Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2017

Karjakin, Anand og Adams fallnir úr leik - Carlsen vann Dreev 2-0

Clipboard03

Stórtíðindi urðu á Heimsbikarmótinu í dag þegar Karjakin, Anand og Adams féllu allir úr leik. Karjakin tapaði fyrir hinum unga landa sínum Daniil Dubov 1,5-0,5. Rússinn er hins vegar í þeirri stöðu að hafa keppnisrétt á næsta áskorendamóti. Það er Anand hins vegar ekki. Hann náði ekki nauðsynlegum sigri gegn Anton Kovalyov eftir tap í gær. Það stefnir því í áskorendamót á næsti ári án Indverjans nema að hann fái villt kort (ný þýðing á wild card). 

Clipboard05

Alexey Dreev var lítil fyrirstaða fyrir Magnus Carlsen sem er sá eini sem vann 2-0 í annarri umferð. Aðeins 10 skákmenn eru komnir áfram í þriðju umferð. 22 einvígum lauk með jafntefli, 1-1, og teflt til þrautar á morgun með styttri umhugsunartíma.

Clipboard02

Það er athyglisvert að skoða lifandi stigalistann. Þar hafa flestir stigahæstu skákmenn heims lækkað á stigum, að Magnúsi undaskyldum, enda margir þeirra að gera 1-1 jafntefli eða jafnvel að tapa gegn stigalægri skákmönnum. 

Ítarlega frásögn og öll úrslit má finna á Chess.com.

Myndir (Maria Emelianova - Chess.com)


EM ungmenna í Rúmeníu - Pistill #2


20170906_145901Þá er komið að þriðju umferðinni hérna á Mamaia í Rúmeníu. Veðrið leikur við okkur og hér er fínn hiti en þó ekki það mikill að maður sé að kafna. Staðurinn er eins og komið hefur fram mjög skemmtilegur og margt skemmtilegt hægt að gera til að dreifa huganum. Á staðnum er t.d. stór kláfur sem fer dágóða vegalengd yfir strandlengjuna með mögnuðu útsýni. Þeir feðgar Þórir og Bjartur voru fyrstir til að prófa það en Bjartur sat einmitt hjá í gær þannig að meiri tími fyrir þá að prufa afþreyingu á staðnum.

Flestir eru svo búnir að kíkja í tívólí sem er hérna nánast alveg við hótelið en þar er ýmislegt hægt að gera, fara í parísarhjól, spilakassa af gamla skólanum og ýmis leiktæki. Auk þess er pool og keilustaður en Vignir er einmitt mikið fyrir að munda kjuðann og er líklega kominn með 2300 í pool líka!

Eftir 1. umferðina fundum við þennan stað einmitt og sáum leikinn Ísland-Úkraína á honum nokkrir. Pabbi Vignis er með svona USB-pung sem þarf bara símkort og var búinn að kaupa sér símkort hér þannig að við gátum fundið straum með leiknum og fögnuðum gríðarlega hérna inni á poolstaðnum þegar Gylfi setti mörkin og held ég að allavega ég persónulega hafi skelkað allamarga á staðnum með einhverjum víkingaöskrum.

Þeir sem sáu ekki leikinn vöknuðu við þessi gleðilegu úrslit og því ekki laust við að menn hafi mætt stemmdir inn í 2. umferðina.

Rennum yfir hvað gerðist í 2. umferðinni:

U8

Bjartur sat hjá og fékk vinning.

 

U10

20170906_145308

Gunnar Erik tefldi af öryggi. Við vorum búnir að kíkja aðeins á og kortleggja hans andstæðing sem líklega að tefla svona "system" þá annaðhvort Colle eða Colle-Zukertort. Það reyndist rétt og ákváðum við að Gunnar myndi bara beita kóngsindverskri uppstillingu sem er oft einna farsælust á móti slíkri taflmennsku. Fórum yfir nokkrar leiðir til að fá öruggar og góðar stöður. Það gekk allt up og andstæðingur Gunnar lék af sér manni snemma.

rnd2_gunnar

Gunnar hinsvegar lék ónákvæmt hér. Lék ...Bh6 þar sem hann sá ekki vörn hjá hvítum. Eftir Kh1 bjargast hinsvegar maðurinn þar sem biskupinn á h6 verður oní eftir að drepið er á d3. Fórum yfir að praktískara væri að taka manninn bara strax þar sem að flækjustigið er minna ef maður missir af einhverju. Hugmyndin var samt að mörgu leiti góð og kannski ágætis æfing að vinna skákina bara tvisvar því Gunnar fékk í staðinn fína skák þar sem hann yfirspilaði andstæðing sinn aftur og tefldi vel!

 

U10 stelpur

20170906_145657

Batel er að fá mjög strembið prógram í byrjun móts og erfiða andstæðinga. Að þessu sinni fékk hún andstæðing frá Hvíta-Rússlandi og aftur svörtu mennina. AFtur var það Najdorf sem varð fyrir valinu en andstæðingur hennar að þessu sinni valdi afbrigðið með g3. Eftir flugeldsýningu í gær gekk ekki alveg jafn vel að þessu sinni og Batel lenti snemma í riddaragaffli sem erfitt var að eiga við. Lærdómurinn var einn helst staðsetning drottningarinnar í byrjuninni og að reyna að halda betur í hvítreitabiskupinn sem er mikilvægur í valdið á d5 reitnum. Batel fær enn og aftur rússneska stelpur í 3ju umferð sem er stigahá í flokknum. 

U14

20170906_145433

Vignir valdi að tefla Frakkann gegn andstæðingi sínum. Hann virtist nokkuð kortlagður og gaf alltaf færi á Winawer afbrigðinu og gat því Vignir verið nokkuð viss um stöðutýpuna sem hann var að fá upp. Vignir fékk líka fína stöðu og stóð klárlega aðeins betur í miðtaflinu. Í raun tefldi Vignir mjög fína skák og vantaði aðeins herslumuninn upp á að breyta því yfir í vinning. Aldrei var nein taphætta hjá Vigni og síðast sénsinn e.t.v. aðeins í lokinn að leyfa d-peðinu að standa og vinna það undir góðum kringumstæðum með skorðaðan kóng.

Andstæðingurinn var allavega sálfræðilega erfiður, bæði Rússi sem þýðir yfirleitt að andstæðingurinn er vel skólaður og svo tapaði Vignir fyrir þessum andstæðing í fyrra og því sálfræðilega erfiðara en ella. Vignir var hinsvegar stóískur eftir skákina enda lítið annað hægt. Hann tefldi vel með svörtu en stundum er það ekki nóg til að vinna.

 

U18

20170906_145750

Jón Kristinn fékk aftur stigaháan andstæðing og aftur var svipað uppi á tengingnum, hann hafði ívið betri stöðu og setti pressu á andstæðing sinn. Að þessu sinni dugði það ekki til og jafntefli var samið í nokkuð dauðri stöðu. Tvö sterk jafntefli hjá Jóni hér í byrjun og vonandi heldur hann áfram að tefla vel enda nokkuð ljóst að elóstig hans eru alltof lág miðað við getu!

20170906_145816

Símon tefldi við Rúmena með tæp 2300 stig. Byrjunin virtist vera í lagi hjá Símoni og í raun gerði hann aðeins ein smávægileg mistök en merkilegt nokk þá var það nóg og sá hann í raun aldrei til sólar eftir það þar sem andstæðingurinn tefldi mjög vel og stýrði taflinu í unnið endtafl. Símon hefur lítið teflt undanfarið sökum skiptináms en ég er handviss um að hann kemur sterkur inn þegar líður á mótið. Andstæðingur hans í dag ætti að vera í léttari kantinum með aðeins um 1600 stig en þó aö öllum líkindum sterkari en stigin gefa til kynna.

Rnd2_results

 

Hótelið

Af hótelmálum er það að frétta að þeir sem voru í verstu herbergjunum hafa fengið bót sinna mála. Satt best að segja er þetta með verri hótelum sem menn hafa séð og í raun kapítuli útaf fyrir sig. Ég þarf eiginlega að henda í eitt gott vídeó til að gera þessu skil!

Maturinn á hótelinu er því miður ekki heldur með besta móti en svona rétt sleppur. Ef menn eru ósáttir er stutt að fara út í kebab á 500 kall ;-)

Við erum hinsvegar hér fyrst og fremst til að tefla og enginn að setja á sig neinn fýlusvip. Við gerum eins gott úr aðstæðum og hægt er enda margt mjög gott hér og skemmtilegt!

 

Hér að lokum er smá myndband frá 3ju umferð í dag þar sem við göngum á mótsstaðinn og kíkjum inn í salinn. Ég var ekkert að stjana við þetta með hristing/hljóð eða neitt svoleiðis og menn vonandi meta viljann fyrir verkið.

 


Hjörvar efstur á Meistaramóti Hugins eftir þriðju umferð

2017-08-23-21.04.21

Í þriðju umferð Meistaramóts Hugins sem fram fór sl.mánudagskvöld vann Hjörvar Steinn Grétarsson Björn Þorfinnsson á fyrsta borði og tók þar með forystu í mótinu. Hjörvar stýrði svörtu mönnunum og fórnaði peði í byrjuninni fyrir hraða liðsskipan. Hjörvar virtist betur heima í byrjuninni og fékk betri stöðu út úr henni. Björn fékk svo tækifæri á því að jafna taflið þegar Hjörvar missti af Rxd4 í 11. leik. Þá hafði Björn tæki færi til að klára liðsskipan með Bb5 en valdi í staðinn Hd1. Hjörvar náði eftir það föstu taki á stöðunni og innbyrti sigurinn í 43. leikjum.

Skemmtilegasta viðureign umferðarinnar var tvímælalaust skák Jóns Úlfljótssonar og Lofts Baldvinssonar en einnig jafnframt sú lengsta. Þar var á reiki hver væri að vinna skákina í ljósi tímahraksins í lokin og þá sérstaklega hjá Lofti. Loftur snéri samt á Jón og vann skákina að lokum.

Skákin hjá Vigfúsi og Snorra skipti um eigendur nokkrum sinnum en tækifæri Snorra til að vinna voru fleiri en tækifærið sem Vigfús fékk var samt betra,

Þriðja umferð markaðist nokkuð að mörgum hjásetum og óvæntum fjarvistum vegna utanferða og veikinda. Þeir sem eftir voru tefldu af þess meiri ákafa og var lítið um stuttar skákir og hart barist. Von er á skákum 1.- 3. umferðar í vikunni. Sjón er sögu ríkari þannig að þá geta skákáhugamenn skoðað skákirnar sjálfir og metið atburðarásina.

Að lokinni þriðju umferð er Hjörvar efstur með 3 vinninga. Síðan koma Vignir Vatnar Stefánsson, Björgvin Víglundsson, Loftur Baldvinsson og Sigurður Daði Sigfússon allir með 2,5 vinning. Fjórða umferð fer fram mánudagskvöldið 11 september og hefst kl. 19.30.

Úrslit 3. umferðar í chess-results:
Pörun 4. umferðar í chess-results:

Heimasíða Hugins


Carlsen vann Dreev - Anand tapaði

Clipboard06

Önnur umferð (64 manna úrslit) Heimsbikarmótsins í skák hófst í gær í Tblisi í Georgíu. Stærsti tíðindi voru sú að fyrrum heimsmeistarinn Anand tapaði fyrir Kanadamanninum Anton Kovalyov með hvítu. Indverjinn þarf því að vinna með svörtu í dag til að komast bráðabana.

Clipboard09

Alexey Dreev reyndist lítil hindrun fyrir heimsmeistarann Magnus Carlsen sem lagði Rússann með svörtu. 25 skákum af 32 lauk með jafntefli. Aðeins sjö með hreinum úrslitum.

Clipboard07

Miklar líkur eru því á því að meira en helmingur einvíganna fara í bráðabana á morgun. Taflmennskan hefst kl. 11 í dag. 

Ítarlega frásögn og öll úrslit má finna á Chess.com.

Myndir (Maria Emelianova - Chess.com)


Þrír vinningar í hús í annarri umferð

Þrír vinningar komu í hús í annarri umferð EM ungmenna sem fram fór í dag. Bjartur Þórisson (u8), Gunnar Erik Guðmundsson (u10) unnu sínar skákir. Vignir Vatnar Stefánsson (u14) og Jón Kristinn Þorgeirsson (u18) gerðu jafntefli. Annað jafntefli Jóns Kristins gegn sterkum FIDE-meistara. Batel Goitom Haile (u10) og Símon Þórhallsson (u18) töpuðu.

Vignir hefur 1,5 vinninga, Bjartur, Gunnar Erik, Jón Kristinn, Batel hafa 1 vinninga en Símon er enn ekki kominn á blað. 

Úrslit dagsins

Clipboard02

 

 

 

 

 

 


EM ungmenna Rúmeníu 2017 - Pistill #1

Mamaia_BatelÞað voru ellefu manns sem lögðu í hann aðfararnótt mánudagsins 4. september. Framundan var langt og strangt ferðalag sem endaði á að taka hátt í sólarhring.

Flestir lögðu af stað um 4-leytið um nóttina og rúta tekin frá BSÍ klukkan 4:30. Flug í tveimur leggjum var næst á dagskrá en fyrst var flogið til Frankfurt í Þýskalandi. Það flug hófst ekki vel en einhver töf varð þar sem erfiðlega gekk að starta öðrum hreyflinum. Það gekk þó fagmennlega fyrir sig og eftir ekkert of langa töf vorum við komin í loftið.

Til allrar hamingju höfðum við náð að undirrita töskurnar alla leið og héldum því að við þyrftum ekki að fara út úr flugstöðinni til að checka okkur inn. Eftir mikið labb fram og til baka komumst við að því að við þurfum í raun að fara aftur út og það varð niðurstaðan. Í Frankfurt þurftum við að bíða um 5 tíma milli fluga. Í slíkri bið er lítið annað að gera en setjast niður og taka nokkrar hraðskákir. Ég skoraði á VVS í 100 skáka einvígi í ferðinni en það er ekki útséð að við höfum tíma í það :-)   Við fórum þó af stað og VVS tók forystu í Frankfurt og leiddi en leikar voru jafnir 2,5-2,5 þegar haldið var á brott frá Frankfurt.

Eftir flugvallarverð á ýmsum matarkyns vörum til einkaneyslu var loks haldið í flugið með TAROM hinu rúmenska flugfélagi. Hópurinn var orðinn vel þreyttur enda langt ferðalag að baki en þegar til Búkarest var komið þurftum við að bíða allavega klukkutíma í viðbót eftir rútuferð. Þá var lítið annað í boði en að halda áfram með hraðskákeinvígið. X-bitinn (gælunafn undirritaðs, of langt að útskýra) tók þá forystu gegn VVS-vélinni (Vignir Vatnar) og tók "killing spree" og komst í 5,5-2,5 með tilheyrandi orðaflaumi um að sá litli ætti ýmislegt eftir ólært. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem við Vignir tökum hraðskákir en ég er mikið fyrir svona skemmtilegt "trashtalk" til að herða strákinn. Svipuð "kennslutækni" var notuð á Hjörvar á sínu tíma:

Við vitum öll hvernig það fór og í dag er Hjörvar stórmeistari! Ég hef séð mikla bætingu hjá Vigni í hraðskákinni og hann er kominn úr því að vera skyldupunktur í það að standa í mér og yfir í það að í dag er þetta alveg að vera 50-50 keppni okkar á milli. Best að njóta þess meðan maður hefur hann undir, svona svipað og með Hjörvar!

Vignir sýndi líka úr hveru hann er gerður og svaraði þessari skorpu minni með því að taka 3 í röð (ég fékk alveg að heyra það að ég væri gamall og seinn þar!) og leikar stóðu 5,5-5,5 en þá var ég greinilega búinn að þreyta pjakkinn og náði góðum endaspretti. Leikar standa 7,5-5,5 og sjáum við til hvort það verði framhaldssaga úr þessu einvígi :-)

En já....um síðir komumst við loks í rútu ásamt liðinu frá Eistlandi. Framundan var enn eitt ferðalagið og nú var það allavega tveggja og hálfs tíma keyrslu til Mamaia. Þegar hér var komið við sögu voru flestir orðnir löðrandi úr þreytu og ekki bætti úr skák að vegirnir í Rúmeníu eru ekki upp á marga fiska, mikill hristingur og mikið af svona litlum leiðinlegum hraðahindrunum. Undirritaður var auk þess að glíma við hálsbólgu sem hefur verið þrálát undanfarna viku og versnaði líklega aðeins á öllu ferðalaginu.

Við vorum því gríðarlega feginn þegar loks var komið á hótelið en þa var klukkan vel genginn í 3 um nótt að staðartíma (tímamismunur er 3 tímar). Hótelið okkar heitir Hotel Perla en er því miður eins langt frá því að vera réttnefni og hægt er. Þetta er greinilega gamalt kommúnista hótel og mikið af innréttingum eftir því. Klósett t.d. greinilega frá 70-ogeitthvað í besta falli. Eitthvað af herbergjunum eru greinilega skárri en önnur en nokkrir fengu því miður ansi slæm herbergi en búið er að greiða úr því þegar þessi orð eru rituð. Sem betur fer er staðsetningin nokkuð góð. Stutt er á skákstað og fyrir utan hótel eru veitingarstaðir, kebab og sjoppur. Stutt er síðan á ströndina og í mannlíf og annað. Heilt yfir alveg ágætis staður og margt sem hægt er að gera hér.

 

1. umferð - Batel stjarnan!

 

Fyrsta umferðin fór þokkalega af stað. Flestir tefldu upp fyrir sig nema Vignir sem fékk stigalægri andstæðing.

U8

20170905_145809

Bjartur fékk hvítt á andstæðinga með 1169 stig. Smá stress í byrjun varð til þess að hann gleymdi sér í byrjuninni og tapaði peði. Hann lét það hinsvegar ekkert á sig fá og tefldi vel í framhaldinu og vann sig inn í skákina. Jafnt var orðið á liði og Bjartur kominn með betra tafl þegar hann varð of upptekinn af tilvonandi eigin peðsvinningi að hann gleymdi hótunm andstæðings síns og lenti í lúmskri leppun sem kostaði skákina. Bjartur fær yfirsetu í 2. umferð og kemur vafalítið sterkur inn í næstu umferðir.

 

U10

20170905_145346

Gunnar Erik hafði hvítt á ungverskan andstæðing með 1710 stig. Drottningarpeði var leikið og upp kom Nimzo-indversk vörn. Upp kom lærdómsríkt augnablik þar sem Gunnar hefði líklega best lokað stöðunni með d5 framrás en þess í stað lenti hann í taktík á e4 reitnum þar sem peð féll í valinn (hvítur átti eftir að hróka og leppun á e-línunni yfirvofandi). Gunnar hélt þó áfram að berjast og andstæðingurinn þurfti að hafa mikið fyrir sigrinum en tefldi mjög vel og hafði sigurinn að lokum. Gunnar er mjög yfirvegaður og á eftir að gera góða hluti á motinu.

 

U10 - stelpur

20170905_150015

Batel er í U10 flokki stelpna og fékk mjög erfiða pörun, 3ju stigahæstu stelpuna í flokknum frá Rússlandi! Mikheeva þessi var nýkomin frá Heimsmeistaramóti ungmenna og því komin með reynslu og WCM titil!

Batel var alveg sama um allt slíkt og tefli algjörlega eins og herforingi. Snemma gaf andstæðingur hennar peð sem Batel þáði með þökkum. Því næst var blásið til bullandi sóknar og allt gert eftir forskrift sterks skákmanns.

Mamaia_1_Batel_1

Hér kom leikur umferðarinnar. Batel lék hinum frábæra ...Bxa2!! Sú rússneska þorði ekki að taka þetta og lék Kc1. Ef hvitur tekur með Kxa2 kemur ...Hxc2 og vinnur manninn til baka á d2 ef hrókur valdar en ef hvítur leikur Da3 kemur ...d5! og hvítur er með gjörtapað. Magnaður leikur hjá Batel og hún sýndi jafnfram mikla yfirvegun í framhaldinu og lék fullt af "cool" leikjum.  Sérstaklega hafði ég gaman af yfirveguninni í að leika Hb3+ áður en tekið var á a3. Gegnumbrotið með ...a3 var líka mjög flott...heilt yfir frábær skák hjá Batel sem stimplar sig heldur betur inn á þetta mót!

Batel var í beinni útsendingu í fyrstu umferð en er á 12. borði í annarri umferð en aðeins 10 efstu eru sýndar beint.

 

U14

20170905_145718

Vignir fékk búlgarskan andstæðing með 1967 stig og hafði allan tíman fulla stjórn á stöðunni og betra tafl. Sá búlgarski var þó fyrir í langan tíma og það var aðeins í lokin sem hann gaf eftir og leyfði Vigni að vera "taktískur í dag" og fórna á hann skiptamun og brjótast í gegn. Flott byrjun hjá Vigni sem er á sýningarborði í 2. umferð.

 

U18

20170905_150330

Þeir félagar frá Akureyri Símon og Jón Kristinn tefldu í fyrstu umferðinni gegn erfiðum andstæðingi. Símon fékk hvítt á Þjóðverja með 2357 stig. Semi-Slavi var á borðinu og líklegast misheppnaðist lok byrjunarfasana lítið eitt hjá Símoni sem varð að fórna peði og næsti hluti skákarinnar fór í að reyna að á nægjanlegt spil fyrir peðið. Símon setti smá pressu á andstæðing sinn að finna vörn og átti ýmis trikk í pokahorninu. Sá þýski var hinsvegar vandanum vaxinn, varðist öllu og stýrði svo liðsaflanum til vinnings.

20170905_150246

Jón Kristinn hafði svart á hollenskan FM með 2399 stig. Jón fékk snemma mjög þægilega stöðu með ekkert til að hafa áhyggjur af. Vafalítið stóð hann aðeins betur en erfitt var að gera eitthvað úr þeim yfirburðum. Jokkó tefldi þó til vinnings og var eins og vantaði herslumuninn að hann næði að brjóta andstæðing sinn niður. EFtir góða vörn var sá hollenski svo allt í einu við það að snúa taflinu en þá lenti Jokkó nokkuð öruggri þráskák og gott jafntefli í höfn.

Þeir tefla báðir upp fyrir sig í 2. umferð.

 

Mamaia_rnd1_results

Skákir 1. umferðar eru hér fyrir neðan. Á heimasíðu mótsins vantaði skákir Gunnars Erik og Vignis.

 

Bestu kveðjur frá ströndinni á Mamaia,

Ingvar Þór Jóhannesson


Æsir í Ásgarði hefja vetrarstarfið

Ekki verður annað sagt en að vetrarstarf skáklúbbs Félags eldri borgara hafi farið vel af stað í gær. Á fjórða tug aldinna en þó síungra skákvíkinga voru mættir galvaskir til tafls. Flestir komnir vel undan sumri enda margur hverjir haldið sér í sér í æfingu í öðrum sóknum. Aðrir orðnir mjög langeygðir eftir að þreyta tafl á ný.

Tvöfaldur Íslandsmeistari eldri skákmanna Björgvin Víglundsson reyndist einna sigursælastur og fór létt með að vinna þetta fyrsta mót keppnistímabilsins enda þaulhertur úr hverri þraut eftir að hafa lagst í víking erlendis í sumar leið. Sumir áttu að vonum undir högg að sækja en aðrir náðu að redda sér fyrir horn án þess að bíða mannorðshnekki með óvæntum sigrum þegar mest á reið. Þeir sem þurfa að rétta hlut sinn geta svo teflt í Riddaranum á morgun og hjá Korpúlfum á fimmtudag svo ekki er öll nótt úti, enda rétta að byrja.

Æsir


Og þá eru eftir 64: Jobava og Tari meðal þeirra sem komust áfram

Clipboard04

Í gær lauk fyrstu umferð Heimsbikarmótsins í skák þegar 22 einvígi voru til lykta leidd með styttri umhugsunartíma. Meðal þeirra sem féllu úr leik voru Bassem Amin (á mjög dramatískan hátt), David Howell og Laurent Fressinet. Heimamaðurinn Baadur Jobava kemst áfram eftir lengsta einvígið. Aryan Tari er annar tveggja norðurlandabúa sem komst áfram - eftir sigur á Howell. Hinn er Magnus Carlsen! Önnur umferð hefst kl. 11 í dag. Carlsen mætir þá goðsögninni Alexei Dreev.

Clipboard05

Jobava vann spænska stórmeistarann Ivan Salgado. Þeir eru miklir félagar og eftir einvígið sátu þeir saman og fengu sér rauðvín og osta. Jobava mætir Yu Yangui í dag.

Clipboard010

Mesta dramantíkin átti sér stað í einvígi Bassem Amin og Viktor Erdos. Gefum Peter Doggers á Chess.com orðið:

Clipboard02

Eight matches were decided in the 10+10 rapid games, the most dramatic being Viktor Erdos vs Bassem Amin. After drawing their 25+10 games, Erdos won the first 10+10 convincingly. In the second game he "got excited" (as he said himself) and used two hands to promote to a queen. 

Amin claimed a win, which is understandable since per 1 July 2017 using two hands for a move equals an illegal move, which loses the game in rapid and blitz if the opponent claims or the arbiter steps in. However, at World Cups the same rules are in effect for all time controls, to avoid confusion for the players. Therefore, also in tiebreaks, at the first occurrence an illegal move will lead to a warning and the opponent receives two minutes extra on the clock.

The highly experienced but aging arbiter Faik Gasanov of Azerbaijan needed several minutes to set the clock, which gave Erdos extra time to think about the position. Having in mind Amin's blunder in a winning rook endgame the other day, it was difficult not to feel sorry for him.

Ítarlega frásögn af gangi mála má finna á Chess.com.

Myndir (Maria Emelianova - Chess.com)

 


Haustmót TR hefst í kvöld - teflt í einum opnum flokki - enn opið fyrir skráningu

Haustmót Taflfélags Reykjavíkur 2017 hefst miðvikudaginn 6. september kl. 19.30. Mótið, sem er hið 84. í röðinni, er eitt af aðalmótum vetrarins í reykvísku skáklífi og er jafnframt meistaramót T.R. Mótið er öllum opið og verður reiknað til alþjóðlegra skákstiga. Að þessu sinni verður teflt í einum opnum flokki. Opið er fyrir skráningu fram til kl. 19:15 í kvöld. Hægt er að taka tvær yfirsetur í umferðum 1-6. Biðja þarf um áður en umferðinni á undan lýkur.

Haustmótið fer fram í félagsheimili Taflfélags Reykjavíkur, skákhöllinni að Faxafeni 12. Tefldar verða þrjár umferðir á viku og eru alls níu umferðir.

Lokaumferð fer fram sunnudaginn 24. september en mótinu lýkur formlega með verðlaunaafhendingu miðvikudaginn 27. september þegar Hraðskákmót TR fer fram.

Núverandi skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur er Vignir Vatnar Stefánsson.

Dagskrá:

1. umferð: Miðvikudag 6. september kl. 19.30
2. umferð: Föstudag 8. september kl. 19.30
3. umferð: Sunnudag 10. september kl. 13:00
4. umferð: Miðvikudag 13. september kl.19.30
5. umferð: Föstudag 15. september kl. 19.30
6. umferð: Sunnudag 17. september kl. 13.00
7. umferð: Miðvikudag 20. september kl. 19.30
8. umferð: Föstudag 22. september kl. 19.30
9. umferð: Sunnudag 24. september kl. 13.00

Sjálfkrafa tap dæmist á keppanda sem mætir á skákstað meira en 30 mínútum eftir upphaf umferðar.

Verðlaun
1. sæti kr. 100.000
2. sæti kr. 50.000
3. sæti kr. 25.000
4. og 5. sæti ókeypis í Skákþing Reykjavíkur 2018

Verði keppendur  jafnir að vinningum í efstu sætum verður verðlaunafé skipt eftir Hort-kerfi. Lokaröð keppenda ákvarðast af mótsstigum (tiebreaks).

Röð mótsstiga (tiebreaks):

1. Innbyrðis viðureign 2. Buchholz (-1) 3. Buchholz

Tímamörk:
1 klst og 30 mín á fyrstu 40 leikina. Að loknum 40 leikjum bætast við 15 mínútur. 30 sekúndur bætast við eftir hvern leik alla skákina.

Þátttökugjöld (greiðist með reiðufé við upphaf móts):
3.500 kr. fyrir félagsmenn T.R. 18 ára og eldri (5.000 kr. fyrir aðra).
1.500 kr. fyrir félagsmenn T.R. 17 ára og yngri (2.500 kr. fyrir aðra).

Vinsamlegast mætið tímanlega á skákstað til að staðfesta skráningu og greiða þátttökugjald. Skráningu lýkur 15 mínútum fyrir auglýst upphaf móts, þ.e. 6. september kl. 19.15. 

Skráningarform

Skráðir keppendur


Pörunarnámskeið hefst í dag

Fræðslunefnd SÍ stendur fyrir pörunarnámskeiði dagana sjötta og sjöunda september. Kennt verður sitthvort kvöldið frá 20:00 til um það bil 21:30. Kennslan fer fram í Skáksambandi Íslands að Faxafeni 12. 

Á námskeiðinu verður kennt hvernig nota megi pörunarforritið Swiss-Manager til þess að halda skákmót. 

Nokkrir kennarar verða á námskeiðinu og verður miðað við að hver kennari hafi ekki fleiri en tvo nemendur á sinni könnu svo að kennslan geti verið sem mest einstaklingsmiðuð. 

Þátttakendur þurfa ekki að hafa neinn grunn í að halda utan um skákmót í tölvu.  

Þátttakendur þurfa að koma með eigin fartölvu á námskeiðið. 

Meðal kennara verða Gunnar Björnsson, Björn Ívar Karlsson, Omar Salama og Stefán Bergsson. 

Skákfélög eru hvött til að senda fulltrúa frá sér á námskeiðið. 

Þátttaka ókeypis. 

Skráning á stefan@skaksamband.is.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.7.): 21
  • Sl. sólarhring: 21
  • Sl. viku: 182
  • Frá upphafi: 8778633

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 104
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband