Færsluflokkur: Spil og leikir
27.6.2014 | 09:39
Guðmundur með tap og vinning í gær

Guðmundur Kjartansson (2434) fékk einn vinning í gær á alþjóðlegu móti í Finnlandi en þá voru tefldar tvær umferðir. Hann vann finnska FIDE-meistarann Pekka Koykka (2307) en tapaði fyrir rússneska stórmeistaranum Vasily Yemelin (2556). Guðmundur hefur 2,5 vinning að loknum sex umferðum.
Í sjöundu umferð, sem hefst nú kl. 10, teflir hann við lettneska stórmeistarann Arturs Neiksans (2571).
Tíu skákmenn taka þátt í mótinu og eru meðalstig 2452 skákstig. Þrír stórmeistarar, fimm alþjóðlegir meistarar og tveir FIDE-meistarar taka þátt. Guðmundur er nr. 6 í stigaröð keppenda.
26.6.2014 | 08:24
Pistill Braga frá Riga

Pistill frá Braga Þorfinnssyni þar sem hann fjallar um alþjóðlegt mót í Riga í fyrrasumar.
Eftir miklar vangaveltur í sumar ákváðum við bræður að leggja land undir fót og skella okkur á skákmót. Það höfðum við ekki gert tveir saman síðan við lögðum upp í mikla frægðarför til Hastings á því dramatíska og sögulega ári 2001. (Þar tapaði ég 20 stigum og Björn sópaði upp 20 stigum ef minnið svíkur mig ekki). Miðað við árangur okkar að þessu sinni er líklegt að við tökum aftur skákferð saman eftir svona tíu ár. Fyrir valinu varð alþjóðlegt mót í Ríga, Lettlandi. Björn var sérstaklega hlynntur að tefla þarna þar sem að með því bætti hann við öðru landi, í fáránlega kúl landaleikinn sinn (sem gengur einfaldlega út á það að hann heimsæki sem flest lönd). Ég var líka með einhverjar rómantískar Tal sögur í kollinum, beint upp úr bókum Sosonko, þannig að ég var auðveldlega sannfærður. Ríga var málið. Það var allt að því barnsleg tilhlökkun í okkur, þegar við lögðum af stað í þessa reisu. Gleði Björns bróður er jafnan einlæg og smitandi. Það er skemmst frá því að segja, að við náðum ekki að sýna okkar bestu hliðar í þetta skiptið. Þó var ekki um að ræða einhvern harmleik á 64 reitum en við vitum báðir að við eigum að gera betur. En ferðin var ánægjuleg í alla aðra staði og lærdómsrík á marga vegu.
Ég hef aldrei verið sérstaklega mikill aðdáandi morgunumferða og það sýndi sig í þessu móti. Helsti gallinn á því var að tvisvar sinnum voru tefldar tvær umferðir á dag (2. og 3. umferð, sem og 5. og 6. umferð) Þá voru tímamörkin 90 30 á alla skákina, þ.e. enginn viðbótartími eftir 40. leikina. Maður var einfaldlega mættur í gamla góða íslenska deildakeppnisfyrirkomulagið þarna úti. Það hentaði mér e.t.v. illa þar sem ég var frekar æfingalaus eftir sumarið. Ég fór þó ágætlega af stað í mótinu og var kominn með 3 af 4. Hlutirnir fóru að fara úrskeiðis í 5. og 6. umferð. Í þeirri fyrri mátti ég sætta mig við tap í langri skák gegn ungum óbilgjörnum Rússa, en í þeirri síðari missti ég gjörunna stöðu niður í jafntefli gegn lettneskum heimamanni. Ég náði aðeins að laga stöðuna með 1,5 af 2 í næstu umferðum en tap í síðustu (eldhress morgunumferð) lét mann verða fyrir vonbrigðum með mótið í heild. Það er alltaf mikilvægt að tapa ekki í síðustu umferð á skákmótum.
Við bræður nutum þess þó vel að vera í Ríga, það er falleg borg sem hefur upp á margt að bjóða. Við kíktum m.a. minnisvarða um Mikhail Tal, sem var staðsettur í stórum og blómlegum almenningsgarði. Það er einnig vel hægt að mæla með þessu móti, af mörgum ástæðum. Keppnisstaðurinn er vel ásættanlegur og mótið er sterkt. Þá er stutt að ganga í allar áttir og góðir veitingastaðir út um allt. Þá sýndi það sig að það er einnig heppilegt fyrir áfangaveiðara. Til dæmis náði Færeyingurinn og öðlingspilturinn Helgi Ziska sínum fyrsta stórmeistaraáfanga í mótinu og það var ánægjulegt að verða vitni að því.
En að lokum kemur hér skák sem ég tefldi við ísraelskan skákmann í 2. umferð mótsins:
Bragi Þorfinnsson
26.6.2014 | 08:13
Guðmundur tapaði fyrir Tomi Nyback
Íslandsmeistarinn í skák, alþjóðlegi meistarinn, Guðmundur Kjartansson (2434), tapaði fyrir finnska stórmeistaranum Tomi Nyback (2594) í fjórðu umferð alþjóðlegs móts í Finnland. Guðmundur hefur nú 1,5 vinning.
Í dag eru tefldar tvær umferðir. Í þeirri fyrri, sem nú er í gangi, teflir hann við finnska FIDE-meistarann Pekka Koykka (2307) og í þeirri síðari sem hefst kl. 13, teflir hann við rússneska stórmeistarann Vasily Yemelin (2556).
Í fyrri skák gærdagsins tapaði hann fyrir lettneska alþjóðlega meistaranum Toms Kantans (2467) og í þeirri síðari gerði hann jafntefli við finnska alþjóðlega meistarann Sampsa Nyysta (2359).
hlaut ½ vinning úr tveimur skákum á alþjóðlegu móti í Finnlandi í gær. Að loknum þremur umferðum hefur Guðmundur hlotið 1½ vinning.
Í fyrri skák gærdagsins tapaði hann fyrir lettneska alþjóðlega meistaranum Toms Kantans (2467) og í þeirri síðari gerði hann jafntefli við finnska alþjóðlega meistarann Sampsa Nyysta (2359).
Í dag teflir hann við sterkasta skákmann Finna, Tomi Nyback (2594). Skákin hefst kl. 10.
Tíu skákmenn taka þátt í mótinu og eru meðalstig 2452 skákstig. Þrír stórmeistarar, fimm alþjóðlegir meistarar og tveir FIDE-meistarar taka þátt. Guðmundur er nr. 6 í stigaröð keppenda.25.6.2014 | 12:21
Pistlar Guðmundar Kjartanssonar
Íslandsmeistarinn Guðmundur Kjartansson er um þessar mundir að tafli á alþjóðlegu móti í Finnlandi Á meðan beðið er frétta af Guðmundi í dag er tilvalið að renna yfir eldri pistla frá honum um mótahald á Spáni, Kosta Ríka og Kolumbíu í fyrra.
Með pistlunum fylgja með 7 skákir/skákbrot frá þessum mótum.
Spánn 2013
Hæ! Nú er ég staddur í Figueres, Spáni þar sem ég er að klára fimmta mótið af sjö sem ég tek þátt í í sumar, sem er aðeins meira heldur en ég er vanur. Ég ákvað að skella mér hingað til Spánar því hér get ég tekið mót eftir mót í Katalóníu mótaröðinni. Fyrsta mótið sem ég tók þátt í var í Montcada sem er nánast í Barcelona, og verður að teljast þrælmorkinn staður! Ef menn eru að hugsa um að taka mót hér á Spáni eða nálægt þá mæli ég frekar með Benasque eða Andorra sem eru virkilega flottir staðir upp í fjöllunum! Eftir Andorra fór ég svo aftur til Barcelona og tók þátt í fjórða mótinu og loksins hingað til Figueres!
Hingað til hefur ekki gengið neitt sérstaklega en samt hefur alltaf verið eitthvað jákvætt í hverju móti og er ég viss um að þetta muni allt saman skila sér fyrr eða síðar!
Figueres er líka nokkuð skemmtilegur staður, teflum í kastala eða kastala virki, sem er ekki hægt að kvarta yfir. Svo er hinn frægi súrrealiski listamaður og einn helsti listamaður Spánar fyrr og síðar, Salvador Dali, héðan. Ég er reyndar enn þá eftir að kíkja á safnið, en geri það líklega í dag eða á morgun. En það sem stendur upp úr í þessu móti er atvik sem átti ser stað í gær í sjöundu umferðinni. Einn keppanda í mótinu mætti með yfirvaraskegg í skákina sem væri ekki frásögu færandi, nema hvað..... að í kringum fimmtánda leik var yfirvaraskeggið horfið!! Mikil ráðgáta sem er óleyst enn þann dag í dag.
Á morgun klárast mótið og fæ ég þá loksins smá hvíld þangað til næsta mót hefst í Barcelona 23.ágúst, Sants Open, sem er líklega sterkasta mótið sem ég tek þátt í í sumar svo ég er nokkuð spenntur fyrir því. Eftir það tek ég þátt í móti í Sabadell sem er ekki langt frá Barcelona.... og svo loksins heim!
Undanfarið hef ég verið að leggja meiri áherslu á endatöfl og var ég nýlega að klára að lesa bók eftir GM Jesús de la Villa sem heitir 100 endatöfl sem er mikilvægt að þekkja" sem ég mæli eindregið með, ætti að vera hægt að fá hana hjá Sigurbirni!
Ég hef teflt mikið af áhugaverðum endatöflum núna í sumar, m.a. 4 hróksendatöfl sem ég ætla að fara yfir. Út af stuttum tímamörkum eru þessi endatöfl reyndar frekar illa tefld. Ég er aðeins með FireBird 1.31 en ekki Houdini svo það er mjög líklegt að það séu einhverjar villur í stúderingunum.
Kosta Ríka og Kólumbía 2013
Eftir EM landsliða í nóvember sl. fórum við Hannes Hlífar til Kosta Ríka til að taka þátt í deildakeppninni þar í landi. Eftir mótið stóð til að hafa nokkuð sterkan lokaðan stórmeistaraflokk en því miður var hætt við það og í staðinn haldið opið mót sem var ekkert sérstakt. Svo fór Hannes til Nicaragua til að taka þátt í öðru móti en ég ákvað að taka þátt í opnu móti í Kólumbíu í staðinn, Hannes vann öruggan sigur í Nicaragua en ég lenti í 4. sæti í mínu móti, hér eru 2 áhugaverðar stöður sem komu upp hjá mér.
Spil og leikir | Breytt 26.6.2014 kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2014 | 09:33
Guðmundur með hálfan vinning í gær
Íslandsmeistarinn í skák, alþjóðlegi meistarinn, Guðmundur Kjartansson (2434), hlaut ½ vinning úr tveimur skákum á alþjóðlegu móti í Finnlandi í gær. Að loknum þremur umferðum hefur Guðmundur hlotið 1½ vinning.
Í fyrri skák gærdagsins tapaði hann fyrir lettneska alþjóðlega meistaranum Toms Kantans (2467) og í þeirri síðari gerði hann jafntefli við finnska alþjóðlega meistarann Sampsa Nyysta (2359).
Í dag teflir hann við sterkasta skákmann Finna, Tomi Nyback (2594). Skákin hefst kl. 10.
Tíu skákmenn taka þátt í mótinu og eru meðalstig 2452 skákstig. Þrír stórmeistarar, fimm alþjóðlegir meistarar og tveir FIDE-meistarar taka þátt. Guðmundur er nr. 6 í stigaröð keppenda.25.6.2014 | 09:30
Fundargerð aðalfundar SÍ
Fundargerð aðalfundar SÍ frá 10. maí sl. rituð af Róberti Lagerman er nú tilbúin.
Hana má nálgast hér.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 09:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dagana 7.-14. júní fór fram alþjóðlegt mót kennt við Bjarnarhöfða við Portu Mannu í Sardiníu. Þangað fór níu manna hópur frá Íslandi og þar af fjórir keppendur á alþjóðlega mótinu sjálfu. Almennt gekk þokkalega hjá íslensku skákmönnunum og þá sérstaklega hjá Heimi Páli Ragnarssyni sem stóð sig best allra keppenda með 1500 skákstig eða minna.
Frammistaðan

Þröstur Þórhallsson (2425) varð efstur Íslendinganna en hann hlaut 6 vinninga og endaði í 7.-12. sæti (8. sæti á stigum). Hann var aðeins einu sæti frá verðlaunasæti.
Gunnar Björnsson (2063) hlaut 5,5 vinning og endaði í 13.-32. sæti (30. sæti). Stefán Bergsson (2077) fékk 5 vinninga og endaði í 33.-44. sæti (34. sæti).
Heimir Páll Ragnarsson (1423) hlaut 4,5 vinning og endaði í 45.-66. sæti (64. sæti).
Heimir Páll vann sigur í flokki skákmanna undir 1500 skákstigum. Í verðlaun fékk hann flottan verðlaunagrip auk 150 í verðlaun. Heimir var einnig nálægt því að fá verðlaun í unglingaflokki. Hann varð þar fjórði en veitt eru þrenn verðlaun í hverjum flokki.
Heimir hækkaði um heil 50 stig (!!) fyrir frammistöðu sína en með réttu miðað við skákstig hefði hann átt að fá 1,17 vinning en fékk 4,5 vinning!
Stefán átti einnig gott mót en hann hækkaði um 21 skákstig. Hann var auk þess óheppinn að tapa í lokaumferðinni en jafntefli þar hefði væntanlega tryggt honum sigur í flokki skákmanna undir 2100 skákstigum.
Gunnar og Þröstur voru nánast á pari. Gunnar (0) og Þröstur (-4). Samtals komu því 67 skákstig inn í íslenskt skákstigahagkerfi á mótinu.
Þröstur byrjaði illa en náði sér vel á strik í lok mótsins. Sömu sögu má að einhverju leyti segja um undirritaðan. Stefán tefldi frískast allra og má þar sérstaklega nefna jafnteflisskákina gegn rússneska stórmeistaranum Sergei Besjukov. Þar fórnaði hann hrók að því virtist fyrir óljósar bætur en við stúderingar (með hjálp tölvu) kom í ljós að það var andstæðingurinn sem mátti fremur þakka fyrir jafnteflið.
Heimir Páll tefldi vel og átti margar góðar skákir. Það er mikill lærdómur að tefla við upp fyrir sig í hverri umferð og ekki síður að tefla við nýja andstæðinga - en ekki þá sömu aftur og aftur eins og vill gjarnan gerast á innlendum mótum. Heimir nýtti það tækifæri vel og tefldi af miklum krafti.
Sjálfur tefldi ég skrykkjótt og missti stundum þráðinn. Sérstaklega í pósanum þar sem styrkleiki minn liggur ekki. Taflmennskan fór þá batnandi þegar leið á mótið. Í lokaumferðinni mætti ég ungum ítölskum alþjóðlegum meistara (2390). Hann mætti ríflega 20 mínútum of seint og virtist fremur áhugalaus. Hann tefldi Dragendorf og valdi ég fremur rólegt framhald (7. Be2 í stað 7. f3). Eftir átta leiki átti ég leik og skyndilega heyrast gríðarlegir skruðningar sem virðast engan endi ætla að taka. Var nánast eins og þakið væri að hrynja. Þegar ég er að hugsa um níunda leikinn býður andstæðingurinn mér jafntefli sem ég þáði enda sáttur við jafntefli við upphaf skákarinnar.
Þegar ég kom svo út í lok skákarinnar kom í ljós hvernig stóð á hávaðanum. Mannlaus bíll hafði losnað úr handbremsu í brekku og nánast lent oná þakinu. Var mildi að ekki fór verr því hefði bíllinn komist upp á allt þakið hefði það getað farið mun verr. Sömu sögu má segja ef hann farið beint niður brekkuna. Þá hefði hann verið á mikilli ferð og lent á húsum þarna.
Fyrirtaks aðstæður
Aðstæður á skákstað voru til fyrirmyndar. Góð trésett, grænir dúkar, góð borðastærð og góð loftræsting til staðar. Yuri Garrett heitir sá sem hélt mótið ásamt félaga sínum Stefano Lupini sem rekur hótelið á skákstaðnum.
Nokkuð var um hliðarviðburði. Eitt kvöldið var hraðskákmót en enginn Íslendinganna tók þar þátt. Lokakvöldið var tefld tvískák. Í hádeginu voru svo sterkustu keppendur mótsins með fyrirlestra. Má þar nefna Ni Hua, Mikhail Marin, Lars Schandorff og Sabino Brunello.
Getraun var í hverri umferð þar sem hægt var að spá um úrslitin á 12 efstu borðunum (1x2). Var sú keppni kölluð TotuMannu. Við Stefán blönduðum okkur báðir í toppbaráttuna - sérstaklega þó Stefán sem var efstur um tíma. Verðlaun voru góð - eða boð á næsta mót (þátttökugjöld, gisting og fæði). Því miður enduðu þau verðlaun í ítölskum höndum L.
Hápunktur hliðarviðburða (a.m.k. að mati Íslendinga) var svo Reykjavik Open Pub Quiz sem var í umsjón mín og Stefáns. Sem grunn notuðum við spurningar frá Sigurbirni Björnssyni frá árunum 2010 og 2011 og svo vorum við nokkrar sérhannaðar spurningar fyrir Ítalanna. Spurningarnar voru þó heldur léttari en á Reykjavik Open. Sigurvegar voru Brunello og Íslandsvinurinn Luca Barillaro. Sá mætti kátur í bol merktum Taflfélaginu Helli en hann tefldi með félaginu á Íslandsmóti skákfélaga í fyrra og stóð sig vel.
Keppendur búa í húsum sem flestu leyti voru góð. Snyrtilegt var í húsinu og þau þrifin daglega. Verðið fyrir gistingu og fullt fæði, sem var gott og fjölbreytt, var 60.
Þær Roberta og Fransisca voru svo ákaflegar almennilega og þægilegar á hótel/sundlaugarbarnum.
Misjafnar áherslur
Keppendalistinn var heldur öðruvísi en við Íslendingar erum vanir. Konur voru í miklum minnihluta og mun minna var um unga skákmenn en við erum vanir. Nóg var hins vegar um miðaldra ítalska karlmenn af öllum getustigum en alls komu keppendur frá 16 löndum.
Misjafnar áherslur voru meðal keppenda. Sumir komu auðvitað til að vinna verðlaun og meðan aðrir höfðu aðrar væntingar.
Þrír Írar tóku þátt í mótinu. Ákaflega skemmtilegar karlar en þetta er í fjórða skiptið sem þeir tóku þátt. Þeir höfðu sína daglegu rútínu. Þeir gengu upp á hæðina fyrir ofan húsin og komu þar við á bar. Þar fengu þeir sér aldrei meira en tvo bjóra. Svo gengu þeir niður hæðina til að koma í matinn. Þar fengu þeir sé aldrei meira en einn bjór! Svo var tekinn 20 mínútna siesta" fyrir skák!
Að lokum
Óhætt er að mæla með þessu móti fyrir íslenska skákmenn. Ekki síst fyrir fjölskyldur en bæði og ég Þröstur tókum með okkur fjölskyldumeðlimi sem ekki tóku þátt í mótinu. Langt er þó í búðir en gott getur verið að taka bílaleigubíla og keyra til næsta bæjar, Palau, (um 5-10 mínútna akstur). Nóg var fyrir okkur að hafa einn slíkan bíl fyrir okkur níu.
Mótið er vel áfangahæft fyrir þá sem eru að sækja sér AM-áfanga en mótið er töluvert síður áfangahæfara fyrir stórmeistaraáfanga. Enginn áfangi kom þó í hús en tveir keppendur sem þurftu að fá jafntefli í lokaumferðinni töpuðu sínum skákum.
Ströndin er svo stutt undan og ákaflega góð stúderingaaðstæða í húsunum með frábæru útsýni eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Ef menn hafa áhuga á þátttöku má benda á mótið 2015 fer fram 6.-13. júní! Ég mæli eindregið með mótinu. Ekki þá síst fyrir unga og efnilega skákmenn. Svo má benda á að mótið er sérstaklega fjölskylduvænt fyrir þá sem vilja sameina skák- og fjölskylduferð og eru jafnvel á höttunum eftir AM-áfanga.
Myndaalbúm (GB og fleiri)
Gunnar Björnsson
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 10:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.6.2014 | 15:27
Guðmundur vann í fyrstu umferð
Í dag hófst lokað alþjóðlegt mót í Sastamala í Finnlandi. Fulltrúi Íslands á mótinu er Íslandsmeistarinn og alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson (2434). Gummi hóf mótið vel eða með sigri á finnska alþjóðlega meistaranum Mikael Agapov (2431).
Á morgun eru tefldar tvær umferðir. Sú fyrri hefst kl. 7 og sú síðari kl. 13. Í þeirri fyrri teflir Gummi við lettneska alþjóðlega meistarann Toms Kantans (2467) og í þeirri síðari við finnska alþjóðlega meistarann Sampsa Nyysta (2359).
Tíu skákmenn taka þátt í mótinu og eru meðalstig 2452 skákstig. Þrír stórmeistarar, fimm alþjóðlegir meistarar og tveir FIDE-meistarar taka þátt. Guðmundur er nr. 6 í stigaröð keppenda.
- Heimasíða mótsins
- Beinar útsendingar (virkuðu ekki í fyrstu umferð)
23.6.2014 | 14:23
Björn Þorfinnsson: Pistill frá Riga
Hér birtist pistill frá Birni Þorfinnssyni frá Riga í fyrra í ágúst.
Pistill Björns
Í byrjun ágúst héldum við bræðurnir til Ríga-borgar í Lettlandi til að taka þátt í þriðja Riga Open mótinu. Ríga er náttúrulega afar þekktur staður í skáksögunni þökk sé töframanninum sem þar fæddist og bjó en þrátt fyrir það hefur verið skortur af alþjóðlegum mótum þar fyrir almennan skákmann. Nú hefur orðið breyting þar á með móthaldi Egons Lavendelis og félaga og metnaðurinn er mikill - mótið á að verða eitt sterkasta opna mót heims.
Það er óhætt að segja það að Lavendelis sé að gera margt gott. Sjálft mótið er sérstaklega þétt (þökk sé flokkaskiptingu þar sem A-flokkur er yfir 2150), verðlaunin er nokkuð góð þó að þeir ætli að gera betur þar á næstu árum og öll skipulagning var með miklum ágætum. Staðsetning mótsins var svo algjörlega frábær - í hjarta gamla bæjarins í Ríga sem er einstaklega fallegur og iðandi mannlíf hvert sem augu litu.
Hinsvegar er náttúrulega ýmislegt sem að mátti bæta og helst voru það sjálfar aðstæður á skákstað því að teflt var í Riga Technical University sem er hreint ekkert svo tæknilegur, amk ekki sjálf byggingin. Engin loftræsting var á skákstað og þar sem mikill hiti var í Riga í ágústmánuði þá var oft ansi loftlaust og agalegt á skákstað. Skipuleggjendur brugðu á það ráð að hafa alla glugga opna, sem gerði í raun lítið gagn, en þá bárust inn iðandi tónar frá einhverju þéttasta brassbandi sem ég hef heyrt í. Þetta ágæta brassband spilaði á torginu fyrir framan skákstaðinn frá morgni til kvölds, stanslaust allan daginn. Ég var fullur aðdáunnar yfir vinnuseminni til að byrja með en til lengri tíma var þetta orðið ansi þreytandi.
Eitt sérstaklega skemmtilegt móment tengt sveitinni átti sér stað í fyrstu umferð hjá mér þegar ég skrúfaði niður sterkum leik sem var síðasti naglinn í líkkistu andstæðingsins. Uppgjöf hans var eini raunhæfi kosturinn en á meðan hann hugsaði sinn gang þá byrjaði sveitin að spila frábæra útgáfu af "We are the champions" með Queen!
Annað stórkostlegt atriði átti sér stað um miðbik mótsins, á afar heitum degi þegar að tvöföld umferð fór fram. Ég var að rölta um salinn þegar mér verður litið til skákmanns (sem síðar kom í ljós að var Lithái) sem fer allt í einu að vagga skringilega. Ég hélt fyrst að maðurinn væri drukkinn en svo allt í einu sé ég hvernig það hreinlega slokknar á honum og hann hrynur í gólfið eins og kartöflupoki. Ég verð að viðurkenna að ég fraus á þessu augnabliki, enda sannfærður um að maðurinn væri dauður, en sem betur fer voru aðrir aðilar fljótir á vettvang og veittu manninum aðhlynningu. Hann náði fljótlega meðvitund og steig á fætur en var augljóslega frekar ringlaður. Hringt var á sjúkrabíl að sjálfsögðu og skákstjórar lögðu hart að manninum að koma fram og reyna að jafna sig. Þá kom það í ljós að maðurinn sat enn að tafli og það gegn enskum vini mínum Ed Player. Playerinn hafði fylgst með því sem gekk á og seinna á veitingarstað sem við sóttum gjarnan sagði hann mér: "I wasnt hoping he was dead or anything, I was just hoping he would have to resign the game!". Þess má þó geta að þrátt fyrir þetta tækifærissinnaða svar Players þá er drengurinn einstakt heiðursmenni eins og síður kemur í ljós. En aftur að Litháanum. Á þessu augnabliki ruddist hann að borði þeirra Players, þar sem hann átti leik, og fór að hugsa næsta leik. Player bauð honum þá jafntefli sem var fallega gert því hann var mun stigahærri en Litháinn. Litháinn leit þá upp, og ég mun seint gleyma því hvað hann var gjörsamlega vankaður á að líta, og neitaði þessu jafnteflisboði samstundis! Einstakt karlmenni þar á ferðinni! Niðurstaðan varð þó sú að þegar að sjúkraflutningsmennirnir komu að ná í manngarminn þá sættust þeir félagarnir á skiptan hlut.
En að mótinu sjálfu. Bragi bróðir mun fjalla um sinn árangur í öðrum pistli og því verður þetta eingöngu egósentrískur pistill af eigin óförum.
Mótið byrjaði vel hjá mér gegn sigrum gegn tveimur ungum skákmönnum frá Litháen og Eistlandi. Sá fyrsti, Tavrijonas frá Litháen, féll í gömlu góðu gildruna mína í Cozio-afbrigðinu í Spanjólanum. Þar tapaði hann peði og ég kláraði það mjög sannfærandi. Ég var afar sáttur við það enda sá ég drenginn tefla hraðskákir fyrir umferðina og var frekar smeykur að mæta honum. Hann var líka bara skráður með 2117 stig en endaði með því að taka grjótharðan IM-norm í mótinu og græða 57 stig! Eins og áður segir þá var næsta skák gegn Havame frá Eistlandi sem að fékk að vera með í A-flokki á undanágu enda aðeins með 1985 (græddi svo yfir 30 stig í mótinu). Ég var eiginlega miður mín yfir þessari pörun í því að skv. öllum líkindum hefði ég átt að vera í neðri hluta þeirra sem höfðu 1 vinning og mæta þá sterkum stórmeistara og það með hvítt. Vegna ótrúlegs fjölda af óvæntum úrslitum í fyrstu umferð þá var ég allt í einu kominn í efri hópinn og fékk þar af leiðandi stigalægsta manninn með 1 vinning. Þetta þýddi að meðalstigin mín voru farin til fjandans og Björninn var orðinn neikvæður og fúll strax í byrjun móts. En skákin sjálf var góð þar sem að ég sá einum leik lengra en andstæðingurinn í langri þvingaðri atburðarás og vann lið og stuttu seinna skákina.
Skákin í þriðju umferð var gegn vini mínum og allra Íslendinga, Aloyzas Kveinys. Einhverja hluta vegna þá gengur mér ömurlega gegn kallinum og því bölvaði ég þessari pörun í hástert þegar hún var birt. Þá erum við komnir að kjarnanum í málinu og að mínu mati helstu ástæðunni fyrir ömurlegu móti - en það voru neikvæðar hugsanir. Strax í fyrstu umferð fannst mér ég óheppinn með andstæðinga og það var gegnum gangandi allt mótið og það leiddi af sér enn fleiri slíkar hugsanir og að endingu, um miðbik mótsins, þeirri niðurstöðu að þetta væri hreinlega ekki "mitt mót". Það leiddi svo eiginlega til andlegrar uppgjafar og kæruleysis. Ég er búinn að hugsa mikið um þetta síðan ég kom heim og held að ég hafi lært gífurlega á þessari reynslu, amk vona ég það. Maður verður einfaldlega að temja sér jákvæðar hugsanir og halda fullri einbeitingu í erfiðum mótum.
En ég fór samviskusamlega niður eins og spangólandi hundur gegn Aloyzas og skil ekki enn hvað gerðist. Fannst ég vera með fína stöðu eftir byrjunina en allt í einu var erfitt að finna góða leiki og svo var ég bara kominn í djúpan skít :)
Næsta skák gegn Lettanum Mustaps var eiginlega vendipunkturinn. Ég var hægt og rólega að kreista úr honum drulluna í Benköbragði þegar ég lék af mér peði og þar með vinningsstöðu í fáránlegri fljótfærni. Ég titraði af taugaveiklun eftir þessi mistök og var næstum því búinn að leika samstundis leik sem hefði verið svarað nánast með sama trikkinu og það þýtt að ég hefði getað gefist upp. Sem betur fer náði ég að hemja mig, anda rólega og finna leið sem gerði mér kleift að halda jafntefli með herkjum.
Næstu skákir voru gegn 2200-mönnum sem voru í fínum áfangamöguleikum og þrátt fyrir harðar baráttur og miklar sviptingar þá tókst mér ekki að vinna þær. Skákin gegn Kretainis var t.d. helsjúk og sveiflaðist á alla kanta í brjáluðu tímahraki. Kretainis fékk svo frábæran IM-norm.
Síðasti þriðjungur mótsins var svo algjör harmsaga þar sem að ég fékk aðeins 1 af 3 og sá vinningur var algjör tröllagrís gegn ungum Letta sem bugaðist algjörlega eftir að ég slapp með skrekkinn. Á þessum tímapunkti var ég farinn að tefla afar kæruleysislega og þó að það virki stundum hjá mér þá toppaði ég það með því að tefla líka ömurlega illa í þokkabót. Ég var feginn þegar mótið var búið og niðurstaðan 4,5 af 9 og 18 stig í mínus er árangur sem að ég verð í smátíma að jafna mig af.
Hvað sem harmsögu minni í mótinu líður þá var mót þetta frábær upplifun í alla staði. Ég get ekki mælt nógsamlega með Rígaborg og þar sem að metnaður mótshaldara er mikill þá held ég að það sé óhætt að mæla með því að menn skoði það að herja á Rígaborg að ári.
Virðingarfyllst,
Björn Þorfinnsson,
International master of disaster.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2014 | 19:30
Skákþáttur Morgunblaðsins: Simen Agdestein snýr aftur

Noregur er eitt helsta vígi Kasparovs í þeirri baráttu og þegar tilkynningin barst var Norska stórmótið, sem fram fer í Stavanger og Sandnes, rúmlega hálfnað. Mótið er kostað af norsku veðmálafyrirtæki en þar sem norsk löggjöf er slíkum fyrirtækjum andsnúin má ekki nota nafn þess við kynningu. Fyrir síðustu umferð var staðan þessi: 1. Karjakin 5 v. 2.-3. Carlsen, Caruana 4½ v. 4.-6. Topalov, Grisjúk og Kramnik 4 v. 7.-10. Agdestein, Svidler, Aronjan og Giri 3½ v.
Frammistaða fyrsta stórmeistara Norðmanna, Simen Agdestein, sem er 47 ára gamall, hefur vakið athygli. Hann gerði jafntefli í sjö fyrstu skákum sínum en teygði sig of langt og tapaði fyrir Topalov með hvítu í áttundu umferð. Hann átti að mæta Magnúsi Carlsen í lokaumferðinni. Simen hefur átt góða vinningsmöguleika í skákum sem hafa teflst upp úr franskri vörn. Samanburður við aðra þátttakendur hvað Elo-stig varðar er honum ekki hagstæður og er ástæðan helst sú að hann hefur lítið teflt undanfarið. Í umræðunni um frammistöðu hans virtust margir gleyma því að Simen, sem auk skákafreka er fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, er fæddur sigurvegari! Sú kynslóð sem ber uppi þetta mót er stórlega ofmetin þó að hún skreyti sig með hæstu skákstigum sem um getur í skáksögunni. Vil ég leyfa mér að fullyrða að enginn þessara meistara komist með tærnar þar sem Kasparov hafði hælana - að Magnúsi Carlsen þó undanskildum. Ef Anand, sem er af allt annarri kynslóð, er tekinn sem dæmi er hægt að rifja upp þá tíð þegar það þýddi varla fyrir Anand að stilla upp á móti Kasparov og það var á tíma þegar skákstyrkur Indverjans var mestur. Hæg en örugg afturför síðustu ára kom þó ekki í veg fyrir öruggan sigur hans í áskorendamótinu í Khanty-Mansiysk á dögunum.
Að Karjakin sé efstur fyrir lokaumferðina er með ólíkindum. Hann hafði heppnina með sér í 8. umferð þegar hann vann Hollendinginn Giri eftir 131 leik. Skákin þróaðist snemma í einhvers konar umsátursástand þar sem Karjakin gat vart hreyft legg né lið. Eftir 75 leik varð hann að láta skiptamun af hendi. Áfram hélt umsátrið en í 115 leik. fannst Giri nóg komið nóg og reyndi að brjótast í gegn. Í 120. leik missti hann af vinningsleik. Jafntefli með þráskák blasti loks við eftir 130 leiki en þá gerðist þetta:
Giri - Karjakin
Hér gat Giri leikið 131. Ka2 og eftir 131. ... Dg2+ er ekkert meira en jafntefli að hafa. Þannig dugar ekki að leika 131. ... d3 vegna 132. De8! og hvítur vinnur. En í stað þess að færa kónginn til a2 valdi Giri einn lélegasta leik mótsins:
og nú kom ...
131. .... Bc3!
og það er alveg sama hvað hvítur reynir í þessari stöðu. Það er engin vörn við hótununum 132. ... Dh1+ eða 132. ... De4+ og mát verður ekki umflúið. Giri gafst því upp.
Helgi Ólafsson helol@simnet.is
----------------------------------------------
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.
Grein þessi birtist í Laugardagsmogganum, 14. júní 2014
Nýjustu færslur
- Ný vefsíða Skák.is!
- Loftur fær Héðin í fyrstu umferð
- Tveir fyrrum heimsmeistarar bættust við á keppendalistann á l...
- Ný alþjóðleg skákstig
- Carlsen vann Aronian - með vinningsforskot og aftur yfir 2850
- Skákklúbburinn Æsir - vertíðarlok
- Fundargerð aðalfundar SÍ
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open hefst á föstudaginn
- Carlsen vann Caruana í fyrstu umferð Altibox Norway Chess
- Þrír efstir og jafnir eftir fyrsta minningarmót Vinaskákfélag...
Tenglar
Mót í gangi
Mót sem eru í gangi hverju sinni
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open Valsheimilið, 1.-9. júní
- Altibox Norway Chess 27. maí - 8. júní: Carlsen og flestir sterkustu skákmenn heims
Lykilvefir
- Skáksamband Íslands Heimasíða SÍ
- Mótaáætlun SÍ
- Vefsvæði Friðriks Ólafssonar Vefsíða tileinkuð Friðriki Ólafssyni
- Skákskóli Íslands
- Skáksögufélagið
- F3-klúbburinn Vildarvinir skákíþróttarinnar á Íslandi
- Tímaritið Skák
- Fischersetur Selfoss
- Skákbækur til sölu
- Bobbý skáksverslun
- Skákhornið Spjallþráður skákmanna
- Skáklandið Stefán Bergsson bloggar
- Skákmyndir
Kennsluvefir
Íslensk taflfélög
Ef þú vilt tefla á netinu!
- Vinaskákfélagið
- Skákfélagið Hrókurinn
- Skákfélagið Huginn
- Taflfélag Reykjavíkur
- Víkingaklúbburinn
- Skákfélag Akureyrar
- Taflfélag Garðabæjar
- Taflfélag Vestmannaeyja
- Æsir
- Skáksamband Austurlands
- Skákdeild Fjölnis
- Skákfélag Sauðárkróks
- Taflfélag Bolungarvíkur
- Skákfélag Selfoss og nágrennis
- Skákdeild Breiðablik
- Skákdeild KR
- Skákdeild Breiðabliks
- Gallerý Skák
- Riddarinn
- Félag íslenskra bréfskákmanna
Erlendir skákvefir
- FIDE Alþjóðlega skáksambandið
- ECU
- The Week in Chess
- ChessBase
- Chess Vibes
- Chessdom
- Your Chess News Umsjón Jóhann H. Ragnarsson
- Bergens Schakklub Besta norræna skákfréttasíðan
- Færeyska skáksambandið
- Bloggsíða Susan Polgar
- ChessCafe Pistlar og greinar
Almanök
Teflt á netinu
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.7.): 24
- Sl. sólarhring: 25
- Sl. viku: 188
- Frá upphafi: 8779148
Annað
- Innlit í dag: 16
- Innlit sl. viku: 117
- Gestir í dag: 12
- IP-tölur í dag: 12
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar