Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Spil og leikir

Glæsilegur sigur Rússlands á EM í Laugardalshöll -- Ísland efst Norðurlandaþjóða

Rússar unnu glæsilegan sigur á Evrópumóti landsliða í skák, sem lauk í Laugardalshöll í dag. Rússneska liðið tryggði sér sigur í opnum flokki með 2-2 jafntefli við Ungverja í síðustu umferðinni og kvennasveit þeirra lagði Þjóðverja. A-lið Íslands vann frábæran 4-0 sigur á Svíum, og varð efst Norðurlandaþjóða á mótinu. Gullaldarliðið gjörsigraði Skota með 3½ vinningi gegn ½. Íslenska kvennaliðið tapaði fyrir Slóvenum. Hinn 16 ára gamli Norðmaður Aryan Tari tryggði sér stórmeistaratitil á mótinu, og er nú fjórði yngsti stórmeistari heims.

Gullsveit Rússlands í opnum flokki er skipuð ofurstórmeisturunum Alexander Grischuk, Peter Svidler, Evgeny Tomashevsky, Dmitry Jakovenko og Ian Nepomniachtchi. Liðið vann sex viðureignir og gerði þrjú jafntefli, og lauk keppni með 15 stig af 18 mögulegum.

Armenar náðu silfurverðlaununum með góðum 3-1 sigri á Georgíu, og Ungverjar hrepptu bronsið.

Af öðrum úrslitum má nefna að Pólverjar unnu Norðmenn með minnsta mun. Heimsmeistarinn Carlsen vann sína skák og náði þar með 50 prósent vinningshlutfalli á mótinu. Carlsen tapaði 16 skákstigum á Evrópumótinu, en er samt ennþá langstigahæstur í heiminum. Stjarna norska liðsins á mótinu var hinn ungi Aryan Tari, sem er sonur íranskra innflytjenda og einn efnilegasti skákmaður heims.

aryan

Aryan Tari Mynd sjakkbloggen.no

 

-- GÓÐIR SIGRAR HJÁ ÍSLENSKU LIÐUNUM --

A-lið Íslands var í miklu stuði gegn Svíum, sem voru stigahærri á öllum borðum, og sigraði 4-0. Í sigurliði dagsins voru Hannes Hlífar Stefánsson, Hjörvar Steinn Grétarsson, Henrik Danielsen og Guðmundur Kjartansson, en Héðinn Steingrímsson hvíldi. Liðið hafnaði í 19. sæti með 9 stig af 18 mögulegum. Hjörvar Steinn náði bestum árangri íslensku landsliðsmannanna, fékk 5 vinninga af 8 og tapaði ekki skák. Árangur hans jafngildir 2670 skákstigum.

Gullaldarlið Íslands vann góðan sigur á Skotum og hafnaði í 32. sæti með 7 stig. Helgi Ólafsson, Jóhann Hjartarson og Margeir Pétursson unnu sínar skákir en Jón L. Árnason gerði jafntefli. Fimmti liðsmaður Gullaldarliðsins var Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslands. Friðrik stendur nú á áttræðu og var elsti keppandi mótsins.

 

-- ÖRUGGUR SIGUR RÚSSLANDS Í KVENNAFLOKKI -- GUÐLAUG STÓÐ SIG BEST ÍSLENSKU KVENNANNA --

Sigur Rússlands í kvennaflokki var mjög öruggur. Liðið vann 8 viðureignir og gerði aðeins eitt jafntefli. Sigursveit þeirra skipa Alexandra Kosteniuk, Kateryna Lagno, Valentina Gunina, Aleksandra Goryachkina og Anastasia Bodnaruk. Rússland hlaut 17 stig, Úkraína fékk 15 stig og Georgía 14.

Íslenska kvennaliðið fékk alls 6 stig á mótinu og lenti í 29. sæti. Guðlaug Þorsteinsdóttir fékk flesta vinninga íslensku kvennanna, 5½ af 9 mögulegum. Með árangri sínum náði Guðlaug áfanga að alþjóðlegum meistaratitli kvenna. Lenka Ptacnikova sem tefldi á 1. borði fyrir Ísland fékk 5 vinninga af 9. Aðrar liðskonur voru þær Elsa María Kristínardóttir, Hrund Hauksdóttir og Veronika Steinunn Magnúsdóttir.

 

-- STERKASTA SKÁKMÓT ÁRSINS Í HEIMINUM --

Evrópumót landsliða er sterkasta skákmót ársins í heiminum. Rétt tæplega 150 stórmeistarar tóku þátt í mótinu og er um að ræða mesta skákviðburð á Íslandi síðan 1972, þegar heimsmeistaraeinvígi Fischers og Spasskys var haldið í Laugardalshöll.

Skáksamband Íslands stóð að mótinu í samvinnu við Skáksamband Evrópu.

 

-- MYNDAGALLERÍ --

Myndir / Máni Hrafnsson

DSC_1475

DSC_1476

DSC_1477

1

3

4

5

6

7

 

-- LOKASTAÐA --

Opinn flokkur

 

 

 

-- LOKASTAÐA --

Kvennaflokkur


RÚSSAR ÁFRAM EFSTIR Í BÁÐUM FLOKKUM Á EM: RISASLAGUR Í LOKAUMFERÐINNI - STELA UNGVERJAR SIGRINUM?

Rússar hafa nú 14 stig í opnum flokki eftir að hafa gert jafntefli við Armena í 8. umferð í gær. Sigur í viðureigninni hefði dugað Rússum til að tryggja sér sigur í opnum flokki en eftir jafntefli á efsta og neðsta borðinu tapaði Alexander Grischuk (2750) fyrir Armenanum Gabriel Sargissian (2689) á 2. borði. Ian Nepomniachtchi (2705) kom Rússum til bjargar og vann öruggan sigur á Sergei Movsesian (2666). Úrslitin því 2-2 og eitt stig í hús hjá Rússum sem voru 3 stigum fyrir ofan næstu lið fyrir umferðina.

 ---

Athugið að lokaumferðin hefst kl. 11 í dag, sunnudag.

---

 

russland-armenia

 

Frakkar og Georgíumenn, sem voru í hópi næstu liða fyrir umferðina, gerðu innbyrðis jafntefli en Ungverjar gjörsigruðu stigahærra lið Asera 3,5 - 0,5 mjög óvænt og eru nú í 2. sæti með 12 stig eða tveim stigum minna en Rússar.

 

georgia-frakkland

azerbajan-ungverjaland

 

-- RISASLAGUR Í LOKAUMFERÐINNI --

Boðið verður upp á risaslag í lokaumferðinni sem hefst kl. 11 í dag í Laugardalshöll, en þá mættast einmitt Rússar (14 stig) og Ungverjar (12 stig) í hreinni úrslitaviðureign, því fari svo að Ungverjar hafi betur gegn Rússum, þá eru liðin jöfn með 14 stig hvort, en Ungverjar koma líklega til með að standa uppi sem sigurvegarar eftir stigaútreikning.

borda-russland-holland

 

 

 

 

 

 

- ÍSLENSKU LIÐIN -

Íslensku liðin tvö í opnum flokki mættust í 8. umferð í gær í hörkuspennandi uppgjöri kynslóða. Eins og þekkt er þá er annað liðið svonefnt Gullaldarlið, skipað reynslumiklum stórmeisturum á besta aldri og A-liðið er hið hefðbundna landslið, skipað okkar sterkustu mönnum.

Yngri mennirnir tóku eldri kynslóðina föstum tökum og höfðu sigur í viðureigninni með minnsta mun 2,5 – 1,5 en Héðinn Steingrímsson og Hjörvar Steinn Grétarsson unnu sínar skákir gegn Jóhanni Hjartarssyni og Jóni Lofti Árnasyni en Margeir Pétursson hafði sitthvað fram að færa gegn hinum unga Guðmundi Kjartanssyni og lagði hann að velli nokkuð örugglega.

 

island-island

 

Íslenska liðið mætir Svíum í lokaumferðinni á morgun og Gullaldarliðið mætir Skotum.

borda_island-svitjod

bodra_skotland-island

 

-- ÚRSLIT 8. UMFERÐAR --

urslit

 

-- KVENNAFLOKKUR --

Rússar eru svo gott sem búnir að tryggja sér sigur í kvennaflokki, en liðið lagði Pólverja að velli með minnsta mun í 8. umferð og er nú með 15 stig eða 2 stigum ofar næstu liðum, Úkraínu og Georgíu. Öll þessi lið hafa teflt innbyrðis og fá Rússar því talsvert stigalægra lið Þjóðverja í lokauferðinni þar sem þeim dugar jafntefli til þess að tryggja sér titilinn.

 

kv_russland-polland

 

- ÍSLAND -

Kvennasveitin hafði betur gegn Finnum í 8. umferð, en þær Guðlaug Þorsteinsdóttir og Veronika Steinunn Magnúsdóttir unnu sínar skákir og Lenka Ptacnikova gerði jafntefli á 1. borði. Niðurstaðan því 2,5 gegn 1,5 vinningi þeirra Finnsku.

 

kv_finnland-island

 

Þær Lenka og Guðlaug hafa staðið sig gríðarvel á mótinu, Lenka hlotið 5 vinninga í 8 skákum og Guðlaug 5,5 vinninga og eru þær báðar að bæta við sig tugum skákstiga. Lenka hefur unnið sér inn 31 stig og Guðlaug heil 50 stig og hefur nú þegar tryggt sér áfanga að alþjóðlegum meistaratitli kvenna (WIM).

Ísland mætir Slóvenum í lokaumferðinni og eiga sem fyrr góða möguleika, þrátt fyrir að vera eitthvað stigalægri á öllum borðum.

kv_borda_slovenia-island

 

-- ÚRSLIT 8. UMFERÐAR --

urslit_kvenna

 

Allar skákirnar eru í beinni útsendingu á heimasíðu mótsins - hér.

 

-- VIÐTÖL --

 

 

-- STAÐAN --

Opinn flokkur

 

-- STAÐAN --

Kvennaflokkur


Jólaskákmót TR og SFS fer fram 29. og 30. nóvember

Yngri flokkur (1. – 7. bekkur)

Keppnisstaður: Taflfélag Reykjavíkur, Faxafeni 12

Keppt verður í stúlkna og drengja flokkum (opnum flokkum). Heimilt er að senda

A, B, C o.s.frv. stúlknasveitir og A, B, C o.s.frv. drengjasveitir. Í hverri sveit eru

4 keppendur og 0-2 til vara.

Í yngri flokki verður keppt í tveimur riðlum sunnudaginn 29. nóvember.

Suður riðill hefur keppni kl. 10.30 (sjá skóla hér að neðan)

Norður riðill hefur keppni kl. 14.00 (sjá skóla hér að neðan)

Tefldar verða 6 umferðir (hraðmót) eftir Monrad kerfi.

Umhugsunartími: 10 mín. á skák. Þátttökurétt hafa börn úr grunnskólum

Reykjavíkur í 1.-7. bekk. Mikilvægt er að liðsstjóri fylgi liðum hvers skóla.

Verðlaunaafhending verður að lokinni keppni.

Tvær efstu sveitir í hvorum riðli munu keppa til úrslita við sveitirnar úr hinum

riðlinum um þrjú efstu sætin mánudaginn 30. nóvember kl. 17:00.

 

Eldri flokkur (8. – 10. bekkur).

Keppnisstaður: Taflfélag Reykjavíkur, Faxafeni 12.

Keppt verður í stúlkna og drengja flokkum (opnum flokkum). Heimilt er að senda

A, B, C o.sfrv. stúlknasveitir og A, B, C o.s.frv. drengjasveitir. Í hverri sveit eru

4 keppendur og 0-2 til vara.

Keppni í eldri flokki verður mánudaginn 30. nóvember kl. 17:00.

Umhugsunartími: 15. mín. á skák. Þátttökurétt hafa unglingar úr grunnskólum

Reykjavíkur í 8.-10. bekk. Verðlaunaafhending verður að lokinni keppni.

Tefldar verða 6 umferðir (hraðmót) eftir Monrad kerfi.

Þátttaka í báða flokka tilkynnist til skrifstofu Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur eigi

síðar en föstudaginn 27. nóvember. Ekki verður hægt að skrá lið á mótsstað.

Skráning sendist á netfang: soffia.palsdottir@reykjavik.is

Skipting í riðla yngri flokks

Yngri flokkur – Suður riðill (kl. 10.30):

Ártúnsskóli, Breiðagerðisskóli, Breiðholtsskóli, Brúarskóli, Fellaskóli, Fossvogsskóli, Grandaskóli, Háaleitisskóli, Hagaskóli, Háteigsskóli, Hlíðaskóli, Hólabrekkuskóli, Hraunkot, Hvassaleitisskóli, Klettaskóli, Melaskóli, Norðlingaskóli, Réttarholtsskóli, Selásskóli, Seljaskóli, Suðurhlíðarskóli og Ölduselsskóli

Yngri flokkur – Norður riðill (kl. 14:00):

Árbæjarskóli, Austurbæjarskóli, Dalsskóli, Foldaskóli, Hamraskóli, Húsaskóli, Ingunnarskóli, Ísaksskóli, Kelduskóli, Klébergsskóli, Landakotsskóli, Langholtsskóli, Laugalækjaskóli, Laugarnesskóli, Rimaskóli, Sæmundarskóli, Vættaskóli, Vesturbæjarskóli og Vogaskóli


Skákþáttur Morgunblaðsins: Einn af snilldarleikjum Magnúsar Carlsen?

Á Evrópumóti landsliða sem hófst í Laugardalshöll í gær mun athyglin beinast að heimsmeistaranum Magnúsi Carlsen sem verður 25 ára síðar í mánuðinum. Nú eru liðin meira en 47 ár síðan ótvíræður heimsmeistari skákarinnar, Boris Spasskí, tefldi á þessum stað og það var í fyrsta sinn sem heimsmeistari tefldi kappskákir með venjulegum umhugsunartíma á Íslandi. Magnús er þriðji heimsmeistarinn sem teflir hér á landi en Garrí Kasparov var heimsmeistari er hann tefldi á heimsbikarmótinu í Borgarleikhúsinu haustið 1988. Skákheimurinn átti engan ótvíræðan heimsmeistara frá 1993 til 2006 en á því tímaskeiði komu hingað og tefldu á nokkrum atskákmótum bæði Kasparov og Karpov. Fyrsti heimsmeistarinn sem hingað kom var Alexander Alékín en þá tefldi hann fjöltefli og nokkrar blindskákir árið 1931 er hann stóð á hátindi frægðar sinnar.

Norðmenn eru vitanlega stoltir af Magnúsi sem er eini Norðurlandabúinn sem hampað hefur þessum eftirsótta titli sem hann ber með sóma. Annar Norðurlandabúi, Bent Larsen, ól með sér þann draum að verða heimsmeistari og á tímabili skáksögunnar á árunum í kringum 1967 átti hann svo magnaða sigurgöngu og flest benti til þess að honum tækist ætlunarverk sitt. Við vitum hvernig fór en á því skeiði mætti hann einum fyrrverandi heimsmeistara sem þrátt fyrir ýmsar takmarkanir hafði hangið á titlinum lengur en allir aðrir að Emanuel Lasker undanskildum: Mikhail Botvinnik. Í skák sem hann tefldi við Larsen á þessum tíma veitti hann lesendum sínum innsýn í eigin þankagang þegar hann kvaðst hafa spurt sjálfan sig eftir leik Larsens: skyldi þetta vera einn af þessum stórkostlegu leikjum danska stórmeistarans, þessa frábæra skákmanns? Svarið var nei og kom ekki á óvart; á einum stað í miðtaflinu taldi Botvinnik sjö þvingaðar vinningsleiðir! Það getur reynst erfitt að finna hreinræktaða snilldarleiki í skákum Magnúsar. Í seinni tíð hefur hann dregið vinningana á land í löngum og ströngum skákum. Sumum finnst þetta fullmikið að því góða og Bandaríkjamaðurinn Nakamura, sem að hætti Larsens fer ekki dult með fyrirætlanir sínar á skáksviðinu, kom með afar blátt áfram yfirlýsingu í viðtali nýlega: Magnús Carlsen teflir leiðinlega. Ósammála. Fjölbreytnin er þrátt fyrir allt mikil og svona í undanfara Evrópumótsins er vert að skoða skák sem Magnús tefldi fyrr á þessu ári á minningarmóti um Gashimov í Aserbaídsjan. Eftir ónákvæmni í byrjun tafls náði Magnús frumkvæðinu og keyrði taflið áfram af miklum krafti:

Magnús Carlsen – Shakhriyar Mamedyarov

Slavnesk vörn

1. d4 d5 2. c4 c6 3. Rf3 Rf6 4. e3 g6 5. Rc3 Bg7 6. Be2 O-O 7. O-O b6 8. a4 a5 9. cxd5 cxd5 10. b3 Re4?!

Hann er of fljótur á sér. Eftir þetta nær hvítur ákjósanlegri uppstillingu léttu mannanna og hróksins á drottningarvæng.

11. Rxe4 dxe4 12. Rd2 Bb7 13. Ba3 f5 14. Hc1 Kh8 15. Rc4 Rd7

GJKUT5SS16. d5!

Býst til að opna línur.

16. ... Hc8 17. d6 e6 18. b4 axb4 19. Bxb4 Bd5 20. a5!

Eftir þennan leik er drottningarvængur svarts eins og svöðusár.

20. ... bxa5 21. Bxa5 De8 22. Da4 Bc6 23. Db4 Hb8 24. Rb6!

Ryður riddaranum í burtu.

24. ... Re5 25. Dc5 Ba8 26. Bc3 Rd7 27. Bxg7+ Kxg7 28. Rxd7 Dxd7 29. De5+

- og svartur gafst upp. Næst kemur 30. Hc7 sem gerir út um taflið. 

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 14. nóvember

Skákþættir Morgunblaðsins


GULLIÐ BLASIR VIÐ RÚSSUM -- ÍSLENDINGASLAGUR Í HÖLLINNI Á LAUGARDAG!

Rússar virðast á góðri leið með að tryggja sér tvöfaldan sigur á Evrópumóti landsliða skák í Laugardalshöll. Aðeins tvær umferðir eru eftir og þær fara fram á laugardag og sunnudag. Í sjöundu umferð sigraði rússneska ofursveitin sterkt lið Frakka í opnum flokki og kvennasveit Rússland skellti Ungverjum. Íslensku liðin áttu misjöfnu gengi að fagna, og Magnus Carlsen heimsmeistari virðist alls ekki finna fjölina sína í Höllinni, gerði nú jafntefli við grískan stórmeistara, og hefur aðeins hlotið 2 vinninga í fimm skákum.

 

---

-- SÉRTILBOÐ UM HELGINA --

Íslensku liðin eru hnífjöfn á mótinu og mætast í 8. umferð á laugardag. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem tvö íslensk landslið mætast í alþjóðlegri keppni og verður afar spennandi að fylgjast með kynslóðunum keppa.

Athugið að nú um helgina verða aðgöngumiðar á sértilboði, en hægt er að kaupa helgarpassa á midi.is á aðeins 1.900. kr! Einstakt tækifæri til þess að sjá flesta sterkustu skákmenn heims berast á banaspjótum í lokaumferðunum í Laugardalshöll.

Boðið er upp á öflugar skákskýringar á skákstað:

  • 8. umferð (laugardagur) kl. 17-19
    Helgi Áss Grétarsson
  • 9. umferð (sunnudagur) kl. 13-15
    Áskell Örn Kárason

Athugið að lokaumferðin á sunnudaginn hefst kl. 11

---

 

Rússar hafa nú 13 stig í opnum flokki, þremur stigum meira en Frakkar, Aserar, Armenar, Georguíumenn og Ungverjar. Með sigri á Armenum á laugardag geta Rússar tryggt sér gullverðlaunin.

Alexander Grischuk tryggði Rússum sigur gegn Frökkum á föstudag, með sigri á 2. borði gegn Fressinet. Öðrum skákum lauk með jafntefli eftir spennuþrungna viðureign.

 

russland-frakkland

 

Í öðrum viðureignum bar hæst að Georgíumenn unnu frækinn sigur á Úkraínu, þrátt fyrir að vera mun stigalægri. Lettar gerðu jafntefli í æsispennandi viðureign gegn Aserum, Hollendingar unnu Englendinga afar sannfærandi og Serbar gjörsigurðu Króata, 4-0.

 

georgia_ukraina

lettland_azerbajan

holland-england

serbia-kroatia

 

Norðmenn unnu Grikki 3-1 í viðureign þar sem frammistaða heimsmeistarans Carlsens olli enn og aftur vonbrigðum með andlausri taflmennsku. Hann gerði janftefli við Ionnis Papaionnou, en Jon-Ludvig Hammer og Aryan Tari tryggðu sigur norska liðsins.

Heimsmeistarinn hefur teflt fimm skákir á Evrópumótinu og aðeins unnið eina, en gert tvö jafntefli og tapað tveimur.

 

noregur-grikkland


ÍSLENSKU LIÐIN HNÍFJÖFN: A-LIÐIÐ OG GULLALDARLIÐIÐ MÆTAST Á LAUGARDAG!

 

Íslenska A-liðið hlaut skell gegn Tyrkjum, 3-1. Hannes Hlífar Stefánsson og Hjörvar Steinn Grétarsson gerðu jafntefli í sínum skákum, en Héðinn Steingrímsson og Henrik Danielsen töpuðu.

 

island-tyrkland

 

Gullaldarlið Íslands gerði jafntefli við Litháen, þar sem Jóhann Hjartarson og Jón L. Árnason unnu góða sigra á efstu borðum, en Margeir Pétursson og Friðrik Ólafsson biðu lægri hlut.

 

lithaen-gullaldar

 

Íslensku liðin eru hnífjöfn á mótinu og mætast í 8. umferð. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem tvö íslensk landslið mætast í alþjóðlegri keppni og verður afar spennandi að fylgjast með kynslóðunum keppa.

 


KVENNAFLOKKUR: RÚSSAR MEÐ ENN EINN SIGURINN -- GÓÐUR ÁRANGUR ÍSLENSKA LIÐSINS

 

Rússneska kvennaliðið átti ekki neinum vandræðum með að leggja mun stigalægra lið Ungverja, 3-1. Þær Alexandra Kosteniuk og Kateryna Lagno gerðu jafntefli í sínum skákum á 1. og 2. borði, en Valentina Gunina og Aleksandra Goryachkina sigruðu og tryggðu 3-1 sigur.

 

kv_russland-ungverjaland

 

Serbneska kvennasveitin vann mikið afrek með því að gera 2-2 jafntefli við Georgíu, þrátt fyrir að mörg hundruð skákstigum munaði á öllum borðum.

 

kv_serbia-georgia

 

Úkraína, með heimsmeistara kvenna, Mariyu Muzychuk, á efsta borði gjörsigraði Austurríki 4-0.

 

kv_ukraina-austurriki

 

Íslenska kvennasveitin stóð sig enn og aftur með miklum sóma, tapaði með minnsta mun gegn miklu sterkari sveit Svartfjallalands. Lenka Ptacnikova sigraði, Guðlaug Þorsteinsdóttir gerði jafntefli, en þær Elsa María Kristínardóttir og Hrund Hauksdóttir töpuðu.

 

kv_island-svartfjallaland

 

Í áttundu umferð mæta rússnesku konurnar þéttingssterkri sveit Pólverja, en íslenska liðið teflir við Finna.

Allar skákirnar eru í beinni útsendingu á heimasíðu mótsins - hér.

 

MYNDAGALLERÍ

Myndir / Hrafn Jökulsson

ETCC-R7-Photo_HJ031

  

ETCC-R7-Photo_HJ016

 

ETCC-R7-Photo_HJ017

 

ETCC-R7-Photo_HJ025

 

ETCC-R7-Photo_HJ037

 

ETCC-R7-Photo_HJ002

 

ETCC-R7-Photo_HJ044

 

...

-- VIÐTÖL --

 

 

 

-- STAÐAN --

Opinn flokkur

 

-- STAÐAN --

Kvennaflokkur


7. umferð EM hefst kl. 15: Risaslagur í opna - Sértilboð á aðgöngumiðum um helgina

Það er ekki ofsögum sagt að spennan sé í algeymingi fyrir 7. umferð sem hefst nú klukkan þrjú. Rússar eru sem fyrr efstir í báðum flokkum, hafa reyndar aðeins eins stigs forystu í hvorum flokki og því getur enn brugðið til beggja vona. Samtals geta liðin nælt sér í sex stig í lokaumferðunum þremur, þ.e. tvö stig eru veitt fyrir sigur í viðureign og eitt fyrir jafntefli.

Í opnum flokki eru Rússar efstir með 11 stig, Frakkar fylgja þeim fast á eftir með 10 stig og Aserar eru þriðju með 9.

  

-- SÉRTILBOÐ UM HELGINA --

Athugið að nú um helgina verða aðgöngumiðar á sértilboði, en hægt er að kaupa helgarpassa á midi.is á aðeins 1.900. kr! Einstakt tækifæri til þess að sjá flesta sterkustu skákmenn heims berast á banaspjótum í lokaumferðunum í Laugardalshöll.

Boðið er upp á öflugar skákskýringar á skákstað:

  • 7. umferð (föstudagur) kl. 17-19
    Áskell Örn Kárason
  • 8. umferð (laugardagur) kl. 17-19
    Helgi Áss Grétarsson
  • 9. umferð (sunnudagur) kl. 13-15
    Áskell Örn Kárason

Athugið að lokaumferðin á sunnudaginn hefst kl. 11

 

-- OPINN FLOKKUR --

Allra augu munu beinast að toppviðureigninni í opna, en þar mætast Rússar og Frakkar á 1. borði. Frakkar hafa komið nokkuð á óvart í keppninni, gert tvö jafntefli og ekki tapað viðureign og eru til alls líklegir. Rússar hafa aðeins gert eitt jafntefli til þessa, við Asera og munu ekkert gefa eftir á móti Frökkum.

Sigri Rússar, er ljóst að þeir verða með 2 stiga forskot fyrir tvær síðustu umferðirnar sem verður afar erfitt að jafna; En sigri Frakkar, þá verða þeir í efsta sæti með eins stigs forskot og allt getur gerst í lokaumferðunum.

Sé þetta ekki nóg til að gera viðureignina spennandi, þá eru fyrstaborðsmenn beggja þjóða í hörkuformi. Sá franski, GM Maxime Vachier-Lagrave (2765) hefur ekki tapað skák, gert þrjú jafntefli og fengið 4,5 vinninga í sex skákum, árangur sem samsvarar 2893 skákstigum og er næst besti einstaklingsárangur í opnum flokki – Rússinn GM Peter Svidler (2745) hefur fengið 3,5 vinninga úr 5 skákum sem samsvarar árangri upp á 2832 skákstig sem er fimmti besti einstaklingsárangur í opna.

frakkland-russland


- ÍSLENSKU LIÐIN -

A-lið Íslands (meðalst. 2557) mætir sterku liði Tyrkja (meðalst. 2580) í umferðinni og á alla möguleika á að sækja stig, jafnvel tvö, enda sáralítill stigamunur á liðunum. Hannes Hlífar Stefánsson, Héðinn Steingrímsson, Hjörvar Steinn Grétarsson og Henrik Danielsen tefla í dag.

ISLAND-TYRKLAND

Gullaldarliðið (meðalst. 2485) mætir sveit Litháens (2401) og á góða möguleika á áframhaldandi velgengni. Jóhann Hjartarson, Jón L. Árnason, Margeir Pétursson og Friðrik Ólafsson tefla fyrir hönd Íslands.

GULLALDAR

 


-- KVENNAFLOKKUR --

Tvær stigahæstu sveitirnar í kvennaflokki, Rússland og Úkraína skyldu jöfn eftir hörku viðureign gærdagsins og eru línur því farnar að skýrast nokkuð, þrátt fyrir að þrjár umferðum sé ólokið. Þrjú lönd eru lang stigahæst í kvennaflokki, Georgía, Rússland og Úkraína og hafa þær allar teflt innbyrðis. Þeirra bíða því léttari verkefni, þar sem aflsmunir ættu að duga til sigurs lokaumferðunum þrem og því allt eins líklegt að röð efstu þriggja í kvennaflokki verði ekki haggað úr þessu. Auðvitað getur allt gerst, enda tefla skákstig ekki líkt og þekkt er.

Í umferð dagsins mætast Rússar og Ungverjar; Georgía og Serbar og Úkraína og Austurríki og eru allar þær fyrrnefndu með talsvert forskot á styrkleikalistanum.

kv_ungverjaland-russland

kv_serbia-georgia

kv_austurriki-ukraina

 

- ÍSLAND -

Íslensku stelpurnar máttu sætta sig við slæmt tap gegn Englendingum í gær, en ætla sér vafalaust að bíta frá sér í viðureign dagsins. Þær mæta Svartfellingum (meðalst. 2191) sem eru eitthvað stigahærri á pappír, en það hefur ekkert að segja þegar liðin hafa sest og skákirnar hafnar.

kv_island-svartfjallaland

 

Allar skákirnar eru í beinni útsendingu á heimasíðu mótsins - hér.


Unglingameistaramót Íslands fer fram helgina 28.-30. nóvember

Unglingameistaramót Íslands fer fram um næstu helgi dagana 27.–29. nóvember. Íslandsmeistarinn tryggir sér sæti í Landsliðsflokki árið 2016.

Dagskrá:

  • 1.-4. umferð: Föstudagskvöldið 28. nóvember. Fyrsta umferð hefst 19:00.
  • 5. umferð 11:00 á laugardegi.
  • 6. umferð 17:00 á laugardegi.
  • 7. umferð 10:00 á sunnudegi. 

Mótið er opið skákmönnum fæddum á bilinu 1993-1998. Jafnframt er yngri skákmönnum heimilt að taka þátt hafi þeir 1800 stig eða fleiri, íslensk eða FIDE-stig, miðað við nýjustu stigalista. Íslandsmeistarar u16, u14 og u12 eiga einnig þátttökurétt. 

Teflt verður um Íslandsmeistaratitilinn verði menn jafnir að vinningum. Stig eru látin gilda um önnur sæti verði menn jafnir að vinningum. 

Tímamörk í fyrstu fjórum umferðunum er 20min 05sek og 90min 30sek í seinni þremur. Það er 20 mínútur og 5 viðbótarsekúndur fyrir hvern leik og 90 mínútur og 30 viðbótarsekúndur fyrir hvern leik.

Mótið er reiknað til alþjóðlegra skákstiga.

 

Mótið fer fram í Skáksambandi Íslands að Faxafeni 12. Skráning er til hádegis 28. nóvember á skak.is. Þátttökugjald er 1500 kr.

 

 


RÚSSAR EFSTIR Í BÁÐUM FLOKKUM Á EM -- FYRSTI SIGUR CARLSENS Í HÖLLINNI

Rússar héldu áfram sigurgöngu sinni á Evrópumóti landsliða í skák í Laugardalshöll, þegar þeir lögðu sterka sveit Georgíu í 6. umferð með 2½ vinningi gegn 1½. Frakkar gefa ekkert eftir, unnu Úkraínu með sama mun og eru í öðru sæti. Íslensku sveitirnar áttu misjöfnu gegni að fagna: A-sveitin sigraði Færeyinga 3½-½, Gullaldarliðið tapaði fyrir Moldóvu 1-3 og kvennasveitin tapaði á öllum borðum fyrir Englendingum. Rússneska liðið heldur efsta sæti í kvennaflokki eftir 2-2 jafntefli við Úkraínu.

Viðureign Rússa og Georgíumanna var tvísýn framan af. Á efsta borði gerðu Jobava og Grischuk jafntefli. en á þriðja borði vann Georgíumaðurinn Levan Pantsulaia góðan sigur á Ian Nepomniachtchi. Rússarnir Tomashevsky og Jakovenko sigruðu í sínum skákum.

georgia_russland

 

FYRSTI SIGUR CARLSENS Í LAUGARDALSHÖLL

Frakkar, sem eru taplausir á Evrópumótinu, unnu afar góðan sigur á Úkraínu. Þar lauk þremur skákum með jafntefli en Frakkinn Fressinet var hetja dagsins, lagði Eljanov og tryggði þannig sigurinn.

kv-Georgia_frakkland

 

Aserar héldu sér í toppbaráttunni með naumum sigri á Hollendingum. Þar var það Arkadij Naiditsch sem réði úrslitum með sigri á Ivan Sokolov. Naiditsch, sem þangað til í sumar tefldi undir þýska fánanum, er sá meistari sem bestum árangri hefur náð í fyrstu sex umferðunum í Laugardalshöll. Hann hefur fengið 5 vinninga í 6 skákum og jafngildir árangur hans rúmlega 2900 skákstigum.

azerbajan_holland

 

Af öðrum viðureignum má nefna að Armenar lögðu Þjóðverja, og Ungverjar sigruðu Norðmenn, þrátt fyrir fyrsta sigur heimsmeistarans Carlsens á mótinu.

 

ungv_noregur

 

 

SIGUR OG TAP HJÁ ÍSLENSKU LIÐUNUM

Íslenska liðið sigraði Færeyinga með 3½ vinningi gegn ½. Á efsta borði gerði Hannes Hlífar Stefánsson jafntefli við Helga Dam Ziska, en þeir Héðinn Steingrímsson, Hjörvar Steinn Grétarsson og Guðmundur Kjartansson sigruðu.

Gullaldarliðið mætti sterkri sveit Moldóvu. Þar glímdu á efsta borði Helgi Ólafsson og Victor Bologan, sem er einn af bestu skákmönnum heims. Bologan sigraði í skákinni og hélt þannig áfram mikilli sigurgöngu. Bologan hefur fengið 5 vinninga af 6 mögulegum, og jafngildir árangur hans hátt í 2900 skákstigum. Jón L. Árnason og Margeir Pétursson urðu líka að játa sig sigraða, en Jóhann Hjartarson bjargaði deginum með góðum sigri.

island_faereyjar

moldovia_gullaldar

 

Eftir sex umferðir eru Rússar efstir með 11 stig, Frakkar hafa 10, Aserar 9 og síðan koma sjö þjóðir með 8 stig. Íslensku liðin eru nú í 28. og 30. sæti.

Á morgun föstudag mætast efstu liðin, Rússar og Frakkar. Sigri Rússar eru þeir komnir með aðra hönd á Evrópubikarinn, en Frakkar eru til alls líklegir.

Íslenska A-liðið teflir við Tyrki en Gullaldarliðið glímir við sveit Litháens.

 

KVENNAFLOKKUR: HÁSPENNA HJÁ RÚSSLANDI OG ÚKRAÍNU, SKELLUR HJÁ ÍSLENSKA LIÐINU

Í kvennaflokki mættust erkifjendurnir Rússland og Úkraína, og þar voru engin grið gefin. Allar skákirnar unnust á hvítt og því lauk viðureigninni 2-2. Á efsta borði mættust núverandi og fyrrverandi heimsmeistarar kvenna, Mariya Muzychuk frá Úkraínu og hin rússneska Alexandra Kosteniuk. Úkraínski heimsmeistarinn hafði betur, og Rússland tapaði sínu fyrsta stigi í keppninni.

Rússnesku stúlkurnar verða samt að teljast afar sigurstranglegar. Þær hafa 11 stig í efsta sæti, lið Georgíu hefur 10, og síðan koma Úkraína og Ungverjaland með 9.

kv_rússl-ukraina

 

Íslenska kvennasveitin átti aldrei möguleika, þrátt fyrir mikla baráttu, gegn öflugri sveit Englands enda mikill stigamunur á öllum borðum. Lenka Ptacnikova, Guðlaug Þorsteinsdóttir, Hrund Hauksdóttir og Veronika Steinunn Magnúsdóttir tefldu fyrir Íslands hönd í dag.

kv-Island_England

 

Á morgun mætast Rússland og Ungverjaland í kvennaflokki, en íslenska liðið teflir við Svartfjallaland.

Sjöunda umferðin hefst kl. 15 á föstudag, sú áttunda verður á sama tíma á laugardag, og lokaumferðin í Laugardalshöll verður á sunnudag kl. 11.

 

 

 

 

-- MYNDAGALLERÍ --

Myndir / Hrafn Jökulsson

a

 Carlsen heimsmeistari sigraði í fjórðu tilraun á EM í Höllinni.

 

b

 Kátt í Höllinni. Kvennasveit Grikklands við upphaf 6. umferðar.

 

c

 Victor Bologan frá Moldóvu hefur farið á kostum á HM. Sigraði Helga Ólafsson í 6. umferð.

 

d

 Jóhann Hjartarson bjargaði heiðri Gullaldarliðs Íslands með góðum sigri.

 

e

 Judit Polgar fremsta skákkona sögunnar er liðstjóri Ungverja.

 

f

 Séð yfir Laugardalshöllina.

 

g

 Hannes Hlífar Stefánssson gerði jafntefli við Helga Dam Ziska, fremsta skákmann Færeyja. 

 

-- VIÐTÖL --

 

...

 

...

 

-- STAÐAN --

 

Opinn flokkur

 

...

 

-- STAÐAN --

 

Kvennaflokkur

 


6. umferð EM að hefjast - Margar spennandi viðureignir í beinni

6. umferð EM landsliða hefst kl. 15. Fjölmargar spennandi viðureignir fara fram og má sérstaklega nefna viðureign Rússa og Úkraínu í kvennaflokki, en fari svo að þær rússnesku fari með sigur af hólmi er ljóst að afar erfitt verður að ná þeim, enda yrðu þær lang efstar.

Í opnum flokki eru Rússar einnig efstir og tefla við talsvert stigalægri sveit Georgíu. A-liðið okkar í opnum flokki teflir við frændur okkar Færeyinga og ætla sér ekkert annað en sigur. Gullaldarliðið mætir hörkusveit Moldóva og koma til með að selja sig dýrt í þeirri baráttu enda staðið sig með prýði til þessa.

Kvennasveitin okkar mætir sterku liði Englendinga og koma til með að berjast til síðasta manns, enda staðið sig frábærlega til þessa.

 Beinar útsendingar

kv_russl_ukraina

 

Íslenska kvennaliðið mætir Englendingum í hörkuviðureign þar sem allt getur gerst, enda stelpurnar í hörku formi í mótinu.

kv_engl_isl

 

A-lið Íslendinga mætir frændum okkar frá Færeyjum og ætla sér vafalaust lítið annað en sigur.

alid_faereyjar

 

Gullaldarliðið teflir við þétt lið Moldóva.

gullaldar_moldovia

 

Beinar útsendingar


Rússar áfram efstir á EM í skák -- Carlsen heimsmeistari tapaði aftur

Rússar halda efsta sætinu á Evrópumótinu í skák í Laugardalshöll eftir jafntefli við Asera í 5. umferð. Gullaldarlið Íslendinga vann góðan sigur á Austurríki, íslenska kvennasveitin vann Noreg sannfærandi en A-lið Íslands beið lægri hlut fyrir Grikkjum. Mesta athygli í dag vakti tap Carlsens heimsmeistara fyrir svissenska stórmeistaranum Pelletier.

Á efsta borði beindust flestra augu að Rússans Grischuks og Aserans Radjabovs, enda lentu báðir í geigvænlegu tímahraki, áður en sverð voru slíðruð. Öllum skákum í viðureigninni lauk með jafntefli, og Rússar hafa því 9 stig á toppnum.

Russland_Azerb_loka

Úkraína sigraði sigraði Ungverja með minnsta mun, þar sem sigur Eljanovs á Rapport réði úrslitum. Frakkland sigraði Spánverja 3-1, þar sem Vachier-Lagrave gaf tóninn á efsta borði með sigri á Vallejo Pons. Vachier-Lagrave hefur nú fengið 4 vinninga af 5 á efsta borði og eru Frakkar til alls líklegir í seinni hálfleik mótsins.

Ungverjaland_Ukraina-lokastada

Spann_frakkland-lokastada

Georgíumenn halda sömuleiðis góðum dampi, unnu Serba 3-1, og Þjóðverjar unnu Englendinga með minnsta mun.

Serbia_Georgia-lokastada

Thyskaland_England-lokastada

Flestra augu beindust þó að viðureign Noregs og Sviss, þar sem heimsmeistarinn Carlsen lék illa af sér gegn stórmeistaranum Pelletier. Carlsen hefur ekki náð að sýna sitt rétta andlit í Laugardalshöll og hefur aðeins náð hálfum vinningi í þremur skákum og tapað 18 skákstigum í þessari Íslandsheimsókn.

Noregur-Sviss-lokastada

Pelletier utskyrir afleik magnusar - Hg8 svarad með Re7

Yannick Pelletier útskýrir afleik Carlsens - Magnús lék Hg8 sem var svarað að bragði með Re7 og báðir menn Magnúsar eru í uppnámi.

 

Gullaldarliðið sigraði, A-liðið tapaði

Gullaldarlið Íslands vann dýrmætan sigur á Austurríki og virðist á fínni siglingu. Jóhann Hjartarson og Jón L. Árnason unnu, Margeir Pétursson gerði jafntefli en Helgi Ólafsson tapaði.

Gullaldarlid_Austurriki-Lokastada

A-lið Íslands tapaði með minnsta mun fyrir Grikkjum. Jafntefli gerðu Héðinn Steingrímsson, Hjörvar Steinn Grétarsson og Guðmundur Kjartansson, en Henrik Danielsen beið lægri hlut. Hannes Hlífar Stefánsson hvíldi að þessu sinni.

ISland_A_Grikkland-lokastada

Kvennaflokkur: Rússland áfram efst, góður sigur Íslands

Í kvennaflokki hélt rússneska liðið áfram sigurgöngu sinni og lagði Frakka, 3-1. Rússnesku stúlkurnar hafa 10 stig eftir fimm umferðir og sveit Úkraínu er komin í 2. sætið eftir sigur á Rúmeníu, 3-1. Úkraína hefur nú 8 stig, eins og Georgía sem vann Pólverja.

Russland_Frakkland-lokastada

Rumenia-Ukraina

Polland_Georgia-lokastada

Íslenska kvennasveitin vann mjög góðan sigur á Norðmönnum, 3-1. Þær Lenka Ptacnikova, Guðlaug Þorsteinsdóttir og hin unga Hrund Hauksdóttir unnu, en Elsa María Kristínardóttir tapaði. Guðlaug hefur farið á kostum á mótinu og hefur náð í 4 vinninga í 5 skákum.

ISland-Noregur-lokastada

Frídagur er á Evrópumótinu á morgun, miðvikudag, en sjötta umferð hefst í Laugardalshöll á fimmtudag kl. 15. Alls eru tefldar níu umferðir og er búist við háspennu í Höllinni í síðustu umferðunum.

 

MYNDAGALLERÍ

Ljósmyndari: HJ

1

Carlsen og Hammer slá á létta strengi við upphaf 5. umferðar. Norðmenn unnu Sviss, þrátt fyrir mjög óvænt tap heimsmeistarans.

 

2

Kateryna Lagno hefur farið á kostum í liði Rússa sem er efst í kvennaflokki.

 

3

 

Hrund Hauksdóttir og Guðlaug Þorsteinsdóttir voru brosmildar fyrir (og eftir) viðureignina við Noreg. Þær unnu báðar, og hefur Guðlaug nú 4 vinninga af 5.

 

4

 

Liðsmenn Gullaldarliðsins mættu grimmir til leiks gegn Austurríki og unnu 3-1. Margeir Pétursson gerði jafntefli en Jón L. vann góðan sigur.

 

5 (2)

 

Enski stórmeistarinn og Íslandsvinurinn Luke McShane skartaði þessari fallegu lopapeysu í Höllinni.

 

6

 

Judit Polgar, besta skákkona allra tíma, er hætt atvinnumennsku en hún er liðstjóri Ungverja í Laugardalshöll.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.8.): 24
  • Sl. sólarhring: 39
  • Sl. viku: 192
  • Frá upphafi: 8779398

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 143
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband