Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Friðriksmótið í Vin á mánudag!

5 Rafmögnuð spenna í Vin
Vinaskákfélagið og Hrókurinn bjóða til Friðriksmótsins í Vin, mánudaginn 27. janúar klukkan 13. Friðriksmótið í Vin er haldið í tilefni af Skákdegi Íslands. Það var fyrst haldið í fyrra og þá fór Helgi Ólafsson stórmeistari með sigur af hólmi, og var sjálfur Friðrik meðal keppenda.

Tefldar verða 6 umferðir með 7 mínútna umhugsunartíma og er þátttaka ókeypis. Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin og í leikhléi er boðið upp á gómsætar veitingar einsog jafnan í Vin.

Skáklífið í Vin blómstrar sem aldrei fyrr um þessar mundir. Þar er teflt daglega, reglulega er efnt til stórmóta og annarra viðburða, auk þess sem Vinaskákfélagið er í eldlínunni á Íslandsmóti skákfélaga. Allir eru hjartanlega velkomnir í Vin!

Gleðilegan Skákdag!

Friðrik og NansýSkák.is óskar skákmönnum um allt land til hamingju með Skákdaginn. Afmælisbarnið, Friðrik Ólafsson, fær sérstakar hamingjuóskir en hann á afmæli í dag enda Skákdagurinn haldinn til heiðurs honum. Mikið hefur verið um að vera í skáklífi landans og verður áfram í dag og næstu vikur.

Af viðburðum í dag má nefna:

  • Sjöunda umferð Skákþings Reykjavíkur verður tefld í Skákhöll TR-inga.
  • Opið hús hjá Skákfélagi Akureyrar og keppni milli Lundarskóla og Brekkuskóla.
  • Víkingar tefla Víkingaskák á Classic Rock.
  • Ungir skákmenn skora á pottverja í sundlaug Breiðholts kl. 10:30.
  • Íslandsmót stúlkna fer fram í Skáksambandinu.

Skákmenn eru hvattir til að taka upp taflið hvar sem er í dag. Senda má skemmtilegar myndir á ritstjóra í frettir@skaksamband.is

 


Rimaskóli Íslandsmeistari grunnskólasveita í stúlknaflokki

 

IMG 3512

 


Rimaskóli sigraði á Íslandsmóti grunnskólasveita í stúlknaflokki sem fram fór í dag í Rimaskóla. Þetta var í tíunda skipti sem skólinn vinnur keppnina á síðustu tólf árum og í fjórða skipti í röð. Sigurinn í ár var þó verulega tæpur en aðeins munaði hálfum vinningi á Rimaskóla og Álfhólsskóla sem varð í öðru sæti. Mjög litlu munaði að skólarnir yrðu jafnir og þá hefði komið til aukakeppni.

 

P1010027

 

Melaskóli tók þriðja sætið mjög óvænt. Í lokaumferðinni vannst stórsigur, 4-0, á Breiðholtsskóla. Jöfn Melaskólasveitinni í þriðja sæti en lægri á stigum var sveit Salaskóla.

Alls tóku 16 sveitir þátt sem er næstbesta þátttakan í sögu mótsins. Það var ánægjulegt að sjá skóla koma utan höfuðborgarsvæðisins en grunnskólarnir í Grindavík og Hellu tóku þátt í mótinu. Árangur Breiðholtsskóla vakti einnig athygli, en fjölmargar stelpur í unglingadeild eru í skákvali í  tvo tíma á viku.

 

P1010023

 

Bros var á hverju andliti og leikgleðin í fyrirrúmi.

Stelpuskákinni um helgina er engan veginn lokið með þessu móti. Á morgun fer fram Íslandsmót stúlkna (fæddar 1998 og síðar) í húsnæði Skáksambandsins, Faxafeni 12. Mótið hefst kl. 11. Hægt er að skrá sig til leiks hér og upplýsingar um þegar skráða keppendur má finna hér. Stúlkur eru hvattir til að skrá til leiks!

Sigursveit Rimaskóla

  1. Nansý Davíðsdóttir
  2. Heiðrún Anna Hauksdóttir
  3. Tinna Sif Aðalsteinsdóttir
  4. Ásdís Birna Þórarinsdóttir

Liðsstjóri var Hrund Hauksdóttir

Silfursveit Álfhólsskóla

 

P1010076

 

  1. Ásta Sóley Júlíusdóttir
  2. Sonja María Friðriksdóttir
  3. Tara Sóley Mobee
  4. Vigdís Lilja Kristjánsdóttir

Liðsstjóri var Lenka Ptácníková

Bronssveit Melaskóla

P1010064

  1. Svava Þorsteinsdóttir
  2. Katrín Kristjánsdóttir
  3. Helga Xialan Haraldsdóttir
  4. Vigdís Selma Sverrisdóttir

Liðsstjóri var Þorsteinn Stefánsson.

Borðaverðlaun hlutu:

 

P1010061

 

  1. Nansý Davíðsdóttir (Rimaskóli)
  2. Sonja María Friðriksdóttir (Álfhólsskóli)
  3. Tara Sóley Mobee (Álfhólsskóli)
  4. Ásdís Birna Þórarinsdóttir (Rimaskóli)

Lokastöðuna má finna á Chess-Results.

Mótstjóri var Stefán Bergsson og mótsstjórn var í höndum Stefáns og Gunnars Björnssonar.

Myndaalbúm (SSB og GB)


Skákheimsókn á Suðurland

 

P1000973
Það má með sanni segja að skáklíf á Suðurlandi hafi verið í sókn síðustu misserin, og fjöldinn allur af öflugu fólki lagt sitt af mörkum. Fischer-setrið var formlega sett á laggirnar síðasta sumar. Með tilkomu safnsins varð til ákveðin skákmiðstöð á Selfossi; í setrinu hefur hið kraftmikla félag SSON aðsetur sitt jafnframt því að Helgi Ólafsson kennir þar hvern laugardag á námskeiðum Skákskóla Íslands

 

Skákkennsla í grunnskólunum hefur einnig aukist mikið, ekki síst á Hellu þar sem Björgvin Smári Guðmundsson sér um kennsluna. Skákkennslan á Hellu er kennd í hringekjuformi, svokölluðu SNS: stærðfræði, nýsköpun, skák. Fer vel á því að þessar greinar eru kenndar saman þar sem ætla má að þær reyni á svipaða þætti hugans eins og ímyndunarafl og rökhugsun.

 

P1000970

 

Í tilefni Skákdagsins, sem er á sunnudaginn, fór Stefán Bergsson í heimsókn á Hellu í fyrradag og tefldi fjöltefli við 54 nemendur skólans.  Fjölteflið gekk vel í alla staði og ljóst var að nemendur kunnu allmikið fyrir sér margir hverjir, enda fór svo að þrír þeirra lögðu Stefán og tveir náðu jafntefli. Grunnskólinn á Hellu mun taka þátt á Íslandsmóti grunnskólasveita í stúlknaflokki sem fer fram á morgun og er sú þátttaka mikið fagnaðarefni.

 

P1000986

 

Í gærmorgun var svo förinni heitið aðeins lengra, til Hvolsvallar, í Hvolsskóla. Alþjóðlegi meistarinn og ökuþórinn Jón Viktor Gunnarsson slóst með í för. Eftir ansi athyglisverða ferð yfir Hellisheiði, sem var lokað skömmu síðar vegna stórhríðar, tefldu Jón Viktor og Stefán fjöltefli við rúmlega 30 nemendur skólans. Þó nokkur skákáhugi er í skólanum og fullt tilefni til að taka upp reglulega skákkennslu. Stefán varð klossmátaður í einni skákinni en Jón Viktor sýndi ungdómnum litla miskunn. Svo virðist þó sem hann hafi orðið eitthvað meyr í heita pottinum þar sem hann bauð Ísólfi Gylfa Pálmasyni jafntefli í ákjósanlegri stöðu. Sveitastjórinn hældi Jóni fyrir drenglyndi sitt og tefldi svo við unga nemendur sem höfðu kíkt í pottinn. Ísólfur Gylfi sýndi að hann er ágætis skákmaður, lærði að tefla af ömmu sinni fæddri 1889 og bað að lokum kærlega að heilsa Friðriki Ólafssyni, sem hann bar mikið lof á.

 

P1000993

 

Á heimleið var komið við á Selfossi og Hveragerði og þeim laugum færð sundlaugarsett. Nú má því tefla víð í heitum pottum Suðurlands.Fullar forsendur eru fyrir áframhaldandi vexti í skáklífi Suðurlands.

Myndaalbúm 


Kappteflið um Friðrikskónginn - Gunnar Gunnarsson vann fyrsta mótið

Gunnar GunnarssonFyrsta umferð mótaraðarinnar um Taflkóng Friðriks fór fram sl. fimmtudag í Gallerý Skák og voru margir  öflugir meistarar mættir til leiks. „Hart var barist og hart var varist"  eins og vænta mátti og mikil og góð stemming á mótsstað eins og jafnan þegar er gamlir kunningjar og keppinautar koma saman í bland við nýja.  

Keppnin er haldin í tengslum við „ Skákdaginn" eða vikuna sem hefst formlega á morgun 26. janúar á afmælisdegi meistarans Friðriks Ólafssonar, fyrsta stórmeistara Íslendinga.

Svo fór að að lokum að aldursforsetinn Gunnar Kr. Gunnarsson varð efstur að stigum með 8 vinninga af 11 mögulegum Björgvin Víglundsson var jafn honum að vinningum en hlaut 8 stig fyrir annað sætið en Gunnar 10. Guðfinnur R. Kjartansson leiddi mótið lengst af, en hann gerði sér lítið fyrir og vann bæði Gunnar og Björgvin en tapaði óvænt í lokaumferðinni fyrir Árna Thoroddsen, hinum öfluga umsækjanda um útvarpsstjóraembættið.  Þvgaller_sk_k-_vettvangsmynd_23_01_2014_25_1_2014_00-38-11.jpg verður að teljast að Árni hafi sett mark sitt á mótið með eftirminnilegum hætti.

Þrjú bestu mót hvers keppanda af fjórum telja til stiga og vinnings og þátttaka í tveimur mótum þarf til að teljast með. Skákkvöldin í Gallerýinu hefjast kl. 18 öll fimmtudagskvöld og þau eru öllum opin - óháð aldri eða félagsaðild.

Á meðf. mótstöflu má sjá úrslit mótsins nánar  og stigastöðuna eftir fyrsta mótið af fjórum:

 

2014_gallery_portrait2.jpg

 

 


Víkingaklúbburinn heldur Friðriksmótið í tilefni Skákdagsins

Víkingaskákmenn halda upp á skákdaginn mikla með pompi og prakt á veitingastaðnum Classic Rock við Ármúla sunnudaginn 26. janúar kl 16.00.  Tefld verður Víkingahraðskák.   Skákdagurinn mikli er haldin til heiðurs fyrsta stórmeistara Íslendinga Friðrik Ólafsyni. 

Sigurður einn efstur á Skákþingi Akureyrar

Sigurður EiríkssonÍ gærkvöldi fór fram 4. umferð Skákþings Akureyrar. Allar skákirnar voru frá 32 til 38 leikir. Fyrstir til að ljúka sinni skák voru Símon Þórhallsson og Tómas Veigar. Hafði Símon hvítt og upp kom kóngindversk vörn. Tómas fór í vafasamt drottningaflan og át eitrað peð í 17. leik. Við það lokaðist drottningin inni og varð hann að gefa hana fyrir hrók. Úrvinnslan var fumlaus hjá Símoni og gafst Tómas upp í 32. leik.

Í skák Andra og Sigurðar var þung undiralda. Andri lék ónákvæmt í seinni hluta miðtaflsins og það nýtti Sigurður sér vel. Peðastaða Andra var viðkvæm og þau tóku að falla hvert á fætur öðru uns Andri gafst upp í 38. leik.

Hjörleifur hafði hvítt gegn Jóni og tefldu þeir lokaða afbrigðið af Sikileyjavörn. Hjörleifur tefldi nokkuð passíft og nýtti Jón sér það vel. Hann skipti upp á virku mönnum hvíts og bætti stöðu sína jafnt og þétt. Að lokum reiddi hann hátt til höggs og hvíta staðan hrundi.  Hvítur gafst upp í 36. leik. Mjög vel teflt hjá Jóni.

Í skák Rúnars og Haraldar kom einnig upp lokaða afbrigði Sikileyjavarnar eða kóngindversk árás. Svartur náði frumkvæðinu og tefldi stíft til vinnings en Rúnar stóðst atlöguna vel og þeir sættust á skiptan hlut í 37. leik.

Skák Loga og Jakobs var í jafnvægi allan tímann. Þeir sömdu jafntefli í 37. leik þegar sýnt þótti að hvorugur kæmist neitt áfram.

Eftir úrslit dagsins leiðir Sigurður Eiríksson mótið með fullt hús stiga og hálfan vinning í forskot á Jón Kristinn og Harald.


Guðmundur sigrar með fullu húsi

Guðmundur Gunnarsson var öruggur sigurvegari á Atskákmóti Skákfélags Sauðárkróks sem lauk nú í vikunni. Gerði Guðmundur sér lítið fyrir og sigraði alla andstæðinga sína og hlaut 7 vinning. Í öðru sæti varð Jón Arnljótsson með 5½ vinning og þriðji Unnar Ingvarsson með 5 vinninga. Alls tóku 8 skákmenn þátt í mótinu.

Næsta þriðjudagskvöld hefst meistaramót félagsins. Teflt verður eftir tímamörkunum 1:30 klst + 30 sec á leik. Mikilvægt er að skrá sig til leiks á mótið, sem verður 5 umferðir, sem tefldar verða næstu þriðjudagskvöld.

Heimasíða Skákfélags Sauðárkróks


Stúlknamót um helgina

Íslandsmót grunnskólasveita 2014 - stúlknaflokkur

Íslandsmót grunnskólasveita 2014 - stúlknaflokkur fer fram laugardaginn 25. janúar nk. í Rimaskóla, Reykjavík.

Hver skóli má senda fleiri en eina sveit.  Hver sveit er skipuð fjórum keppendum (auk varamanna).  Mótið hefst kl. 12  og tefldar verða 7 umferðir með 10 mínútna umhugsunartíma.

Skráning fer fram hér. Upplýsingar um skráðar sveitir má nálgast hér.

Íslandsmót stúlkna 2014 - einstaklingskeppni

Íslandsmót stúlkna 2013 - einstaklingskeppni fyrir stúlkur á grunnskólaaldri fer fram, á sjálfan Skákdaginn, sunnudaginn 26. janúar nk. í Skáksambandi Íslands, Faxafeni 12 og hefst kl. 11.

Veitt verða verðlaun í tveimur flokkum.

Fæddar 1998-2000.

Fæddar 2001 og síðar.

Tefldar verða 10 mínútna skákir - umferðafjöldi fer eftir fjölda þátttakenda.

Samhliða mótinu verður tefld Peðaskák sem er ætlað ungum keppendum sem hafa nýlega byrjað að tefla.

Skráning fer fram hér. Upplýsingar um skráðar keppendur má nálgast hér.

Skráningar í bæði mót þurfa að berast í sl. 24. janúar nk. fyrir hádegi.


Bragi og Björgvin efstir á Nóa Síríus mótinu

Guðmundur og Bragi - hver er í speglinum?Alþjóðlegu meistararnir Bragi Þorfinnsson (2454) og Björgvin Jónsson (2340) eru efstir með fullt hús að lokinni þriðju umferð Nóa Síríus-mótsins - Gestamóts GM Hellis og Breiðabliks sem fram fór í kvöld í Stúkunni í Kópavogi. Bragi vann Guðmund Gíslason (2316) en Björgvin hafði betur gegn Halldóri Grétari Einarssyni (2190) í maraþonskák. Þorsteinn Þorsteinsson (2243) gerði sér lítið fyrir og lagði stórmeistarann Þröst Þórhallsson (2445) í hörkuskák.Björgvin og Halldór í mjög þungum þönkum

Átta skákmenn hafa 2½ vinning og ljóst að allt getur gerst á mótinu.

Sem fyrr var töluvert um óvænt úrslit. Þröstur Árnason (2267) heldur áfram að gera góða hluti og gerði jafntefli við Dag Arngrímsson (2381) en í annarri umferð vann hann Karl Þorsteins. Björgvin S. Guðmundsson (1914) gerði jafntefli við Lenku Ptácníková (2245) og Vignir Vatnar Stefánsson Hallgerður, Elsa og Vignir(1800) sýndi hvers hann er megnugur í endatöflum með sigri gegn Baldri A. Kristinssyni (2181).

Næsta umferð

Fjórða umferð mótsins fer fram nk. fimmtudagskvöld. Þá mætast meðal annars: Bragi-Björgvin, Elvar-Stefán, Davíð-Jón Viktor, Þröstur Á-Björn og Þorsteinn-Dagur A.

  

« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 28
  • Sl. viku: 169
  • Frá upphafi: 8779107

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 105
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband