Færsluflokkur: Spil og leikir
12.12.2016 | 17:28
Mjög góð frammistaða Stefáns Orra og Óskars Víkings á Benidorm
Bræðurnir Óskar Víkingur (1707) og Stefán Orri Davíðssynir (1374) stóðu sig afar vel á alþjóðlegu móti í Benidorm á Spáni. Stefán Orri vann sigur í flokki 10 ára og yngri. Óskar hlaut 4 vinninga í 5 skákum í flokki 12 ára og yngri Áður tefldu þeir báðir á alþjóðlegu móti en skiptu svo yfir í unglingamót þar sem Stefán sló í gegn.
Á alþjóðlega mótinu hlaut Óskar 5½ vinning í átta skákum þrátt fyrir að tefla við stigahærri andstæðinga í öllum umferðum nema einni. Stefán Orri hlaut 2½ vinning í skákum og tefldi upp fyrir sig í öllu umferðum. Óskar hækkaði um 114 stig og Stefán um 62 skákstig.
Stefán skipti yfir í unglingamót 10 ára eins og áður sagði. Þar fór hann mikinn og vann mótið með 5½ vinningi í 6 skákum þrátt fyrir að vera aðeins nr. 10 í stigaröð keppenda. Hækkaði hann um 124 skákstig fyrir frammistöðuna!
Óskar skipti einnig í unglingamótið 12 ára og yngri og sleppti tveimur fyrstu umferðum. fékk hann 4 vinninga í 5 skákum og hækkaði um 22 skákstig. Alls koma þeir bræður með 322 skákstig í handraðanum eftir þetta skemmtilega skákævintýri!
12.12.2016 | 16:52
Jólamót Víkingaklúbbsins haldið á miðvikudaginn
Jólamót Víkingaklúbbsins fyrir börn og unglinga verður haldið í Víkinni Víkingsheimilinu miðvikudaginn 14. desember. Telfdar verða 5. umferðir með 7 mínútna umhugsunartíma á mann. Mótið hefst mótið kl. 17.15. Allir krakkar/unglingar á grunnskólaaldri eru velkomnir og þátttaka er ókeypis. Veitt verða verðlaun fyrir 3. efstu sætin, auk þess sem þrjár eftstu stúlkur fá verðlaun. Einnig eru verðlaun fyrir þrjá efstu félagsmenn í stúlku og drengjaflokki, auk þess sem efsti einstaklingur í hverjum árgangi fær medalíu.
Barna og unglingaæfingar voru vikulega í vetur, en næsta æfing eftir jólafríð verður miðvikudaginn 11. janúar og verða æfingar vikulega fram á vor.
Skráning á mótið fer m.a fram á netfangið: vikingaklubburinn(hjá)gmail.com og á skak.is (guli kassinn), þs þegar sá kassi verður tilbúinn!
Nánari upplýsingar veitir Gunnar (gsm: 8629744).
Úrslit mótsins 2015 hér:
Úrslit 2014 hér:
Úrslit 2013 hér:
Úrslit 2012 hér:
12.12.2016 | 10:24
Friðriksmót Landsbankans - Íslandsmótið í hraðskák fer fram á laugardaginn - Skráning hefst kl. 16 í dag
Friðriksmót Landsbankans - Íslandsmótið í hraðskák - fer fram í útibúi Landsbankans við Austurstræti 11 laugardaginn 17. desember nk. Mótið hefst kl. 13 og stendur til kl. 16.30.
Gera má ráð fyrir að flestir sterkustu skákmenn landsins taki þátt og efsti keppandi mótsins fær titilinn Íslandsmeistari í hraðskák. Tímamörkin eru 4+2 og tefldar eru ellefu umferðir.
Skráning fer fram á Skák.is (guli kassinn efst) og hefst í dag kl. 16:00. Skákmenn eru hvattir til að skrá sig sem fyrst enda takmarkast þátttaka við um u.þ.b. 80-90 manns. Gildir þar lögmálið, fyrstir koma, fyrstir fá, en þó njóta stórmeistarar og alþjóðlegir meistarar forgangs varðandi þátttöku.
Þetta er þrettánda árið í röð sem Landsbankinn og Skáksamband Íslands standa fyrir Friðriksmótinu í skák, en mótið er haldið til heiðurs Friðriki Ólafssyni, fyrsta stórmeistara Íslendinga. Margir af sterkustu stórmeisturum landsins hafa undanfarin ár teflt til heiðurs Friðriki.
Verðlaun fyrir efstu sæti eru eftirfarandi:
- 100.000 kr.
- 60.000 kr.
- 50.000 kr.
- 30.000 kr.
- 20.000 kr.
Séu tveir eða fleiri jafnir í efsta sætinu verður stigaútreikningur látinn ráða Íslandsmeistaratitlinum. Verðlaunafé skiptist eftir Hort-kerfinu.
Aukaverðlaun
- Efsti maður með 2001-2200 skákstig 10.000 kr.
- Efsti maður með 2000 stig og minna: 10.000 kr.
- Efsta konan: 10.000 kr.
- Efsti strákur 16 ára og yngri (2000 eða síðar): 10.000 kr.
- Efsta stúlka 16 ára og yngri (2000 eða síðar): 10.000 kr.
- Efsti eldri skákmaður (1956 eða fyrr): 10.000 kr.
- Útdreginn heppinn keppandi: 10.000 kr.
Aukaverðlaun eru miðað við alþjóðleg hraðskákstig 1. desember sl.(alþjóðleg og íslensk skákstig til vara hafi menn ekki alþjóðleg hraðskákstig). Stigaútreikningur ræður séu menn jafnir og efstir.
Hver keppandi getur aðeins unnin ein aukaverðlaun og eru aukaverðlaunin valin í þeirri röð sem fram kemur að ofan.
Mótið er reiknað til alþjóðlegra hraðskákstiga.
Fyrri sigurvegarar
- 2015 - Þröstur Þórhallsson
- 2014 - Héðinn Steingrímsson
- 2013 - Helgi Ólafsson
- 2012 - Bragi Þorfinnsson, Hjörvar Steinn Grétarsson og Jón Viktor Gunnarsson
- 2011 - Henrik Danielsen
- 2010 - Jón Viktor Gunnarsson og Þröstur Þórhallsson
- 2009 - Héðinn Steingrímsson
- 2008 - Helgi Ólafsson
- 2007 - Héðinn Steingrímsson
- 2006 - Helgi Áss Grétarsson
- 2005 - Jón Viktor Gunnarsson og Arnar E. Gunnarsson
- 2004 - Jóhann Hjartarson og Stefán Kristjánsson
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2016 | 10:02
Kynslóðamót Skákskólans og skákdeildar Breiðabliks í Stúkunni
Helgi Ólafsson stórmeistari og skólastjóri Skákskóla Íslands vann allar skákir sínar og sigraði örugglega á kynslóðamóti Skákskólans og Skákdeildar Breiðablikur sem fram fór í Stúkunni á Kópavogsvelli að morgni laugardagsins laugardaginn 10. desember. Í 2. sæti varð Bárður Örn Birkisson með 6 vinninga. Tímamörk voru 4 2.
Á mótinu tóku þátt ungmenni sem stundað hafa æfingar í Stúkunni í haust og mörg undanfarin misseri en Skákskólinn og skákdeild Breiðabliks hafa haft samvinnu um þessa starfssemi. Þá var foreldrum borðið að vera með og afi systkinanna Björns Hólms, Bárðar og Freyju Birkisbarna var einnig meðal þátttakenda. Þá var Ísfirðingurinn Guðmundur Gíslason í bæjarferð og var boðin þátttaka með. Keppendur voru 20 talsins.
Á nýju ári verða fleiri slík mót á dagskrá. Skákstjórar voru Halldór Grétar Einarsson, Birki Karl Sigurðsson og Helgi Ólafsson.
Lokastaða á Chess-Results.
12.12.2016 | 09:01
Fjölmennt fjölskylduskákmót á jólaæfingu TR
Laugardaginn 10. desember var haldin hin eina og sanna Jólaskákæfing TR. Jólaskákæfingin ár hvert er uppskeruhátíð haustannarinnar og krakkarnir bregða þá á leik með fjölskyldunni í skemmtilegri liðakeppni.
Jólaskákæfingin í dag var sameiginleg fyrir alla skákhópana sem hafa verið í gangi í haust, byrjendahópinn, stelpuhópinn, laugardagsæfingahópinn og afrekshópa A og B. Fjölskylduskákmótið, sem er tveggja manna liðakeppni, var fyrst á dagskrá. Krökkunum hafði verið boðið upp á að taka einhvern fjölskyldumeðlim með sér á jólaskákæfinguna og mynda lið.
Hvorki meira né minna en 33 lið tóku þátt, samtals 67 þátttakendur, og sýndu liðin mikið hugmyndaríki við nafnagiftina, eins og sjá má á þátttakendalistanum hér að neðan! Tefldar voru 5 umferðir með 5 mín. umhugsunartíma. Fóru leikar svo að í fyrsta sæti jöfn urðu liðin Easy win, easy life og Sharks með 9 vinninga af 10 mögulegum. Fimm fyrstu liðin fengu Hátíðarpoka Freyju í verðlaun. En úrslit urðu annars sem hér segir:
1.-2. Easy win, easy life, Bárður Örn og Björn Hólm, 9v.
1.-2. Sharks, Vignir Vatnar Stefánsson og Stefán Már Pétursson, 9v.
3. Stúfur og Kertasníkir, Adam Omarsson og Omar Salama, 7,5v.
4.-5. Möllersfeðgar, Tómas Möller og Agnar Tómas, 7v.
4.-5. Jólahrókarnir, Gylfi Már og Þórir Ben., 7v.
6.-9. Heilögu Ásarnir, Ásthildur Helgadóttir og Helgi Áss Grétarsson, 6v.
6.-9. Bestersen, Einar Tryggvi Petersen og Jakob Alexander Petersen, 6v.
6.-9. Stekkjastaur og Stúfur, Elsa Kristín Arnaldardóttir og Arnaldur Loftsson, 6v.
6.-9. Stubbarnir, Soffía Arndís og Haukur B, 6v.
10.-13. Stúfur og Leppunarlúðinn, Alexander Björnsson og Björn Jónsson, 5,5v.
10.-13. Gluggagægir og Grýla, Jósef Omarsson og Lenka Ptacnikova, 5,5v.
10.-13. Kethrókur, Kristján Orri Hugason og Hugi Ólafsson, 5,5v.
10.-13. Jólakóngarnir, Gabríel Sær og Alexander Már, 5,5v.
14.-23. Jólastúfarnir, Bjartur Þórisson og Benedikt Þórisson, 5v.
14.-23. Skákmeistararnir, Freyja Birkisdóttir og Bárður Guðmundsson, 5v.
14.-23. Mögnuðu Mandarínurnar, Iðunn Helgadóttir og Helgi Pétur, 5v.
14.-23. Álftamýri 56, Bergþóra H. Gunnarsdóttir, Gunnar Fr. Rúnarsson og Sigurður R. Gunnarsson, 5v.
14.-23. Drottningin óstöðvandi, Einar Dagur og Ingvar Wu, 5v.
14.-23. Lárún, Eyrún Lára Sigurjónsdóttir og Lárus H. Bjarnason, 5v.
14.-23. Mislitu biskuparnir, Emil Kári og Kristján Dagur, 5v.
14.-23. Galdraliðið, Einar Helgi og Ásgerður, 5v.
14.-23. Rayano, Rayan og Ammarr, 5v.
14.-23. Jólastuð, Anna Katarina og Jón, 5v.
24. Vinaliðið, Daníel Davíðsson og Annamaría Þorsteinsdóttir, 4,5v.
25.-28. Aðventuriddararnir, Hildur Birna Hermannsdóttir og Hermann Þór Geirsson, 4v.
25.-28. Yoda og jólasveinninn, Markús Hrafn og Skúli.
25.-28. Skáksveinarnir, Ásgeir Valur Kjartansson og Bjarki Dagur Arnarsson, 4v.
25.-28. 23Afl, Mikael Bjarki Heiðarsson og Jón Höskuldsson, 4v.
29. Villti, tryllti riddarinn, Matthías Guðni og Baldur
30.-31. DB8, Dagur Björn Arason og Ari Björnsson
33.-31. Pokémonarnir, Friðrik Ólafur Guðmundsson og Finnur Malmquist
32.-33. Taflliðið, Rigon og Róbert, 2v.
32.-33. Skákliðið, Victor og Dong, 2v.
Að þessari skemmtilegu liðakeppni lokinni fór fram verðlaunaafhending. Fyrst voru veitt verðlaun (medalíur) fyrir mætingu/ástundun á skákæfingunum á þessari önn í byrjendahópnum, stúlknahópnum og laugardagsæfingahópnum.
Í byrjendahópnum fengu eftirfarandi drengir verðlaun fyrir góða mætingu:
1. Anthony Gia Bao.
2. Daníel Davíðsson og Friðrik Ólafur Guðmundsson Briem.
3. Emil Kári Jónsson, Dagur Björn Arason, Stefán Darri Þorbjargarson og Hlynur Orri Ingólfsson.
Í stelpuhópnum fengu eftirfarandi stúlkur verðlaun fyrir góða mætingu:
Aldursflokkur 6-7 ára, fædd 2009-2010, (1.-2. bekk).
1. Sigurbjörg Birna Þórðardóttir.
2. Gerður Gígja Óttarsdóttir.
Aldursflokkur 8-9 ára, fædd 2007-2008, (3.-4. bekk).
1. Katrín María Jónsdóttir.
2. Iðunn Helgadóttir,Bergþóra Helga Gunnarsdóttir, Elsa Kristín Arnaldardóttir.
3. Anna Katarina Jónsdóttir.
Aldursflokkur 10-12 ára, fædd 2004-2006, (5.-7. bekk).
1. Ásthildur Helgadóttir.
2. Lísa Mímósa Mímisdóttir.
3. Esther Lind.
Í laugardagsæfingahópnum fengu eftirfarandi krakkar mætingarverðlaun:
1. Bjartur Þórisson, Benedikt Þórisson, Einar Tryggvi Petersen, og Einar Dagur Brynjarsson.
2. Ottó Bjarki Arnar.
3. Adam Omarsson og Jósef Omarsson, Freyja Birkisdóttir, Rayan Sharifa.
Því næst fór fram verðlaunaafhendingin fyrir Fjölskylduskákmótið og að lokum var happdrætti, dregið úr skráningarnúmerum liðanna. Í happdrætti voru þrír Freyju Hátíðarpokar og fimm bækur úr bókalager TR, þannig að 8 lið höfðu heppnina með sér! Þá var bara jólahressingin eftir, sem var skemmtilegur lokapunktur á jólaskákæfingunni. Malt og appelsín, piparkökur, súkkulaðibitakökur og vanilluhringir – allt átti þetta vel við á vel heppnaðri jólaæfingu.
Skákstjórar voru Torfi Leósson og Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir. Þórir Benediktsson og Kjartan Maack tóku myndir.
Skákæfingarnar hefjast að nýju á nýju ári laugardaginn 8. janúar 2017. Sjáumst þá! Gleðileg jól!
Pistill: Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir.
11.12.2016 | 19:41
Mjög góð frammistaða Mai-bræðra í Róm
Mai-bræðurnir, Aron Þór (1893) og Alexander Oliver (1717), áttu afar gott alþjóðlegt mót í Róm á Ítalíu sem fram fór 3.-10. desember. Alexander hlaut gull í flokki skákmanna með 1500-1799 skákstig. Alexander hlaut 5 vinninga í 9 skákum og tapaði aðeins einni skák þrátt fyrir að hafa teflt við stigahærri andstæðinga í öllum umferðum nema einni.
Aron Þór átti einnig afar gott. Hann hlaut 4,5 vinninga þrátt fyrir að hafa teflt við stigahærri andstæðinga í öllum umferðum!
Alexander hækkar um 120 skákstig en Aron Þór hækkar um 72 skákstig. Frábær frammistaða hjá þeim bræðrum.
10.12.2016 | 20:00
Skákþáttur Morgunblaðsins: Guðmundur Kjartansson í Færeyjum
Guðmundur Kjartansson vann fimm fyrstu skákir sínar á Rúnavik open, skákmóti sem Færeyingar héldu öðrum þræði til að fagna því að þeir hafa nú eignast sinn fyrsta stórmeistara, Helga Dam Ziska. Helgi var í hópi þeirra sem sæmdir voru titlinum á þingi FIDE í Bakú á dögunum. Hann var stigahæsti keppandi mótsins og Jóhann Hjartarson kom næstur.
Mótið fór fram í Rúnavík á Austurey en þar búa um þrjú þúsund manns. Skipuleggjendur gerðu vel við íslensku skákmennina; á Ólympíumótinu í Bakú var þeim boðin þátttaka Jóhanni Hjartarsyni og Guðmundi Kjartanssyni og síðan bættust í hóp keppenda Þröstur Þórhallsson, Vignir Vatnar Stefánsson, Gauti Páll Jónsson, Loftur Baldvinsson og Heimir Páll Ragnarsson.
Færeyingar hyggjast halda mótið aftur að ári og má búast við mörgum skákmönnum héðan enda ekkert því til fyrirstöðu að Íslendingar eigi gott samstarf á skáksviðinu við frændur vora Færeyinga. Gunnar Björnsson forseti SÍ var meðal skákstjóra og annar kunnur einstaklingur úr skákhreyfingunni, Rúnar Berg, var meðal gesta á mótsstað en hann er nú búsettur í Færeyjum.
Úrslit mótsins voru mikill sigur fyrir Guðmund Kjartansson sem vann fimm fyrstu skákir sínar og varð síðan einn efstur. Keppendur voru 40 talsins en í efstu sætum urðu:
1. Guðmundur Kjartansson 7 v. (af 9 mögulegum). 2.-3. Miquel Munoz og Nikolaj Mikkelsen 6 ½ v. 4. – 7. Jóhann Hjartarson, Helgi Dam Ziska, Jakob van Glud og Hans Kristian Simonsen 6 v. 8.- 12. Daniel Semecen, Simon Bekker Jensen, Þröstur Þórhallsson, Rogvi Egilstoft Nielsen og Vignir Vatnar Stefánsson 5 ½ v.
Með frammistöðu sinni á þessu móti náði hinn 13 ára gamli Vignir Vatnar Stefánsson því markmiði að komast yfir 2400 elo-stig og á nýbirtum lista FIDE er hann í 17.sæti meðal íslenskra skákmanna með 2404 elo stig. Hann er í 5. sæti yfir sterkustu skákmenn Evrópu 14 ára og yngri og í 11. sæti á heimslistanum. Má mikils vænta af þessum unga manni.
Guðmundur Kjartansson tefldi af miklu öryggi en sigrar hans yfir öflugum andstæðingum í 3.-5. umferð voru lykillinn að frammistöðu hans þegar hann vann Munoz, Jóhann Hjartarson og Hamitevici. Skákin við hinn öfluga alþjóðlega meistara fra Moldóvíu gekk þannig fyrir sig:
Rúnavík 2016; 3. umferð:
Guðmundur Kjartansson – Vladimir Hamitevici
Hollensk vörn
1. c4 f5 2. g3 Rf6 3. Bg2 g6 4. d4 d6 5. Rf3 Bg7 6. Rc3 O-O 7. O-O c6 8. Hb1 Kh8 9. b4 Be6 10. d5 Bg8 11. Rd4 a5?!
Öruggara er 11. ... cxd5.
12. dxc6 Rxc6 13. Rxc6 bxc6 14. Bxc6 axb4 15. Hxb4 Hc8 16. Bb5 h6 17. a4 g5 18. Rd5 Re4 19. Be3 Rc5 20. Bd4 e5 21. Bxc5!?
21. Bxc3 kom einnig til greina en þar sem svartur hefur lokað hornalínunni a1-h8 á þessi leikur fullan rétt á sér.
21. ... Hxc5 22. e4 fxe4 23. Re3 Hf3 24. Da1 Da5 25. De1 Be6 26. Hb2!
Og nú kemst a-peðið á skrið.
26. ... Da8 27. Dd2 Bf8 28. Hd1 h5 29. a5 h4 30. gxh4?
Ónákvæmni, 30. a6 var best og svartur er án gagnfæra.
30 ... Hc7 31. Kh1 g4?!
Enn sterkara var 31. ... Hh7!
32. a6 Hh7 33. Hg1 Hxh4 34. Hg2 Hh7 35. Ha2 Hf4 36. Kg1 Db8 37. Ha1 Db6 38. Da5 Da7?
Hann varð að fara í drottningarkaupin.
39. Bc6! Be7
Hamitevici féll á tíma um leið og hann lék þessum leik. Athugun leiðir í ljós að svarta staðan er töpuð eftir 40. Hb1! ásamt – Db6.
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 3. desember 2016
| Kjartansson, Gudmundur - Hamitevici, Vladimir (PGN) 1. c4 f5 2. g3 Nf6 3. Bg2 g6 4. d4 d6 5. Nf3 Bg7 6. Nc3 O-O 7. O-O c6 8. Rb1 Kh8 9. b4 Be6 10. d5 Bg8 11. Nd4 a5 12. dxc6 Nxc6 13. Nxc6 bxc6 14. Bxc6 axb4 15. Rxb4 Rc8 16. Bb5 h6 17. a4 g5 18. Nd5 Ne4 19. Be3 Nc5 20. Bd4 e5 21. Bxc5 Rxc5 22. e4 fxe4 23. Ne3 Rf3 24. Qa1 Qa5 25. Qe1 Be6 26. Rb2 Qa8 27. Qd2 Bf8 28. Rd1 h5 29. a5 h4 30. gxh4 Rc7 31. Kh1 g4 32. a6 Rh7 33. Rg1 Rxh4 34. Rg2 Rh7 35. Ra2 Rf4 36. Kg1 Qb8 37. Ra1 Qb6 38. Qa5 Qa7 39. Bc6 Be7 1-0 |
Spil og leikir | Breytt 4.12.2016 kl. 19:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2016 | 10:20
Haraldur sigurvegari U-2000 mótsins
Hinn reynslumikli Haraldur Baldursson (1957) sigraði á U-2000 móti Taflfélags Reykjavíkur sem lauk síðastliðið miðvikudagskvöld. Haraldur hlaut 6,5 vinning í skákunum sjö, hálfum vinningi meira en Dawid Kolka (1907) sem varð annar. Þriðji með 5,5 vinning varð Hilmar Þorsteinsson (1800). Þetta er annað árið í röð sem Haraldur sigrar á U-2000 mótinu en þar að auki vann hann eitt af mótunum þegar þau voru haldin á fyrri hluta síðasta áratugs.
Fjórir keppendur komu næstir með 5 vinninga hver, þeirra á meðal hinn þrettán ára Blikapiltur, Stephan Briem (1594), en Stephan hefur verið á fljúgandi siglingu að undanförnu og rokið upp stigalista Fide. Ekkert lát virðist á uppgangi kappans því á U-2000 mótinu landaði hann tæplega 70 Elo-stigum. Sannarlega vel gert en góður hluti keppenda á mótinu samanstóð af yngri kynslóðinni sem lét þá eldri og reyndari svitna verulega við skákborðin.
Ærið verkefni beið Haraldar sem hafði hvítt gegn hinum eitilharða Jon Olav Fivelstad (1918) sem kallar einfaldlega ekki allt ömmu sína, enda væri frekar skrýtið að gera það. Úr varð mjög svo spennandi viðureign sem einkenndist af stöðulegri baráttu þar sem leið lá út í endatafl þar sem hvor hafði riddara og jafnmörg peð á hvorum væng fyrir sig. Þegar tími keppenda var orðinn naumur henti Haraldur jafnteflisboði í loftið sem Jon Olav hafnaði snarlega þrátt fyrri að vera með innan við mínútu á klukkunni. Svo fór að neitunin varð honum að falli, ef svo má að orði komast, og eftir að hafa tekið áhættuna á að sækja sigurinn fékk Haraldur líkast til unna en þó vandteflda stöðu. Það var við hæfi að viðureign þeirra félaga var síðasta skák mótsins til að klárast en langleiðina gengið í miðnætti sigldi Haraldur sigrinum í höfn og skaust þar með upp í efsta sætið.
Á þriðja borði sigraði Hilmar hinn beinskeytta Friðgeir Hólm (1739) nokkuð örugglega en Friðgeir á það til að tefla alltof hratt og ekki vafamál að með smá bremsu kæmi hans rétti styrkleiki betur í ljós. Hafði hann reyndar á orði eftir mót að hann kynni ekki að tefla hægar en ekki var skákstjóri alveg tilbúinn í að taka undir þá fullyrðingu. Með sigrinum innsiglaði Hilmar gott mót þar sem hann tekur inn stigahækkun upp á tæp 50 Elo-stig. Vel gert hjá kauða sem hefur verið að sýna sig á skákmótum á nýjan leik eftir nokkurt hlé, sjálfsagt vegna náms eða annarrar vitleysu.
Eins og ávallt voru margar viðureignir spennandi og skemmtilegar og eitthvað af athyglisverðum úrslitum litu dagsins ljós. Má þar til dæmis nefna sigur Ingvars Egils Vignissonar (1554) með svörtu gegn Páli Þórssyni (1771) þar sem Páll tefldi líflega og fórnaði manni fyrir peð á e6 á þeim forsendum að svartur var ekki búinn að hrókfæra. Örlítið vantaði þó upp á sóknina og náði Ingvar að verjast áhlaupinu og snúa leiknum sér í hag. Gott mót hjá Ingvari Agli sem hlaut 4 vinninga og tryggði sér aukaverðlaun fyrir besta samanlagðan árangur í U-2000 mótinu og Skákþingi Garðabæjar.
Ef litið er á mestu stigahækkanir keppenda sést að Dawid, Stephan, Ólafur Evert Úlfsson (1464), Arnar Milutin Heiðarsson (1358), Jóhann Bernhard Jóhannsson (1426), Benedikt Briem (1077) og Freyja Birkisdóttir (1186) hækkuðu öll um meira en 50 Elo-stig.
Afar skemmtilegu og vel skipuðu U-2000 móti er því lokið í ár en tvöfallt fleiri keppendur tóku þátt í mótinu nú heldur en í fyrra. Börn, fullorðnir ásamt “nýjum” keppendum sýna vel að U-2000 mótið er sannarlega komið til að vera og má fullyrða hér að leikar verða endurteknir að ári liðnu. Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum fyrir þátttökuna og óskar verðlaunahöfum til hamingju.
10.12.2016 | 10:15
Jólaæfing TR haldinn í dag
Hin árlega Jólaskákæfing verður haldin laugardaginn 10.desember kl.14-16. Æfingin er um leið uppskeruhátíð haustannarinnar því veitt verða verðlaun fyrir ástundun á haustönn. Allir krakkar úr öllum skákhópum TR, sem æfa á laugardögum og sunnudögum, eru velkomnir á þessa sameiginlegu Jólaskákæfingu.
Æfingin er einskonar fjölskylduskákmót þar sem tveir mynda eitt lið og mega foreldrar, ömmur og afar og frændur og frænkur gjarnan tefla með börnunum. Boðið verður upp á léttar veitingar.
Byrjendahóparnir, stelpuhópurinn og hópurinn sem æfir kl.14 verða því ekki með venjulegar æfingar þennan dag, heldur hittast á sameiginlegri Jólaskákæfingu kl.14.
9.12.2016 | 20:00
Skákþáttur Morgunblaðsins: Snilldarleikur sem gerði út um einvígið
Magnús Carlsen átti síðasta orðið í heimsmeistaraeinvíginu sem lauk í New York laust fyrir miðnætti á fimmtudaginn. Síðasti leikurinn í einvíginu, drottningarfórn á h6, minnti á rothögg í hnefaleikahringnum. Þegar leikurinn birtist á skjánum skildu allir hvað „höggið“ þýddi, fáir höfðu séð það fyrir nema auðvitað „skákvélarnar“ en einvígið fékk verðugan endi. Eftir tvö jafntefli og sigur Magnúsar í þriðju skákinni reyndi Karjakin lengi að brjótast út úr þrengri stöðu sem hann varð að vinna. Hvað eftir annað bauð Magnús honum upp á þráleik en honum dugði jafntefli og það kom vitaskuld ekki til greina séð frá bæjardyrum Karjakins. Þegar hér var komið sögu hótaði hann samt máti á g2:
16. einvígisskák:
Magnús Carlsen – Sergei Karjakin
En Magnús hafði séð þetta fyrir og lék nær samstundis:
og Karjakin gafst upp, hann verður mát í næsta leik, 50. ... Kxh6 er svarað með 51. Hh8 mát og eftir 50. ... gxh6 kemur 51. Hxf7 mát.
Ef Norðmenn gefa út skák-frímerki í tilefni sigurs Magnúsar Carlsen þá mun þessi mynd fylgja með.
Þó að baráttan í kappskákunum tólf hafi oft verið skemmtileg og spennandi er hætt við að ýmsir leikir hafi farið fyrir ofan garð og neðan hjá hinum almenna skákáhugamanni. Sannleikurinn er sá að Karjakin taldi vænlegast til árangurs að tileinka sér fremur neikvæðan skákstíl. Hann tók aldrei neina áhættu, sóttist eftir uppskiptum og valdi byrjanir sem ekki bjóða upp á líflega baráttu, t.d. Berlínarvörnina. Kannski voru skákir einvígisins of fáar; fyrrverandi heimsmeistari, Indverjinn Wisvanathan Anand, hefur orðað það svo að í svo stuttu einvígi sitji menn að tafli og yfir þeim hangi einhver óútskýranlegur kraftur með „hlaðna skammbyssu,“ eins og hann orðaði það og hefur þá væntanlega átt við að að við minnstu yfirsjón geti allt glatast. Í framtíðinni verður umhugsunartíminn trúlega styttur, at-skákirnar fjórar á fimmtudaginn höfðu miklu meira skemmtigildi heldur en þyngslaleg barátta hefðbundnu kappskákanna og það var fylgst með þessum viðureignum á risatjaldi á Rauða torginu í Moskvu og á Times Square í New York.
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 2. desember 2016
Spil og leikir | Breytt 4.12.2016 kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjustu færslur
- Ný vefsíða Skák.is!
- Loftur fær Héðin í fyrstu umferð
- Tveir fyrrum heimsmeistarar bættust við á keppendalistann á l...
- Ný alþjóðleg skákstig
- Carlsen vann Aronian - með vinningsforskot og aftur yfir 2850
- Skákklúbburinn Æsir - vertíðarlok
- Fundargerð aðalfundar SÍ
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open hefst á föstudaginn
- Carlsen vann Caruana í fyrstu umferð Altibox Norway Chess
- Þrír efstir og jafnir eftir fyrsta minningarmót Vinaskákfélag...
Tenglar
Mót í gangi
Mót sem eru í gangi hverju sinni
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open Valsheimilið, 1.-9. júní
- Altibox Norway Chess 27. maí - 8. júní: Carlsen og flestir sterkustu skákmenn heims
Lykilvefir
- Skáksamband Íslands Heimasíða SÍ
- Mótaáætlun SÍ
- Vefsvæði Friðriks Ólafssonar Vefsíða tileinkuð Friðriki Ólafssyni
- Skákskóli Íslands
- Skáksögufélagið
- F3-klúbburinn Vildarvinir skákíþróttarinnar á Íslandi
- Tímaritið Skák
- Fischersetur Selfoss
- Skákbækur til sölu
- Bobbý skáksverslun
- Skákhornið Spjallþráður skákmanna
- Skáklandið Stefán Bergsson bloggar
- Skákmyndir
Kennsluvefir
Íslensk taflfélög
Ef þú vilt tefla á netinu!
- Vinaskákfélagið
- Skákfélagið Hrókurinn
- Skákfélagið Huginn
- Taflfélag Reykjavíkur
- Víkingaklúbburinn
- Skákfélag Akureyrar
- Taflfélag Garðabæjar
- Taflfélag Vestmannaeyja
- Æsir
- Skáksamband Austurlands
- Skákdeild Fjölnis
- Skákfélag Sauðárkróks
- Taflfélag Bolungarvíkur
- Skákfélag Selfoss og nágrennis
- Skákdeild Breiðablik
- Skákdeild KR
- Skákdeild Breiðabliks
- Gallerý Skák
- Riddarinn
- Félag íslenskra bréfskákmanna
Erlendir skákvefir
- FIDE Alþjóðlega skáksambandið
- ECU
- The Week in Chess
- ChessBase
- Chess Vibes
- Chessdom
- Your Chess News Umsjón Jóhann H. Ragnarsson
- Bergens Schakklub Besta norræna skákfréttasíðan
- Færeyska skáksambandið
- Bloggsíða Susan Polgar
- ChessCafe Pistlar og greinar
Almanök
Teflt á netinu
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.7.): 1
- Sl. sólarhring: 45
- Sl. viku: 158
- Frá upphafi: 8779079
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 106
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar