Færsluflokkur: Spil og leikir
5.9.2016 | 22:14
Ólympíumót: 4. umferð í opnum flokki
Pörunin í fjórðu umferð kom okkur nokkuð á óvart. Við vorum búnir að vinna tvær viðureignir og missa niður einungis tvisvar sinnum hálfan vinning miðað við hæsta mögulega vinningafjölda með sigur í tveim viðureignum (1-3 í stað 1,5-2,5 gegn Tékkum og svo 0,5 niður gegn Sýrlandi). Við áttum því von á því að tefla upp fyrir okkur í 4. umferð. Annað kom á daginn þegar frændur okkar Færeyingar komu upp úr hattinum.
Þrátt fyrir að við séum mun hærra skrifaðir á skáksviðinu áttum við í raun harma að hefna frá því í Tromsö þar sem jafntefli varð niðurstaðan 2-2.
Því var í raun ekki annað en sigur í boði í viðureign dagsins.
Hannes gerði jafntefli nokkuð snemma og mér fannst Bragi hafa fína stöðu. Ég var ekki avleg viss með hinar stöðurnar. Hjörvar var klárlega alltaf með fína stöðu en ég var hræddur um að hann væri að missa frumkvæðið og væri ekki með neitt. Eitthvað var ég að misskilja stöðuna hjá Gumma líka og hélt að hún væri shaky en líklegast var allt vel "undir control".
1. borð : Hannes svart á Helga Dam Ziska (2546)
Helgi beitti rólegu afbrigði í ítslska leiknum og fékk í mesta lagi eitthvað "míkró" frumkvæði. Hannes tefldi í raun af miklu öryggi og hratt og var ekki í mikilli hættu í skákinni. Þessi skák kláraðist fyrst af öllum skákunum. Hannes muldraði einhverjar pælingar um að skipta ekki upp á riddara samkvæmt heilræði Ulf Anderson. Helgi hélt að Hannes hefði boðið jafntefli og flengdi fram spaðann sem Hannes tók glaður við og jafntefli niðurstaðan!
2. borð : Hjörvar hvítt á Jón Rauðgarð (John Rodgaard)
Hjörvar hefur í þessu móti og undanfarið sérhæft sig í að fella gamalmenni á tíma. Þessi skák var í raun engin undantekning þar sem tímahrak Jóns hafði mikil áhrif. Hjörvar kom Jóni á óvart í byrjuninni og þó e.t.v. hafi hann ekki fengið mikið hafði hann alltaf eitthvað frumkvæði og Rauðgarðinum leið ekki vel í stöðunni.
Þegar frumkvæðið virtist vera að fjara út hélt Hjörvar tangarhaldi í vonina um skemmtilega fórn á f7-reitnum. Sú fórn var skemmtilega undirbúin með lúmskum g3 og h4 leikjum.
Rauðgarðuinn féll í gildruna og var svo hrifinn af fórninni að hann leyfði Hjörvari að máta sig í lokin!
Herbergi 526 átti góðan dag gegn Færeyjum!
3. borð : Guðmundur svart á Joan Andreasen
Gummi fékk akkúrat upp afbrigðið sem hann undirbjó fyrir skákina. Leikurinn hans ...c6 var sjaldgæfur og líklegast hefur hann komið andstæðingi hans á óvart.
Byrjanavalið líklega lúmskt gott hjá Gumma sem fékk ákveðna dýnamík í stöðuna sem oft getur vantað í aðallínunum í þessu afbrigði
Þegar Gummi var að komast inn á a-línunni var hann í raun kominn með betra tafl með góðan biskup og ákveðið tangarhald á svörtu reitunum. Ég allavega misskildi eitthvað stöðuna, hélt að Gummi væri að fórna peði og ætlaði að tefla stöðulega peði undir með granítharðan svartreitabiskup. Hann átti hinsvegar kröftugt framhald í kjölfarið með ...Rxe4 og mjög mikilvægt að eiga svo ...f5-f4 í framhaldinu sem tryggði svörtum mun betra tafl.
...Rxe4 var mikilvægur leikur hér hjá Gumma!
Gummi gerði smá mistök í úrvinnslunni í síðasta leik í tímahrakinu en það kom engu að síður ekki að sök og vinningurinn hafðist. Heilt yfir fín skák hjá Gumma.
4. borð : Bragi hvítt á Sjúrð Þorsteinsson
Bragi tefldi aftur afar vandaða skák og virðist vera að finna sig vel á þessu móti. Ég var ánægður með samvinnu okkur í undirbúningi en þar var ákveðið að leita í smiðju Robin van Kampen sem er með góða vídeóseríu um Bb5+ í Sikileyjarvörninni. Mestur undirbúningurinn fór í að kíkja á fyrirlestrana hans á Chess24 og vorum við sammála um að þessar Maroczy stöður hentuðu skákstíl Braga fullkomlega og sérstaklega gegn þessum andstæðing. Björn Ívar hafði teflt nokkrar skákir við Sjúrð og vildi meina að styrkleiki hans væri í taktík en hann væri að sama skapi slappur í manúveringum og strategískum stöðum.
Þetta plan gekk í raun fullkomlega upp og Bragi fékk akkúrat stöðutýpuna sem við höfðum stúderað og vildum fá. Fyrirlestur van Kampen var jafnframt mjög góður og ýmsir punktar úr því sem Bragi nýtti sér eins og t.d. að drepa ekki á c6 fyrr en eftir ...a6. Reyndar vorum við ekki 100% vissir um hvort það ætti við í þessu tilviki en það hjálpar alltaf að hafa hugmyndir og punkta að vinna með.
Sjúrður gerði smá mistök í byrjuninni með ...e6 og eins missti hann af aðeins kröftugri vörn aðeins fyrr. Að öðru leiti varðist hann nokkuð vel þó svarta staðan sé alltaf passíf. Hinsvegar má Bragi eiga það að hann tefldi þessa skák mjög þétt í sannkölluðum Karpov-stíl. Bragi bætti stöðuna jafnt og þétt og tefldi mikið fyrirbyggjandi gegn plönum andstæðingsins. Staðsetning hróksins á a-línunni til að fyrirbyggja b6-break var til dæmis lærdómsríkt. Síðar hoppaði sá hrókur skemmtilega inn í skákina en það vill oft verða að skákir "flæða" vel þegar þær eru vel tefldar.
Bragi var alltaf með ný vandamál fyrir svartan þó þau væru smá og smátt og smátt molnaði Sjúrður undan pressunni. Hann fekk einn séns á að berjast á móti með því að fórna skiptamun í ca. 39. leik með ...fxg5 en missti af því og þurfti þess í stað að þjást. Bragi kláraði úrvinnsluna glæsilega og hálfgerð módelskák í afbrigðinu því niðurstaðan.
Hér seint í skákinni var Re5+ skemmtilegur og opnaði flóðgáttir fyrir hvítu hrókana.
Færeyingar voru því lagðir 3,5 - 0,5 sem verða að teljast glæsileg úrslit. Á tímabili var undirritaður að sætta sig við 2,5 en strákarnir voru til í meira og sóttu það!
Í 5. umferð og þeirri síðustu fyrir eina frídag mótsins mætum við ungri sveit Eista. Þeir hafa staðið sig vel en engu að síður er gríðarlega óvænt að vera með 3 sigra og 1 tap og tefla niðurfyrir okkur enn á ný! Þessi viðureign er gríðarlega mikilvæg og sigur hér setur okkur í mjög góða stöðu fyrir framhaldið. Við verðum stigahærri á öllum borðum en Eistarnir eru ungir og hungraðir og þetta verkefni verður að tækla af festu!
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2016 | 18:53
ÓL: Hallgerður hélt sjó í erfiðri stöðu og vann að lokum seiglusigur
Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir vann mikilvægan sigur á 3.borði í dag í spennandi viðureign gegn Moldavíu í 4.umferð Ólympíuskákmótsins í Bakú. Ísland vann glæsilegan 2,5-1,5 sigur og hefur nú hlotið 6 stig af 8 mögulegum.
Hallgerður lenti í nokkru basli í sinni skák en lét erfiða stöðu ekki slá sig út af laginu og vann seiglusigur. Það að standa fast í lappirnar í ólgusjó taflborðsins er að verða aðalsmerki íslenska kvennaliðsins á þessu Ólympíuskákmóti.
5.9.2016 | 17:34
Glæsilegur sigur á Moldóvu - stórsigur gegn Færeyingum
Íslenski landsliðshópurinn átti góðan í Kristalhöllinni í Bakú í dag. Stelpurnar unnu frábæran sigur á sterkri sveit Moldóvu í dag. Annar sigur stelpnanna í röð gegn sveit sem er sterkari á öllum borðum!
Lenka Ptácníková og Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir unnu sínar skákir og Veronika Steinunn Magnúsdóttir gerði jafntefli. Hennar fyrsti punktur á Ólympíuskákmóti. Frábær úrslit. Bæði Lenka og Hallgerður sýndu mikinn karakter í erfiðum stöðum sem þær náðu að snúa taflinu sér í vil.
Íslenska karlalandsliðið vann stórsigur á liði Færeyinga 3½-½. Góð úrslit. Þótt að Ísland sé töluvert sterkara lið en það færeyska á pappírnum eru slík úrslit alls ekki sjálfgefin. Til dæmis gerðu þjóðirnar 2-2 jafntefli á Ólympíuskákmótinu í Tromsö árið 2014. Hjörvar Steinn Grétarsson, Guðmundur Kjartansson og Bragi Þorfinnsson unnu sínar skákir en Hannes Hlífar Stefánsson gerði jafntefli.
Íslenska karlalandsliðið er í 40. sæti með 6 stig af 8 mögulegum. Kvennaliðið er í 31. sæti einnig 6 stig. Fyrirfram var karlaliðinu raðað í 44. sæti á styrkleika en kvennaliðið í 61. sæti. Árangur tveggja liða er því góður - sérstaklega þó kvennaliðsins.
Fimmta umferð hefst á morgun klukkan 11 að íslenskum tíma. Ísland mætir Eistlandi í opnum flokki en Mexíkó í kvennaflokki.
- Heimasíða mótsins
- Chess-Results
- Beinar útsendingar (hefjast kl. 11 að íslenskum tíma)
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2016 | 17:15
Vetrarstarf Ása byrjar á morgun!
Æsir í Ásgarði byrja sína vetrardagskrá á morgun þriðjudag í Stangarhyl 4 kl. 13.00 Allir skákmenn, karlar 60 + og konur 50+ velkomin til leiks. Nú æsist leikurinn.
Sjáumst.
5.9.2016 | 13:22
ÓL: Öruggur sigur gegn Sýrlandi
Ingvar Þór Jóhannesson, landsliðseinvaldur Íslands í opnum flokki, sagði sigur liðsins gegn Sýrlandi í 3.umferð hafa verið mjög öruggan. Ingvar Þór taldi skák Braga Þorfinnssonar á 4.borði hafa verið mjög góða og lærdómsríka. Bragi sagði skjótan sigur Hannesar Hlífars Stefánssonar á 1.borði hafi gefið liðinu aukið sjálfstraust.
5.9.2016 | 13:08
ÓL: Lenka segir undirbúninginn hafa gengið fullkomlega upp
Lenka Ptacnikova (2159) leiddi íslenska liðið til sigurs gegn sterku liði Englands í 3.umferð sem fram fór í gær. Lenka vann sjálf góðan sigur gegn hinni sterku Jovanka Houska (2396) sem er alþjóðlegur meistari.
Lenka sagði undirbúninginn fyrir viðureignina hafa gengið upp og flestar skákir þróuðust eins og reiknað var með. Það sem jók enn á einbeitingu liðsins var loforð þess efnis að ef liðið myndi leggja England að velli fengi það að fara í parísarhjólið sem stendur svo tignarlega við ströndina. Parísarhjólið er um 60 metra hátt og er gjarnan kallað Auga Bakú.
5.9.2016 | 12:43
Haustmisseri Skákskóla Íslands
Skákskólinn Íslands hefur hauststarfsemina uppúr miðjum september með hefðbundinni kennslu í flokkum skólans. Skákskóli Íslands verður einnig með starfsemi í Mosfellsbæ, í Stúkunni á Kópavogsvelli, Selfossi og víðar.
Skákskóli Íslands mun eins og undanfarin ár einbeita sér að kennslu/þjálfun ungra skákmanna, pilta og stúlkna sem vilja bæta árangur sinn verulega.
Bestu ungu skákmenn þjóðarinnar eru meðal nemenda skólans.
Skákskóli Íslands sinnir hlutverki sínu með því að bjóða upp á hóptíma, einkakennslu, æfingabúðir, skákmót á borð við kynslóðamót þar sem ungir skákmenn hafa fengið að spreyta sig gegn fremstu skákmönnum þjóðarinnar og Meistaramót Skákskólans hefur verið langsterkasta og best skipaða skákmót fyrir ungmenni á ári hverju.
Þjálfun fyrir einstök verkefni og á meðan þeim stendur hefur verið snar þáttur í starfsemi Skákskóla Íslands. Má nefna keppnir á borð við heimsmeistaramót ungmenna í öllum aldursflokkum , Evrópumótum ungmenna, ólympíumót 16 ára yngri, Norðurlandamót en fararstjórn og þjálfun á slíkum mótum hefur verið á hendi starfsmanna skólans og skólastjórn. Þjálfun og kennsla fyrir skólalið sem hyggjast taka þátt í hinum ýmsu grunnskólamótum er annar valkostur.
Skákskóli Íslands beinir því til foreldra og forráðamanna skákfélaga að leita eftir samstarfi við Skákskóla Íslands.
Skólastjóri Skákskóla Íslands er Helgi Ólafsson alþjóðlegur stórmeistari og FIDE senior trainer. Hann er jafnframt einn aðalkennari skólans ásamt stórmeistaranum Hjörvari Steini Grétarssyni, Birni Ívari Karlssyni landsliðsþjálfara Lenku Ptacnikovu stórmeistara kvenna , og fleirum.
Verð: Kr. 15.000.- pr. önn
Skráning: skaksamband@skaksamband.is Sími 5689141 kl. 9-13 virka daga.
5.9.2016 | 12:15
ÓL: Kvennaliðið á leið upp í Auga Bakú
Eftir þungt 0-4 tap íslenska kvennaliðsins gegn Ítalíu í 2.umferð opnaði landsliðseinvaldurinn, Björn Ívar Karlsson, verkfærakistuna. Þar fann hann afar öflug verkfæri, trúlega hönnuð og smíðuð í Vestmannaeyjum, sem hann notaði til að styrkja íslenska kvennaliðið fyrir viðureignina gegn mjög sterku liði Englands í 3.umferð.
Taflmennskan gegn Englandi var kröftug og tímastjórnun með miklum ágætum. Það sem vakti þó mesta athygli var aðferðin sem notuð var til að ná fram því besta hjá liðsmönnum. Ákveðið var að ef liðið myndi vinna England færi hópurinn allur saman í parísarhjól sem staðsett er við ströndina. Eftir glæsilegan sigur gegn Englandi, 2,5-1,5, liggur ljóst fyrir að kvennaliðið er á leið upp í hið magnaða 60 metra háa parísarhjól, eða Auga Bakú eins og það er gjarnan kallað.
5.9.2016 | 08:41
Viðureignir dagsins: Færeyjar og Moldóva
Fjórða umferð Ólympíuskákmótsins hefst kl. 11 í dag. Andstæðingar karlaliðsins eru frændur okkar og vinir Færeyingar. Jóhann Hjartarson hvílir í dag.
Íslenska kvennaliðið mætir sveit Moldóvu. Hrund Hauksdóttir hvílir.
- Heimasíða mótsins
- Chess-Results
- Beinar útsendingar (hefjast kl. 11)
5.9.2016 | 08:25
Haustmót TR hefst sunnudaginn 18. september
Haustmót Taflfélags Reykjavíkur 2016 hefst sunnudaginn 18. september kl.14. Mótið, sem er hið 83. í röðinni, er eitt af aðalmótum vetrarins í reykvísku skáklífi og er jafnframt meistaramót T.R. Mótið er flokkaskipt og öllum opið.
Haustmótið fer fram í félagsheimili Taflfélags Reykjavíkur, skákhöllinni að Faxafeni 12. Tefldar verða þrjár umferðir á viku og eru alls níu umferðir í hverjum flokki. Lokuðu flokkarnir eru skipaðir tíu keppendum hver þar sem allir tefla við alla, en í opna flokknum er teflt eftir svissnesku kerfi. Í lokaða flokka er keppendum raðað eftir Elo-skákstigum.
Skráningu í alla lokaða flokka lýkur laugardaginn 17. september kl. 18.
Lokaumferð fer fram sunnudaginn 16. október en mótinu lýkur með verðlaunaafhendingu miðvikudaginn 19. október þegar Hraðskákmót TR fer fram.
Núverandi skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur er Bragi Þorfinnsson.
Dagskrá:
1. umferð: Sunnudag 18. september kl. 14.00
2. umferð: Miðvikudag 21. september kl. 19.30
3. umferð: Föstudag 23. september kl. 19.30
Hlé
4. umferð: Miðvikudag 5. október kl.19.30
5. umferð: Föstudag 7. október kl. 19.30
6. umferð: Sunnudag 9. október kl. 14.00
7. umferð: Miðvikudag 12. október kl. 19.30
8. umferð: Föstudag 14. október kl. 19.30
9. umferð: Sunnudag 16. október. kl. 14.00
Í opna flokknum eru leyfðar tvær yfirsetur (bye) í umferðum 1-6 og fæst 1/2 vinningur fyrir hvora yfirsetu. Tilkynna þarf skákstjóra um yfirsetu fyrir lok umferðarinnar á undan.
Verðlaun í A-flokki:
1. sæti kr. 100.000
2. sæti kr. 50.000
3. sæti kr. 25.000
4. og 5. sæti ókeypis í Skákþing Reykjavíkur 2017
Verðlaun í B-flokki:
1. sæti kr. 20.000
2.-3. sæti ókeypis í Skákþing Reykjavíkur 2017
Verðlaun í C-flokki:
1. sæti kr. 15.000
2. og 3. sæti ókeypis í Skákþing Reykjavíkur 2017
Verðlaun í opnum flokki:
1. sæti kr. 10.000
2. og 3. sæti ókeypis í Skákþing Reykjavíkur 2017
Ef lokuðum flokkum fjölgar þá verða verðlaun í þeim þau sömu og í C-flokki. Að auki ávinnur sigurvegari hvers flokks sér þátttökurétt í næsta styrkleikaflokki að ári liðnu. Verði keppendur jafnir í efstu sætum verður peningaverðlaunum skipt en stigaútreikningur látinn ráða lokaröð keppenda.
Tímamörk:
1 klst. og 30 mín. + 30 sek. á leik. Að loknum 40 leikjum bætast við 15 mínútur.
Þátttökugjöld:
3.500 kr. fyrir félagsmenn T.R. 18 ára og eldri (5.000 kr. fyrir aðra).
1.500 kr. fyrir félagsmenn T.R. 17 ára og yngri (2.500 kr. fyrir aðra).
Nýjustu færslur
- Ný vefsíða Skák.is!
- Loftur fær Héðin í fyrstu umferð
- Tveir fyrrum heimsmeistarar bættust við á keppendalistann á l...
- Ný alþjóðleg skákstig
- Carlsen vann Aronian - með vinningsforskot og aftur yfir 2850
- Skákklúbburinn Æsir - vertíðarlok
- Fundargerð aðalfundar SÍ
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open hefst á föstudaginn
- Carlsen vann Caruana í fyrstu umferð Altibox Norway Chess
- Þrír efstir og jafnir eftir fyrsta minningarmót Vinaskákfélag...
Tenglar
Mót í gangi
Mót sem eru í gangi hverju sinni
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open Valsheimilið, 1.-9. júní
- Altibox Norway Chess 27. maí - 8. júní: Carlsen og flestir sterkustu skákmenn heims
Lykilvefir
- Skáksamband Íslands Heimasíða SÍ
- Mótaáætlun SÍ
- Vefsvæði Friðriks Ólafssonar Vefsíða tileinkuð Friðriki Ólafssyni
- Skákskóli Íslands
- Skáksögufélagið
- F3-klúbburinn Vildarvinir skákíþróttarinnar á Íslandi
- Tímaritið Skák
- Fischersetur Selfoss
- Skákbækur til sölu
- Bobbý skáksverslun
- Skákhornið Spjallþráður skákmanna
- Skáklandið Stefán Bergsson bloggar
- Skákmyndir
Kennsluvefir
Íslensk taflfélög
Ef þú vilt tefla á netinu!
- Vinaskákfélagið
- Skákfélagið Hrókurinn
- Skákfélagið Huginn
- Taflfélag Reykjavíkur
- Víkingaklúbburinn
- Skákfélag Akureyrar
- Taflfélag Garðabæjar
- Taflfélag Vestmannaeyja
- Æsir
- Skáksamband Austurlands
- Skákdeild Fjölnis
- Skákfélag Sauðárkróks
- Taflfélag Bolungarvíkur
- Skákfélag Selfoss og nágrennis
- Skákdeild Breiðablik
- Skákdeild KR
- Skákdeild Breiðabliks
- Gallerý Skák
- Riddarinn
- Félag íslenskra bréfskákmanna
Erlendir skákvefir
- FIDE Alþjóðlega skáksambandið
- ECU
- The Week in Chess
- ChessBase
- Chess Vibes
- Chessdom
- Your Chess News Umsjón Jóhann H. Ragnarsson
- Bergens Schakklub Besta norræna skákfréttasíðan
- Færeyska skáksambandið
- Bloggsíða Susan Polgar
- ChessCafe Pistlar og greinar
Almanök
Teflt á netinu
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.7.): 11
- Sl. sólarhring: 24
- Sl. viku: 134
- Frá upphafi: 8778734
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 90
- Gestir í dag: 8
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar