Leita í fréttum mbl.is

Ferðapistill frá Rijeka

rijeka10.jpgUndirritaður fór í sína fyrstu "embættisferð" sem forseti SÍ til Rijeka í Króatíu helgina 12.-14. mars sl.  Um var að ræða fund á vegum ECU (European Chess Union) sem fram fór samhliða EM einstaklinga í Rijeka í Króatíu.  Fundurinn bar nafnið Extra Ordinary Meeting og var að mér skilst framhaldsfundur frá í Novi Sad þegar EM landsliða fór fram þar sem ekki náðist að klára öll mál.    Förina lengdi ég um einn dag m.a. til að geta mætt á eina umferð EM einstaklinga og hitti þar m.a. Hannes og Henrik og ýmsa Íslandsvini eins og t.d. Sokolov, Movsesian og Emanuel Berg. Ivan Sokolov

Ástæðan fyrir því að ég fór var sú að þessu sinni ákváðu gestgjafar að borga gistikostnað fyrir tvær nætur fyrir fulltrúa ECU sem og allan fararkostnað í Króatíu.  ECU lýsti sig tilbúið að borga fyrir ferðakostnað upp að allt að 500 evrum sem dugði að langmestu leyti fyrir ferðakostnaði mínum, uppá vantaði e.t.v. um 20-30 evrur.  Þar sem ég átti inni ferðaávísun frá kreditkortafyrirtæki, bauð ég konunni með og úr var bæði skemmtileg og fróðleg ferð. 

Hannes HlífarFerðalagið á föstudeginum til Rijeka var langt og strangt og sjálfsagt var ég sá fulltrúi sem lagði á sig lengsta ferðalagið. Fyrst var flogið til London, beðið þar í 5 tíma, flogið svo til Zagreb, og þaðan er tveggja tíma akstur til Rijeka.  Vaknað var um kl. 5 um morguninn og ekki mætt á hótelið fyrr en undir miðnætti.  Ferðalagið til baka tók einnig svipaðan tíma.  

Á laugardeginum var hópnum safnað upp í rútu og keyrt var með okkur skákstað og því loknu á keppnisstað skákklúbbsins í Rijeka, þar sem ECU-fundurinn fór fram.  Um var að ræða 700 fm. húnæði, býsna stórt og með mörgum sölum sem bendir til þess að skák sé mjög vinsæl þarna.  Fullt var af sjónvarpsvélum var á staðnum sem sjálfsagt mátti að skýra að mestu leyti með nærveru Karpov og til að byrja með þurfti maður að hlusta á ræður fyrirmenna í bænum og gott ef ekki á einhvern ráðherra.   Henrik

Alls eiga 54 lönd aðild að ECU og voru viðstaddir þarna ríflega 40 fulltrúar og einhver umboð í gangi svo samtals voru þarna um 45 atkvæði virk.  Meðal fulltrúa má nefna Nigel Short, sem sat fundinn fyrir Englendinga, en aðra þekkti ég ekki fyrir fundinn.   Ég náði reyndar best saman með Wales-verjanum David James, menntaður kennari, sem var hinn viðkunnanlegasti.  

Í upphafi fór fram nafnakall og þegar sagt var Iceland og ég rétti upp hönd fór ekki framhjá mér að sumir fóru beinlínis úr hálsliði til að sjá hver kæmi þaðan.   Sjálfsagt þekkust flestir þarna innanborðs og ég einn nýliða en mig grunar „Iceland" kalli fram ýmis viðbrögð.  Þannig er það bara bara.   Nigel Short glotti t.d. ógurlega við mig og sagði ég að ætti að koma til Grikklands og vinna á ólífuekrunni sinni upp í IceSave-skuldirnar og alls konar glósur fékk ég öðru hverju, en alltaf þó í gamansömum tón.   Mér kom samt á óvart hversu mikið menn vissu um ástandið á Íslandi og nöfn bankana á Íslandi virtist vera mönnum jafn þekkt eins og t.d. Barclays. 

Gunnar, James og brjálaði GeorgíumaðurinnFundurinn gekk ágætlega og átakalaus en var nokkuð langur.  Farið var yfir svokölluð ECU-statues og fannst mér menn gleyma sér stundum í tækniatriðum og sagði sessunaut mínum það.  Hann útskýrði fyrir mér þá að sum þessara „tækniatriða" var alls ekki svo einföld og þetta snérust líka um völd.   Málið er að þrír menn hafa lýst yfir, eða eru taldir líklegir í framboð sem forsetar ECU, og því var kraumandi spenna undirliggjandi.    Kosningar fara fram í Síberíu í haust en fundurinn verður haldinn samhliða Ólympíuskákmótinu.  

 Til dæmis var rætt fram og til baka um tillögu sem endanum var samþykkt svona:

„Nominations for the Presidential ticket and Continental Presidents must reach the FIDE Secretariat at least three months before the opening of the General Assembly. To be elected, each candidate shall be nominated by his federation. He/She should have been a member of their federation at least one year before the General Assembly.

No person can be elected to a FIDE-office against the will of his national federation. This stipulation may be waived by the General Assembly only in exceptional cases. Federations that are against the nomination of one of their members for a FIDE office, should raise their objections to such a nomination before the election.

A Federation is entitled to nominate only one candidate for one position"

Ég skyldi ekki hvað hvernig menn gátu rætt þetta fram og aftur og rifist um alls konar smávægilegar breytingar á orðlagi en þá sagði David James mér að það væru dæmi um að menn hafi skipt um skáksambönd.  Fróðlegt að bera saman t.d. við viðtalið við Friðrik Ólafsson á Rás 2 um daginn.  

Einnig var sett inn ákvæði um að mótshaldarar yrðu að njóta samþykkis skáksambands þess lands sem mótið ætti að vera haldið í .  Eitthvað sem maður hafði haldið að ætti vera kommon sens eða hvað?   Nei, nei, alls ekki, David James, sagði mér að skýringin á væri sú að um það eru dæmi að menn hafi verið bjóða í mót frá ýmsum ríkjum og t.d. sá sem var aðalmótshaldari nú hefur haldið mót í ýmsum ríkjum fyrrum Júgóslavíu.   Torvelda á slíkt.     

Einnig var farið yfir reglur og m.a. kom fram tillaga um það að framvegis yrði ekki Zero-tolerance reglan á viðburðum ECU.   Það var samþykkt samhljóða að gefa hálftíma og mun sú regla væntanlega taka gildi á mótum hérlendis í haust.  FIDE hefur þó ekki fellt sína reglu ennþá og geri ég ráð fyrir hún gildi t.d. á ólympíuskákmótinu.

Í lok fundarins var farið yfir komandi Evrópumót.  EM einstaklinga 2011 í opnum flokki verður haldið í Aix-les -Bains Frakklandi 20. mars - 3. apríl 2011, og EM einstaklinga í kvennaflokki í Gaziantep í Tyrklandi.   Að lokum hvatti fulltrúi Georgíu sér hljóðs og hélt þar ræðu um Rússa og lýsti yfir óánægju með Karpov og tengsl hans við yfirvöld og var að lokum stöðvaður af. 

Karpov hvatti sér hljóðs í lok fundarins og lýsti yfir framboði sem forseti FIDE í haust og fékk góðar móttökur.  Það mun víst vera málum blandið hvort hann geti boðið sig fram en hvert skáksamband má víst að bjóða fram einn frambjóðanda og Kirshan er einnig Rússi.  Frakkar hafa boðið Karpov fram sem sinn fulltrúa en það mun vera ekki vera ljóst hvort það gangi upp.    Mín tilfinning núna er sú að Karpov hafi ekki séns ef hann ef hann fær á annað borð að bjóða sig fram.  Máli mín til stuðnings get ég vísað til þess að allir heimsálfuforsetarnir styðja Kirshan.  Svo hefur Tyrkland einnig lýst stuðningi við Kirshan en mín tilfinning er að Ali Nihat forseti Skáksambands Tyrklands sé sigurstranglegastur þeirra sem bjóða sig fram sem forseta ECU og þar muni menn horfa á þau kraftaverk sem gerst hafi í tyrknesku skáklífi.    Karpov fengi sem umtalsvert fylgi Evrópu en mig grunar að hann muni eigi erfitt uppdráttar t.d. í Asíu og Afríku. 

Á ChessBase má finna umfjöllun og myndir frá ECU-fundinum.

Danilov lýsir yfir framboði sem forseti ECUUm kvöldið var svo haldið aftur á hótelið og þar bauð Búlgarinn Sergei Danilov, sem er vel þekktur sem umboðsmaður Topalov, m.a., í svokölluðu Toilet-gate málinu, í kokteil þar sem hann tilkynnti um framboð sem forseti ECU undir yfirskriftinni „I know".  Það var nokkuð sérstæð framsetning.  Búlgarski forsetinn hélt mikla lofræðu um Danilov og þuldi upp hverja hann þekkti (ráðherra, vinur Topalovs og menn úr viðskiptalífinu) hann væri vel menntaður og þess háttar.   Danilov hélt svo ræðu þar sem hann lýsti yfir markmiðum sínum. 

I Novi Sad í haust hafði forseti tyrkneska skáksambandsins Ali Nihat lýst yfir framboði en Tyrkir hafa verið afskaplega virkir á skáksviðinu síðustu misseri og eru að ná mjög eftirtektarverðum árangri.   Forseti ECU til 12 ára, Boris Kutin, hefur svo ekki gefið annað til kynna en að hann verði í framboði.  Einhvern ónægja er meðal Vestur-Evrópubúa mun vera með það að þrír Austur-Evrópubúar séu í framboði en það þýðir lítið að kvarta og gera ekkert í málunum eins og mig grunar að verði niðurstaðan.   Valdsottir og Karpov

Ekki fór það framhjá manni að hvert atkvæði er afar mikilvægt enda aðeins 54 í boði og a.m.k. 3 frambjóðendur.    Það er greinilega að Ísland hefur vakið jákvæða athygli fyrir sitt alþjóða skákmótahald í gegnum tíðina og mönnum fannst það eftirtektarvert að nánast allir sterkustu skákmenn heims undanfarna áratugi hafi teflt á Íslandi. 

Einn frambjóðendanna hefur meira að segja boðað mögulega komu sína til Íslands í apríl til að kynna sín stefnumál og vill þá hitta frammámenn í íslensku skáklífi.  

Á sunnudeginum fóru flestir fulltrúarnir heim en ég ákvað að vera lengur og kíkja á skákstað og taka púlsinn á Hannesi og Henriki sem gistu á öðru hóteli en ég.   Þangað var kortersakstur með rútu á vegum mótshaldara.   Aðstaða á skákstað var til mikillar fyrirmyndar en teflt var í risaíþróttasal.  Borð vel aðgreind og 50 skákir í hvorum flokki sýnd beint á vefnum.  Reyndar var nokkuð sérstakt að aðeins einni skák úr hvorum flokki var Picture 140varpað fram á risaskjá - íslenskir áhorfendur hefðu ekki verið sáttir við það.  

Þarna tók maður eftir hvernig Zero-tolerance reglan virkar.  Skákstjóri tilkynnti að það væru fimm mínútur væru í skák og þá var skáksalurinn eins og mýflugnabú þar sem allir flýttu sér til sætis.  Svo sátu menn stjarfir og enginn hreyfði sig þar til skákin hófst.  Reyndar fínt fyrir þá sem taka myndir.  

Því hefur verið haldið fram við mig að Ísland að senda sína sterkustu menn á mótið og hafi ekki staðið sig vel í samanburði við önnur lönd.  En skoðum málið.  Ísland átti þarna tvo fulltrúa, Íslandsmeistarann, Henrik, og sigurvegarann á MP Reykjavíkurskákmótsins, Hannes Hlífar. 

Berum saman við hin norðurlöndin.    Frá Finnlandi tók stórmeistarinn Tomi Nyback (2624) þátt.  Frá Danmörk var Bo Jackobsen (2375) sem mig grunar að hafi verið þarna á eigin vegum.  Frá Svíþjóð voru stórmeistararnir Emanuel Berg (2594) og Pontus Carlsson (2478) og eini fulltrúa norrænna kvenna, Pia Cramling (2523) sem stóð svo uppi sem Evrópumeistari.  Og frá Noregi, ríkasta landi heims, var Per Ofstad (2197), 76 ára, sem einnig var þarna sem ECU-fulltrúi.  Maður sem ég spjallaði mikið við og er mikill áhugamaður þess að NM öldunga fari fram á Íslandi árið 2011.   Litla Ísland stendur sig bara býsna vel og auðvitað langbest Norðurlandanna sé miðað við hina klassísku höfðatölu!

Við gistum í raun og veru ekki í Rijeka heldur í litlum bæ fyrir utan sem heitir Obatija en þar búa aðeins um 13.000 íbúar.     Þarna var ríkmannlega byggt sýndist manni og töluvert um túrista.  Aðeins mun vera nokkra tíma sigling til Feneyja.  

Á mánudagsmorgninum var svo haldið heim á leið eftir skemmtilega og fróðlega ferð. 

Gunnar Björnsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Silvio Danailov heitir hann

eggman (IP-tala skráð) 28.3.2010 kl. 15:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 15
  • Sl. sólarhring: 18
  • Sl. viku: 253
  • Frá upphafi: 8765170

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 153
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband