Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Hjörvar vann auðveldlega - tvöfaldur stórmeistaraáfangi í hús !

 

Hjörvar Steinn Grétarsson

 

Hjörvar Steinn Grétarsson (ELÓ-stig 2452) var rétt í þessu að vinna Skotann Graham Morrison (ELÓ-stig:2339) í lokaumferðinni á EM landsliða í Grikklandi. Aðrir liðsmenn Íslands sitja enn að tafli.

Þetta þýðir að Hjörvar, sem tryggði sér alþjóðlegan titil eftir sjö umferðir, er kominn með tvo áfanga að stórmeistaratitli og þarf því bara einn slíkan í viðbót og að komast yfir 2500 stig, til að verða útnefndur stórmeistari í skák.  Hjörvar mun hækka um c.a. 20 Eló-stig í mótinu sem er að klárast.


EM-pistill nr. 10: Mikilvæg skák Hjörvars - Helgi gæti unnið til verðlauna

Við töpuðum 1-3 fyrir ólympíumeisturum Úkraínu í hörkuviðureign í áttundu og næstsíðustu umferð.

Hjörvar Steinn Grétarsson heldur áfram að eiga frábært mót og gerði nú jafntefli við stórmeistarann sterka Pavel Eljanov.  Hjörvar fékk jafnteflisboð frá Eljanov, náði í skákstjóra til að fá leyfi til að ræða við Helga sem var að tefla. Helgi sagði honum að hann ætti að ákveða sjálfur. Hjörvar hafnaði jafnteflisboði Eljanovs en bauð síðar jafntefli nokkrum leikjum síðar þegar hann sá ekki vænlegt framhald. Því var tekið. Hjörvar hefur teflt við tvo ofurstórmeistara á mótinu og hefur fengið 1,5 vinning úr þeim skákum en hann vann Shirov í fyrstu umferð.

Helgi Ólafsson gerði svo jafntefli við Efimenko eftir að hafa mjög vænlegt tafl. Henrik Danielsen og Bragi Þorfinnsson tefldu einnig hörkuskákir.  Bragi tapaði fyrir Moiseenko en Henrik var mjög nærri því að halda jafntefli gegn Ponomariov á fyrsta borði. Vantaði meiri tíma eftir 60 leiki, erfið staða með 30 sekúndur á hvern leik.

Íslenska liðið mætir Skotum í lokaumferðinni í dag.  Vinni Hjörvar sína skák nær hann sínum fyrsta stórmeistaraáfanga.  Og ekki nóg með það heldur samsvarar stórmeistaraáfangi á EM landsliða tveimur stórmeistaraáföngum svo Hjörvar þyrfti aðeins 2 áfanga en ekki 3 eins og hefðbundið er. Þetta er væntanlega langmikilvægasta skák sem Hjörvar hefur nokkurn tíma teflt. Aðeins tveir dagar síðan alþjóðlegi meistaratitilinn kom í hús. Hjörvar mætir Graham Morrison (2339) sem er sýnd veiði en ekki gefin. Hann vann m.a. danska stórmeistarann Allan Stig Rasmussen (2541) og gerði jafntefli við Jón Viktor á EM landsliða 2009.

Helgi hefur 3,5 vinning í 4 skákum og vinni hann á morgun hefur hann góðan möguleika á að vinna verðlaun sem besti varamaður mótsins.  Helgi er með sjöttu bestu frammistöðu allra á mótinu sem af er og er með næstbestan árangur varamanna á eftir Frakkanum Christian Bauer. Helgi þarf nauðsynlega að vinna og treysta á að Bauer vinni ekki Spánverjann Miguel Illescas.

Íslenska liðið hefur 6 stig og er í 30. sæti. Aðeins Svíar eru ofar af Norðurlandaþjóðunum. Það var sérstakt í gær að horfa á norrænu liðin Ísland, Danmörk og Finna vera í einni röð í næstsíðustu umferð og mæta Úkraínu, Ísrael og Englandi. Ég var skákstjóri í hinum viðureignunum og þar steinlágu frændur okkur báðir 0,5-3,5. Báðum einvígunum var lokið innan fyrstu tímamarka svo þetta voru slátranir. Svíar máttu svo teljast heppnir að sleppa 2-2 gegn Svartfellingum. Norðmenn gerðu einnig jafntefli við Litháen

Svíar hafa 8 stig (16,5 v.), Íslendingar, Danir og Norðmenn hafa 6 stig. Við höfum 14 vinninga en hinar tvær hafa 13 vinninga. Finnar reka lestina með 5 stig.

Allar Norrænu sveitirnar tefla niður fyrir í lokaumferðinni nema Svíar sem mæta Georgíumönnum. Danir mest en þeir tefla við lökustu sveitina, Kýpverja, sem hefur aðeins hlotið 1 stig.

Spennan á toppnum er gífurleg. Armenar og Þjóðverjar eru efstir með 13 stig.  Armenar unnu Hollendinga og Þjóðverjar unnu óvæntan sigur á Aserum.  Armenar hafa hins vegar fleiri vinninga.  Báðum liðum dugir sigur í viðureigninni til að verða Evrópumeistari.  Armenum gæti dugað jafntefli 2-2. Verði jafntefli geta hins vegar Aserar náð efsta sætinu með 3-1 eða stærri sigri gegn Rúmenum. Spennan er hreint út mjög mikil!

Á staðinn er mættur Daninn Per Andreasen sem margir þekkja vel. Gamall liðsstjóri danska liðsins en kemur hingað á staðinn sem túristi. Mjög skemmtilegur náungi sem er alltaf með skemmtilega brandara.

Á svona mótum ná menn ákveðnum rútínum. Ég reyni að taka í hendur liðsmanna í upphafi hverrar umferðar og fannst Braga það mjög mikilvægt að halda þeirri rútínu í gær þar sem vel hafði gengið. Það gekk ekki upp í gær.

Í gær mættust Lettland og Spánn. Shirov hafði hvítt gegn Svesnikov og var umferðin vart hafin áður en Lettarnir sömdu um jafntefli.

Ég hef svolítið verið að fylgjast með skákmönnunum og þeim í háttum. Topalov er fagmaður fram í fingurgóma. Kemur alltaf óaðfinnanlega klæddur til leiks. Gefur honum respekt. Sumir eru hins vegar ósnyrtilegar klæddir og má þar t.d. nefna Grischuk.

Ég var með viðureign Ísrael í gær. Sutovsky er hrikalega vanafastur og ég sé að hann gekk alltaf sömu leiðina fram og aftur og snéri við á sama stað. Sargassian hefur einnig skemmtilega takta þegar hann gengur um og horfir snöggt og ákveðið á andstæðinginn á meðan. Giri sveiflar peði fram og aftur. Sá hollenski átti ekki mikið í Aronian að gera í gær. Armeninn hafði meira en 1:30 eftir þegar skákin var búin. Ótrúlegur skákmaður.

Ivanchuk kíkti við í gær. Hann keypti skákbækur og taflborð af Erderley bóksala frá Ungverjalandi sem mætti í gær. Skoðaði bók um Petroff og var greinilega ekki sammála að öllu leyti. Hann kom svo inn í skáksal og rétt kíkti á viðureign Rússanna. Það var ekki fyrr en löngu síðar en kíkti á samlandana að eiga við Íslendinga.

Úkraína mætir Englendingum í dag. Pörun Englendinga hefur verið með ólíkindum á mótinu. Gengur ekki vel en tekst iðulega að fá sterkar sveitir um miðbik mótsins og ná þar að leiðindi aldrei að skjóta sér upp.

Minni á myndaalbúm mitt á Facebook. Bætti við slatta af myndum í gær og fleiri koma í kvöld. http://www.facebook.com/media/set/?set=a.10150389656533291.379373.731303290&type=1&l=736f9bda12

Umferðin byrjar kl. 13 (11 á Íslandi). Lokahófið er kl. 21. Við eigum flug kl. 6:30 og mun rúta sækja okkur niður kl. 3 í næstu nótt Ekki verður því mikill tími að gera sér glaðan dag að loknu móti. Bræðurnir halda til Englands þar sem þeir tefla. Við hinir verðum mættir kl. 16 á laugardag fyrir       þá sem við vilja taka á móti okkur.

Lokapistill verður að öllum líkindum ekki fyrr en á sunnudag.

Kveðja frá Porto Carras,
Gunnar


Viðureign dagsins: Skotland

Íslenska sveitin mætir Skotlandi í 9. og síðustu umferð EM landsliða sem fram fer í dag og hefst kl. 11.  Bragi Þorfinnsson hvílir hjá okkar mönnum.

Hjörvar Steinn Grétarsson teflir sína mikilvægustu skák á ferlinum.  Vinni hann tryggir hann sér tvöfaldan stórmeistaraáfanga (20 skáka-áfanga).  Helgi Ólafsson teflir einnig mikilvæga skák.  Vinni hann gæti hann tryggt sér verðlaun sem besti varamaðurinn.  Frakkinn Christian Bauer, sem er eini varamaðurinn sem hefur náð betri árangri en Helgi, má þá alls ekki vinna sína skák.

 Skákir gærdagsins fylgja með hér að neðan.


Jóhann H. Ragnarsson efstur á Skákþingi Garðabæjar

Jóhann H. Ragnarsson er efstur með fullt hús að lokinni 3. umferð Skákþings Garðabæjar sem fram fór í gærkveldi.  Jóhann vann Örn Leó Jóhannsson (1942).  Ingi Tandri Traustason (1823) er annar með 2,5 vinning.   

Mótinu verður framhaldið nk. fimmtudagskvöld.

Úrslit og pörun má nálgast á Chess-Results.


Vinaskákmót á mánudaginn

VinaskákmótVinafélagið og Skákakademía Reykjavíkur standa fyrir skákmóti í Vin, Hverfisgötu 47, mánudaginn 14. nóvember klukkan 13. Tefldar verða 6 umferðir með sjö mínútna umhugsunartíma. Vegleg verðlaun eru í boði frá velunnurum Vinjar. 

Mjög blómlegt skáklíf er í Vin, athvarfi Rauða krossins. Þar eru æfingar alla mánudaga og reglulega er slegið upp stórmótum. Skákfélag Vinjar er eitt hið kraftmesta á landinu og teflir meðal annars fram tveimur sveitum á Íslandsmóti skákfélaga. 

Að undanförnu hefur ríkt óvissa um framtíð Vinjar, sem er griðastaður fólks með geðraskanir, en allt bendir nú til þess að rekstur athvarfsins verði tryggður með samstilltu átaki. 

Vinafélagið, sem stofnað var 13. október sl., stendur að Vinaskákmótinu í samvinnu við Skákakademíu Reykjavíkur. Bakhjarlar mótsins eru m.a. Forlagið, Henson og Sögur útgáfa.

Teflt vikulega á Flateyri

Flateyringar eru farnir að tefla vikulega á Vagninum.  Teflt er á hverju miðvikudagskvöld. Nærsveitamenn eru velkomnir.

Sjá nánar í BB:  http://www.bb.is/Pages/26?NewsID=171337

Skákþing Íslands - Kvennaflokkur pörun 4. umferðar

Veronika vann Ingibjörgu í lokaskák þriðju umferðar. 

 Pörun 4. umferðar er eftirfarandi:

Jóhanna - Elsa
Hallgerður - Hrund
Sigurlaug - Tinna
Veronika - Donika
Svandís - Tara
Ásta - Ingibjörg

 


EM landsliða: 1-3 gegn Ólympíumeisturunum - Hjörvar gæti náð stórmeistaraáfanga

Frá viðureigninni við ÚkraínumennÍslenska liðið tapaði 1-3 fyrir ólympíumeisturum Úkraínu í 8. og næstsíðustu umferð EM landsliða sem fram fór í dag.  Um var að ræða hörkuviðureign þar sem íslenska liðið hafði lengi vel möguleika á að halda jöfnu.

Hjörvar Steinn Grétarsson heldur áfram að eiga frábært mót og gerði nú jafntefli við stórmeistarann Pavel Eljanov.  Hjörvar hafnaði jafnteflisboði Eljanovs og bauð síðar sjálfur jafntefli sem var þegið. Helgi Ólafsson gerði svo jafntefli við Zahar Efimenko eftir að hafa mjög vænlegt tafl.

Henrik Danielsen og Bragi Þorfinnsson tefldu einnig hörkuskákir.  Bragi tapaði fyrir Moiseenko en Henrik var mjög nærri því að halda jafntefli gegn Ponomariov á fyrsta borði.  

Íslenska liðið mætir Skotum á morgun.  Vinni Hjörvar sína skák nær hann sínum fyrsta stórmeistaraáfanga.  Og ekki nóg með það heldur samsvarar stórmeistaraáfangi á EM landsliða tveimur stórmeistaraáföngum (20 skákir) svo Hjörvar þyrfti aðeins 2 áfanga en ekki 3 eins og hefðbundið er.

Helgi hefur 3,5 vinning í 4 skákum og vinni hann á morgun hefur hann góðan möguleika á að vinna verðlaun sem besti varamaður mótsins.  Helgi er með sjöttu bestu frammistöðu allra á mótinu sem af er og er með næst bestan árangur varamanna á eftir Frakkanum Christian Bauer.

Íslenska liðið hefur 6 stig og er í 30. sæti.  Aðeins Svíar eru ofar af Norðurlandaþjóðunum.  

Armenar og Þjóðverjar eru efstir með 13 stig.  Armenar unnu Hollendinga og Þjóðverjar unnu óvæntan sigur á Aserum.  Armenar hafa hins vegar fleiri vinninga.  Báðum liðum dugir sigur í viðureigninni til að verða Evrópumeistari.  Verði jafntefli geta hins vegar Aserar náð efsta sætinu með 3-1 eða stærri sigri gegn Rúmenum.
 
Úrslit dagsins:

13.1GMPonomariov Ruslan2723-GMDanielsen Henrik25421 - 0
13.2GMEljanov Pavel2691-FMGretarsson Hjorvar Steinn2452½ - ½
13.3GMMoiseenko Alexander2715-IMThorfinnsson Bragi24211 - 0
13.4GMEfimenko Zahar2702-GMOlafsson Helgi2531½ - ½


Lið Skota:
1FMTate Alan2334SCO2.56.02524
2FMMorrison Graham2339SCO3.57.02420
3IMMuir Andrew J2311SCO3.06.02361
4CMRoberts Paul2222SCO2.07.02219
5 Mitchell Martin2215SCO2.56.02267


Skákþing Íslands - kvennaflokkur - frrestuð skák ú 3.umferð

Núna sitja þær Ingibjörg Edda Birgisdóttir og Veronika Steinunn Magnúsdóttir að tafli og tefla frestaða skák úr 3.umferð.

Slóðin á beinu útsendinguna er: http://dl.skaksamband.is/mot/2011/kvenna/r3b/tfd.htm

Heimasíða mótsins: http://skaksamband.is/?c=webpage&id=510


EM-pistill nr. 9: Og þá eru það Ólympíumeistararnir - Hjörvar alþjóðlegur meistari

Það fór svo að við töpuðum fyrir Serbum í sjöundu umferð sem fram fór í gær. Viðureignin var allan tímann mjög spennandi þótt ljóst væri frá byrjun að það hallaði á Ísland var lengi möguleiki á að halda jöfnu. Í dag mætum við sjálfum ólympíumeisturunum. Við þá pörun var ljóst að Hjörvar nær sínum lokaáfanga að alþjóðlegum meistaratitli. Ivanchuk hvílir hjá Úkraínumönnum. Helgi kemur aftur inn hjá okkur. Björn hvílir.

Ivanchuk var afslappaður í gær eftir skák. Mótið er orðið að martröð fyrir Ólympíumeistarana. Ég sá hann á spjalli við Korchnoi og Bragi hélt sig hafa séð þá vera að drekka bjór! Nú í hádeginu strunsaði Ivanchuk, algjörlega í eigin heimi, framhjá borði Eljanov og settist einn. Hinir Úkraínumennirnir sátu svo á allt öðrum stað. Manni grunar að andinn sé ekki sem bestur eftir gengið.

Það skiptir ekki máli hvernig fer hjá Hjörvari í lokaumferðunum tveimur upp á áfangann. Einhvern veginn finnst manni hins vegar AM-titill skipta litlu máli fyrir Hjörvar - hann er miklu betri en það! Hjörvar hefur tekið 3 áfanga í 4 mótum sem segir manni ýmislegt.

En þá að skákum gærdagsins.

Björn Þorfinnsson lék hrikalega af sér í 13. leik og var þá úr leik strax. Allar hinar skákirnar fór fram í önnur tímamörk (40 leikir).

Hjörvar var lengi krappri vörn, varðist vel en náði ekki að halda jafntefli þrátt fyrir mjög góðar tilraunir. Henrik Danielsen hafði lengi vel örlítið betri stöðu á fyrsta borði en náði aldrei að ná fram vinningsstöðu.

Bragi Þorfinnsson átti hins vegar skák dagsins. Vann glæsilegan sigur á stórmeistaranum Branko Damljanovic. Margir Íslendingar þekkja Damljanovic. Hann hefur lengi verið einn sterkasti skákmaður Serba, margfaldur skákmeistari þeirra og hefur oft unnið Belgrad Trophy-mótin sem Íslendingar hafa oft sótt.

Skák þeirra fylgdi skák Hjörvars - Shirovs úr fyrstu umferð fram í 8. leik en þá breytti Serbinn út af, lagði ekki út í sömu flækjurnar og Shirov.

Liðsstjóri Serba var enginn annar en Bosko Abramovic sem margir muna frá Reykjavíkurskákmótinu 1982 þar sem hann var meðal sigurvegara.

Ísland hefur 6 stig er nú í 27. sæti af 38 sveitum og er þrátt fyrir tapið næstefst Norðurlandanna. Svíar eru efstir með 7 stig eftir sigur á Tyrkjum. Danir hafa 6 stig eins og við eftir jafntefli við Austurríki. Finnar og Norðmenn hafa 5 stig. Finnar unnu Kýpur 4-0 en Norðmenn lágu fyrir Svartfellingum 1-3. Nojarar hafa engan veginn náð sér á strik á mótinu.

Pörun Norðurlandaliðanna í næstsíðustu umferð er mjög athyglisverð, vægast sagt. Við fáum semsagt Ólympíumeistarana, Danir frá Ísrael og Finnar fá Englendinga! Allt lið sem eru afar sterk á pappírnum. Svíar , sem eru efstir, fá hins vegar Svartfellinga og eru komnir með aðra höndina á „Norðurlandameistaratitilinn". Norðmenn fá Litháen.

Ég rakst á Ivan Sokolov og Loek van Wely í gær og spurði þá hverja þeir fengju. Þeir fá Armeníu. Ég sagði Íslendinga fá enn sterkara andstæðinga og sá spurnarsvipinn á þeim áður en ég benti þeim á að við mættum Úkraínu.

Aserar yfirspiluðu Búlgari, 3,5-0,5, og eru efstir með 12 stig. Armenar og Rúmenar,eru í 2. -3. sæti með 11 stig. Armenar unnu Frakka en Rúmenar gerðu jafntefli við Þjóðverja. Aserar mæta Þjóðverjum, Armenar fá Hollendinga eins og áður sagði og Rúmenar mæta Ungverjalandi.

Rússar eru eftir í kvennaflokki með 13 stig. Pólverjar eru aðrir með 11 stig. Norðmenn meira en tvöfölduðu vinningatölu sína þegar þeir náðu 1,5 vinningi gegn Litháen. Unnu sína fyrstu skák og hafa 2,5 vinning.

Ein óvæntustu úrslit í sögu EM urðu þegar Svisslendingar, án Korchnois, unnu ólympíumeistara Úkraínu, 3-1. Ólympíumeistararnir eru í 26. sæti, einu sæti fyrir ofan Íslendinga. Ég vil benda sérstaklega á skák Efimenko - Forster í þeirri viðureign. Fléttan sem hefst með 27. - Hcxd7 er dýr.

Allt í einu í gær sá ég á mannskapnum að menn eru orðnir dálítið þreyttir. Menn sakna þess nokkuð að hafa ekki frídaginn, sem hefði verið gott að hafa eftir 5 eða 6 umferðir til að fara í bæjarrölt, út á strönd eða eitthvað öðruvísi en vanalega. Hins vegar gildir þetta auðvitað um allar aðrar sveitir og óþarfi að væla yfir þessu!

Athyglisvert atvik gerðist í gær í viðureign Englendinga og Pólverja í skák Pert og Miton. Miton krafðist þess að Pert léki manni sem hann sagði hann hafa snert. Pert sagðist ekki vera viss um að hafa snert hann. Eftir skoðun mótshaldara var krafa Miton tekin gild. Það var gert á þeim forsendum að það sæist í útsendingarbúnaðnum að Pert hafi snert peðið. Pert tók þessu mjög illa strunsaði út, þegar klukkan var sett á hann. Liðsstjórinn Lawrence Cooper elti hann og Pert snéri aftur eftir nokkrar mínútur og kláraði skákina, ekki par sáttur.

Tyrknesku strákarnar klikkuðu ekki á dresskóðanum aftur og mættu allir eins klæddir. Liðsstjóri þeirra, Grikkinn Grivas, er hins vegar klæddur eins og útigangsmaður!

Að vera í Grikklandi og lesa svo netmiðlana er sérstakt. Hér er greinilega allt á hvolfi þótt maður verði á engan hátt var við það. Það er ekki ljóst hver verður forsætisráðherra, þar sem ekki næst saman um neinn, sjá t.d. hér: http://mbl.is/frettir/erlent/2011/11/10/enn_bedid_nys_forsaetisradherra.

Ég spjallað við grísku mótshaldarana í gær, sem eru orðnir miklir vinir mínir, og aðalbrandarinn þeirra að allir væru með kveikt á símanum til að bíða eftir að hringt væri í þá og þeir beðnir um að taka að sér forsætisráðherraembættið!

Búið er að herða allar GSM-reglur hér. Um daginn komu miklir skruðningar í hljóðkerfinu þannig að allir hrukku í kút. Nú er skylda að slökkva á öllum símum (ekki nóg að setja á silent). Nú er því orðið enn erfiðara fyrir mig að nota GSM til að senda SMS. Þarf þá að komast út úr húsi, kveikja á símanum og slökkva aftur. Menn verða því væntanlega að sætta sig alfarið við Chess-Results það sem eftir er.

Við höfum fengið margar góðar kveðjur hingað út eftir ýmsum dreifleiðum, meðal annars frá utanríkisráðherra sem sendi okkur baráttukveðjur. Við þökkum fyrir allar góðar kveðjur!

Minni á myndaalbúm mitt á Facebook. Bæti við fleiri myndum í kvöld. Smá getraun. Hvern vantar algjörlega í myndasafnið?

http://www.facebook.com/media/set/?set=a.10150389656533291.379373.731303290&type=1&l=736f9bda12

Meira á morgun. Þá verður pistillinn fyrr á ferðinni þar sem umferðin hefst kl. 11.

Kveðja frá Porto Carras,
Gunnar


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.7.): 18
  • Sl. sólarhring: 18
  • Sl. viku: 158
  • Frá upphafi: 8778675

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 93
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband