Færsluflokkur: Skákþættir Morgunblaðsins
17.3.2010 | 16:41
Morgunblaðið: Undrabörnin frá Perú
Það er ekki á hverjum degi sem tveir heimsmeistarar í skák koma frá sama landinu, hvað þá úr sömu fjölskyldunni. Enda eru Cori-systkinin, sem tefla þessa dagana á Reykjavíkurskákmótinu, þjóðhetjur í sínu heimalandi. Daysi er 16 ára og Jorge 14 ára, en hann er jafnframt yngsti stórmeistari í heiminum.
Frá ritstjóra: Á meðan MP Reykjavíkurskákmótinu stóð sinnti Morgunblaðið mótinu afskaplega vel og birti um þær þrjár ítarlegar greinar auk hefðbundinna skákþátta Helga Ólafssonar í sunnudagsmogganum. Næstu 3 daga verða þessar greinar Morgunblaðsins um mótið birtar hér á Skák.is. Fyrsta greinin sem birtist í dag birtist í Sunnudagsmogganum 28. febrúar og er eftir Steinunni Þórhallsdóttur og fjallar um Perúsystkinin. Skák.is kann viðkomandi blaðamönnum og Morgunblaðinu bestu þakkir fyrir!
Það er ekki á hverjum degi sem tveir heimsmeistarar í skák koma frá sama landinu, hvað þá úr sömu fjölskyldunni. Enda eru Cori-systkinin, sem tefla þessa dagana á Reykjavíkurskákmótinu, þjóðhetjur í sínu heimalandi. Daysi er 16 ára og Jorge 14 ára, en hann er jafnframt yngsti stórmeistari í heiminum.
Tveir heimsmeistarar í skák rölta á móti mér eftir brúnni yfir í Ráðhúsið, á leið til annars mótsdags í MP Reykjavík Open. Þetta eru Daysi og Jorge Cori, 16 og 14 ára systkini frá Perú. Faðir þeirra, Jorge Cori eldri, er í fylgd með börnum sínum og þau heilsa öll blaðamanni með kossi og faðmlagi að suðuramerískum sið.
Er ísinn traustur?" er það fyrsta sem Jorge Cori eldri spyr blaðamann og svo lýsir hann áhyggjum sínum af velferð fólksins sem hann sá hlaupa á honum í gærkvöldi. Eftir að hafa fullvissað hann um að ekki sé vitað til að nokkur hafi drukknað í Tjörninni náum við ljósmyndarinn að plata þau út á ísinn er umlykur Ráðhúsið og þau fíflast afslöppuð í snjónum, þótt ekki séu nema um 45 mínútur þar til skákir dagsins hefjast.Snjórinn frábær
Daysi Cori er eini alþjóðlegi kvenstórmeistari í skák í Perú og yngst allra kvenna í Suður-Ameríku til að bera þann titil. Jorge Cori er hins vegar yngsti alþjóðlegi stórmeistari í heimi og var yngstur Ameríkubúa að ná þeim áfanga aðeins 14 ára og tveggja mánaða. Í nóvember í fyrra náðu systkinin bæði þeim merka áfanga að vinna heimsmeistaratitla í skák í sínum aldursflokkum á heimsmeistaramóti unglinga í Tyrklandi.Okkur brá svolítið í dag þegar við komum út í hríðina og allan þennan snjó og vindurinn ýtti og togaði í okkur. En mér finnst snjórinn frábær," segir Daysi og litli bróðir hennar samsinnir því.
Þau koma frá borginni Villa Salvador, sem er við Lima, höfuðborg Perú, þar sem allt annað loftslag ríkir. Við erum að koma frá því að keppa á skákmótum á Frakklandi og Spáni og förum svo aftur til Spánar þegar þessu móti lýkur. Það er skólafrí í Perú núna og við notum það til að keppa og safna ELO-stigum."
Ég spyr þau hvernig líf skákmeistara sé. Bara venjulegt, nema maður þarf að æfa sig aðeins meira," segir Jorge og flissar.
Skákin færir gleði
Börnin eru orðin þjóðhetjur í heimalandi sínu Perú og ég spyr þau hvort heimsmeistaratitlarnir hafi breytt lífi þeirra. Jú, þetta hefur fært mikla gleði og hamingju í fjölskyldu okkar og svo þekkir fólk okkur á götum úti, vill taka ljósmyndir og fá eiginhandaráritanir. Við þurfum að leggja tímanlega af stað þegar við förum í bíó og svoleiðis."Jorge Cori eldri segir mér að þau séu af efnalitlu fólki komin. Hann er sjálfur verkamaður og konan hans skólaliði í grunnskóla. Þau hafi alla tíð þurft að reiða sig á styrki og aðstoð skáksambandsins í Perú, borgaryfirvalda í Villa Salvador og einkaaðila til að börnin geti keppt á mótum, og ótrúlegur árangur þeirra hefur síðan opnað þeim möguleika á betri menntun. Þeim var boðið að stunda nám í einkaskóla, og nýverið var Daysi boðinn styrkur til náms við háskóla í Bandaríkjunum. Styrktaraðilar þeirra í Perú hjálpuðu fjölskyldunni einnig að byggja sér hús. Skáksamband Perú er ekki sterkt miðað við önnur lönd og því ferðast faðirinn einn með börnin á stórmót þegar aðrar þjóðir mæta til leiks með lið þjálfara, sálfræðinga og aðstoðarmanna.
Læra fyrst, æfa svo
Krakkarnir eru á heimavelli þegar þau eru spurð að því hvenær þau hafi byrjað að tefla. Ég var sex og hún var átta og pabbi kenndi okkur mannganginn. Þá var skákin ekki svo þekkt í Perú en hún er það núna. Þetta hefur ekki alltaf verið auðvelt en okkur finnst bara svo gaman að keppa á mótum og ferðast og hitta nýtt fólk," segir Jorge yngri.En eru þau ólíkir skákmenn? Daysi grípur orðið og segir að bróðir sinn sé rólegri og skipulagðari leikmaður en hún, en þau pæli lítið í því hvernig þau tefli. Ég spyr hvaða markmið þau hafi sett sér núna eftir heimsmeistaramótið og segir Daysi það vera að verða alþjóðlegur stórmeistari, sem aðeins tíu konur eru núna. Að auki vilji hún ná 2.600 ELO-stigum fyrir lok ársins.
En það var mitt markmið," segir litli bróðir hlæjandi. Þú stalst því." Bæði gangast þau við því að vera miklir keppnismenn og fá gríðarlega mikið út úr því að sigra sér eldri og reyndari mótherja.
Hvaðan koma þessir miklu skákhæfileikar? Jorge eldri hlær og svarar til: Ég spyr sjálfan mig stundum hvernig standi á þessu!" Hann lýsir því að það hafi í raun verið alger tilviljun að skákin kom inn í líf þeirra. Ég kunni varla mannganginn þegar krakkarnir fóru á sumarnámskeið, og við lærðum þetta saman til að byrja með. Kennarar barnanna tóku strax eftir hæfileikum þeirra og við leyfðum þeim að tefla út í eitt. Við tóku sigrar á skólamótum, héraðsmótum og landsmótum og þau færðust undrahratt upp styrkleikalistann. Þetta er það sem þeim finnst skemmtilegast að gera í lífinu og skákin sprettur svo eðlilega og áreynslulaust fram hjá þeim.
Það hefur verið þannig frá upphafi og er reyndar enn í dag," heldur Jorge eldri áfram, að þau þurfa að vera búin að læra heima áður en ég hleypi þeim að taflborðinu. Ég legg áherslu á það að þau passi upp á skólann og fái góða menntun, en þeim er alveg sama um það eins og er, skákin er númer eitt, tvö og þrjú. Og það er meðal annars lykillinn að ótrúlegum árangri þeirra, að þau njóta leiksins til hins ýtrasta. Þegar þau eru ekki að keppa á mótum fáum við einkakennara sem kemur á hverjum einasta degi, meira að segja á jólunum. Þá reyndar kvörtuðu börnin og móðir þeirra hástöfum en ég lít svo á að þau fái frí frá skólabókunum þegar við erum á keppnisferðalögum. Skákin er þó að mínu mati góð íþrótt, því hún þjálfar hugsunina, þú munt aldrei hitta skákmann sem er fátækur að því leyti."
Og þetta virðist sannarlega vera fjölskylda í fríi fremur en keppnisíþróttamenn, þar sem ég horfi á eftir undrabörnunum tveimur trítla léttfætt í skáksalinn, meðan faðir þeirra leggur af stað í göngutúr í snjónum. Hann ætlar að skoða sig um í miðbænum, taka út skautasvellið og finna veitingastað til að bjóða krökkunum sínum á í kvöld. Ég þarf ekkert að standa yfir þeim og greina skákirnar, þau sjá alveg um þetta sjálf."
Steinunn Þórhallsdóttir, Sunnudagsmoggi 28. febrúar
Skákþættir Morgunblaðsins | Breytt 19.3.2010 kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1. - 4. Hannes Hlífar Stefánsson, Ivan Sokolov, Abhijet Gupta og Júrí Kuzubov 7 v. 5.-9. Vladimir Baklan, Jorge Cori, Alexey Dreev, Jan Ehlvest og Jurí Shulman (Bandaríkjunum ) 6½ v.
Eftir tvo auðvelda sigra í fyrstu umferðunum þurfti Hannes að bretta upp ermarnar í skákum sínum gegn hinum unga stórmeistara frá Perú, Jorge Cori. Snjallt byrjunarval hafði þar ekki lítið að segja og vel heppnuð hernaðartækni í byrjun tafls brást Hannesi heldur ekki í skákunum við Normund Miezes frá Litháen og Frakkann Igor Alexander Nataf. Hann tefldi af miklu öryggi og komst aldrei í taphættu. Verður gaman að fylgjast með honum á Evrópumeistaramóti einstaklinga sem hófst í Rijeka í Króatíu í gær. Árangur annarra keppenda á þessu Reykjavíkurmóti var allgóður og fremstu íslensku skákmennirnir voru greinilega í baráttuskapi. Henrik Danielssen hlaut 6 vinninga, tefldi vel og var alltaf í námunda við toppinn. Bragi Þorfinnsson og Jón Viktor Gunnarsson tefldu einnig af öryggi og Guðmundur Kjartansson náði sér vel a strik undir lok móts eftir afleita byrjun. Þessir þrír fengu allir 5½ vinning.
Af yngri skákmönnum hækkaði Daði Ómarsson sig mest eða um 28 stig.
Þegar sýnt var að ekkert alvöru uppgjör færi fram á efsta borði í lokaumferðinni beindist athygli manna annað. Mikið var undir hjá Úkraínumanninum unga Ilja Nyzhnyk; með sigri gat hann náð stórmeistaratign. Langtímum saman virtist það aðeins tímaspursmál að Eistlendingurinn Jan Ehlvest kastaði inn handklæðinu. En áratuga reynsla hans kom í góðar þarfir og sífellt fann hann leiðir til að halda taflinu gangandi, 31....Bg4 markar þar upphafið, síðan kom 34....Bd1 og þá hinn bráðsnjalli leikur 43....Re5. Þegar hann skellti inn 45....Be2 var ljóst að Nyzhnyk átti erfitt verkefni fyrir höndum. Klukkan tifaði líka án aflláts. Rannsóknir eftir á leiddu í ljós að Nyzhnyk gat sennilega unnið með 36. f5. Þá fór góður möguleiki forgörðum í 41. leik, b5! Mögnuð baráttuskák:
24. Reykjavíkurskákmótið
Ilja Nyzhnyk - Jan Ehlvest
Pirc vörn
1. e4 g6 2. d4 Bg7 3. Rc3 d6 4. Rf3 Rd7 5.Bc4 e6 6. Be3 a6 7. a4 b6 8. Dd2 h6 9. 0-0 Bb7 10. d5 e5 11. Re1 Rgf6 12. f3 Rh5 13. Rd3 Rc5 14. Re2 Bc8 15. c3 Rxd3 16. Bxd3 Bd7 17. a5 b5 18. b4 Dh4 19. Hac1 Bf6 20. g3 Dh3 21. Kh1 Bg5 22. Hf2 Bxe3 23. Dxe3 0-0 24. Hg2 Rf6 25. Rg1 Dh5 26. c4 bxc4 27. Hxc4 Re8 28. f4 Kh7 29. Hc1 Hb8 30. De1 Ha8 31. h3 Bg4 32. Df2 exf4 33. gxf4 Rf6 34. Hh2 Bd1 35. Df1 Ba4 36. Hxc7 Hac8 37. Hxc8 Hxc8 38. De1 Bd1 39. De3 Hc3 40. Hd2 Hb3 41. Dd4 Bf3+ 42. Kh2 Rg4 43. Kg3 Re5
44. b5 axb5 45. a6 Be2 46. fxe5 Dg5+ 47. Kf2 Dxd2 48. Rxe2 dxe5 49. Dxe5 Hxd3 50. Dc7 De3+ 51.Ke1 Df3 52. a7 Dh1+
- og gafst upp, 53. Kf2 er svarað með 53....Hf3 mát.
Helgi Ólafsson | helol@simnet.is
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku síðar en í blaðinu sjálfu.
Grein þessi birtist í sunnudagsmogganum, 28. febrúar 2010.
Skákþættir Morgunblaðsins | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2010 | 20:40
Skákþáttur Morgunblaðsins: Hannes Hlífar í hópi efstu manna
Þessir hafa unnið í fyrstu tveim umferðunum: 1.-16. Baklan, Kuzubov, Shulman, Gupta, Hannes Hlífar Stefánson, Gupta, lenderman, Nataf, Romanishin, Cori, Grover, Dreev, Sokolov, Ehlvest, Kogan, Dronavalli og Bromann allir með 2 vinninga.
Stigahæsti skákmaður mótsins er Úkraínumaðurinn Vladimir Baklan en á hæla hans koma landi hans Kuzubov, Bosníumaðurinn Ivan Sokolov og Rússinn Alexey Dreev sem tefldi síðast á Reykjavíkurskákmótinu 2004 ásamt hinum geðþekka Úkraínumanni Oleg Romanishin. Vel fer á því að hýsa Reykjavíkurskákmótið í Ráðhúsi Reykjavíkur en að var fyrsta gert árið 2000. Það myndi bæta aðstöðuna ef hægt væri að bregða tjaldi milli keppnisvettvangsins og gangsins í gegnum húsið. Framkvæmd þess er miklum ágætum og er SÍ og styrktaraðilanum MP banka til mikils sóma. Aðstaða fyrir áhorfendur er góð og ýmsir valinkunnir meistarar munu spreyta sig á skákskýringum á næstu dögum. Mikill styrkleikamunur er á keppendum í stigum talið, þúsund elo-stig eru á milli þess efsta og þess neðsta. Ungum skákmönnum gefst þarna kostur á tefla við nafntogaða meistara. Eftirtektarverð er frammistaða Daða Ómarssonar og Ingvars Þ. Jóhannessonar sem eru báðir með 1½ vinning. Af stúlkunum hefur Sigríður Helgadóttir teflt af mestu harðfylgi. Sú stigahæsta þeirra Hallgerður Helga var óheppin að missa niður unnið tafl gegn Guðmundi Halldórssyni.
Ein eftirtektarverðasta viðureign annarrar umferðar var skák Guðmundar Kjartanssonar og Hannesar Hlífars. Guðmundur fór með löndum í byrjun og Hannes fékk ágæta stöðu en leitaðist við að opna taflið. Hinn snjalli leikur, 26. e3 setti allt í loft upp en þó gat Guðmundur sennilega haldið taflinu en spilaði út trompinu Df6 of snemma í stað þess að treysta varnir sínar:
Guðmundur Kjartansson Hannes Hlífar Stefánsson
Enskur leikur
1. c4 Rf6 2. Rc3 e5 3. Rf3 Rc6 4. g3 Bb4 5. Bg2 0-0 6. 0-0 e4 7. Be1 Bxc3 8. dxc3 h6 9. Rc2 He8 10. Re3 d6 11. b3 Re7 12. Dc2 Rf5 13. Rd5 Rxd5 14. cxd5 De7 15. c4 h5 16. Dc3 Bd7 17. Bb2 Dg5 18. Bc1 Dg6 19. Bf4 c5 20. dxc6 Bxc6 21. Had1 Had8 22. Da5 a6 23. Bh3 Bd7 24. Bxf5 Bxf5 25. Hd5 Bg4 26. Dd2 e3! 27. fxe3 Bh3 28. Dd4 Bxf1 29. Hg5 Dh7 30. Kxf1 h4 31. gxh4 Hc8 32. Kg2 b5 33. cxb5 axb5 34. Dxd6 Hc2 ( Stöðumynd )
Vendipunkturinn. Hér varð hvítur að leika 35. h5! t.d. Hxe2+ 36. Kg3 Hxa2 37. Be5! og stendur síst lakar. Eftir 36. De4 getur hvítur tryggt jafntefli með 37. Hxg7+! Kxg7 38. Dh6+ Kg8 39. Dg5+. 35. Df6 Hxe2 36. Kf3 He1 37. Kf2 Hd1 38. Dc6 Hed8 39. Dxb5 Dxh4 40. Bg3 De4 41. Bf4 f6
41. H8d2+42. Kg3 Hg1+ var fljótvirkara og leiðir til máts.
42. Hf5 H8d2 43. Kg3 Hg1
og Guðmundur gafst upp. Um helgina fara fram þrjár umferðir. Fjórða umferð hefst kl. 9 á laugardagsmorguninn en fimmta og sjötta kl. 15.30 báða dagana.
Helgi Ólafsson
helol@simnet.is
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku síðar en í blaðinu sjálfu.
Grein þessi birtist í sunnudagsmogganum, 21. febrúar 2010.
Skákþættir Morgunblaðsins | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2010 | 10:01
Skákþáttur Morgunblaðsins: 25. Reykjavíkurskákmótið
Reykjavíkurmótið var haldið fyrst árið 1964 og er elsti reglulegi alþjóðaviðburðurinn sem ber nafn höfuðborgarinnar. Skylt er að halda því til haga að Jóhann Þórir Jónsson, þá formaður Taflfélags Reykjavíkur, átti hugmyndina að mótshaldinu og hratt henni í framkvæmd. Mótið var haldið í Lídó. Núna tæpum 50 árum síðar eru íslenskir sigurvegarar þessa móts sjö talsins. Enn stafar miklum ljóma af fyrsta mótinu og átti þátttaka töframannsins frá Ríga, Mikhael Tal þar stóran hlut að máli. Tal var í algerum sérflokki og hlaut 12½ vinning af 13 mögulegum. Hann heillaði fólk upp úr skónum með glæsilegri taflmennsku og skemmtilegri framkomu. Friðrik Ólafsson og Svetozar Gligoric voru taldir helstu keppinautar Tals en þegar á hólminn kom vann Tal þá án mikillar fyrirhafnar. Myndaröð af Tal á baksíðu Morgunblaðsins þennan vetur er greinarhöfundi enn í barns minni. Þar stóð undir: í fyrsta sinn sem Tal þurfti að hugsa.
Ýmsir íslenskir skákmenn stóðu í meistaranum, Freysteinn Þorbergsson fór að vísu niður í logum, eins og það er stundum er orðað, en Ingvar Ásmundsson átti lengi vel góða stöðu gegn Tal og þegar ekkert blasti við nema þrátefli í 1. umferð gegn Jóni Kristinssyni kastaði töframaðurinn teningnum og fórnaði drottningunni; hafði eftir á yfir þau fleygu orð að of langt væri á milli Ríga og Reykjavíkur til að semja jafntefli í fyrstu umferð.
Sá eini sem náði jafntefli við Tal var Guðmundur Pálmason. Á einum stað í skákinni hótaði Guðmundur máti í tveimur leikjum.
Skyldi Tal sjá það? hvísluðu spenntir áhorfendur í hálfum hljóðum. Hann sá það en athuganir á skákinni leiða í ljós að Guðmundur var afar nálægt því að vinna. Tal fékk góða stöðu eftir byrjunina en misst þráðinn í kringum 23. leikinn:
Reykjavíkurskákmótið 1964:
Guðmundur Pálmason Mikhael Tal
Grünfelds vörn
1. d4 Rf6 2. c4 g6 3. Rc3 Bg7 4. g3 d5 5. cxd5 Rxd5 6. Bg2 Be6 7. e3 c5 8. Rge2 Rc6 9. 0-0 0-0 10. He1 Hc8 11. dxc5 Rxc3 12. bxc3 Da5 13. Rd4 Hfd8 14. De2 Bd5 15. Bxd5 Hxd5 16. Hb1 Dxc3 17. Rb3 Db4 18. Bb2 Bxb2 19. Hxb2 Hd7 20. Hc1 Re5 21. Rd4 Da3 22. Hcb1 Hxc5 23. Hxb7 Hxb7 24. Hxb7 Hc1+ 25. Kg2 Rc4 26. Df3 Da6 27. Hxe7
27. ...Re5 28. De2
28. Da8+ Kg7 29. Kh3! gaf góða vinningsmöguleika.
28. ...Dd6 29. He8+ Kg7 30. Db2
Og hér átti hvítur 30. Db5! t.d. 30. ...Hc5 31. Db7 Dd5+ 32. Dxd5 Hxd5 33. Rb3 með góðum vinningsmöguleikum.
30. ...Dd5 31. f3 Hd1 32. e4 dxd4 33. Dxd4 Hxd4 34. Hxe5 Hd2+ 35. Kh3 Hxa2 36. He7 Kf6 37. Hb7
og hér bauð Tal jafntefli sem Guðmundur þáði.
Helgi Ólafsson helol@simnet.is
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku síðar en í blaðinu sjálfu.
Grein þessi birtist í sunnudagsmogganum, 21. febrúar 2010.
Skákþættir Morgunblaðsins | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2010 | 20:07
Skákþáttur Morgunblaðsins: Bestur – Magnús Carlsen sigrar. Ný stjarna Hollendinga er komin fram
Shirov Dominguez
Kúbumaðurinn var að enda við að leika 30 ... Bg7 og bauð jafntefli sem Shirov þáði. 31. b4! vinnur strax því drottningin getur ekki valdað bæði a8 og d8-reitinn, t.d. 31. ... Dc7 32. Da8+ Bf8 32. Hf1 og vinnur. Er ekki kominn tími til að setja í gildi Sofia-regluna sem girðir fyrir ótímabær jafnteflistilboð? Lokaniðurstaðan í A-flokki Corus mótsins varð þessi:
1.Magnús Carlsen 8 ½ v. 2. 3. Vladimir Kramnik og Alexei Shirov 8 v. 4. 5. Wisvanathan Anand og Hiaku Nakamura 7 ½ v. 6. 7. Vasilí Ivantsjúk og Sergei Karjakin 7 v. 8. 9. Peter Leko og Lenier Dominguez 6 ½ v. 10. Fabiano Caruna 5 ½ v. 11. 12. Nigel Short og Van der Wely 5 v. 13. 14 Jan Smeets og Sergei Tiviakov 4 ½ v.
Kasparov sem hafði yfirumsjón með undirbúningi Magnúsar fyrir flestar skákirnar náði hæst 2851 elo-stigum en geymdu stig hans frá 2005 eru 2812. Magnús kemst væntanlega upp fyrir lærimeistara sinn eftir þetta mót. Hann fór ekki alltaf eftir ráðleggingum Kasparovs, t.d. í skákinni við Kramnik, en ákveðin óhlýðni er leyfð í samskiptum þeirra.
Hollendingar eru varla ánægðir með frammistöðu sinna manna; Van Wely, Smeets og Tiviakov verma enn og aftur botnsætin. Miklar vonir eru nú bundnar við sigurvegarann úr B-riðli, hinn 15 ára gamla Anish Giri sem hlaut 9 vinninga úr 13 skákum. Giri á rússneska móður og nepalskan föður og tók sín fyrstu skref i skákinni í Sankti Pétursborg en hefur nú hollenskt ríkisfang. Í B-flokknum voru samankomnir ýmsir vonarpeningar skákarinnar þ. á m. besti Finninn, Toni Nyback. Eftirtektarverðasta augnablikið í skákinni sem hér fer á eftir er stórkarlaleg blokkering að hætti Nimzowitch, 21. ... Kd6. Til að finna svipað dæmi er fróðleiksfúsum er bent á að slá upp í bókinni um Benóný Benediktsson og skoða skák hans við Mark Taimanov frá 1956. Eins og stundum vill verða er eins og stillt sé á sjálfsstýringu þegar réttri liðsskipan er náð:
Wijk aan Zee 2010
Toni Nyback Anish Giri
Slavnesk vörn
1. d4 d5 2. c4 c6 3. Rf3 Rf6 4. e3 Bf5 5. Rc3 e6 6. Rh4 Be4 7. f3 Bg6 8. Db3 Dc7 9. Bd2 Rbd7 10. cxd5 Rxd5 11. Rxd5 exd5 12. Rxg6 hxg6 13. 0-0-0 Db6 14.Da4 a5 15. e4 dxe4 16. fxe4 Bb4 17. Bg5 Be7 18. Bxe7 Kxe7 19. Da3+ Db4 20. De3 c5 21. d5 Kd6 22. a3 Da4 23. Hd3 b5 24. Hc3 Hhc8 25. Be2 Re5 26. Kd2 b4 27. Hc2 bxa3 28. bxa3 Hab8 29. Hhc1 c4 30. Hc3 Hb2+ 31. H1c2 Db5 32. Hxb2 Dxb2+ 33. Hc2 Db1 34. Dc3 Hc5 35. g3 f5 36. Hb2 Dxe4 37. Kc1 Rd3+
og hvítur gafst upp.
Helgi Ólafsson helol@simnet.is
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku síðar en í blaðinu sjálfu.
Grein þessi birtist í sunnudagsmogganum, 7. febrúar 2010.
Skákþættir Morgunblaðsins | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hjörvar Steinn Grétarsson er efstur að loknum fimm umferðum á Skákþingi Reykjavíkur. Hann vann Braga Þorfinnsson í fimmtu umferð í viðureign sem hlýtur að teljast ein af úrslitaskákum mótsins.
Skákþingið er fyrsta mótið í þeirri miklu skákhrinu sem nú gengur í garð og er vel skipað nokkrum þrautreyndum meisturum auk yngri skákmanna sem hafa staðið sig vel en þar má nefna Daða Ómarsson og Patrek Maron Magnússon. Þær stöllur Tinna Kristín Finnbogadóttir og Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir hafa einnig hækkað duglega á stigum. Bestu endurkomuna að mati dómnefndar, sem er skipuð þeim Kristjáni Erni Elíassyni, Rúnari Berg og Róbert Lagerman, hefur átt Bjarni Hjartarson sem nú tekur þátt í opinberu móti í fyrsta skipti í langan tíma.
Staða efstu manna eftir fimm umferðir:
1. Hjörvar Steinn Grétarsson 5 v. 2.-8. Bragi Þorfinnsson, Sverrir Örn Björnsson, Lenka Ptacnikova, Björn Þorfinnsson, Ingvar Þór Jóhannesson, Sigurbjörn Björnsson og Júlíus Friðjónsson 4 v. 9.-12. Daði Ómarsson, Magnús Pálmi Örnólfsson, Stefán Bergsson, Jorge Fonseca Rodriquez og Halldór G. Einarsson. 3½ v.
Kraftmikill Nakamura
Á einu sterkasta móti ársins í Wijk aan Zee beinast nú allra augu að Magnúsi Carlsen sem ætlar sér greinilega að blanda sér í baráttuna um efsta sætið. En það eru fleiri fiskar í sjónum. Hinn bráðskemmtilegi baráttujaxl Hikaru Nakamura er sennilega öflugasti stórmeistari Bandaríkjanna í dag. Hann er þekktur og vinsæll fyrir að tefla mikið á netinu, einkum þó ICC, bæði hraðskákir og það sem kallað er bullet en þar hefur hvor keppandi eina mínútu til að ljúka skákinni. Fyrir nokkrum árum varð uppi fótur og fit þegar hann hóf taflið á sterku móti alveg eins og byrjandi og lék 1. e4 e5 2. Dh5, sem er alþekkt tilraun til heimaskítsmáts. Svo óheflaður er hann ekki lengur og skák sem hann tefldi á heimsmeistaramóti landsliða í Tyrklandi, þar sem Rússar höfðu sigur eftir mikla baráttu, á dögunum gegn einum öflugasta stórmeistara heims hefur áreiðanlega opnað augu margra fyrir hversu skemmti legur skákmaður hann er. Fyrstu 20 leikirnir eru þekktir en síðan byggist upp mikil spenna á kóngsvængnum, 23.... Rxg2 er fyrsta sprengjan. Síðan kemur hver þrumuleikurinn á fætur öðrum, í tvígang fórnar Nakamura drottningunni: 24.... Rxe1 og 28.... Dd3. Gelfand gat aldrei hirt drottninguna vegna máts á g2:HM landsliða 2010:
Boris Gelfand (Ísrael) Hikaru Nakamura (Bandaríkin)
Kóngsindversk vörn
1. d4 Rf6 2. c4 g6 3. Rc3 Bg7 4. e4 d6 5. Rf3 0-0 6. Be2 e5 7. 0-0 Rc6 8. d5 Re7 9. Rd2 Re8 10. b4 f5 11. c5 Rf6 12. f3 f4 13. Rc4 g5 14. a4 Rg6 15. Ba3 Hf7 16. b5 dxc5 17. Bxc5 h5 18. a5 g4 19. b6 g3 20. Kh1 Bf8 21. d6 axb6 22. Bg1 Rh4 23. He1 Rxg2 24. dxc7 Rxe1 25. Dxe1 g2+ 26. Kxg2 Hg7+ 27. Kh1 Bh3 28. Bf1
28. ...Dd3 29. Rxe5 Bxf1 30. Dxf1 Dxc3 31. Hc1 Dxe5 32. c8D Hxc8 33. Hxc8 De6
og Gelfand gafst upp.
Eftir fjórar umferðir í Wijk aan Zee var Alexei Shirov efstur með fullt hús en Nakamura, Magnús Carlsen og Vasilí Ivantsjúk komu næstir með þrjá vinninga.
Helgi Ólafsson | helol@simnet.is
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku síðar en í blaðinu sjálfu.
Grein þessi birtist í sunnudagsmogganum, 24. janúar 2010.
Skákþættir Morgunblaðsins | Breytt s.d. kl. 11:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2010 | 22:11
Skákþáttur Morgunblaðsins: Tvöfalda biskupsfórnin
Afmælismót Taflfélags Reykjavíkur, sem haldið var í höfuðstöðvum CCP við Grandagarð, heppnaðist einkar vel enda voru aðstæður fyrir keppendur og áhorfendur með besta móti.
Afmælismót Taflfélags Reykjavíkur, sem haldið var í höfuðstöðvum CCP við Grandagarð, heppnaðist einkar vel enda voru aðstæður fyrir keppendur og áhorfendur með besta móti. Aðalstyrktaraðili mótsins var MP banki og getur CCP vel við unað en af hálfu TR var Óttar Felix Hauksson, fyrrverandi formaður, aðalskipuleggjandi og fórst það vel úr hendi. Allar skákir mótsins voru sýndar á stóru tjaldi auk þess að vera aðgengilegar í beinni útsendingu á netinu. Ef marka má spákönnun sem gerð fyrir mótið virtist það koma á óvart að Jón L. Árnason skyldi verða efstur. En Jón hefur áður sýnt að hann getur verið alveg ljóngrimmur á 10-15 mínútna tempóinu og lagði auk þess að velli þá tvo sem næstir komu. Lokaniðurstaðan varð þessi:
1. Jón L. Árnason 5 v. (af 7). 2.-3. Helgi Ólafsson og Jóhann Hjartarson 4½ v. 4.-7. Friðrik Ólafsson, Guðmundur Kjartansson, Helgi Áss Grétarsson og Þröstur Þórhallsson 3 v. 8. Arnar Gunnarsson.
Ýmsir tryggir skákmótagestir komu til að fylgjast með mótinu og var greinilegt að þátttaka Friðriks Ólafssonar mæltist vel fyrir. Hann var meðal efstu manna lengst af og átti ekki lítinn þátt í því glæsilegur sigur hans yfir Guðmundi Kjartanssyni í 4. umferð. Tvöfalda biskupsfórnin á sér merka sögu sem m.a. er rakin í hinni ágætu bók Fléttunni; Emanuel Lasker beitti henni fyrstur í frægri skák undir lok 19. aldar en á hinu sögulega stórmóti í Sánkti Pétursborg 1914 kom fram enn mikilfenglegri útgáfa fórnanna í sigurskák Tarrasch yfir Nimzovitz. Af einhverjum furðulegum ástæðum fékk Tarrasch ekki 1. fegurðarverðlaun fyrir en Capablanca hlaut þau fyrir fremur einfalda fléttu gegn Ossip Bernstein.
Til viðbótar þessum skákum má minna á fallegan sigur Jóns L. Árnasonar yfir hinum öfluga rússneska stórmeistara Alexey Dreev á Reykjavíkurmótinu 1990. Þar var seinni biskupnum að vísu fórnað á f6 en skyldleikinn er augljós. Varðandi skákina sem her birtist benti Friðrik á að nákvæmara hefði verið að leika hróknum til d4 í 24. og 25. leik:
Friðrik Ólafsson - Guðmundur Kjartansson
Drottningarbragð
1. Rf3 Rf6 2. c4 e6 3. Rc3 d5 4. d4 Be7 5. Bf4 0-0 6 e3 Rbd7 7. Hc1 c5 8. cxd5 Rxd5 9. Bg3 cxd4 10. exd4 R7f6 11. Bd3 Rxc3 12. bxc3 b6 13. De2 Bb7 14. Re5 Dd5 15. c4 Da5 16. Re5 Had8 17. Hcd1 Rd7 18. d5 Rxe5 19. Bxe5 Bd6
20. Bxh7+ Kxh7 21. Dh5+ Kg8 22. Bxg7 Kxg7 23. Dg5+ Kh7 24. Hd3 Da3 25. Hxa3 Bxa3 26. Dh4+ Kg7 27. Dg3+ Kf6 28. Dxa3 exd5 29. Df3+
- og svartur gafst upp. Framhaldið gæti orðið 29.... Kg7 30. He1 Hfe8 31. Hxe8 Hxe8 32. h4 og vinnur létt.
Helgi Ólafsson helol@simnet.is
Skákþættir Morgunblaðsins verða hér eftir birtir viku síðar en í blaðinu sjálfu.
Grein þessi birtist í sunnudagsmogganum, 17. janúar 2010.
Skákþættir Morgunblaðsins | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2010 | 08:17
Skákþáttur Morgunblaðsins: Taflfélag Reykjavíkur 110 ára
TAFLFÉLAG Reykjavíkur fagnar á þessu ári 110 ára afmæli sínu. Kall Einars Benediktssonar skálds, sem var meðal stofnenda TR, er enn í minnum haft: Upp með taflið .
TAFLFÉLAG Reykjavíkur fagnar á þessu ári 110 ára afmæli sínu. Kall Einars Benediktssonar skálds, sem var meðal stofnenda TR, er enn í minnum haft: Upp með taflið. Saga taflfélagsins er skáksaga þjóðarinnar; nær alla síðustu öld báru sterkustu félagsmenn TR ægishjálm yfir aðra skákmenn hér á landi.
Um helgina munu TR-ingar í samstarfi við CCP, framleiðanda Eve online, og MP banka standa fyrir afmælismóti þar sem átta skákmeistarar, þar af sex stórmeistarar, tefla allir við alla. Spennandi verður að sjá hugbúnaðarlausnir CCP og mikill fengur fyrir hið aldraða afmælisbarn að fá tölvuleikjaframleiðandann til samstarfs og MP banka sem áður hefur styrkt félagið við ýmis tækifæri. Stofnandi bankans, Margeir Pétursson, á 50 ára afmæli í næsta mánuði, Jón L. Árnason fagnar einnig fimmtugsafmæli síðar á árinu og þegar Friðrik Ólafsson verður 75 ára þann 26. janúar nk. geta menn tekið undir með skáldi Persa, Ómari Kahayyám, að ...Tíminn, það er fugl sem flýgur hratt..."
Af mörgu er að taka úr sögu TR og ekki úr vegi að bregða upp snöggfærðri mynd af sigri nokkurra félagsmanna á Ólympíumótinu í Buenos Aires 1939: Baldur Möller, Ásmundur Ásgeirsson, Guðmundur Arnlaugsson, Einar Þorvaldsson og Jón Guðmundsson sneru aftur með bikarinn sem Roberto Ortiz forseti gaf, sigurlaun B-keppninnar Copa Argentina. Þrír hinir fyrstnefndu eiga allir virðingarsess í skáksögu okkar en þann fimmta í upptalningunni Jón Guðmundsson má kalla huldumann í skáksögu Íslands. Í úrslitakeppninni vann hann einstætt afrek; að leggja alla andstæðinga sína að velli, tíu talsins.
Vefurinn olimpbase.org rekur ítarlega þá sögu og raunar ólympíumótanna allra frá því fyrsta sem haldið var í London 1927 til Ólympíumótsins í Dresden 2008.
Það hlýtur að hafa verið mikil upplifun fyrir hinu ungu Íslendinga að koma af mölinni og sigla alla þessa leið frá Reykjavík til Buenos Aires; sitja svo að tafli í námunda við goðin tvö Aljékín og Capablanca sem náði bestum árangri 1. borðsmanna.
Þó Aljékín hefði unnið heimsmeistaratitilinn af Capa þar í borg 12 árum fyrr var Kúbumanninum skipað til sætis við háborðið í mótslok og Aljékín skör lægra. Reiðin sauð í Aljékín sem tefldi fyrir Frakkland. En veldistími þeirra var að renna sitt skeið á enda.
Mótið markaði þáttaskil í margvíslegum skilningi; í ágúst ´39 flutti farþegaskipið Priapolis til Argentínu ýmsa þá keppendur sem urðu síðan eftir þegar heimstyrjöldin braust út í september. Þjóðverjar tefldu við litlar vinsældir undir þýska hakakross-fánanum en voru þó ekki meiri þjóðernissinnar en svo, að enginn liðsmanna þeirra sneri aftur til Þýskalands nazismans:
Jón Guðmundsson - Oleg Neikirch ( Búlgaríu )
Drottningarpeðs byrjun
1. d4 Rf6 2. Rf3 e6 3. Bg5 h6 4. Bh4 c5 5. e3 Rc6 6. c3 Be7 7. Rbd2 O-O 8. Bd3 d5 9. Re5 cxd4 10. exd4 Rxe5 11. dxe5 Rd7 12. Bg3 Rc5 13. Bb1 Bd7 14. O-O Bb5 15. He1 Bd3 16. He3 Bxb1 17. Hxb1 b5 18. Dg4 g6 19. Bf4 Kg7 20. Hh3 Hh8 21. Be3 Hc8 22. Hf1 a5 23. f4 h5 24. Dg3 Kf8 25. Bd4 b4 26. Df3 Hg8 27. g4 hxg4 28. Dxg4 bxc3 29. bxc3 Hb8 30. Hh7 Hb2 31. Rf3 Re4 32. Rg5 Hg7 33. Hh8+ Hg8
34. Rxe6+ fxe6 35. Hxg8+ Kxg8 36. Dxg6+ Kf8 37. F5 exf5 38. Hxf5+ Bf6 39. Hxf6+ Rxf6 40. Bc5+
- og svartur gafst upp.
Helgi Ólafsson helol@simnet.is
Skákþættir Morgunblaðsins | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2009 | 10:55
Skákþáttur Morgunblaðsins: Aftur til fortíðar
EINS og margir höfðu spáð hafði Magnús Carlsen sigur á vel heppnuðu stórmóti, London chess classic, sem lauk á mánudaginn. Norðmaðurinn er nú kirfilega í 1. sæti stigalista FIDE með 2.810 stig.
EINS og margir höfðu spáð hafði Magnús Carlsen sigur á vel heppnuðu stórmóti, London chess classic, sem lauk á mánudaginn. Norðmaðurinn er nú kirfilega í 1. sæti stigalista FIDE með 2.810 stig. Í þessu móti var tekin upp hin svonefnda Sofia-regla" þ.e. ekki mátti bjóða jafntefli. Stigakerfið var tekið úr enska boltanum. Samkvæmt því var lokaniðurstaðan þessi:
1. Magnús Carlsen 13 stig. 2. Vladimir Kramnik 12 stig. 3.-4. David Howell og Michael Adams 10 stig. 5. McShane 7 stig. 6. Nakamura 6 stig. 7. Ni Hua 6 stig. 8. Nigel Short 5 stig.
Skipuleggjendur þessa móts, Malcolm Pein og David Norwood, létu sér ekki nægja að hrúga upp öllu því tæknidóti sem fylgir nútímamótahaldi, þeim tókst líka að fanga andrúmsloft liðins tíma. Eins og þeir væru að leita upprunans; fágun var kjörorð fyrsta alþjóðlega mótsins sem var haldið í tengslum við heimssýninguna í London sumarið 1851. Þeirra fremsti meistari, Howard Staunton, sá um skipulagningu og lagði til hina klassískt mótuðu taflmenn sem bera nafn hans. Hápunkturinn var ódauðlega skákin" sem tefld var þegar hlé var gert á mótinu. Þar áttust við Adolph Andersson og Lionel Kieseritzky.
Á London chess classic náði Nigel Short sér aldrei á strik. Þó var viðureign hans og Magnúsar Carlsens í lokaumferðinni einhver magnaðasta baráttuskák sem sést hefur lengi. Drekaafbrigðið hefur verið í vopnabúri Norðmannsins í nokkurn tíma. Eftir flókna byrjun varð Short á ónákvæmni í 26. leik þegar hann varð að leika 26. Be4. Riddarinn á e3 lamaði stöðu hvíts en Short gaf sig þó hvergi en þegar upp kom drottningarendatafl voru vinningsmöguleikarnir allir Carlsens megin. Hann gat leikið 54.... Dxf6 með vinningsstöðu en taldi sig vera að vinna með 54.... Dd1+ og 55.... Dh5. Þetta var vendipunkturinn; hann taldi sig geta svarað hinum bráðsnjalla leik 56. c5! með 56.... Dxc5 og sást yfir svarið 57. Dg2+! sem leiðir til máts, t.d. 57. ... Kf8 58. Da8+ o.s.frv. Kasparov gat minnt hann á skák sem hann tefldi við Margeir Pétursson á Möltu 1980 en þar kom þetta þema fyrir. Nú var Short með pálmann í höndunum en Magnús varðist frábærlega, 58.... Dd1! var eini leikurinn. Að lokum stóðu kóngarnir tveir einir eftir á borðinu og þar með lauk líka mótinu:
London classic 2009; 7. umferð:
Nigel Short - Magnús Carlsen
Sikileyjarvörn
1. e4 c5 2. Rf3 d6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rc3 g6 6. Be3 Bg7 7. f3 Rc6 8. Dd2 0-0 9. 0-0-0 d5 10. Kb1 Rxd4 11. e5 Rf5 12. exf6 exf6 13. Bc5 d4 14. Bxf8 Dxf8 15. Rb5 Re3 16. Hc1Bh6 17. Dxd4 Rf5 18. Dc3 Bxc1 19. Kxc1 Bd7 20. Bd3 Hc8 21. Dd2 Bxb5 22. Bxb5 Dc5 23. Bd3 Re3 24. He1 He8 25. Df2 f5 26. f4 Dd4 27. g3 He6 28. Dd2 Rg4 29. h3 Hxe1+ 30. Dxe1 Rf2 31. Bf1 Re4 32. Bg2 b6 33. c3 Dd3 34. g4 Rg3 35. b3 Re2+ 36. Kb2 Kf8 37. Bc6 fxg4 38. hxg4 h5 39. gxh5 gxh5 40. a4 a6 41. f5 h4 42. Bg2 Rg3 43. f6 Dd6. 44. Df2 Kg8 45. b4 a5 46. bxa5 bxa5 47. Kc2 Kh7 48. c4 Da3 49. Be4+ Kg8 50. Df4 Dxa4+ 51. Kd2 Rxe4+ 52. Dxe4 Da2+ 53. Kc3 Da1+ 54. Kb3 Dd1+55. Kb2 Dh5 56. c5
56.... h3 57. c6 a4 58. Ka2 Dd1 59. De8+ Kh7 60. Dxf7+ Kh6 61. c7 Dc2+ 62. Ka3 h2 63. Dg7+ Kh5 64. Dh8+ Kg6 65. Dg8+ Kxf6 66. c8D Dxc8 67. Dxc8 h1D 68. Da6+ Ke5 69. Db5+ Dd5 70. Kxa4 Dxb5+ 71. Kxb5 Jafntefli.
Helgi Ólafsson helol@simnet.is
Skákþættir Morgunblaðsins | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2009 | 21:59
Skákþáttur Morgunblaðsins: Magnús Carlsen er óstöðvandi
Fyrirbyggjandi taflmennska átti ekki upp á pallorðið hjá skákunnendum fyrr á árum. Eins og að horfa á grasið gróa, sagði einn. Algerlega áunnið bragð, sagði annar. Helsti spámaður þeirrar deildar var Anatolí Karpov.
Fyrirbyggjandi taflmennska átti ekki upp á pallorðið hjá skákunnendum fyrr á árum. Eins og að horfa á grasið gróa, sagði einn. Algerlega áunnið bragð, sagði annar. Helsti spámaður þeirrar deildar var Anatolí Karpov. Leysti af hólmi Tigran Petrosjan sem var heimsmeistari óslitið í sex ár á sjöunda áratugnum. Petrosjan virtist skynja hættur betur en aðrir. Kannski var óttaskynið of þróað; Tigran virtist stundum alveg lafhræddur löngu áður en taflið hófst og jafnteflistilboðunum rigndi yfir mótstöðumanninn. Ekki alltaf með berum orðum heldur einnig með ýmsu látbragði; þegar Bobby Fischer háði einvígi sitt við Petrosjan í Buenos Aires haustið 1971 bað hann um vistaskipti því að hann kvaðst alltaf vera að rekast á Petrosjan í hótellyftunni með yfirþyrmandi vesældarsvip.
Karpov bætti þann ermska upp að flestu leyti þótt þeir væru líkir um margt. Skákstíll hann einkenndist af alls kyns smáspili, raðtækni", endurtekningum og beinum en þó oftar óbeinum hótunum . Margir reyndu að líkja eftir Karpov en það var erfitt því stíll hans var persónulegri og útsmognari en menn hugðu, það var eins og einhver óljós ógn héngi yfir höfði mótstöðumanna hans; hann gat fyrirvaralaust breytt um tempó í leik sínum og var að mati endataflssérfræðingsins Averbakh endurskoðunarsinni" - fyrir honum staðan á borðinu alltaf ný".
Karpov má í dag muna sinn fífil fegurri en áhrif hans eru engu að síður gífurleg og auðsæ. Meistari dagsins, Magnús Carlsen, virðist t.d. hafa lært heilmikið af honum. Hann hefur nú unnið tvær fyrstu skákir sínar á London chess classic, sterkasta móti sem haldið hefur verið í London í 25 ár.
Töfluröðin er þessi: 1. Carlsen 2. McShane 3. Howell 4. Nakamura 5. Ni Hua 6. Short 7. Adams 8. Kramnik.
Ef viðureign Magnúsar Carlsen við Vladimir Kramnik úr 1. umferð er skoðuð má greina ýmsa þætti sem áður var getið um t.d. raðtækni og óbeinar hótanir. Hann lét aldrei beinlínis til skarar skriða og þegar Kramnik lagði niður vopnin gátu hinir ávallt sögufróðu Englendingar altént vitnað í nokkrar orrustur sem lauk án þess að skoti hefði verið hleypt af.
Kasparov mun hafa mælt með að Carlsen beitti enska leiknum, 1. c4 sem er athyglisvert því sjálfur brá hann aldrei á það ráð í einvígi sínu við Kramnik í London árið 2000. Fyrirbyggjandi leikir í þessari skák teljast t.d. 37. Hb4 og 39 Bf4 og 43. Re2. Raðtæknileikir eru nokkrir þ. á m. 40.Kf2.
London 2009; 1. umferð:
Magnús Carlsen - Vladimir Kramnik
Enskur leikur
1. c4 Rf6 2. Rc3 e5 3. Rf3 Rc6 4. g3 d5 5. cxd5 Rxd5 6. Bg2 Rb6 7. 0-0 Be7 8. a3 0-0 9. b4 Be6 10. Hb1 f6 11. d3 a5 12. b5 Rd4 13. Rd2 Dc8. 14. e3 Rf5 15. Dc2 Hd8 16. Bb2 a4 17. Hfc1 Rd6 18. Rde4 Re8 19. De2Bf8 20. f4 exf4 21. gxf4 Dd7 22. d4 c6 23. Rc5 Bxc5 24. dxc5 Rc4 25. Hd1 Dc7 26. Bc1Ra5 27. bxc6 bxc6 28. Rxa4 Hxd1+ 29. Dxd1 Hd8 30. Dc2 Df7 31. Rc3 Dh5 32. Re2 Bf5 33. e4 Bg4 34. Rg3 Df7 35. Bf1 Be6 36. Dc3 Ha8
37. Hb4 Dd7 38. f5 Bf7 39. Bf4 Dd1 40. Kf2 Rb3 41. Be2 Db1 42. Bc4 Hxa3 43. Re2
- og Kramnik gafst upp.
Frá heimsbikarmóti FIDE í Khanty Maniysk í Síberíu berast þau tíðindi að úrslitaeinvígi muni heyja Ísraelsmaðurinn Boris Gelfand og Ruslan Ponomariov frá Úkraínu. Yfir 130 skákmenn hófu keppni.
Helgi Ólafsson helol@simnet.is
Skákþættir Morgunblaðsins | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjustu færslur
- Ný vefsíða Skák.is!
- Loftur fær Héðin í fyrstu umferð
- Tveir fyrrum heimsmeistarar bættust við á keppendalistann á l...
- Ný alþjóðleg skákstig
- Carlsen vann Aronian - með vinningsforskot og aftur yfir 2850
- Skákklúbburinn Æsir - vertíðarlok
- Fundargerð aðalfundar SÍ
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open hefst á föstudaginn
- Carlsen vann Caruana í fyrstu umferð Altibox Norway Chess
- Þrír efstir og jafnir eftir fyrsta minningarmót Vinaskákfélag...
Tenglar
Mót í gangi
Mót sem eru í gangi hverju sinni
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open Valsheimilið, 1.-9. júní
- Altibox Norway Chess 27. maí - 8. júní: Carlsen og flestir sterkustu skákmenn heims
Lykilvefir
- Skáksamband Íslands Heimasíða SÍ
- Mótaáætlun SÍ
- Vefsvæði Friðriks Ólafssonar Vefsíða tileinkuð Friðriki Ólafssyni
- Skákskóli Íslands
- Skáksögufélagið
- F3-klúbburinn Vildarvinir skákíþróttarinnar á Íslandi
- Tímaritið Skák
- Fischersetur Selfoss
- Skákbækur til sölu
- Bobbý skáksverslun
- Skákhornið Spjallþráður skákmanna
- Skáklandið Stefán Bergsson bloggar
- Skákmyndir
Kennsluvefir
Íslensk taflfélög
Ef þú vilt tefla á netinu!
- Vinaskákfélagið
- Skákfélagið Hrókurinn
- Skákfélagið Huginn
- Taflfélag Reykjavíkur
- Víkingaklúbburinn
- Skákfélag Akureyrar
- Taflfélag Garðabæjar
- Taflfélag Vestmannaeyja
- Æsir
- Skáksamband Austurlands
- Skákdeild Fjölnis
- Skákfélag Sauðárkróks
- Taflfélag Bolungarvíkur
- Skákfélag Selfoss og nágrennis
- Skákdeild Breiðablik
- Skákdeild KR
- Skákdeild Breiðabliks
- Gallerý Skák
- Riddarinn
- Félag íslenskra bréfskákmanna
Erlendir skákvefir
- FIDE Alþjóðlega skáksambandið
- ECU
- The Week in Chess
- ChessBase
- Chess Vibes
- Chessdom
- Your Chess News Umsjón Jóhann H. Ragnarsson
- Bergens Schakklub Besta norræna skákfréttasíðan
- Færeyska skáksambandið
- Bloggsíða Susan Polgar
- ChessCafe Pistlar og greinar
Almanök
Teflt á netinu
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.9.): 1
- Sl. sólarhring: 37
- Sl. viku: 116
- Frá upphafi: 8780690
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 86
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar