Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Spil og leikir

Haustmót SA hefst 17. september

Í ár verður Haustmót Skákfélags Akureyrar með nýju sniði. Í fyrri hluta mótsins verða tefldar atskákir, en kappskákir í síðari hlutanum. 

Fyrri hluti, umhugsunartími 20 mín + 10 sek. á leik:

  • Sunnudaginn       17. september kl. 13.00,         1-4. umferð.  
  • Fimmtudaginn     21. september kl. 18.00,         5-7. umferð.

Seinni hluti, umhugsunartími 60 mín + 30 sek. á leik:

  • Fimmtudaginn     28. september kl. 18.00          1. umferð.
  • Sunnudaginn         1. október kl. 13.00          2. umferð.
  • Sunnudaginn         8. október kl. 13.00          3. umferð.
  • Fimmtudaginn     12. október kl. 18.00            4. umferð.
  • Sunnudaginn       15. október kl. 13.00           5. umferð.

Röðun verður eftir svissneska kerfinu, ef fjöldi þáttakenda leyfir.

Mótshaldari áskilur sér rétt til að gera lítilsháttar breytingar á fjölda skáka þegar fjöldi þáttakenda liggur fyrir.

Leyfilegt er að sömu keppendur tefli saman BÆÐI í fyrri- og seinni hluta. 

Vinningar verða reiknaðir sem hér segir:

  • Í fyrri hluta, ½ vinningur fyrir jafntefli og 1 fyrir sigur.
  • Í seinni hluta, 1 vinningur fyrir jafntefli og 2 fyrir sigur.

Sá sigrar sem fær flesta vinninga skv. þessu og hlýtur hann sæmdarheitið „Meistari Skákfélags Akureyrar 2017

Núverandi meistari er Jón Kristinn Þorgeirsson. 

Þátttökugjald er kr. 3000 fyrir félagsmenn SA, en kr. 3500 fyrir aðra.

Unglingar f. 1996 og síðar greiða kr. 1500, en þeir sem greiða æfingajald fyrir haustmisseri greiða ekkert aukalega fyrir þátttöku í haustmótinu. 

Mótið reiknast til alþjóðlegra og íslenskra skákstiga. 

Skráning með tölvupósti á netfang formanns, askell@simnet.is eða með skilaboðum á Facebook-síðu félagsins. Tekið verður við skráningum á skákstað til kl. 12:50 þann 17. september


Þrír vinningar í hús í dag - lokaumferðin á morgun

Þrír vinningar af sex mögulegum komu í hús í dag á EM ungmenna. Bjartur Þórisson (u8), Vignir Vatnar Stefánsson (u14) og Símon Þórhallsson (u18) unnu sínar skákir en aðrar skákir töpuðust. Fjórða umferðina í röð sem íslensku keppendurnir fá 50% vinningshlutfall eða meira. Vignir Vatnar hefur 5,5 vinninga og er aðeins vinningi á eftir efstu mönnum, Jón Kristinn Þorgeirsson (u18) og Batel Goitom Haile (u10) hafa 4,5 vinninga og Bjartur, Gunnar Erik Guðmundsson (u10) og Símon hafa 3 vinninga. 

Vignir Vatnar verður í beinni á morgun en umferðin hefst fyrr en venjulega eða kl. 10. 

Úrslit dagsins

Clipboard01


EM Ungmenna í Rúmeníu - Pistill #6

20170912_145206Sjöunda umferð á Evrópumeistaramóti ungmenna lauk í gær hér á Mamaia í Rúmeníu. Þriðju umferðina í röð var íslenski hópurin yfir 50% og munar þar mestu um Jón Kristinn og Batel sem bæði eru með 3,5 vinning úr síðustu 4 skákum. Vignir Vatnar hefði í raun einnig átt að vera í þeim hópi en komum nánar að því síðar.

Litlu munaði að við fengjum sýningarborð í dag en segja má að óheppnin hafi elt okkur, við eigum keependur á tólfta, þrettánda og fjórtánda borði en 10 efstu í hverjum flokki eru á sýningarborðum en þó aðeins 5 efstu í þeim yngstu og því Batel fjær því að vera á sýningarborði en hinir.

 

 

Yfirferð 7. umferðar:

U8

20170912_144533

Bjartur mætti rússneskum skákmanni, Lev Abdeev og upp kom ítalskur leikur eins og við var að búast. Bjartur átti ótímabæra framrás á miðborðinu snemma sem hefði mátt undirbúa betur. Þessi framrás kostaði peðstap og í kjölfarið laskaðist kóngsstaða Bjarts. Bjartur náði þó að mynda sér mótspil og var kominn með virkar hrók og andstæðingur hans var ekki að nýta sér veikleikana á kóngsvæng.

Bjartur_7th

Hér kom krítíski punkturinn í skákinni. Andstæðingur Bjarts lék hér hinum skelfilega Hf8-a8. Þrátt fyrir að hafa tekið sér tíma hér var einhvern veginn blindspot hjá Bjarti að hann gæti bara tekið á f7 og mátað í næsta leik á g7. Þess í stað lék hann Rd2 en sá strax og hann hafði leikið að hann hefði getað mátað. Þar sem Rd2 er oní geri ég ráð fyrir að bjartur hafi ætlað að leika Re3 en viljað ginna andstæðing sinn í að taka á d2 eftir að hafa snert riddarann. Rússinn sá líka mátið núna og lék ...d5 og náði að hrifsa sigurinn til sín.

Grátleg mistök en eins og bent hefur verið á þá fer þetta í reynslubankann góða. Þessi mót eru dýrmæt keppnisreynsla fyrir þessa krakka og verður að líta á sem það og jafnframt að vinna vinnu eftir mótið í að laga það sem hægt er og halda áfram að fá bætingu hjá krökkunum.

 

U10

20170912_144618

Gunnar mætti Rúmena sem við höfðum greint sem ákveðinn system skákmann (enn á ný!) og bjuggust við 1.e4 c5 2.c4 og Botvinnik setupi. Sá rúmenski hafði teflt þetta þrisvar nýlega og því eyddum við mestum tíma í það og vorum sáttir með okkar setup á móti því. Hinsvegar kom sá rúmenski okkur á óvart og fór í London systemið. Við höfðum kíkt á það aðeins fyrr í mótinu þannig að Gunnar vissi nokkurn veginn hvað ætti að gera en fór snemma útaf planinu sem við höfðum lagt upp með þá.

Sá rúmenski fékk vænlega sókn og hefði mögulega getað fórnað riddara á g6 á einum tímapunkti fyrir myljandi sókn. Hinsvegar var kominn tími á að það dytti eitthvað fyrir Gunnar sem átti svo sannarlega inni vinninga og hann hrakti sóknartilburði Rúmenans og nýtti sína séns til fulls og mátaði hvíta kónginn. Flottur sigur hjá Gunnari sem átti hann svo sannarlega inni!

 

U10 stelpur

20170912_145152

Batel....Batel!!! Ég er eiginlega orðlaus yfir árangri Batelar það sem af er móti. Hún er að bæta um 100 stigum við sín elóstig á mótinu og hefur unnið hvern stórsigurinn á fætur öðrum. Hún er að fá reynda keppendur frá Rússlandi, Frakklandi og í dag Tyrklandi og hræðist ekki neinn.

Í skákinni í gær beitti hún Najdorfnum en lenti í smá vandræðum snemma þar sem hún er oft aðeins of föst í því að leika ...e5 í öllum stöðum. Andstæðingur hennar nýtti sér ekki sína sénsa og Batel var kominn með biskupparið og fína stöðu þegar hún leikur af sér peði. Skákin fór í endatafl en á ótrúlegan hátt náði Batel að innbyrða vinninginn. Því miður er skákin ekki inni á vef mótsins en ég mun bæta henni við .pgn skránna sem fylgir færslunni ef að verður lagað. Því miður er innsláttur skáka mjög ábótavant í þessu móti sem er miður því það er einn mikilvægasti þáttur mótsins að mínu mati!

Eins og ég benti á á Facebook í gær þá er rússneska stelpan sem Batel rústaði í fyrstu umferð búin að vinna allar sex skákirnar síðan sem sýnir hvað hún hefur verið að fá sterka andstæðinga!

Skemmtilegt verður að fylgjast með Batel á næstu árum en hún hefur mjög athyglisverða hæfileika sem þarf að rækta.

 

U14

20170912_144735

Vignir valdi liklega skynsamlega í byrjuninni þegar hann kom andstæðingi sínum á óvart með 3.b3 gegn ...e6 Sikileyjarvörn. Vignir hafði meira skynbragð fyrir stöðunni og splundraði gjörsamlega peðastöðu andstæðings síns og var að taka hann í nefið í pósanum þegar honum yfirsást algjör killer leikur í stöðunni. Ekki var um fljótfærni að ræða þar sem Vigni bara yfirsást leikurinn. Líklegast augnablik til að draga lærdóm af og mögulega má eitthvað bæta útreiknings-algórithmann en auðvitað lenda allir í svona augnablikum.

Í stað liðsvinnings lenti Vignir eiginlega ósanngjarnt í vörn og satt best að segja sýndi hann mikinn karakter að bjarga skákinni í jafntefli. Svekkjandi úrslit þó þar sem vinningurinn var í seilingarfjarlægð og sýningarborð en þess í stað verður að bíða eftir síðasta séns á sýningarborðunum.

 

U18

20170912_144920

Símon (vinstra megin á myndinni að gefa sig á tal við andstæðing Jokkó) lenti í sterkum andstæðingi þrátt fyrir tap í umferðinni áður. Símon beitti Katalan en andstæðingur hans virtist hafa allt á hreinu og beitti lokuðum Katalan og drap ekki á e4 eftir klassíska framrás hvíts þar. Eftir e5 framrás hvíts virtist svartur hafa allt á hreinu um hvernig sæki ætti fram á drottningarvæng á meðan að sókn Símons á kóngsvæng átti litla von. Góð skák hjá svörtum og að mörgu leiti lærdómsrík. Skákin er ekki í .pgn skrá á heimasíðu mótsins.

Jokkó tefldi lengstu skák dagsins í hópnum. Hann beitti Torre árás með 1.d4 2.Rf3 og 3.Bg5. Upp kom þungt miðtafl með tilfæringum og sannkölluðu dýnamísku jafnvægi. Jokkó átti séns á betra tafli en tók ekki sénsinn sinn og þess í stað var komið endatafl, líklega fræðilega örlítið betra á svart en jafntefli nánast öruggt. Jokkó bauð í raun jafntefli en andstæðingur hans hafnaði því og endaði á að sprengja sig.

Jokko7thrnd

Enn eina ferðina eru mótshaldarar ekki að standa sig með að slá inn skákir. Aðeins 200 skákir eru í .pgn skrá 7. umferðar en ætla má að í heildina eigi að vera um 500 skákir allavega.

Við fórum yfir skákina í gær og krítíska staðan er ca. hér að ofan. Ravi Hari með svart lék hér ...f4 og eftir gxf4-g4 þá lék Jokkó f5+ og svo e6 og tók frumkvæðið. Ég man ekki nákvæmlega stöðu hrókanna og kónganna en peðastaðan er rétt. Líklega var svarti hrókurinn ekki á 8. reitarröð (mögulega b3) og þurfti að eyða leik í að bakka sem mér finnst líklegast. Allavega tók Jokkó frumkvæðið þarna og í framhaldinu kom svo c4 og tvöfaldir frelsingjar eftir d5. Flottur baráttusigur í langri skák sem gefur Jokkó fína möguleika á góðu sæti.

Sigur í umferð dagsins myndi pottþétt færa Jokkó upp á sýningarborð. Rétt er einnig að óska honum Jóni Kristni til hamingju með FIDE-meistaratitilinn en sigurinn í gær færði hann yfir 2300 stigin þar sem hann á klárlega heima.

Símon fær skottu í umferð dagsins sem eru vonbrigði en nú er bara að klára síðustu umferðina með stæl hjá Símoni!

 

Rd7_results

 

Annars er lífið að róast heldur mikið hér á Mamaia. Greinilegt er að mótið er svona síðasti snúningur á þessu ferðamannatímabili og búið er að loka í tívolíinu og billiardbarinn sem við höfum farið á mikið á kvöldin virðist vera að loka en þeir voru að taka saman stóla fyrir utan í gær.

Ég tók einn snúning á "hinni" körfuboltavélinni í gær og jú ég bætti mitt persónulega met en verð að játa mig sigraðan og Símon er körfuboltameistarinn í þessari ferð. Ég fæ víst ekki annan séns þar sem billiardbarinn er að loka :-(

Látum þetta gott heita að sinni...

 

bestu kveðjur,

Ingvar Þór Jóhannesson


Íslandsmót ungmenna (u8-u16 fer fram) 7. og 8. október

Íslandsmót ungmenna fer fram helgina 7.-8. október í Rimaskóla. Teflt er í fimm flokkum. Krýndir verða 10 Íslandsmeistarar - efsti strákur og efsta stelpa í öllum flokkunum fimm. Glæsilegar vinningar í boði.

Allir flokkar hefjast 12:00 á laugardeginum. Tekið verður við þátttökugjöldum og staðfestingu á mætingu frá 11:20 – 11:50. Þeir keppendur sem mæta eftir 11:50 geta misst sæti sitt í mótinu.

Skráning er á Skák.is (guli kassinn efst) til og með 5. október. Upplýsingar um þegar skráða keppendur má finna hér.

Þátttökugjald er krónur 1.500 og greiðist með reiðufé við staðfestingu á mætingu. Systkini borga aldrei meira en 2.500 kr. samtals. Hægt er jafnframt að greiða í gegnum netbanka fyrir mót inn á reikning 101-26-12763, kt. 58026-5409. Vinsamlegast látið nafn keppenda koma fram í skýringu og sendið kvittun á skaksamband@skaksamband.is.

Stefnt er að því að tefla í sérflokkum fyrir stráka og stelpur en mögulega þarf að sameina einstaka flokka verði þátttaka ekki nægjanleg. Sigurvegari í flokki 9-10 ára tryggir sér sæti á Norðurlandamótinu í skák sem fer fram í febrúar 2018 í Finnlandi. Sigurvegarar í elstu flokkunum þremur tryggja sér sæti á Unglingameistaramóti Íslands. 

Verði menn jafnir í efstu sætum er teflt um Íslandsmeistaratitla en stig reiknuð um önnur sæti. Í flokki átta ára og yngri verða þó reiknuð stig um öll sæti.

8 ára og yngri (f. 2009 og síðar)

Umhugsunartími: 8-2 mínútur.

Fjöldi umferða: Allir keppendur tefla fimm umferðir á laugardeginum. Eftir fimm umferðir verður niðurskurður þannig að keppendur með þrjá vinninga eða fleiri komast áfram og mæta líka á sunnudegi. Umferðafjöldi á sunnudegi verður tvær til fjórar umferðir eftir heildarfjölda keppenda.

Dagskrá: Mótið hefst 12:00 á laugardeginum og 12:00 á sunnudeginum fyrir þá sem komast áfram. 

9-10 ára (f. 2007 og 2008)

Umhugsunartími: 8 + 2 mínútur

Fjöldi umferða: Allir keppendur tefla fimm umferðir. Eftir fimm umferðir verður niðurskurður þannig að keppendur með þrjá vinninga eða fleiri komast áfram og mæta líka á sunnudegi. Umferðafjöldi á sunnudegi verður tvær til fjórar umferðir eftir heildarfjölda keppenda.

Dagskrá: Mótið hefst 12:00 á laugardeginum og 12:00 á sunnudeginum fyrir þá sem komast áfram.

11–12 ára (f. 2005 og 2006)

Umhugsunartími: 15 mínútur með 5 sekúndna viðbótartíma fyrir hvern leik.

Fjöldi umferða: 9

Dagskrá: Mótið hefst 12:00 á laugardeginum og verða þá tefldar 5 umferðir. Mótinu verður framhaldið 12:00 á sunnudeginum og verða þá tefldar fjórar umferðir.

13–14 ára (f. 2003 og 2004)

Umhugsunartími: 15 mínútur með 5 sekúndna viðbótartíma fyrir hvern leik.

Fjöldi umferða: 9

Dagskrá: Mótið hefst 12:00 á laugardeginum og verða þá tefldar 5 umferðir. Mótinu verður framhaldið 12:00 á sunnudeginum og verða þá tefldar fjórar umferðir.

15–16 ára (f. 2001 og 2002)

Umhugsunartími: 15 mínútur með 5 sekúndna viðbótartíma fyrir hvern leik.

Fjöldi umferða: 9                                                                           

Dagskrá: Mótið hefst 12:00 á laugardeginum og verða þá tefldar 5 umferðir. Mótinu verður framhaldið 12:00 á sunnudeginum og verða þá tefldar fjórar umferðir.                        


Ivanchuk og Fedoseev hófu fjórðu umferðina með sigri

406438.fecfbd40.630x354o.d888af434cdd

Fjórða umferð (16 manna úrslit) Heimsbikarmótsins í skák hófst í gær í Tbilisi í Georgíu. Sex skákum lauk með jafntefli. Nakamura-baninn Vladimir Fedoseev (2731) vann Maxim Rodshtein (2695) glæsilega og svo vann Vassily Ivanchuk (2727) Anish Giri (2777) í mikilli baráttuskák. 

phppSYAB6

Seinni skák fjórðu umferðar hefst í dag kl. 11. 

Úrslit gærdagsins

Clipboard02

Ítarlega frásögn og öll úrslit má finna á Chess.com.

Myndir (Maria Emelianova - Chess.com)


Enn einn góður dagur á EM ungmenna

Eftir frídaginn hefur gengið afar vel hjá hjá íslensku ungmennunum sem tefla á EM ungmenna í Mamia í Rúmeníu. Í sjöundu umferðinni í dag komu 3,5 vinningar í hús í sex skákum. Þriðja umferðin í röð þar sem meira en 50% vinningshlutfall næst. Gunnar Erik Guðmundsson (u10), Jón Kristinn Þorgeirsson (u18) og Batel Goitom Haile (u10) unnu sínar skákir. Vignir Vatnar Stefánsson (u14) gerði jafntefli en aðrar skákir töpuðust.

Vignir, Jón Kristinn og Batel hafa 4,5 vinninga, Gunnar Erik hefur 3 vinninga og Bjartur Þórisson (u8) og Símon Þórhallsson (u18) hafa 2 vinninga. 

Árangur Jóns Kristins og Batelar eru mjög eftirtektarverður en bæði hafa þau teflt við stigahærri keppendur í sex skákum af sjö. Jón Kristinn vann í dag enska FIDE-meistarann Ravi Haria (2398) og hefur hlotið 3,5 vinninga í síðustu fjórum skákum.

Áttunda og næstsíðasta umferð fer fram á morgun og hefst kl. 12.

Úrslit dagsins

Clipboard01


EM Ungmenna í Rúmeníu - Pistill #5

20170909_115549Nú styttist heldur betur í annan endann á EM ungmenna og nú ríður á að eiga góðan endasprett til að tryggja sér eins gott sæti og hægt er.  Sjötta umferðin gekk nokkuð vel og aðra umferðina í röð var íslenski hópurinn yfir 50% vinningshlutfalli.

Tveir keppendur eru mjög nálægt sýningarborðum en Vignir er á 11. borði í dag í sjöundu umferðinni sem er gríðarlega svekkjandi að fá ekki að fylgjast með honum. Jón Kristinn er á 14. borði í U18 þannig að við eigum möguleika á að hafa tvo Íslendinga í beinni útsendingu á morgun ef þeir leggja sína andstæðinga að velli. Báðir stýra þeir hvítu mönnunum þannig að ég er vongóður um að fá tvær beinar útsendingar á morgun!

Yfirferð yfir 6. umferðina:

U8

20170911_144533

Fyrsti sigurinn hjá Bjarti! Tefld var skandinavísk vörn eins og lagt var upp með til að breyta aðeins til og koma á óvart. Mikilvægast að komast í miðtöflin oft í þessum flokkum. Ekki þurfti að hafa miklar áhyggjur af því þar sem Bjartur reyndist mun sterkari en sinn andstæðingur. Drottningarskák snemma á e6 varð til þess að hvítur lék kóngi sínum til d2 þar sem hann treysti sér ekki í að bera drottningu fyrir. Í kjölfarið féll skipamunur en það varð heill hrókur og svo stráféll hvíta liðið. Auðveldur sigur fyrir Bjart og gott og mikilvægt fyrir sjálfstraustið!

 

U10

20170911_144253

Gunnar Erik mætti Finna sem erfitt var að lesa í. Hann var mikið í allskonar setup-um og höfðum við skoðað það sem við fundum í baseum. Hann kom hinsvegar á óvart með 1.d4 Rf6 2.Rc3. Höfðum skoðað gott system gegn London systemi og fleiri "kerfisbyrjunum".

Skákin transposaði yfir í franska vörn og þar sem Gunnar teflir hana ekki þekkti hann e.t.v. ekki stöðutýpuna nógu vel. Gunnar fann samt trausta leiki og tefldi byrjunina skynsamlega og var við það að losa um sig og fá fínt tafl en lék þá passífum Rf8 leik þegar ...c5 framrás hefði líklega farið langleiðina í að jafna taflið. Sá finnski tefldi býsna vel eftir þetta og þrátt fyrir að farið væri í tvöfalt hróksendatafl þá yfirtefldi (í stað yfirspilaði, nýyrði Vignis Vatnars!) sá finnski Gunnar í endataflinu og nýtti sér smávægileg mistök og vann laglega. 

Greinilega sterkur andstæðingur og hefur Gunnar verið nokkuð óheppinn með þá og finnst manni hann eiga meira inni í mótinu. Hann er ekki að fá neinar gjafir en t.a.m. sá hann einn fyrrum andstæðing sinn fá gefins drottningu í einni skákinni! Gunnar er klárlega að tefla betur en vinningar gefa til kynna og ég býst við honum sterkum á lokasprettinum!

 

U10 stelpur

20170911_144754

Batel náði enn góðum úrslitum þegar hún gerði jafntefli við rússneska stelpu (þriðji Rússinn sem hún mætir!) og enn og aftur stigahærri andstæðingur. Ég samþykkti setupið sem Batel tefldi en við vorum hinsvegar búin að tala um að alls ekki að vera að leika leikjum á borð við c5 í svona stöðum. Hef verið ánægður með miðtöflin og taktíkina oft en byrjanir þarf að bæta og eins er ekki alltaf allt sem sýjast nógu vel inn sem við undirbúum fyrir skákir. Það hefur þó verið nóg til þessa og greinilegt að ýmislegt býr í Batel. Hún gæti náð góðu sæti með sterkum endaspretti

 

U14

20170909_144929

Vignir fékk loks tiltölulega auðveldan vinning. Hann fékk andstæðing sem var taplaus og okkur til hryllings nokkrar skákir í uppskiptaafbrigðinu í Frakkanum sem við vildum alls ekki fá á þessu stigi mótsins. Vignir treysti sér því best að fara aftur í Skandinavann og reyndist það gæfuspor. Vignir vann frekar einfaldan sigur með algjöru "simple chess". Makedóninn tapaði tveimur peðum skömmu eftir drotningarkaup í miðtaflinu og eftirleikurinn auðveldur. 

Vignir eyðgi von um að komast á sýningarborð en eins og áður sagði er hann á 11. borði í dag og munaði því aðeins einu borði.

 

U18

20170911_14495020170911_145015

Símon tapaði sinni skák en hann hafði svart gegn tæplega 2300 stiga Ungverja. Símon lék ...e5 í Sikileyjarvörn en sá svo eftir því þar sem framhaldið tefldist eiginlega eins og broddgöltur og peðið betur sett á e6 í þvi tilviki. Hvítur hafði ávallt frumkvæðið en Símon barðist vel. Miklar flækjur voru í lokin og líklega hefði Símon getað haldið taflinu gangandi og barist en tapaði þess í stað liði og skákinni.

Jón Kristinn hefur farið mikinn síðustu umferðir og er nú með 2,5 af síðustu 3. Skákin í 6. umferð var ítalskur leikur og Jokkó með svart. Enn og aftur klikka mótshaldarar og hvorug skákin er í .pgn skrá á heimasíðu mótsins.

Rnd6_Jokki

Skákina vantar en þetta er ca. krítíska staðan eftir minni. Í stað ...Rg5 hér lék Jón Kristinn ...fxe5! sem reyndist vera sterkasti leikurinn. Hvítur tók manninn og eftir dráp á f1 komu þvingandi leikir, fxe4 og Rxd4 og hvítur skilaði í kjölfarið manninum til baka og tapaði stuttu síðar.

Eins og áður sagði er Jón í dag á 14. borði og eygir því von um að komast á sýningarborð á morgun með sigri.

Annars mundi ég efti að ég kláraði pistilinn að ég hafði tekið mynd af skorblaðinu hjá Jokkó þannig að hérna er skákin fyrir áhugasama ;-)

20170911_224350 

Úrslit 6. umferðar:

Rnd6_results

 

Hér á Mamaia er greinilega aðeins að koma "off-season". Margar búðir sem við fórum í fyrstu vikuna hafa einfaldlega lokað alveg og þegar við fórum í tívolíið í gær lokaði snemma í leiktækjasalnum og margt virtist hreinlega vera alveg lokað. Uppáhaldssjoppan okkar alveg við hótelið var lokuð í gærkvöldi en var þó opin í dag þannig að sjáum hvað setur. Mamaia er að mestu svona "summer resort" fyrir Rúmena á sumrin en hér er lítið í gangi á veturna.

Í gær fórum við í verslunarmiðstöð í Constanta sem er bærinn hérna alveg við Mamaia og fengum gott að borða á "Stjörnutorginu" þar. Mikið gott í boði, ég og Guðmundur fengum okkur spicy kínverskan mat meðan yngri kynslóðin fékk sér McDonalds og KFC. Einnig voru þarna traustir staðir eins og Subway og Pizza Hut og all fleiri möguleikar á mat en hægt er að fá inni á Mamaia.

Það kemur í ljós í kvöld hvort Luna Park (tívolíið) sé alveg lokað en allavega er billiardbarinn sem við höfum slappað mikið af á opinn ennþá að því að okkur sýnist.

Ýmislegt hefur verið gert til dundurs og nægir að nefna:

Þythokkí - Jón Kristinn er algjör vel í þessu og hefur held ég aðeins tapað einu sinni fyrir Vigni en Vignir þó tapað flestum leikjum á móti hinum ;-)

 

Píla - höfum tekið nokkra criket leiki í pílunni og Jón Kristinn virðist vera maðurinn í pílunni líka. Símon er þó sleipari en myndskeiðið gefur til kynna ;-)

Ég ætlaði svo að státa mig af því að hafa sett met í einni körfuboltavélinni hérna

20170910_214150

...sé reyndar núna að ég hef smellt af á vitlausum tíma en ég setti með í þessari vél, 151 stig sem ég svo bætti í 153 stig. Þetta væri allt voða flott nema að Símon slátraði svo þessu meti og ég þarf því að herða mig. Mér til varnar gerði hann það í vélinni við hliðina sem er með mun mýkri boltum sem fyrirgefa og detta frekar ofaní. En ég þarf allavega að gera eitthvað til að standa við stóru orðin og bæta þá metið á þeirri vél líka....annars er Símon vélin í þessum leik sem ég sem fyrrverandi körfuboltaleikmaður mun eiga erfitt með að sætta mig við ;-)

 

Svo var lofað update á maura ástandinu á 11. hæð. Á ELLEFTU hæð er komin einhver mauranýlenda í herberginu hjá Símoni og Jokkó ótrúlegt en satt!

Fyrst við erum byrjaðir að röfla þá er nettengingin á hótelinu ennþá drasl...hún er bara nothæf eftir svona 23:15 á kvöldin. Þessi pistill eins og aðrir er skrifaður á öðru hóteli, Hotel Malibu sem er beint á móti skákstaðnum. Þráðlausa netið þar er skárra en dettur þó nokkuð reglulega út. Hvað er málið með A-Evrópu og mannsæmandi internettenginu á árinu 2017?? Mun fjárfesta í svona usb tæki sem tekur símkort næst en Stefán Már pabbi Vignis er með slíkt og hefur notað í mörgum löndum. Aðeins þarf að kaupa ódýr símkort í viðkomandi landi og nettengin er græjuð og ekkert ves!

En látum þetta gott heita að sinni. Myndband af maurunum er að hlaðast upp og bæti því kannski við hér (komið)....annars góður á heitasta deginum hér í Mamaia, 32 stiga hiti takk fyrir!

mbk,
Ingvar


Caruana fallinn úr leik - 16 manna úrslit hefjast í dag.

phptJcwzi

Stórstjörnunar halda áfram að falla úr leik á Heimsbikarmótinu í skák. Í gær féll Fabiano Caruana (2799) eftir að hafa tapað fyrir Evgenyi Najer (2694) í atskákinni. Meðal annarra fórnarlamba gærdagsins voru Li Chao (2745) sem tapaði fyrir Richard Rapport (2675) og Nepo (2741) sem laut í dúk fyrir heimamanninum geðþekka Baadur Jobava (2702). 20 mínútum síðar hafði Nepo tékkað sig út af hótelinu. 

phpgtvmB9

Aðeins fjórir skákmenn af topp 10 eru eftir þegar komið er að 16 manna úrslitum. Það eru Aronian, MVL, Grischuk og Wesley So. 

phpYiR73U

Zurab Azmaiparashili gaf frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann fjallar um stóra stuttbuxnamálið. Yfirlýsinguna má finna á heimasíðu mótsins.

Fjórða umferð hefst í dag kl. 16. Pörunin er sem hér segir (hægt að stækka með því að tvíklikka) 

Clipboard01

Ítarlega frásögn og öll úrslit má finna á Chess.com.

Taflmennskan í dag hefst kl. 11. 

Myndir (Maria Emelianova - Chess.com)


Sigurður Daði sigraði stórmeistarann

2017-09-11 20.32.46

FIDE-meistarinn Sigurður Daði Sigfússon (2228) er efstur á Meistaramóti Hugins með 3½ vinning eftir fjórðu umferð mótsins í gærkvöldi. Hann vann stórmeistarann Hjörvar Stein Grétarsson (2567) í lengstu skák umferðinnar eftir að sá síðarnefndi hafði leikið klaufalega af sér manni.

Hjörvar er í 2.-6. sæti með 3 vinninga ásamt Vigni Vatnari Stefánssyni (2312), Björgvini Víglundssyni(2137), Lofti Baldvinssyni (1963) og Birni Þorfinnssyni.

Vignir sat yfir í dag enda situr hann þessa dagana að tafli á EM ungmenna í Rúmeníu. Björn vann Hörð Garðarsson (1710) fremur örugglega. Björgvin og Loftur gerðu jafntefli – rétt eins og þeir gerðu degi áður á Haustmóti TR í Faxafeninu.

Önnur óvænt úrslit urðu í kvöld þegar Tómas Ponzi (1480) vann Skagamanninn Magnús Magnússon(2005). Björgvin Kristbergsson (1054) var þó kátastur allra eftir að hafa náð að leggja Stefán Orra Davíðsson (1407) að velli.

Fimmta umferð fer fram nk. mánudag. Þá mætast meðal annars:

  • Sigurður Daði (3½) – Vignir Vatnar (3)
  • Loftur (3) – Hjörvar (3)
  • Björn (3) – Björgvin (3)

Sjá nánar á heimasíðu Hugins.

Heimasíða Hugins


EM ungmenna: Vel gekk í sjöttu umferð

Það gekk vel hjá íslensku skákmönnunum í sjöttu umferð EM ungmenna sem fram fór í dag. Bjartur Þórisson (u8), Vignir Vatnar Stefánsson (u14) og Jón Kristinn Þorgeirsson (u18) unnu í dag. Batel Goitom Haile (u10) gerði jafntefli. Aðrar skákir töpuðust. Jón Kristinn (2232) vann franska FIDE-meistarann Guillaume Philippe (2368).

Vignir hefur 4 vinninga, Jón Kristinn og Batel hafa 3,5 vinninga og Bjartur, Gunnar Erik og Símon hafa 2 vinninga.

Sjöunda umferð fer fram á morgun og hefst kl. 12. 

Úrslit dagsins

Clipboard01


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 28
  • Sl. viku: 168
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 104
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband