Leita í fréttum mbl.is

Pistill Hugins um Íslandsmót skákfélaga: Gott silfur í sjónmáli!

Fyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga 2017-2018, sem fram fór 19. - 22. okt. var bráðskemmtilegur. Alltaf jafngaman að hitta fjölskrúðuga flóru skákmanna víða að af landinu og móttökur Helga Árnasonar og hans fólks til fyrirmyndar að venju.

Í efstu deild lá reyndar ljóst fyrir nokkru áður en leikar hófust að Víkingaklúbburinn gerði sterkt tilkall til gullverðlauna þessa leiktíð. Fulltingi Jóhanns Hjartarsonar, Jóns L. Árnasonar, Jóns Viktors Gunnarssonar og Björns Þorfinnssonar, auk fjögurra erlendra stórmeistara sem tefla eins og ofurtölvur frá Tölvulistanum, þýddi bara eitt: Ofurefli.

Eftir nokkra umhugsun töldum við stjórnendur Hugins ekki svara kostnaði að flytja hingað þann óvíga her erlendra málaliða sem þyrfti til að gulltryggja okkur fjórða sigurinn í röð á Íslandsmótinu. Þess í stað var stefnan tekin á 2. sætið með okkar frábæra liði enda er alkunna að gott silfur er gulli betra. Einn erlendur stórmeistari kom þó til liðs við okkur í þetta sinn: GM Karen Movsziszian. Valið var engin tilviljun. Þessi geðþekki Armeni er  nýbakaður Evrópumeistari 50+, en alkunna er að heilastarfsemi skákmanna tekur stórstígum  framförum á aldursskeiðinu frá fimmtugu til áttræðs, svo fremi líkamleg heilsa sé í lagi. Það kom líka á daginn að Movsziszian er afrenndur að hugarafli.   

Hitt markmiðið, sem við settum okkur, var ekki síður metnaðarfullt: að tryggja B-liði Hugins áframhaldandi sess meðal hinna bestu en mikil og góð breidd er einn helsti styrkur Hugins.

  1. umferð: Sigur á sporgöngumönnum og óvænt tap B sveitar

Í fyrstu umferðinni mætti A-sveit Hugins nýsamsettri skákdeild Breiðabliks og Bolungarvíkur. Þar á bæ fara menn að dæmi okkar Huginsmanna og standa sínum fætinum í hvorum landsfjórðungnum. Við óskum þessum sporgöngumönnum og nánum samstarfsmönnum Hugins til hamingju með samrunann enda hefur hann gefist okkur vel og skapað skemmtilega landfræðilega vídd og frábæran persónuleg tengsl. Úrslit viðureignarinnar urðu 6,5 - 1,5 okkur í vil en þar söknuðu andstæðingar okkar auðvitað mjög stórmeistaranna Jóhanns og Jóns L. frá fyrri leiktíðum.

Vestfjarðafræðimaðurinn skeleggi, Snorri Bergsson, náði jafntefli við Hannes Hlífar með klókindalegum uppskiptum og Guðmundur Gíslason felldi Helga Ólafsson með leggjarbragði í skák sem báðir höfðu teflt vel en Helgi stóð til vinnings fram að fingurbrjótnum í blálokin.

B-sveit Hugins tapaði nokkuð óvænt 3,5 - 4,5 fyrir B-liði SA þó að við værum stigahærri á öllum borðum. Svakaleg átök urðu í skák sóknarskákmannanna kunnu, Sigurðar Daða og Stefáns Bergssonar. Hvortveggi gekk hart fram en Stefán náði að máta Daða sjónarmuni á undan. Hefur Daði heitið því að hefna ófaranna grimmilega með því að leggja Stefán að velli í 10 næstu kappskákum þeirra.

Af öðrum viðureignum má nefna sláandi 8-0 sigur ofurliðs Víkingaklúbbsins á KR og öfluga framgöngu Garðbæinga sem náðu jafntefli við Fjölni.

 

  1. umferð: Bræðravíg

Í annarri umferðinni mættust A- og B sveit Hugins. Á 7 borðum urðu úrslit í samræmi við stigamun en á 7. borði náði B-liðsmaðurinn Gísli Hólmar Jóhannesson að leggja Kristján Eðvarðsson. Niðurstaðan: 7-1 A-liðinu í vil.

Af öðrum viðureignum kvöldsins vakti sérstaka athygli að Garðbæingar komu aftur á óvart og nú lögðu þeir TR-inga að velli. Víkingaskriðdrekinn óð áfram með braki og brestum, kremjandi mann og annan. Aftur urðu úrslitin 8-0 en að þessu sinni voru Bolvíkingar/Breiðablik fórnarlambið. Var þessum mönnum fyrirmunað að tapa stigum, eða hvað?

  1. umferð: Basl með Akureyringa og frækin framganga formanna

Í þriðju umferð lenti A-sveit Hugins í erfiðleikum með að knésetja ólseiga Akureyringa.  Við unnum örugglega á fjórum efstu borðum en fengum aðeins ½ vinning á fjórum neðstu þar sem Kristján gerði jafntefli við Arnar Þorsteinsson. Úrslit 4,5-3,5. Nokkuð óvænt niðurstaða ef miðað er við síðustu leiktíð þegar við lögðum Akureyringana að velli 7,5-1,5 en þeir hafa reyndar styrkt lið sitt síðan.

B-lið Hugins mætti Víkingum gráum fyrir járnum, hvassbrýndum og með blóðhleypt augu. Yrðum við 3. sveitin til að snúa tómhent af vígvellinum gegn þeim? Nei, sú varð sem betur fer ekki raunin, þökk sé fráfarandi formanni Hugins, Þorsteini Þorsteinssyni, og nýkjörnum formanni félagsins, Pálma R. Péturssyni, sem sýndu sanna forystulund. Þorsteinn náði jafntefli gegn járnmanninum Gajewski (2585) með öflugum hróksleik á e6 (sjá stöðumynd) eftir nokkuð sjaldgæfa leikjaröð hvíts gegn Sikileyjarvörn Pólverjans. Pálmi og Jón L. (2458) skildu jafnir eftir að Pálmi hafði fórnað manni en sterk peð hans á drottningarvæng sköpuðu skemmtilegt mótvægi í endataflinu sem Jón L. treysti sér ekki til að brjóta.

Af viðureignum annarra sveita vakti helst athygli að Fjölnir lagði TR 5-3. Það leyndi sér ekki að skörð þeirra Jóns Viktors Gunnarssonar og Björns Þorfinnssonar hjá TR eru vandfyllt.

En grípum nú niður í skák Þorsteins og Gajewsky. Gefum Steina orðið:

„Leikar í skák minni við GM Gajewsky (2590) tóku að æsast þegar tímahrakið var skollið á.

Ég var með hvítt og átti leik í stöðunni hér að neðan.

Stöðumynd1

 

Hér skellti ég á hann 36.He6! sem hann svaraði með 36. …Bd7.

Stöðumynd2

Og nú kom 37.Df6+ Kg8 38.Dg6+ fxg6 39.Hg6+ og skákin endaði með þráskák eins og sést að neðan.

Stöðumynd3 

Ég skoðaði reyndar 38.Hxb6 í stað þess að taka þráskák með 38.Dg6 en tíminn leyfði heldur ekki að tæma þá stöðu. Hún virðist þó vera unnin eftir 38. - Dd8 39.Be2 g4 40.Hb7 Dc8 41.Hbxd7 Hxd7 42.Bxg4.

En í stað 37. Df6 vinnur 37. Hf6 Be8 38. Df5! og svartur er óverjandi mát í 8 leikjum reyndar! Ég missti hreinlega af þessu framhaldi enda tímahrakið mikið. Staðan eftir 38. Df5 sést á síðustu stöðumyndinni.

Stöðumynd4

Þetta var a.m.k. ágætis skemmtun og alltaf gaman að geta strítt þessum stórmeisturum!“

  1. umferð: Garðbæingum kippt niður á jörðina og Skákdeild Breiðabliks og Bolungarvíkur lögð að velli

Garðbæingar höfðu komið allra liða mest á óvart í fyrstu þremur umferðunum, taplausir og í toppbaráttunni! En að þessu sinni reyndist A-sveit Hugins þeim ofjarl með 6,5-1,5 sigri. Hjörvar Steinn, Helgi Ólafsson og Ingvar Þór gerðu jafntefli en aðrar skákir unnust.  

B-sveit Hugins atti kappi við Bolvíkinga/Breiðablik og hafði betur 4,5-3,5 eftir harða rimmu þar sem Sigurður Daði og Þröstur Árnason lögðu stigahærri keppinauta en Gísli Hólmar sigraði ungan og efnilegan skákmann á 8. borði. Framtíð Skákdeildar Breiðabliks og Bolungarvíkur er sannarlega björt ef marka má barna- og unglingastarfið sem er til mikillar fyrirmyndar.

Á meðan tryggðu Víkingar sig enn betur í sessi með 7-1 sigri á Akureyringum og munurinn á þeim og A-sveit Hugins var þegar orðinn 5,5 vinningar.

  1. umferð: Tveir góðir sigrar!

Síðasta umferðin í þessari lotu reyndist okkur heilladrjúg. Fjölnismenn voru ofurliði bornir af A sveit Hugins:  6,5-1,5. Hjörvar Steinn, Þröstur Þórhallsson og Helgi Grétarsson gerðu jafntefli en Helgi, Ólafsson, Hannes Hlífar, Karen Movsziszian, Einar Hjalti og Ingvar Þór sigruðu. Sigurskák Helga Ólafssonar var einkar vel útfærð með glæsilegri peðsfórn á f5.

Stöðumynd5

Helgi Ólafsson – Jesper Thybo Söndergaard

Gefum Helga orðið:

„Í þessari skák fékk hvítur bera tafl eftir byrjunina en Jesper, sem talinn er eitt mesta efni sem Danir eiga um þessar mundir, varði stöðu sína vel og jafnaði taflið. Hann bauð jafntefli eftir 24 leiki en þegar þessi staða kom upp virtist fátt annað blasa við en þrátefli sem gæti hafist með 35. Hc8+ Kh7 36. Hc7 Kg8 37. Hc8+ o.s.frv. En óvæntur möguleiki leyndist í stöðunni: 

  1. f5!

Þessi snjalli leikur kom Jesper í opna skjöldu. Þar sem ekki er fýsilegt að hleypa peðinu áfram til f6 stendur svartur frammi fyrir tveimur kostum: að taka með e-peði eða g-peði. Hann valdi ... 

  1. ... exf5?

... betra er 35. .. gxf5 en þá á hvítur 36. Bh5!  Eftir 36. ... Hb2 37. Bxf7+ Kh8! getur svartur varist þó staðan sé erfið úrlausnar eftir 38. Hc8+ Kh7 39. Bxe6 Kg6 40. Hg8! því að eftir 40. ... Kh7 á hvítur öflugan leik: 41. Hb8! með góðum vinningsmöguleikum. Betra er 40. ... d4 með flókinni stöðu .   

  1. Bxd5 Hb2 37. Bxf7+ Kh7 38. Bc4

Gott var einnig 38. Be6 en þessi leikur er mannlegri. Hvítur sér fram á að þvinga fram endatafl þar sem biskup þarf að berjast gegn hrók. 

  1. ... Bxc4 39. Hxc4 Hd2 40. Hc7 Kg8 41. e6

Það mátti raunar bíða með þennan leik og leika fyrst 41. Kf3. 

  1. ... Hxd6 42. Hc8+ Kh7 43. E7 Bd4+ 44. Kf3 He6 45. e8(D) Hxe8 46. Hxe8 Kg7 47. He6 Kf7 48. Hd6 Bc5 49. Hc6 Bd4

Þessi staða er alls ekki eins einföld og margur myndi halda. Best er stilla peðinu upp á h5 og reyna að valda hornalínuna a1-h8 og sporna þannig við innrás kóngsins. Sjá t.d. skák Friðriks Ólafssonar og Bent Larsens sem tefld var í Las Palmas árið 1974. Slíkar stöður ertu oft jafntefli t.d. ef skiptist upp á e-peði hvíts og f5-peði svarts. Hvítur verður gæta þess að halda í e-peðið og leika g3-g4 á réttu augnabliki. Það á að duga til  sigurs.   

  1. Kf4 Kg7 51. g4 Bg1 52. gxf5 Bxh2+ 53. Ke4 gxf5 54. Kxf5 h5 55. Kg5

– og svartur gafst upp.“

B-sveit Hugins hefndi tapsins frá síðustu leiktíð með stórsigri á KR-ingum. Kristján Eðvarðsson, fyrirliði sveitarinnar, fór fyrir sínum mönnum á efsta borði, tefldi af miklu öryggi og gerði jafntefli við færeyska stórmeistarann Helga Ziska Dam (2545). Þorsteinn Þorsteinsson var grimmur sem svart ljón á 2. borði og lagði Fide-meistarann Sören Bech Hansen. Pálmi Ragnar Pétursson gerði jafntefli á 4. borði, sömu sögu er að segja af norðan-kappanum Tómasi Veigari á 7. borði en Lenka, Baldur, Bragi og Arnaldur unnu góða sigra. Niðurstaðan 6,5 - 1,5  okkur í hag og fyrir vikið lyftum við okkur rösklega af botninum.

Staðan

Að 5 umferðum loknum er Víkingaklúbburinn efstur með 37 vinninga af 40 mögulegum. A- sveit Hugins er í 2. sæti með 31 vinning en síðan kemur Fjölnir með 24 vinninga. Ljóst er að Víkingaklúbburinn hefur þegar tryggt sér gullverðlaunin í 1. deild og árnum við þessum vinum okkar og keppinautum til margra ára heilla með glæsilegan árangur. Að öllu óbreyttu ætti Huginn að taka silfrið en spennandi verður að fylgjast með keppninni milli Fjölnis, TR og Akureyringa um bronsið. Huginn og TG sigla nokkuð lygnan sjó um miðja deild en SA-B, KR og Skákdeildar Breiðablik og Bolungarvíkur berjast hart á botninum.

Flesta vinninga Hugins A-sveitar hlutu:

  • Karen Movsziszian         5,0 af 5
  • Hannes Hlífar Stefánsson  4,5 af 5
  • Einar Hjalti Jensson      4,0 af 4
  • Hjörvar Steinn Grétarsson 4,0 af 5
  • Helgi Ólafsson            3,5 af 5
  • Ingvar Þór Jóhannesson    3,5 af 5


Í B-sveit Hugins voru margir til kallaðir. Alls tefldu 17 skákmenn eina eða fleiri skákir fyrir sveitina. Það vitnar sannarlega um mikla breidd. Flesta vinninga hlutu:

  • Þorsteinn Þorsteinsson    2,5 af 4 (tefldi eina með A-sveitinni sem hann vann)
  • Gísli Hólmar Jóhannesson  2,0 af 2
  • Baldur Kristinsson        2,0 af 5 

Sjá stöðu í fyrstu deild hér

  1. deild

C-sveitin situr í 6. sæti að loknum fyrri hlutanum með 9 vinninga og 1 stig sem kom í 4. umferð gegn Vinaskákfélaginu. Hinar viðureignirnar töpuðust allar 4-2, flestar gegn sveitum í efri hluta deildarinnar.

Það er stutt í fallsætið og líka í næstu sveit fyrir ofan. Hrókar alls fagnaðar, C- sveit Hugins, Skákfélag Selfoss og C-sveit TR eru öll í harðri fallbaráttu. Í seinni hlutanum verður mikið um innbyrðis viðureignir liða í fallbaráttunni svo engin leið er að spá um hver niðurstaðan verður. Þetta er nokkur breyting fyrir C-sveitina frá síðustu keppni þegar hún var í toppbaráttunni allan tímann. Það sem veldur þessari breytingu er að uppstilling sveitarinnar er að meðaltali ekki eins sterk og síðast þótt stöðugleikinn hafi verið meiri núna, önnur deildin er sterkari og eins var gæfan okkur ekki eins hliðholl að þessu sinni. Sá sem náði í flesta vinninga fyrir sveitina var Húsvíkingurinn Smári Sigurðsson með 3v af 4. Hann tefldi af miklu öryggi.

Stöðuna í annarri deild má nálgast hér.

  1. deild.

D-sveitin er í svipaðri stöðu í þriðju deild og C-sveitin í 2. seild, rétt fyrir ofan fallsætin með 10,5 vinninga og 3 stig og er í 11. sæti af 14 sveitum. Mótið byrjaði vel hjá sveitinn þrátt fyrir 4-2 tap gegn sterkri sveit Skákgengisins í fyrstu umferð, því á eftir fylgdi samsvarandi sigur gegn TV A-sveit og jafntefli við B-sveit Fjölnis en þá viðureign hefðum við hæglega getað unnist. Staðan var því nokkuð góð fyrir viðureignina við Sauðárkrók á sunnudeginum. Sú viðureign tapaðist 4,5 – 1,5. Það sýndi sig að færslan á Óskari Víkingi upp í C-sveitina og frí hjá Erni Stefánssyni og Óskari Maggasyni var meira en sveitin þoldi, þótt stigamunur á liðum væri lítill og tapið því heldur stórt. Skorið hjá liðsmönnum sveitarinnar var nokkuð jafnt í fyrri hlutanum.

Sjá stöðu í þriðju deild hér.

 

  1. deild

Huginn tefldi fram tveimur liðum í 4. deildinni; E-liði og svo unglingaliði. Gengi E-sveitarinnar var eftir atvikum og í samræmi við andstæðingana og uppstillingu hverju sinni. Niðurstaðan var tvö töp, einn sigur og eitt jafntefli. Sigurður Daníelsson, Sigurbjörn Ásmundsson og Hjörtur Ingvi Jóhannsson fengu flesta vinninga eða tvo hver í mismörgum skákum þó. Sigurður tefldi þrjár skákir, Sigurbjörn fjórar og Hjörtur Yngvi tvær og vann báðar. Þátttaka unglingasveitarinnar markaðist dálítið af fjarveru lykilmanna. Því var ákveðið að gefa öllum sem vildu tefla tækifæri og vera ekki mikið að spá í árangurinn. Í einhverjum viðureignum hefði því verið hægt að stilla sterkar upp en var gert. Það má vera að þessi stefna haft einhver áhrif á skorið því sumir af sterkari liðsmönnum sveitarinnar voru að tefla undir getu og aðeins Óttar Örn Bergmann Sigfússon náði góðu skori eða 3 vinningum í fjórum skákum.

Stöðuna í 4. deild má finna hér

Höfundar pistils: Pálmi R. Pétursson, formaður Hugins, Jón Þorvaldsson, liðsstjóri A-liðs,  Kristján Eðvarðsson, liðsstjóri B-liðs. Vigfús Ó. Vigfússon, liðsstjóri C-Liðs, D-liðs, E-liðs og unglingasveitar.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 10
  • Sl. sólarhring: 30
  • Sl. viku: 283
  • Frá upphafi: 8764892

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 155
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband