Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Skákþættir Morgunblaðsins

Skákþáttur Morgunblaðsins: Magnús Carlsen vann með yfirburðum í Wijk aan Zee

Magnus CarlsenSigur Magnúsar Carlsen í A-flokki Tata Steel-mótsins í Wijk aan Zee þokar honum nær 2900 stiga markinu en „lifandi" stig hans eru nú 2874 elo. Lokaniðurstaðan varð þessi: 1. Magnús Carlsen 10 v. (af 13) 2. Aronjan 8½ v. 3.-4. Anand og Karjakin 8 v. 5. Leko 7 ½ v. 6. Nakamura 7 v. 7. Harikrisna 6 ½ v. 8. 10. Giri, Wang Hao og Van Wely 6v. 11. Hou Yifan 5 ½ v. 12. Caruana v. 13. L ´Ami 4 v. 14. Sokolov 3 v.

Hjörvar Steinn Grétarsson tefldi í C-flokki og fékk 6 ½ v. af 13 og varð í 7.-8. sæti. Frammistaða hans var að mörgu leyti góð, hann tefldi af öryggi með svörtu en virðist þó mega „brjóta upp" byrjanir sínar - á slæmum kafla tapaði hann þrem skákum í röð með hvítu.

Vinningshlutfall Magnúsar á þessu móti er það sama og Kasparov fékk árið 2000. Einungis heimsmeistaratitilinn stendur út af á afrekaskrá hans. Nái hann því marki má hiklaust skipa honum á bekk með fimm fremstu skákmönnum sögunnar. Hvað stílbrögð varðar þá flokkar Kasparov hann með heimsmeisturum á borð við Capablanca, Smyslov og Karpov. Eitt það athyglisverðasta við taflmennsku Magnúsar undanfarin misseri er fjölbreytt byrjanaval og það eru góð tíðindi að tölvuvæddur undirbúningur má sín lítils gegn honum.

Atlaga hans að heimsmeistaratitlinum hefst í London 15. mars nk. Þá hefst áskorendakeppnin en sigurvegarinn öðlast rétt til að skora á Anand heimsmeistara. Auk Magnúsar tefla Gelfand, Kramnik, Aronjan, Svidler, Ivantsjúk, Radjabov og Grischuk.

Í Wijk aan Zee var Magnús búinn að tryggja sér sigur fyrir síðustu umferð en í 12. umferð lagði hann Nakamura að velli:

Magnús Carlsen Hikaru Nakamura

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 Rc6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 e5 5. Rb5 d6 6. g3 h5

7. R1c3 a6 8. Ra3 b5 9. Rd5 Rge7 10. Bg2 Bg4 11. f3 Be6 12. c3 h4 13. Rc2 Bxd5 14. exd5 Ra5 15. f4!

„Sóknin" eftir h-línunni hefur engu skilað og svartur situr eftir með alls kyns veikleika, t.d. á c6-reitnum.

15. ... Rf5 16. g4 h3 17. Be4 Rh4?

Kasparov, sem mun hafa tekið þátt í umræðu um þessa skák á einhverri spjallrásinni, kvað þetta alveg vonlaust og að svartur yrði að reyna 17. ... Dh4+18. Kf1 Re7.

18. O-O g6 19. Kh1 Bg7

19. .. f5 gaf meiri von en eftir 20. Bd3 e4 21. Be2 er riddari á leið til d4 og e6.

20. f5 gxf5 21. gxf5 Rg2 22. f6!

Náðarstuðið, 22. ... Bxf6 má ekki vegna 23. Df3 o.s.frv.

22. ... Bf8 23. Df3 Dc7 24. Rb4 Rb7 25. Rc6 Rc5 26. Bf5 Rd7 27. Bg5 Hg8 28. Dh5 Rb6

gkkq90g0.jpg29. Be6!

Hótar 30. Re7. Svartur er bjargarlaus.

29. ... Hxg5 30. Dxg5 fxe6 31. dxe6

- og Nakamura gafst upp. Hann á enga vörn við hótuninni 32. f7+.

Davíð Kjartansson skákmeistari Reykjavíkur í annað sinn

Úrslit Skákþings Reykjavíkur, Kornax-mótsins, réðust eftir magnaða lokaumferð þegar Akureyringarnir Þór Valtýsson og Mikael Jóhann Karlsson blönduðu sér í baráttu efstu manna. Mikael Jóhann gerði sér lítið fyrir og vann Omar Salama og Þór gerði jafntefli við Davíð Kjartansson í hörkuskák. Það dugði þó Davíð sem er skákmeistari Reykjavíkur 2013 og er þetta í annað sinn sem hann vinnur titilinn. Lokaniðurstaðan hvað varðar efstu menn: 1. Davíð Kjartansson 8 v. (af 9) 2. Omar Salama 7 ½ v. 3. Mikael Jóhann Karlsson 7 v. 4.-5. Einar Hjalti Jensson og Halldór Pálsson 6 ½ v.

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

----------------------------------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Sunnudagsmogganum, 3. febrúar 2013.

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Davíð og Omar Salama leiða Kornaxmótið

Vignir Vatnar og Davíð KjaDavíð Kjartansson og Omar Salama hafa verið í algerum sérflokki á Skákþingi Reykjavíkur, Kornaxmótinu; áður en lokaumferðin fór fram sl. föstudagskvöld höfðu þeir gert innbyrðis jafntefli og unnið allar aðrar skákir sínar, hlotið 7½ vinning. Þetta kemur kannski ekki á óvart en von var þó á meiri keppni frá Einari Hjalta Jenssyni, Daða Ómarssyni og Sævari Bjarnasyni. Ekki er ósennilegt að einvígi þurfi til að útkljá keppni þeirra. Næstir á eftir þeim í 3.-4. sæti voru Einar Hjalti og Mikhael Jóhann Karlsson með 6 vinninga.

Þátttaka á Skákþing Reykjavíkur er góð upphitun fyrir 2013 01 23 19.37.50átökin á skákvertíðinni í vetur. Framundan er Íslandsmót skákfélaga, Reykjavíkurskákmótið í Hörpu og Skákþingi Íslands. Og ýmis önnur mót eru einnig á dagskrá t.d. Norðurlandamót grunnskólanema sem að þessu sinn fer fram á Íslandi. Þar er Akureyringurinn Mikhael Jóhann meðal keppenda en hann vann góðan sigur á Lenku Ptacnikovu i 8. umferð:

Mikhael J. Karlsson - Lenka Ptacnikova

Enskur leikur

1. c4 c5 2. g3 g6 3. Bg2 Bg7 4. Rc3 Rc6 5. Rf3 d6 6. 0-0 e5

Þessi leikur hefur átt vinsældum að fagna undanfarið. Svartur lokar miðborðinu en þarf stundum að kljást við veikleika á hvítu reitunum.

7. d3 Rge7 8. Hb1 0-0 9. a3 a5 10. Bd2 h6 11. e3 f5 12. Dc2 g5 13. Rb5 Be6 14. Bc3 f4 15. Rd2 Rf5 16. Hfe1 Dd7 17. Re4 fxe3 18. fxe3 b6

Hvítur hótaði 19. Rbxd6 með hugmyndinni 19.... Rxd6 20. Rxc5 ásamt 21. Rxe6 - ef drottningin tekur á e6 kemur 22. Bd5 með banvænni leppun.

19. b4 axb4?

Opnar taflið of mikið. Betra er 19.... g4 og staðan ætti að vera í jafnvægi.

20. axb4 Rxb4 21. Bxb4 cxb4 22. Hxb4 d5 23. cxd5 Bxd5 24. Rbc3

Hvítur er með traust frumkvæði eftir þennan leik. Annar álitlegur möguleiki var 24. Dc7.

24.... Hac8 25. Db1 Ba8 26. Ra4 Da7 27. Rxb6 Hb8 28. Rc5 Bxg2 29. Kxg2 Df7 30. Db3!

Svartur hótaði 30.... Rxe3+. Svartur þolir illa drottningaruppskiptin sem treysta yfirburði hvíts.

30.... Kh7 31. Dxf7 Hxf7 32. Rd5 Hc8?

Lenka var í miklu tímahraki, 90 30 tempóið er krefjandi. Hún gat varist betur með 32.... Hxb4 33. Rxb4 Bf8 og hvítur á ekkert betra en 34. Rba6.

33. Hc4 Bf8 34. Re4 Hd8 35. Ref6+ Kh8 36. e4 Rd4 37. Rg4 Bg7 38. Hf1 Ha7 39. Hf2!

Mikhael hefur teflt þennan þátt skákarinnar af miklu öryggi. Það er erfitt að verja svört stöðuna með afar litinn tíma aflögu.

39.... Hb8 40. Rdf6 Ha3

g81q81va.jpg41. Rxe5!

Hótar 42. Rg6 mát. Eftirleikurinn er auðveldur.

41.... Bxf6 42. Hxf6 He8 43. Hxh6+ Kg7 44. Hg6+ Kf8 45. Rd7+ Kf7 46. Hf6+ Kg7 47. Hxd4 Hd8 48. Hg6 Ha7 49. Hxg5

- og svartur gafst upp.

Magnús Carlsen fer hamförum í Wijk aan Zee

Menn eru í alvöru að ræða þann möguleika að Magnús Carlsen nái einhvern tímann 2900 elo-stigum sem hingað til hefur verið talið algerlega útilokað. Eftir að hafa landað hverjum sigrinum á fætur öðrum í löngum endatöflum hefur Magnús náð að slíta sig frá öðrum keppinautum fyrir lokasprettinn um helgina. Staða efstu manna eftir tíu umferðir af þrettán:

1. Carlsen 8 v. 2. - 4. Anand, Aronjan og Nakamura 6½ v. 5. Karjakin 6 v.

Hjörvar Steinn Grétarsson byrjaði vel í C-flokki, tapaði síðan þrem skákum með hvítu, vann aftur í 10. umferð og er með 50% vinningshlutfall.

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

----------------------------------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Sunnudagsmogganum, 27 janúar 2013.

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Snilldartilþrif heimsmeistarans

Aronian og AnandÁ skákhátíðinni í Wijk aan Zee í Hollandi sem stendur yfir þessa dagana beinist athyglin hér heima ekki síst að stórmeistaraflokki C þar sem Hjörvar Steinn Grétarsson hefur staðið sig prýðilega og er með 3 vinninga af fimm mögulegum í 13 umferða móti. Í A-flokki hefur heimsmeistarinn Wisvanthan Anand verið á miklu flugi. Eftir fimm umferðir er hann efstur ásamt Magnúsi Carlsen og Sergei Karjakin, allir með 3 ½ vinning.

Sá léttleiki sem einkenndi taflmennsku Indverjans alla tíð virtist alveg að hverfa en nú geta aðdáendur hans aftur tekið gleði sína. Lev Aronjan átti örugglega ekki von á þeim trakteringum sem biðu hans í 4. umferð þessa móts. Hér er komin einhver glæsilegasta skák sem sést hefur í langan tíma í þessum styrkleikaflokki:

Lev Aronjan - Wisvanthan Anand

Slavnesk vörn

1. d4 d5 2. c4 c6 3. Rf3 Rf6 4. Rc3 e6 5. e3 Rbd7 6. Bd3 dxc4 7. Bxc4 b5 8. Bd3 Bd6

Nýjasti snúningurinn í Meran-afbrigðinu, Anand vann Kramnik tvisvar með 8. ... a6 í HM-einvíginu 2008 en aðrir góðir leikir eru 8. .... Bb7 og 8. ... b4.

9. O-O O-O 10. Dc2 Bb7 11. a3 Hc8 12. Rg5

Aronjan sem er býsna hugmyndaríkur í byrjunum sínum hefur áreiðanlega ætlað að koma heimsmeistaranum á óvart með þessum leik sem býður upp á möguleikann 12. ... Bxh2 13. Kxh2 Rg4+ og getur þá svarað með 14. Kg1 Dxg5 15. f3! og síðar - e4 og - b4. En hann kemur ekki að tómum kofunum hjá Anand.

12. ... c5!

Hvað er nú þetta? B5-peðið er valdlaust og h7-peðið einnig. Anand hafði notað óvenjumikinn tíma á byrjunina. Var hann að rifja upp gamlar niðurstöður eða setti hann leikrit á svið til að blekkja Aronjan?

13. Rxh7

Best samkvæmt ofurforritinu „Houdini".

13. ... Rg4!?

Einu sinni voru svona leikir kallaðir sprikl. „Houdini" var lengi að samþykkja hugmyndina

14. f4!?

Betra er 14. h3 Bh2+! 15. Kh1 Dh4 (hótar 16. ... Dxh3) 16. d5! Hfd8 17. Be2 með flókinni stöðu. „Houdini" heldur áfram: 17. .... Bb8 18. bxg4 Re5 19. Bd1 b4! og staðan er í dínamísku jafnvægi.

14. ... cxd4 15. exd4?

Tapleikurinn. Hann varð að leika 15. Rxf8 Bxf8 16. h3 dxc3 17. hxg4 Rf6 og svarta staðan er ekki lakari. En nú kemur eftirminnilegur leikur.

15. ... Bc5!! 16. Be2

Það var úr vöndu að ráða, 16. Rxf8 gekk ekki vegna 16. ... Bxd4+ 17. Kh1 Dh4 og mátar og 16. dxc5 Rxc5 er heldur ekki gæfulegt.

gcnq70eb.jpg16. .... Rde5!

Kynngimagnaður leikur sem byggist á hugmyndinni 17. fxe5 Dxd4+ 18. Kh1 Dg1+! 19. Hxg1 Rf2 mát. Þá dugar 17. dxc5 skammt vegna 17. .... Dd4+ 18. Kh1 Rf2+ 19. Hxf2 (eða 19. Kg1 Rh3+ 20. Kh1 Dg1+! 21. Hxg1 Rf2 mát) Dxf2 með óverjandi máthótun.

16. ... Rde5 17. Bxg4 Bxd4+ 18. Kh1 Rxg4 19. Rxf8 f5!

Enn einn snilldarleikurinn sem hótar 20. ... Dh4. Aronjan er varnarlaus.

20. Rg6 Df6 21. h3 Dxg6 22. De2 Dh5! 23. Dd3

Hann gat reynt 23. Hf3 en þá kemur 23. ... Rf2+! 24. Kh2 (ekki 24. Hxf2 Dxh3+ 25. Kg1 Dxg2 mát) 24. ... Bxf3 25. Dxf3 Dxf3 26. gxf3 Rd3 og endataflið er gjörtapað á hvítt.

23. ... Be3!

Línurof bætist hér við önnur stef. Aronjan á enga haldgóða vörn gegn hótuninni 24. .... Dxh3+ og gafst upp.

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

----------------------------------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Sunnudagsmogganum, 20 janúar 2013.

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Besti "skákmaðurinn" er Houdini 3

Houdinni 3 besti Hjörvar Steinn Grétarsson vann lokaskák sína á Hastings-mótinu sem lauk um síðustu helgi, hlaut 7 vinninga af 10 mögulegum og varð í 2. - 9. sæti. Sigurvegari varð enski stórmeistarinn og liðsmaður Goðans, Gawain Jones með 7 vinninga. Guðmundur Kjartansson átti góða möguleika á því að ná áfanga að stórmeistaratitli en hann missti niður gjörunnið tafl gegn Norðmanninum Johannes Kvisla í 7. umferð. Hann fékk 6 vinninga af 10 mögulegum og hækkar um 14 elo-stig. Báðir voru með árangur uppá ca. 2500 elo.

Nú er nýhafið Skákþing Reykjavíkur eða KORNAX-mótið eftir aðal-styrktaraðila þess. Það er vel skipað en stigahæstur er sigurvegarinn frá 2009, Davíð Kjartansson. Almennt er búist við því að Einar Hjalti Jensson, Daði Ómarsson, Sævar Bjarnason og hjónin Omar Salama og Lenka Ptacnikova muni veita honum harða keppni um 1. verðlaun.

Annað mót, ekki síður sterkt, hófst um svipað leyti í húsakynnum Skákskóla Íslands fimmtudaginn 3. janúar. Þar eru tefldar sjö umferðir og aðeins ein skák í viku. Meðal keppenda eru Þröstur Þórhallsson, Stefán Kristjánsson, kvennalandsliðið og Karl Þorsteins sem, að Íslandsmóti skákfélaga slepptu, hefur ekki teflt í langan tíma. Ýmsum finnst athugavert að mótin fari fram á sama tíma en dagskráin skarast þó ekki og Goðanum hefur undanfarið tekist vel í því að laða fram á sjónarsviðið ýmsa kunna meistara sem teflt hafa lítið hin síðari ár.

Houdini 3 er með 3335 elo stig

Nýbirt elo-stig Magnúsar Carlsen uppá 2861 elo-stig hafa vakið mikla athygli. Kollegi Magnúsar, norski stórmeistarinn Leif Erlend Johannessen, heldur því blákalt fram í grein í norsku blaði að sterkasti „skákmaður" heims sé tölvuforritið Houdini 3 og stig þess séu uppá 3335 elo. Það ætti að vera kappsmál fyrir skákmenn að ná sér í þetta forrit og fara yfir tefldar skákir með því, heldur Leif Erlend áfram. Greinarhöfundur tók Leif á orðinu og stillti upp stöðu úr skák sem fékk fegurðarverðlaun á Reykjavíkurmótinu 1990:

Helgi Ólafsson - Jonathan Levitt

Enskur leikur

1. c4 Rf6 2. Rc3 e6 3. Rf3 c5 4. g3 b6 5. Bg2 Bb7 6. O-O Be7 7. d4 Re4 8. Rxe4 Bxe4 9. Bf4 O-O 10. dxc5 bxc5 11. Dd2 Db6 12. Hfd1 Hd8 13. De3 Db7 14. Bd6 Bxd6 15. Hxd6 Dxb2 16. Had1 Db7

gopq62ru.jpg17. Hxe6

Eftir skákina spurði þekktur meistari undirritaðan hvaða læti þetta væru og hvort 17. Dxc5 hefði ekki verið fullgott. Svörin sem hann fékk voru eitthvað á þá leið, að fyrir þá sem vildu lambasteikina sína á sunnudögum með Ora grænum baunum og engar refjar, væri sá leikur örugglega ágætur. Ískalt mat Houdini 3 gerir ekki mikinn greinarmun á þessum tveimur leikjum en rekur skákina út í fjarlægt drottningarendatafl með e-peð eða betra hróksendatafl. Báðar stöðurnar óræðar en hvítur á samt góða vinningsmöguleika.

17. ... fxe6 18. Rg5! h6!

Best, 18. ... Bxg2 strandar á 19. Dxe6+! og mátar.

19. Rxe4 Rc6 20. Rxc5 Dc7?

Eftir þetta verður skákinni ekki bjargað. Eini leikurinn er 20. .. Db6 og eftir 21. Rxd7 Dxe3 22. fxe3 Hac8 23. bxc6 Hxc6 24. Rf6+ Kf7 25. Hxd8 Kxf6 25. Hd4 og Houdini 3 heldur áfram upp í 70 leik!

21. Rxd7! Hac8 22. Dxe6+ Kh8 23. Be4 Re7 24. Hd6 Dxc4 25. Dxe7 Dc1+ 26. Kg2 He8 27. Df7 Hxe4 28. Hg6

- og svartur gafst upp.

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

----------------------------------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Sunnudagsmogganum, 20 janúar 2013.

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Guðmundur í banastuði í Hastings

Guðmundur Kjartansson að tafli í HastingsÞað hefur verið gaman að fylgjast með Guðmundi Kjartanssyni á hinu fornfræga skákmóti í Hastings sem lýkur nú um helgina. Hvílíkur baráttukraftur! Eftir fimm umferðir af tíu var hann kominn með 4 vinninga af fimm og árangur uppá 2728 elo-stig og hafði unnið tvo stórmeistara frá Úkraínu. Hann átti einnig góða sigurmöguleika í skákum sínum í þriðju og fjórðu umferð en maraþonviðureigninni við Englendinginn Jonathan Hawkins lauk eftir 108 leiki og meira en 8 klst. baráttu. Vissulega kom babb í bátinn í sjöttu umferð þegar hann tapaði fyrir Litháanum Sarunas Sulskis en í byrjun þeirra skákar „henti" Guðmundur þrem peðum í andstæðing sinn en sveigði svo biskup sinn í vitlausa átt í krítískri stöðu og tapaði. Hann er jafn Hjörvari Steini Grétarssyni, í 9. - 22. sæti af 92 keppendum en Hjörvar hefur ekki verið að fást við jafn öfluga andstæðinga auk þess sem herjað hefur á hann magapest sem varð til þess að hann fékk „½ vinnings-yfirsetu" á gamlársdag. Margt getur þó gerst á lokasprettinum.

Samantekt á skak.is sem birt var um áramótin leiddi í ljós að Guðmundur hækkaði meira í stigum á síðasta ári en flestir íslenskir skákmenn. Það þarf ekki að koma á óvart því hann var iðinn við kolann; eftir að hafa teflt á Indlandi í ársbyrjun tók við Reykjavíkurskákmótið, Íslandsmót og þar á eftir átta mánaða dvöl í ýmsum löndum Suður-Ameríku þar sem hann tefldi á fjölmörgum mótum. Á síðasta mótinu sem fram fór í Kosta Ríka varð hann að hætta eftir sjö umferðir til þess að komast heim til Íslands fyrir jólin en hafði þá hlotið 6 ½ vinning. Ekki var jólafríið langt, þann 27. desember hófst Hastings-mótið.

Það er ekki víst að stigaháir andstæðingar Guðmundar hafi vitað að þeir voru að mæta skákmanni í góðri æfingu:

Hastings; 5. umferð:

Guðmundur Kjartansson - Andreij Vovk ( Úkraínu )

Kóngsindversk vörn

1.d4 Rf6 2. c4 g6 3. Rc3 Bg7 4. e4 d6 5. Rf3 O-O 6. Be2 e5 7. O-O Rc6 8. d5 Re7 9. Re1 Rd7 10. Be3 f5 11. f3 f4 12. Bf2 g5

Fræg lína úr „60 minnisverðum skákum", að þetta afbrigði leiði óverjandi mátsókn yfir hvítan, er ekki sönn! En þessu trúðu menn samt lengi eða þar til Viktor Kortsnoj tók afbrigðið upp og vann nokkrar frægar skákir árið 1987.

13. Hc1

Kortsnoj lék ýmist 13. b4, 13. Rb5 eða 13. a4. Þessi eðlilegi leikur kom þó síðar við sögu hjá honum

13. ... Rg6 14. Rb5 b6

Kortsnoj sýndi fram á að ef svartur leikur 14. .. a6 kemur 15. Ra7 ásamt -b4 og - c5.

15. b4 a6 16. Rc3 Hf7 17. Rd3 Bf8 18. c5 Hg7 19. cxd6 Bxd6 20. Rb2 Rf6 21. Rc4 Bxb4 22. d6! Bxc3

gu9q4sv1.jpg23. dxc7!

Bráðsnjall millileikur sem Guðmundur hafði tekið með í reikninginn þegar hann lék 22. d6.

23. ... Dxd1 24. Hfxd1 Hxc7

Eftir 24. ... Ba5 kemur 25. Hd8+ og 26. d6 og vinnur.

25. Bxb6 Hc6 26. Hxc3 Be6 27. Hdc1 Hb8 28. Ba5 Bd7 29. a3 Kg7 30. Bb4 g4 31. Rd6 Hxc3 32. Bxc3 h5 33. Rf5 Kh7 34. Bb4!

Það er erfitt að finna varnir fyrir svartan eftir þennan leik. Peðsóknin á kóngsvæng skilar engu og hrókurinn er á leið inn eftir c-línunni.

34. ... Bb5 35. Bxb5 Hxb5 36. Hc7+ Kh8 37. Hc6!

Vinnur mann.

37. ... a5 38. Be1 Hb1 39. Kf1 Rd7 40. Hxg6 Rc5 41. Hd6 Hb3 42. Bf2 Rd3 43. Bh4 Hxa3 44. Hd7 Kg8 45. Rh6 Kf8 46. Bf6 Ha1 47. Ke2 gxf3 48. gxf3 He1 49. Kd2

- og Vovk gafst upp.

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

----------------------------------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Sunnudagsmogganum, 6. janúar 2013.

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Skákárið 2012

Skákárið 2012 hófst fyrir alvöru hér á landi með lokaumferðum Íslandsmóts taflfélaga og hið árlega Reykjavíkurskákmót hlaut glæsilegan vettvang í Hörpunni. Skákþing Íslands fór síðan fram í Stúkunni á Kópavogsvelli og þar bar helst til tíðinda að Þröstur Þórhallsson, sem teflt hafði sleitulaust í landsliðsflokki síðan 1985, varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn eftir æsispennandi einvígi við Braga Þorfinnsson. Kornungir skákmenn vöktu mikla athygli: Hilmir Freyr Heimisson, Vignir Vatnar Stefánsson og Nancy Davíðsson unnu góð afrek á árinu og hinn 14 ára gamli Oliver Aron Jóhannesson var næstum því orðinn heimsmeistari áhugamanna þegar hann fékk ferð á mótið í fermingargjöf. Kvennaliðið stóð sig betur en oft áður á ÓL í Istanbul og karlaliðið var á pari.

Anand tókst með naumindum að verja heimsmeistaratitilinn í einvígi við Boris Gelfand í Moskvu sl. vor en Norðmaðurinn Magnús Carlsen átti sviðið og sló stigamet Kasparovs og er nú með 2861 elo-stig. Þess var minnst víða um heim og einnig hér á landi, að í sumar voru liðin 40 ár frá „einvígi aldarinnar". Í vor kom út bók undirritaðs um Fischer og fékk góðar viðtökur. Hjá uppboðshaldara í Kaupmannahöfn voru boðnir upp gripir tengdir einvíginu en um uppruna þeirra stóðu deilur milli Gunnars Finnlaugssonar búsetts í Svíþjóð og Páls G. Jónssonar. Stuttu síðar var stofnað skáksetur á Selfossi, steinsnar frá grafreit Fischers við Laugardælakirkju. Og einn góðan veðurdag í ágúst hvarf heimsmeistarinn frá ´72, Boris Spasski, frá heimili sínu í Frakklandi. Hann fékk heilablóðfall haustið 2010 og hefur verið bundinn við hjólstól. Frakkar þurftu svo sem ekki að velta þessu máli lengi fyrir sér og áttu ágætis orðatiltæki yfir uppákomuna: Leitið konunnar! Þegar Spasski kom fram nokkrum dögum síðar i Moskvu var hann furðu hress og þá kom auðvitað á daginn að rússnesk kona, Valentina Kuznetsova, hafði hjálpað honum við flóttann. Hann lagði ekki illt orð til nokkurs mann; hafði fundið fyrir „andnauð" á heimili sínu í Frakklandi og óskað sér þess oft að vera aftur nýr. James Bond kvikmyndirnar áttu 50 ára afmæli og skákunnendur hafa fengu tækifæri til að horfa á upphafsatriði „From Russia with love" þar sem skúrkurinn Kroonsteen lagði andstæðing sinn McAdams að velli en lokaatlagan var tekin nánast óbreytt upp úr glæsilegum sigri vinar okkar yfir Bronstein frá sovéska meistaramótinu 1960:

Boris Spasskí - David Bronstein Kóngsbragð

1. e4 e5 2. f4

Kóngsbragðið gafst Spasskí ótrúlega og Bronstein beitti því einnig með góðum árangri og vann m.a. frægan sigur yfir Tal árið 1969.

2. ... exf4 3. Rf3 d5

Í dag er talið best að leika 3. .... d6 veða 3. ... g5.

4. exd5 Bd6 5. Rc3 Re7 6. d4 O-O 7. Bd3 Rd7 8. O-O h6 9. Re4 Rxd5 10. c4 Re3 11. Bxe3 fxe3 12. c5! Be7 13. Bc2 He8

Bæði hér og í næsta leik þráaðist Bronstein við að leika 13. ... f5 sem á að tryggja jöfn færi.

14. Dd3 e2 15. Rd6!

Skilur hrókinn eftir en leikurinn sýnir hversu frumkvæðið er mikilvægt.

15. ... Rf8

g8gq47c5.jpg16. Rxf7! exf1(D)+ 17. Hxf1 Bf5

Eða 17. .. Kxf7 18. Rg5 + Kg8 19. Bb3+ Kh8 20. Hxf8+ og mát í næsta leik.

18. Dxf5 Dd7 19. Df4 Bf6 20. R3e5 De7 21. Bb3 Bxe5 22. Rxe5 Kh7 23. De4+

- og Bronstein gafst upp.

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

----------------------------------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Sunnudagsmogganum, 30. desember 2012

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Friðrik og Uhlmann tryggðu sigur "Handanna"

Friðrik teflir við HavlíkováÍ keppni sem vakti talsverða athygli hér á landi og fram fór í Poderbrady í Tékklandi milli „Gamalla handa" og „Snjóflygsna" áttu sér stað mögnuð umskipti í seinni hálfleik. Lengst af benti flest til þess að þarna myndi enn eitt karlavígið falla. „Snjóflygsurnar", þ.e. rússnesku skákkonurnar Valentina Gunina og Alina Kashlinskaya, tékkneska skákkonan Kristína Havlikova og indverska skákdrottning Tania Sachdev, tefldu af miklum styrk, einkum þó hin undurfagra Tania sem náði besta vinningshlutfalli keppenda, sex vinningum úr átta skákum og árangri upp á 2643 elo-stig.

Wolfgang Uhlmann og Friðrik Ólafsson, sem tefldu fyrir „Hendurnar" ásamt Vlastimil Hort og Oleg Romanishin, byrjuðu báðir illa og um tíma virtist mega afskrifa gamla Austur-Þjóðverjann. Einhvers staðar úr blámóðu fjarskans heyrðist þó hvíslað að gamlir gæðingar færu stundum hægt af stað. Í hálfleik var staðan 10:6 „Snjóflygsunum" vil og allt eins líklegt að þær ykju forskotið í seinni helmingi keppninnar. En viti menn: „Hendurnar" unnu næstu viðureignir og söxuðu á forskotið. Fyrir lokaumferðina var svo jafnt, 14:14. „Snjóflygsurnar" stóðu þó betur að vígi því þær höfðu hvítt í öllum skákum lokaumferðarinnar. Hafi það það verið taktík þeirra að semja jafntefli gegn Hort og Romanisin og reyna síðan að vinna Friðrik og/eða Uhlmann þá mistókst það hrapallega: Friðrik og Uhlmann unnu báðir og tryggðu sigur „Handanna" eða góðborgaranna eins og einhver vildi kalla liðið, lokaniðurstaðan 17:15. Hort og Romanishin fengu 4 ½ v. af átta en Friðrik og Uhlmann 4 vinninga hvor. Félagar Friðriks í liðinu hafa allir teflt á Íslandi, Uhlmann á Fiske-mótinu 1968, Hort á Reykjavíkurskákmótinu 1972 og oft eftir það en Romanishin var með á Reykjavíkurmótinu árið 2004.

Þrjár sigurskákir Friðriks í þessari keppni voru vel tefldar. Í lokaumferðinni virtist staðan í jafnvægi þegar andstæðingi hans varð á meinleg yfirsjón og Friðrik lét ekki tækifærið sér úr greipum ganga:

Kristina Havlikova - Friðrik Ólafsson

Sikileyjarvörn - Alapin

1. e4 g6 2. d4 Bg7 3. c3 d5 4. e5 c5 5. h3 Rc6 6. Rf3 Bf5 7. Be2 cxd4 8. cxd4 Bxb1!?

Óvæntur leikur. Friðrik lætur biskupaparið af hendi og reynir að byggja upp trausta stöðu fyrir riddarana.

9. Hxb1 e6

Alls ekki 9. .... Da5+ 10. b4! Dxa2 11. Hb2 og drottningin hefur ratað í mikil vandræði.

10. h4 h5 11. O-O

Hér var upplagt að leika 11. b4 ásamt b5 við tækifæri og koma biskupnum fyrir á a3.

11. ... Rh6 12. Bd3 O-O 13. Bg5 Db6 14. Dd2 Rg4 15. Be2 Hac8 16. Hbc1 Hfe8

Taflmennska hvíts hefur verið alltof bitlaus og Friðrik hefur náð að jafna taflið.

17. Hc3 Ra5 18. Hfc1 Hxc3 19. Dc3 Rc6 20. Bf4 a6 21. Bd3 Bh6 22. Bxh6 Rxh6 23. a3 a5 24. Dd2 Rg4 25. Bb1 Kg7 26. Hc3 He7 27. b3 Hc7 28. Re1??

Hér er kominn tapleikurinn. Tékkneska skákkonan lagði þá spurningu fyrir Friðrik hvort peðið á d4 væri „eitrað" eður ei. Eftir dálitla umhugsun komst Friðrik að réttri niðurstöðu.

gguq3eqc.jpg28. ... Rxd4! 29. Hxc7 Dxc7 30. f3

Nú rann upp fyrir henni ljós að 30. Dxd4 er svarað með 30. ... Dc1! og vinnur manninn til baka. Þessi leikur breytir engu.

30. ... Rxb3! 31. Dc2 Dxe5!

Þar féll þriðja peðið og fleiri eru á leiðinni. Hvítur gafst upp.

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

----------------------------------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Sunnudagsmogganum, 23. desember 2012

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþáttur Morgunblaðsins: Undirbúningur og úrslitaskákir

Keres og SpasskyKlassíska skákin" leið undir lok við aldamótin 2000 og nýir spámenn hafa komið fram sem skara fram úr í því að nýta kosti tölvutækninnar: Kazimdsanov, Karjakin, Nakamura, Anand, Kramnik, Topalov og Frakkarnir. Þetta er umfjöllunarefnið öðrum þræði í nýrri bók úkraínska stórmeistarans Vladimirs Tukmakovs,Modern chess preparation.

Í fyrri helmingi bókarinnar dregur Tukmakov fram dæmi frá fyrri tíð sem kunna að hafa skotist fram hjá okkur: Pólverjinn Akiba Rubinstein var snjall í hróksendatöflum - það vissum við, en hann var líka að mati höfundar langt á undan sinni samtíð að flestu öðru leyti. Tvær heimsstyrjaldir léku hann grátt, sú fyrri hindraði einvígi við Emanuel Lasker um heimsmeistaratitilinn. Fengin reynsla og kunnátta gat verið dýru verði keypt í þá daga.

Nú eru leynivopn skákarinnar þaulprófuð með samkeyrslu fjölmargra forrita. Æfingaaðstaða heimsmeistarans minnir meira á tölvuver en nokkuð annað. Þrátt fyrir tæknina ráðleggur Tukmakov ungum skákmönnum að sundurgreina skákir og æfa sig án þess að hafa tölvu við höndina.

Í einum kafla bókarinnar fjallar hann um úrslitaskákir. Nokkur dæmi eru tekin til meðferðar og Tukmakov veltir við nokkrum steinum af skákferli Spasskís: fyrir lokaskákina í áskorendaeinvíginu við Paul Keres árið 1965 var Spasskí yfir, 5:4, og dugði jafntefli til að vinna einvígið. Ýmsar rólegar og traustar byrjanir virtust sniðnar til þess að ná þeim úrslitum. En þeir voru báðir komnir langt að og Spasskí vissi að upp var runnin ögurstund á ferli Keres. Hann ákvað að koma Eistlendingnum á óvart og tefla kóngsindverska vörn, afar krefjandi og flókna byrjun sem hann hafði sjaldan beitt áður. Við undirbúning fyrir skákina gat hann sér til um það afbrigði sem Keres valdi og sendi jafnframt inn þau skilaboð til hins vígmóða andstæðings að nú væru þrenn úrslit möguleg; sigur, tap eða jafntefli. Eins og 15. leikur hans leiðir í ljós fór Spasskí aldrei „úr karakter". Skákin sem hér fer á eftir er þrungin stigmagnaðri spennu:

Riga 1965:

Paul Keres - Boris Spasskí

Kóngsindversk vörn

1.d4 Rf6 2. c4 g6 3. Rc3 Bg7 4. e4 d6 5. f4 c5 6. d5 0-0 7. Rf3 e6 8. Be2 exd5 9. cxd5 b5!?

Þessi óvænti leikur byggist á hugmyndinni 10. Bxb5 Rxe4 11. Rxe4 Da5+ o.s.frv. Í dag er talið traustara að leika 9.... Bg4 eða 9.... He8.

10. e5 dxe5 11. fxe5 Rg4 12. Bf4

Skarpara er 12. Bg5 með hugmyndinni 12.... f6 13. exf6 Bxf6 14. Dd2.

12.... Rd7 13. e6 fxe6 14. dxe6 Hxf4 15. Dd5!

Hótar 16. Dxa8 og 16. e7+.

g79q064a.jpg15.... Kh8!?

Gefur hrókinn. Hann gat leikið 15.... Bb7 16. Dxb7 Rb6 og staðan má heita í jafnvægi. Miðað við stöðuna í einvíginu hefði þetta verið eðlilegra framhald.

16. Dxa8 Rb6 17. Dxa7 Bxe6

Hvítur er skiptamun yfir en léttu menn svarts standa allir vel. „Houdini" metur stöðuna jafna.

18. 0-0 Re3 19. Hf2 b4 20. Rb5

Afturábak hentaði ekki við þessar kringumstæður, 20. Rd1var samt traustara.

20....Hf7 21. Da5 Db8!

Rólegu leikirnir eru oft erfiðastir í flóknum stöðum.

22. He1 Bd5 23. Bf1 Rxf1 24. Hfxf1 Rc4! 25. Da6 Hf6! 26. Da4 Rxb2 27. Dc2 Dxb5 28. He7

Eða 28. Dxb2 Hxf3! og vinnur.

28.... Rd3 29. De2 c4 30. He8 Hf8 31. Hxf8 Bxf8 32. Rg5 Bc5 33. Kh1 Dd7 34. Dd2 De7 35. Rf3 De3

- og Keres gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

----------------------------------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Sunnudagsmogganum, 2. desember

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþættir Morgunblaðsins: Vignir Vatnar hafði betur gegn Rússunum

Vignir vatnarVignir Vatnar Stefánsson var eini fulltrúi Íslands á heimsmeistaramóti ungmenna, 8-18 ára, í opnum flokkum og stúlknaflokkum sem lauk í Maribor í Slóveníu um síðustu helgi. Keppendur voru um 1.600 talsins en alls komu um 3.500 manns til Slóveníu vegna mótsins. Árið 2007 tefldu tíu íslensk ungmenni á HM í Tyrklandi en nú eru aðrir tímar og í ár lagði SÍ meiri áherslu á Evrópumótið sem fram fór eftir svipuðu fyrirkomulagi.

Heimsmeistaramótið er stærra í sniðum. Fyrir utan heimamenn voru Rússar með stærsta hóp keppenda, vel yfir hundrað manns. Þeir áttu sigurvegara í nokkrum flokkum, einnig Indverjar og Bandaríkjamenn en í flokki Vignis, þar sem keppendur voru 10 ára og yngri, bar Víetnaminn Anh Khoi Ngyen sigur úr býtum og vann allar skákir sínar!

Vignir Vatnar, sem er 9 ára gamall, er á fyrra ári í 10 ára flokknum, hlaut 6 vinninga af 11 mögulegum. Elo-stigatala hans er mun lægri en styrkleikinn segir til um og hann var að tefla „upp fyrir sig" nær allt mótið. Fyrir undirritaðan, sem var þjálfari hans á mótsstað, gafst góður tími til að huga að ýmsum þáttum taflmennsku hans. Og í sex skákum í röð í 4.-9. umferð gegn „rússneska skákskólanum" reyndi talsvert á undirbúning. Vignir hlaut 3 ½ vinning gegn 2 ½ Rússanna og átti raunar unnið tafl á einhverjum punkti í flestum skákanna. Það er af sú tíð þegar aðildarlönd FIDE gátu aðeins sent einn keppanda í hvern keppnisflokk. Rússar áttu 16 skákmenn í flokki Vignis. Viðureignir sjöundu og áttundu umferðar reyndu mjög á úthaldið og voru samtals um 200 leikir.

HM Maribor 2012; 4. umferð:

Vignir Vatnar Stefánsson - Antion Sidorov (Rússland)

Kóngsindversk vörn

1. d4 Rf6 2. c4 d6 3. Rc3 e5 4. e3 Rbd7 5. Bd3 g6 6. Rge2 Bg7 7. O-O

Leiðin sem hvítur velur sést oft hjá svarti þegar hvítur beitir kóngsindversku uppbyggingunni.

7. ... O-O 8. b4 c6 9. Ba3 He8 10. Hb1 Dc7 11. Db3 Rh5 12. b5 f5?

Svartur hefði átt að bíða með þennan leik.

gh4pv5sq.jpgSjá stöðumynd.

13. Bxd6!

Nú dugar ekki að leika 13. .... Dxd6 vegna 14. c5+! De6 15. Bc4 og drottningin fellur.

13. ... Dd8 14. c5+ Kh8 15. d5! e4 16. Bc4 Re5 17. dxc6 bxc6 18. bxc6 Rxc4 19. c7 Df6 20. Dxc4 Be6 21. Da6 Hac8 22. Rd4 Bd7 23. Rcb5?!

Einfaldara var 23. Hb8 eða 23. Rd5.

23. ... f4 24. Db7 f3 25. Rxa7 Dg5 26. Bg3 fxg2 27. Hfe1 Bxd4 28. exd4 Rxg3 29. Rxc8 Bxc8

Þetta var eina tækifæri Rússans til að flækja málin, 29. ... Rf1 gaf meiri von því að 30. Rd6 má svara með 30. ... Dh5! og svartur er sloppinn. Hinsvegar vinnur 30. Hxe4 t.d. 30. ... Hxc8 31. Hbe1 Dh5 32. h4 o.s.frv.

30. Dc6 Hf8 31. Dd6 Kg8 32. Dxg3 Df6 33. Hbd1 Bg4 34. Hd2 Bf3 35. De5 Da6 36. Dd5 Kg7 37. De5 Kg8 38. d5 Da5 39. De7?

Vignir ætlaði að leika 39. De6+ sem vinnur létt, en „missti" drottninguna til e7.

39. ... Dxd2 40. Dxf8+! Kxf8 41. c8=D+ Kg7 42. Dd7 Kh6 43. Hb1

Úrvinnslan er ekki vandalaus en Vignir missir þó aldrei þráðinn.

43. ... Dd3 44. Dh3 Kg5 45. Dg3 Kh5 46. De5 Kh6 47. Df4 Kh5 48. Hc1 Dxd5 49. h4 h6 50. c6 g5 51. Df8 e3 52. De8 Kxh4 53. Dxe3 Bg4 54. Dg3 Kh5 55. Dxg2

55. Dxg4+! Kxg4 56. c7 o.s.frv. var einnig gott.

55. ... Dd2 56. Hf1 Dc3 57. Dh2 Kg6 58. Dg3 Bf3 59. c7 g4 60. Dd6 Kh5 61. Df4 Bb7 62. Hc1 Dh3 63. Df5 Kh4 64. Df6 Kh5 65. Hc5

Og Sidorov gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

----------------------------------------------

 

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Sunnudagsmogganum, 25. nóvember 2012.

Skákþættir Morgunblaðsins


Skákþættir Morgunblaðsins: Á bak við tjöldin með Averbakh

AverbakhSkipta má skákmönnum í sex flokka," skrifar Júrí Averbakh í endurminningum sínum, Center stage and behind the scenes. Í fyrsta flokki nefnir hann „dráparana". Þetta eru menn á borð við Aljekín, Botvinnik, Kortsnoj og Fischer. Það einkennir þessa einstaklinga að þeir hafa verið afskiptir í æsku - hafa t.d. alist upp án föður og virðast haldnir „ödipusarduld".

Í flokki nr. 2 eru „baráttumennirnir". Viðureignin er barátta þar sem öllu skiptir að einbeita sér að fullu. Í þessum flokki eru menn á borð við Lasker, Tal og Kasparov.

Í þriðja flokki eru „hinir sönnu íþróttamenn". Skákin er keppnisgrein sem lýtur sínum eigin lögmálum. Þegar leik er lokið eru slíkir einstaklingar yfirleitt hversdagsgæfir og prúðir en þeir gefa ekki þumlung eftir á „keppnisvellinum". Capablanca, Euwe, Keres, Smyslov og Spasskí tilheyra þessum flokki.

Í fjórða flokki eru „leikmennirnir". Þeir hafa oft hæfileika í öðrum keppnisgreinum. „Leikmennirnir" eru oft hjátrúarfullir og taka tapi illa og þegar það gerist er óheppni yfirleitt um að kenna. Karpov og Petrosjan tilheyra þessum flokki.

Í fimmta flokki koma svo „listamennirnir" og í þeim sjötta „landkönnuðir". Hin „listrænu tilþrif" mega sín oft lítils gagnvart keppnishörku hinna. Júrí Averbakh, sem er fæddur 1922, setur sig í hóp „landkönnuða". Hann hefur útsýn yfir alla skáksöguna - ekki aðeins sem öflugur stórmeistari og Sovétmeistari árið 1954, heldur einnig sem forseti sovéska skáksambandsins til margra ára, skákdómari, ritstjóri, blaðamaður, aðstoðarmaður fjögurra heimsmeistara: Botvinniks, Spasskís, Tals og Petrosjans. Stórkostlegur fræðimaður sem skrifaði mikinn bálk um endatöfl. Eitt afbrigði Kóngsindversku varnarinnar ber nafn hans og um það skrifaði Margeir Pétursson bók sem fékk góða dóma.

Áhugamönnum um sagnfræði skákarinnar þykir áreiðanlega fengur í ýmsu því sem Averbakh ritar um: Heimsmeistarinn Botvinnik óskar eftir leyfi til að byggja sumarhús á eftirsóttu svæði í grennd við Moskvu. Neitun berst undirrituð af Bería, hinum illræmda innanríkisráðherra. Botvinnik sendir inn aðra beiðni og nú til Stalíns sem undirritar skipun þess efnis að Botvinnik skuli fá skika lands á þessu svæði og byggingarefni.

Antwerpen 1955: Averbakh fær ekki hamið 18 ára pilt, Boris Spasskí, sem kominn er til Belgíu til þess að verða heimsmeistari unglinga. Í viðurvist sendiherra Sovétríkjanna gengur bunan út úr Spasskí um það sem aflaga fer í Sovét. „Yfirfrakki" sem sendur hefur verið með Spasskí til Belgíu og reynist eins og ævinlega vera KGB-maður, tilkynnir Averbakh að hann muni skila skýrslu um framgöngu Spasskís, sem Averbakh veit að þýðir ævilanga útskúfun. Averbakh tekst að fresta skýrslugjöf og síðar að láta málið niður falla. Nokkru síðar teflir Averbakh kostulegt æfingaeinvígi við Botvinnik heimsmeistara en eftir millisvæðamótið í Portoroz 1958 gengur hann til liðs við undramanninn Tal, Botvinnik til sárrar gremju. Averbakh fjallar um Bobby Fischer, kosningar á FIDE-þingum, Kortsnoj, einvígi Karpovs og Kasparovs, fall Sovétríkjanna, hégómaskap, svindl, og tortryggni. Júrí Averbakh stendur álengdar sem hinn mikli heiðursmaður og stækkar þá skákburði sem hann kemur nærri. Og hann kemur „þurr innan úr rigningunni".

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Sunnudagsmogganum, 18. nóvember 2012.

Skákþættir Morgunblaðsins


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 13
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 110
  • Frá upphafi: 8780648

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 89
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband