Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Spil og leikir

Meira um Val Gardena - lokapistill Þorsteins

Hjörvar og Þorsteinn

Eins og fram hefur komið áður hér á Skák.is náðu bæði Hjörvar Steinn Grétarsson (2477) og Þorsteinn Þorsteinsson (2248) prýðisgóðum árangri á alþjóðlega mótinu í Val Gardena.  

Báðir voru þeir aðeins hálfum vinningi frá áfanga.  Hjörvar mjög nærri sínum síðasta stórmeistaraáfanga og Þorsteinn einnig mjög nærri sínum fyrsta áfanga að alþjóðlegu meistaratitli.  

Þorsteinn gerði mótinu einkar góð skil á Skákhorninu og má þar sérstaklega nefna góðan uppgjörspistil hans að loknu móti.   Þar segir meðal annars:

Mótið í Ortisei var að mestu leyti sigurganga hjá mér og Hjörvari að undanskilinni 8. umferðinni þar sem okkur tókst báðum illa upp og urðum þar með af þeim áföngum sem voru í sjónmáli, Hjörvar af stórmeistaráfanga og ég af alþjóðlegum áfanga. Við vorum svo sem hvorugir að hugsa mikið um þessa áfanga enda hefur það yfirleitt truflandi áhrif, sérstaklega ef það ræður því hvernig maður teflir. 

Hjörvar Steinn endaði í 3. - 12. sæti með 6 vinninga. Ég endaði svo í 17. - 24. sæti með 5 vinninga. Báðir hækkuðum við verulega á stigum. Frammistaða Hjörvars samsvarar 2586 skákstigum og hækkar hann um 14 stig fyrir hana. Hjörvar er eftir mótið kominn í 2507 að loknu móti. Minn árangur samsvaraði 2342 skákstigum og hækka ég því um 17 stig.

Hjörvar tefldi að jafnaði mjög vel og hárbeitt og sýndi stórmeisturunum enga miskunn. Það er því aðeins tímaspursmál hvenær hann verður einn þeirra. Mér fannst skák Hjörvars við Ubilin vera hans besta í þessu móti en hún er einmitt lýsandi dæmi um það sjálfstraust sem Hjörvar býr yfir. Hann hræðist engan, hefur stáltaugar og tefldi ávallt fram til sigurs óháð andstæðingi og stöðunni í mótinu að öðru leyti, alveg eins og Fischer forðum. Þetta eru eiginleikar sem eiga eftir að koma Hjörvari langt ef hann leggur skákina fyrir sig í framtíðinni.

Meira hér.


Skákþáttur Morgunblaðsins: Þröstur Íslandsmeistari eftir "Armageddon"

Þröstur Þórhallsson Íslandsmeistari í skákEins og búist var við tókst Wisvanathan Anand að leggja áskoranda sinn, Ísraelsmanninn Boris Gelfand, og verja heimsmeistaratitilinn sinn. Að loknum 12 skákum með venjulegum umhugsunartíma stóð jafnt, 6:6, og þá var gripið til fjögurra atskáka og þar vann Anand eina skák og gerði þrjú jafntefli. Einvígið þótti bragðdauft, meðalleikjafjöldi var 29 leikir. Anand varð FIDE-heimsmeistari árið 2001, vann síðan hið „sameinaða heimsmeistaramót" í Mexíkó 2007, varði titilinn í einvígi við Kramnik 2008 og Topalov árið 2010.

Spennandi einvígi Þrastar og Braga

Það var meira líf í tuskunum í einvígi Þrastar Þórhallssonar og Braga DSC 1468Þorfinnssonar um Íslandsmeistaratitilinn en fjögurra skáka einvígi þeirra fór fram í Stúkunni á Kópavogsvelli, hófst 25. maí og eftir að jafnt hafði orðið í kappskákunum, 2:2, lauk keppninni sl. miðvikudag með æsispennandi atskákum og hraðskákum. Þegar enn var jafnt eftir tvær atskákir, 25 10, og aftur jafnt eftir tvær hraðskákir, 5 3, tefldu þeir að lokum svonefnda „Armageddon-skák". Bragi fékk fimm mínútur og varð að vinna með hvítu. Þröstur hafði fjórar mínútur og dugði jafntefli en vann og er því Íslandsmeistari 2012. Verðskuldaður sigur að flestra mati en leiðin að titlinum hefur verið löng og ströng og hófst á Íslandsmótinu í Hagaskóla fyrir 27 árum. Þröstur hefur nú aftur unnið sér sæti í ólympíuliði Íslands. Hann var ekki farsæll í byrjun og var undir ½ : 1 ½ að loknum tveim skákum. Í þeirri næstu sýndi hann sínar bestu hliðar:

3. einvígisskák:

Þröstur Þórhallsson - Bragi Þorfinnsson

Ítalskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bc4 Bc5 4. b4

Evans-bragðið á alltaf sína áhangendur.

4. ... Bxb4 5. c3 Be7 6. d4 Ra5 7. Bd3!?

Nýr snúningur. Kasparov „endurvakti" Evans-bragð árið 1995 en lék 7. Be2.

7. ... d6 8. dxe5 dxe5 9. Rxe5 Rf6 10. Rd2 O-O 11. Rdf3 Rg4 12. Rxg4 Bxg4 13. h3 Bh5 14. O-O Rc6 15. g4 Bg6 16. Hb1 h5 17. gxh5 Bxh5 18. Hb5

Upphafið að skemmtilegu hróksferðalagi. Ekki gekk 18. Hxb7 vegna 18. ... Dc8 og h3-peðið fellur.

18. ... Bg6 19. Kg2 Dc8 20. De2 Hd8 21. Bc4 a6 22. Hd5 b5 23. Hxd8 Rxd8 24. Bb3 Bh5 25. De3 a5?

Bragi hefur fengið vel teflanlega stöðu eftir byrjunina en hér var rétt að leika 25. ... Re6.

26. Rd4 Ha6 27. Rf5 Hg6+ 28. Kh2 Bd6+ 29. f4 a4 30. Bc2 De6 31. e5

Í síðustu leikjum bætti hvítur stöðu sína mjög og hér var rétta augnablikið að leika 31. Rxd6 cxd6 32. Db6!

31. ... Bf8 32. Rd4 Dxa2 33. Hf2 Dd5 34. Be4 Dc5 35. Bxg6 Bxg6 36. f5 Bh7 37. Hg2

Hvítur hefur unnið skiptamun fyrir peð en staðan er traust.

37. ... Rc6 38. Rxc6 Dxc6 39. f6 De6 40. Dd4 c5 41. Df4 b4

Öruggara var 41. ... Bg6. Bragi hugðist svara 42. fxg7 með 42. ... Be7. Þröstur sá að hann kemst ekkert áleiðis með þeirri leið.

42. Hd2!? a3! 43. Hd8 Db6 44. Dd2 c4

Alls ekki 44. ... bxc3 45. Dd6 eða 45. Dd7 og hvítur vinnur.

45. cxb4 gxf6 46. Bxa3 c3 47. Dd4

gpup5mkv.jpg47. ... Da6??

Tapleikurinn. Bragi gat gert sér góðar vonir um jafntefli með því að leika 47. ... Dxd4 48. Hxd4 fxe5.

48. Dg4+?!

48. exf6! var nákvæmara.

48. ... Bg6 49. Bc1 Db6 50. Dd4 Da6 51. Df2 c2 52. Bh6 Kh7 53. Bxf8 Dc4 54. Bh6! Dc7 55. Hh8+!

- og Bragi gafst upp, hann fær ekki forðað máti.


Helgi Ólafsson helol@simnet.is

-------------------------------------------

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Sunnudagsmogganum, 3. júní 2012.

Skákþættir Morgunblaðsins


Hjörvar og Þorsteinn með sigra í lokaumferðinni í Val Gardena - góð frammistaða beggja

Hjörvar og ÞorsteinnAlþjóðlegi meistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson (2477) og FIDE-meistarinn Þorsteinn Þorsteinsson (2248) unnu báðir í lokaumferð alþjóðlega mótsins í Val Gerdena á ítalíu.  Hjörvar hlaut 6 vinninga og var mjög nærri sínum lokaáfanga að stórmeistaratitli.   Hjörvar varð í 3.-12. sæti (4. sæti á stigum). 

Þorsteinn vann einn heimamannanna í lokaumferðinni.   Þorsteinn hlaut 5 vinninga og endaði í 17.-24. sæti (23. sæti á stigum).   

Báðir hækka þeir verulega á stigum.   Frammistaða Hjörvars samsvarar 2586 skákstigum og hækkar hann um 14 stig fyrir hana.   Hjörvar er eftir mótið kominn í 2507 að loknu móti.  Hjörvar heldur til Glasgow í Skotlandi í júlí þar sem hann teflir á Skoska meistaramótinu.  

Frammistaða Þorsteins samsvaraði 2342 skákstigum og hækkar hann um 17 stig fyrir frammistöðuna á mótinu.

Argentíski stórmeistarinn Fernando Peralta (2590) var sigurvegar mótsins en hann hlaut 7 vinninga.  Annar varð litháíski stórmeistarinn og Íslandsvinurinn Aloyzas Kveinys (2512) með 6,5 vinning.

56 skákmenn frá 19 löndum tóku þátt í þessu móti og þar af voru 14 stórmeistarar og 9 alþjóðlegir meistarar.  Hjörvar var nr. 13 í stigaröð keppenda en Þorsteinn var nr. 28.  

Allar skákir mótsins eru sýndar beint og hefjast umferðir kl. 13 nema að lokaumferðin hefst kl. 7.


Uppskeruhátíð Skákakademíunnar í Ráðhúsinu í dag

Uppskeruhátíð SRUppskeruhátíð Skákakademíu Reykjavíkur hefst klukkan 12 í Ráðhúsinu og stendur fram eftir degi. Krakkarnir í Skákakademíunni munu tefla skákmaraþon við alla sem vilja, og safna í leiðinni áheitum í þágu æskulýðsstarfs í skák. Skákuppboð aldarinnar fer fram kl. 15, þar sem m.a. verða boðin upp tvö söguleg taflsett úr fórum Friðriks Ólafssonar.

Stelpuskákdagurinn 2012Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra flytur setningarávarp og teflir fyrstu skákina. Meðal þeirra sem tekið hafa áskorun krakkanna um að mæta í Ráðhúsið eru fjórir forsetaframbjóðendur, forsetafrúin og fjöldi annarra. Allir eru velkomnir og þeir sem ekki treysta sér til að tefla sjálfir geta fengið aðstoðarmann til að sjá um taflmennskuna.

Dagur og FriðrikAllsherjar skákhátíð verður í Ráðhúsinu því samhliða maraþoninu munu stórmeistararnir Friðrik Ólafsson og Jóhann Hjartarson tefla fjöltefli, og ungstirnin Dagur Ragnarsson og Oliver Aron Jóhannesson tefla einvígi um gullið á Skólaskákmóti Íslands.

Jóhannes hermir eftir Braga, Ólafur Ás fylgist meðGestir í Ráðhúsinu geta líka skoðað úrvalið á skákflóamarkaði, en hápunktur dagsins verður Skákuppboð aldarinnar. Þar verða munir úr fórum nokkurra helstu meistara íslenskrar skáksögu, auk muna frá skákvinum og söfnurum. Uppboðinu stjórnar Jóhannes Kristjánsson eftirherma, en meðal þeirra sem gefa gripi eru Friðrik Ólafsson, Jón L. Árnason, Helgi Ólafsson, Halldór Blöndal og Guðni Ágústsson.

Skákakademían, sem stofnuð var 2008, stóð fyrir skákkennslu í 30 grunnskólum Reykjavíkur í vetur. Þá hefur akademían haldið mikinn fjölda viðburða og skákmóta, safnað fé í þágu góðra málefna, stutt við skákstarf meðal fólks með geðraskanir, og staðið fyrir margskonar nýbreytni í skáklífinu. Meginmarkmið Skákakademíunnar er að öll börn eigi þess kost að læra að tefla, enda sýna rannsóknir að skákkunnátta hefur jákvæð áhrif á jafnt námsárangur sem félagslega færni barna og ungmenna.

Landsmót UMFÍ 50+: Erlingur Þorsteinsson sigraði

UMFÍ Skákmótið   Efstu mennÞað svífur sannkallaður keppnisandi yfir vötnunum við Varmá í Mosfellssveit þar sem Landsmót UMFÍ fyrir 50 ára og eldri fer fram núna um helgina undir bláhvítum fána.

Keppt er í fjölmörgum greinum, þar á meðal hugaríþróttum eins og bridge og skák.  Landmót með þessu sniði er nú haldið í annað sinn. Fyrir 2 árum fór það fram á Hvammstanga en þá voru keppendur í skákmótinu aðeins 5 talsins.  Nú voru þeir sextán og keppnin einstaklega lífleg og skemmtileg og einbeitnin skein úr hverju andliti, líka áhorfenda. 

Aðstæður voru hinar bestu, teflt í bókasafnsal Varmárskóla. Mótið fór einkar vel og skipLandsmót UMFÍ 50+ 2012 Mosfellsbæ 25ulega  fram, en  RIDDARINN - skákklúbbur eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu,  hafði tekið að sér að annast framkvæmd þess.   Tefldar voru 9 umferðir með 10 mín. umhugsunartíma á skákina.   Mótið var helgað minningu Pálma S. Gíslasonar, fv. formanns UMFÍ og UMF Kjalnesinga,  sem var skák- , íþróttamaður og drengur góður, en féll frá langt um aldur fram.

Eftir tvísýna baráttu framan af móti seig  hin eitilharði og góðkunni skákmaður Erlingur Þorsteinsson, UMF Fjölni, fram öðrum keppendum og sigraði glæsilega með 8 vinningum af 9 mögulegum.  Í öðru sæti varð hinn valinkunni Áskell Örn Kárason,  UMFA, sigurvegarinn frá því í hitteðfyrra.  Þriðji varð svo stöðubaráttujaxlinn Þór Valtýsson, UMFA með 6 vinninga og hálfu stigi meira en Ragnar Hermannsson, UMF Fjölni,  sem var jafn honum að vinningum.

Verðlaunaafhendingu önnuðust þeir Einar Kr. Jónsson, stjórnarmaður UMFÍ og Svanur Gestsson, UMSK, sem einnig aðstoðaði  við mótshaldið.  Einar S. Einarsson, var skákstjóri.

Myndaalbúm (ESE)


Mikael Jóhann Karlsson er Meistari Skákskóla Íslands 2012

Mikael Jóhann KarlssonMikael Jóhann Karlsson vann úrslitakeppnina um titilinn Meistari Skákskóla Íslands 2012. Hann varð efstur ásamt Oliver Aron Jóhannessyni og Jóni Trausta Harðarsyni með 5½ vinning eftir meistaramót skólans um síðustu helgi. Í dag, laugardag tefldu þeir einfalda umferð með atskák tímamörkum, 25 10.

Mikael Jóhann vann Oliver Aron í fyrstu umferð, jafntefli varð hjá Jóni Trausta og Oliver Aron í 2. umferð en í þeirri þriðju bauð Mikael Jóhann jafntefli þegar hann mætti Jóni Trausta og var þá með vænlega stöðu. Jón Trausti þáði boðið og niðurstaðn því þessi:

1. Mikael Jóhann Karlsson 1 ½ v. 2. Jóni Trausti Harðarson 1 v. 3. Oliver Aron Jóhannesson ½ v.  

Mikael Jóhann tekur við titlinum af sigurvegara síðustu tveggja ára, Hjörvari Steini Grétarssyni.


Radjabov efstur á Tal Memorial - Carlsen hékk á jafntefli gegn Morozevich

RadjabovKramnik (2801) vann Grischuk (2761) og Radjabov (2784) lagði McShane (2706) í 2. umferð Tal Memorial sem fram fór í Moskvu í dag.   Radjabov er sá eini sem hefur unnið báðar sínar skákir.  Kramnik, Aronian (2825) og Morozevich (2769) er næstir með 1,5 vinning en Moro var mjög nálægt því að leggja Carlsen (2835) að velli í dag.    


Úrslit 2. umferðar:

Fabiano Caruana½-½Hikaru Nakamura
Ev. Tomashevsky½-½Levon Aronian
Luke McShane0-1Teimour Radjabov
Vladimir Kramnik1-0Alexander Grischuk
Alex. Morozevich½-½Magnus Carlsen

 

Mótið er ægisterkt en meðalstig eru 2776 skákstig.  Taflmennskan hefst kl. 13 á daginn nema að lokaumferðin hefst kl. 11.  Frídagar eru 11. og 15. júní.


Töp hjá Hjörvari og Þorsteini

Hjörvar og ÞorsteinnAlþjóðlegi meistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson (2477) og FIDE-meistarinn Þorsteinn Þorsteinsson (2248) töpuðu báðir í áttundu og næstsíðustu umferð alþjóðlega mótsins í Val Gardena sem fram fór í dag.  Hjörvar tapaði fyrir, rússneska stórmeistarann, Evgeny Gleizerov (2570) en Þorsteinn tapaði fyrir ítalska alþjóðlega meistaranum Federico Manca (2424).  

Hjörvar hefur 5 vinninga og er 9.-17. sæti og Þorsteinn hefur 4 vinninga og er í 24.-34. sæti.

Argentíski stórmeistarinn Fernando Peralta (2590) er efstur með 6,5 vinning.  Annar er litháíski stórmeistarinn og Íslandsvinurinn Aloyzas Kveinys (2512). 

Í lokaumferðinni, sem hefst kl. 7 í fyrramálið, teflir Hjörvar við Manca en Þorsteinn við stigalágan andstæðing (1936).

56 skákmenn frá 19 löndum taka þátt í þessu móti og þar af eru 14 stórmeistarar og 9 alþjóðlegir meistarar.  Hjörvar er nr. 13 í stigaröð keppenda en Þorsteinn er nr. 28.  

Allar skákir mótsins eru sýndar beint og hefjast umferðir kl. 13 nema að lokaumferðin hefst kl. 7.


Skákuppboð aldarinnar í Ráðhúsinu á morgun: Merkir munir úr fórum meistaranna

Það stefnir í skemmtilegt Skákuppboð aldarinnar í Ráðhúsi Reykjavíkur á morgun, sunnudag, klukkan 15. Uppboðinu stjórnar enginn annar en Jóhannes Kristjánsson skemmtikraftur, og margir merkir og skemmtilegir munir verða boðnir upp. Ágóði af uppboðinu rennur í skákstarf fyrir börn og ungmenni.

Hér fer á eftir listi yfir nokkra af helstu uppboðsmunum. Hægt er að senda inn tilboð eða fyrirspurnir til Stefáns Bergssonar framkvæmdastjóra Skákakademíunnar í stefan@skakakademia.is og síma 8637562.

1 Friðrik ÓlafssonFiðrik Ólafsson leggur til tvö söguleg taflsett á uppboðinu en það er haldið til styrktar æskulýðsstarfi Skákakademíu Reykjavíkur. Taflsettin fékk hann að gjöf þegar hann tefldi á firnasterku Piatgorsky-stórmótinu í Los Angels árið 1963, en þar var hann hársbreidd frá sigri.

2 Friðrik ÓlafssonTaflsettin sem Friðrik Ólafsson gefur eru hönnuð af hinum kunna Peter Ganine, myndhöggvara og skákhönnuði. Lágmarksverð er 50 þúsund krónur fyrir hvort taflsett, en búast má við að margir sýni taflsettunum áhuga. Friðrik var fyrsti stórmeistari Íslendinga og meðal sterkustu skákmanna heims um árabil. Hann var forseti FIDE, alþjóðasambands skákíþróttarinnar 1978-82. Skákdagur Íslands var haldinn í fyrsta sinn á afmælisdegi Friðriks, 26. janúar, með skákviðburðum og hátíðahöldum um allt land.

4 Helgi ÓlafssonHelgi Ólafsson stórmeistari gefur tvær gersemar. Annars vegar er Skákritð, sem út kom á árunum 1950 til 1953. Ritstjórar voru skákmennirnir Þórir Á. Ólafsson og Sveinn Kristinsson. Öll hefti þessa merka skáktímarits eru snoturlega innbundin og er um að ræða kjörgrip. Bókasafnarar, áhugamenn um skáksögu og aðrir aðdáendur Helga Ólafssonar hljóta að hugsa sér gott til glóðarinnar. Lágmarksverð er 20 þúsund krónur.

4 Helgi Ólafsson lopapeysaHelgi leggur líka til annan einstæðan grip: Stórfallega lopapeysu sem Handprjónasambandið færði honum að gjöf fyrir glæstan sigur á Reykjavíkurmótinu 1984. Peysan ber endingu íslensku ullarinnar gott vitni og er sannkölluð sigurvegarapeysa.

3 Ríkharður Sveinsson matseðill 1972Ríkharður Sveinsson lætur í té nokkra mjög áhugaverða hluti sem tengjast ,,Einvígi allra tíma" í Reykjavík 1972, þegar Bobby Fischer bar sigurorð af Boris Spassky. Um er að ræða heildarsafn af svonefndum fyrsta dags umslögum, sem gefin voru út í tilefni af einvíginu. Öll umslögin eru í snyrtilegri möppu og er lágmarksboð aðeins 5 þúsund kr.Ríkharður gefur einnig tvær litprentaðar myndir eftir Halldór Pétursson, en sá frábæri listamaður, húmoristi og teiknari gerði einvíginu einstök skil. Lágmarksverð fyrir hvora mynd er 5 þúsund kr. Síðast en ekki síst lætur Ríkharður í té matseðil frá lokahófi heimsmeistaraeinvígisins 1972. Það fór fram í Laugardalshöll á vegum Hótel Holts og Leikhúskjallarans. Skv. upplýsingum á matseðli var m.a. boðið upp á lambakjöt, grillað að hætti víkinga. Matseðillinn er skemmtileg heimild um viðburð sem kom Íslandi í kastljós fjölmiðla um allan heim mánuðum saman. Lágmarksverð fyrir þennan sögulega matseðil, sem er innrammaður, er 10 þúsund kr.

Jón L. ÁrnasonJón L. Árnason stórmeistari, sem varð heimsmeistari 16 ára og yngri 1977, leggur til frábæra seríu af rússneskum skákbókum sem hafa að geyma bestu skákir Karpovs, Smyslovs, Botvinniks og Tal, auk snilldarverks Suetins um Boleslavsky. Bækurnar eru allar merktar Jóni L. Árnasyni og hafa fylgt honum langa hríð. Lágmarksboð í bækurnar fimm, sem seldar eru saman, er 25 þúsund kr.

Sovéskur safngripurSkákmaðurinn Tómas Veigar Sigurðsson ánafnar merkilegri skákklukku, sem er bókstaflega einsog ný úr kassanum þótt hún hafi verið framleidd í Sovétríkjunum sálugu á síðustu öld. Ítarlegt ábyrgðarskírteini, stimplað í bak og fyrir, fylgir skákklukkunni sem hefur aldrei verið notuð. Hér er um sannkallaðan safngrip að ræða og er lágmarksverð 25 þúsund kr.

5 Halldór BlöndalHalldór Blöndal, fv. ráðherra og forseti Alþingis, gefur taflplötu sem ber áritun Hue Yifan, heimsmeistara kvenna. Hún kom hingað til lands í vetur og heillaði landsmenn með framkomu sinni og skáksnilld. Með hinni árituðu taflplötu fylgir eðaltaflsett úr viði. Lágmarksverð fyrir tafplötuna og settið er 50 þúsund kr. Sama máli gegnir um skákplötu sem Guðni Ágústsson leggur til, en hún ber áritun Friðriks Ólafssonar og fylgir eðaltaflsett með. Lágmarksverð fyrir þessa eigulegu gripi er 50 þúsund.

Fleiri gefa muni á uppboðið, m.a. Jóhann Hjartarson stórmeistari, Hrafn Jökulsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sem 11 sinnum hefur orðið Íslandsmeistari í skák og Páll G. Jónsson athafnamaður og skákmaður.

Á Uppskeruhátíðinni í Ráðhúsinu verður jafnframt ,,skákflóamarkaður" þar sem hægt verður að kaupa skákbækur, taflsett, póstkort og fleira sem tengist þjóðaríþróttinni. Stefán Bergsson sagði að þeir sem vildu gefa sögulega muni á uppboðið eða leggja til góss á skákflóamarkaðinn gætu haft samband í stefan@skakakademia.is. Hann þakkaði jafnframt öllum þeim fjölmörgu sem leggja Skákakademíunni lið í starfi meðal barna og ungmenna.


Uppskeruhátíð Skákakademíunnar í Ráðhúsinu á morgun: Komið og teflið við krakkana!

5. Við erum ein fjölskylda!Forsetafrúin Dorrit Moussaieff og forseta-frambjóðendurnir Andrea Ólafsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Herdís Þorgeirsdóttir og Þóra Arnórsdóttir eru meðal þeirra sem taka áskorun skákkrakkanna um að tefla á Uppskeruhátíð Skákakademíu Reykjavíkur á morgun, sunnudag, í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Hátíðin hefst klukkan 12 og eru skákáhugamenn á öllum aldri hvattir til að mæta og taka þátt í gleðinni.

Markmið krakkanna er að tefla 200 skákir og safna áheitum til stuðnings æskulýðsstarfinu í skák. Jafnframt verður haldið Skákuppboð aldarinnar, boðið upp á skákkennslu fyrir börn og byrjendur og stórmeistarar tefla fjöltefli við gesti.

Dagskrá Uppskeruhátíðarinnar í Ráðhúsinu:

12:00 Setningarávarp Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra. Skákmaraþonið hefst.

12:30 Oliver Aron Jóhannesson og Dagur Ragnarsson tefla einvígi um Landsmótsmeistaratitilinn í skák.

13:00 Skákflóamarkaður opnar.

14:00 Friðrik Ólafsson teflir fjöltefli við gesti. Allir velkomnir.

15:00 Skákuppboð aldarinnar. Hamarinn í höndum Jóhannesar Kristjánssonar.

17:00 Jóhann Hjartarson stórmeistari teflir fjöltefli við gesti í Ráðhúsinu.

18:00 Skákmaraþoni lýkur.

Allan daginn verður svo skákkennsluhorn þar sem börn (og fullorðnir) geta lært grundvallaratriði skáklistarinnar af reyndum kennurum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.8.): 5
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 133
  • Frá upphafi: 8779211

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 92
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband