Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Spil og leikir

Hraðskákkeppni taflfélaga hefst eftir verslunarmannahelgi - skráningarfrestur að renna út

Hraðskákkeppni taflfélaga, hefst venju samkvæmt nú eftir verslunarmannahelgi. Þetta er í 22. skipti sem keppnin fer fram en Skákfélagið Huginn er núverandi meistari. Í fyrra tóku 18 lið þátt keppninni.

Þátttökugjöld eru kr. 6.000 kr. á hverja sveit, en sendi sama félag tvær sveitir í keppnina er gjaldið fyrir b-sveitina 4.000 kr. Greiða skal inn á reikning 327-26-6514, kt. 650214-0640 og senda greiðslukvittun á netfangið hradskakkeppni@skakhuginn.is fyrir 31. júlí.

Teflt er eftir útsláttarfyrirkomulagi.

Skráningarfrestur rennur út 31. júlí nk. Skráning fer fram á www.skak.is (guli kassinn efst). Hægt er að skrá b-sveitir til leiks en a-sveitir njóta forgangs varðandi þátttöku komi til þess að fleiri en 16 lið skrái sig til leiks.

Upplýsingar um þegar skráðar sveitir má finna hér.

 

Dagskrá mótsins er sem hér segir:

  1. umferð (16 liða úrslit): Skuli vera lokið eigi síðar en 15. ágúst
  2. umferð (8 liða úrslit): Skuli vera lokið eigi síðar en 30. ágúst
  3. umferð (undanúrslit): Skulu fara fram sunnudaginn, 18. september
  4. umferð (úrslit): Skulu fara fram fram laugardaginn, 24. september

Umsjónaraðili getur heimilað breytingar við sérstakar aðstæður. Breyta má dagsetningum á úrslitum og/eða undanúrslitum með samþykki allra viðkomandi taflfélaga.

 

Reglur keppninnar

  1. Sex manns eru í hvoru liði og tefld er tvöföld umferð, þ.e. allir í öðru liðinu tefla við alla í hinu liðinu. Samtals 12 umferðir, eða 72 skákir.
  2. Heimalið sér um dómgæslu. Komi til deiluatriða er Ólafur S. Ásgrímsson yfirdómari keppninnar. Mótshaldari leggur fram dómara í undanúrslit og úrslit.
  3. Undanúrslit og úrslit keppninnar verða reiknuð til alþjóðlegra hraðskákstiga.
  4. Varamenn mega koma alls staðar inn. Þó skal gæta þess að menn tefli ekki oftar en tvívegis gegn sama andstæðingi og hafi ekki sama lit í báðum skákunum.
  5. Ætlast er til þess að þeir sem tefli séu fullgildir meðlimir síns félags (á Keppendaskrá SÍ). Aðeins má tefla með einu taflfélagi í keppninni.
  6. Liðsstjórar koma sér saman um hvenær er teflt og innan tímaáætlunar. Komi liðsstjórar sér ekki saman um dagsetningu innan tímaramma getur umsjónaraðili ákvarðað tímasetningu.
  7. Verði jafnt verður tefldur bráðabani. Það er tefld er einföld umferð þar sem dregið er um liti á fyrsta borði og svo hvítt og svart til skiptist. Verði enn jafnt verður áfram teflt áfram með skiptum litum þar til úrslit fást.
  8. Heimalið bjóði upp á léttar veitingar, t.d. kaffi, gos, kökur. Mótshaldari sér um veitingar í undanúrslitum og úrslitum.
  9. Meðlimir b-sveita skula ávallt vera stigalægri en meðlimir a-sveitar (FIDE-stig) sömu umferðar. Skákmaður sem hefur teflt með a-sveit getur ekki teflt með b-sveit síðar í keppninni.
  10. Viðureignirnar skulu fara fram innan 100 km. radíus (max 1-1,5 klst.ferðalag) frá Reykjavík nema að félög komi sér saman um annað.
  11. Úrslitum skal koma til umsjónarmann eins fljótt og auðið er í netfangið hradskakkeppni@skakhuginn.is og eigi síðar en 12 klukkustundum eftir að keppni lýkur.
  12. Úrslit keppninnar verða ávallt aðgengileg á heimasíðu Hugins, skakhuginn.is sem er heimasíða keppninnar, og á www.skak.is.
  13. Mótshaldið er í höndum Skákfélagsins Hugins sem sér um framkvæmd mótsins og mun útvega verðlaunagripi.

Stórsigur gegn Belgum!

BelgarÞað dugði lítt Belgum að mæta í húfum í landsliðslitunum gegn Íslandi í áttundu og næstsíðustu umferð Ólympíuskákmótmóts 16 ára og yngri í dag. Íslenska liðið gjörsigraði það belgíska 3½- ½. Vignir Vatnar Stefánsson, Björn Hólm Birkisson og Hilmir Freyr Heimisson unnu allir. Vignir með einkar laglegri mannsfórn í endatafli. Sjá skákdálk Fréttablaðsins í fyrramálið.

Hilmir einbeittur

 

Úrslit 8. umferðar

Ól16-8

Íslenska sveitin er nú kominn upp í 18. sæti af 54 sveitum en fyrirfram var sveitinni raðað í 32. sæti styrkleikaröðinni. 

Röð efstu sveita

Ól-staðan

Afar erfitt hlutskipti bíður sveitarinnar á morgun en þá mætir íslenska sveitin sterkri sveit Moldóva sem er stigahærri á öllum borðum. Umferðin hefst kl. 8 í fyrramálið. 

Pörun 9. umferðar

Ól16-9

Íslenska liðið er það 32. í styrkleikaröð 54 liða. Hverju liði er skylt að hafa eina stúlku liðinu sem tefla skal a.m.k. 3 skákir af 9 á mótinu. Kjartan Maack er liðsstjóri liðsins.


Pistill frá Slóvakíu - annar hluti

Kjartan Maack

Í gær birtist fyrsti hluti pistils Kjartans Maack um Ólympíuskákmót 16 ára og yngri. Í dag höldum við áfram. Að þessu sinni er fjallað um umferðir 1-3.  

-------------- 

Ólympíumót ungmenna yngri en 16 ára fer fram í Poprad, Slóvakíu dagana 22.júlí -29.júlí. Landsliðið er þannig skipað: 1.Vignir Vatnar Stefánsson (2171) 2.Bárður Örn Birkisson (2048) 3.Björn Hólm Birkisson (1977) 4.Hilmir Freyr Heimisson (1974) 5.Svava Þorsteinsdóttir (1313).  

1.umferð – Þýskaland (1 - 3)

Íslenska liðið mætti sterkri sveit Þýskalands í fyrstu umferð mótsins. Þjóðverjar höfðu á að skipa fimmtu stigahæstu sveit mótsins og skörtuðu heimsmeistara á fyrsta borði. Andstæðingur okkar var því rammur að afli. Liðsstjórinn ákvað að tefla fram sterkasta liðinu til að sjá strax hvernig þeir væru stefndir. Svava hvíldi því í þessari umferð. Um tíma stóðum við höllum fæti á öllum borðum, einkum vegna erfiðleika í byrjunum. En Bárður Örn og Hilmir Freyr sýndu að íslenska liðið mun bíta frá sér á mótinu. Þeir nældu sér í sitthvort jafnteflið með hvítu í 1-3 tapi. Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá hvernig Bárður notaði biskupaparið til að stýra skákinni í öruggt jafntefli. Það er alltaf vont að tapa, en við gátum þó staðið upp frá þessari viðureign vitandi að við gerðum eins vel og við gátum. Við mættum einfaldlega ofjarli okkar að þessu sinni. 

2.umferð – Slóvakía KSV (4 - 0)

Fyrri tvöfaldi dagurinn hófst á viðureign við heimamenn, Slóvaka. Þeir sendu 8 sveitir í mótið; A- og B-sveit, og svo sex sveitir frá mismunandi héruðum landsins. Andstæðingar okkar voru frá Kosice héraðinu og vorum við stigahærri á þremur borðum en stigalægri á því fjórða. Hilmir hvíldi sem þýddi að Svava fékk eldskírn sína á Ólympíumóti. Slóvakarnir gáfu okkur ekkert í viðureigninni og þurftum við að sýna mikla þolinmæði á nokkrum borðum. Vignir Vatnar var sérstaklega þolinmóður á efsta borði þar sem hann bætti stöðu sína hægt og rólega. Slóvakinn varðist vel en það tók sinn toll á klukkunni. Vignir lék eðlilegum leikjum og beið rólegur þar til Slóvakinn var kominn niður á 30 sekúndurnar. Þá byrjaði Vignir að leggja þrautir fyrir hann og að lokum varð ein slík Slóvakanum að falli. Svava tefldi Sikileyjarvörnina sína en lenti fljótlega í óþægilegri klemmu þegar andstæðingurinn, sem var 200 stigum hærri, fórnaði manni fyrir þrjú peð. Svava fann þó alltaf leiðir til að leysa vandamál og bæta stöðu manna sinna. Seint í miðtaflinu féll Slóvakinn í fallega taktíska gildru sem Svava hafði spunnið sem leiddi til þess að Svava endaði manni yfir í endatafli. Úrvinnsla hennar í lokinn var óaðfinnanleg og reyndist lokahnykkurinn í 4-0 sigri. 

3.umferð – Kína (1/2 - 31/2)

Andstæðingur okkar í 3.umferð var alþýðulýðveldið Kína. Það er erfitt að mæta þessari risa-skákþjóð því illmögulegt er að lesa í styrkleika liðsmanna þeirra. Við vorum stigalægri á þremur efstu borðum en stigahærri á 4.borði. Við óttuðumst að styrkleiki þeirra væri meiri en skákstig þeirra gáfu tilefni til að ætla. Sá ótti reyndist á rökum reistur, þá sérstaklega hvað fjórða borðið varðaði. Gegnt Hilmi Frey, á 4.borði, settist 11 ára gömul stúlka klædd í bleikt frá toppi til táar. Bleikir skór, bleikir sokkar, bleik gleraugu og meira að segja bleik teygja í hárinu. Á borðinu hafði hún bleikan hunny bunny kisubrúsa sem geymdi kínverskan eplasafa. Saklausari andstæðing er varla hægt að finna, eða hvað? Hilmir komst lítið áleiðis gegn bleiku vélinni sem lék eðlilegum og góðum leikjum. Hilmir reyndi allt hvað hann gat að vinna skákina en stúlkan gaf engin færi á sér. Hilmir teygði sig nokkuð langt í leit að vinningi og skyndilega var það sú kínverska sem gat teflt til sigurs. Þegar stúlkan áttaði sig á því að hún gat teflt til sigurs breyttist allt hennar fas skyndilega. Varir hennar herptust saman, í augun kom ógnvekjandi morðglampi og kisuglasinu var ýtt til hliðar. Svo fórnaði hún manni fyrir þrjú peð í endataflinu, án mikillar umhugsunar. Mikill ótti greip um sig hjá íslenska liðsstjóranum á þeim tímapunkti. Hilmir Freyr var þó vandanum vaxinn og fann leið til að halda jafnteflinu. Litla kínverska vélin var þó ekkert á því að sætta sig við það og færði kóng sinn fram og aftur um borðið í von um að Hilmi yrðu á mistök. Er ljóst var að Hilmir myndi ekki leika af sér, þá hélt sú kínverska samt áfram að reyna að vinna. Þegar hún fann ekki vinningsleið á borðinu, þá starði hún upp í loft eða á næsta vegg í leit að vinningsleiðinni. Minnti þetta nokkuð á aðferðir Vassily Ivanchuk, þó fátt virðist líkt með þessum tveimur skákmönnum að öðru leyti. Mögulega hefur Ivanchuk verið farinn að rannsaka loft og veggi í skáksölum um 11 ára aldur, en hitt verður að teljast ólíklegt að hann hafi klæðst bleiku eða drukkið eplasafa úr kisuglasi. Kínverska stúlkan var ákaflega vonsvikinn þegar hún varð loks að sættast á skiptan hlut.

Vignir tefldi ágætlega á 1.borði, missti af vænlegri leið í miðtaflinu og endaði í riddaraendatafli með einu peði færra. Andstæðingur Vignis tefldi endataflið afar vel og vissi nákvæmlega hvernig átti að tefla það. Bárður lenti í vandræðum snemma tafls og missti þá af eina möguleikanum til að komast klakklaust frá byrjuninni. Eftirleikurinn reyndist auðveldur fyrir Kínverjann. Hálfur vinningur gegn Kína er ekki glæsilegt, en ekkert stórslys heldur.

Framahald á morgun!

Kjartan Maack.


Sumarsyrpa Breiðabliks 2016

Sumarsyrpa Breiðabliks er með samskonar fyrirkomulagi og hin vinsæla Bikarsyrpa TR.
Mótið er ætlað börnum á grunnskólaaldri (fæddum 2000 og síðar) sem ekki hafa náð 1600 skákstigum. Mótið er reiknað til íslenskra og alþjóðlegra skákstiga.
Tefldar eru 5 umferðir eftir svissneska kerfinu. Tímamörk eru 30 mínútur + 30 sekúndur á hvern leik og geta skákirnar því varað í allt að tvær klukkustundir. Það margborgar sig að vanda sig og nota tímann, en samt má búast við því að margar skákir klárist á styttri tíma.

Dagskrá:

  • Föstudagurinn 5.ágúst :  1 umferð klukkan 17.30
  • Laugardagurinn 6.ágúst : 2 umferð klukkan 10.30
  • Laugardagurinn 6.ágúst : 3 umferð klukkan 14
  • Sunnudagurinn 7.ágúst : 4 umferð klukkan 10.30
  • Sunnudagurinn 7.ágúst : 5 umferð klukkan 14

Teflt er í Glersalnum í Stúkunni við Kópavogsvöll.


Sigur og jafntefli í dag á Ólympíuskákmótinu

Hong Kong2

Það gekk á ýmsu á ólympíuskákmótinu undir 16 ára í Slóvakíu í dag. Í fyrri umferð dagsins gerði sveitin 2-2 jafntefli við pólska sveit. Þar unnu Bárður Örn Birkisson og Hilmir Freyr Heimisson sínar skákir. Í síðari umferð dagsins vannst 3-1 sigur á Hong Kong. Þá unnu Vignir Vatnar Stefánsson og Hilmir Freyr sínar skákir.

Úrslit 6. umferðar

Ól16-6


Úrslit 7. umferðar

Ól16-7


Íslenska sveitin hefur 7 stig eftir 7 umferðir og er í 26. sæti. Áttunda og næstsíðasta umferð fer fram á morgun og þá teflir Ísland við Belgíu.

Íslenska liðið er 32. í styrkleikaröð 54 liða. Hverju liði er skylt að hafa eina stúlku liðinu sem tefla skal a.m.k. 3 skákir af 9 á mótinu. Kjartan Maack er liðsstjóri liðsins.


Hjörvar og Einar Hjalti unnu í dag

Hjörvar Steinn

Hjörvar Steinn Grétarsson (2550) og Einar Hjalti Jensson (2371) komu sterkir til baka í dag í sjöttu umferð Xtracon-mótins (Politiken Cup) í dag eftir töp í gær. Báðir unnu þeir sannfærandi sigra. Hjörvar hefur 5 vinninga en Einar Hjalti hefur 4½ vinning.

Sjöunda umferð fer fram á morgun. Þá teflir Hjörvar við alþjóðlega meistarann Kevin Goh Wei Ming (2435) frá Singapore en Einar teflir við rússneska stórmeistarann Vladimir Burmakin (2549).

Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir (1815) hefur 3 vinninga og Lárus H. Bjarnason (1516) hefur 1½ vinning. 

398 skákmenn frá 26 löndum taka þátt í mótinu. Þar af eru 27 stórmeistarar. 


Pistill frá Slóvakíu - fyrsti hluti

Ísland - Suður-Afríka

Kjartan Maack hefur skrifað pistil um veruna um Ólympíuskákmót 16 ára og yngri. Hér má finna fyrsta hluta pistilsins. Framhald væntanleg.

-------------- 

Ólympíumót ungmenna yngri en 16 ára fer fram í Poprad, Slóvakíu dagana 22.júlí -29.júlí. Landsliðið er þannig skipað: 1.Vignir Vatnar Stefánsson (2171) 2.Bárður Örn Birkisson (2048) 3.Björn Hólm Birkisson (1977) 4.Hilmir Freyr Heimisson (1974) 5.Svava Þorsteinsdóttir (1313). 

Ferðalagið

Það voru nokkuð lúnir skákmenn sem lentu á flugvellinum í Búdapest laust eftir miðnætti aðfaranótt 21.júlí. Um tvö leytið komum við á hótelið sem mótshaldarar höfðu útvegað okkur og stóð til að halda ferðalaginu áfram til Slóvakíu klukkan 9 morguninn eftir.

Hótelið lofaði ekki góðu við fyrstu sýn, reyndar ekki við aðra sýn heldur. Aðalinngangur hótelsins var harðlæstur og ljósin slökkt. Við fundum dyrabjöllu og ýttum á hana. Stuttu síðar birti til í anddyrinu og hurðin opnaðist. Í dyrunum stóð hótelstjórinn með úfið hár, hálf lokuð augu og bara alls ekkert hress. Hann sagði eitthvað óskiljanlegt eins atkvæðis orð og gekk aftur inn, og við á eftir. Tók þá við posafarsinn. Korti liðsstjórans var rennt í gegn en posavélin neitaði að bregðast við með hefðbundnum hætti. Nokkur reikistefna skapaðist og varð niðurstaðan sú að greiðslan hafði ekki farið í gegn. Hressi hótelstjórinn reyndi aftur og aftur og aftur. Og svo aftur. Þá loks hrökk apparatið í gang eða allt þar til kom að því að prenta kvittun. Þá aðgerð neitaði apparatið staðfastlega að framkvæma. Hressi hótelstjórinn skipti þá um pappír og reyndi aftur. Þá slökkti kerfið á sér í hvert sinn sem PIN númerið var slegið inn. Þá bankaði hótelstjórinn hraustlega í apparatið. Þá loks spýttist út kvittunin, nema hvað það stóð ekkert á henni. Eftir nokkra rannsóknarvinnu kom í ljós að pappírsrúllan snéri öfugt í apparatinu. Hressi hótelstjórinn gaf þá frá sér nokkur hugljúf slavnesk orð, og eitt enskt; Shit! Allt hafðist þetta að lokum og íslenska liðið komst upp á herbergi fyrir klukkan þrjú. Fóru þá allir að sofa, nema liðsstjórinn sem hringdi umsvifalaust í embættismenn kortafyrirtækis síns til að kanna hve oft hann hafði greitt fyrir herbergin fjögur. Kom það ánægjulega á óvart að aðeins hafði verið tekið tvisvar af kortinu. Þegar upp var staðið veitti þetta sérstaka hótel okkur öllum nýja lífsreynslu. Enda hafði það allt til alls; faxtæki í lobbýinu, hermannabedda til að hvílast og bílaverkstæði undir herbergjunum. Allt hugsað til þess að herða landsliðið andlega fyrir átökin sem framundan voru.

Klukkan 9 morguninn eftir stóð íslenska liðið með töskur við vegarkantinn og beið þess að langferðabíll renndi í hlað. Klukkan 10 stóð íslenska liðið enn við sama vegarkant. Liðsstjórinn hóf þá að grennslast fyrir um orsakir þessarar seinkunar. Reyndist skýring mótshaldara einföld. Rússnesku bílstjórarnir tveir höfðu villst í Búdapest. Klukkan 11 voru þeir ennþá villtir. Þeir renndu loks í hlað, á fimmtán manna bíl með tengivagni fyrir ferðatöskur, um klukkan 12. Þegar rússnesku bílstjórarnir opnuðu hurðina á bílnum valt út allt byrjunarlið landsliðs Azerbaijan, og varamaðurinn líka. Liðsstjórinn lá rænulítill í öftustu sætaröð. Þeir hresstust eilítið við að fá vatnssopa og gátu þá lýst raunum sínum. Höfðu þeir setið vatnslausir í þessum fimmtán manna bakaraofni í 3 klukkustundir. Okkur þótti nokkuð vel af sér vikið að hafa keyrt frá Azerbaijan til Ungverjalands á aðeins þremur klukkustundum, en komumst fljótt að því að svo var ekki raunin. Þeir höfðu flogið frá heimaslóðum og lent á flugvellinum í Búdapest um morguninn hvar rússnesku bílstjórarnir biðu þeirra. Þeir voru sem sagt þrjár klukkustundir frá flugvellinum að hótelinu okkar, leið sem við fórum nóttina áður á sjö mínútum. Af þessu mátti ráða að bílferðin til Slóvakíu myndi ekki ganga snurðulaust fyrir sig.

Á leiðinni til Poprad lentu rússnesku bílstjórarnir upp á kant við “konuna” í google maps appinu og virtu ráð hennar ítrekað að vettugi. Fengum við því aukalega heila klukkustund um borð í heitum langferðabílnum; heila klukkustund aukalega af rússneskri dægurlagatónlist. Á einum tímapunkti er Rússarnir hófu að rífast um hvort beygja ætti til hægri eða vinstri þá mátti heyra einhvern farþegann raula stefið úr Klaufabárðunum. Þegar Poprad skiltið loks birtist og það glitti í Tatra fjöllin þá bentu Rússarnir sigri hrósandi í átt að borginni þar sem við ætluðum að tefla 9 skákir á Ólympíumóti ungmenna undir 16 ára. Þeir höfðu sigrað konuna í google maps.

Framhald væntanlegt þar sem fjallað verður um hverja umferð fyrir sig.

Kjartan Maack.


Oliver vann Jansa - Jón Trausti með fullt hús

Oliver Aron Jóhannesson (2232) vann tékkneska stórmeistarann Vlastimil Jansa (2411) í 4. umferð opna tékkneska mótsins (Czech Open) sem fram fór í gær. Oliver hefur 2½ vinning. Dagur Ragnarsson (2274) tapaði sinni skák og hefur 2 vinninga. Oliver og Dagur tefla í a-flokki.

Jón Trausti Harðarson (2078) er í banastuði í b-flokki og hefur fullt hús ásamt þremur keppendum eftir 4 umferðir. Í gær vann hann þýska FIDE-meistarann Johannes Dorst (2215).

Árangur íslensku keppendanna

Czech4

 


Stórsigur gegn Suður-Afríku

Slóvakía

Íslenska liðið á Ólympíuskákmóti 16 ára og yngri sneri aftur með góðum sigri gegn suður-afrísku liði í fimmtu umferð 4-0 sem fram fór í gær. Vignir Vatnar Stefánsson, tvíburarnir, Bárður Örn og Björn Hólm Birkissynir og Hilmir Freyr Heimisson unnu sínar skákir. Sveitin hefur 4 stig eftir 5 umferðir. Frídagur er í dag.

Úrslit 5. umferðar

Ól16-5

 

Í sjöttu umferð sem fram fer á morgun teflir Ísland við pólska sveit.

Íslenska liðið er 32. í styrkleikaröð 54 liða. Hverju liði er skylt að hafa eina stúlku liðinu sem tefla skal a.m.k. 3 skákir af 9 á mótinu. Kjartan Maack er liðsstjóri liðsins.


Tónar og tafl

Verið velkomin í tafl með ljúfum tónum á Óðinstorgi!

Flemming Viðar Valmundsson harmonikkuleikari verður á svæðinu og tekur lagið.

Gestum og gangandi býðst að spreyta sig í tafli á meðan að ljúfir harmonikkutónar flæða um torgið. Stefán Bergsson frá Skákakademíu Reykjavíkur verður á staðnum og leiðbeinir þeim sem hafa áhuga.

C is for Cookie sjá um veitingar á torginu.
Óðinstorgstilboð: Uppáhellt kaffi og pönnukaka á 500 kr!

Viðburðurinn verður milli kl. 14 og 17, miðvikudaginn 27. júlí.

Sjáumst teflandi á Óðinstorgi!

Yfir og út. Skák og mát..


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.8.): 21
  • Sl. sólarhring: 21
  • Sl. viku: 149
  • Frá upphafi: 8779227

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 106
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband