Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Spil og leikir

Kramnik vann Anand - efstur ásamt Nakamura

anand-kramnik-after-game

Önnur umferð Altibox Norway Chess fór fram í gær. Rétt eins og í fyrstu umferð lauk fjórum skákum af fimm með jafntefli. Einu hreinu úrslitin voru þau að Kramnik (2808) vann Anand (2786). Rússinn er því efstur ásamt Nakamura (2785) sem var sá eini sem vann í fyrstu umferð. 

Þriðja umferð fer fram í dag og hefst kl. 14. Gæti stefnt í athyglisverðan dag því forystusauðirnir tefla við tvo stigahæstu skákmenn heims. Nakamura mætir Carlsen (2832) og Kramnik teflir við Wesley So (2812). 

Ítarlega umfjöllun um gærdaginn má finna á Chess.com.

 


Guðmundur vann aserskan skákmeistara

4turec_8

Guðmundur Kjartansson (2437) vann aserska skákmeistarann Ravan Aliyev (2252) í áttundu umferð EM einstaklinga sem fram fór í gær í Minsk í Hvíta-Rússlandi. Gummi hefur 4 vinninga.

Níunda umferð fer fram í dag. Þá teflir Gummi við úkraínska stórmeistarann Mykhaylo Oleksiyenko (2636). Skákin verður sýnd beint og hefst kl. 12:45.

Útsendinguna má nálgast hér.

Howell

Enski stórmeistarinn David Howell (2684) er efstur með 7 vinninga. 

Umfjöllun um gang mála má finna á heimasíðu ECU.

Mótið er gríðarlega sterkt. Þátt taka 397 skákmenn frá 38 löndum og þar af er 171 stórmeistari. Það segir ýmislegt um styrkleika mótsins að Guðmundur er aðeins nr. 220 í stigaröð keppenda. 


Arnar Gunnarsson hlutskarpastur á Meistaramóti TRUXVA

20170606_233905-620x330
 
Alþjóðlegi meistarinn Arnar Gunnarsson sigraði á afar glæsilegu Hraðskákmeistaramóti Truxva sem fram fór annan í Hvítasunnu, þeim merkilega degi. Arnar fékk 10 vinninga af 11 mögulegum sem verður að teljast mjög gott á svo sterku móti.

Það hafði lengi verið í umræðunni hjá Truxva, ungliðahreyfingu TR, að halda mót þar sem sterkum TR-ingum yrði boðið að taka þátt ásamt Truxvunum. Eftir miklar samningaviðræður milli undirritaðs og Kjartans Maack formanns sem sá einnig um mótshaldið, varð lokaniðurstaðan þessi: 11 umferðir með  tímamörkum 4 plús 2, öllum úr ungliðaheyfingu TR boðin þáttaka auk allra TR-inga með yfir 2000 stig eða þá TR-inga sem einhverntíman hafa komist yfir 2000 stig svo þeir væru nú ekki skildir útundan. Síðan fengu fjórir öflugir utanfélagsmenn að fljóta með til að gera mótið enn sterkara og skemmtilegra! Það voru þeir IM Einar Hjalti Jensson, FM Dagur Ragnarsson, FM Oliver Aron Jóhannesson og Jón Trausti Harðarson. Þannig fór að þeir Einar Hjalti og Oliver lentu einmitt í öðru og þriðja sæti með 8.5 og 8 vinninga.

Mótið var vel skipað sem sést á þeim fjórum alþjóðlegu meisturum og þremur Fidemeisturum sem tefldu og öllum þeirra sem freistuðu þess að hækka hraðskákstigin sín, en þau eru afar mikilvæg í augum flestra skákmanna.

Mótið einkenndist af gríðarlegum sviptingum svo það lá við að Swiss Manager réði ekki við öll óvæntu úrslitin! Arnar sýndi þó mikinn stöðugleika og tapaði bara gegn Einari, en Einar sem tapaði í fyrstu umferð náði Arnari að vinningum með sigrinum. Arnar vann hins vegar allar síðustu skákirnar og tryggði sér þannig sigur. Veitt voru bókaverðlaun fyrir efstu tvö sæti þeirra með yfir 2000 stig og efstu tvo með undir 2000 stig, en það eiga víst einhverjir nokkrir Truxvar eftir að rjúfa þann múr, en þeim fer ört fækkandi (eða fjölgandi ef undirritaður tekur sig ekki á!) Verðlaunahafar voru þeir Arnar, Einar, Hilmir Freyr Heimisson og Björn Hólm Birkisson. Hilmir og Björn stóðu sig mjög vel og Hilmir hækkar um heil 108 hraðskákstig, eftir að hafa unnið meðal annarra þá bræður Björn og Braga Þorfinnssyni. Ljóst að það verður algjör óþarfi að halda upp á jólin á hans heimili.

Mótið fór vel fram og mikil stemning var í Taflfélaginu þetta kvöld. Hver veit nema mót af svipuðu sniði verði haldið aftur, þar sem unglingarnir í TR fá tækifæri til að spreyta sig gegn eldri og reyndari skákmönnum. – Jú! Eða öfugt!

Gauti Páll Jónsson 

Lokastöðu og öll úrslit má nálgast á chess-results.

Nánar á heimasíðu TR.


Nakamura vann Giri í fyrstu umferð - Carlsen og So gerðu jafntefli

carlsen-so

Altibox Norway Chess-mótið hófst í gær í Stafangri í Noregi. Fjórum skákum af fimm lauk með jafntefli og þar á meðal annars skák tveggja stigahæstu skákmanna heims Magnúsar Carlsen (2832) og Wesley So (2812). Það voru aðeins ein hrein úrslit en Hikaru Nakamura (2785) vann Anish Giri (2771). 

Önnur umferð hefst kl. 14 í dag. Þá teflir Carlsen við Caruana (2808) en forystusauðurinn Nakamura mætir Aronian (2793).

Ítarlega umfjöllun um gærdaginn má finna á Chess.com.

 


Guðmundur gerði jafntefli í gær

4turec_8

Guðmundur Kjartansson (2437) gerði jafntefli við rússneska skákmeistarann Vladislav Chizhikov (2282) í sjöundu umferð EM einstaklinga í gær. Guðmundur hefur 3 vinninga. 

Áttunda umferð fer fram í dag. Þá teflir Gummi við Aserann Ravan Aliyev (2252).

Spánverjinn David Anton Gujarro (2660) og Englendingurinn David Howell (2684) eru efstir á mótinu. Stöðu mótsins má finna hér

Daglega umfjöllun um mótið má finna á heimasíðu ECU.

Mótið er gríðarlega sterkt. Þátt taka 397 skákmenn frá 38 löndum og þar af er 171 stórmeistari. Það segir ýmislegt um styrkleika mótsins að Guðmundur er aðeins nr. 220 í stigaröð keppenda. 


Barna- og unglingastarf Hugins: Óskar vann stigakeppni vetrarins

20170529_185851

Síðasta barna- og unglingaæfing  Hugins  fyrir sumarhlé var haldin 26. maí sl. Úrslitin í stigakeppni æfinganna var þá þegar ráðin. Óskar Víkingur Davíðsson var með 23 stiga forskot á Óttar Örn Bergmann Sigfússon sem ljóst var að ekki yrði brúað á þessari æfingu þar sem æfingin gaf mest 3 stig. Á lokaæfingunni voru þrír efstir og jafnir með 4v af fimm mögulegum en það voru Ótttar Örn Bergmann Sigfússon, Óskar Víkingur Davíðsson og Stefán Orri Davíðsson. Þeir unnu hvorn annan á víxl, Óttar Örn vann Óskar að ég tel í fyrsta sinn, Óskar vann Stefán Orra og Stefán Orri vann Óttar. Óttar Örn var efstur á stigum og hlaut fyrsta sætið, Óskar var annar og Stefán Orri þriðji. 

Í æfingunni tóku þátt: Óttar Örn Bergmann Sigfússon, Óskar Víkingur Davíðsson, Stefán Orri Davíðsson, Brynjar Haraldsson, Einar Dagur Brynjarsson, Garðar Már Einarsson, Sigurður Rúnar Gunnarsson, Rayan Sharifa, Bergþóra Helga Gunnarsdótttir, Gunnar Freyr Valsson, Gabríel Elvar Valgeirsson, Hans Vignir Gunnarsson og Alfreð Dossing. 

Eftir lokaæfinguna er Óskar efstur í stigakeppni vetrarins með 56 stig, Óttar Örn í öðru sæti með 36 stig og síðan voru jafnir Stefán Orri Rayan með 31 stig og deildu þeir þriðja sætinu.  Þetta er fjórða árið í röð sem Óskar er í fyrsta sæti en í annað skiptið deildi hann því með Heimi Páli. Keppnin sem hann fékk þennan vetur var minni en síðasta vetur þegar Dawid fylgdi honum eins og skugginn. 

Á þessum æfingum hafa verið veittar viðurkenningar fyrir framfarir á æfingunum yfir veturinn. Í þetta sinn var ákveðið að veita þrjár viðurkenningar. Þær hlutu Garðar Már Einarsson, Óttar Örn Bergmann Sigfússon og Rayan Sharifa. Óttar Örn og Rayan komu upp úr yngri flokknum í byrjun vetrar. gengi þeirra fór svo vaxandi þegar leið á veturinn og í kokin enduðu þeir í öðru og þriðja sæti í stigakeppni æfinganna og tóku nánast öll stigin í eldri flokki æfinganna. Báðir hafa þeir tekið góðum alhliða framförum í vetur. Garðar Már byrjaði í lok nóvember og var getan ekki mikil til að byrja með. Hann bætti sig svo jafnt og þétt og náði áður en veturinn var á enda að vinna sína fyrstu æfingu og ná sér í nokkur önnur verðlaun.

Mánudagsæfingar sem eru opnar börnum og unglingum á grunnskólaldri voru uppstaðan í barna- og unglingastarfinu í vetur. Umsjón með þeim æfingum höfðu Alec Elías Sigurðarson, Erla Hlín Hjálmarsdóttir ogg Vigfús Ó. Vigfússon. Þessu til viðbótar var boðið upp á aukaæfingar fyrir félagsmenn á laugardögum og þriðjudögum þar sem farið var í ýmis grunnatriði í endatöflum, taktik og byrjunum. Æfingarnar í vetur voru vel sóttar en tæplega 100 börn og unglingar sóttu þær. Sumir mættu aðeins á fáar æfingar en kjarninn sem sótti æfingarnar mætti afar vel og fengu 14 viðurkenningu fyrir mætinguna í vetur en það voru: Óttar Örn Bergmann Sigfússon, Rayan Sharifa, Gunnar Freyr Valsson, Brynjólfur Yan Brynjólfsson, Brynjar Haraldsson, Óskar Víkingur Davíðsson, Andri Hrannar Elvarsson, Stefán Orri Davíðsson, Batel Goitom Haile, Zofia Momuntjuk, Wiktoria Momuntjuk, Bergþóra Helga Gunnarsdóttir, Garðar Már Einarsson og Alfreð Dossing.

Nú verður gert hlé á Huginsæfingunum í Mjóddinni þangað til í haust þegar þær byrja aftur um mánaðarmótin ágúst – september.

Nánar á heimasíðu Hugins.


Altibox Norway Chess hefst í dag - Carlsen vann hraðskákmótið

Altibox Norway Chess-mótið hefst í dag í Stafangri í Noregi. Þátt taka tíu af allra bestu skákmönnum heims. Í gær tefldu keppendur hraðskák sem svo réð töfluröð mótsins. Carlsen hafði þar mikla yfirburði og hlaut 7,5 vinninga í 9 skákum. Nakamura og Aronian komu næstir með 5,5 vinninga. 

Ítarlega umfjöllun um gærdaginn má finna á Chess.com.

Sjálft aðalmótið hefst í dag kl. 14. Í fyrstu umferð teflir heimsmeistarinn við Wesley So (2812). Tveir stigahæstu skákmenn heims.

 


Guðmundur tapaði í gær

4turec_8

Guðmundur Kjartansson (2437) tapaði í gær fyrir ítalska stórmeistaranum Daniele Vocaturo (2604) í sjöttu umferð EM einstaklinga. Guðmundur hefur 2,5 vinninga. 

Sjöunda umferð fer fram í dag. Þá teflir Gummi við Rússann Vladislav Chizhikov (2282).

10 skákmenn eru efstir og jafnir með 5 vinninga. Stöðu mótsins má finna hér

Umfjöllun um mótið má finna á heimasíðu ECU.

Mótið er gríðarlega sterkt. Þátt taka 397 skákmenn frá 38 löndum og þar af er 171 stórmeistari. Það segir ýmislegt um styrkleika mótsins að Guðmundur er aðeins nr. 220 í stigaröð keppenda. 


Vignir Vatnar sigraði á hraðkvöldi

Vignir Vatnar Stefánsson sigraði með fullu húsi á hraðkvöldi Hugins sem haldið var mánudaginn 29. maí sl. Tefldar voru átta umferðir og frá sjónarhóli skákstjórans, sem einnig var að tefla virtist þetta vera nokkuð öruggt hjá Vigni Vatnari. Vinningarnir streymdu í hús hjá honum jafnt og þétt og sigurinn tryggður fyrir síðustu umferð. Hann ætlaði greinilega ekki að láta slá sig út af laginu tvö hraðkvöld í röð. Annar var Halldór Pálsson með 6,5v og þriðji var Eiríkur Björnsson með 5,5v..

Vignir Vatnar sá um dráttinn í happdrættinu og fór alveg á hinn enda mótstöflunnar og valdi Pétur Jóhannesson. Vignir Vatnar valdi pizzumiða frá Dominos en Pétur tók nokkuð óvænt miða frá American Style.

Næsta skákkvöld verður hraðkvöld mánudaginn 12. júní nk en það verður jafnfram síðasta skákkvöldið fyrir sumarleyfi.

Lokastaðan á hraðkvöldinu:

  1. Vignir Vatnar Stefánsson, 8v/8
  2. Halldór Pálsson, 6,5v
  3. Eiríkur Björnsson, 5,5v
  4. Vigfús Ó. Vigfússon, 5v
  5. Gunnar Nikulásson, 4v
  6. Atli Jóhann Leósson, 4v
  7. Hjálmar Sigurvaldason, 4v
  8. Sigurður Freyr Jónatansson, 3v
  9. Björgvin Kristbergsson, 3v
  10. Stefán Már Pétursson, 3v
  11. Hörður Jónasson, 2v
  12. Pétur Jóhannesson

Úrslitin í chess-results:


Ingvar öruggur sigurvegari á minningarmóti Sveinbjörns

 

18814631_1681968141831285_1233327939909755384_o

Ingvar Þór Jóhannesson (2372) vann öruggan sigur á minningarmóti Sveinbjörns Óskars Sigurðssonar sem fram fór um hvítasunnuhelgina á Akureyri. Ingvar tefldi eins og sá sem valdið hafði. Leyfði aðeins jafntefli í fyrstu (Haraldur Haraldsson) og síðustu umferð (Áskell Örn Kárason). Mikil spenna var um næstu sæti. Svo fór að Akureyringar Tómas Veigar Sigurðarson (2063) og Ólafur Kristjánsson (2117) hlutu þau. Björn Hólm Birkisson fékk verðlaun fyrir bestan árangur undir 2000 skákstigum og Helgi Pétur Gunnarsson sömu verðlaun fyrir bestan árangur undir 1800.

18891580_1681968138497952_3205469275621425950_o

Tefld voru tímamörkin 44+15 sem eru afar athyglisverð tímamörk. Eru einhvers konar sambland af kapp- og atskák. 

Mótshaldið er ákaflega skemmtilegt og afar fjörlega teflt. Töluvert um óvænt úrslit. Heimamenn fá miklar þakkir fyrir gott mótshald sem vonandi verður framhald á.

Lokastöðu mótsins má finna á Chess-Results.

18891916_1681949545166478_354394023622932888_o

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.7.): 16
  • Sl. sólarhring: 34
  • Sl. viku: 184
  • Frá upphafi: 8779122

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 114
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband