Færsluflokkur: Spil og leikir
10.11.2017 | 08:00
Unglingameistaramót Hugins hefst á mánudaginn
Unglingameistaramót Hugins 2017 hefst mánudaginn 13. nóvember n.k. kl. 16.30 þ.e. nokkru fyrr heldur en venjulegar mánudagsæfingar. Mótinu verður svo fram haldið þriðjudaginn 14. nóvembern.k. kl. 16.30. Tefldar verða 7 umferðir eftir Svissnesku kerfi. Mótið verður reiknað til atskákstiga. Fyrri keppnisdaginn verða fjórar skákir og þrjár þann seinni. Umhugsunartími á hverja skák er 15 mínútur á skák + 5 sekúndur á leik.
Mótið er opið öllum 15 ára og yngri í grunnskóla en titilinn sjálfan getur aðeins félagsmaður í Huginn unnið. Á meðan á mótinu stendur falla venjulegar barna- og unglingaæfingar niður. Næsta barna- og unglingaæfing eftir unglingameistaramótið verður mánudaginn 20. nóvember n.k. Keppnisstaður er Álfabakki 14a í Mjódd (inngangur milli Subway og Lyfjaval í Mjódd og er salur félagsins á þriðju hæð. Engin þátttökugjöld.
Umferðatafla:
1.-4. umferð: Mánudaginn 13. nóvember kl. 16.30
5.-7. umferð: Þriðjudaginn 14. nóvember kl. 16.30
Verðlaun:
1. Unglingameistari Hugins fær farandbikar til varðveislu í eitt ár.
2. Þrír efstu fá verðlaunagripi til eignar.
3. Allir keppendur fá skákbók.
4. Þrír efstu 12 ára og yngri fá verðlaunapening.
9.11.2017 | 17:37
EM Landsliða - Lokapistill liðsstjóra
Seint koma sumir en koma þó! Ég átti eftir að rita um lokaumferðina okkar gegn Færeyjum og ætla þá í framhaldinu að nota tækifærið og gera aðeins upp mótið.
Við semsagt mættum Færeyingum enn eina ferðina en ótrúlegt nokk er þetta fjórða mótið í röð sem við mætum þeim (EM og ÓL). Ég fór með rangt mál þegar ég hreinlega gleymdi einu af þessum skiptum í síðasta pistli!
Toppbaráttan var á sama tíma mjög spennandi en þar gátu Azerar tryggt sér sigur á mótinu með sigri á Úkraínu á meðan Rússarnir voru líklegir til að anda niður hálsmálið á þeim með því að leggja Þjóðverja að velli.
En að viðureign síðustu umferðar. Við höfum eins og áður sagði mætt Færeyingum ansi oft undanfarið og unnið þá tvisvar 3,5-0,5 en urðum að sætta okkur við jafntefli á Ólympíuskákmótinu í Tromsö árið 2014. Það hjálpaði okkur hinsvegar óneitanlega að Helgi Dam Ziska hvíldi hjá þeim á fyrsta borði aðra skákina í röð. Við höfum ákveðið að pæla ekkert nánar í því, Helgi og Færeyingarnir höfðu sínar ástæður og við leyfum þeim að halda því fyrir sig. En kíkjum á skákirnar.
Á 1. borði mætti Héðinn Högna Egilstoft Nielsen
Högni eygði smá möguleika á að ná IM normi en til þess þurfti hann að leggja Héðin að velli með svörtu mönnunum. Líklegast hefði verið vænlegra til árangurs að hvítt á 2.borði sem gerir einmitt hvíld Helga aðeins furðulegri.
Héðinn tefldi að vanda 1.d4 og fékk á sig Kóngsindverska vörn. Héðinn tefldi Averbakh afbrigðið (Margeir Pétursson skrifaði bók um það fyrir möööörgum árum) og tefldi af miklum krafti.
Hér var síðastai leikur Héðins, f5! mjög kröftug peðsfórn sem Högni ákvað að þyggja ekki. Sú ákvörðun var líklega rétt en engu að síður má segja að Högni hafi nánast orðið fyrir valtara. Mjög þétt og góð skák hjá Héðni.
2. borð Hjörvar svart gegn Rögvi Egilstoft Nielsen
Hjörvar fékk hinn Nilsen bróðirinn en sá hafði átt aðeins betra mót og var búinn að tryggja sér IM áfanga. Hann hefði líklega getað lengt hann með sigri í þessari skák en fékk engu að síður 8 skáka áfanga með því einu að mæta til leiks.
Hjörvar kom nokkuð á óvart með því að beita Caro-Kann og get ég staðfest að þar var ekki mouseslip á ferðinni....þeir sem sáu SnapChat hjá undirrituðum fengu einmitt að sjá eina stöðu af eldhúsborðinu góða fyrir skákina en það var einmitt staða úr Panov.
Það kom semsagt ekkert Hjörvari á óvart í þessari skák í raun.
Þessi staða var á borðinu hjá Hjörvari fyrir skákina og er hún betri á svartan. Framhaldið telfdi Hjörvar af miklum krafti. 21...Ha2 var einstaklega skemmtilegur leikur en eftir það er staðan einfaldlega koltöpuð.
Flott skák hjá Hjörvari og mjög sannfærandi hjá okkur á efstu tveimur og þetta tryggði þægilega 2-0 forystu. Þegar þessar skákir kláruðust var ljóst að við værum alltaf að ná sigri í viðureigninni og aðeins spurning hversu stór hann yrði.
3.borð Hannes hvítt gegn John Rodgaard
Hannes bjóst að sjálfsögðu við franskri vörn hjá Rodgaard enda teflir hann lítið annað með svörtu. Þeir endurtóku skák frá því fyrr í mótinu en Hannes bjóst þó frekar við að Rauðgarðurinn myndi breyta eitthvað til. Líklegast gat hvítur haldið smá frumkvæði með 17.h5!?
Hannes lék hinsvegar Rg5 og upphófst mikil barátta þar sem svartur stóð síst lakar. Upp kom endatafl þar sem jafntefli var líklegast niðurstaðan en Hannes hafnaði jafntefli og juðaðist aðeins og nýtti sér að Rodgaard var orðinn tímanaumur.
Mér fannst þegar ég horfði að endataflið liti vel út á Hannes í lokin en á daginn kemur að skákin var jafntefli nánast alveg undir lokin. Þá valdi Rodgaard að leika ...Re4 (græna örin) en ..Re2 (rauða örin) hefði líklega tryggt jafntefli þar sem auka möguleikinn á að drepa á f4 tryggir svörtum jafnteflið.
Sannkallaður seiglusigur hjá Hannesi.
4.borð Guðmundur hvítt gegn John Árni Nielsen
Teflt var hvasst á 4.borði þegar Anti-Moscow varíanturinn kom upp. Sú leið líkjist mjög Botvinnik afbrigðinu og stöðurnar oft mjög óræðar. Gummi ruglaði John í ríminu í byrjuninni með ...Bg7 í stað ...Bb7 og mig í raun líka þegar ég hélt að ég hefði teflt þetta afbrigði en fattaði á þeim punkti ekki muninn á stöðunum. John líklega ekki heldur!
Hér gat Gummi leikið ...g4 og líklegast var Rd2 í kjölfarið of passífur leikur. Re5 hlýtur að vera rétti leikurinn. Í kjölfarið vann Guðmundur peð og hékk vel á því.
Krítíska augnablikið var svo hér þegar John Árni fórnaði manni á b5 með Bxb5. Sú fórn gekk engan veginn upp og þrátt fyrir smá spil var Guðmundur fljótur að kæfa það. Mannsfórnin með Hxd4 var líklegast vænlegri leið fyrir hvítan til að berjast.
Sigur Gumma þýddi að við unnum hér 4-0 sigur á Færeyingum og þó glæsilegur sé að mörgu leiti þá kannski ekkert afrek þannig séð.
Sigurinn þýddi að við enduðum í 27. sæti en þar vorum við upphaflega í stigaröðinni.
Úrslitin á sjálfu mótinu réðust í lokaumferðinni og voru nokkuð dramatísk þó dramað hafi í raun verið óþarfi.
Ég varð sjálfur vitni að atvikunum sem talað er um í fréttum frá stærstu fréttaveitum.
Frétt frá: Chess24 og Chess.com
Sjá má augnablikið hér að ofan og liðsstjóra Íslands í fjólubláu fyrir aftan. Það sem gerðist eins og ég sá þetta var eftirfarandi:
Ég kem að borðinu í stöðunni 1-1 og skákirnar sem voru eftir voru Mamedyarov gegn Eljanov og Naiditsch gegn Ponomariov. Mér sýndist vera klárt jafntefli á fyrsta borði en að Naiditsch gæti reynt eitthvað peði yfir á þriðja borði. Hér stendur Naiditsch upp frá borðinu og fer á klósettið eða að reykja. Næsta sem ég sé er að A.Sulypa liðsstjóri Úkraínu gengur að skákstjóra og hvíslar einhverju að honum. Þvínæst gengur skákstjórinn yfir hinumegin og ræði við Eltaj Safarli liðsstjóra Azera. Eftir það horfir hann á Mamedyarov og Eljanov og það kemur klassískt hnyppa ökklum og hendurnar út og svo takast þeir í hendur og samþykkja jafntefli. Þarna fannst mér eins og liðin hefðu í raun verið að sættast á skiptan hlut á tveimur borðum í einu sem ég hreinlega veit ekki hvort má lengur. Í öllu falli má leikmaður alltaf neita og þarf ekki að hlýða boðum liðsstjóra þegar kemur að jafnteflum.
Hér tók við smá bið...mikið af fólki safnaðist við borðið og menn voru alltaf að líta upp og bíða eftir Naiditsch. Mikið af azerskum FIDE/ECU dindlum og áhrifamönnum og mjög stressaðir. Eftir dágóða bið kom Naiditsch loks að borðinu en Ponomariov hafði þá í millitíðinni leikið riddara sínum til c4 eftir að jafnteflið hafði verið samið á fyrsta borði....það skiptir reyndar engu máli í þessu samhengi ;-)
Naiditisch mætir Safarli sem talar við hann og er væntanlega að segja honum að taka jafntefli og tryggja sigurinn. Naiditsch var hinsvegar ekkert á þeim buxunum og var mjög hissa. Vildi tefla áfram enda augljóslega engin hætta á ferðum, annaðhvort vinnur hann eða skákin verður hvort eð er jafntefli. Það er í raun það sem gerir þetta svo skrýtið því að taphættan hjá Mamedyarov var minna en 1% þannig að í raun kemur þetta út eins og einhver greiði við Úkraínumenn til að ná 3. sætinu þó svo að Azerarnir vinni bara á stigaútreikningum í stað þess að vera bara einir efstir á mótinu.
Það næsta sem gerist er að Naiditsch eftir samtal við Safarli spyr einfaldlega "It's my decision right?" sem engin gat mótmælt og ætlaði Naiditsch einfaldlega að tefla skákina áfram. Fer úr jakkanum og ætlar að setjast niður. Ponomariov stendur þá við borðið eins og hann hafði gert með Naiditsch var að tala við skákstjóra og Safarli og byrjar að tala eitthvað (sem náttúrulega má ekki) og baðar höndum á fyrsta borðið og segir eitthvað á rússnesku og fannst mér hann gefa til kynna að það sem Úkraínumenn hefðu samið með aaaaaðeins betra á 1. borði (mér fannst það bara jafntefli) að þá hefði hann átt að gera slíkt hið sama, eins og þetta væri pakkadíll.
Á endanum tók Naiditsch í spaðann á Ponomariov og sættist á jafnteflið en var ekkert sáttur...sagði m.a. "Ja nje panemajo" sem ég kann ekki að skrifa en það hljómar svona og ég veit að þýðir "ég skil ekki".
Þegar liðsstjórarnir tókust í hendur var þetta ekki komið en hann óskaði Azerum til hamingju og sagði you are the champions, 100% en auðvitað hlutu þeir að vera með það á hreinu fyrst þeir á annað borð treystu sér í stigaútreikningana.
Azerar semsagt unnu mótið og er það einkar glæsilegur árangur í ljósi þess að þeir töpuðu gegn Ítölum í fyrstu umferð og leyfðu jafntefli í þriðju umferð!
Enn eitt mótið þar sem Rússar eru sigurstranglegastir en ná ekki að klára dæmið.
Ég ætla að lokum aðeins að gera upp mótið.
Undirbúningur
Undirbúningur fyrir mótið var heilt yfir ekki nógu góður. Liðsmenn voru mikið á ferðalögum eða uppteknir í aðdraganda mótsins og því gafst ekki mikill tími fyrir liðið til að koma sér saman og stilla strengi fyrir mótið. Ég verð að taka hluta af þeirri sök á mig. Hinn hlutinn liggur hjá liðsmönnum því það er alveg saman hvað menn peppa sig saman og stúdera fyrir mót, ef menn eru ekki virkir og eru ekki að vinna í sínum málum sjálfir þá hjálpar það ekki mikið. Því miður eru okkar bestu menn ekki eins virkir í því að tefla eins og áður en líklega er það efni í aðra umræðu.
Liðsvalið
Guðmundur Kjartansson hefur verið líklegast okkur aktífasti skákmaður undanfarin ár og hann vann sér rétt á mótið með því að verða Íslandsmeistari. Í ljósi þess að sú ákvörðun var tekin að senda einungis fjóra menn á mótið og engan varamenn fannst mér lítið annað í boði en að velja H-in þrjú. Jóhann Hjartarson hefur einnig verið að tefla mikið þó hann sé með "amatör-status" en hann gaf ekki kost á sér í verkefnið enda fór mikill tími frá vinnu í taflmennsku hjá honum og Heimsbikarmótið t.d. eitthvað sem hann hafði ekki reiknað með fyrirfram.
Mótshaldið
Grikkirnir komust mjög vel frá mótshaldinu. Staðurinn sem gist var á var mjög flottur, góð herbergi og góður matur á hótelinu sem er mikilvægt. Þó Heronissos þar sem við vorum hafi verið í algjöru low-season var samt sem áður allt sem þurfti, súpermarkaður nálægt okkur og hægt að kíkja á veitingastaði við strandlengjuna ef menn vildu brjóta upp hótelmatinn. Við fórum einmitt í einn flottan liðsmat saman á einum slíkum.
Skákstaðurinn var mjög góður, gott loft og eina sem hægt var að setja út á var að útaf því að fjórir stórir ljóskastarar voru efst í loftunum gat stundum verið þannig að maður varpaði skugga á borðin þegar gengið var framhjá þeim. Einnig fannst mér vanta að hægt væri að sjá skákum varpað á skjá en það er kannski aukaatriði.
Þó að málmleitartæki og ýmislegt sé komið til að vera þá var andrúmsloftið samt afslappað og ekkert stress í gangi hjá fólki. Málin voru bara leyst og var þetta t.d. mun þægilegra en Ólympíumótið í Baku þar sem það var dagaspursmál hvort liðsstjórar gætu verið með bækur að lesa eða ekki og eftirlit alltof strangt. Allavega plús í kladdann hjá Grikkjunum og ECU!
Árangurinn
Fyrir mótið vorum við númer 27 í stigaröðinni og það er sætið þar sem við enduðum. Að einhverju leiti mætti því segja að árangurinn sé viðunandi. Við töpuðum öllum viðureignum þar sem við tefldum upp fyrir okkur en unnum allar lakari sveitirnar. Tapið gegn Sviss sat þó í mönnum þar sem það hefði gefið okkur góð færi á að ná góðu sæti. Ljóst er þó að við vitum að við getum betur og sérstaklega gegn Sviss og Tékkum hefðum við átt að ná betri úrslitum og jafnvel gegn Slóveníu. Í öllum tilvikum stóðum við vel í viðureignunum en eitthvað fór úrskeiðis.
Árangur einstakra liðsmanna
1. borð Héðinn Steingrímsson
Héðinn leiddi okkur á 1. borði enda stigahæsti skákmaður okkar fyrir mótið. Héðinn hefur ekki teflt mikið á árinu en Íslandsmót skákfélaga og í kjölfarið Evrópukeppni taflfélaga var þó góð æfing fyrir mótið.
Heilt yfir var árangur Héðins undir því sem mætti gera ráð fyrir en að sama skapi tefldi hann vel inn á milli. Héðinn fékk aðeins fjórar skákir með hvítu og sýndi mátt sinn þar og vann þrjár þeirra. Í þeirri fjórðu var hann að tefla dýnamíska skák gegn Mchedlishvili og lenti bara í góðum skákmanni þar sem refsaði vitlausu plani í miðtaflinu. Verr gekk með svörtu mönnunum og var Héðni tvisvar refsað fyrir peðaát, gegn Portúgal og Sviss. Jafnteflið við Navara var feykisterkt og þar hefði sigur jafnvel getað dottið.
Rating performance hjá Héðni var 2503 sem er viðunandi en ég er sannfærður um að í betri æfingu hefði Héðinn skilað meira í búið. Héðinn tapar 8,5 stigum á mótinu.
2. borð Hjörvar Steinn Grétarsson
Það var í raun sama með Hjörvar og aðra, hann hefði mátt vera í betri æfingu fyrir mótið. Hjörvar var hinsvegar að klára erfitt nám á árinu og var að eignast sitt fyrsta barn. Hjörvar tefldi að krafti í haust og tók þátt í mikið af mótum hér heima og var því eins og Héðinn kominn í þokkalega æfingu fyrir mótið.
Mótið byrjaði nokkuð brösulega hjá Hjörvar. Hann byrjaði á baráttuskák gegn Rapport sem hann hefði getað haldið með smá heppni hér og þar. Í annarri umferð tryggði hann sigur með því að ná úrslitum gegn Albaniu en var í raun mjög óheppinn að endataflið sem hann komst út í peði yfir nægði ekki til sigurs.
Allt er þegar þrennt er og í þriðju umferð var Hjörvar gríðarlega óheppinn þegar hann tefldi frábæra skák gegn Pantsulaia og yfirspilaði hann algjörlega. Það breyttist þó því miður og glutraðist niður, fyrst í jafntefli og svo í tap.
Hér var mikilvægt að vel færi að ganga svo þetta færi ekki á sálina hjá okkar manni. Hjörvar vann í fjórðu umferð og endaði mótið með 5 vinninga úr síðustu 6 umferðunum og sýndi hversu sterkur hann er.
Árangur Hjörvars samsvaraði 2590 skákstigum og hækkar hann um 3,7 skákstig á mótinu. Vonandi fáum við sjá Hjörvar meira við skákborðið á næstu árum en hann hefur staðið sig mjög vel á síðustu mótum með landsliðinu.
3.borð Hannes Hlífar Stefánsson
Hannes var nokkuð duglegur að tefla í sumar og tók mót í Rúmeníu og tvö í Tékklandi ásamt Íslandsmótinu. Hannes því í þokkalegri æfingu eins og venjulega enda verið okkar virkasti skákmaður um árabil.
Hannes hefur þó aðeins verið að tapa stigum á þessu ári og var að þessu sinni á 3. borði í liðinu en hefur að jafnaði leitt sveitina. Mér fannst margt jákvætt í taflmennsku Hannesar og öllu hans fasi á þessu móti. Hef t.d. ekki áður séð Hannes skella sér út að skokka í miðju móti en það gerði hann eftir góða sigurskák.
Heilt yfir var mótið fínt hjá Hannesi ef frá er talið miðkaflinn þar sem hann lenti í tveimur töpum sem báru að voða svipað þ.e. að hann hreinlega missti þráðinn í lok skákarinnar og lenti í taktík frá andstæðingnum. Fyrir utan þessar skákir var hann að tefla nokkuð þétt og fannst mér á tíðum glitta í "gamla" Hannes.
Hannes tefldi með performance 2540 og hagnast um 3,7 stig á mótinu.
4. borð Guðmundur Kjartansson
Gummi átti ekki gott mót að þessu sinni og var gríðarlega seinheppinn á köflum. Hann byrjaði vel með því að bjarga góðu jafntefli í erfiðri stöðu gegn Berkes. Í næstu umferð kom dýrt tap sem skrifaðist á praktísk mistök en ættu vonandi að vera lærdómsríkt. Gummi gat þá endurtekið í 40. leik og tekið ákvörðun eftir tímamörk en lék þess í stað tapleik. Annað tap fylgdi en hann átti fína skák í 4. umferð.
Í 5. umferð var Gummi algjörlega að yfirspila andstæðing sinn en gerði þá þau klaufa mistök að í raun tefla of mikið upp á tímann og lenti í mjög flottri taktík. Tvö töp fylgdu í kjölfarið en Gummi náði að enda þetta á jákvæðum mótum með sigri í lokaumferðinni.
Árangur Guðmundar samsvaraði 2387 stigum og hann lækkar um 8,9 stig. Gummi er samt alltaf duglegur að vinna í sínum málum í skákinni og ég vona að það fari að skila sér. Einhvern veginn eru mótin oft svolítið sveiflukennd, hann fer úr því að tefla mjög vel og vinna mótin (Íslandsmót, Scottish Open) yfir í að eiga nokkuð slæm mót. Ég er hinsvegar sannfærður um að ef að Gummi nær að finna sína leka og loka fyrir þá er hann að tefla á stórmeistarastyrkleika, það er ekki spurning!
Að lokum vil ég þakka liðinu og Gunnari fyrir skemmtilega ferð og lesendum hér á Skak.is fyrir að lesa pistlana, vonandi að það hafi verið bæði gagn og gaman af þeim!
Ingvar Þór Jóhannesson
Norðurljósamótið (Northern Lights Open) hefst á morgun kl 16. Teflt verður í félagsheimili TR, Faxafeni 12. Um er að ræða alþjóðlegt mót sem er sérstaklega hugsað fyrir áfangaveiðara og þá sem vilja hækka á stigum. Meðal þátttakenda er indverska undrabarnið Nihal Sarin, sem af mörgum er talinn líklegur til að berjast um heimsmeistaratitilinn í framtíðinni.
Keppendalistinn er hér.
Enn er möguleiki fyrir íslenska skákmenn að taka þátt. Skákmenn undir 2100 skákstigum geta sótt um þátttökurétt með því að senda tölvupóst í netfangið gunnar@skaksamband.is. Lokar verður fyrir nýskráningar á miðnætti. Dagskrá mótsins er þannig sett upp að truflun á vinnu eða skóla verður í lágmarki.
Sjö keppendur, eða næstum þriðjungur mótsins, eru stórmeistarar. Stigahæstur keppenda er Hjörvar Steinn Grétarsson. Annar íslenskur landsliðsmaður sem tekur þátt er Hannes Hlífar Stefánsson.
Hinir erlendu stórmeistarar eru Aloyzas Kveinys (2535), Litháen, Yinglun Xu (2526), Kína, Törbjörn Ringald, Noregi, og Mark Hebden (2460) og Simon Williams (2437), Englandi.
Sá keppenda sem gæti stolið senunni Nihal Sarin (2483) sem að mörgum er talið eitt mesta skákefni heims. Vert er einnig að benda á hinn bandaríska Nikhil Kumar (2274) en sá varð heimsmeistari ungmenna undir 12 ára aldri í fyrra. Sló þar við hinum indverska Praggnanandhaa sem sló í gegn ásamt Sarin á síðasta GAMMA Reykjavíkurskákmóti.
Mótið er sérstaklega sett upp með þarfir áfangaveiðara. Meðal keppenda alþjóðlegu meistararnir Bragi og Björn Þorfinnssynir og Einar Hjalti Jensson sem allir fá þarna tækifæri á stórmeistaraáfanga en til þess þurfa þeir auðvitað eiga frábært mót.
Mótið er óneitanlega afar gott tækifæri fyrir unga og efnilega skákmenn til að hækka á stigum enda munu þeir tefla við stigahærri skákmenn í nánast öllum umferðum. Meðal keppenda verða umgmenninn Vignir Vatnar Stefánsson, Hilmir Freyr Heimisson og tvíburarnir Bárður Örn og Björn Hólm Birkissynir.
Fyrsta umferð hefst á morgun kl. 16. Um helgina verður mikið teflt. Tvær umferðir á laugardag og sunnudag. Umferðir um helgina hefjast kl. 10 og 16.
Að sjálfsögðu geta skákáhugamenn fylgst með herlegheitunum bæði á skákstað og í gegnum heimasíðu mótsins. Á skákstað verður uppá kaffi og góðan félagsskap!
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 09:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2017 | 08:16
Yngri flokkar: Fannar Breki vann Haustmót SA
Haustmót yngri flokka var háð mánudaginn 6. nóvember. 12 keppendur mættu til leiks og tefldu sex umferðir. Baráttan um sigurinn á mótinu stóð einkum milli þeirra Arnars, Fannars og Gabríels og voru innbyrðis skákir þeirra mjög spennandi. Fannar Breki reyndist farsælastur í þessum skákum og hreppti því efsta sætið. Hann er því meistari Skákfélags Akureyrar í yngri flokkum. Fannar sigraði vitaskuld einnig í sínum aldursflokki, 11-13 ára og Gabríel varð annar. Arnar Smári var eini keppandinn í elsta aldursflokknum (14-15 ára) en flestir keppenda voru í barnaflokki (10 ára og yngri) Þar urðu fimm skákséní efst og jöfn með þrjá vinninga, þeir Ingólfur Árni, Tristan Pétur, Jökull Máni, Jóel Snær og Örvar Þór. Þeir skipta því með sér meistaratitli félagsins í barnaflokki þetta árið og eru allir vel komnir að þeim titli.
Heildarúrslit:
Fannar Breki Kárason | 6 |
Gabríel Freyr Björnsson | 5 |
Arnar Smári Signýjarson | 4 |
Ingólfur Árni Benediktsson | 3 |
Jóel Snær Davíðsson | 3 |
Tristan Pétur Daníelsson | 3 |
Sigurður Máni Guðmundsson | 3 |
Jökull Máni Kárason | 3 |
Örvar Þór Þorbergsson | 3 |
Aron Ægir Jóhannsson | 2 |
Ýmir Helgi Teitsson | 1 |
Alexía Líf Huldudóttir | 0 |
Hópmyndina af þátttakendum tók Sigurður Arnarson
8.11.2017 | 22:38
Meira um mót æsku og elli
Að sögn eru margir hinna eldri skákmanna enn að jafna sig eftir súrsæt töp fyrir ungu snillingum á mótinu um síðustu helgi, þar sem m.a. þessar ungu snótir stóðu sig afar vel auk annarra efnilegra ungmenna sem skákuðu þeim eldri þrátt fyrir mikinn aldursmun og brúuðu með því kynslóðabilið.
Falleg kveðja barst frá Friðrik Ólafssyni í tilefni mótsins -með bestu óskum til mótshaldara og baráttukveðjum til allra þátttakenda jafnt yngri sem eldri. Hann gæti því miður ekki fylgst með skemmtilegri viðureign þegar æskan og ellin etja kappi í snarpri glímu hugans á reitunum 64 að þessu sinni, en sagði jafnframt að á næsta ári yrðu liðin 60 ár frá því að honum var veittur titill stórmeistara í skák. Á það mætti líta sem sérstakt tilefni fyrir hann að mæta til leiks þá og fylgjast með viðureign æskunnar og ellinnar í þessari göfugu andans íþrótt.
Fleiri myndir má frá þessu áhugaverða móti sjá í myndalbúminu hér á síðunni og frekari umfjöllun um mótið á heimasíðu TR og í MBL.is hér:
http://taflfelag.is/aeskan-og-ellin-alexander-oliver-mai-hlutskarpastur/
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/11/08/hinir_yngstu_og_elstu_ottu_kappi_i_skak/
8.11.2017 | 12:42
Fjórir efstir á Skákþingi Garðabæjar
Fimmta umferð Skákþings Garðabæjar fór fram í fyrradag. Bárður vann Vigni á efsta borði í skemmtilegri skák þar sem Vignir fórnaði 2 peðum fyrir frumkvæði sem entist ekki nógu vel. Skák Eiríks og Patricks var frestað vegna flugsamgagna á sunnudagskvöld, þar sem Eiríkur náði ekki til landsins í tæka tíð. Gauti Páll vann Jóhann og Dorin vann Sverri. Páll Andra gerði jafntefli og Páll Sig vann.
Næsta umferð á að vera á föstudag en þá verður norðurljósamótið hafið og hefur það töluverð áhrif þar sem 4 keppendur í mótinu tefla þar, auk þess sem það eru 2 frestaðar skákir úr 4. og 5. umferð eftir líka.
Þessar skákir verða tefldar í voru tefldar í gærkvöldi í Garðaskóla og í kvöld samhliða U2000 mótinu. 3 skákir hvort kvöld.
4 skákir verða svo á föstudag.
Norðurljósamótið verður enn í gangi á mánudag þannig að finna þarf dagsetningu til að klára mótið í næstu viku. þá væntanlega milli 16 nóv og 20 nóv. þe. þær skákir sem ekki fara fram á mánudag.
4 skákmenn eru nú efstir og jafnir í mótinu. Þeir Vignir, Gauti Páll, Bárður og Patrick.
Sjá má úrslit, stöðu, pörun og þær skákir sem búið er að slá inn á chess-results
Tómas Veigar Sigurðarson sigraði á flippflennifína Framsýnarmótinu sem fram fór um helgina á Húsavík. Tómas endaði með 4,5 vinninga af 5 mögulegum og gerði aðeins eitt jafntefli, við nafna sinn, Smára Sigurðsson. Smári endaði í 2. sæti með 3,5 vinninga og Sigurður Daníelsson náði þriðja sætinu á stigum, en hann fékk jafn marga vinninga og hinir ungu og efnilegu Kristján Ingi Smárason og Arnar Smári Signýjarson að ógleymdum Rúnari Ísleifssyni, sem er kannski ögn eldri en alveg jafn efnilegur. Fjórmenningarnir í 3.-6. sæti hlutu allir 3 flippflennifína vinninga.
Hinir ungu og efnilegu Kristján Ingi Smárason og Arnar Smári Signýjarson taka við verðlaunum
Kristján Ingi Smárason hreppti svo fyrsta sætið í flokki yngri keppenda og Arnar Smári Signýjarson vann utanfélagsflokkinn nokkuð örugglega.
Af tertunni góðu er það helst að frétta að varaformaðurinn setti hana í frost og hyggst bjóða upp á tertu á flippflennifína Framsýnarmótinu árið 2018 (og 19!).
7.11.2017 | 11:39
Æskan & ellin 2017 Alexander Oliver vann
Það var kátt í höllinni og mikið um dýrðir í skákmiðstöð TR í Faxafeni á laugardaginn var þegar skákhátíðin Æskan & Ellin fór þar fram. Yfir 60 keppendur mættir til tafls að brúa kynslóðabilið í hvítum reitum og svörtum. Annars vegar um 26 eldri skákmenn 60 - 85 ára og hins vegar 36 uppvaxandi æskumenn, meistarar framtíðarinnar, 15 ára og yngri.
Þetta var í fimmta sinn sem RIDDARINN, skákklúbbur eldri borgara og Taflfélag Reykjavíkur standa sameiginlega að mótshaldinu. Aðalstuðningsaðili mótsins nú er fiskútflutningsfyrirtækið TOPPFISKUR, en forstjóri þess er Jón Steinn Elíasson, fyrrv. Snæfellsnessmeistari í skák og tefldi með í mótinu.
Að loknum inngangsorðum Einars Ess, formanns mótsnefndar, þar sem hann undirstrikaði þroskandi gildi skákarinnar yfir hina yngri og félagslegt gildi hennar fyrir hina eldri, flutti Sr. Gunnþór Ingason, fyrrv. sóknarprestur í Hafnarfirði verndari mótsins stutt ávarp/hugvekju. Skákstjóri mótsins nú var Jon Olav Fivelstad, alþjl. skákdómari og naut við það aðstoðar Kjartans Maack, formanns TR sem og Páls Sigurðssonar, formanns TG sem hefur lengst af sinnt því hlutverki.
Þó á ýmsu gengi hjá yngstu keppendunum - sem og þeim eldri - ríkti samt mikil hátíðarblær og spenna í skáksalnum á meðan á mótinu stóð. Flestir öldunganna urðu að sætta sig við það að bíða óvænt lægri hlut fyrir æskunni í einhverri skáka sinna, sem sýnir að í skákinni ríkir ekkert kynslóðabil og margir efnilegir krakkar á ferðinni.
Að lokinni tvísýnni keppni þar sem hart var barist og hart var varist stóð ungmennið Alexander Oliver Mai uppi sem sigurvegari með 7.5 vinninga af 9 mögulegum. Jafn honum að vinningum var Júlíus Friðjónsson, en ögn lægri að stigum á öðru broti. Þriðji varð Gylfi Þórhallsson og í fjórða sæti hinni gamalkunni Sigurður Herlufsen, sem jafnframt varð efstur í flokki 80 ára og eldri. Sigurvegarar í öðrum aldursflokkum urðu: 70-70 ára : Þór Valtýsson; 60-69 ára Júlíus Friðjónsson; 13-15 ára Alexander Mai; 10-12 ára Óskar Víkingur Davíðsson; og 9 ára og yngri: Anna Katarina Thoroddsen. Auk aldursverðlauna í mörgum flokkum fékk hún sértök stúlknaverðlaun auk þess sem elsti keppandinn Magnús V. Pétursson (86) og sá yngsti Jósef Omarsson (6) voru sæmdir aukaverðlaunum.
Heildarúrslit og aldurflokkaúrslit má sjá nánar á meðf. vettvangsmyndum sem og hér: http://chess-results.com/tnr311978.aspx?lan=1&art=1&rd=9&flag=30&wi=821
7.11.2017 | 07:00
Skákþing Skagafjarðar hefst á morgun
Skákþing Skagafjarðar 2017 hefst miðvikudaginn 8. nóv. kl. 20.00 í Safnaðarheimilinu. Telfdar verða 5 umferðir eftir Monradkerfi og verða tímamörkin 90 mín. á skákina + 30 sek. viðbótartími á hvern leik. Skákmeistari Skagafjarðar 2016 varð Jón Arnljótsson.
Spil og leikir | Breytt 3.11.2017 kl. 07:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ísland vann stórsigur, 4-0, á Færeyingum í lokaumferð Evrópumóts landsliða í kvöld. Hjövar Steinn Grétarsson var fyrstur til að vinna. Héðinn fylgdi svo í kjölfarið. Unnu báðir góða sigra á Nielsen-bræðrunum, Rógva og Högna. Guðmundur Kjartansson og sérstaklega Hannes Hlífar Stefánsson þurftu að hafa meira fyrir sigurinum. Góður sigur á Færeyingum og í fyrsta skipti að við vinnum þá 4-0.
Sigurinn í dag fleytti íslensku sveitinni upp í 27. sæti sem er sama sæti og liðinu var raðað í fyrir mót. Ísland var næstefst Norðurlandanna. Aðains Norðmenn urðu ofar.
Norðurlandakeppnin:
- (23) Noregur 9 stig
- (27) Ísland 8 stig
- (31) Finnland 7 stig
- (34) Danmörk 6 stig
- (36) Færeyjar 6 stig
Árangur íslenska liðsins (stigabreyting í sviga)
- Héðinn Steingrímsson 4 v. af 9 (-8,5)
- Hjövar Steinn Grétarsson 5,5 v. af 9 (+3,7)
- Hannes Hlífar Stefánsson 5 v. af 9 (+3,7)
- Guðmundur Kjartansson 3,5 af 9 (-8,9)
Liðsstjóri var Ingvar Þór Jóhannesson.
Aserar urðu Evrópumeistarar eftir æsispennadi baráttu. Rússar urðu jafnir að stigum en Aserar höfðu titilinn eftir stigaútreining. Úkraínumenn urðu þriðju.
Rússar urðu Evrópumeistarar kvenna. Georgía varð í öðru sæti og Úkraína í því þriðja.
Mótinu verður gerð betri skil síðar.
Verðlaunaafhending hefst núna kl. 19.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 18:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjustu færslur
- Ný vefsíða Skák.is!
- Loftur fær Héðin í fyrstu umferð
- Tveir fyrrum heimsmeistarar bættust við á keppendalistann á l...
- Ný alþjóðleg skákstig
- Carlsen vann Aronian - með vinningsforskot og aftur yfir 2850
- Skákklúbburinn Æsir - vertíðarlok
- Fundargerð aðalfundar SÍ
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open hefst á föstudaginn
- Carlsen vann Caruana í fyrstu umferð Altibox Norway Chess
- Þrír efstir og jafnir eftir fyrsta minningarmót Vinaskákfélag...
Tenglar
Mót í gangi
Mót sem eru í gangi hverju sinni
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open Valsheimilið, 1.-9. júní
- Altibox Norway Chess 27. maí - 8. júní: Carlsen og flestir sterkustu skákmenn heims
Lykilvefir
- Skáksamband Íslands Heimasíða SÍ
- Mótaáætlun SÍ
- Vefsvæði Friðriks Ólafssonar Vefsíða tileinkuð Friðriki Ólafssyni
- Skákskóli Íslands
- Skáksögufélagið
- F3-klúbburinn Vildarvinir skákíþróttarinnar á Íslandi
- Tímaritið Skák
- Fischersetur Selfoss
- Skákbækur til sölu
- Bobbý skáksverslun
- Skákhornið Spjallþráður skákmanna
- Skáklandið Stefán Bergsson bloggar
- Skákmyndir
Kennsluvefir
Íslensk taflfélög
Ef þú vilt tefla á netinu!
- Vinaskákfélagið
- Skákfélagið Hrókurinn
- Skákfélagið Huginn
- Taflfélag Reykjavíkur
- Víkingaklúbburinn
- Skákfélag Akureyrar
- Taflfélag Garðabæjar
- Taflfélag Vestmannaeyja
- Æsir
- Skáksamband Austurlands
- Skákdeild Fjölnis
- Skákfélag Sauðárkróks
- Taflfélag Bolungarvíkur
- Skákfélag Selfoss og nágrennis
- Skákdeild Breiðablik
- Skákdeild KR
- Skákdeild Breiðabliks
- Gallerý Skák
- Riddarinn
- Félag íslenskra bréfskákmanna
Erlendir skákvefir
- FIDE Alþjóðlega skáksambandið
- ECU
- The Week in Chess
- ChessBase
- Chess Vibes
- Chessdom
- Your Chess News Umsjón Jóhann H. Ragnarsson
- Bergens Schakklub Besta norræna skákfréttasíðan
- Færeyska skáksambandið
- Bloggsíða Susan Polgar
- ChessCafe Pistlar og greinar
Almanök
Teflt á netinu
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.7.): 3
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 114
- Frá upphafi: 8778789
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 85
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar