Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2016

Stórt start: Stefán Bergsson startmeistari

stebbi_be_1291485Efnt var til skákveislu í Höllinni í gær, rétt fyrir leik KA og Selfoss. Margir SA-menn styðja KA, en þó eru dæmi um annað og m.a. eru stuðningsmenn Hugins (Seyðisfirði) mjögsvo velkomnir á mót félagsins!

Í þetta sinn mættu 30 keppendur til leiks í upphafi móts, en nokkrir kusu að ljúka keppni eftir þrjár skákir, eins og heimilt var. Hinir héldu áfram og voru sérlega grimmir. Þrír voru jafnir fyrir síðustu umferð en efti magnaða úrslitaskák náði S Steingrímur Bé að hrifsa til sín efsta sætið og hefur hann nú á einni viku unnið tvö helstu hraðskákmót norðan heiða.  Það er því ljóst sð þessi drengur hefur ekkert að gera til Reykjavíkur. 

Lokastaðan var þessi:

1. Stefán Bergsson      6

2-6. Gylfi Þórhallsson, Jón Kristinn Þorgeirsson, Smári Ólafsson, Andri Freyr Björgvinsson og Elsa María Kristínardóttir 5

7. Sigurður Eiríkisson 4,5

8. Haraldur Haraldsson 4

9-11. Hjörleifur Halldórsson, Ulker Gasanova og Hjörtur Steinbergsson 3,5

Aðrir fengu aðeins minna 


Björn Ívar: Ánægður með byrjanataflmennskuna

Björn Ívar Karlsson, landsliðseinvaldur Íslands í kvennaflokki, var að vonum svekktur eftir 0-4 ósigur gegn sterkri sveit Ítalíu í 2.umferð. Björn Ívar var ánægður með upphaf skákanna og stöðurnar sem fengust eftir byrjanirnar. "Stöðurnar snérust flestar við á einum tímapunkti í miðtaflinu og þá fór að saxast á tímann hjá okkur. Við getum aðeins bætt tímanotkunina fyrir næstu viðureign."

Ísland mætir Englandi í kvennaflokki í dag og má búast við hörkuviðureign en enska liðið er mun stigahærra á öllum borðum.


Viðtal við Ingvar Þór eftir 4-0 sigur gegn Eþíópíu

Ingvar Þór Jóhannesson, landsliðseinvaldur Íslands í opnum flokki, gaf kost á viðtali eftir þægilegan 4-0 sigur gegn Eþíópíu í 1.umferð.


Bakú-pistill forseta nr. 3: Forsetanum vísað út!

P1040417

Það gekk ekki vel í annarri umferð Ólympíuskákmótsins. Einn vinnur af átta kom í hús. Það var reyndar mjög góður vinningur. Hjörvar Steinn Grétarsson vann glæsilegan sigur á Tékkanum sterka, Viktor Laznika. Aðrar skákir töpuðust. Kvennaliðið tapaði 0-4. Liðsstjórarnir hafa farið betur yfir gang mál

Í dag mæta karlarnir liði Sýrlands sem hefur meðalstigin 2241 á móti 2527 hjá okkur mönnum. Gummi hvílir. Sýrlandi höfum við aldrei mætt áður á Ólympíuskákmóti.

Clipboard04

Bein útsending frá viðureign dagsins

Kvennaliðið mætir liði Englands. Veronika hvílir aftur. Þar hallar verulega á okkur stigalega séð. Meðalstigin íslenska liðsins eru 2003 á meðan enska kvennaliðið hefur að meðaltali 2236 skákstig. Við höfum mætt Englendingum tvisvar áður. 1982 og 2010. Í Khanty Mansiesk 2010 vanst frækinn og mjög óvæntur 3-1 sigur á þeim ensku þar sem Lenka, Hallgerður og Sigurlaug unnu sínar skákir. Íslendingar voru mun stigalægri á öllum borðum.  Ég sé að ég hef þá talað þá um liðið hafi “jafnvel náð besta árangri íslensks kvennaliðs á Ólympíuskákmóti”.

Clipboard06

Bein útsending frá viðureign dagsins

Skipulagning Aseranna er almennt góð á mótinu. Einstaka hnökrar eru þó til staðar og snúa þeir helst að aðgangsmálum. Mér og reyndar fleirum finnst mótshaldarar og FIDE taka anti-cheating full langt. Þótt koma verði fyrir svindl með öllum tiltækum ráðum má það ekki vera til þess að skákin og fjölmiðlaumfjöllun líði of mikið fyrir það. 

Margir liðsstjórar mótmæltu því í gær að tilkynna þurfi í hvert skipti sem farið er á klósettið eins og lesa má um á Chess24. Sömuleiðis hafa menn verið að vandræðum að taka myndir eins og lesa má um á Chess.com. Eins og Peter Doggers bendir á í þeirri grein:

No other major sporting event in the world seems so restrictive with the press, making it difficult to highlight the major stories, people, and subplots of the competition. Organizers of the Olympiad, so far, are preferring to suspend access to what should be one of the most interesting and feature-rich worldwide chess events.

Í fyrstu umferð komst ég sjálfur ekki inní nema áhorfendasvæðið. Þar var ég myndavélalaus. Ég gafst upp og dreif mig uppá hótel.

Í gær tókst mér að herja út blaðamannapassa eftir mikið japl, jamm og fuður. Þegar ég komst loks inn í skáksalinn var korterið liðið og ég náði aðeins að taka 3 myndir af karlaliðinu áður en skákstjóri stöðvaði mig. Það að komast inn reyndist mjög skammgóður vermir.

Eftir 45 mínútur kom nefnilega mjög ábúðarfullur öryggisvörður og vísaði mér út! Ég mátti víst ekki vera lengur inní skáksalnum. Við sem eru FIDE-fulltrúar eru vanir því að fá góðan og mikinn aðgang. Því er ekki fyrir að fara hér. Heldur betur ekki!

Aserarnir eru mjög strangir og hlýða greinilega fyrirmælum mjög nákvæmlega. Það lýsir þeim eiginlega mjög vel að ég gær þá ætlaði Joanna Golas, sem er ein æðsta manneskja mótshaldaranna, að hleypa mér inn bakdyra meginn en öruggsvörðurinn sem hún talaði við hlustaði ekkert á hana. Sagði henni að ég hefði ekki viðeigandi aðgang og fengi ekki fara inn! Og þar við sat.

Mér skilst hins vegar að þessu verði kippt í liðinn í dag og að við munum fá fullan aðgang að skákstaðnum. Sjáum til!

Umferð dagsins hefst kl. 11.

Áfram Ísland!

Kveðja frá Bakú,
Gunnar Björnsson


Íslandsmót öldunga 65+ fer fram á laugardaginn

ÍSLANDSMÓT ÖLDUNGA 65 ÁRA OG ELDRI -005

Íslandsmót öldunga  65 ára og eldri  verður haldið laugardaginn 10. september  nk. í Ásgarði, félagsheimili  FEB að Stangarhyl.  Að þessu sinni standa báðir skákklúbbar eldri borgara á Höfuðborgarsvæðinu, RIDDARINN og ÆSIR, sameiginlega að mótinu, sem áður hefur farið fram á vegum hins fyrrnefnda í Hafnarfirði.

Þetta er í þriðja sinn sem slíkt Íslandsmót með atskákarsniði fer fram í þessum aldursflokki.

Tefldar verða 9 umferðir með 10 mínútna umhugsunartíma auk  3 sekúndna viðbótartíma á leik. Fjórar umferðir verða tefldar fyrir hádegi en lokaumferðirnar fimm eftir hádegisverðarhlé.

Mótið hefst kl. 10 árdegis og lýkur um kl. 16.30  með verðlaunaafhendingu. 

Þátttökugjald er kr. 1000 og innifelur kaffi, svaladrykki og snarl meðan á móti stendur. Björgvin Víglundsson er núverandi Íslandsmeistari og  hefur unnið mótið í bæði skiptin sem það hefur verið haldið.  

Aðalverðlaun mótsins er kr. 50.000 ferðastyrkur á Norðurlandamótið í skák í Sastamala, Finnlandi, 22. -30. október nk.  Auk verðlaunagripa sem gefnir eru af Sportvöruverzluninni JÓA ÚTHERJA, verða veitt vegleg bókaverðlaun og aldursflokkaviðurkenningar (65-70; 71-75; 76-80; 81 og eldri). Vænst er góðrar þátttöku sem víðast hvar að af landinu.  

Mótsnefndina skipa fulltrúar "Öðlinganefndar SÍ" þeir: Einar S. Einarsson, formaður; Finnur Kr. Finnsson; Guðfinnur R. Kjartansson; Sigurður E. Kristjánsson og Össur Kristinsson.

Skráning fer fram á Skák.is (guli kassinn efst). Upplýsingar um þegar skráða keppendur má finna hér

 


Ólympíuskákmótið: 2. umferð í opnum flokki

P10404152. umferð í opnum flokki fór ekki vel fyrir íslensku liðin og raunin varð sú að Hjörvar Steinn Grétarsson var sá eini í öllum flokkum sem náði í vinning.

Tékkarnir eru vissulega sterkir á pappírnum. Á fyrsta borði beið okkar hinn ígulsterki David Navara sem er að bjóða upp á skákstig yfir 2740 þessa dagana. Á öðru borði er grjótharður Laznicka með rúm 2650 skákstig. Því var ljóst að við ramman reip var að draga. 

Ákveðið var að stilla upp liðinu á eftirfarandi hátt:

1. Hannes - 2. Hjörvar - 3. Jóhann - 4. Guðmundur. 

Semsagt, aðalliðið var á boðstólnum þar sem þetta var fyrsta alvöru viðureignin okkar á þessu móti með fullri virðingu fyrir Eþíópíu.

Fyrir umferðina voru menn bjartsýnir og jafnvel að vonast eftir frammistöðu á þessum nótunum frá Tékkunum:

 

1. borð: Navara - Hannes

Hér var ljóst að Hannes ætti erfiðara skák fyrir höndum. Navara hefur verið að vinna sig upp skákstigalistann enn og aftur og nálægt sínu besta formi. Þar að auki var Hannes með svörtu mennina. Á boðstólnum var e3 afbriðgið í Nimzanum.

Ol2016_Ice_Cze_1_1

Þótt að svartreita-biskupinn sé verri á d2 en í hefðbundnu drottningabragði er hvítur töluvert á undan í liðsskipan.

Ol2016_Ice_Cze_1_2

Hannes vildi meina eftir skákina að lykilmistökin hefðu verið ...Be5 leikurinn og taflið hefði verið erfitt eftir það. Hannes þurfti að taka á sig stakt peð og hvítur hafði mjög þægilegt tafl.

Ol2016_Ice_Cze_1_3

Því miður reyndist það auðvelt fyrir Navara-reiknivélina að vinna úr stöðunni. Loks var komið að the "deathblow" í stöðunni að ofan.

Hér var náðarhöggið 32.Hxd5! 

Góð skák hjá Íslandsvininum Navara þó við hefðum kosið að hún kæmi á öðrum tíma.

2. borð Hjörvar - Laznicka

Í undirbúningi kom í ljós að Laznicka var mest í hollenskri vörn. Hjörvar var hinsvegar spakur og benti á að líklegast væri að hann yrði meira "solid" í liðakeppni og myndi tefla eitthvað á borð við móttekið drottningarbragð með ...dxc4. Lundin hjá liðsstjóra var því nokkuð góð þegar 2...dxc4 kom á borðið.

Lundin var ekki jafn létt þegar svartur lék 18...g5 og var með VIÐBÓTARTÍMA á klukkunni!

Ol2016_Ice_Cze_2_1

Laznicka var semsagt með meiri tíma á klukkunni en þegar hann hóf skákina þegar hann "úðaði" út 18..g5. Þar sem mjög erfitt er að átta sig á hvur fjandinn er eiginlega í gangi í þessari stöðu var undirritaður skiljanlega skíthræddur um að Hjörvar væri hér að lenda í einhverjum tölvustúderingum og væri því í vondum málum.

Hjövar hinsvegar brást vel við og aðeins tveim leikjum síðar var komið að Laznicka að hugsa sig um í yfir 40 mínútur.

Ol2016_Ice_Cze_2_2

Eftir 25.Re3 var mér ljóst að svartur hafði ekki neinar bætur og Hjörvar stæði líklegast til vinnings hér. 25..Ha1+ lítur út fyrir að vera hættulega en hinn einfaldi 26.Rcd1 stoppar allt og svarutr ræður ekki við Rxc4 og Hb8+. Á þessum tímapunkti fannst mér Gummi vera að snúa stöðunni sér í hag og því þónokkur bjarstýni hjá mér á þessum tímapunkti.

Þrátt fyrir aö töluverð úrvinnsla væri eftir þá var niðurstaðan sú að Hjörvar var peði yfir og þetta peð var hættulegt frípeð á b-línunni sem réði úrslitum í skákinni.

 

3.borð: Babula - Jóhann

Babula kom Jóhanni á óvart með Bf4 afbrigðinu í drottningaindverja. Anthony heitinn Miles var þekktur fyrir að beita þessu afbrigði.

Jóhann vissi að ...c5 væri krítíkasti varíanturinn þar sem Helgi Áss Grétarsson átti m.a. góða sigurskák gegn Jóhanni á Íslandsmóti í atskák fyrir einhverjum árum. Jóhann hafði hinsvegar ekki litið á þennan varíant í einhvern tíma og ákvað frekar að tefla traust.

Ol2016_Ice_Cze_3_1

Hér var Jóhann ekki ánægður með ...a4 leikinn. Vildi meina að það hefðu verið fyrstu mistökin og svo hefði hann ekki átt að leyfa d5 og því að drepa á d4. Þess í stað taldi Jóhann taflið hartnær strategískt tapað og reyndist vörnin mjög erfið og á endanum þurfti að leggja niður vopn.

Skákin minnti Jóhann á skák með skiptum litum þar sem Jóhann hafi hvítt gegn Miso Cebalo sem einmitt lék ...a4 í nánast eins stöðu og þurfti að þjást mjög lengi.

4. borð: Guðmundur - Plat

Guðmundur beitti afbrigði sem Milorad Knezevic beitti á sínum tíma með e3 og svo Db3. Guðmundur hafði m.a. búist við Grunfeld og treyst á þetta afbrigði en því miður virtist hann ekki koma að tómum kofanum hja Plat.

Plat jafnaði taflið og fékk líklega aðeins betra. Gummi var hinsvegar ekkert að gefa eftir, varðist vel og var við það að hrifsa frumkvæðið þegar hann missti tökin.

Ol2016_Ice_Cze_4_1

Hér hefði Gummi í stað 20.Hc6? getað fengið betri stöðu með 20.Rd3 sem stoppar ...e5 framrásina (og valdar f2) og síðan hefði verið hægt að vinda sér í aðgerðir á c-línunni.

Þess í stað opnaði svartur stöðuna með ...e5 og hvítur lenti í vandræðum sem kostuðu skiptamun og skákina alltof fljótt.

 

Úrslitin því vonbrigði 1-3 en eins og oft er stutt milli hláturs og gráturs. Með smá heppni hefðu úrslitin getað orðið allt önnur.

Pörun 3. umferðar kom okkur nokkuð á óvart en þar mætum við sveit Sýrlendinga sem skartar mönnum með yfir 2200 stig. Á pappírunum ætti þetta að vera auðveldur vinningur en eins og menn vita hafa pappírar aldrei unnið neitt. Við munum því stíga fast til jarðar og stilla upp sterkri sveit og ekkert nema vinningur sem kemur til greina.

- Ingvar Þór Jóhannesson: Liðsstjóri í opnum flokki. 

 


Ólympíuskákmótið: 2. umferð í kvennaflokki

Við mættum sterku liði Ítalíu í dag, sem er með meðalstig 2304. Ég var bjartsýnn fyrir viðureignina, þrátt fyrir að ítalska liðið hafi ekki verið árennilegt á pappírunum. Aðalliðið tefldi í dag, svo Veronika hvíldi. Lenka hafði því svart á fyrsta borði gegn hinni þrautreyndu IM Olgu Zimina (2389). Olga tefldi frekar bitlaust vængtafl og Lenka jafnaði taflið auðveldlega. Eftir mikinn þæfing í miðtaflinu lenti hún óþarflega í tímahraki sem kostaði hana yfirsjón. Lenka tapaði skiptamun í framhaldinu, eftir lúmskt trikk frá Olgu, og féll á tíma stuttu seinna, með tapað tafl. Þetta var skák sem hefði með réttu átt að enda með jafntefli. Tímanotkunin var að stríða okkur svolítið í dag og það er eitthvað sem við ætlum að bæta í umferðinni á morgun.

2lenka

Hér lek IM Olga Zimina 35. Re4! sem vinnur lið eftir 35...Dxe5 36. Rg5+ eða 35...dxe4 36. Hxc5

Gulla hafði hvítt gegn FM Marinu Brunello (2376). Marina hefur teflt á Reykjavik Open, ásamt bróður sínum Sabino, svo við könnumst ágætlega við hana. Upp kom drottningarbragð og fljótlega skiptist upp á mönnum, sem létti talsvert á svörtu stöðunni, svo Gulla hafði ekki mikið upp á að tefla. Hugsanlega hefði hún átt að reyna að tefla upp á minnihlutaárás á drottningarvæng með Hb1 og svo b4 á einhverjum tímapunkti. Hún valdi aðra áætlun, að reyna að leika e4 en það gekk því miður ekki nógu vel. Í framhaldinu þurfti hún að taka á sig veikleika á kóngsvængnum og lenti í vandræðum í tímahrakinu. Hún tapaði liði í framhaldinu og neyddist til að gefast upp eftir að tímamörkunum var náð.

2gulla

Í þessari stöðu lék Brunello 37...Re3 og Gulla neyddist til að gefa skiptamun með 38. Hxe3

Halla hafði svart gegn WFM Danielu Movileanu (2268). Upp kom Caro-kann vörn og eftir 4...Bf5 lék Daniela 5. Rc5!?  (Spurning: Hver er upphafsmaður þessa leiks?) Halla tefldi framhaldið vel og jafnaði að öllum líkindum taflið þrátt fyrir að hafa tekið á sig veikt peð á c6. Í framhaldinu telfdi hún sennilega ekki nógu virkt og lenti í erfiðu endatafli, peði undir. Hún barðist hetjulega en sú ítalska sýndi afbragðs tækni (því miður!) og innbyrti sigurinn af öryggi.

2halla

Hér lék Halla 30...Hd2 og lenti peði undir eftir 31. Rb7. Hún hefði hugsanlega frekar átt að leika 30...Hb8 og tefla virka vörn eftir 31. b3 Hb4 og þar sem riddarinn á c5 fer ekki langt lendir svartur varla í miklum vandræðum með c6-peðið.

Hrund hafði hvítt gegn WFM Desiree Di Benedetto (2183). Hrund tefldi gamla og gleymda leið í uppskiptaafbrigði franskrar varnar sem við höfðum undirbúið mjög vel fyrir skákina (liðsstjórinn gleymir engu!). Di Benedetto virtist ekki þekkja afbrigðið vel og kom með mjög vafasama nýjung eftir langa umhugsun, 10...Df6?! í stað 10...Re7 sem er algengastur. Hrund hefði getað notfært sér þessa ónákvæmni með því að halda frumkvæðinu og setja pressu á svarta kónginn á miðborðinu með leikjum eins og 11. He1, 11. Rbd2 eða 11. Bg5. Hún eyddi smá tíma í að hirða peð á drottningarvængnum og missti aðeins þráðinn í framhaldinu, þrátt fyrir að vera enn með mun betra tafl. Í framhaldinu fékk Di Benedetto að hróka í friði og hafði auk þess biskupaparið gegn aðgerðalitlu riddarapari Hrundar.  Sú ítalska nýtti sér stöðuyfirburðina í framhaldinu og vann af öryggi.

2hrund

Di Benedetto lék síðast 10...Df6?! Hér gat Hrund tekið frumkvæðið með 11. He1+, 11. Rbd2 eða jafnvel 11. Bg5, með góðum færum. Hún lék í staðinn eðlilegum leik, 11. Dxa4, en tapaði við það mikilvægu tempói og svartur fékk smá svigrúm til að laga stöðuna.

4-0 tap var svekkjandi því stöðurnar bentu til annars eftir byrjunina. Það snérist eiginlega allt okkur í óhag þegar við lentum í tímahraki á öllum borðum. Við þurfum að passa betur upp á tímanotkunina á morgun; ekki eyða tíma að óþörfu, treysta á innsæið og okkar útreikninga - ekki andstæðinginn.

Andstæðingar okkar á morgun, í 3. umferð, er sterkt lið Englands (meðalstig: 2236) Liðsstjóri Englendinga er hinn sérkennilegi, en bráðskemmtilegi stórmeistari, Jonathan Speelman. Ég var mikill aðdáandi Speelmans þegar ég var ungur drengur, aðallega vegna frumlegrar taflmennsku hans. Eftir að IM Jón Viktor Gunnarsson tók Speelman í bakaríið á Ólympíumótinu í Istanbúl árið 2000 fór ég að halda minna upp á Speelman og meira upp á Jón Viktor! Speelman kom reyndar að máli við mig við upphaf 1. umferðar í gær og bað mig að skrifa undir mótmælabréf sem hann hafði sett saman, fyrir hönd liðsstjóranna á mótinu. Mótmælabréfið tengdist þeirri reglu á mótinu að keppendur og liðsstjórar þurfi að tilkynna skákdómurum sérstaklega ef þeir ætli að nota salernið. Eðlilega fannst Speelman þessi regla sérkennileg, enda er salernisaðstaðan inni á keppnissvæðinu, sem auk þess er rækilega girt af með málmleitartækjum og öryggisvörðum. Ég skrifaði að sjálfsögðu undir, enda ekki bara aðdáandi Speelmans heldur líka þess að geta farið á salernið án þess að biðja um leyfi.

Þangað til næst, bestu kveðjur frá Bakú.

- Björn Ívar


Jón Viktor vann Ljósanæturmót HS Orku

20160903 142440Alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson vann ljósanæturmót HS Orku með fullu húsi í dag og tryggði sér með því vegleg peningaverðlaun. Í öðru sæti frekar óvænt var hinn ungi Fjölnismaður Jón Trausti Harðarson með 8,5 vinning af 11. Þriðji varð svo alþjóðlegi meistarinn Björn Þorfinnsson með 8 vinninga.

Röð NafnEloFélagFl.VinnStig
1IMJón Viktor Gunnarsson2484TR 1172
2 Jón Trausti Harðarson1976Fjölnir 71
3IMBjörn Þorfinnsson2533TR 877
4FMDavíð Kjartansson2341Fjölnir 76½
5 Örn Leó Jóhannsson2158SR 773½
6FMGuðmundur Stefán Gíslason2278TB 772½
7IMSævar Jóhann Bjarnason2057TR 70
8 Ólafur Gunnar Ingason1898SR 60½
9 Þorvarður F Ólafsson2202TR 673½
10 Vigfús Óðinn Vigfússon1865Huginn 667
11 Páll Þórhallsson1996SR 666½
12 Bragi Halldórsson2194Huginn 664½
13 Smári Arnarson0TR 656
14 Gauti Páll Jónsson1923TR 74
15 Hörður Aron Hauksson1794Fjölnir 64
16 Páll Andrason1957TG 563½
17 Árni Ólafsson1183TRU15559
18 Snorri Sigurður Karlsson1633Haukar 559
19 Sólon Siguringason1303TGU15553½
20 Björn Kristinn Jóhannsson0SR 550½
21 Ingólfur Kristinsson0NjarðvíkU15549

Veitt 20160903 135602voru 2 aukaverðlaun. í flokki 14 ára og yngri varð efstur Árni Ólafsson úr TR sem var með 5 vinninga en ofar á stigum en Sólon Siguringason TG og Ingólfur Kristinsson Reykjanesbæ sem voru með jafn marga vinninga.

Nokkur óvænt úrslit voru í mótinu engin þó óvæntari en hjá Smára Arnarsyni sem er stigalaus gegn Braga Halldórssyni í fyrstu umferð en reiknað var með að stigalausir væru með 1000 20160903 135519stig. Alls munaði því 1194 stigum á þeim og því stjarnfræðilega lítill möguleiki á að Smári skyldi sigra skákina.

Alls tóku 28 manns þátt í mótinu og var gaman að sjá unga krakka úr Reykjanesbæ og stúlknahóp úr Grindavík sem settu mikinn svip á mótið.

 

Myndaalbúm mótsins má finna með því að smella hér.

Úrslit og lokastaðan.


Skákþáttur Morgunblaðsins: Systkinin gera það gott á EM ungmenna í Prag

14125124_153524358420977_5698749473928475194_o (1)Heimsmeistara- og Evrópumót ungmenna eru stærstu skákmótin fyrir unga skákmenn í dag. Þau eru haldin árlega og eru opin piltum og stúlkum í sex aldursflokkum á aldrinum 8-18 ára. Þar sem alþjóðlega skáksambandið, FIDE, hefur haft aðsetur í Rússlandi í meira en 20 ár hefur þróunin orðið sú að þessi mót hafa nær undantekningarlaust verið haldin í grennd við höfuðstöðvarnar; Tyrkland, Svartfjallaland, Slóvenía, Grikkland og Georgía eru nokkur lönd sem íslensk ungmenni hafa átt kost á að sækja heim á undanförnum árum.

Evrópumót ungmenna sem lýkur um helgina fer fram Prag í Tékklandi og þar tefla íslensku keppendurnir, sem er ellefu talsins, við geysiöflugt lið því austurblokkin með Rússa, Úkraínumenn, Asera og Armena, svo nokkrar þátttökuþjóðir séu nefndar, hefur að venju sterka viðveru.

Yngstu íslensku keppendurnir eru þeir Bjartur Þórisson 7 ára og Tómas Möller sem er 8 ára og tefla þeir í keppnisflokki drengja 8 ára og yngri. Ásamt Benedikt Þórissyni sem teflir í 10 ára flokknum fá þeir sér þannig reynslu sem síðar mun reynast dýrmæt. Það sést best á frammistöðu hinnar 10 ára gömlu Freyju Birkisdóttur sem hefur hlotið 4 vinninga af sjö mögulegum en hún tefldi á HM ungmenna í Grikklandi í fyrra og þekkir því vel til á þessum vettvangi.

Akureyringarnir Símon Þórhallsson og Jón Kristinn Þorgeirsson hafa virkað æfingalausir þrátt fyrir góða spretti. Það sama gildir um Gauta Pál Jónsson og Robert Luu. Þrír íslensku keppendanna tefldu á Ólympíumóti 16 ára og yngri í Slóvakíu á dögunum: Vignir Vatnar Stefánsson hefur ekki náð sér á strik og er með 3 ½ vinning af sjö mögulegum sem er nokkuð undir ætluðum árangri þó hann hafi yfirleitt skilað góðum árangri á þessum mótum. Tvíburabræðurnir Björn Hólm og Bárður Örn Birkissynir hafa hinsvegar náð góðum árangri og Bárður, sem er með 4 vinninga, hefur verið í mikilli framför undanfarin misseri. Þegar frammistaða Freyju bætist við geta þau systkin verið ánægð með sinn hlut í Prag. Í 6. umferð vann Bárður hollenskan skákmann á sannfærandi hátt í eftirfarandi skák:

EM ungmenna 2016:

Kevin Nguyen – Bárður Örn Birkisson

Spænskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 a6 4. Ba4 Rf6 5. d3 d6 6. c3 g6 7. h3 Bg7 8. Bg5 h6 9. Be3 O-O 10. Rbd2 Rh5 11. g3 Bd7 12. Bc2 De8!

Uppbygging svarts minnir á kóngsindverska vörn. Drottningin gefur f-peðinu lausan tauminn með því að valda riddarann á h5 óbeint.

13. De2 f5 14. O-O-O f4 15. gxf4 exf4 16. Bd4 Rxd4 17. Rxd4 b5

Hann gat líka leikið 17. ... c5, nú er ein hótunin 18. ... b4 o.s.frv.

18. R2f3 c5 19. Bb3+ Kh7 20. Rc2 Bc6 21. Hhe1 a5 22. Dd2?

Byrjun hvíts hefur verið stefnulaus og þessi leikur bætir ekki úr skák. Hann varð að forða biskupinum með 22. Bd5.

GNQ104M1P22. ... c4!

Króar biskupinn af.

23. dxc4 a4 24. cxb5 axb3 25. axb3 Bxb5 26. Dxd6 Hf6 27. Dd5 Bc6 28. Dd3 Hf7 29. Rfd4 Bd7 30. e5 He7 31. e6

E-peðið var að falla og ekkert mótspil hefst upp úr þessu.

31. ... Bxe6 32. De4 Ha6 33. b4 Bf6 34. b5 Hd6 35. Dd3 Bd7 36. c4 Hxe1 37. Hxe1

GNQ104M1G

37. ... Hxd4!

Nú fellur enn meira lið. Eftirleikurinn er auðveldur.

38. Df3 Df7 39. Rxd4 Bxd4 40. De2 Bxh3 41. b4 Rg7 42. Hd1 Da7 43. Dd2 Da3+

- og hvítur gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 27. ágúst 2016

Skákþættir Morgunblaðsins


Tvö töp í dag - Mjög góð sigurskák Hjörvars

P1040415Það gekk ekki vel hjá íslenku liðunum í 2. umferð Ólympíuskákmótsins í Bakú í Aserbaísjan. Íslenska liðið í opnum flokki tapaði 1-3 fyrir sterku liði Tékka en kvennaliðið steinlá fyrir ítalska liðunu 0-4. Bæði liðin voru að tefla við umtalsvert sterkari sveitir.

Hjörvar Steinn Grétarsson (2547) vann mjög góðan sigur á stórmeistaranum Viktor Laznicka (2651). Ingvar, liðsstjóri, á án efa eftir að fara yfir þá skák.

Þriðja umferð fer fram á morgun og hefst kl. 11. Pörun liggur ekki fyrir enn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.9.): 14
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 124
  • Frá upphafi: 8780628

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 100
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband