið frumstæða kerfi sem byggist á framrás h-peðsins hefur Jón Viktor margoft reynt í hraðskák. Hvers vegna ekki að prófa það líka í kappskák?

8. He1 Bh3 9. Bh1 h5 10. Rg5 h4 11. Rd5 hxg3 12. hxg3 Rf6 13. Rf4 Bg4 14. f3 e5!

Byrjunartaktík Jóns hefur gengið fullkomlega upp, hann hefur náð að opna h-línuna og getur hrókerað langt.

15. Rd5 Be6 16. e4 Rh5 17. Kf2 Bxd5 18. exd5 Rd4 19. g4 Rf6 20. Bg2 O-O-O 21. Be3 Rh7 22. Rxh7 Hxh7 23. Dd2 f5 24. Hh1 Hdh8 25. Bxd4 cxd4 26. Hxh7 Hxh7 27. Hh1 Hxh1 28. Bxh1 Dd8!

Mislitir biskupar eru engin trygging fyrir jafntefli því biskup svarts er miklu virkari en sá hvíti.

29. Kg3 Bf6 30. Dh6!

Góður varnarleikur, annars kemst biskupinn til g5.

30. ... Da5!?

Lítur glæfralega út en Jón Viktor hafði komið auga á hinn snjalla 32. leik.

31. gxf5 De1+ 32. Kh2 e4! 

GPETQ6HILeikur peðinu ofan í þrælvaldaða reitinn! Þessu þema beitti Kasparov betur en aðrir.

33. Df8+ Bd8! 34. fxg6 Dh4+ 35. Kg2 Dg5+ 36. Kf1 Dc1+ 37. Kg2 Dg5+ 38. Kf1 exd3 39. Dxd6 Dc1+ 40. Kg2 Dg5+ 41. Kf1

 

 

 

 

GPETQ6HEÞað lá ekki alveg ljóst fyrir hvernig svartur ætlaði að tefla þessa stöðu til vinnings. Þannig gengur ekki 41. ... d2 vegna 42. De6+ Kb8 43. Ke2! o.s.frv. En Jón fann lausnina.

41. ... Dc1+ 42. Kg2 Dd2+ 43. Kh3


Eða 43.Kg1 De3+ og 44. ... d2.

43. ... Dh6+ 44. Kg2 d2! 45. Dc5+ Kb8 46. Dxd4 Dxg6+ 47. Kh3 Dh7+ 48. Kg2 Dc2! 49. Df4+ Ka8

- og hvítur gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 14. mars 2015

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Fjölmargir Íslendingar byrja með tveim sigrum

GULTPTEPÞar sem fjöldi þátttakenda á Reykjavíkurskákmótinu sem hófst í Hörpu á þriðjudaginn er svo mikill er þess ekki að vænta að línur taki að skýrast fyrr en nokkuð er liðið á mótið en tefldar verða tíu umferðir. Í gær voru tvær umferðir á dagskrá og þess vegna gripu nokkrir tækifærið og skráðu sig fyrir ½ vinnings yfirsetu. Að sumir af okkar sterkari skákmönnum okkar, t.d. Hannes Hlífar Stefánsson og Stefán Kristjánsson, skuli kjósa yfirsetu svo snemma móts verður að telja fremur hæpna ráðstöfun því það munar um hvern ½ vinninginn í baráttunni. En fari svo að ein slík ½ vinnings yfirseta fyrirfinnist á „skorkorti“ sigurvegarans mun ég glaður taka þessi orð aftur. 

Héðinn vann í átta leikjum

Eftir fyrri umferðir í gær, þ.e. tvær umferðir, voru nokkrir íslenskir skákmenn búnir að vinna báðar skákir sínar og voru í hópi 33 skákmanna með 2 vinninga, en þetta voru voru þeir Hjörvar Steinn Grétarsson, Héðinn Steingrímsson, Guðmundur Kjartansson, Dagur Arngrímsson, Henrik Danielsen, Bragi Þorfinnsson, Halldór Grétar Einarsson, Jón Viktor Gunnarsson, Einar Hjalti Jensson og Jón Kristinn Þorgeirsson. 

Héðinn Steingrímsson vann stystu skák mótsins þegar hann sigraði Lenku Ptacnikovu í aðeins átta leikjum með svörtu!

Þar sem mótið er öllum opið er oft gífurlegur stigamunur á keppendum. Hinn 13 ára gamli Halldór Atli Kristjánsson gerði jafntefli í 1. umferð við Adam Brzezinski en stigamunur á þeim var um 800 elo-stig. Það er einmitt galdurinn við þetta mót að óvænt úrslit sjá dagsins ljós í hverri umferð. Armeninn Sergei Movsesian, fimmti stigahæsti maður mótsins, átti sér einskis ills von í fyrri umferðinni í gær og tapaði í aðeins 33 leikjum fyrir lítt þekktum enskum skákmanni:

Reykjavíkurskákmótið 2015; 2. umferð:

Daniel Bisby – Sergei Movsesian

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 e6 3. d3

Kóngsindverska uppbyggingin á alltaf sína fylgismenn.

3. ... d5 4. De2 Re7 5. g3 b6 6. Bg2 Bb7 7. O-O Rbc6 8. e5 h6 9. h4 g6 10. c3 Bg7 11. Ra3 Ba6 12. He1 Dd7 13. Hb1 Rf5

Hyggst svara 14. b4 með 14. ... cxb4 15. cxb5 Rfd4 o.s.frv.

14. g4! Rfe7 15. b4 Rd8 16. bxc5 bxc5 17. c4!

Stingur upp í biskupinn á a6 sem opnar á leið fyrir c1-biskupinn til a3.

17. ... h5 18. gxh5! Hxh5 19. Rb5 Rf5 20. d4!?

Hvitur tekur nokkra áhættu með þessum leik en 20. Bg5! kom sterklega til greina.

20. ... cxd4?

Betra var 20. ... Bxb5 21. Hxb5 Rxd4 22. Rxd4 Hxe5 og samkvæmt „Houdini“ er svartur ekki í nokkurri hættu eftir 23. Rxe6! Hxe2 24. Rxg7+ Kf8 25. Hxe2 Kxg7 26. Bxd5 Hc8 þó biskuparnir séu býsna ógnandi eftir 27. Bb2+. Það er ekki ósennilegt að Movsesian hafi séð þessa stöðu í útreikningum sínum og metið hana svo að vinningsmöguleikar svarts væru vart fyrir hendi.

21. cxd5 Kf8?!

Hann gerir sér vonir um að geta notfært sér leppun riddarans. En hvítur fær ógnandi peð á d6.

22. d6! Hb8 23. a4 Rxh4 24. Rxh4 Hxh4 25. Bg5! d3 26. Dxd3 Hxa4

Enn er riddarinn á b5 leppur. En Bisby sér leik á borði.

27. Dh3!

Frábær leikur sem byggist á einfaldri hugmynd: 27. ... Hxb5 28. Dh7! og vinnur.

27. ... Kg8 28. Rc7 Hxb1 29. Hxb1 Bxe5?

Hann varð að valda drottninguna með 29. ... Bc8. 

GULTPTDU30. Rd5! Ha5

Eða 30. ... Dxd6 31. Rf6+! og mátar.

31. Bf6!

- og Movsesian gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 12. mars 2015

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Yfirburðasigur Björns Þorfinnssonar í Bunratty

Björn ÞorfinnssonFischer og Kasparov skildu stundum við keppinauta sína með þessum hætti, munurinn í mótslok á þeim og næsta manni var kannski 2-4 vinningar. Á skákhátíðinni í Bunratty á Írlandi á dögunum – þeim hluta sem fram fór í lokuðum flokki – gerðist einmitt þetta. Björn Þorfinnsson hlaut 7 vinniga af níu mögulegum og varð tveim vinningum fyrir ofan næstu menn. Hann hægði samt á sér í lokin með tveimur stuttum jafnteflum og náði árangri sem mældist uppá 2677 elo stig og krækti sér í leiðinni í annan áfanga að stórmeistaratitli. Tíu keppendur tefldu einfalda umferð og var Björn stigalægsti keppandi mótsins. Lítum á lokaniðurstöðuna:

1. Björn Þorfinnsson 7 v. (af 9 mögulegum) 2. Trent (England) 5 v. 3.-5. Maze (Frakkland), Tan (Ástralía) og Costa (England) 4 ½ v. 6. – 9. Bragi Þorfinnsson, Galego (Portúgal), Hunt (England) og Collins (Írland ) 4 v. 10. Williams (England) 3 ½ v.

Bragi bróðir Björns var einnig með í mótinu. Hann byrjaði fremur illa en sótti sig þegar á leið þó þátttaka hans félli vitaskuld algerlega í skuggann á framgöngu stóra bróður. Í gegnum tíðina hefur Bragi yfirleitt verið hærri á skákstigalistum en alltaf annað veifið kemur Björn fram og slær honum við. Gömul þræta innan fjölskyldunnar um það hvor sé betri, er aftur komin á dagskrá.

Björn hefur af einhverjum ástæðum leitað upp miklar flækjur í skákum sínum þó að róleg stöðubarátta með taktískri undiröldu eigi ekki síður við hann. Þannig tefldi hann á Írlandi, lenti aldrei í taphættu og nýtti sér þau færi sem gáfust. Meðal keppenda í Bunratty voru nokkrir sem hafa verið að tefla á Íslandsmóti skákfélaga og í sjöttu umferð mætti hann Frakkanum Maze sem teflt hefur fyrir Taflfélag Vestmannaeyja undanfarin ár:

Bunratty 2015; 6. umferð:

Sebastian Maze – Björn Þorfinnsson

Fjögurra riddara tafl

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Rc3 Rf6 4. Bb5 Bb4 5. 0-0 0-0 6. d3 d6 7. He1 h6 8. h3 a6

Brýtur upp hermikráku-leikinn. Annar góður möguleiki var 8.... Bxc3 9. bxc3 Re7.

9. Bxc6 bxc6 10. d4 exd4 11. Dxd4 c5 12. Dd3 Bb7 13. Bd2 He8 14. e5?!

Hvítur hefur ekkert fengið út úr byrjuninni en eftir þennan leik nær svartur betri stöðu. Jafnt tafl var að hafa með 14. Rd5. )

14.... dxe5 15. Rxe5 Dd4!

Hann hefur ekkert á móti drottningaruppskitpum en fer í þau á eigin forsendum.

16. Dxd4 cxd4 17. Rb1 Bf8 18. Rd3 Be4 19. Ba5 Hab8 20. b3 Hb5 21. Bd2 Hb6 22. f3 Bxd3 23. Hxe8 Rxe8 24. cxd3 Hc6!

Hvítur á í erfiðleikum með drottningarvænginn og hrókurinn er á leiðinni til c2.

25. b4 Hc2 26. Kf1!

Kóngurinn skundar á vettvang og hvítur nær að halda í horfinu.

26.... Rf6 27. Ke1 Rd5 28. Kd1 Hc6 29. a3 Hb6!

Rýmir fyrir c-peðinu.

30. Bc1 f5 31. g4 g6 32. Ha2

Engu betra var 32. Rd2 Re3+! 33. Ke2 He6! og o.s.frv.

32.... c5 33. Hc2 a5!

Gefur engin grið!

34. Bd2 axb4 35. axb4 cxb4 36. Hc8 Kf7 37. Kc2

Hann á enn eftir að leika b1-riddaranum fram. Skyldi hann sleppa út?

GOQTNUI037.... Rc3!

Nei!

38. Hc7+ Ke6 39. Be1 b3+ 40. Kb2 Ra4+ 41. Kc1 Rc5 42. Hc8 Bd6

– og Maze lagði niður vopnin. Hann sá fram á að 43. Ke2 er svarað með 43....Ha6 os.frv.

 

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 28. febrúar 2015

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Dagur varð Norðurlandameistari í Klakksvík

Vinningshafar NM 2015Dagur Ragnarsson sigraði með glæsibrag í elsta aldursflokki Norðurlandamóts einstaklinga þar sem keppendur voru fæddir á árunum 1995-1997, og fram fór í Klakksvík í Færeyjum um síðustu helgi. Dagur haut 5 vinninga af sex mögulegum, tefldi betur em nokkru sinni fyrr og sýndi mikla keppnishörku. Dagskráin var þétt sex, kappskákir á þrem dögum og þar við bættist ferðalagið til Klakksvíkur og raunar ein kappskák frá kvöldinu fyrir ferðina til Færeyja. Með þessu móti, Skákþingi Reykjavíkur og Gestamóti Hugins og Skákdeildar Breiðabliks liggur fyrir að Dagur mun hækka meira á milli stigalista en dæmi er um af íslenskum skákmanni frá því að FIDE tók að birta stigin mánaðarlega. Hann verður með í kringum 2.315 elo-stig á listanum sem birtist í byrjun mars. Dagur var eini gullverðlaunahafi okkar í fimm aldurslokkum en til silfurverðlauna unnu Jón Kristinn Þorgeirsson í aldursflokki þeirra sem fæddir voru 1998 og 1999 og Óskar Víkingur Davíðsson vann til silfurverðlauna í aldursflokki E, yngsta aldursflokknum þar sem kependur eru fæddir 2003 og 2004. Íslendingar hafa unnið keppni Norðurlandaþjóðanna tvö síðustu árin þar sem vinningar allra þátttakenda hverrar þjóðar eru lagðir saman. Ekki tókst okkur að verja titilinn að þessu sinni, Danir hlutu 36½ vinning en stefnt verður að íslenskum sigri á næsta ári þegar keppnin fer fram í Svíþjóð.

Eldri keppendurnir stóðu sig vel en misjafnt var gengi þeirra yngri. Sumir þeirra hafa verið ansi drjúgir á þessum vettvangi tvö síðustu árin. Teflt var í fimm aldursflokkum, tveir keppendur frá hverju landi.

Dagur Ragnarsson vann þrjár fyrstu skákir sínar og svo kom erfitt jafntefli við Svíann Joar Olund, annað jafntefli í 5. umferð og loks sigur í síðustu umferð gegn Mikhael Jóhanni Karlssyni. Sigur hans yfir Norðmanninum Lobersli í 3. umferð er gott dæmi um kraftmikinn stíl hans:

Henrik Oie Lobersli – Dagur Ragnarsson

Hollensk vörn

1. d4 f5 2. c4 Rf6 3. Rf3 g6 4. g3 Bg7 5. Bg2 0-0 6. 0-0 d6 7. Rc3 De8

Dagur hafði rekist á bók um hollenska vörn heima hjá afa sínum, Hermanni Ragnarssyni en valið að leika 7.... Rc6 á Skákþingi Reykjavíkur á dögunum. 7..... De8 er margslungnari leikur runninn undan rifjum Úkraínumannsins Malanjúk.

8. d5 Ra6 9. Rd4 Bd7 10. b3 c5! 11. dxc6 bxc6 12. Bb2 Rc5 13. Dc2 e5 14. Rf3 e4

Það verður ekki annað sagt en að byrjunin hafi gengið vel upp. Frumkvæði er greinilega í höndum svarts.

15. Re1 g5 16. Dd2 Dh5!?

Það kom sterklega til greina að treysta varnir d6-peðsins en peðsfórnin býður upp á ýmsa möguleika.

17. Dxd6 Rb7 18. Dd2 Hfe8

Framrás e-peðsins í loftinu og hvítur reynir að sporna við henni. Það eru mistök.

19. e3?

Eftir 19. Had1! þarf hvítur ekki að óttast 19.... e3. Eftir 20. fxe3 Rg4 kemur einfaldlega 21. h3! og hvíta staðan er mun betri.

19.... Had8 20. De2 Dg6!

Nú er allt tilbúið fyrir framrás f-peðsins.

21. Ra4 f4 22. exf4 gxf4 23. gxf4 Bg4 24. De3 Rd6!

Riddarinn sem vék sér til hliðar um stundarsakir er kominn aftur og er á leiðinni til f5.

25. Dc5 Rf5 26. f3 exf3 27. Rxf3 Re4 28. Da5

Drottningin rekst úr einum stað í annan og svartur á nú einfalda vinningsleið.

GAKTMQB728.... Bxf3! 29. Hxf3 Hd2!

– og hvítur gafst upp.



Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 21. febrúar

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Jón Viktor Gunnarsson Skákmeistari Reykjavíkur 2015

GAJTKJ22Jón Viktor Gunnarsson er Skákmeistari Reykjavíkur 2015 eftir æsispennandi lokaumferð en fyrir hana voru þrír skákmenn efstir og jafnir. Þar sem Jóni Viktori tókst að leggja Björn Þorfinnsson að velli í síðustu umferð og Stefán Kristjánsson tapaði nokkuð óvænt fyrir Mikhael Jóhanni Karlssyni var sigurinn Jóns Viktors. Hann er vel að titlinum kominn og ber hann með sóma en þetta er í sjötta sinn sem hann verður Skákmeistari Reykjavíkur. Íslandsmeistari varð hann hinsvegar árið 2000. Jón Viktor var sennilega sterkasti skákmaðurinn í flokknum en keppendur voru um 70 talsins. Lokaniðurstaðan hvað varðar efstu menn leiðir eitt og annað í ljós, m.a. að yngstu skákmennirnir eru orðnir býsna skeinuhættir:

1. Jón Viktor Gunnarsson 7 ½ v. (af 9) 2. Mikhael Jóhann Karlsson 7 v. 3.-8. Stefán Kristjánsson, Dagur Arngrímsson, Guðmundur Gíslason, Dagur Ragnarsson, Björn Þorfinnsson og Jón Trausti Harðarson 6 ½ v. 9. – 11. Oliver Aron Jóhannesson, Jóhann Ingvason og Omar Salama 6 v.

Mikhael Jóhann Karlsson náði sínum besta árangri á ferlinum en um næstu helgi teflir hann í efsta flokki á Norðurlandamóti einstaklinga 20 ára og yngri sem fram fer í Þórshöfn i Færeyjum. Þá er frammistaða Dags Ragnarssonar og Jóns Trausta Harðarsonar einnig góð og hækka þeir báðir duglega í stigum. Það gildir einnig um Oliver Aron Jóhannesson en þessir þrír skipuðu sigursæla sveit Rimaskóla fyrir nokkrum misserum.

Hin stóru tíðindi þessa móts er frammistaða Mikhael Jóhanns Karlssonar, 19 ára gamals nemenda í MR. Hann vann Omar Salama og Þorvarð Ólafsson í 6. og 7. umferð og í lokaumferðinni tefldi hann af miklu öryggi og lagði svo stigahæsta keppandann, Stefán Kristjánsson:

Skákþing Reykjavíkur 2015; 9. umferð:

Mikhael Jóhann Karlsson – Stefán Kristjánsson

Reti-byrjun

1. g3 Rf6 2. c4 c6 3. Bg2 d5 4. Rf3 Bf5 5. cxd5 cxd5 6. Db3 Bc8?!

Það orkar tvímælis að bakka upp í borð með biskupinn. Peðsfórnin 6. ... Rc6 7. Db7 Bd7!? er þekkt og 6. ... Dc8 kom einnig til greina.

7. Rc3 Rc6 8. d3 e6 9. O-O Be7 10. Bf4 Rd7 11. d4 a6 12. Hfd1 g5 13. Bc1 f5 14. Re5!

Bregst hart við útþenslu svarts á kóngsvæng. Svartur getur hirt peðið með 14. ... Rdxe5 15. dxe5 Rxe5 en eftir 16. Be3 hefur hvítur rífandi bætur fyrir peðið, 16. e4 eða jafnvel mannsfórnin 16. Rxd5!? kemur einnig til greina.

14. ... Rxe5 15. dxe5 Db6 16. Da4 Dc6 17. Dd4 Dc5

Heldur áfram að eltast við drottninguna, 17. ... Bc5 var betra.

18. Be3 Hf8

GAJTKISB19. Rxd5!

Nærtækur leikur en 19. Bxd5 kom einnig til greina, t.d. 19. ... exd5 20. Rxd5 Dxd4 21. Bxd4 Bd8 22. e6! o.s.frv.

19. ... exd5 20. e6 Dxd4 11. exd7+ Bxd7 22. Hxd4 Bf6 23. Hxd5

O-O-O 24. Bb6!

Eftir þennan leik er svarta staðan vonlaus.

24. ... Hde8 25. Hc1+ Bc6 26. Hc2 Be5 27. Hdc5 Hf6 28. Hxe5!

Það hentar einkar vel að ná uppskiptum í þessari stöðu. Hróksendataflið sem nú kemur upp er auðunnið á hvítt.

28. ... Hxe5 29. Bd4 Hee6 30. Bxf6 Hxf6 31. Bxc6 bxc6 31. Hc5 Kc7 33. Kg2 h6 34. h4 g4 35. b4 f4 36. gxf4 Hxf4 37. a3 Hd4 38. Kg3 Hd2 39. Kxg4 Hxe2 40. f4 Ha2 42. Ha5 Kb6 42. f5 Hf2 43. Kh5 Hf4 44. Kxh6 Hxh4+ 45. Kg5 Hh1 46. f6 Hg1+ 47. Kh6 Kc7 48. f7 Hf1 49. Kg7 Hg1+ 50. Kf6

– og svartur gafst upp. 

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 7. febrúar

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Þrír efstir fyrir lokaumferð Skákþings Reykjavíkur

Þrír skákmenn eru efstir og jafnir fyrir lokaumferð Skákþings Reykjavíkur sem fram fer á sunnudaginn. Stefán Kristjánsson, Björn Þorfinnsson og Jón Viktor Gunnarsson hafa allir hlotið 6½ vinning úr átta skákum en í 4.-6. sæti koma ungu mennirnir Dagur Ragnasson, Mikael Jóhann Karlsson og Jón Trausti Harðarson með 6 vinninga. Í síðustu umferð mætast Björn og Jón Viktor og Stefán hefur svart gegn Mikhael Jóhanni. Mikið hefur verið um óvænt úrslit en þrír efstu, sem jafnfamt eru stigahæstu þátttakendur mótsins, hafa allir náð vopnum sínum þrátt fyrir smávegis ágjöf á köflum. 

Magnús Carlsen einn efstur í Wijk aan Zee

Þrátt fyrir jafntefli í fjórum síðustu skákum sínum tókst heimsmeistaranum Magnúsi Carlsen að sigra á skákmótinu í Wijk aan Zee sem lauk um síðustu helgi. Eftir slaka byrjun kom magnaður sprettur er hann vann sex skákir í röð. Það dugði til sigurs en í næstu sætum komu nokkrir ungir skákmenn sem tefldu mun betur en Caruana og Aronjan sem álitnir voru helstu keppinautar Norðmannsins. 

Lokastaðan: 1. Magnús Carlsen 9 v. 2.-5. Vachier-Lagrave, Giri, Liren Ding og So 8½ v. 6. Ivantsjúk 7½ v. 7. Caruana 7 v. 8. Radjabov 6 v. 9. – 10. Wojtazek og Aronjan 5½ v. 11. Hou Yifan 5 v. 12. Saric 4½ v. 13. Van Wely 4 v. 14. Jobava 3 v.

Í B-flokknum sem einnig var gríðarlega sterkur vann kínverska ungstirnið Wei með 10½ vinning af 13 möglegum. 

Guðmundur og Hannes byrja vel á Gíbraltar

Hannes Hlífar Stefánssson og Guðmundur Kjartansson hafa byrjað vel á einu sterkasta opna móti ársins sem fram fer á Gíbraltar. „Kletturinn“ dregur til sín marga nafntogaða meistara á borð við Topalov, Nakamura og Svidler. Hannes er nr. 40 á stigalistanum og Guðmundur nr. 82 en keppendur í efsta flokknum eru 256 talsins og tefla 10 umferðir. 

Guðmundi tókst að leggja Pólverjann Bartel í 2. umferð eftir miklar sviptingar

Mateusz Bartel – Guðmundur Kjartansson

Spænskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 a6 4. Ba4 Rf6 5. O-O Be7 6. De2 b5 7. Bb3 d6 8. c3 O-O 9. d4 Bg4 10. Hd1 exd4 11. cxd4 d5 12. e5 Re4 13. a4 b4 14. a5 Bh4 15. Be3 Re7 16. h3 Bxf3?!

Eftir óvenjulega byrjun gat Guðmundur leikið 16. ... Rf5! með hugmyndinni 17. hxg4 Rxe3 18. fxe3 Bf2+ 19. Kh2 Dd7! sem ætti að duga til jafnteflis.

17. Dxf3 f5 18. Rd2 Kh8 19. Dh5 Rg6 20. f4 Bg3 21. Hf1 c6 22. Hac1 Hc8 23. Rxe4 fxe4

Byrjunin lofar ekki góðu en til þess að vinna með svörtu þarf stundum smá aðstoð. Hér gat Bartel leikið 24. Dg4! og verður þá fátt um varnir t.d. 24. ... Dh4 25. f5 Dxg4 26. hxg4 Re7 27. Bg5! með vinningsstöðu. Næsti leikur lítur vel út en gefur svarti kosti á mannsfórn sem flækir taflið óþarflega mikið.

24. f5?! Rxe5 25. dxe5 Bxe5 26. De2 Dxa5 27. Bc5 Hfe8 28. Dd2 Dd8 29. Dxb4?

Pólverjinn byrjaði að missa þráðinn þegar í 24. leik og hér fer hann endanlega út af sporinu, eftir 29. Bd4 eða 29. Df2 er hvíta staðan betri.

29. ... Hb8 30. Da4 Dg5!

Kemur drottningunni í ógnandi aðstööu.

31. Hfe1 Dg3 32. He3 Dh2+ 33. Kf2 Hb5 34. Dxa6 Hxc5! 35. Hxc5 Bd4! 

GQ7TJJ92Hvítur er hrók yfir en fær ekkert við ráðið.

36. Hcc3 Df4+ 37. Ke1

Eða 37. Ke2 Bxe3 38. Hxe3 d4 og vinnur.

37. ... Bxe3 38. De2 d4 39. Hxc6 d3

– og hvítur gafst upp.



 

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 31. janúar 2015.

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Magnús Carlsen vann sex skákir í röð

Hou Yifan-CarlsenMig grunar að andstæðingar heimsmeistarans Magnúsar Carlsens leiti stundum athvarfs í þeim þanka að allt væri betra ef pilturinn hefði haldið áfram með vetraríþróttirnar eins og flestir landar hans og látið skákina eiga sig; hann mun hafa svifið yfir 20 metra í skíðastökki þegar hann var 10 ára.

Í Wijk aan Zee byrjaði Magnús með tveimur jafnteflum og tapi en svo komu hamskiptin: Magnús vann sex skákir í röð! Meistarar á borð við Caruana og Aronjan, sem hafa stundum verið að máta sig við skákkrúnuna, steinlágu báðir. Þegar þetta er ritað fyrir elleftu umferðina sem fór fram í gær var ekki alveg loku fyrir það skotið að staðarmet félli en til þess þarf hann að vinna allar skákirnar sem eftir eru. Staðan:

1. Magnús Carlsen 7½ v. (af 10). 2.- 3. So og Vachier La-Grave 6½ v. 4.-7. Giri, Ivantsjúk, Caruana og Liren Ding 6 v. 8.-9. Wojtaszek og Radjabov 5 v. 10. Aronjan 4½ v. 11. Van Wely 3½ v. 12.-13. Hou Yifan og Saric 3 v. 14. Jobava 1½ v.

Meðan á sigurgöngunni stóð bar minna á endataflstækni en oft, taflmennskan í miðtaflinu var afar góð og þótt sumir ættu möguleika á jafntefli hafði Magnús þá undir að lokum. Í 10. umferð bauð Radjabov upp á Berlínarvörn spænska leiksins. Eins og stundum áður fór Magnús „með löndum“, hélt drottningunum á borðinu og hafði sigur eftir snarpa kóngssókn:

Wijk aan Zee 2015:

Magnús Carlsen – Teimour Radjabov

Spænskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 Rf6 4. d3

Að hrókera stutt dugði í lokaskákinni í Sochi en Magnús hefur leikið þessu nokkrum sinnum áður.

4.... Bc5 5. 0-0 d6 6. Rbd2 0-0 7. Bxc6 bxc6 8. h3 h6 9. He1 He8 10. Rf1 a5 11. Rg3 Hb8 12. b3 Bb4?!

Ekki er ljóst hvað vakir fyrir svarti með þessum leik og þeim næsta. Hví ekki 12.... a4?

13. Bd2 Ha8 14. c3 Bc5 15. d4 Bb6 16. dxe5 dxe5 17. c4 Rh7 18. De2 Rf8 19. Be3 c5 20. Had1 Df6 21. Rh5

Svarti riddarinn er á leið til e6 og síðan til d4. Magnús gerir allt til þess að hindra þá fyrirætlan.

21.... De7 22. Rh2 Kh7 23. Df3 f6 24. Rg4 Bxg4 25. Dxg4 Hed8?

25.... Re6 lá beinast við og er besti leikurinn sem Radjabov óttaðist 25. Df5+ Kh8 27. Bxh6!? gxf6 28. Rxf6 t.d. 28.... Hf8 29. Hd7! o.s.frv. En betra er 28.... Rd4 og svartur getur barist áfram.

26. Df5+ Kh8 27. f4!

Opnar taflið upp á gátt.

27.... Hxd1 28. Hxd1 exf4 29. Bxf4 De6 30. Hd3! He8

GFETIJ4O31. Rxg7! Kxg7 32. Dh5! Rh7 33. Bxh6+ Kh8 34. Dg6 Dg8

 

 

 

 

 

 

 

GDETIJ4K
35. Bg7+!

Gerir út um taflið þar sem hrókurinn er miklu öflugri en léttu menn svarts.

35.... Dxg7 36. Dxe8+ Df8 37. De6 Dh6 38. e5! Dc1+ 39. Kh2 Df4+ 40. Hg3

– og Radjabov gafst upp.

 


Fjórir efstir á Skákþingi Reykjavíkur

Fjórir skákmenn eru efstir að loknum sex umferðum á Skákþingi Reykjavíkur. Stefán Kristjánsson, Guðmundur Gíslason, Oliver Aron Jóhannesson og Jón Viktor Gunnarsson hafa allir hlotið fimm vinninga en í 5.-9. sæti koma Björn Þorfinnsson, Dagur Arngrímsson, Dagur Ragnarsson, Mikhael Jóhann Karlsson og Bjarni Sæmundsson með 4½ v. Talsvert hefur verið um óvænt úrslit á mótinu, sem lýkur sunnudaginn 1. febrúar.

 

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 24. janúar 2015.

Skákþættir Morgunblaðsins


Guðmundur efstur - ekur frá Ísafirði til að tefla á skákþinginu

Guðmundur GíslasonGuðmundur Gíslason er efstur að loknum fjórum umferðum á Skákþingi Reykjavíkur og hefur unnið allar skákir sínar. Í 2.-5. sæti koma svo Dagur Ragnarsson, Oliver Aron Jóhannesson, Þorvarður Ólafsson og Dagur Arngrímsson með 3 ½ vinning.

Talsvert hefur verið um óvænt úrslit á skákþinginu sem er vel skipað. Guðmundur lætur sig ekki muna um að aka eða fljúga á milli Ísafjarðar og Reykjavíkur til að tefla skákir sínar og hann vann Sævar Bjarnason á miðvikudagskvöldið og teflir við Dag Arngrímsson í fimmtu umferð. Hann er einnig með á Gestamóti Hugins þar sem 68 skákmenn taka þátt en þar er teflt á fimmtudagskvöldum í Stúkunni á Kópavogsvelli. 

Ivantsjúk efstur í Wijk aan Zee

Fyrsta verkefni heimsmeistarans Magnúsar Carlsen eftir að hann varði titil sinn á dögunum í Sochi við Svartahaf er að tefla á stórmótinu í Wijk aan Zee í Hollandi. Magnús var ekki með í fyrra en í ársbyrjun 2013 vann hann mótið með fáheyrðum yfirburðum, hlaut 10 vinninga af 13 mögulegum og jafnaði besta árangur Garrís Kasparovs frá 1999. Við komuna til Wijk hafði Magnús orð á því að það væri eins og að koma heim til sín; hann tefldi þarna fyrst 13 ára gamall í C-flokki árið 2004 og vann með glæsibrag, hlaut 10 ½ vinninga af 13. Frá 2007 hefur hann teflt í A-flokknum sjö sinnum, deildi sigrinum með Aronjan árið 2008 og vann mótin enn árin 2010 og 2013. Taflmennska hans í fyrstu þrem umferðunum var daufleg en svo hrökk hann í gang, vann heimamanninn Van Wely, sem í umferðinni á undan gerði sig að athlægi sakir ömurlegrar meðhöndlunar gjörunnins endtafls í skák við Pólverjann Wojtaszek sem hefur unnið bæði Carlsen og Caruana. En staða efstu manna er þessi: 1. Ivantsjúk 4 v. (af 5) 2-3. Ding, Wojtazek 3 ½ v. 4. – 7. Carlsen, Giri, So og Caruana 3 v . 

Anish Giri er í dag fremsti skákmaður Hollendinga og hann ætlar sér stóra hluti, vann sigur á Georgíumanninum Jobava á fimmtudaginn:

Wijk aan Zee; 5. umferð:

Anish Giri – Baadur Jobava

Kóngsindversk vörn

1. Rf3 Rf6 2. c4 g6 3. Rc3 Bg7 4. e4 d6 5. d4 O-O 6. Be2 e5 7. O-O Rc6 8. d5 Re7 9. b4

Afbrigði sem dregur nafn sitt af byssusting. Hvítur gengur beint til verks og reynir að ryðjast inn drottningarmegin.

9. ... Rh5 10. He1 Rf4 11. Bf1 f5 12. a4 h6 13. Rd2 g5 14. Ha3 g4 15. a5 h5 16. c5 h4 17. Rc4 Reg6 18. cxd6 cxd6 19. Rb5 Hf6 20. g3 hxg3 21. hxg3 a6 22. Rc3 Rh4!

Georgíumaðurinn er þekktur fyrir mikla hugmyndaauðgi. Það er stórhættulegt að þiggja manninn, t.d. 23. gxh4 Hh6! o.s.frv. eða 23. gxf4 Rf3+! og vinnur.

23. Re2!

Best. Giri lætur skiptamun af hendi fyrir gott spil.

23. ... Rf3+ 24. Hxf3 Rxe2 25. Bxe2 gxf3 26. Bxf3 Bh6 27. Rb6 Hb8 28. Kg2 Bxc1 29. Dxc1 f4 30. Hh1 Hg6 31. Hh5 Df8 32. Dh1 Df6 33. Dh2!?

Hafi þessi rólegi leikur sem bætir stöðu hvíts nánast ekki neitt verið byggður á þeirri vissu að svartur myndi vilja losa um mennina á drottningarvæng gengur hann fullkomlega upp. Jobava átti um 5 mínútur til að ná tímamörkunum við 40. leik.

33. ... Bg4??

Gengur í gildruna.

34. Bxg4 Hxg4 35. Dh3! Dg6

Eða 35. ... f3+ 36. Kh2 Dg7 37. Rd7! og vinnur.

36. Kf3!

– og Jobava sá sína sæng uppreidda og gaf skákina, 36. ... fxg3 37. Dxg4 Dxg4+ 38. Kxg4 gxf2 strandar á 39. Hg5+ og 40. Hf5 sem vinnur..

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 17. janúar 2015.

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Guðmundur efstur - ekur frá Ísafirði til að tefla á skákþinginu

Guðmundur GíslasonGuðmundur Gíslason er efstur að loknum fjórum umferðum á Skákþingi Reykjavíkur og hefur unnið allar skákir sínar. Í 2.-5. sæti koma svo Dagur Ragnarsson, Oliver Aron Jóhannesson, Þorvarður Ólafsson og Dagur Arngrímsson með 3 ½ vinning.

Talsvert hefur verið um óvænt úrslit á skákþinginu sem er vel skipað. Guðmundur lætur sig ekki muna um að aka eða fljúga á milli Ísafjarðar og Reykjavíkur til að tefla skákir sínar og hann vann Sævar Bjarnason á miðvikudagskvöldið og teflir við Dag Arngrímsson í fimmtu umferð. Hann er einnig með á Gestamóti Hugins þar sem 68 skákmenn taka þátt en þar er teflt á fimmtudagskvöldum í Stúkunni á Kópavogsvelli. 

Ivantsjúk efstur í Wijk aan Zee

Fyrsta verkefni heimsmeistarans Magnúsar Carlsen eftir að hann varði titil sinn á dögunum í Sochi við Svartahaf er að tefla á stórmótinu í Wijk aan Zee í Hollandi. Magnús var ekki með í fyrra en í ársbyrjun 2013 vann hann mótið með fáheyrðum yfirburðum, hlaut 10 vinninga af 13 mögulegum og jafnaði besta árangur Garrís Kasparovs frá 1999. Við komuna til Wijk hafði Magnús orð á því að það væri eins og að koma heim til sín; hann tefldi þarna fyrst 13 ára gamall í C-flokki árið 2004 og vann með glæsibrag, hlaut 10 ½ vinninga af 13. Frá 2007 hefur hann teflt í A-flokknum sjö sinnum, deildi sigrinum með Aronjan árið 2008 og vann mótin enn árin 2010 og 2013. Taflmennska hans í fyrstu þrem umferðunum var daufleg en svo hrökk hann í gang, vann heimamanninn Van Wely, sem í umferðinni á undan gerði sig að athlægi sakir ömurlegrar meðhöndlunar gjörunnins endtafls í skák við Pólverjann Wojtaszek sem hefur unnið bæði Carlsen og Caruana. En staða efstu manna er þessi: 1. Ivantsjúk 4 v. (af 5) 2-3. Ding, Wojtazek 3 ½ v. 4. – 7. Carlsen, Giri, So og Caruana 3 v . 

Anish Giri er í dag fremsti skákmaður Hollendinga og hann ætlar sér stóra hluti, vann sigur á Georgíumanninum Jobava á fimmtudaginn:

Wijk aan Zee; 5. umferð:

Anish Giri – Baadur Jobava

Kóngsindversk vörn

1. Rf3 Rf6 2. c4 g6 3. Rc3 Bg7 4. e4 d6 5. d4 O-O 6. Be2 e5 7. O-O Rc6 8. d5 Re7 9. b4

Afbrigði sem dregur nafn sitt af byssusting. Hvítur gengur beint til verks og reynir að ryðjast inn drottningarmegin.

9. ... Rh5 10. He1 Rf4 11. Bf1 f5 12. a4 h6 13. Rd2 g5 14. Ha3 g4 15. a5 h5 16. c5 h4 17. Rc4 Reg6 18. cxd6 cxd6 19. Rb5 Hf6 20. g3 hxg3 21. hxg3 a6 22. Rc3 Rh4!

Georgíumaðurinn er þekktur fyrir mikla hugmyndaauðgi. Það er stórhættulegt að þiggja manninn, t.d. 23. gxh4 Hh6! o.s.frv. eða 23. gxf4 Rf3+! og vinnur.

23. Re2!

Best. Giri lætur skiptamun af hendi fyrir gott spil.

23. ... Rf3+ 24. Hxf3 Rxe2 25. Bxe2 gxf3 26. Bxf3 Bh6 27. Rb6 Hb8 28. Kg2 Bxc1 29. Dxc1 f4 30. Hh1 Hg6 31. Hh5 Df8 32. Dh1 Df6 33. Dh2!?

Hafi þessi rólegi leikur sem bætir stöðu hvíts nánast ekki neitt verið byggður á þeirri vissu að svartur myndi vilja losa um mennina á drottningarvæng gengur hann fullkomlega upp. Jobava átti um 5 mínútur til að ná tímamörkunum við 40. leik.

G3BTHEF333. ... Bg4??

Gengur í gildruna.

34. Bxg4 Hxg4 35. Dh3! Dg6

Eða 35. ... f3+ 36. Kh2 Dg7 37. Rd7! og vinnur.

36. Kf3!

– og Jobava sá sína sæng uppreidda og gaf skákina, 36. ... fxg3 37. Dxg4 Dxg4+ 38. Kxg4 gxf2 strandar á 39. Hg5+ og 40. Hf5 sem vinnur..

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 17. janúar 2015.

Skákþættir Morgunblaðsins


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 106
  • Frá upphafi: 8780629

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 87
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband