Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Spil og leikir

Hraðskákmót og lokahóf Nóa Síríus mótsins

noa-sirius_hradskak_verdlaun_027_2017

Þriðjudaginn 21. febrúar voru veitt verðlaun fyrir hið firnasterka Nóa Síríus mót 2017. Í tengslum við það fór fram sjö umferða lauflétt hraðskákmót.

Það var allvel mætt í stúkuloft Breiðabliksvallar þetta þriðjudagskvöld. Skemmtileg blanda af reyndum meisturum og ungum og efnilegum skákmönnum. Grjóthörðum. Það er alveg ljóst að ekkert bætir menn meira í skákinni en að tefla við sér sterkari andstæðinga. Það sást glögglega í þessu móti. Hinir ungu skákmenn gáfu ekki þumlung eftir og hlaut margur meistarinn skráveifu. En hei, hvað með það – eins og einhver sagði. Skák er einmitt svona skemmtileg, vegna þess að hún brúar kynslóðabilið og það er mikið um óvænt úrslit. Það eru allir jafnir við upphaf tafls og ungum mönnum fer hratt fram ef þeir halda sig við efnið og já, fá tækifæri til þess að tefla við sér sterkari. Með hinum rifjast upp sá tími þegar þeir stóðu vart fram úr hnefa en áttu í fullu tré við eldri og reyndari. Annars er aldur afstæður eins og við vitum og það sannast vel í manntafli.

Eftir harða en sanngjarna baráttu í hraðskákinni, stóð Helgi Áss Grétarsson uppi sem sigurvegari mótsins eftir að Jóhann Hjartarson hafði verið í forystu lengst af. Í síðustu umferð náði Benedikt Jónasson að leggja Jóhann að velli en Helgi sigraði Þröst Þórhallsson.

Röð efstu manna varð þessi: 1, sæti Helgi Áss Grétarsson með 6 vinninga, 2. varð Jóhann Hjartarson með fimm og hálfan. Jafnir í 3.-6. sæti urðu Þröstur Þórhallsson, Andri Áss Grétarsson, Benedikt Jónasson og Björn Hólm Birkisson.

Lokaröð keppenda má finna hér: http://chess-results.com/tnr265009.aspx?lan=1&art=1&wi=821

Að loknu móti voru veitt verðlaun fyrir hraðskákina en svo var komið að aðal dagskrárlið kvöldsins – nefnilega verðlaunaafhending fyrir Nóa Síríus mótið 2017.

Nóa Síríus mótinu hafa verið gerð góð skil annars staðar, en það þótti með eindæmum vel heppnað í ár enda ekki við öðru að búast þegar snillingar eins og Jón Þorvaldsson og Halldór Grétar Einarsson taka höndum saman.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra var aðstandendum til halds og trausts við afhendingu verðlaunanna.

B-flokkur

1.-2. sæti Hörður Aron Hauksson (peningaverðlaun)
1.-2. sæti Jón Trausti Harðarson (peningaverðlaun)
3. sæti Stephan Briem (skákbókarúttekt)
Unglingaverðlaun 14 ára og yngri Óskar Víkingur Davíðsson (skákbókarúttekt)

Heiðursverðlaun

Friðrik Ólafsson (gjafakarfa)

Endurkomuverðlaun

Björn Halldórsson (gjafaveski)
Jón Hálfdánarson (gjafaveski)

Sagan um Friðrik og Vilhjálm

Jón Hálfdánarson notaði tækifærið og þakkaði mótshöldurum fyrir skemmtilegt mót með óvenjulegri umgjörð – það hefði verið gaman að koma aftur að skákinni með þessum hætti eftir langt hlé. Jón sagði í framhaldinu skemmtilega sögu sem góður rómur var gerður að. Friðrik bætti við söguna á stöku stað, auk þess sem ritari leitaði heimilda. Til gamans fer þessi saga hér á eftir.

Jón sagði að í uppvexti sínum á 6. áratugnum hefði landinn helst barið sér á brjóst fyrir tvö stórvirki. Hið fyrra var þegar Friðrik vann stórmótið í Hastings 1955-56 ásamt Korchnoi, hið síðara var afrek Vilhjálms Einarssonar þegar hann tók silfur í þrístökki í nóvember 1956, í Melbourne, tæpu ári síðar.

Það hefði verið sérstaklega skemmtilegt að fá tækifæri til þess að glíma við Friðrik, því auðvitað var það hann sem dró skákvagninn og hvatti landann til dáða. Jón minntist þess, að skákin hefði með afrekum Friðriks notið velvilja landsmanna. Til dæmis hefðu nokkrir einstaklingar úr Stúdentaráði Háskólans tekið höndum saman og stofnað sjóð til þess að standa straum af ferðum Friðriks á mót erlendis. Meðal þessara framsýnu stúdenta voru Ólafur Haukur Ólafsson, læknir, Jón Böðvarsson, skólameistari og Njálufræðingur og Sverrir Hermannsson, síðar ráðherra og seðlabankastjóri. Sjóðurinn var kallaður Friðrikssjóður og munaði nokkuð um hann.

Þó var það þannig að fyrir áskorendamótið 1959 í Júgóslavíu, þar sem teflt var á þremur stöðum, Bled (Slóveníu), Zagreb (Króatíu) og Belgrad (Serbíu), æxluðust mál þann veg að að ekki var nóg í sjóðnum til þess að standa straum af aðstoðarmanni Fyrir Friðrik. Þá bárust böndin að SÍ að sjá um fjármögnun en þar hringlaði í kassanum. Þá voru góð ráð dýr. Það fór svo að kvisast út að Friðrik fengi ekki aðstoðarmann með sér á þetta mikilvæga, langa og stranga mót. Það var svo áhugamaður einn, Pétur Halldórsson sjómaður, sem tók sig til og hringir í Ólaf Thors og segir honum allt af létta. Ólafur sem var mikill skákáhugamaður og einn af stofnendum TR og var í stjórn félagsins fyrstu árin, var mjög vel kunnugur skákmálum. Eftir að Pétur talar við Ólaf, hringir Ólafur í Friðrik og spyr hvernig málin stæðu. Þegar hann fregnaði það frá fyrstu hendi að ekki væri útlit fyrir að Friðrik gæti haft með sér aðstoðarmann, hugsaði Ólafur sig um, hummaði aðeins og sagði svo: „Það er nefnilega það. Það getur ekki verið stórt vandamál, ef hægt er að senda mann alla leið til Ástralíu til þess eins að hoppa þar eins og kengúra, þá hlýtur að vera hægt að senda mann til Júgóslavíu“. Ekki svo að skilja að Ólafur væri að gera lítið úr afrekum Vilhjálms, en gat ekki stillt sig um að taka svo til orða. Ólafur spurði svo Friðrik hvort hann kysi frekar að það færi fram söfnun, eða að styrkurinn færi á fjárlög. Friðrik var hlynntari síðari kostinum.

Það leit svo út fyrir að Ingi R. Jóhannsson kæmist ekki með og því fékk Friðrik Vestur-þýska stórmeistarann, Klaus Viktor Darga til liðs við sig. Þegar til kom, hafði Ingi R. tök á því að komast með og upphæðin var næg til að standa straum af kostnaði beggja. Friðrik hafði því tvo aðstoðarmenn með sér út til Júgóslavíu til þessa 28 umferða ofurmóts þar sem Tal sigraði og vann sér inn rétt til þess að skora á heimsmeistarann, Botvinnik. Tal varð svo heimsmeistari 1960 eins og skákáhugamenn vita.

Sérstök verðlaun

Sérstök verðlaun fyrir sigur á æfingamóti Taflfélags Reykjavíkur árið 1967 voru veitt fjármálaráðherranum sjálfum, Benedikt Jóhannessyni. Hann er sterkur skákmaður og þótti afar efnilegur uns hann sneri sér að öðrum hugðarefnum og hugaríþróttum. Við setningu mótsins hafði það einmitt komið í ljós, að Benedikt hafði aldrei fengið bókarverðlaun afhent fyrir téðan sigur. Jón Þorvaldsson bætti úr þessu 50. árum síðar og Friðrik Ólafsson afhenti Benedikt fyrir Jóns hönd vandaða bók um snillinginn frá Riga, Mikhail Tal.

Kvennaverðlaun

Lenka Ptacnikova (gjafakarfa)

Sérstök þroskaverðlaun

Benedikt Jónasson (gjafakarfa)

Skákmeistari Breiðabliks

Dagur Ragnarsson (bikar)

Unglingameistari Breiðabliks

Stephan Briem (bikar)

A-flokkur

1.-2. sæti: Daði Ómarsson (peningaverðlaun og gjafakarfa)
1.-2. sæti: Þröstur Þórhallsson (peningaverðlaun og gjafakarfa)
3.-4. sæti: Guðmundur Kjartansson (peningaverðlaun og gjafakarfa)
3.-4. sæti: Jón Viktor Gunnarsson (peningaverðlaun og gjafakarfa)

Skákstjóri hraðskákmótsins, eins og aðal mótsins var Vigfús Vigfússon sem stjórnaði af hnökralausri alúð og snilli.

Þar með lýkur umfjöllun um Nóa Síríus mótið 2017. Bakhjarli mótsins, Nóa Síríus, er kærlega þakkaður stuðningurinn og keppendum þátttakan og drengileg framganga.

Í mótsnefnd voru, auk prímusanna Jóns Þorvaldssonar og Halldórs Grétars Einarssonar, þeir Gunnar forseti Björnsson, Pálmi Ragnar Pétursson, Tómas Veigar Sigurðsson, Þorsteinn formaður Þorsteinsson og Vigfús Vigfússon.

Sjáumst að ári!

Myndskreytta frásögn má finna á Skákhuganum.


HM kvenna: Og þá eru eftir tvær

64619Undanúrslitum HM kvanna lauk fyrir skemmstu. Anna Muzychuk heldur áfram að brillera og vann Alexöndru Kosteniuk 2-0. Anna hefur nú hlotið 9 vinninga í 10 skákum og aldrei þurft að tefla til þrautar. Tan Zhongyi vann Hariku Dronavalli eftir háspennu bráðabana. Zhongyi og Muzychuk tefla nú fjögurra skák einvígi um heimsmeistaratitlinn. 

Nánar á Chessbase.


Rúmlega 60 grunnskólakrakkar á Miðgarðsmótinu 2017

IMG_0206

B sveit Rimaskóla vann Miðgarðsmótið annað árið í röð þegar 10 skáksveitir grunnskólanna í Grafarvogi tókust á í 6 umferða skólaskákmóti. Miðgarðsmótið er sveitakeppni grunnskólanna í Grafarvogi, og var haldið í sal Rimaskóla. Að þessu sinni sendu fjórir grunnskólar af sex skáksveitir til leiks og þar af átti Rimaskóli 6 þeirra. Rimaskólasveitirnar stóðu sig mjög vel en fengu harða samkeppni frá skáksveitum Kelduskóla og Foldaskóla.

IMG_0208

Eins og áður kom fram þá sigraði B sveit Rimaskóla mótið líkt og í fyrra eftir spennandi einvígi allt mótið við A sveit Rimaskóla. B sveitin hlaut 30,5 vinninga. Í skáksveitinni eru bekkjarbræðurnir Joshua, Hilmir, Arnór, Anton Breki, Kjartan Karl og Bjarki, allir í 6. bekk. A sveit Rimaskóla varð í 2. sæti með 30 vinninga en sveitina skipuðu Nansý, Kristófer Halldór, Hákon, Mikael Maron, Róbert Orri og Valgerður, allt nemendur í 7 - 10. bekk. Þessar tvær skáksveitir voru í nokkrum sérflokki. Í næstu sætum komu sveitir Kelduskóla 21,5, E sveit Rimaskóla 21,5 og C sveit Rimaskóla 18 vinninga. Þessar fimm skáksveitir fengu bíómiða í verðlaun frá Landsbanka Íslands. Miðgarður þjónustumiðstöð færði öllum þátttakendum veitingar í skákhléi og afhenti þremur efstu sveitunum verðlaunapeninga, gull, silfur og brons. Loks var Rimaskóla afhentur hinn glæsilegi farandbikar mótsins sem skólinn hefur varðveitt sl 11 ár eða allt frá því að Miðgarðsmótið var haldið í fyrsta sinn árið 2006. 

IMG_0215

Skákstjórar voru þeir Þorvaldur Guðjónsson Miðgarði og Helgi Árnason frá skákdeild Fjölnis. Liðstjórar voru þeir Jón Trausti Harðarson, Björn Ívar Karlsson og Stefán Bergsson.  

Lokastaðan: 

  1. Rimaskóli B       30, 5      vinninga
  2. Rimaskóli A       30
  3. Kelduskóli A      21,5
  4. Rimaskóli E        21,5  (stúlknasveit)
  5. Rimaskóli C        18
  6. Rimaskóli D        17
  7. Foldaskóli A       16,5
  8. Foldaskóli B       10 
  9. Húsaskóli A        10
  10. Rimaskóli F          5    ( sveit 1. - 3. bekkjar)

 


Batel og Vignir Reykjavíkurmeistarar

20170226_164235Barna- og unglingameistaramót Reykjavíkur sem og Stúlkameistaramót Reykjavíkur fór fram í gær í skákhöll Taflfélags Reykjavíkur.

Einhverjir þurftu að hætta við þátttöku sökum slæmrar færðar, en mótið var þó ágætlega fjölmennt og vel skipað.

Í Stúlknameistaramóti Reykjavíkur tóku 10 stúlkur þátt. Þar stóð baráttan helst á milli Batel Goitom Haile og Freyju Birkisdóttur. Úrslitin réðust í innbyrðisviðureign þeirra, en þar sigraði Batel í sviptingarsamri skák. Batel varð því efst með fullt hús vinninga og er því Stúlknameistari Reykjavíkur 2017.  Freyja varð örugglega í öðru sæti; tapaði aðeins niður punkt gegn Batel. Batel (10 ára og yngri) og Freyja (12 ára og yngri) urðu vitaskuld hlutskarpastar í sínum aldursflokki. Í þriðja sæti varð svo Soffía Arndís Berndsen.

Úrslit má annars sjá hér.

20170226_164520

Þátttakendur í Barna- og unglingameistaramóti Reykjavíkur voru 17. Þar stóð keppnin aðallega milli Stephans Briem og Vignis Vatnars Stefánssonar. Þeir félagar gerðu jafntefli í innbyrðisskák og unnu alla aðra og urðu því efstir og jafnir. Stephan varð hærri á stigum og fékk því verðlaun fyrir sigur í mótinu, en þar sem hann er ekki félagsmaður í reykvísku taflfélagi, né á lögheimili í Reykjavík, fékk Vignir Vatnar Stefánsson verðlaun og titil sem Unglingameistari Reykjavíkur 2017. Bróðurleg skipting verðlaunanna þar. Í þriðja sæti varð Örn Alexandersson.  Stephan (14 ára og yngri) og Örn (12 ára og yngri) fengu aldursflokkaverðlaun, eins og Karl Andersson Claesson (16 ára og yngri), Ingvar Wu Skarphéðinsson (10 ára og yngri) og Einar Dagur Brynjarsson (8 ára og yngri).

Úrslit má annars sjá hér.

Myndskreytt frásögn á heimasíðu TR.


Bræðurnir enduðu í 6. og 7. sæti

Bræðurnir Bragi (2453) og Björn Þorfinnssyni (2404) enduðu í 6. og 7. sæti á alþjóðlegu móti í Kragerø í Noregi. Báðir hlutu þeir 5,5 vinninga í 9 skákum. Þeir gerðu stutt jafntefli í lokaumferðinni en Lie-bræðurnir sem sem urðu í 1. og 2. sæti voru þeim erfiðir í næstsíðustu umferð. Bræðurnir áttu góðan miðkafla og vann Björn t.d. litháíska stórmeistarann Eduardas Rozentalis (2576).

Þeir hækka báðir lítilsháttar á stigum. Björn hækkar um 7 stig en Bragi hækkar um 1 stig. 


Íslandsmót skákfélaga hefst á fimmtudaginn

Seinni hluti Íslandsmóts skákfélaga 2016-2017 fer fram dagana 2..-4. mars nk.  Mótið fer fram í Rimaskóla, Reykjavík.  Keppnin hefst (eingöngu í 1.deild) kl. 19.30 fimmtudaginn 2. mars. Aðrar deildir munu hefja taflmennsku föstudaginn 3. mars  kl. 20.00 og síðan  laugardaginn 4. mars. kl. 11.00 og kl. 17.00 sama dag. 

Þau félög sem enn skulda þátttökugjöld þurfa að gera upp áður en seinni hlutinn hefst.

Heimasíða mótsins


Atkvöld hjá Hugin í kvöld

Atkvöld verður hjá Huginn mánudaginn 27. febrúar 2017 og hefst mótið kl. 20:00. Fyrst eru tefldar 3 hraðskákir þar sem hvor keppandi hefur 4 mínútur + 2 sekúndur á hvern leik. Síðan verða  þrjár atskákir með umhugsunartímanum tíu mínútur + 5 sekúndur á hvern leik. Teflt er í félagsheimili Hugins í Álfabakka 14a í Mjóddinni. Mótið verður reiknað til hraðskák- og atskákstiga.

Sigurvegarinn á atkvöldinu fær í verðlaun máltíð fyrir einn á Saffran eða pizzu frá Dominos. Einnig verður dreginn út af handahófi annar keppandi sem fær sama val. Þar eiga allir jafna möguleika, án tillits til árangurs á mótinu.

Þátttökugjöld eru kr. 300 fyrir félagsmenn (kr. 200 fyrir 15 ára og yngri) og kr. 500 fyrir aðra (kr. 300 fyrir 15 ára og yngri).


Jón Kristinn Akureyrarmeistari annað árið í röð!

jokko_2017

Í dramatískri úrslitakeppni sem lauk í dag með skák Andra Freys Björgvinssonar og Jóns Kristins Þorgeirssonar reyndist skákgyðjan á bandi meistara Jóns Kristins, sem núorðið vinnur flest mót hér norðan heiða. Andri Freyr varð nauðsynlega að vinna skák dagsins til þess að framlengja úrslitakeppnina um 87. Akureyrarmeistaratitilinn í skák. Í þríkeppninni um titilinn hafði hann tapað fyrir Tómasi Veigari Sigurðarsyni sem svo mátti lúta í gras fyrir Jóni Kristni. Þeim síðastnefnda nægði því jafntefli til að landa sigrinum og titlinum. Hann mátti þó hafa sig allan við í dag. Skák þeirra félaga varð snemma mjög flókin, Jón tímanaumur og lét af hendi skiptamun fyrir spil. Allt var í járnum lengi vel og vörn Andra erfið, en um leið blasti við að liðsmunurinn væri honum í vil ef honum tækist að hrinda sókninni. Líklega fékk hann tækifæri til þess, en missti af því og með laglegum hnykk náði Jón svo að snúa á hann. Lauk skákinni með laglegri fléttu þar sem lokastefið var s.k. fjölskylduskák; riddari gafflaði bæði drottningu og kóng. Við það réð Andri ekki og lagði upp vopnin. Þeir þrír röðuðu sér því í efstu sætin:

1. Jón Kristinn Þorgeirsson    6+2

2. Tómas Veigar Sigurðarson    6+1

3. Andri Freyr Björgvinsson    6+0


Arnar Smári og Fannar Breki skólaskákmeistarar Akureyrar

p1010830SPRETTSMÓTIÐ, sem er Skákþing Akureyrar í yngri flokkum og skólaskákmó Akureyrar, var háð í gær, laugardaginn 25. febrúar. 

Í skólaskákinni var keppt í tveimur flokkum, 1-7. bekk og 8-10. bekk.

Á Skákþinginu var keppt um meistaratitil í þremur aldursflokkum, barnaflokki (fædd 2006 og síðar); flokki 11-12 ára (fædd 2004 0g 2005) og flokki 13-15 ára (fædd 2001-2003).

Tefldar voru sjö umferðir og urðu heildarúrslit þessi:

  • Arnar Smári Signýjarson, Giljaskóla               5,5  (Skólaskákmeistari í eldri flokki, Akureyrarmeistari í flokki 13-15 ára)
  • Fannar Breki Kárason, Glerárskóla                 5,5  (Skólaskákmeistari í yngri flokki, Akureyrarmeistari í flokki 11-12 ára)
  • Gabríel Freyr Björnsson, Brekkuskóla              5
  • Ágúst Ívar Árnason, Lundarskóla                   5
  • Davíð Þór Þorsteinsson, Síðuskóla                 5
  • Ingólfur Árni Benediktsson, Naustaskóla           4  (Akureyrarmeistari í barnaflokki)
  • Tumi Snær Sigurðsson, Brekkuskóla                 4
  • Jökull Máni Kárason, Glerárskóla                  3,5
  • Vignir Otri Elvarsson, Lundarskóla                3
  • Daði Örn Gunnarsson, Síðuskóla                    3
  • Vilhjálmur Svanberg Arngrímsson, Lundarskóla      3
  • Hallfríður Anna Benediktsdóttir, Naustaskóla      3
  • Sölvi Steinn Sveinsson, Naustaskóla               3
  • Snæbjörn Þórðarson, Naustaskóla                   2,5
  • Heiðar Snær Barkarson, Naustaskóla                1

 Davíð Þór varð annar í eldri flokki í skólaskák, Tumi Snær varð þriðji.

Þeir Gabríel Freyr og Ágúst Ívar urðu í 2-3. sæti í yngri flokki.

Þeir Arnar Smári og Fannar Breki munu svo tefla til úrslita um sigurinn á mótinu og tiltilinn „Skákmeistari Akureyrar í yngri flokkum 2017“ nk. þriðjudag, 28. febrúar.


Skákþing Norðlendinga

Skákþing Norðlendinga 2017 verður haldið 24.-26. mars, á Kaffi Krók, á Sauðárkróki. Mótið hefst kl. 20.00 á föstudagskvöldið 24. mars, en þá verða telfdar 4 umferðir af 25 mínútna atskákum.  5. umferð kl. 11.00 og 6 umferð kl. 17.00 laugardaginn 25. mars og 7. umferð kl. 11.00 sunnudaginn 26. mars, en þá verður umhugsunartíminn 90 mínútur á skákina +30 sek. á hvern leik.  Að 7. umf. lokinni verður Hraðskákmót Norðlendinga haldið og hefst kl. 14.30 eða síðar.  Skákmeistari Norðlendinga getur aðeins orðið sá sem á lögheimili á Norðurlandi, en mótið er öllum opið. Skákdómari verður Ingibjörg Edda Birgisdóttir.

Verðlaun eru sem hér segir 1. sæti 45.000 kr.  2. sæti 30.000  3. sæti 20.00  4. sæti 15.000 5. sæti 10.000  Aukaverðlaun fær efsti skákmaður með minna en 1800 stig, 10.000 kr..  Verði menn jafnir að vinningum skiftast verðlaun  jafnt milli þeirra.

Skráning á skák.is (skak.blog.is) og einnig er hægt að skrá sig á jhaym@simnet eða í síma 865 3827, þar sem nánari upplýsingar gæti líka verið mögulegt að fá. Upplýsingar um þegar skráða keppendur má finna hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.7.): 15
  • Sl. sólarhring: 36
  • Sl. viku: 183
  • Frá upphafi: 8779121

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 113
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband