Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2016

Vignir Vatnar sigraði alþjóðlega meistarann

Björn og Vignir
Það var svo sannarlega engin lognmolla í þriðju umferð Skákþings Reykjavíkur sem fór fram í dag og sögðu keppendur hefðbundnum úrslitum stríð á hendur.  Allmikið var um óvænt úrslit og ber þar fyrst að nefna sigur hins unga en margreynda Vignis Vatnars Stefánssonar (2071) á alþjóðlega meistaranum Birni Þorfinnssyni (2418), og það með svörtu mönnunum!  Um snarpa viðureign var að ræða þar sem alþjóðlegi meistarinn treysti á flækjur til að rugla þann unga í ríminu.  Hin flóknu vopn Björns reyndust þó ekki betur en svo að þau snérust í höndum hans enda Vignir öllu vanur í flækjum og taktískum stöðum.  Glæsilegur sigur hjá Vigni Vatnari og það er skemmtilegt að segja frá því að við upphaf umferðarinnar heyrðist því fleygt að það styttist í sigra hjá hinum unga Vigni gegn meisturunum.

Á öðru borði þurfti alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson (2456) að sætta sig við jafntefli gegn norðlendingnum knáa Mikael Jóhanni Karlssyni (2161).  Það má þó deila um hver þurfti að sætta sig við hvað því þegar upp var staðið mátti Guðmundur prísa sig sælan með að halda jöfnu í endatafli hvar hann hafði um tíma hrók og peð gegn biskupi og fjórum peðum Mikaels.

Fleiri athyglisverð úrslit litu dagsins ljós og mátti til að mynda Jón Kristinsson (2240) lúta í gras fyrir Jóhanni H. Ragnarssyni (2008) og þá vann Jóhann Arnar Finnsson (1598) góðan sigur á Eiríki K. Björnssyni (1961) en Jóhann Arnar hefur farið vel af stað.  Þá lagði Héðinn Briem (1546) Dawid Kolka (1897) og aukinheldur voru nokkur jafntefli þar sem nokkur stigamunur var á milli keppenda.

Önnur úrslit á efstu borðum voru þau að stórmeistarinn Stefán Kristjánsson (2471) sigraði Þorvarð F. Ólafsson (2206) og alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson (2455) hafði betur gegn Oliver Aroni Jóhannessyni (2198) og hefndu þeir því fyrir óvænt töp gegn sömu andstæðingum á Skákþingi síðasta árs.  Þá sigraði Guðmundur Gíslason (2307) Einar Valdimarsson (2015) laglega í endatafli.

Þegar þriðjungur er liðinn af móti hafa sex keppendur fullt hús vinninga og ljóst er að nú fara í hönd mikilvægar umferðir sem gefa tóninn fyrir lokasprettinn.  Fjórða umferð fer fram á miðvikudagskvöld og þá mætast á efstu borðum Stefán og Dagur Ragnarsson (2219), Jón Viktor –eigi skal gráta Björn bónda, heldur safna liði og hefna– og Vignir Vatnar, sem og Guðmundur Gíslason og Jóhann H. Ragnarsson.  Á fjórða borði verður svo hörð rimma alþjóðlegu meistaranna Björns og Guðmundar.

Venju samkvæmt hefst taflmennskan klukkan 19.30 og það er vissara að koma og fylgjast með.

Nánar á heimasíðu TR.


IO-námskeið haldið hérlendis um helgina

IO-námskeið
IO-námskeið (International Organizer) var haldið í fyrsta sinn hérlendis um helgina. Fjórir áhugasamir og öflugir skákfrömuðir sóttu námskeiðið en það voru Hermann Aðalsteinsson, Kjartan Maack, Kristján Örn Elíasson og Stefán Bergsson. Allir stóðust þeir prófið, sem lagt fyrir þá að loknu námskeiði, með miklum sóma.

Leiðbeinandi á námskeiðinu var Gunnar Björnsson, einn þriggja Íslendinga sem hafa IO-gráðu Íslendinga en hana hafa einnig Omar Salama og Róbert Lagerman.


Hart barist í fyrstu umferð Nóa Siríus mótsins

Gestamót Hugins
Skemmtilegur andi, hörð barátta og snilldartilþrif settu svip sinn á 1. umferð Nóa Siríus mótsins – Gestamóts Hugins og Breiðabliks – sem hófst sl. fimmtudagskvöld í Skákmusterinu á Kópavogsvelli. Keppendur skerptu einbeitinguna og leikgleðina með ljúfmeti frá Nóa Siríusi og Þorvarður F. Ólafsson kom færandi hendi með nýbakaða heimsmeistaratertu. Úrslitin spegla sterkt mót þar sem jafntefli voru tíð.

Heimsmeistarakaka

Í A-flokki var stigamunur á keppendum nálægt 200 stigum sem er auðvitað uppskrift að miklum sviptingum. Óvæntustu úrslitin voru sigur Hrafns Loftssonar (2164) á FM Davíð Kjartanssyni (2363). Athygli vakti að Björgvin Víglundsson (2203) knúði fram jafntefli gegn stórmeistaranum Þresti Þórhallssyni (2423), Örn Leó Jóhannsson (2157) hélt jöfnu við FM Sigurð Daða Sigfússon (2317), Magnús Teitsson (2143) hélt sínu gegn FM Sigurbirni Björnssyni (2300), Hrannar Arnarsson (2093) og Andri Áss Grétarsson (2287) sættust á skiptan hlut og sömu sögu er að segja af Jóni Trausta Harðarsyni (2059) og Kristjáni Eðvarðssyni (Sérstaka athygli vakti viðureign elsta og yngsta keppandans í A-flokki, hins margreynda kappa Jóns Kristinssonar (2240) og ungstirnisins Vignis Vatnars Stefánssonar (2071) sem skildu jafnir. Önnur úrslit í A-flokki voru eftir bókinni. Í B-flokki bar Kristófer Gautason (1653) sigurorð af Birni Hólm Birkissyni (1962) en önnur úrslit voru á þá leið að sigahærri unnu þá stigalægri.

Dregið hefur verið í 2. umferð og stefnir í margar magnaðar viðureignir.

Nánar á Skákhuganum.


Stórskotaliðið stóð fyrir sínu í annarri umferð Skákþingsins

SÞR2

Jólin voru sprengd í loft upp á sama tíma og önnur umferð Skákþings Reykjavíkur fór vel fram í Faxafeninu að kveldi þrettándans. Flugeldasýningar voru um víðan völl, hvort heldur sem var utandyra eða innandyra á hinum töfrum gæddu 64-reita ferningsborðum.

Líkt og í fyrstu umferð var langstærstur hluti úrslitanna eftir bókinni góðu, sem enginn veit hvenær var skrifuð eða af hverjum, hvað þá heldur hvar hún er niðurkomin. Hinsvegar voru það ungu piltarnir Halldór Atli Krisjánsson (1411) og Hjörtur Kristjánsson (1352) -samt ekki bræður- sem héldu uppi merkjum hins óvænta. Halldór Atli sigraði Jón Úlfljótsson (1794) og Hjörtur gerði slíkt hið sama gegn Óskari Haraldssyni (1784). Báðir eru piltarnir stórefnilegir og sýna það hér með góðum sigrum á mun stigaærri andstæðingum.

Á efsta borði sigraði stórmeistarinn Stefán Kristjánsson (2471) Siguringa Sigurjónsson (1985) og þá höfðu alþjóðlegu meistararnir Guðmundur Kjartansson (2456) og Jón Viktor Gunnarsson (2455) betur gegn Haraldi Baldurssyni (1974) og Lofti Baldvinssyni (1979).

Í þriðju umferð heldur stigamunur keppenda í milli áfram að minnka en þá mætir Stefán Þorvarði F. Ólafssyni (2206), Guðmundur fæst við Mikael Jóhann Karlsson (2161) og Jón Viktor mætir hinum eitilharða Oliver Aroni Jóhannessyni (2198). Svo skemmtilega vill til að Stefán og Þorvarður sem og Jón Viktor og Oliver mættust einnig innbyrðis í þriðju umferð Skákþings síðasta árs þar sem Þorvarður og Oliver unnu báðir nokkuð óvænt. Nú er spurningin, endurtekur sagan sig?

Þá er alls ekki úr vegi að nefna mjög athyglisverða viðureign sem mun fara fram á fjórða borði hvar hinn dúnmjúki alþjóðlegi meistari Björn Þorfinnsson (2418) stýrir hvítu mönnunum gegn engum öðrum en drengnum með ljósu lokkana, Vigni Vatnari Stefánssyni (2071). Sú viðureign verður eitthvað!

Það verður blásið til leiks á sunnudag á slaginu 14:00 og eru áhugasamir hvattir til að mæta og fylgjast með herlegheitunum. Það er alltaf heitt á könnunni hjá Birnu og nóg af gómsæti til að maula.

Nánar á heimasíðu TR.


Skáknámskeið fyrir fullorðna - örfá sæti laus!

Skákakademían í samstarfi við Laugalækjarskóla stendur fyrir skáknámskeiði fyrir skákmenn 16 ára og eldri dagana 9. og 16. janúar. Námskeiðið fer fram í Laugalækjarskóla. Fyrirlesarar verða GM Hannes Hlífar Stefánsson, FM Ingvar Þór Jóhannesson og IM Einar Hjalti Jensson. Hver þeirra mun fjalla um mismunandi efni sem hjálpar mönnum að bæta sig í skáklistinni.

Landsliðseinvaldurinn Ingvar Þór hefur á síðustu árum lagt mikla vinnu í að kynna sér „þekkt mynstur“ í skák. Skilningur á „mynstursþekkingu“ er gríðarlega mikilvægur fyrir skákmenn. Rétt eins og enski skákþjálfarinn og rithöfundurinn Nigel Davies segir: „Mynstursþekking er LEIÐIN til að vita hvað þú átt gera í skák. Það er vonlaust að ætla sér að finna áætlun í skák beint út frá frumreglum eða með því að reikna afbrigði. Þú þarft einhvern tíma áður  að hafa séð hvernig á að bregðast við í stöðum sem þú lendir í og nota þessa þekkingu til að beina þér í rétta átt þegar þú velur þér plan.“

Landsliðsþjálfari kvenna Einar Hjalti hefur á fáeinum árum hækkað um nálægt 200 skákstig og varð fyrr á árinu útnefndur alþjóðlegur meistari. Til að ná þessum árangri lagðist Einar Hjalti í miklar skákstúderingar og hefur tileinkað sér árangurríka aðferðarfræði, ekki síst þegar kemur að byrjanarannsóknum. Einar Hjalti var aðstoðarmaður Þrastar Þórhallssonar stórmeistara þegar sá síðarnefndi tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn árið 2012. Einar mun fjalla um hvaða aðferðir og vinnubrögð virka til að taka framförum í skák. Hann mun útskýra hvernig á að taka hagnýtar ákvarðanir yfir borðinu, stjórna tíma sínum rétt og reikna út afbrigði á réttan hátt. Einnig mun hann kynna til sögunnar mismunandi aðferðir til að bæta byrjanaþekkingu sína.

Hannes Hlífar Stefánsson, margfaldan Íslandsmeistara, í skák þarf ekki að kynna neinum skákáhugamanni. Hannes mun á námskeiðinu fara yfir valdar skákir af atvinnumannaferli sínum sem spannar nú yfir 20 ár.

Kennt er báða laugardagana, 9. og 16. janúar, frá 12:00 – 16:00, með kaffihléum. Kennslan verður í formi fyrirlestra og fá þátttakendur efni fyrirlestrana að námskeiði loknu.

Liðsmenn stórefnilegrar unglingasveitasveitar Laugalækjarskóla, sem sigraði nýlega á Jólamóti Taflfélags Reykjavíkur með fullu húsi, munu einnig sitja námskeiðið.

Námskeiðsgjald: Kr. 13.900. Kaffi og með því innifalið.

Skráning á stefan@skakakademia.is

Sé greitt fyrir 16. desember kostar námskeiðið kr. 9.900.

Leggist inn á reikning Skákakademíunnar: 0101-26-083280, kt. 700608-3280.

ATH: Hámarksþátttökufjöldi miðast við átján.


Örn Leó sigraði á atkvöldi Hugins

Örn Leó unglingameistari Íslands
Örn Leó Jóhannsson og Bárður Örn Birkisson voru efstir og jafnir með 5 vinninga af sex mögulegum á hraðkvöldi Hugins sem fram fór 4. janúar sl. Örn Leó vann Bárð strax í 1. umferð en tapaði svo fyrir Gunnari Rúnarssyni í 5. umferð en var svo mun hærri á stigum eins og oftast er þegar úrslit skipast með þessum hætti.

Næst komu þrír skákmenn með 4 vinninga en það voru Björn Hólm Birkisson, Gunnar Rúnarsson og Dawid Kolka. Eftir stigaútreikning voru Björn og Gunnar enn jafnir en Björn vann inbyrðis viðureign þeirra og þar með þriðja sætið. Örn Leó dró svo Sigurður Freyr Jónatansson í happdrættinu og datt hann í annað skiptið í röð í lukkupottinn.

Næsta skákkvöld verður svo hraðkvöldi mánudaginn 25. janúar nk.

Lokastöðuna má nálgast á Chess-Results.


Guðfinnur í stuði í Stangarhyl í gær

Það mættu 27 skákvíkingar til leiks í Stangarhyl í gær. Sumir í vígahug og til alls líklegir en sumir aðrir  voru slappari og hálfblindir á köflum og uppskeran eftir því. Guðfinnur R Kjartansson vann þetta með stæl og fékk 9 vinninga af 10 mögulegum.

Össur Kristinsson var sá eini sem náði að vinna Guðfinn í gær og fékk 8 vinninga og varð í öðru sæti. Stefán Þormar varð svo í þriðja sæti með 7½ vinning.

Hrafn Jökulsson heiðraði okkur gamlingjana  í gær með því að mæta og tefla með okkur. Hrafn er unglingur miðað við suma okkar,en það var ánægjulegt að fá hann í heimsókn og þökkum við honum kærlega fyrir komuna.

Sjá nánari úrslit í töflu og myndir frá Einari S. Einarssyni.

Æsir 2016-01-05


Pistill Braga: Sýning Björns 2.0 í Bunratty

Muhammad-Ali-ap_1468665c

"If my mind can conceive it, and my heart can believe it—then I can achieve it." Muhammad Ali.

Við bræður héldum galvaskir á alþjóðlegt mót í Bunratty, Írlandi í febrúar sl. Um var að ræða lokaðan GM-flokk , þar sem við ætluðum að spreyta okkur við að næla í eins og einn stórmeistaraáfanga. Það gekk eftir hjá Birni, en snemma varð ljóst að ég myndi ekki leika það sama eftir. Það var því einn galvaskur bróðir sem sneri heim og einn galtómur bróðir. Vegir Caissu eru órannsakanlegir. Flokkurinn var vel mannaður, en má þar helst nefna þrjá Íslandsvini og fastagesti á Reykjavik Open; franska stórmeistarann og nærfatamódelið Sebastian Maze , geðþekka enska stórmeistarinn og vínáhugamanninn Simon Williams, og síðast en ekki síst Portúgalann sultuslaka Louis Galego. Af öðrum þekktum andlitum í flokknum má helst nefna skákskýrandann heimsfræga Lawrence Trent (og nú umboðsmann Caruana) og "írsku vonina" Sam Collins. Sam þessi er hársbreidd frá því að landa stórmeistaratitlinum og yrði  þá fyrsti "hreinræktaði" Írinn sem að myndi hreppa þann titil. Heimamennirnir bundu vonir við að Sam myndi sigla þessu í hús á heimavelli, en það var aldrei að fara að gerast á vakt okkar bræðra. Skemmst er frá því að segja að ég og Bjössi unnum hann báðir og gerðum drauma Írana að engu. Um leið gerðum við vonir okkar um að verða boðnir aftur á mótið að ári að engu.

Bræður Bragi og Björn

 

Við bræður dvöldum í 250 fermetra húsi sem var skammt frá skákstað og það fór afskaplega vel um okkur. Andinn yfir mótinu var léttur og afslappaður, enda allir í flokknum vinir og kunningjar. Þó var ekkert gefið eftir á skákborðinu og hart barist á köflum.  Ein skondin uppákoma átti sér stað þegar sjálfur skákstjórinn var ekki mættur á réttum tíma í eina morgunumferðina. Hann hafði víst verið að spila póker of lengi kvöldið áður! Menn voru ekki mikið að stressa sig á þessu, enda stemningin létt og menn léttir á því og þá heyrðist í rámri rödd Portúgalans "We don´t need him" sem voru orð að sönnu og taflmennskan hófst.

Ýmsar fleiri skemmtilegar uppákomur áttu sér stað í ferðinni. Einn daginn fengum við óvæntan gest í húsið, en þar var á ferðinni enski stórmeistarinn Bogdan Lalic. Hann mætti á svæðið á því miður heppilega augnabliki þegar ég var að stíga úr sturtunni.  Aldrei á ævinni hef ég öskrað jafn hátt. Ég, Bjössi og "Boggie" eins og hann er kallaður af enska skáksamfélaginu, áttum eftir að verða miklir mátar þegar leið á mótið. Það var gaman að hlusta á hann ræða skák, skákmálefni og kolsjúkar samsæriskenningar af mikilli þekkingu og innsæi. "Góða nótt Bjössi" og "goodnight Boggie" áttu eftir að verða lokaorð mín á kvöldin, eins og ekkert væri eðlilegra. 

Fleira óvenjulegt átti sér stað. Einn morguninn, þegar ég staulaðist niður stigann, til að hita mér kaffi þá lá fullvaxinn, temmilega loðinn karlmaður makindalega í sófanum í stofunni. Það kom mér furðulega lítið á óvart, það var líkt og að hið óvænta og ófyrirséða væri orðið af hinu hefðbundna og hversdagslega í þessari ferð. Ég vakti einfaldlega Bjössa, og tilkynnti honum að það væri maður sem lægi sofandi í sófanum okkar, í sama tón og ég hefði tilkynnt honum að kaffið væri tilbúið. Bjössi var á þessum tíma líklega í besta formi lífs síns eftir heljarinnar líkamsræktarátak með Stebba Bergs fyrir ferðina. Hann var tilbúinn í hvað sem er. Ég var hinsvegar tilbúinn til að skvetta heitu kaffi á óboðna gestinn. Við vöktum síðan manngarminn, sem vissi ekki hvaðan á hann stóð veðrið. Hann hafði verið á einhverju skralli daginn áður, og farið húsavillt og sófavillt. Við gerðum góðlátlega grín af þessu og síðan hypjaði hann sig í burtu. Tók reyndar jakkann hans Bjössa í leiðinni, en við höfðum upp á honum síðar um daginn og hann baðst afsökunar á tilvist sinni og skilaði jakkanum.

En já, þessi pistill átti að vera um skákmót. Víkjum þá að mótinu sjálfu, og þætti Björns Þorfinnssonar. Það er skemmst frá því að segja að drengurinn gekk berserkgang í mótinu, tefldi af fádæma öryggi og krafti. Það var eins og írska loftið hefði gert hann að öðrum skákmanni, Bjössa 2.0, eins og það hefði fært honum þá yfirvegun og þolinmæði, sem honum hefur hingað til skort til að springa út sem skákmaður. Þarna small allt saman hjá honum og BÚMM, lokaniðurstaðan laug engu, 7 vinningar af 9 mögulegum, heilum tveimur vinningum á undan næsta manni. Mér er til efs að stigalægsti skákmaðurinn í flokki sem þessum, hafi nokkru sinni sigrað með slíkum yfirburðum. Sérstaklega vöktu öruggir og mikilvægir sigrar hans með svörtu gegn Lawrence Trent og Sebastian Maze mikla lukku í herbúðum okkar. Þegar áfanginn var í höfn fögnuðum við sem einn maður.

Sjálfur átti ég ekki mitt besta mót. Ólíkt Birni þá byrjaði ég ekki af krafti, komst því ekki í gírinn og náði því ekki upp því nauðsynlega sjálfstrausti sem þarf til vera í baráttu um að ná gm-áfanga. Skákin snýst að svo mörgu leiti um það hvernig þú er stemmdur, hún er alltaf prófsteinn á andlegt ástand manns, og það er alltaf þannig að þér líður betur þegar þú vinnur og það gengur vel og þannig leiða góð úrslit gjarnan af sér enn frekari góð úrslit. Ég tek ekkert fyrir þessar djúpu hugleiðingar. 

Minnisstæð og skemmtileg ferð hjá okkur bræðrum og frammistaða Bjössa kórónaði veisluna síðan endanlega. Við stefnum á að fara saman í aðra skákferð einhvern tímann á árinu 2016.  Bjössi er nú þegar farinn að hlakka til. En að að lokum kemur hér skák mín gegn Sam Collins.

Bragi Þorfinnsson.

 


Atkvöld hjá Hugin í kvöld

Fyrsta skákkvöld ársins hjá Huginn verður mánudaginn 4. janúar 2015 en þá verður atkvöld.og hefst mótið kl. 20:00. Fyrst eru tefldar 3 hraðskákir þar sem hvor keppandi hefur 5 mínútur til að ljúka skákinni og síðan þrjár atskákir, með fimmtán mínútna umhugsun. Teflt er í félagsheimili Hugins í Álfabakka 14a í Mjóddinni.

Sigurvegarinn á atkvöldinu fær í verðlaun máltíð fyrir einn á Saffran eða pizzu frá Dominos. Einnig verður dreginn út af handahófi annar keppandi sem fær sama val. Þar eiga allir jafna möguleika, án tillits til árangurs á mótinu.

Þátttökugjöld eru kr. 300 fyrir félagsmenn (kr. 200 fyrir 15 ára og yngri) og kr. 500 fyrir aðra (kr. 300 fyrir 15 ára og yngri).


Skákþing Reykjavíkur hafið – Miklir meistarar meðal þátttakenda

Jón Kristinsson
Í dag hófst í 85. sinn Skákþing Reykjavíkur en teflt er í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur að Faxafeni. Björn Jónsson formaður félagsins setti mótið og í kjölfarið hófu keppendur leik á reitunum köflóttu. Mótið er vel skipað keppendum á öllum aldri og af öllum getustigum. Hátt í tuttugu keppendur hafa meira en 2000 Elo-stig, þeirra stigahæstur stórmeistarinn Stefán Kristjánsson (2471). Næstir Stefáni koma alþjóðlegu meistararnir Guðmundur Kjartansson (2456), Jón Viktor Gunnarsson (2455) og Björn Þorfinnsson (2418). Allir hafa þeir borið krúnu Reykjavíkurmeistara, Jón Viktor þeirra oftast eða sex sinnum, en hann er meistari síðustu tveggja ára og getur með sigri í mótinu jafnað met stórmeistarans Þrastar Þórhallssonar sem hefur unnið titilinn oftast allra, eða sjö sinnum.

Þá er það sérstakt ánægjuefni að sjá gamla brýnið Jón Kristinsson (2240) á meðal þátttakenda en 55 ár eru síðan hann tók þátt á sínu fyrsta Skákþingi og alls hefur hann sex sinnum orðið Reykjavíkurmeistari. Það var hinn ungi Aron Þór Mai (1714) sem fékk það hlutskipti í fyrstu umferð að eiga við hinn reynda meistara.

Bárður Örn Birkisson sýndi Freyju litlu systur enga miskunn. “Góður við yngri systkini” á ekki við í alvöru skákmótum.

Afar athyglisvert er að rýna í keppendalistann en þar á meðal eru margir af yngstu og efnilegustu skákmönnum þjóðarinnar sem vafalaust eiga eftir að bæta töluverðu við sig á Skákþinginu í baráttunni við sér sterkari og reyndari andstæðinga.

Eins og gengur var stigamunur á milli keppenda mikill í fyrstu umferð og úrslit því almennt þau að hinn stigahærri sigraði þann stigalægri ef frá er skilinn óvæntur sigur Róberts Luu (1502) á Jóni Trausta Harðarsyni (2059). Þá lauk þremur viðureignum með jafntefli eða á milli Jóhanns Arnars Finnssonar (1598) og Björgvins Víglundssonar (2203), Arnar Leós Jóhannssonar (2157) og Ingvars Egils Vignissonar (1530) sem og Stephans Briem (1360) og Þórs Valtýssonar (1980). Á efstu borðum sigraði Stefán Jón Úlfljótsson (1794), Guðmundur vann Sigurjón Haraldsson (1791) og Jón Viktor lagði Óskar Haraldsson (1784).

Önnur umferð fer fram á miðvikudagskvöld og hefst klukkan 19.30 en þá mætast m.a. Stefán Kristjánsson og Siguringi Sigurjónsson (1985), Haraldur Baldursson (1974) og Guðmundur Kjartansson, sem og Jón Viktor og Loftur Baldvinsson (1979).

Nánar á heimasíðu TR.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.9.): 14
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 124
  • Frá upphafi: 8780628

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 100
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband