Bloggfærslur mánaðarins, september 2017
13.9.2017 | 12:22
Íslandsmót ungmenna (u8-u16 fer fram) 7. og 8. október
Íslandsmót ungmenna fer fram helgina 7.-8. október í Rimaskóla. Teflt er í fimm flokkum. Krýndir verða 10 Íslandsmeistarar - efsti strákur og efsta stelpa í öllum flokkunum fimm. Glæsilegar vinningar í boði.
Allir flokkar hefjast 12:00 á laugardeginum. Tekið verður við þátttökugjöldum og staðfestingu á mætingu frá 11:20 11:50. Þeir keppendur sem mæta eftir 11:50 geta misst sæti sitt í mótinu.
Skráning er á Skák.is (guli kassinn efst) til og með 5. október. Upplýsingar um þegar skráða keppendur má finna hér.
Þátttökugjald er krónur 1.500 og greiðist með reiðufé við staðfestingu á mætingu. Systkini borga aldrei meira en 2.500 kr. samtals. Hægt er jafnframt að greiða í gegnum netbanka fyrir mót inn á reikning 101-26-12763, kt. 58026-5409. Vinsamlegast látið nafn keppenda koma fram í skýringu og sendið kvittun á skaksamband@skaksamband.is.
Stefnt er að því að tefla í sérflokkum fyrir stráka og stelpur en mögulega þarf að sameina einstaka flokka verði þátttaka ekki nægjanleg. Sigurvegari í flokki 9-10 ára tryggir sér sæti á Norðurlandamótinu í skák sem fer fram í febrúar 2018 í Finnlandi. Sigurvegarar í elstu flokkunum þremur tryggja sér sæti á Unglingameistaramóti Íslands.
Verði menn jafnir í efstu sætum er teflt um Íslandsmeistaratitla en stig reiknuð um önnur sæti. Í flokki átta ára og yngri verða þó reiknuð stig um öll sæti.
8 ára og yngri (f. 2009 og síðar)
Umhugsunartími: 8-2 mínútur.
Fjöldi umferða: Allir keppendur tefla fimm umferðir á laugardeginum. Eftir fimm umferðir verður niðurskurður þannig að keppendur með þrjá vinninga eða fleiri komast áfram og mæta líka á sunnudegi. Umferðafjöldi á sunnudegi verður tvær til fjórar umferðir eftir heildarfjölda keppenda.
Dagskrá: Mótið hefst 12:00 á laugardeginum og 12:00 á sunnudeginum fyrir þá sem komast áfram.
9-10 ára (f. 2007 og 2008)
Umhugsunartími: 8 + 2 mínútur
Fjöldi umferða: Allir keppendur tefla fimm umferðir. Eftir fimm umferðir verður niðurskurður þannig að keppendur með þrjá vinninga eða fleiri komast áfram og mæta líka á sunnudegi. Umferðafjöldi á sunnudegi verður tvær til fjórar umferðir eftir heildarfjölda keppenda.
Dagskrá: Mótið hefst 12:00 á laugardeginum og 12:00 á sunnudeginum fyrir þá sem komast áfram.
1112 ára (f. 2005 og 2006)
Umhugsunartími: 15 mínútur með 5 sekúndna viðbótartíma fyrir hvern leik.
Fjöldi umferða: 9
Dagskrá: Mótið hefst 12:00 á laugardeginum og verða þá tefldar 5 umferðir. Mótinu verður framhaldið 12:00 á sunnudeginum og verða þá tefldar fjórar umferðir.
1314 ára (f. 2003 og 2004)
Umhugsunartími: 15 mínútur með 5 sekúndna viðbótartíma fyrir hvern leik.
Fjöldi umferða: 9
Dagskrá: Mótið hefst 12:00 á laugardeginum og verða þá tefldar 5 umferðir. Mótinu verður framhaldið 12:00 á sunnudeginum og verða þá tefldar fjórar umferðir.
1516 ára (f. 2001 og 2002)
Umhugsunartími: 15 mínútur með 5 sekúndna viðbótartíma fyrir hvern leik.
Fjöldi umferða: 9
Dagskrá: Mótið hefst 12:00 á laugardeginum og verða þá tefldar 5 umferðir. Mótinu verður framhaldið 12:00 á sunnudeginum og verða þá tefldar fjórar umferðir.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2017 | 08:08
Ivanchuk og Fedoseev hófu fjórðu umferðina með sigri
Fjórða umferð (16 manna úrslit) Heimsbikarmótsins í skák hófst í gær í Tbilisi í Georgíu. Sex skákum lauk með jafntefli. Nakamura-baninn Vladimir Fedoseev (2731) vann Maxim Rodshtein (2695) glæsilega og svo vann Vassily Ivanchuk (2727) Anish Giri (2777) í mikilli baráttuskák.
Seinni skák fjórðu umferðar hefst í dag kl. 11.
Úrslit gærdagsins
Ítarlega frásögn og öll úrslit má finna á Chess.com.
Myndir (Maria Emelianova - Chess.com)
- Heimasíða mótsins (Ivan Sokolov aðalskýrandi)
- Chess.com (Yasser Seirawan og fleiri)
12.9.2017 | 18:03
Enn einn góður dagur á EM ungmenna
Eftir frídaginn hefur gengið afar vel hjá hjá íslensku ungmennunum sem tefla á EM ungmenna í Mamia í Rúmeníu. Í sjöundu umferðinni í dag komu 3,5 vinningar í hús í sex skákum. Þriðja umferðin í röð þar sem meira en 50% vinningshlutfall næst. Gunnar Erik Guðmundsson (u10), Jón Kristinn Þorgeirsson (u18) og Batel Goitom Haile (u10) unnu sínar skákir. Vignir Vatnar Stefánsson (u14) gerði jafntefli en aðrar skákir töpuðust.
Vignir, Jón Kristinn og Batel hafa 4,5 vinninga, Gunnar Erik hefur 3 vinninga og Bjartur Þórisson (u8) og Símon Þórhallsson (u18) hafa 2 vinninga.
Árangur Jóns Kristins og Batelar eru mjög eftirtektarverður en bæði hafa þau teflt við stigahærri keppendur í sex skákum af sjö. Jón Kristinn vann í dag enska FIDE-meistarann Ravi Haria (2398) og hefur hlotið 3,5 vinninga í síðustu fjórum skákum.
Áttunda og næstsíðasta umferð fer fram á morgun og hefst kl. 12.
Úrslit dagsins
- Chess-Results
- Beinar útsendingar (hefjast kl. 12 - 10 efstu skákir hvers flokks sýndar beint)
12.9.2017 | 14:19
EM Ungmenna í Rúmeníu - Pistill #5
Nú styttist heldur betur í annan endann á EM ungmenna og nú ríður á að eiga góðan endasprett til að tryggja sér eins gott sæti og hægt er. Sjötta umferðin gekk nokkuð vel og aðra umferðina í röð var íslenski hópurinn yfir 50% vinningshlutfalli.
Tveir keppendur eru mjög nálægt sýningarborðum en Vignir er á 11. borði í dag í sjöundu umferðinni sem er gríðarlega svekkjandi að fá ekki að fylgjast með honum. Jón Kristinn er á 14. borði í U18 þannig að við eigum möguleika á að hafa tvo Íslendinga í beinni útsendingu á morgun ef þeir leggja sína andstæðinga að velli. Báðir stýra þeir hvítu mönnunum þannig að ég er vongóður um að fá tvær beinar útsendingar á morgun!
Yfirferð yfir 6. umferðina:
U8
Fyrsti sigurinn hjá Bjarti! Tefld var skandinavísk vörn eins og lagt var upp með til að breyta aðeins til og koma á óvart. Mikilvægast að komast í miðtöflin oft í þessum flokkum. Ekki þurfti að hafa miklar áhyggjur af því þar sem Bjartur reyndist mun sterkari en sinn andstæðingur. Drottningarskák snemma á e6 varð til þess að hvítur lék kóngi sínum til d2 þar sem hann treysti sér ekki í að bera drottningu fyrir. Í kjölfarið féll skipamunur en það varð heill hrókur og svo stráféll hvíta liðið. Auðveldur sigur fyrir Bjart og gott og mikilvægt fyrir sjálfstraustið!
U10
Gunnar Erik mætti Finna sem erfitt var að lesa í. Hann var mikið í allskonar setup-um og höfðum við skoðað það sem við fundum í baseum. Hann kom hinsvegar á óvart með 1.d4 Rf6 2.Rc3. Höfðum skoðað gott system gegn London systemi og fleiri "kerfisbyrjunum".
Skákin transposaði yfir í franska vörn og þar sem Gunnar teflir hana ekki þekkti hann e.t.v. ekki stöðutýpuna nógu vel. Gunnar fann samt trausta leiki og tefldi byrjunina skynsamlega og var við það að losa um sig og fá fínt tafl en lék þá passífum Rf8 leik þegar ...c5 framrás hefði líklega farið langleiðina í að jafna taflið. Sá finnski tefldi býsna vel eftir þetta og þrátt fyrir að farið væri í tvöfalt hróksendatafl þá yfirtefldi (í stað yfirspilaði, nýyrði Vignis Vatnars!) sá finnski Gunnar í endataflinu og nýtti sér smávægileg mistök og vann laglega.
Greinilega sterkur andstæðingur og hefur Gunnar verið nokkuð óheppinn með þá og finnst manni hann eiga meira inni í mótinu. Hann er ekki að fá neinar gjafir en t.a.m. sá hann einn fyrrum andstæðing sinn fá gefins drottningu í einni skákinni! Gunnar er klárlega að tefla betur en vinningar gefa til kynna og ég býst við honum sterkum á lokasprettinum!
U10 stelpur
Batel náði enn góðum úrslitum þegar hún gerði jafntefli við rússneska stelpu (þriðji Rússinn sem hún mætir!) og enn og aftur stigahærri andstæðingur. Ég samþykkti setupið sem Batel tefldi en við vorum hinsvegar búin að tala um að alls ekki að vera að leika leikjum á borð við c5 í svona stöðum. Hef verið ánægður með miðtöflin og taktíkina oft en byrjanir þarf að bæta og eins er ekki alltaf allt sem sýjast nógu vel inn sem við undirbúum fyrir skákir. Það hefur þó verið nóg til þessa og greinilegt að ýmislegt býr í Batel. Hún gæti náð góðu sæti með sterkum endaspretti
U14
Vignir fékk loks tiltölulega auðveldan vinning. Hann fékk andstæðing sem var taplaus og okkur til hryllings nokkrar skákir í uppskiptaafbrigðinu í Frakkanum sem við vildum alls ekki fá á þessu stigi mótsins. Vignir treysti sér því best að fara aftur í Skandinavann og reyndist það gæfuspor. Vignir vann frekar einfaldan sigur með algjöru "simple chess". Makedóninn tapaði tveimur peðum skömmu eftir drotningarkaup í miðtaflinu og eftirleikurinn auðveldur.
Vignir eyðgi von um að komast á sýningarborð en eins og áður sagði er hann á 11. borði í dag og munaði því aðeins einu borði.
U18
Símon tapaði sinni skák en hann hafði svart gegn tæplega 2300 stiga Ungverja. Símon lék ...e5 í Sikileyjarvörn en sá svo eftir því þar sem framhaldið tefldist eiginlega eins og broddgöltur og peðið betur sett á e6 í þvi tilviki. Hvítur hafði ávallt frumkvæðið en Símon barðist vel. Miklar flækjur voru í lokin og líklega hefði Símon getað haldið taflinu gangandi og barist en tapaði þess í stað liði og skákinni.
Jón Kristinn hefur farið mikinn síðustu umferðir og er nú með 2,5 af síðustu 3. Skákin í 6. umferð var ítalskur leikur og Jokkó með svart. Enn og aftur klikka mótshaldarar og hvorug skákin er í .pgn skrá á heimasíðu mótsins.
Skákina vantar en þetta er ca. krítíska staðan eftir minni. Í stað ...Rg5 hér lék Jón Kristinn ...fxe5! sem reyndist vera sterkasti leikurinn. Hvítur tók manninn og eftir dráp á f1 komu þvingandi leikir, fxe4 og Rxd4 og hvítur skilaði í kjölfarið manninum til baka og tapaði stuttu síðar.
Eins og áður sagði er Jón í dag á 14. borði og eygir því von um að komast á sýningarborð á morgun með sigri.
Annars mundi ég efti að ég kláraði pistilinn að ég hafði tekið mynd af skorblaðinu hjá Jokkó þannig að hérna er skákin fyrir áhugasama ;-)
Úrslit 6. umferðar:
Hér á Mamaia er greinilega aðeins að koma "off-season". Margar búðir sem við fórum í fyrstu vikuna hafa einfaldlega lokað alveg og þegar við fórum í tívolíið í gær lokaði snemma í leiktækjasalnum og margt virtist hreinlega vera alveg lokað. Uppáhaldssjoppan okkar alveg við hótelið var lokuð í gærkvöldi en var þó opin í dag þannig að sjáum hvað setur. Mamaia er að mestu svona "summer resort" fyrir Rúmena á sumrin en hér er lítið í gangi á veturna.
Í gær fórum við í verslunarmiðstöð í Constanta sem er bærinn hérna alveg við Mamaia og fengum gott að borða á "Stjörnutorginu" þar. Mikið gott í boði, ég og Guðmundur fengum okkur spicy kínverskan mat meðan yngri kynslóðin fékk sér McDonalds og KFC. Einnig voru þarna traustir staðir eins og Subway og Pizza Hut og all fleiri möguleikar á mat en hægt er að fá inni á Mamaia.
Það kemur í ljós í kvöld hvort Luna Park (tívolíið) sé alveg lokað en allavega er billiardbarinn sem við höfum slappað mikið af á opinn ennþá að því að okkur sýnist.
Ýmislegt hefur verið gert til dundurs og nægir að nefna:
Þythokkí - Jón Kristinn er algjör vel í þessu og hefur held ég aðeins tapað einu sinni fyrir Vigni en Vignir þó tapað flestum leikjum á móti hinum ;-)
Píla - höfum tekið nokkra criket leiki í pílunni og Jón Kristinn virðist vera maðurinn í pílunni líka. Símon er þó sleipari en myndskeiðið gefur til kynna ;-)
Ég ætlaði svo að státa mig af því að hafa sett met í einni körfuboltavélinni hérna
...sé reyndar núna að ég hef smellt af á vitlausum tíma en ég setti með í þessari vél, 151 stig sem ég svo bætti í 153 stig. Þetta væri allt voða flott nema að Símon slátraði svo þessu meti og ég þarf því að herða mig. Mér til varnar gerði hann það í vélinni við hliðina sem er með mun mýkri boltum sem fyrirgefa og detta frekar ofaní. En ég þarf allavega að gera eitthvað til að standa við stóru orðin og bæta þá metið á þeirri vél líka....annars er Símon vélin í þessum leik sem ég sem fyrrverandi körfuboltaleikmaður mun eiga erfitt með að sætta mig við ;-)
Svo var lofað update á maura ástandinu á 11. hæð. Á ELLEFTU hæð er komin einhver mauranýlenda í herberginu hjá Símoni og Jokkó ótrúlegt en satt!
Fyrst við erum byrjaðir að röfla þá er nettengingin á hótelinu ennþá drasl...hún er bara nothæf eftir svona 23:15 á kvöldin. Þessi pistill eins og aðrir er skrifaður á öðru hóteli, Hotel Malibu sem er beint á móti skákstaðnum. Þráðlausa netið þar er skárra en dettur þó nokkuð reglulega út. Hvað er málið með A-Evrópu og mannsæmandi internettenginu á árinu 2017?? Mun fjárfesta í svona usb tæki sem tekur símkort næst en Stefán Már pabbi Vignis er með slíkt og hefur notað í mörgum löndum. Aðeins þarf að kaupa ódýr símkort í viðkomandi landi og nettengin er græjuð og ekkert ves!
En látum þetta gott heita að sinni. Myndband af maurunum er að hlaðast upp og bæti því kannski við hér (komið)....annars góður á heitasta deginum hér í Mamaia, 32 stiga hiti takk fyrir!
mbk,
Ingvar
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.9.2017 | 09:05
Caruana fallinn úr leik - 16 manna úrslit hefjast í dag.
Stórstjörnunar halda áfram að falla úr leik á Heimsbikarmótinu í skák. Í gær féll Fabiano Caruana (2799) eftir að hafa tapað fyrir Evgenyi Najer (2694) í atskákinni. Meðal annarra fórnarlamba gærdagsins voru Li Chao (2745) sem tapaði fyrir Richard Rapport (2675) og Nepo (2741) sem laut í dúk fyrir heimamanninum geðþekka Baadur Jobava (2702). 20 mínútum síðar hafði Nepo tékkað sig út af hótelinu.
Aðeins fjórir skákmenn af topp 10 eru eftir þegar komið er að 16 manna úrslitum. Það eru Aronian, MVL, Grischuk og Wesley So.
Zurab Azmaiparashili gaf frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann fjallar um stóra stuttbuxnamálið. Yfirlýsinguna má finna á heimasíðu mótsins.
Fjórða umferð hefst í dag kl. 16. Pörunin er sem hér segir (hægt að stækka með því að tvíklikka)
Ítarlega frásögn og öll úrslit má finna á Chess.com.
Taflmennskan í dag hefst kl. 11.
Myndir (Maria Emelianova - Chess.com)
- Heimasíða mótsins (Ivan Sokolov aðalskýrandi)
- Chess.com (Yasser Seirawan og fleiri)
12.9.2017 | 08:47
Sigurður Daði sigraði stórmeistarann
FIDE-meistarinn Sigurður Daði Sigfússon (2228) er efstur á Meistaramóti Hugins með 3½ vinning eftir fjórðu umferð mótsins í gærkvöldi. Hann vann stórmeistarann Hjörvar Stein Grétarsson (2567) í lengstu skák umferðinnar eftir að sá síðarnefndi hafði leikið klaufalega af sér manni.
Hjörvar er í 2.-6. sæti með 3 vinninga ásamt Vigni Vatnari Stefánssyni (2312), Björgvini Víglundssyni(2137), Lofti Baldvinssyni (1963) og Birni Þorfinnssyni.
Vignir sat yfir í dag enda situr hann þessa dagana að tafli á EM ungmenna í Rúmeníu. Björn vann Hörð Garðarsson (1710) fremur örugglega. Björgvin og Loftur gerðu jafntefli rétt eins og þeir gerðu degi áður á Haustmóti TR í Faxafeninu.
Önnur óvænt úrslit urðu í kvöld þegar Tómas Ponzi (1480) vann Skagamanninn Magnús Magnússon(2005). Björgvin Kristbergsson (1054) var þó kátastur allra eftir að hafa náð að leggja Stefán Orra Davíðsson (1407) að velli.
Fimmta umferð fer fram nk. mánudag. Þá mætast meðal annars:
- Sigurður Daði (3½) Vignir Vatnar (3)
- Loftur (3) Hjörvar (3)
- Björn (3) Björgvin (3)
Sjá nánar á heimasíðu Hugins.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2017 | 21:35
EM ungmenna: Vel gekk í sjöttu umferð
Það gekk vel hjá íslensku skákmönnunum í sjöttu umferð EM ungmenna sem fram fór í dag. Bjartur Þórisson (u8), Vignir Vatnar Stefánsson (u14) og Jón Kristinn Þorgeirsson (u18) unnu í dag. Batel Goitom Haile (u10) gerði jafntefli. Aðrar skákir töpuðust. Jón Kristinn (2232) vann franska FIDE-meistarann Guillaume Philippe (2368).
Vignir hefur 4 vinninga, Jón Kristinn og Batel hafa 3,5 vinninga og Bjartur, Gunnar Erik og Símon hafa 2 vinninga.
Sjöunda umferð fer fram á morgun og hefst kl. 12.
Úrslit dagsins
- Chess-Results
- Beinar útsendingar (hefjast kl. 12 - 10 efstu skákir hvers flokks sýndar beint)
11.9.2017 | 15:22
EM Ungmenna í Rúmeníu - Pistill #4
Þá er frídagurinn að baki og seinni helmingur mótsins býður íslensku keppendanna nú í vikunni. Ég átti eftir að fjalla aðeins um fjórðu og fimmtu umferðirnar og svo var frídagur hjá okkur í gær.
Enn er ekki hægt að vera alveg sáttur við mótshaldara en alltaf virðast vanta nokkrar skákir í innsláttinn hjá þeim og því erfitt að treysta á .pgn skrá á heimasíðu mótsins. Ég hef meira reynt núna að ná í skottið á okkar mönnum og slá inn skákirnar sjálfur þó það sé með eindæmum tímafrekt.
Við skulum hefja þennan pistil á að fara yfir fjórum umferðina.
Yfirferð yfir 4. umferð
U8
Bjartur nýtti undirbúninginn frá skákinni á undan en lék einum ónákvæmum leik í byrjuninni en fékk samt fína stöðu. Hann hafði séns á að vinna mann en fljótfærnin varð honum að falli stuttu síðar þegar hann lék drottningunni í dauðann. Með meiri einbeitingu styttist í fyrsta sigur Bjarts því hann var klárlega búinn að tefla betur en andstæðingur sinn fram að afleiknum afdrifaríka.
U10
Gunnar lenti snemma í erfiðri beyglu í byrjuninni en skákin varð að sama skapi lærdómsrík útaf því. Hann fékk á sig Petrosian afbrigði í drottningarindverja sem við bjuggumst alls ekki við en höfðum eytt mestum tíma í að skoða Nimzann. Það er erfitt að undirbúa menn á tíðum þegar fáar skákir andstæðings eru til staðar til að njörva niður byrjanir. Andstæðingur Gunnars tefldi í raun mjög vel og mun betur en stigin gefa til kynna. Því miður var svarta staðan of slæm eftir byrjanatrikkið og lítið sem Gunnar gat gert.
Vert er þó að benda á að menn með alþjóðlega meistaratign hafa fallið í þetta trikk gegn undirrituðum og því einfaldlega gamli góði reynslubankinn sem hér byggist upp!
U10 stelpur
Við Batel ákváðum að breyta aðeins útaf Najdorf afbrigðinu til að vera ekki algjört "sitting duck" þegar kemur að undirbúningi. Við undirbjuggum sjaldgæft afbrigði sem þó býður upp á ýmsa pytti sem eru líklegir á þessu keppnisstigi að ganga upp. Mér sýnist mikilvægast að Batel komist klakklaust inn í miðtaflið því hún virðist standa nokkuð framarlega þegar kemur að taktísku auga og hefur verið að yfirspila sýna andstæðinga þannig. Það varð einnig niðurstaðan hér og Batel komin með 50% eftir þessa fjórðu umferð.
U14
"Hvað er að??" eins og sameiginlegur vinur okkar Vignis, Guðmundur Gestur Sveinsson myndi segja. Andstæðingur Vignis í þessari skák hreinlega hafði engan vilja til að reyna nokkurn skapaðan hlut og tefldi eins og vindurinn upp á jafntefli. Hann skipti upp á öllu við fyrsta tækifæri og Vignir hafði ekki nóg í riddaraendatafli til að leggja andstæðing sinn að velli. Skákina vantar því miður í .pgn skrá mótsins en Vignir beitti Leningrad afbrigði og var í raun nánast ekki hægt að tefla skákina betur hjá honum. Mögulega hefði hann átt smá sénsa ef hann hefði beitt ...d5 framrás einum leik fyrr í skákinni en skákin getur verið svona, ef andstæðingurinn teflir nægjanlega vel að þá er stundum ekkert hægt að gera og menn verða að sætta sig við jafntefli með svörtu mönnunum. Svekkjandi úrslit en lítið við þeim að gera.
U18
Jón Kristinn fékk stigalágan andstæðing og átti í litlum vandræðum eftir strategísk mistök andstæðings síns. Öruggur sigur þar á ferð.
Símon fékk sterkan Azera sem tefldi þungan pósa og í athyglisverðri skák reyndist sókn hvíts á kóngsvæng fremri framfrás Símons á drottningarvængnum og Azerinn hafði sigur.
Úrslit 4. umferðar:
5. keppnisdagur
Þá var komið að 5. keppnisdegi og merkilegt nokk fengu ALLIR islensku keppendurnir hvítu mennina!
Ég tók upp svona smá vídeó af herberginu mínu til að sýna aðeins hvernig hótelið okkar er. Flestir eru sammála um að þetta sé með því versta sem menn hafa gist á en menn eru þó ekkert að detta í neinu fýlu ;-)
Maturinn er heldur ekki upp á marga fiska (er reyndar aldrei fiskur heldur!) og svo láta þeir okkur bera eitthvað armband allan tímann til að komast inn í matinn.....eins og það sé EINHVER sem færi að svindla sér inn í þennan viðbjóð! Allavega fékk ég nóg og er búinn að slíta armbandið af mér, bara fyrir.
En já, kíkjum á vídeóið :-)
En að 5. umferðinni. Þetta var okkar langbesta umferð hingað til og íslenski hópurinn halaði heila 4 vinninga af 6 í hús!
U8
Bjartur tapaði sinni skák og vantaði hana í .pgn skrá frá mótshöldurum. Ég get hinsvegar tekið forskot á sæluna og glatt menn með því að Bjartur var fyrstur að klára í dag í 6. umferðinni og vann sína skák :-)
U10
Eftir smá ónákvæmni í byrjuninni tefldi Gunnar Erik eins og herforingi og var að yfirspila andstæðing sinn. Maltverjinn náði hinsvegar að verjast með kjafti og klóm og var líklega langleiðina við að sleppa þegar Gunnar missti af því að taka af honum hrókunarréttinn. Jafntefli varð svo niðurstaðan með mistlitum biskupum. Gott tækifæri forgörðum þarna hjá Gunnari en fín taflmennska.
U14
Vignir lenti í hörkuskák gegn teoríúvél frá Ísrael. Líklega valdi Vignir vel í byrjuninni með Bb5+ og miðtaflið leit vel út hjá honum. Sá ísraelski tók hinsvegar völdin en skrikaði fótur og Vignir nýtti sér sína möguleika og fékk unnið hróksendatafl sem hann stýrði til vinnings meistaralega.
U18
Úrslitin í U18 voru fín. Símon vann sína skák geng stigalægri andstæðing og lenti í engu teljandi vandræðum að innbyrða sinn vinning. Jokkó fór í óafvitandi í þekkta jafnteflisteoríu og gerði því jafntefli við stigahærri Pólverja nokkuð snemma í umferðinni.
Heilt yfir fín úrslit í 5. umferðinni og okkar bestu hingað til.
Laugardagurinn var jafnframt afmælisdagur Jokkó og leyfðum við því afmælisbarninu að sjálfsögðu að velja hvar skyldi borðað.....það kemur væntanlega engum á óvart!
Til að fara á McDonalds þurfti að rölta góða 3km með tilheyrandi "are we there yet" hjali hjá einhverjum meðlimum göngutúrsins.
Leigubíll var svo tekinn til baka og kíkjum við í tívolíð, Luna Park en þangað höfum við oft farið og margt má sér til dundurs gera, allskonar tæki þar sem hægt er að fá ókeypis svima og ógleði, klessubílar, þythokkí, körfuboltavélar og fleira og fleira. Fórum í versta draugahús í sögu tívolía....setjumst í vagn og keyrum í gegnum einhvern smákofa þar sem eru í besta falli miðlungs halloween skreytingar og svo reyna þeir að redda túrnum með því að það sem er gaur sem segir BÖÖÖHHHHH alveg í lokin. Fengum nokkurn veginn það sem við borguðum fyrir sem var svona 150 kr :-)
Frídagurinn:
Í gær var svo frídagur á mótinu. Hópurinn fór saman í fótbolta í líklega mesta hitanum hingað til og menn svitnuðu vel. Við skiptum í lið á grasvelli sem við fundum og leyfðum tveimur litlum rúmenskum guttum sem voru á vellinu að spila með okkur. Skipt var eldri á móti yngri og höfðu þeir yngri sigur 10-8. Vert er þó að benda á að þeir rúmensku beittu ákveðnum staðarreglum þar sem þeir hlupu alltaf á eftir boltanum ef hann fór útaf og héldu svo bara áfram. Allt í góðu gríni og gaman hjá okkur :-)
Ætlunin var svo að kíkja í vatnsrennibrautagarð hér skammt frá hótelinu en það kom á daginn að hann var lokaður að fullu. Í raun kristallaðist hvað þjónustulundin er léleg hérna...held það sé almennt en ekki bara á hótelinu. Einn úr hópnum fór í lobbýið og spurði hvort vatnsrennibrautgarðurinn væri opinn. Í stað þess að "hafa fyrir því" að gá að því fyrir okkur sagði hún í alvöru að það væri svo stutt að labba að við gætum bara gáð....semsagt engin aðstoð!
Þess í stað var frídagurinn nokkuð frjálslegur. Ég fór með Símon í telegondóla eða kláfinn og fengum við góða útsýnisferð og göngutúr til baka. Kvöldið var svo sem fyrr tekið í tívólíinu.
Látum þetta gott heita að sinni kveðjur frá Mamaia,
Ingvar Þór Jóhannesson
P.S. Staðan í hraðkákeinvígi Vignis og Ingvar er 22-20 fyrir Vigni eftir að hann fór að beita ýmsum bellibrögðum....bíðið spennt eftir næsta pistli þegar við förum yfir maurana í herberginu hjá Símoni og Jokkó!
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 15:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2017 | 09:10
Carlsen, Kramnik og Nakamura halda heim á leið
Gærdagurinn var sá tíðindamesti á Heimsbikarmótinu í Tbilisi. Stærstu tíðindin eru að sjálfsögðu að heimsmeistarinn Magnus Carlsen (2827) er á heimleið eftir að hafa ekki náð að jafna metin gegn Kínverjanum Bu Xiangzhi (2714). Kramnik (2803) og Nakamura (2781) eru einnig á heimleið. Kramnik tapaði fyrir Ivanchuk í gær og sama gerði Nakamura (2781) á móti Fedoseev (2731).
Tvö sæti á áskorendamótinu ráðast af hæstu meðalstigum á árinu 2017. Eftir gærdaginn datt Kramnik niður í þriðja sætið en á undan eru Caruana og So. Kramnik þarf því annað hvort að treysta á að það þeir lækki á stigum eða þá að annar hvort þeir komist í úrslit og hann fái þá þannig sæti á áskorendamótinu. Möguleikar Nakamura á að komast í áskorendamótið eru nú engir - ekki nema að hann fái boðssætið (wild card) sem FIDE heldur á. Það verður að teljast ólíklegt nema að mótið verði haldið í Bandaríkjunum.
Martin Bennedik heldur úti síðu sem þar sem hann fylgist með hverjir séu standi best á vígi í baráttunni um sæti á áskorendamótinu. Skjalið má finna hér.
Anish Giri (2777) bjargaði tapaðri skák í jafntefli á lygilegan hátt gegn Sethuraman (2617) og tefla þeir til þrautar í dag ásamt 14 öðrum skákmönnum. Eini möguleikinn á sæti fyrir Giri á áskorendamótinu felast í því að komast í úrslitin í Tbilisi.
Auk ofangreinda tryggðu So (2792), Rodshtein (2695) og Wang Hao (2701) sér keppnisrétt í 4. umferð (16 manna úrslitum) í gær.
Það er ahtyglisvert að skoða lifandi stigalistann. Þrettán stigastigahæstu skákmenn hafa lækkað á stigum. Peter Svidler, sem er í fjórtandi sæti er sá eini á topp 20 sem hækkar á skákstigum.
Ítarlega frásögn og öll úrslit má finna á Chess.com.
Taflmennskan í dag hefst kl. 11.
Myndir (Maria Emelianova - Chess.com)
- Heimasíða mótsins (Ivan Sokolov aðalskýrandi)
- Chess.com (Yasser Seirawan og fleiri)
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2017 | 22:37
Einar Hjalti Jensson einn efstur á Haustmótinu
Það var hart barist á flestum borðum í dag er 3.umferð Haustmótsins var tefld. Á 1.borði og 3.borði náðu keppendur jafntefli gegn stigahærri andstæðingi og á 5.borði vann stigalægri keppandinn.
Hjörvar Steinn Grétarsson (2567) vann peð snemma tafls á efsta borði gegn Magnúsi Pálma Örnólfssyni (2227) og héldu gestir á kaffistofunni að stórmeistarinn myndi landa sigri í kjölfarið. Magnús Pálmi greip þá til þess ráðs -peði undir- að hleypa skákinni í endatafl með samlitum biskupum. Það var sem Bolvíkingurinn væri aftur kominn á heimaslóðir í gömlu góðu Sjómannastofuna þar sem endataflskver Paul Keres, Hagnýt endatöfl, var stúderað til hlítar. Skákin stóð yfir í nær 5 klukkustundir og tókst Magnúsi Pálma að halda taflinu jöfnu gegn stórmeistaranum.
Einar Hjalti Jensson (2362) var lengi vel peði yfir gegn Jóhanni H. Ragnarssyni (2032) en Jóhann hafði þó nokkrar bætur fyrir. Einar nýtti sér þó liðsmuninn og innbyrti vinninginn, sinn þriðja í þremur skákum. Á þriðja borði tefldu Björgvin Víglundsson (2137) og Loftur Baldvinsson (1963) og sættust þeir á skiptan hlut. Oliver Aron Jóhannesson (2272) tefldi sína fyrstu skák í mótinu er hann vann hinn unga og efnilega Árna Ólafsson (1217). Á 5.borði stýrði Ólafur Guðmarsson (1721) hvítu mönnunum til sigurs gegn Kristjáni Erni Elíassyni (1869).
Einar Hjalti er því einn efstur eftir þrjár umferðir með fullt hús. Sex skákmenn fylgja fast á eftir með 2,5 vinning. Einar Hjalti tekur yfirsetu í næstu umferð sem gefur keppinautum hans kjörið tækifæri til þess að ná honum að vinningum. 4.umferð Haustmótsins verður tefld næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst taflið klukkan 19:30.
Úrslit og staða: Chess-results
Nýjustu færslur
- Ný vefsíða Skák.is!
- Loftur fær Héðin í fyrstu umferð
- Tveir fyrrum heimsmeistarar bættust við á keppendalistann á l...
- Ný alþjóðleg skákstig
- Carlsen vann Aronian - með vinningsforskot og aftur yfir 2850
- Skákklúbburinn Æsir - vertíðarlok
- Fundargerð aðalfundar SÍ
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open hefst á föstudaginn
- Carlsen vann Caruana í fyrstu umferð Altibox Norway Chess
- Þrír efstir og jafnir eftir fyrsta minningarmót Vinaskákfélag...
Tenglar
Mót í gangi
Mót sem eru í gangi hverju sinni
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open Valsheimilið, 1.-9. júní
- Altibox Norway Chess 27. maí - 8. júní: Carlsen og flestir sterkustu skákmenn heims
Lykilvefir
- Skáksamband Íslands Heimasíða SÍ
- Mótaáætlun SÍ
- Vefsvæði Friðriks Ólafssonar Vefsíða tileinkuð Friðriki Ólafssyni
- Skákskóli Íslands
- Skáksögufélagið
- F3-klúbburinn Vildarvinir skákíþróttarinnar á Íslandi
- Tímaritið Skák
- Fischersetur Selfoss
- Skákbækur til sölu
- Bobbý skáksverslun
- Skákhornið Spjallþráður skákmanna
- Skáklandið Stefán Bergsson bloggar
- Skákmyndir
Kennsluvefir
Íslensk taflfélög
Ef þú vilt tefla á netinu!
- Vinaskákfélagið
- Skákfélagið Hrókurinn
- Skákfélagið Huginn
- Taflfélag Reykjavíkur
- Víkingaklúbburinn
- Skákfélag Akureyrar
- Taflfélag Garðabæjar
- Taflfélag Vestmannaeyja
- Æsir
- Skáksamband Austurlands
- Skákdeild Fjölnis
- Skákfélag Sauðárkróks
- Taflfélag Bolungarvíkur
- Skákfélag Selfoss og nágrennis
- Skákdeild Breiðablik
- Skákdeild KR
- Skákdeild Breiðabliks
- Gallerý Skák
- Riddarinn
- Félag íslenskra bréfskákmanna
Erlendir skákvefir
- FIDE Alþjóðlega skáksambandið
- ECU
- The Week in Chess
- ChessBase
- Chess Vibes
- Chessdom
- Your Chess News Umsjón Jóhann H. Ragnarsson
- Bergens Schakklub Besta norræna skákfréttasíðan
- Færeyska skáksambandið
- Bloggsíða Susan Polgar
- ChessCafe Pistlar og greinar
Almanök
Teflt á netinu
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.7.): 4
- Sl. sólarhring: 17
- Sl. viku: 147
- Frá upphafi: 8778538
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 101
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar