Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Spil og leikir

Felix: Pistill frá Pardubice

img_5868_1233317.jpgÁfram verður haldið með birtingu pistla frá síðasta ári. Fyrri pistill dagsins er Felix Steinþórssyni sem sótti heim Czech Open í Pardubice.

Í vor ákváðum við félagarnir ég, Dawid og Heimir úr Helli að fara á Czech Open í Pardubice.  Skákhátíðin í Pardubice er alveg frábær og hægt er að velja úr fjölda viðburða. Ég fór á mótið í fyrra og hafði mjög gaman þannig að ég var spenntur fyrir að fá að komast aftur á þetta mót.

Við skráðum okkur í keppni D þ.e.a.s. opinn flokk þar sem hámarksstig voru 2000. Það voru ríflega 220 aðilar sem tóku þátt í þessum flokki en í heildina voru yfir 1100 þátttakendur í mótinu í heild. Auk okkar þriggja Hellisbúanna voru á mótinu nokkrir aðrir íslendingar sem voru reyndar allir að keppa í efri flokkunum utan pabba sem skráði sig í 1800 stiga flokkinn svona til að hann hefði eitthvað að gera meðan við strákarnir vorum að tefla.

Aðstæður í Pardubice eru allt aðrar en við eigum að venjast. Mótið er haldið í stórri íþróttahöll. Með yfir 1100 manns á gólfinu í einu er erfitt að gera ráð fyrir 100% þögn í salnum og í rauninni var nokkuð ónæði af klið og braki í tréplönkunum sem voru notaðir sem gólf. Það var þröngt á þingi en allt var þetta svo sem allt í lagi. Kannski erum við hreinlega of góðu vön heima í Íslandi.

Það var mjög heitt í Pardubice allan tímann og við höfðum valið hótel sem var ekki með loftkælingu. Sú ákvörðun var tekin í hagræðingarskyni en með þeim afleiðingum að það svaf engin í hópnum mjög vel og því fundum við fyrir verulegri þreytu þegar líða fór á vikuna.

Ég byrjaði mótið ágætlega og gerði jafntefli við tæplega 1800 stiga Tékka. Í 2 umferð tapaði ég naumlega fyrir 1823 stiga Þjóðverja í ágætri skák. Þá var komið að tveggja umferða deginum. Ég tefldi tæplega 5½ klst. 105 leikja skák í fyrri umferð dagsins sem ég tapaði fyrir samblöndu af slysni og þreytu eftir að staðan hafði verið hnífjöfn í 40 - 50 leiki. Seinni skák þann daginn klúðraði ég í endataflinu eftir að hafa náð góðri stöðu. Eftir 4 umferðir var staðan því orðin svört. Ég aðeins með ½ vinning af 4 mögulegum. Seinni hluti mótsins gekk mun betur hjá mér og ég tók 4 af þeim 5 vinningum sem þar voru í boði. Ég endaði því með 4½ vinninga af  9 og rp upp á 1718. Ég var heilt yfir sáttur en mjög þreyttur. Meðfylgjandi er skák sem ég tefldi við Jonas Piela frá Ítalíu í 8 umferð. Þetta er örugglega ekki mín besta skák en ég var samt sáttur með jafnteflið sem ég náði eftir að hafa lent í verulegum erfiðleikum í miðtaflinu. Þetta er því fyrst og fremst skák fyrir mig að læra helling af og mér því ánægja að deila með ykkur.

Það er ómetanleg reynsla að fá tækifæri til að taka þátt í svona móti og ég vona að þessi reynsla komi að góðum notum í verkefnum framtíðarinnar. Ég þakka Skáksambandinu og Taflfélaginu Helli fyrir styrkina sem ég fékk vegna ferðarinnar.


Hilmir Freyr: Pistlar frá Politiken Cup og Budva

Hilmir FreyrOg enn höldum við áfram með pistla frá síðasta ári. Hér er pistlar frá Hilmi Frey frá tveimur mótum sem hann tók þátt þá. Pistilinn má finna myndskreyttan sem PDF-viðhengi. Við höldum áfram með pistlana á morgun.

Politiken Cup í Helsingør, Danmörku. 27. júlí - 4. ágúst 2013

Eftir þægilegt ferðalag til Helsingør vorum við komin á áfangastað um kl.14:00 á staðartíma. Við gistum í LO-skolen sem einnig var skákstaður. LO- skolen er falleg bygging með mörgum listaverkum og ranghölum. Útsýnið er stórkostlegt og sést út á Øresund (Eyrarsund) og yfir til Helsingborg í Svíþjóð frá matsalnum og garðinum.

Daginn eftir hófst svo mótið. Borðanúmerum var raðað í mörgi rými með mismunandi mörgum keppendum og teflt var frá jarðhæð uppá 3.hæð. 

1.     Umferð. Ég paraðist við töluvert stigahærri mann Morten Møller Hansen (2126) og var hvítur. Ég telfdi e4 Kings Opening en Hr. Hansen  lék c5 sem er Sikileyjarvörn. Ég tapaði skákinni en tel mig hafa getað gert betur.

2.     Umferð. Mótherjinn var Tomas Olson (1932) hann var hvítur og lék e4 Kings Opening ég svaraði með franskri vörn. Ég vann skákina og mun sýna hana hér að neðan.

3.     Umferð. Ulrich Larsen (1992). Ég lék eins og áður e4 hann lék c5 Sikileyjarvörn. Ég tapaði skákinni.

4.     Umferð. Leif Bjornes (1918). Hann lék d4 Queens Gambit ég svaraði með d5. Þetta var nokkuð góð skák sem endaði með jafntefli.

5.     Umferð. Morten Rasmussen (1921). Ég lék e4 og hann lék c5 Sikileyjarvörn.  Þessi skák var ekki góð hjá mér en ég náði að snúa henni  mér í hag og náði jafntefli.

6.     Umferð.  Ole Rysgaard Madsen (1919).  Hann var hvítur og lék Rf3 og lék f5 sem er hollenska vörnin. Hann lék sig í mát.

7.     Umferð. Ég var hvítur á móti Dick Sørensen (2000) og lék fyrsta leik e4 og hann lék g6. Þetta var góð skák hjá mér og ég vann.

8.     Umferð. Ég var svartur á móti Thomas Tange Jepsen (2079) sem lék d4 og ég lék d5. Hann lék svo c4 Queens Gambit og ég c6 Slavnesk vörn.  Skákin endaði jafntefli.

9.     Umferð.  Ég var hvítur á móti Gunnar Stray (2056) ég var með góða stöðu eftir 16 leiki en í 17. leik lék ég af mér sem varð til þess að missti góðu stöðuna og tapaði.

10.  Umferð.  Lokamótherjinn var Sigurd B. Justinussen (1970) ég var svartur og gerði jafntefli í 11 leikjum.

Hér má sjá nánar um skákirnar: http://www.ksu.dk/politiken_cup/turnering/detaljer.aspx?tur_id=1354&lod=247

 

Ég var sáttur við mótið í heild enda var ég að tefla upp fyrir mig allan tímann. Ég fékk stigaverðlaun 1501 - 1700. Ég tók líka þátt í Børne - Cup og Blitzi til gamans og gekk vel. Mótið var mjög vel skipulagt í alla staði, aðstæður og umhverfi frábært.

EM Ungmenna í Budva, Svartfjallalandi.  28.september - 9.október 2013

Eftir langt og strangt ferðalag, frá morgni dags, þar sem bæði var flogið, beðið lengi, flogið meira lent í Dubrovnik í Króatíu, ekið, siglt og ekið meira var komið á áfangastað seint um kvöld að staðartíma til Budva í Svartfjallalandi. Hótelið Slovenzka Plaza er fínt og snyrtilegt en netsambandið arfaslakt og hægt. Slovenzka Plaza er svona eins og lítið þorp, svolítið ruglingslegt en maður er fljótur að læra. Veðrið var mollulegt, 23 -26 gráður og raki, logn en við fengum líka úrhellis rigningu þannig gangar og göngustígar á hótelsvæðinu breyttust í litlar ár.

Við urðum satt að segja fyrir smá sjokki, skák aðstæður eru vægast sagt slakar, en allir flokkar frá Open 12 - Open 20 tefla saman í íþróttasal og eru um a.m.k 1000 krakkar hér í loftleysinu, eftir gróflega talningu, svo ekki sé minnst á annað eins magn af áhorfendum og dómurum, hér hreyfðist ekki loft, hitinn var skelfilegur og svitaperlur láku af keppendum eftir aðeins um 20 mínútur og þá átti maður eftir að sitja  4 - 5 klukkustunda skák. Erfitt var að finna borðið sitt því ekkert var merkt og ekki nafn spjöld á borðum eins og maður á að venjast bæði frá Íslandi og öðrum löndum, heldur var bara eitt A4 blað sem var hjá dómurunum til að finna hvar maður átti að sitja. Zero tolerance reglan var í gildi sem þýðir að ef þú sest niður mínútu of seint þá ertu búinn að tapa skákinni. Ég lenti líka oftar en einu sinni í því að sitja með borðfæturnar milli fótanna og á óþægilegum sólstól. Yngri strákarnir í Open 8 og Open 10 fengu aðeins betri aðstæður, en yngri flokkarnir tefldu á öðrum stað. Foreldrar þeirra máttu samt ekki koma inn til að horfa.

1.     umferð, ég paraðist við Viktor Matviishen frá Úkraínu með 2115 Elo stig sem er töluvert hærra en hann er með, eða ríflega 300 stiga munur. Hann er mjög sterkur skákmaður og varð Evrópumeistari í mínum flokki með 7,5 vinning. Ég var með svart og tefldi slavann, ég tapaði skákinni.

2.     umferð ég tefldi við Kai Pannwitz frá Skotlandi með 1522 Elo stig ég tefldi mjög góða skák og vann örugglega.             

3.     umferð, mætti Kirill Chukavin 1887 frá Eistlandi, tapaði.         

4.     Aleksandr Efimenko 1515 Rússlandi, ég gerði jafntefli eftir að hafa lent í tímahraki, en ég var með mun betra í byrjun, skákin snérist svo honum í hag og svo náði ég að snúa henni aftur, þessa skák hefði ég unnið ef ég hefði ekki verið í tímahraki, því ég missti af leik. 

5.     Azerbadjinn Adnan Aliyev, ég var að vinna þessa skák en því miður náði hann að halda jöfnu.

6.     Umferð Írinn Michael Higgins, ég tapaði Drottningu í 8.leik fyrir Riddara en ég gafst ekki upp og hélt áfram og fór í stórsókn, þá endaði með því að 12 leikjum seinna þurfti hann að fórna Drottningu því annars hefði ég mátað hann. Skákin fór jafntefli.                  

7.     Umferð Daniel Nordquelle frá Noregi, ég var kominn með unnið eftir 8 leiki og örfáum leikjum seinna gafst hann upp og ég vann.     

8.     Fabian Baenziger 1679  frá Sviss, ég lenti í vandræðum í byrjuninni, fórnaði Drottningu og var þá með þrjá menn, tvo Hróka og nokkur peð á móti Hróki, Drottningu, Biskupi og nokkrum Peðum. Ég vann skákina.

9.     Semen Lomasov 2124 frá Rússlandi, ég tapaði illa.

Hægt er að skoða skákirnar úr mótinu hér: http://www.budva2013.org/index.php?lang=en

Það er áberandi hvað Rússarnir og Azerarnir eru með sterka krakka og líka hinar austantjalds þjóðirnar. Þeir eru búnir að vera í mörg ár í mikilli þjálfun en eru ekki skráðir með nein Elo-stig. Þess vegna þarf maður að passa að vanmeta þá ekki. Ég hafði sett mér það markmið að ná alla vega 50% skori í þessu móti, það tókst þó svo ég hefði sannarlega viljað fá fleiri vinninga.

Ég vil þakka eftirfarandi stuðningsaðilum fyrir mig, en án þeirra hefðu þessar ferðir ekki orðið að veruleika: Gjögur HF Grenivík, Skákfélagið GM Hellir, Hérðssambandið Hrafna - Flóki, Hress líkamsrækt Hafnarfirði, Klofningur ehf Suðureyri, Oddi HF Patreksfirði, Svalþúfa ehf Hafnarfirði, Skáksamband Íslands, Vesturbyggð og öðrum sem lögðu mér lið. Ég vil líka þakka GM Henrik Danielsen sem þjálfaði mig fyrir mótin og á meðan á Politiken Cup stóð og GM Helga Ólafssyni fyrir góða þjálfun fyrir og á meðan á EM stóð sem og GM Hjörvari Steini Grétarssyni.

Með kveðju, Hilmir Freyr Heimisson


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Oliver Aron Jóhannesson: Pistill um Pardubice

Oliver AronNú um páskana verða nokkrir pistlar birtir sem hafa beðið birtingar. Í dag getum við lesið um hvernig Oliver Aron Jóhannesson upplifði Czech Open í Pardubice í fyrra.

Ég fór ásamt nokkrum öðrum Íslendingum til Pardubice til að keppa á Czech open. Við flugum til London eldsnemma 18. júlí þar sem við þurftum að bíða í sjö klukkutíma eftir fluginu til Prag. Þegar að við komum til Prag tókum við lest til Pardubice. Þegar að þangað var komið fórum við á hótelið sem að við höfðum bókað en þá hafði orðið einhver misskilningur hjá þeim og öll herbergin full. Þá þurftum við að leita að hóteli um miðja nótt og fundum eftir um klukkutíma leit Hotel Labe. Hótelið var nálægt skákstað en það var engin loftræsting og ekkert internet en við þurftum að sætta okkur við það.

1. umferð

Í fyrstu umferð tefldi ég við Assad Mammyrbay  14 ára gamlan strák frá Kasakstan með 1758 stig . Ég tefldi 1.d4 og hann svaraði því með semi-slav, ég fékk ekkert út úr byrjuninni og fékk smátt og smátt verri stöðu. Hann var komið með unnið tafl á einum tímapunkti en lék ónákvæmt og ég náði að bjarga skákinni í jafntefli.

2. umferð

Í annarri umferð tefldi ég við 1858 stiga mann frá þýskalandi. Ég tefldi Najdorf afbrigðið í sikileyjarvörn og hann fórnaði riddara snemma fyrir þrjú peð. Þessi fórn gekk ekki upp en ég tefldi illa og tapaði.

3. umferð

Í þriðju umferð tefldi ég við 1899 stiga þjóðverja. Hann tefldi Grunfeld-vörn á móti mér sem ég svaraði með rússneska afbrigðinu og fékk fljótt betri stöðu sem ég náði að klára.

4. umferð

Í fjórðu umferð tefldi ég við 2202 stiga mann frá króatíu. Ég tefldi aftur Najdorf-afbrigðið en ég lék einum ónákvæmum leik og fékk þar af leiðandi verra endatafl sem að ég tapaði.

5. umferð

Í fimmtu umferð tefldi ég við 1900 stiga mann frá Lettlandi. Hann tefldi einnig grunfeld vörn á móti mér en fékk mjög passíva stöðu þar sem hann gat lítið sem ekkert gert. Það endaði á því að hann skipti uppá drottningum en þá gat ég unnið riddara í endanum á varíantinum. Eftir það var skákin auðveld.

6. umferð

Í sjöttu umferð fékk ég tæplega 2200 stiga Rússa. Ég tefldi Najdorf afbrigðið aftur. Eftir mikla baráttu í miðtaflinu náði andstæðingur að skipta upp í endatafl sem að var verra á mig. Eftir það tefldi hann mjög vel og vann örugglega.

7. umferð

Í sjöundu umferð tefldi ég við 1858 stiga mann frá Írlandi. Hann tefldi hollenska vörn sem ég svaraði með 2.Bg5. Skákin var mjög  spennandi og ég fórnaði tveimur peðum en var með mjög sterka sókn. Það endaði á því að hann lék illa í tímahraki og ég mátaði hann í kjölfarið.

8. umferð

Í áttundu umferð tefldi ég við 1876 stiga Tékka. Ég tefldi Najdorf afbrigðið enn og aftur og fékk fína stöðu eftir byrjunina. Skákin var jöfn mjög lengi þangað til að hann lék ónákvæmlega og fékk aðeins verra endatafl. Eftir það reyndi ég að pressa hann lengi en hann varðist mjög vel og á endanum endaði skákin með jafntefli.

9. umferð

Í níundu umferð tefldi ég við 13 ára gamlan strák frá Suður-Afríku með 1824 stig. Hann tefldi Nimzo-indverska vörn og ég fékk aðeins betri stöðu eftir byrjunina og hafði alltaf aðeins betra. Síðan skiptist upp í endatafl sem að var betra á mig og á endanum náði ég að vinna það.

Í lokin endaði ég með 5 vinninga og tapaði 8 stigum. Ég er ekki alveg nógu sáttur með mína frammistöðu á mótinu en þetta var góð reynsla og gaman. Að lokum vil ég þakka Skáksambandi Íslands fyrir stuðninginn.

Oliver Aron Jóhannesson


Dagur Ragnarsson: Pistill um Pardubice

DagurHér á næstum dögum verða nokkrir pistlar birtir sem hafa beðið birtingar frá síðasta ári. Við byrjum á Degi Ragnarssyni sem fjallar hér um Czech Open.

Ég fór ásamt nokkrum félögum mínum til Tékklands til að tefla á hinu fræga móti,  Czech Open sem fór fram  í Pardubice,  dagana 19. - 27. júlí. Við félagarnir hófum ferðina klukkan 4 um nótt hér í Reykjavík. Flugum til London, biðum í rúmlega 7 klukkutíma á Gatwick- airport þar til við stigum um borð í vélina sem flaug með okkur til Prag. Þá tók við tveggja tíma lestarferð til Pardubice og um miðnættið, eftir 20 tíma ferðalag,  komum við þreyttir á hótelið sem við höfðum pantað. Þar hafði orðið einhver misskilningur og ekkert herbergi á lausu. Við héldum því af stað um miðja nótt að leita að öðrum svefnstað og fengum inni í frekar slöku hóteli, án allrar loftkælingar og internettengingar. Hótelið hafði í raun bara einn kost umfram hitt,  það var nær skákstaðnum svo við ákváðum að leysa loftkælingarvandamálið með því að kaupa okkur viftu og létum okkur hafa það að vera þarna allan tímann.  En við vorum komnir til að tefla, vorum skráðir í B- flokk (þar voru skráðir skákmenn með  1750- 2382 ELO stig)  og það voru 9 krefjandi umferðir í boði.

1. umferð

Ég mætti frekar þreyttur og svangur í umferðina og fékk 1730 stiga Tékka á mínum aldri til að glíma við. Ég  var með hvítt, lék enska leiknum og andstæðingurinn svaraði með Grunfeld afbrigðinu. Þetta var lína sem ég þekkti ágætlega og eftir frekar  langt endatafl vann ég skákina. Góð byrjun á mótinu.

2. umferð.

Ég mætti betur sofinn  og nærður í þessa umferð en ekki neitt undirbúinn gegn þessum andstæðingi, þar sem ekkert sem ekkert var til um hann á ChessBase. Þetta var  2160 stiga Þjóðverji. Ég var með svart  og fékk að glíma við enska leikinn. Ég telfdi Reverse- Dragon afbrigðið gegn honum og fékk betra tafl úr byrjuninni en tefldi ekki nákvæmt í miðtaflinu og lék eiginlega af mér stöðunni. En sá þýski náði ekki að innbyrða sigurinn og þvældist staðan á milli okkar þar til hann í tímahraki þurfti nauðsynlega að komast á klósett og lék þá nokkrum slæmum leikjum sem kostuðu hann skákina.

3. umferð.

Í þriðju umferðinni fékk ég 2125 stiga Rússa og var með hvítt. Ég tefldi enska leikinn enn og aftur og andstæðingurinn var greinilega búinn að undirbúa sig vel því hann svaraði  fyrstu fjórum leikjunum strax með afbrigði sem kallast  Anti-Queens gambit accept og leikjaröðin var svona. 1.c4 Rf6 2. g3 e6 3. Bg2 d5 4. Rf3 dxc4 og hérna lék ég Ra3 sem er mainline og þá hugsaði hann í fimm mínútur og hafði greinilega ekki átt von á þessum leik og féll í byrjunargildru. 5. Ra3 Rbd7 6. Rxc4 c5 7. o-o b5?! 8. Rce5 Bb7?  9. Rxf7! sem vinnur peð og rústar kóngsvörninni. Eftir það tefldi ég rétt og vann skákina auðveldlega.

4. umferð.

Eftir gott gengi í þremur fyrstu umferðunum var ljóst að andstæðingur minn í þeirri fjórðu yrði enginn byrjandi. Hann reyndist vera Rússi Gennandi Kuzminn sem var með 2290 stig.  Ég var með svart og Kuzmin tefldi drottningarafbrigði sem ég svaraði með Tarrash -vörn.  Ég fékk ágæta stöðu úr byrjuninni en lék einum mjög ónákvæmum leik sem kostaði mig skákina.

5. umferð.

Næst settist ég á móti 2148 stiga Hollendingi.  Ég undirbjó mig vel fyrir þessa skák og fékk afbrigði sem ég var búinn að stúdera fyrir. Mér fannst ég vera með skákina í hendi mér en þá ákvað ég að fórna skiptamanni. Ákvörðun sem átti næstum eftir að kosta mig skákina. Andstæðingurinn gat unnið mig á einum tímapunkti  í einum leik en hann sá það ekki og við sömdum jafntefli eftir 54 leiki.

6. umferð.

Mótherji minn í 6. umferðinni var  tékknesk, WFM  með 2121 stig. Ég tefldi bara venjulega franska vörn og var reyndar í vörn allan tímann  og tók því jafnteflisboði hennar  fegins hendi,  en eftir að hafa farið með Hannesi Stefánssyni yfir skákina seinna um daginn, hefði ég líklega ekki átt að taka boðinu, heldur tefla áfram til sigurs.

7. umferð.

Ég hélt áfram að tefla við Tékka og að þessu sinni var það  2119 stiga skákmaður.  Þetta er líklega slakasta skákin mín í mótinu. Ég lék illa af mér í 20. leik og náði aldrei að jafna taflið eftir það.

8. umferð.

Í þessari umferð var andstæðingur minn  2143 stiga skákmaður frá Þýskalandi.  Í þessari skák var ég með hvítt og fékk ágæta stöðu úr byrjuninni en lenti í frekar erfiðu miðtafli og tapaði peði þar. Ég fórnaði skiptamuni fyrir betra spil en lék ónákvæmt og tapaði að lokum í hróksendatafli.

9. umferð.

Eftir að hafa tapað tveimur skákum í röð fékk ég loksins stigalægri mann en mig og var það 1884 stiga maður frá Lúxemborg sem var andstæðingur minn í seinustu umferðinni. Ég var staðráðinn í að vinna þessa skák. Ég var með hvítt og lék enska leikinn og andstæðingurinn svaraði með Reverse-Dragon afbrigðinu. Ég fékk betra úr byrjuninni en fór svo allt í einu að tefla vörn og hélt stöðunni í jafnvægi. Þá ákvað andstæðingur minn að skipta upp tveimur hrókum og einni drottningu fyrir tvo hróka og eina drottningu og bauð jafntefli. Ég sá að staðan bauð ekki upp á jafntefli og neitaði því og tefldi endataflið eins og vél og hafði sigur að lokum í 55 leikjum.

Ég endaði því með 5 vinninga af 9 og hækkaði mig um 20 ELO stig og er bara í heildina sáttur við frammistöðuna í mótinu, þó auðvitað hefði ég viljað tefla sumar skákirnar betur.  Það var mikil og góð reynsla að taka þátt í þessu móti og ég mæli með því fyrir alla skákmenn enda margir flokkar sem hægt er að keppa í. Ég vil þakka Skáksambandinu fyrir veittan stuðning og félögum mínum fyrir samveruna í ferðinni.

Dagur Ragnarsson


Skák á Akureyri og á Norðurlöndunum um páska

Hér fyrr á árum var mikið teflt um páska á klakanum en það hefur breyst á síðustu árum og nú taka skákmenn sér að mestu frí frá skákiðkun um páska. Akureyringar eru þar undantekning á en Bikarmót SA hefst í dag og lýkur á morgun eða á laugardag. Á annan í páskum fer svo Páskahraðskákmót SA. Sjá nánar á vefsíðu félagsins.

Þrátt fyrir Íslendingar hafi aflagt, a.m.k. að sinni Íslandsmótið í skák um páska, gildir það ekki sama í Danmörku og Færeyjum. Þar eru meistaramót landanna í fullum gangi. Þar rétt eins og Íslandi er efsti flokkurinn 10 manna.

Í danska meistaramótinu tefla fjórir stórmeistarar og þeir raða sér í efstu sætin. Sune Berg Hansen (2569) og Jacob Aagard (2520) eru efstir með 4 vinninga eftir 5 umferðir. Þriðji er Allan Stig Rasmussen (2499) með 3,5 vinning og fjórði er Lars Schandorff (2531) með 3 vinninga. Stefnir í spennandi lokaumferðir. Sjá nánar á heimasíðu mótsins.

Högni Egilstoft Nielsen (2175) er efstur með fullt hús að loknum sex umferðum á færeyska meistaramótinu, Martin Poulsen (2261) er annar með 5 vinninga og þriðji er Rögvi Egilstoft Nielsen (2282) er þriðji með 4,5 vinning. Sjá nánar á heimasíðu færeyska skáksambandsins.


Minningarhátíð um Jonathan Motzfeldt í Nuuk 15.-19. maí: Örfá sæti laus á frábæru verði

Ráðhússkák 144

Skákfélagið Hrókurinn efnir til skákhátíðar í Nuuk, höfuðborg Grænlands, dagana 15. til 19. maí. Hátíðin er tileinkuð Íslandsvininum Jonathan Motzfeldt (1938-2010), fyrsta forsætisráðherra Grænlands, sem einmitt tók þátt í fyrsta alþjóðlega mótinu sem Hrókurinn efndi til á Grænlandi, sumarið 2003. Skákáhugamönnum bjóðast kostakjör á flugi með Flugfélagi Íslands og gistingu á hinu frábæra Hotel Hans Egede.

2222 2 023

Meðal þess sem er á dagskrá hátíðarinnar í Nuuk eru atskákmót og hraðskákmót, auk þess sem liðsmenn Hróksins bjóða upp á fjöltefli, heimsækja athvörf, grunnskóla og sjúkrahús. Með í för verða efnileg íslensk skákbörn, skákmeistarar og kempur af eldri kynslóðinni.

DSC_0216

Auk skákviðburða mun gestum hátíðarinnar gefast kostur á að kynnast undraheimi Grænlands, okkar næstu nágranna. Örfáir miðar eru enn lausir, og hafa Flugfélag Íslands og Hotel Hans Egede sett saman pakka sem inniheldur flug, öll gjöld og skatta og gistingu í fjórar nætur:

hans egede

Kr. 119.995 pr. mann í tveggja manna herbergi og kr.  126.925 í eins manns herbergi. Óhætt er að segja að um sannkallað kostaboð sé að ræða, og eru áhugasamir hvattir til að bóka sem fyrst hjá hopadeild@flugfelag.is, með tilvísan í Minningarhátíð Jonathans Motzfeldt.

DSC_0166

Minningarhátíð Jonathans Motzfeldt er þriðja verkefni Hróksins á Grænlandi á þessu ári, en skáklandnám félagsins hófst 2003. Um þessar mundir eru tveir liðsmenn Hróksins, Róbert Lagerman og Jón Birgir Einarsson staddir í Ittoqqortoormiit, þar sem fram fer mikil skákhátíð nú um páskana, áttunda árið í röð.

 Nánari upplýsingar veitir Hrafn Jökulsson í hrafnjokuls@hotmail.com 

 Facebook-síða Hróksins. 

 


Wow air Vormót TR: Skákir þriðju umferðar

Kjartan Maack hefur slegið inn skákir þriðju umferðar Wow air Vormóts TR sem fram fór sl. mánudagskvöld.  Pörun fjórðu umferðar sem fram fer 23. apríl liggur jafnframt fyrir en þá mætast meðal annars tveir stigahæstu keppendur mótsins, stórmeistararnir Hjörvar Steinn Grétarsson og Hannes Hlífar Stefánsson.



Skráning hafin í áskorendaflokk Íslandsmótsins í skák

IMG 0432Eins og fram hefur komið fer 100. Íslandsmótið í skák fram í Stúkunni við Kópavogsvöll, einum allra glæsilegasta skákvettvangi landsins, 23. maí - 1. júní. Landsliðsflokkurinn er ekkert venjulegur að þessu sinni enda sá sterkasti í sögunni þar sem sjö stórmeistarar eru skráðir til leiks. Íslandsmót kvenna og Áskorendaflokkur fara fram á sama tíma og þar er skráning hafin. Í áskorendaflokki er mikið í húfi þar sem tvö efstu sætin gefa sæti í landsliðsflokki að ári.

Í áskorendaflokki eru tefldar 9 umferðir eftir svissneska kerfinu. Teflt er daglega af því undanskyldu að ekki er teflt þriðjudaginn 27. maí. Taflmennskan hefst kl. 17 á virkum dögum en kl. 13 um helgar og á uppstigningardag.

Tímamörk eru 90 mínútur á skákina auk 30 viðbótarsekúnda á hvern leik. 15 mínútur bætast við eftir 40 leiki í áskorendaflokki.

Leyfilegt er að taka eina yfirsetu (bye) í umferðum 1-6 og fá fyrir hana hálfan vinning.

Í fyrsta skipti á Íslandi gilda takmarkanir á jafnteflisboðum. Óleyfilegt er fyrir keppendur að bjóða sem og semja um jafntefli innan 30 leikja. 

Verðlaun í áskorendaflokki eru sem hér segir:

  1. 75.000 kr.
  2. 45.000 kr.
  3. 30.000 kr.

25.000 kr. aukaverðlaun eru veitt fyrir bestan árangur miðað við eigin skákstig bæði fyrir skákmenn með meira en 2.000 skákstig sem og þá sem hafa minna en 2.000 skákstig.

Þátttökugjöld eru 10.000 kr. F3-félagar, FIDE-meistarar, unglingar (1998 og síðar) og öryrkjar fá 50% afslátt.  Ungmenni (1994-97) og öldungar (67+) fá 25% afslátt. Keppendur á Íslandsmóti kvenna sem er hluti af áskorendaflokknum fá svo 50% afslátt til viðbótar.

Skráning fer fram á Chess-Results en mun jafnframt flytjast á Skák.is þegar nær dregur móti. Skákmenn eru hvattir til að skrá sig sem fyrst til leiks.


Guðmundur vann tvær síðustu skákirnar

Guðmundur Kjartansson í DubaiAlþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson (2440) vann sínar skákir í tveimur síðustu umferðunum. Fórnarlömbin voru FIDE-meistarinn Temor Igonin (2194) og Dinara Saduakassova (2342). Guðmundur hlaut 5,5 vinning í 9 skákum og endaði í 29.-44. sæti.

Franski stórmeistarinn Romain Eduard (2670) sigraði á mótinu en hann hlaut 8 vinning.

Frammistaða Guðmundar samsvaraði 2375 skáktigum og lækkar hann um 1 stig fyrir hana. Það var tvöfaldi dagurinn sem fór illa með Guðmund sem öðru leyti stóð sig afar vel

Einstaklingsúrslit Guðmundar má finna á Chess-Results.

148 skákmenn frá 39 löndum tóku þátt í mótinu. Þar af voru 38 stórmeistarar og 16 alþjóðlegir meistarar. Guðmundur var nr. 44 í stigaröð keppenda. 

Hjörvar Steinn efstur á Wow air mótinu

HjörvarStórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson sigraði Dag Ragnarsson í þriðju umferð Wow air mótsins-Vormóts Taflfélags Reykjavíkur sem fram fór í fyrradaga.  Hjörvar er efstur með fullt hús vinninga en næstir með 2,5 vinning eru stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson sem lagði kollega sinn, Stefán Kristjánsson, og Fide meistarinn Ingvar Þór Jóhannesson sem knésetti Fide meistarann Guðmund Gíslason. Fjórir skákmenn fylgja á eftir með 2 vinninga.  Stórmeistarinn Friðrik Ólafsson tefldi sína fyrstu skák í mótinu og gerði jafntefli við Sigurð Pál Steindórsson.

Í B flokki fer Magnús Pálmi Örnólfsson mikinn og leiðir með fullt hús vinninga eftir sigur á Sverri Erni Björnssyni en fimm keppendur koma næstir með 2 vinninga; Torfi Leósson, Kjartan Maack, Jón Trausti Harðarson og bræðurnir Arnaldur og Hrafn Loftssynir.  Tveimur viðureignum var frestað sem þýðir að Mikael Jóhann Karlsson eða Vignir Vatnar Stefánsson geta blandað sér í hóp þeirra sem hafa 2 vinninga sigri annar í innbyrðis viðureign þeirra.

Páskahátíðin gengur nú senn í garð og því fer fjórða umferðin fram mánudaginn 28. apríl og hefst að venju kl. 19.30.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.8.): 5
  • Sl. sólarhring: 19
  • Sl. viku: 230
  • Frá upphafi: 8779604

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 162
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband