Leita í fréttum mbl.is

EM Landsliða - Liðsstjórapistill 5. umferðar

EM2017_5th_SloveniaÍ 5. umferð á EM Landsliða hér í Heronissos á Krít mættum við liði Slóvena. Athyglisvert er að í umferðinni á undan mættum við ríkjandi Evrópumeisturum í knattspyrnu og gaman að segja frá því að í haust urðu Slóvenar einmitt Evrópumeistarar í körfuknattleik! Spurning hvort við fáum næst Evrópumeistara í handknattleik....hverjir eru það annars?

Uppstilling Slóvenananna kom okkur svosem lítið á óvart, Beliavsky vann í umferðinni á undan eftir erfiða byrjun og Luca Lenic virðist í góðu formi og ólíklegt að hann hvíli meira en eina umferð. Dusko Pavasovic kom inná en hann er gríðarlega sterkur stórmeistari.

En að viðureigninni. Slóvenar voru númer 21 í röðinni í byrjun móts og meðalstig þeirra að meðaltali 40 stigum hærri á hverju borði en athyglisvert þó að Hjörvar var stigahærri en Beliavsky en goðsögnin hefur aðeins gefið eftir á þessu ári en hann var yfir 2600 ef ég man rétt á Ólympíumótinu í fyrra.

Kíkja sem fyrr á skákirnar í röðinni sem þær kláruðst.

 

3. borð Hannes svart á Dusko Pavasovic

EM2017_5th_Nesi

Pavasovic beitti meinlausu afbrigði í ítalska leiknum gegn Hannesi. Hannes hafði ættlað að tefla Berlínarmúrinn gegn Dusko en fann engar skákir með honum í því. Skýringin virðist einfaldlega vera sú að hann tefli ítalska leikinn eða eitthvað annað ef hann grunar að Berlínarmúrinn verði á boðstólnum.

Hannes virtist jafna taflið nokkuð auðveldlega og hafði ég ekki miklar áhyggjur af þessari skák. Einhvern veginn missti Hannes alveg þráðinn, missti einhvern veginn einbeitinguna og lék loks af sér og varð að gefa skákina.

Em2017_5th_Hannes1

Hannes hafði veirð að missa aðeins þráðinn þegar hér kom við sögu. Hér hefði verið hægt að halda lífi í stöðunni og berjast áfram með verri stöðu með ...Hxf2. Þess í stað lék Hannes 32...Hdxd5?? og varð að gefast upp eftir 33.Hxf5 þar sem drottningarskák á b8 fylgt eftir með riddraraskák á f8 mun kosta svart allt sem hann á.

Svekkjandi tap sem bar einhvern veginn að mjög skjótt eftir að staðan hafði virst í jafnvægi. Ég var orðinn mjög bjartsýnn um að við værum að fara að ná góðum úrslitum í þessari viðureign þar sem hinar stöðurnar litu vel út. Satt best að segja var ég meira að segja bjartsýnn þrátt fyrir tapið þar sem ég taldi báðar stöðurnar þar sem vi ðhöfðum hvítt mjög góðar. Skjótt átti aftur eftir að skiptast veður í lofti!

 

4. borð Gummi hvítt gegn Sebenik

EM2017_5th_GK

Gummi fékk algjöra rjómastöðu eftir byrjunina gegn Sebenik. Ég held að tölvurnar séu eiginlega ekki að meta hvað hvíta staðan er góð. Hvítur er með biskupaparði og fína peðastöðu á meðan svartur er nánast planlaus, með glataðan riddara á g6, mjög veikur á hvítu reitunum og engin peðabreik. Gummi þarf eiginlega bara að klára liðsskipan og hvítur er með hartnær strategískt unnið tafl. Gummi hafði auk þess mun betra tíma og lét það e.t.v. trufla sig aðeins í ákvörðunartökunni.

Em2017_5th_Gumm1

Hér lék hvítur 21.Bf3? sem er slæmur leikur. Eins og áður sagði hefðu 21.Hd1 eða 21.0-0-0 veirð mun betri leikir. Hér hugsaði Sebenik sig niður í eina og hálfa mínútu og drap svo á fr, 21...Bxf4! í kjölfarið kom 22.gxf4 Dh4+ 23.Ke2 og svo 23...Re5!? sem var leikur sem auðvelt var að missa af í útreikningum.

Sebenik tryggði svo dæmið með stórglæsilegum fréttablaðsleik. Gummi hafði leik 24.Be1 og sett á svörtu drottninguna.

Em2017_5th_Gumm2

Hér var 24...Hd2!! sannkallaður fréttablaðsleikur sem klárar dæmið algjörlega.

Nokkrir leikir tefldust í viðbót en svo varð hvítur að gefast upp. Svekkjandi tap og staðan allt í einu 2-0 fyrir Slóvena og vonir okkur um sigur algjörlega úr sögunni því Héðinn á fyrsta borði átti nánast enga vinningsmöguleika í sinni skák.

Annars er gaman að segja frá því að Adrian Mikhalchisin hefur mikið verið að fylgjast með okkur skákum og þá aðallega Guðmundi þar sem Gummi hefur verið að taka einkatíma hjá honum og hefur verið að hitta hann mikið. Einnig eru Mikhalchisin og Beliavsky miklir félagar og hafa skrifað margar bækur saman og eru einmitt báðir að tefla fyrir Slóveníu. Ansi skemmtilegur og hress kall. Hann hitti Gumma rétt fyrir kvöldmat og sagði einmitt "dynamics, dynamics" og benti þar réttilega á að Gummi hefði aðeins gleymt sér með strategískt mun betri stöðu. Þetta fer samt bara í reynslubankann góða en ég held að mikil vinna hjá Gumma fari að skila sér fljótlega og ég hef fulla trú á að hann klári stórmeistaratitilinn.

 

1. borð Héðinn svart á Luca Lenic

EM2017_5th_Hedinn

Lenic á fyrsta borði er feykisterkur skákmaður (2650 stig) og ef varð heimemeistari U-14 árið 2002 og gaman að segja frá því að þann titil vann hann í Heraklion sem er einmitt hér á Krít! Greinilegt að hann teflir vel hér á Krít.

Skákin hjá honum og Héðni var Ragosin þar sem Héðinn tók á sig hangandi peð sem svo umbreyttist yfir í stakt peð eins og oft vill verða. Héðinn tefldi vörnina mjög vel og var eiginlega aldrei í teljandi vandræðum. 

Em2017_5th_Hedinn

Mig minnir að skák Héðin hafi verið ca. á þessum stað þegar við skyndilega töpuðum á nefðstu tveimur borðunum. Nokkuð ljóst er að svartur er aldrei að fara að vinna þetta og líklegast hvítur ekki heldur. Ég bjóst eiginlega við að jafntefli yfði samið en Lenic juðaðist og juðaðist. Hann fórnaði svo manni og varð að taka þráskák. Þótt ótrúlegt megi virðst átti hvítur þó líklegast vinning á einum stað í lokin en það hefði sannarlega verið ótrúlegur svíðingur ef Lenic hefði séð það.

 

 

2. borð Hjörvar hvítt gegn Beliavsky

EM2017_5th_Hjobbi

Það var alvöru goðsögn sem beið Hjörvars á öðru borði. Beliavsky er alltaf erfiður andstæðingur og baráttujaxl þó hann sé kominn yfir sextugt. Eins og áður sagði hefur hann þó lækkað eilítið á stigum og er kominn undir 2550 en var yfir 2600 ekki alls fyrir löngu.

"Beljan" eins og sumir kalla hann fór í einhverjar vafasamar aðgerðir í byrjuninni og Hjörvar fékk algjört yfirburðatafl. E.t.v var jafnvel hægt að fá meira eftir byrjunina en snemma í miðtaflinu var Hjörvar með algjöra rjómastöðu.

Em2017_5th_Hjorvar1

Hér hefur Hjörvar parið og mikinn sveigjanleika í peðastöðunni. Hann er með valdað frípeð á e-línunni og getur ýtt peðunum áfram jafnt og þétt á kóngsvæng. Svartur hefur á móti sama og ekkert mótspil og rangstæða drottningu.

Hjörvar hefði átt að klára dæmið í kringum 35. leik en hleypti Beliavsky aðeins inn í skákinni þannig að nú var hann einungis með verra tafl í satðinn fyrir skíttapað. Hjörvar þurfti því eiginlega að vinna skákina aftur. Það gerði Hjörvar með stæl, þræddi sig í gegnum varnir svarts og kláraði svo skemmtilega.

Em2017_5th_Hjorvar2

Hér kom skemmtilegur leikur, 58.Hxf7! skemmtileg fórn sem svartur verður að þyggja en eftir Kf5 á hann enga vörn. Svartur verður að loka á e6 framrásina en þá færir hvítur biskup sinn yfir á aðra skálínu og setur hann á e7 og svartur lendir í leikþröng, sannarlega krúttleg lok á flottri skák hjá okkar manni.

 

Því miður dugði þessi glæsilegi sigur ekki til og svekkjandi 1,5-2,5 tap niðurstaðan.

Clipboard02

 

Í dag var svo frídagur í mótinu og menn vor almennt að hlaða batterín, margir orðnir þreyttir og einhverjir með smávægilegar pestir sem gott var að nota daginn til að ná úr sér.

 

Við fórum nokkrir í fótbolta og var það engin frægðarför þar sem við töpuðum öllum leikjunum. Okkur til varnar voru við þó með nokkra liðsfélaga sem voru álíka gagnlegar og keilur en þetta er þó fyrst og fremst til að hafa gaman af. Loek van Wely spilaði með okkur og fór kostum í markinu í einum leiknum en það dugði ekki til. Fyndnasta atvikið var þegar Norðmennirnir voru að spila við okkur. Þá er sem fyrr Jon Ludvig Hammer á fullu gasi og öskrandi skipanir hægri vinstri á liðsfélaga sína. Á einum tímapunkti fékk varamaður Norðmanna sig fullsaddann og hrópaði á Jon Ludvig "Du er en kuk" eða eitthvað slíkt. Kuk þýðir víst ekki alveg það sama á norskunni og hjá okkur var hann ekki að kalla Hammerinn kúk heldur typpi!  Svo mikill var æsingurinn í blessuðum Norðmanninum að þegar Frakkarnir sem sátu hjá í þessum leik sögðu honum að brosa kom litla fína "FUCK OFF" og við sprungum úr hlátri á hliðarlínunni (ég var útaf þegar þetta gerðist).

 

Við fórum svo út að borða allir í liðinu í góðan team dinner og fengum okkur gott að borða á góðum veitingastað við ströndina. Nauðsynlegt að brjóta aðeins upp hótellífið og menn voru almennt sáttir við þetta og svo er líka hollt og gott að taka góðan göngutúr.

 

Í kvöld hitti ég svo aðeins Luke McShane og heilsaði hann upp á mig. Luke var liðsfélagi minn í Hróknum og ólíkt mörgum öðrum lítur hann ekki of stórt á sig og heilsar manni iðullega og gefur sig á tal. Ég hafði séð skák hans gegn Grikklandi 2 í umferðinni á undan en Englendingarnir tefldi við hliðina á okkur og því blasti sú skák við mér úr liðsstjóra stólnum. Ég spurði Luke hvort hann væri búinn að jafna sig skákinni og sagði að líklegast hefði hún verið sú leiðinlegast í mótinu. Luke hló og sagði að líklega væri það rétt hjá mér við hlátur annarra viðstaddra. Í stuttu máli tefldi andstæðingur hans upp á lítið og í symmetrískri peðastöðu voru þeir meira og minna að hreyfa mennina fram og til baka í allavega 40 leiki þegar þeir sömdu loks jafntefli þegar ljóst var að Michael Adams var að vinna sigur á fyrsta borði. Þeir voru báðir fegnir að losna undan því að þurfa að tefla þessa skák.

En já, segjum þetta gott héðan frá Krít. Veðrið hefur ekki alveg leikið við okkur síðustu daga, lítil sól en samt alveg þokkalegt að öðru leiti nema hvað að vindurinn hefur þýtt að það er ekki gott að skella sér í sjóinn. Von er þó á betri veðri á næstu dögum. Annars var furðulegt í kvöld en þegar við vorum að labba heim var eins og við fyndum lykt sem var alveg eins og megn vindlalykt langa leið að hótelinu. Þessi lykt var svo á göngunum á leiðinni inn í herbergin og inni í herbergjunum ef við höfðum svalahurðirnar opnar. Mjög furðulegt og á ég eftir að fá skýringu á þessu fyrirbæri eða hvað veldur þessu.

 

En jæja, það hafðist loks að klára þennan pistil þó klukkan sé orðin ansi margt hérna á Krít, á morgun er það Makedónía og erum við stigahærri á öllum borðum og krafan að sjálfsögðu sigur. 

 

mbk,
Ingvar Þór Jóhannesson

Liðssjtóri 

 

 

Snapchat story: Ingvar77 ef þið viljið adda þar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 22
  • Sl. viku: 209
  • Frá upphafi: 8764957

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 159
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband