Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2015

Aronian með vinningsforskot - Carlsen tapaði fyrir Grischuk

Armeninn Levon Aronian (2765) náði vinningsforskoti á Sinquefield-mótinu með því að leggja Nakamura (2814) að velli í sjöundu umferð sem fram fór í gær. Carlsen (2853) tapaði hins vegar fyrir Grischuk (2771) og eru þeir í 2.-5. sæti ásamt MVL (2731) og Giri (2793).

Góða umfjöllun um umferð gærdagsins má finna á Chess24.

Áttunda og næstsíðasta umferð hefst nú kl. 18. Þá teflir Carlsen við Nakamura og Aronian við Anand (2816) sem hefur engan veginn náð sér á strik.

 


Áskell sigurvegari Startsmóts SA

Hið árlega startmót Skákfélags Akureyrar var haldið næstsíðasta dag ágústmánaðar og markar mótið að venju upphaf skákvertíðarinnar nyðra. Flautað var til leiks kl. 13 en þá voru níu keppendur mættir til leiks - þannig að greinilegt er að ekki eru allir skákskörungar enn vaknaðir af sumardvala. Tefld var tvöföld umferð, en vegna anna þurfti Smári Ólafsson að draga sig í hlé eftir fyrri hlutann, þá komin með þrjá og hálfan vinning.

Úrslit urðu annars sem hér segir:

Áskell Örn Kárason13
Jón Kristinn Þorgeirsson10½
Símon Þórhallsson10
Haraldur Haraldsson9
Sigurður Arnarson
Sveinbjörn Sigurðsson
(Smári Ólafsson3½)
Sigurður Eiríksson3
Karl Steingrímsson2

Dramatískur sigur Bolvíkinga á unglingasveit TR

Truxvi-TBUnglingasveit TR og Bolvíkingar áttust við í 8 liða úrslitum hraðskákkeppni taflfélaga í kvöld. TR-ingar sýndu strax að þeir eru í mun betri æfingu og sneggri á klukkunni. Auk þess sem Bolvíkingar voru ekki alveg með nýjustu hraðskákreglur og hreinu og köstuðu frá sér vinningum með því að drepa kóng og vekja upp drottningu á rangan hátt. TR vann 4 af fyrstu 6 viðureignunum og höfðu öruggt forskot í hálfleik 21-15.

Bolvíkingar gerðu þá skiptingu þegar Halldór Grétar kom inn fyrir Gísla Gunnlaugs. Halldór lenti í vinnu útkalli snemma dags og kom beint úr því í seinni umferðina. Þessi skipting reyndist afdrifarík því strax í fyrstu umferð seinni hálfleiks unnu Bolvíkingar 5-1 sigur. Keppnin var því orðin spennandi en í næstu 4 umferðum urðu 3 jafntefli og 1 sigur með minnsta mun. Fyrir síðustu umferð var TR með eins vinnings forskot. Eftir mikla baráttu náðu Bolvíkingar að vinna loka umferðina með minnsta mun og keppnin endaði því 36-36.

Bolvíkingar unnu eftir bráðabana

Reglur keppninnar kveða á um að þá sé tefldur bráðabani og höfðu Bolvíkingar sigur 3,5-2,5. Þetta gat því ekki orðið mjórra á munum.

Jóhann Hjartarson dró bolvíska vagninn og Guðni Stefán var mjög öflugur. Halldór Grétar kom svo sterkur inn í seinni hlutann. Við hinir kroppuðum nokkra vinninga en ekkert meira en það. Höfum oft teflt mun betur en í kvöld en tökum ekkert af öflugum andstæðingum.

Hjá unglingunum dreifðust vinningarnir betur og ljóst er að TR á marga sterka og efnilega unglinga. Það sýndu þeir svo sannarlega í kvöld og eiga mikið hrós skilið fyrir frammistöðuna. Framtíðin er björt hjá hinu öfluga og virka Taflfélagi Reykjavíkur.

Guðmundur M. Daðason


Hraðskákkeppni taflfélaga: Risaleikur í Feninu í kvöld

Í kvöld, mánudag, fer fram risaleikur í hraðskákkeppni taflfélaga þegar A sveit Hugins mætir A sveit Taflfélags Reykjavíkur.

Líkleg lið liðanna eru:

Huginn: Hjörvar Steinn Grétarsson, Helgi Ólafsson, Stefán Kristjánsson, Helgi Áss Grétarsson, Þröstur Þórhallsson, Einar Hjalti Jensson, Ingvar Þór Jóhannesson og Magnús Örn Úlfaarsson.

TR: Hannes Hlífar STefánsson, Henrik Danielsen, Jón Viktor Gunnarsson, Karl Þorsteins, Guðmundur Kjartansson, Arnar Gunnarsson, Bragi og Björn Þorfinnssynir.

Eins og sjá er liðin ákaflega áþekk af styrkleika.

Viðureignin fer fram á heimavelli TR í Feninu (Faxafen 12) og keppnin hefst 20:00. Áhorfendur velkomnir!

Hraðskákeppni taflfélaga

Úrslit/pörun annarrar umferðar:

  • Skákfélag Akureyrar – Víkingaklúbburinn 45-27
  • Taflfélag Bolungarvíkur – TRuxvi 39,5-38,5 eftir bráðabana
  • Taflfélag Reykjavíkur – Skákfélagið Huginn a-sveit (Mánudaginn, 31. ágúst í TR, kl. 20:00)
  • Skákfélagið Huginn b-sveit – Taflfélag Garðabæjar 60-12

Litla bikarkeppnin

Úrslit/pörun fyrstu umferðar

  • Skákfélag Íslands – Skákgengið (Skákgengið gaf án taflmennsku)
  • Ungmennasamband Borgarfjarðar – Skákfélag Selfoss og nágrennis34-38
  • Vinaskákfélagið – Skákddeild Fjölnis (dags. ekki vituð)
  • Skákdeild Hauka – Skákfélag Reykjanesbæjar (Haukar gáfu án taflmennsku).

Átta liða úrslitum á að vera lokið í sl. 31. ágúst.


Bikarsyrpa TR hefst á föstudaginn

4_Bikarsyrpan1

Bikarsyrpa Taflfélags Reykjavíkur fer nú af stað annað árið í röð eftir góðar móttökur í fyrra. Mótum syrpunnar hefur verið fjölgað og telur hún alls sex kappskákmót sem eru ætluð börnum á grunnskólaaldri (fædd 2000 og síðar) sem ekki hafa náð 1600 skákstigum. Þar með gefst þeim tækifæri til að næla sér í alþjóðleg skákstig á skákmótum sem sérhönnuð eru fyrir þau.

Fyrsta mótið í syrpunni hefst föstudaginn 4. september og stendur til sunnudagsins 6. september. Tefldar eru 5 umferðir eftir svissnesku kerfi. Tímamörk eru 30 mínútur + 30 sekúndur á hvern leik og geta skákirnar því varað í allt að tvær klukkustundir. Þó svo við leggjum ætíð áherslu á að krakkarnir vandi sig og noti tímann vel, þá má gera ráð fyrir að margar skákir taki mun styttri tíma.

Mótið er sérstaklega hugsað fyrir krakka sem hafa sótt skákæfingar TR (og/eða annarra taflfélaga) reglulega síðastliðinn vetur eða lengur. Það er gott að byrja sem fyrst að keppa á kappskákmótum, en hingað til hefur þeim krökkum sem vilja tefla á “alvöru mótum” mestmegnis staðið til boða að taka þátt í opnum mótum. Þar er styrkleikamunurinn oft mikill, mótin taka langan tíma, auk þess sem marga krakka óar við tilhugsuninni um að tefla við fullorðna á sínum fyrstu kappskákmótum. Bikarsyrpan er svarið við því.

Einungis börn og unglingar á grunnskólaaldri sem ekki hafa náð 1600 alþjóðlegum skákstigum geta tekið þátt í mótum Bikarsyrpunnar. Þannig er styrkleikamunurinn minni en ella og krakkarnir njóta þess betur að tefla kappskákir. Tímamörkin eru líka styttri, og henta krökkunum betur en langar 90 mínútna skákir sem tíðkast á venjulegum kappskákmótum. Mótið uppfyllir öll skilyrði Alþjóða skáksambandsins FIDE og er reiknað til alþjóðlegra skákstiga sem gott er að byrja að safna snemma. Eins og á aðra viðburði félagsins þá er frítt í mótin fyrir krakka í Taflfélagi Reykjavíkur. Fyrir krakka í öðrum taflfélögum er þátttökugjaldið 1000 krónur fyrir hvert mót Bikarsyrpunnar.

Dagskrá:
1. umferð 17.30 á föstudegi (4. september)
2. umferð 10.30 á laugardegi (5. september)
3. umferð 14.00 á laugardegi (5. september)
4. umferð 10.30 á sunnudegi (6. september)
5. umferð 14.00 á sunnudegi  (6. september). (Lokaumferð + verðlaunaafhending).

Vinsamlegast skráið þátttakendur sem fyrst, það hjálpar við undirbúning mótsins!

Bikarsyrpan samanstendur af sex mótum í vetur. Bikarar og medalíur eru í verðlaun fyrir efstu sætin í hverju
 móti, en auk þess verða veitt sérstök verðlaun fyrir samanlagðan árangur á mótunum.

Hlökkum til að sjá ykkur!

Sigurvegarar Bikarsyrpunnar 2014-2015:

  • Mót 1: Mykhaylo Kravchuk
  • Mót 2: Aron Þór Mai
  • Mót 3: Jóhann Arnar Finnsson
  • Mót 4: Mykhaylo Kravchuk
  • Bestur samanlagður árangur: Mykhaylo Kravchuk

Pistill um lokamót Bikarsyrpunnar 2014-2015.


Æfingar skákdeildar Fjölnis hefjast miðvikudaginn 16. september

IMG_8122Vikulegar skákæfingar Skákdeildar Fjölnis fyrir börn og unglinga hefjast miðvikudaginn 16. september og verða þær framvegis alla miðvikudaga í vetur frá kl. 17:00 – 18:30. Æfingarnar eru í Rimaskóla og er gengið inn um íþróttahús skólans. Árangur þeirra barna sem sótt hafa reglulega skákæfingar Fjölnis hefur verið mjög góður á undanförnum árum og skákdeildin hlotið mörg verðlaun og viðurkenningar fyrir árangursríkt starf.

Foreldrar áhugasamra barna í Grafarvogi og á höfuðborgarsvæðinu öllu eru hvattir til að nýta sér skemmtilegar og áhugaverðar skákæfingar Fjölnis sem bjóðast ókeypis.

Í fyrra mættu að jafnaði 30 krakkar á hverja æfingu. Æfingarnar miðast við að þátttakendur kunni góð skil á öllum grunnatriðum skáklistarinnar og tefli sér til ánægju. Foreldrar eru hvattir til að mæta með börnunum sínum og aðstoða sem alltaf er þörf fyrir. Reynt er að hafa æfingarnar fjölbreyttar og skemmtilegar, kennsla og skákmót til skiptis. Boðið er upp á veitingar á hverri æfingu svo sem ávexti, kexmeti og vatn. Öllum skákæfingum lýkur með verðlaunaafhendingu. Meðal leiðbeinenda í vetur verða m.a. afreksunglingar í skáklistinni úr úrvalsflokki Skákskóla Íslands.

Umsjón með skákæfingum Fjölnis í vetur hefur líkt og undanfarin ár Helgi Árnason formaður skákdeildarinnar. Munið fyrstu skákæfinguna 16. september.


Skákþing Norðlendinga 2015 - Haustmót Skákfélags Akureyrar

Skákþing Norðlendinga 2015 verður haldið á Akureyri dagana 18.-20. september 2015. Mótið er jafnframt Haustmót Skákfélags Akureyrar.

Telfdar verða sjö umferðir. Fyrstu fjórar umferðirnar verða atskákir (25 mín) en lokaumferðirnar þrjár verða kappskákir (90 mín + 30 sek fyrir hvern leik).

Dagskrá:

  • 1-4. umferð föstudaginn 18. september kl. 20.00.
  • 5. umferð laugardaginn 19. september kl. 10.00.
  • 6. umferð laugardaginn 19. september kl. 15.00 (eða a.m.k. 45 mín eftir lok 5. umferðar)
  • 7. umferð sunnudaginn 20. september kl. 10.00.

Hraðskákmót Norðlendinga/Hausthraðskákmótið kl. 15.00 (eða a.m.k. 25 mín eftir lok 7. umferðar) 

Verðlaunafé að lágmarki 100.000 kr. Nánar auglýst síðar. 

Titlar og verðlaun:

Mótið er öllum opið og allir keppa um sömu verðlaun, óháð búsetu eða félagsaðild.

Titilinn „Skákmeistari Norðlendinga“ getur aðeins sá hlotið er á lögheimili á Norðurlandi.

Titilinn „Skákmeistari Skákfélags Akureyrar“ getur aðeins hlotið félagsmaður í SA.

Verði fleiri en einn jafn í keppni um titilinn „Skákmeistari Norðlendinga“ munu stig ráða og eru keppendur hvattir til að kynna sér stigaútreikning áður en móti lýkur.

Verði fleiri en einn jafn í keppni um titilinn „Skákmeistari Skákfélags Akureyrar“ verður telft um titilinn.


Glæsisigur Nakamura á So - Carlsen og Aronian efstir

So og Nakamura

Hikaru Nakamura (2814) stal athyglinni á Sinquefield-mótinu í gær með glæsisigri í mikilli fórnarskák í Kóngsindverjanum á landa sínum Wesley So (2779). Á Chess.com er því velt upp hvort skákin verði hin "ódauðlega fórnarskák". Nakamura náði öðru sæti á lifandi stigalistanum.

 

Garry Kasparov var hrifinn af taflmennsku Nakamura og tísti:

 

 

Carlsen (2853) og Aronian (2765) gerðu jafntefli og eru sem fyrr efstir. Nakamura, Giri (2793) og MVL (2731) sem vann Topalov (2816) eru hálfum vinningi á eftir þeim.  

Sjöunda umferð fer fram í kvöld og hefst kl. 18. Þá teflir Carlsen við Grischuk (2771) og Aronian við Nakamura. 


Rewind to the beginningOne move backFlip the boardShow moves paneShow commentsPlay one moveFast-forward to the end
Wesley So - Hikaru Nakamura
2779 - 2814
Sinquefield Cup, 2015.08.29

Wesley So - Hikaru Nakamura (PGN)

1. d4 Nf6 2. c4 g6 3. Nc3 Bg7 4. e4 d6 5. Nf3 O-O 6. Be2 e5 7. O-O Nc6 8. d5 Ne7 9. Ne1 Nd7 10. f3 f5 11. Be3 f4 12. Bf2 g5 13. Nd3 Ng6 14. c5 Nf6 15. Rc1 Rf7 16. Kh1 h5 17. cxd6 cxd6 18. Nb5 a6 19. Na3 b5 20. Rc6 g4 21. Qc2 Qf8 22. Rc1 Bd7 23. Rc7 Bh6 24. Be1 h4 25. fxg4 f3 26. gxf3 Nxe4 27. Rd1 Rxf3 28. Rxd7 Rf1+ 29. Kg2 Be3 30. Bg3 hxg3 31. Rxf1 Nh4+ 32. Kh3 Qh6 33. g5 Nxg5+ 34. Kg4 Nhf3 35. Nf2 Qh4+ 36. Kf5 Rf8+ 37. Kg6 Rf6+ 38. Kxf6 Ne4+ 39. Kg6 Qg5# 0-1

Orðsending til eldri skákmanna - Æsir hefja taflmennsku á þriðjudaginn

Æsir eru að vakna eftir sumarsvefninn. Þeir byrja að tefla þriðjudaginn 1 september í Ásgarði, félagsheimili eldri borgara í Reykjavík sem er í Stangarhyl 4.

Allir eldri borgarar sem hafa gaman af skák hjartanlega velkomnir til leiks, karlar 60+ og konur 50+.

Við teflum alla þriðjudaga frá kl 13.00 til 16.30

Þátttökugjald er kr. 500 innifalið kaffi og meðlæti.

Hittumst hress á hvítum reitum og svörtum.

Stjórn Ása.

 


Skákþáttur Morgunblaðsins: Guðmundur efstur í Litháen

Guðmundur Kjartansson vann sína fyrstu ÓlympíuskákHjörvar Steinn Grétarsson, Guðmundur Kjartansson og Oliver Aron Jóhannesson luku um síðustu helgi keppni á sterku, opnu móti í höfuðborg Lettlands, Riga. Alexei Shirov bar sigur úr býtum, hlaut 7 ½ vinning af níu mögulegum. Jafn honum en lægri á stigum var Armeninn Hovhannisjan. Hjörvar endaði í 11.- 38. sæti með 6 vinniga, Guðmundur fékk 5 ½ vinning og varð í 39.- 56. sæti en Oliver fékk 3 vinninga og endaði neðar í mótstöflunni. Keppendur voru 191 talsins. Í Riga hefur á torgi einu verið reist stytta af Mikhael Tal og margir skákunnendur gera sér ferð þangað og hylla „töframanninn“ sem lést sumarið 1992 eftir langvarandi vanheilsu, aðeins 55 ára að aldri.

Guðmundur Kjartansson sat ekki lengi auðum höndum og degi eftir mótið í Riga hóf hann að tefla á lokuðu alþjóðlegu móti í Panevezys í Litháen. Ef marka má frammistöðu hans og taflmennsku þar verður þess væntanlega ekki langt að bíða að hann nái lokaáfanga sínum að stórmeistaratitli. Eftir sjöttu umferð, sem fram fór á fimmtudaginn, var hann með 5 vinninga af sex mögulegum og deildi efsta sætinu með heimamanninum Titas Stremavicius. Hann þarf 1 ½ vinning úr þrem síðustu skákunum til að ná lokaáfanga að stórmeistaratitli. Nú um stundir er hann með 2447 elo-stig en þarf að ná 2500 elo-stigum til að uppfylla skilyrði þau sem Alþjóðaskáksambandið FIDE setur varðandi útnefningu titilsins. Að ná þessu stigamarki ætti ekki að vefjast fyrir honum, elo-stigin eru reiknuð í hverjum mánuði.

Þar sem skákir nú til dags eru aðgengilegar í beinum útsendingum á netinu, t.d. á vefnum Chessbomb, hefur gefist ágætt tækifæri til að rýna í skákir Guðmundar frá Litháen. Sigur hans i fjórðu umferð var stórglæsilegur:

Panevezys 2015; 4. umferð:

Guðmundur Kjartansson – Ottormar Ladva

Pirc-vörn

1. e4 g6 2. d4 Bg7 3. Rc3 c6 4. Rf3 d6 5. a4 Rf6 6. Be2 O-O 7. O-O Rbd7 8. h3 e5 9. dxe5 dxe5 10. Be3 De7 11. Rd2 Rc5 12. Dc1 a5 13. Hd1 Be6 14. b3 Hfd8 15. Da3 Bf8 16. He1 Rfd7 17. Had1 f5!?

Eftir mikla liðsflutninga telur svartur óhætt að opna stöðuna. En við það myndast ýmsir veikleikar í stöðunni.

18. exf5 gxf5 19. Bc4 Df6 20. Dc1 e4?! 21. Re2 Bd6?

Tveir síðustu leikir svarts voru vanhugsaðir. En andstæðingur Guðmundar hefur varla áttað sig á því sem í vændum var.

G6MUGO6922. Rxe4!

Glæsileg mannsfórn. Hugmyndin kristallast eftir 26. leik hvíts.

22. ... Rxe4 23. Hxd6! Rxd6 24. Bg5! Df7 25. Bxe6 Dxe6 26. Bxd8

Nú rann upp fyrir Ladva að eftir 26. ... Hxd8 + leikur hvítur 27. Dg5+ og hrókurinn felur óbættur. Þó að hvítur hafi aðeins eitt peð upp úr krafsinu er ómögulegt að verja veikleikana á kóngsvæng.

26. ... Re4 27. Bc7 De7 28. Rg3 Rdf6 29. Dg5+!

Annar bráðskemmtilegur leikur og nú fellur annað peð.

29. ... Dg7 30. Dxg7+ Kxg7 31. Rxf5+ Kg6 32. Rg3 Rxg3 33. Bxg3 Hd8 34. He7

Öruggara var 34. He2 en þessi dugar líka.

34. ... Hd2 35. Hxb7 Hxc2 36. Ha7 Re4 37. Hxa5 Rd2

Hyggst bjarga sér með þráskák: 38. ... Hc1+ og 39. ... Rf1+.

38. h4! Rxb3 39. h5+ Kg7 40. Ha7+ Kh6 41. Bf4+ Kxh5 42. Hg7! Rc5 43. Hg5+ Kh4 44. f3!

– Svartur er fastur í mátneti og á enga vörn við hótuninni 45. g3+ Kh3 46. Hh5 mát. Ein tilraun 44. ... Hc1+ 45. Kh2 Hc2 dugar skammt vegna 46. Hf5! sem hótar 47. Bg3 mát. 

 

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu 

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 22. ágúst 2015

Skákþættir Morgunblaðsins


Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.7.): 8
  • Sl. sólarhring: 25
  • Sl. viku: 144
  • Frá upphafi: 8779037

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 114
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband