Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015

Sterkasta Íslandsmótið hefst á morgun í Hörpu!

Sterkasta Íslandsmót sögunnar í skák hefst á morgun í Háuloftum í Hörpu. Sex stórmeistarar taka þar þátt,  þeirra á meðal Jóhann Hjartarson og Jón L. Árnason sem hafa ekki verið meðal keppenda síðan á síðustu öld! Keppt er um vegleg verðlaun og nafnbótina Skákmeistari Íslands. 

Sex keppendur hafa hampað Íslandsmeistaratitlinum. Alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson hefur titil að verja og Hannes Hlífar Stefánsson hefur tækifærið til að slá eigið met – vinni hann þrettánda Íslandsmeistaratitilinn! 

Meðal annarra keppenda má nefna Héðin Steingrímsson sem er yngsti Íslandsmeistari sögunnar en hann vann mótið 1990 á Höfn í Hornafirði, þá aðeins 15 ára. Met sem verður seint slegið. Hjörvar Steinn Grétarsson er eini stórmeistarinn sem tekur þátt sem ekki hefur hlotið nafnbótina eftirsóttu. Henrik Danielsen varð Íslandsmeistari í Bolungarvík árið 2009. 

Keppendalistinn lítur út sem hér segir: 

  1. GM Hannes Hlífar Stefánsson (2590)
  2. GM Jóhann Hjartarson (2566)
  3. GM Hjörvar Steinn Grétarsson (2561)
  4. GM Héðinn Steingrímsson (2532)
  5. GM Henrik Danielsen (2520)
  6. GM Jón L. Árnason (2499)
  7. IM Guðmundur Kjartansson (2474)
  8. IM Bragi Þorfinnsson (2416)
  9. IM Björn Þorfinnsson (2407)
  10. FM Einar Hjalti Jensson (2359)
  11. FM Sigurður Daði Sigfússon (2319)
  12. WGM Lenka Ptácníková (2284) 

Teflt verður daglega 14.-24. maí. Fyrsta umferð hefst á morgun (uppstigningardag) kl. 14. Skákum verður varpað upp á skjái, heitt kaffi á könnunni og áhorfendur velkomnir.

Bent er á að hægt er að spá fyrir um röð efstu manna mótsins hér á Skák.is (guli kassinn efst).

Heimasíða mótsins


Einar Hjalti teflir í landsliðsflokki

FIDE-meistarinn Einar Hjalti Jensson (2359) tekur sæti í landsliðsflokki sem hefst á fimmtudaginn. Hann tekur sæti Stefán Kristjánssonar (2485) sem dró sig út úr mótinu af persónulegum ástæðum. 

Keppendalistinn:

  1. GM Hannes Hlífar Stefánsson (2590)
  2. GM Jóhann Hjartarson (2566)
  3. GM Hjörvar Steinn Grétarsson (2561)
  4. GM Héðinn Steingrímsson (2532)
  5. GM Henrik Danielsen (2520)
  6. GM Jón L. Árnason (2499)
  7. IM Guðmundur Kjartansson (2474)
  8. IM Bragi Þorfinnsson (2416)
  9. IM Björn Þorfinnsson (2407)
  10. IM Einar Hjalti Jensson (2359)
  11. FM Sigurður Daði Sigfússon (2319)
  12. WGM Lenka Ptácníková (2284)

Heimasíða mótsins


Spáðu fyrir úrslitin á Íslandsmótinu í skák!

Opnað hefur verið getraun fyrir Íslandsmótið í skák. Þar geta áhugasamir spáð fyrir um röð sex efstu keppenda mótsins.

Veitt eru 6 stig fyrir rétt efsta sæti, 5 stig fyrir rétt annað sæti og svo koll af kolli. Séu menn jafnir í sætum að vinningum (t.d. 2.-3. sæti) er nægjanlegt að giska á annað hvort hjá viðkomandi.

Ýmiss verðlaun verða í boði. Meðal annars 15.000 kr. úttekt á Hereford-steikhúsi. Auk þess verða geisladiska- og bókaverðlaun.

Lokað verður fyrir getraunina við upphaf annarrar umferðar, þ.e. kl. 17 föstudaginn 15. maí.

Athugið að aðeins verður tekið eitt svar gilt frá hverri ip-tölu. 

Getraunina má nálgast hér á Skák.is (guli kassinn efst).


Hannes sigraði á Wow air Vormóti TR

Stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson (2560) sigraði á Wow air Vormóti TR sem lauk í kvöld í húsnæði TR. Hannes gerði jafntefli við Einar Hjalta Jensson (2390) í lokaumferðinni. Davíð Kjartansson (2364) og Sigurður Daði Sigfússon (2319) urðu jafnir í 2.-3. sæti.

Lokastöðuna má finna á Chess-Results.

B-flokkur

Sverrir Örn Björnsson (2097) hafði sigur í b-flokki. Hinn ungi og efnilegi skákmaður, Vignir Vatnar Stefánsson (1909), átti mjög gott mót og varð annar. Þriðji varð Halldór Pálsson (2021). 

Sverrir Örn hefur unnið sér réttindi til að tefla í a-flokki að ári.

Lokastöðuna má nálgast á Chess-Results.

Heimasíða mótsins.


EM landsliða: Heimasíða mótsins komin í loftið!

EM landsliða (lógó)

Heimasíða Evrópumóts landsliða var sett í loftið í dag þegar ríflega hálft ár í mótið. Allar grundvallarupplýsingar um mótið má þar finna en allt efni síðunnar er á ensku.

Greint verður jafnóðum frá þegar nýjar þjóðir skrá sig til leiks.

Heimasíða EM landsliða.


Meistaramót Skákskóla Íslands 2015 fer fram í tveim flokkum

Skákskóli ÍslandsMeistaramót  Skákskóla Íslands fyrir starfsárið 2014/2015 hefst föstudaginn 29. maí og lýkur 31. maí. Mótið fer fram í tveim styrkleikaflokkum og verður reiknað til alþjóðlegra og íslenskra stiga í báðum flokkunum.  Tímamörk eru þó mismunandi í flokknum.

Tefldar verða sex umferðir eftir svissneska kerfinu í báðum flokkum. 

Aðalstyrktaraðili mótsins að þessu sinni er GAMMA. 

Þátttökurétt hafa nemendur skólans og allir þeir sem tekið hafa þátt í námskeiðum á vegum skólans eða hlotið þjálfun á vegum skólans.    

Að öðru leyti áskilur skólastjóri/mótsnefnd sér rétt til að bjóða völdum einstaklingum til þátttöku. 

Núverandi meistari  Skákskóla Íslands er Dagur Ragnarsson.   

Dagskrá mótsins verður með eftirfarandi hætti: 

Flokkur 1600 alþjóðleg elo – stig og ofar: 

  1. umferð: Föstudagurinn 29. maí kl. 16-20
  2. umferð: Föstudagurinn 29. maí kl. 20-00 
  1. umferð. Laugardagur 30. maí kl. 10-14
  2. umferð: Laugardagurinn 30. maí 15–19 
  1. umferð: Sunnudagurinn 31. maí kl.10-14
  2. umferð: Sunnudagurinn 31. maí kl.15-19 

Tímamörk í öllum umferðunum 90 30. 

Keppendur geta tekið ½ vinnings yfirsetu í fyrstu fjórum umferðunum en verða að tilkynna um yfirsetuna fyrir umferðina og áður en raðað er í næstu umferð.

Skákmenn sem eru með minna en 1600 elo- stig geta óskað eftir því að tefla í flokki stigahærri keppenda og mun mótsnefnd taka afstöðu til þess og skila niðurstöðu með góðum fyrirvara.   

Flokkur undir 1600– elo-stigum og stigalausir: 

  1. umferð: Föstudagurinn 29. maí kl. 18-20
  2. umferð: Föstudagurinn 29. maí kl. 20-22 
  1. umferð. Laugardagur 30. maí kl. 10-12
  2. umferð: Laugardagurinn 30. maí 15–17 
  1. umferð: Sunnudagurinn 31. maí kl. 10-12
  2. umferð: Sunnudagurinn 31. maí kl. 15-17

Tímamörk í öllum umferðunum 30 30.

Keppendur geta tekið ½ vinning yfirsetu í fyrstu fjórum umferðunum en tilkynna verður um yfirsetuna fyrir umferð og áður en raðað er í þá næstu.  

Verðlaun í flokki 1600 elo + 

  1. verðlaun: farmiði að verðmæti kr. 50 þús + uppihaldskostnaður á kr. 35 þús.
  2. verðlaun: Farmiði að verðmæti kr. 40 þús. 
  3. – 5. sæti Vandaðar skákbækur.

Auk þess verða veitt stigaflokkaverðlaun í mótinu:

 

1800 – 2000 elo:

Farmiði að verðmæti kr. 40 þús.

 

1600-1800 elo:

Farmiði að verðmæti kr. 40 þús. 

Mótsstig úrskurða verði keppendur jafnir að vinningum nema í keppni um 1.  sæti. Þá skal teflt um titilinn Meistari Skákskóla Íslands 2015. 

Verðlaun í flokki 1600 elo og minna  og stigalausra: 

  1. verðlaun: farmiði að verðmæti kr. 40 þús:
  2. – 3. verðlaun: vandaðar skákbækur að eigin vali.

Pistill þjálfara um Norðurlandamót stúlkna í skák

DSC 0544

Fimmtudaginn 30. apríl 2015 héldu sex galvaskar stúlkur í víking ásamt fríðu föruneyti til Danaveldis. Markmiðið var skýrt: að ræna og rupla eins mörgum stigum og hægt væri inn í íslenskt stigahagkerfi. Auk þess átti auðvitað líka að njóta dvalarinnar með stöllum sínum.

Þjálfarinn gerði þeim strax ljóst að hann myndi reyna að hjálpa þeim eftir fremsta megni. Þær tóku hann á orðinu og byrjuðu sumar hverjar strax að skoða byrjanir á flugvellinum eða spyrja út í eitt og annað tengt skáklistinni. Ferðin var löng en gekk vel fyrir sig. Eftir að hafa varið þremur tímum í flugvél og öðrum þremur í lest, komst hópurinn á áningarstað, sæll og sáttur. Okkar biðu ákaflega fín salarkynni á vönduðu hóteli og heitur matur strax við komuna. Greinilegt var að Danirnir ætluðu að hugsa vel um okkur að öllu leyti og þeim tókst það með ágætum. Aðstæður voru alveg til fyrirmyndar og flestir voru á þeirri skoðun að sjaldan hefði tekist eins vel til við skipulagið og í þessari ferð. Gott andrúmsloft var á staðnum og mótshaldarar fengu mikið lof úr öllum áttum.

Eftir matinn lá leið þjálfarans á liðstjórafund og síðan var parað í fyrstu umferð. Stúlkurnar hófust þá handa við undirbúninginn og tóku númer til að fá aðstoð frá þjálfaranum. Þær biðu þolinmóðar eftir að röðin kæmi að þeim og nýttu sér það oft að fylgjast með skákrannsóknum annarra. Ferðin einkenndist af dugnaði og elju stúlknanna sem vildu fátt annað gera en að fara yfir skákir sínar og undirbúa sig fyrir næstu umferð. Sú vinna skilaði sér greinilega við skákborðið því að gæðin í taflmennskunni hjá íslenska liðinu voru ákaflega mikil – í raun mun meiri en skákstigin gáfu tilefni til.

C-flokkur

vindere_gruppe-c

Í c-flokki áttum við ríkjandi Norðurlandameistara, Nansý Davíðsdóttur. Hún var næststigahæst í flokknum á eftir hinni sænsku Önnu Cramling. Þó að á þeim hafi munað 249 stigum, varð snemma ljóst að Nansý tefldi einfaldlega betur. Þjálfarann fór fljótt að gruna að sú sænska þjáðist af vægum einkennum af svokölluðu k-40-heilkenni þar sem stúlkan hafði hækkað allverulega á tveimur mánuðum án þess þó að standa fyllilega undir nýju stigunum. Fyrirfram var því líklegt að nokkuð jöfn keppni yrði milli þessara tveggja stúlkna um titilinn. Með Nansý í för var ung og efnileg stúlka, Freyja Birkisdóttir. Hún var stigalægsti keppandinn en átti eftir að sýna og sanna hvað í henni býr.

Í fyrstu umferð keppti Nansý við Klöru Maki-Uuro frá Finnlandi. Nansý fylgdi fullkomlega ráðleggingum þjálfarans í byrjuninni og fékk strax þægilega stöðu. Sú finnska grátbað aftur og aftur um jafntefli en Nansý harðneitaði jafnóðum og boðin komu. Eftir enn eina höfnunina brast Klara í grát og hljóp út. Þegar þær settust aftur að skákborðinu afgreiddi Nansý skákina af miklu öryggi og fyrsti vinningurinn var í höfn. Freyja tefldi við grjótharða sænska stúlku sem heitir Margo Polovnikova. Freyja fann rökréttar hugmyndir en styrkleikamunurinn kom fljótlega í ljós. Margo vann af henni mann og síðan skákina.

Í annarri umferð stýrði Nansý svörtu mönnunum gegn Maríu Nass frá Noregi. Einhvern veginn atvikaðist það að Taimanov-byrjun Nansýjar breyttist í franska vörn með einu tempói yfir en hún var samt ekki par hrifin af því. Hún ákvað að þiggja jafnteflisboð í 20. leik af því að henni leið ekki nógu vel í stöðunni. Freyja tefldi vel á móti hinni dönsku Catarínu Wul og fékk tvisvar gott tækifæri til að gera út um skákina. Hún tefldi aðeins of hratt og endaði manni undir. Skömmu síðar lauk skákinni með tapi en Freyja var staðráðin í að læra af mistökunum og nýta tímann betur.

Í þriðju umferð stýrði Nansý hvítu mönnunum á móti dönsku stúlkunni Nienke van den Brink. Nansý tefldi skoska leikinn og fékk aðeins rýmra tafl. Í tiltölulega jafnri stöðu gerði Nienke þau klaufalegu mistök að leika drottningunni beint í dauðann. Hún brast við með táraflóði og dómarinn leyfði henni að jafna sig áður en hann úrskurðaði að leikurinn stæði gildur. Eftirleikurinn var auðveldur og Nansý var nú komin með 2,5 af 3. Freyja fékk upp sérstakt afbrigði í Sikileyjarvörn, sem hún hafði ekki séð áður, gegn hinni sænsku Trino Paltzer. Hún ákvað að nota sömu uppstillingu og hún hafði lært af þjálfaranum gegn öðru afbrigði í sömu byrjun. Sú uppstilling svínvirkaði og fljótlega var Freyja orðin manni yfir. Síðan varð hún fullgráðug og leyfði Trino að fá sóknarbætur fyrir lið sem Freyja var of upptekin við að hrifsa. Þrátefli varð niðurstaðan og fyrsti punkturinn kominn í höfn. Hér urðu þáttaskil hjá Freyju þar sem aukið sjálfstraust skilað sér í góðri taflmennsku í framhaldinu.

Í fjórðu umferð mættust Nansý og Thyra Kvendseth en þær voru efstar og jafnar í fyrsta sæti með 2,5 vinning. Nansý vann fljótlega peð og stóð til vinnings. Síðan plataði hún af henni riddara og vann örugglega. Freyja tapaði snemma hróki á móti dönsku stúlkunni Pernille Hojer og varð mát í 38. leik.

DSC 0489

Spennan var mikil fyrir síðustu umferð. Nansý var efst og henni dugði jafntefli gegn Margo sem hafði farið illa með Freyju við skákborðið. Margo þurfti að vinna til að tryggja sér titilinn og hafnaði því jafnteflisboði Nansýjar. En fljótlega eftir það hrundi staðan hennar og Nansý ákvað að hefna almennilega fyrir ófarir Freyju og vann í 48 leikjum. Freyja tapaði tveimur peðum í byrjun gegn Klöru Maki-Uuro en lét það ekki slá sig út af laginu. Full sjálfstrausts blés hún til sóknar og fórnaði manni. Klöru tókst ekki að finna neina vörn gegn virkum mönnum Freyju og varð mát í 41. leik.

Árangurinn í c-flokki var sem sagt framar vonum. Nansý vann flokkinn nokkuð örugglega með 4,5 vinningum af 5 og gaf í raun engin færi á sér í neinni skák. Freyja er aðeins 9 ára og var því að tefla við mun eldri stelpur mest allan tímann. Hún tefldi vel og var með unnið í þremur skákum. Með aðeins meiri reynslu og betri tímanotkun hefði hún auðveldlega getað landað þessum þremur vinningum. Hins vegar er 1,5 vinningur stigalægsta keppandans í raun frábært afrek. Það verður spennandi að fylgjast með henni í framtíðinni því hún á mörg ár eftir í c-flokki og þjálfarinn yrði ekki hissa þó hún tæki titilinn sjálf eitthvert árið.

B-flokkur

DSC 0494

B-flokkur skiptist í raun í tvennt stigalega séð. Sex efstu stelpurnar voru á stigabilinu 1500-1800 en þær fjórar neðstu í kringum 1000-1200. Okkar stúlkur, Hildur Berglind Jóhannsdóttir og Svava Þorsteinsdóttir, voru báðar með þeim stigalægri og því kannski ekki fyrir fram við mörgum vinningum að búast þar. Hildur hefur ekki teflt mikið síðustu árin og Svava er tiltölulega nýbyrjuð að keppa á alvörumótum. Hins vegar sýndi það sig í skákunum að hæfileikarnir eru vissulega fyrir hendi hjá þeim báðum og árangurinn átti eftir að koma skemmtilega á óvart.

Í fyrstu umferð tefldi Hildur við sigurvegara flokksins, Línu Cao-Zhang frá Svíaríki. Lína plataði af henni mann í byrjun og þá varð ekki aftur snúið. Svava þreytti frumraun sína á mótinu gegn norsku stúlkunni Söru Nass. Svava sýndi að hún er með mjög gott minni því að hún tefldi byrjunina alveg rétt eftir að hafa fengið að sjá afbrigðin bara einu sinni eða tvisvar. Það er í sjálfu sér stórmerkilegt í ljósi þess að hún hefur varla fengið neina markvissa þjálfun áður. Svo fór þó að sú norska náði góðri sókn og Svava náði ekki að verjast. Tvö töp í fyrstu umferð en eftir skákirnar sást á þeim að sjálfstraustið var að aukast.

Í annarri umferð fengu stúlkurnar báðar danska andstæðinga. Hildur tefldi við stigahæstu stúlkuna í flokknum, Ellen Nilssen. Hildur tapaði fljótt liðsafla en stóð samt merkilega mikið í stúlkunni þrátt fyrir gjörtapaða stöðu. Svava átti mjög góða skák gegn Kristine Sten. Þegar Kristine var orðin óverjandi mát ákvað hún að fara að sprikla og fórna mönnum. Svo fór að Svava hafði um tvo reiti að velja fyrir kónginn og valdi því miður þann ranga. Kristine náði því að máta einum leik á undan Svövu. Vonbrigðin voru mikil en Svava var farin að sjá að hún gæti alveg unnið þessar stelpur. Þjálfarinn benti henni á að ef hún hefði notað tímann aðeins betur hefði hún unnið þessa skák. Í næstu þremur skákum sýndi Svava það þarf bara nefna hlutina einu sinni við hana. Eftir þetta varð tímanotkunin alveg eins og hjá atvinnuskákmanni, aldrei í tímahraki og tíminn notaður jafnt og þétt yfir alla skákina.

Þriðja umferðin var umferðin þar sem allar íslensku stúlkurnar fóru á kostum. Hildur lagði hina sænsku Brandy Paltzer eftir laglega fléttu. Þar sást vel að Hildur teflir mjög vel ef hún kemst lifandi úr byrjuninni. Svava gerði allt rétt á móti Míu Gammeltoft frá Danmörku og var orðin tveimur peðum yfir í 27. leik. Svava gætti þó ekki alveg að sér og Mía fékk ágætissóknarfæri. Nú voru góð ráð dýr. Við fyrstu sýn virtist staðan varnarlaus og þjálfarinn þurfti að hugsa sig vel um áður en hann sá eina varnarleikinn, fórn sem var alls ekki auðvelt að sjá. Það kom honum svo skemmtilega á óvart nokkrum mínútum síðar þegar Svava skellti leiknum beint framan í andlitið á þeirri dönsku og glottið fauk skyndilega í burtu. Eftir stóð nokkuð jöfn staða með 3 peð fyrir biskup. Eftir uppskipti tefldi Svava einfaldlega betur en Mía og vann sætan og verðskuldaðan sigur.

Í fjórðu umferð lék Hildur af sér skiptamun gegn norskri stúlku, Ingrid Greibrokk. Sú norska átti ekki í vandræðum með restina og tap hjá Hildi varð raunin. Svava lék af sér í byrjun gegn fyrrnefndri Brandy frá Svíþjóð. Svava náði þó að rétta úr kútnum með peðsfórn og smám saman náði hún að bæta stöðu sína. Svava fann fína fórn og nú var það Brandy sem þurfti virkilega að passa sig. Sú sænska vandaði sig vel og náði rétt svo jafntefli. Frábær árangur hjá Svövu á móti stúlku með 1552 stig. Fyrir þessa skák fékk Svava verðlaun fyrir bestu skákina í b-flokki!

DSC 0490

Í lokaumferðinni fékk Hildur Míu Gammeltoft. Sú danska vann skiptamun en þurfti að gefa hann aftur út af sóknarmöguleikum Hildar. Eftir stóð hróksendatafl þar sem Hildur var peði yfir. Hildur tefldi það mjög nákvæmlega og vann að lokum. Svava keppti við Igridi Greibrokk en missti snemma þráðinn og gafst upp skömmu eftir að hafa misst drottninguna.

Hildur endaði 2 vinninga og árangur upp á heil 1483 stig, yfir 300 stigum meira en íslensku stigin hennar segja til um. Svava fékk 1,5 og árangur upp á 1262 stig. Frammistaða þeirra beggja verður að teljast mjög góð og vonandi stutt í að þær komist inn á alþjóðlegan stigalista. Þetta mót var frábært skref í þá átt fyrir þær báðar.

A-flokkur

vindere-gruppe-a

Spennan var mikil í a-flokki. Flokkurinn var nokkuð jafn fyrir utan stigahæsta keppanda mótsins, Jessicu Bengtsson frá Svíþjóð. Okkar stúlkur voru stigalægstar en voru samt báðar staðráðnar í að blanda sér í toppbaráttuna. Það varð og raunin þrátt fyrir að „áætlaðir vinningar“ samkvæmt stigum væru aðeins 2 hjá Hrund Hauksdóttur og 1,25 hjá Veroniku Steinunni Magnúsdóttur.

Í fyrstu umferð tefldi Hrund við norsku stúlkuna Hönnu Kyrkjebo. Hrund tefldi betur alla skákina og Hanna kiknaði undan pressunni. Veronika atti kappi við Ellen Kakulidis frá Danmörku. Veronika tefldi vel til að byrja með en fékk tapað eftir að hafa látið freistast til að fórna tveimur riddurum fyrir hrók og tvö peð. Hún sýndi þó mikið baráttuþrek og náði að tryggja sér jafntefli í tímahrakinu.

Í annarri umferð fékk Hrund það erfiða verkefni að stýra svörtu mönnunum á móti Jessicu Bengtsson. Sú sænska fékk aðeins þægilegri stöðu úr byrjuninni en Hrund tefldi frekar vel alla skákina. Þær hrókeruðu hvor í sína áttina og úr varð mjög spennandi staða. Í lokin voru þær báðar við það að falla og Jessica þráskákaði Hrund til að tryggja sér jafntefli. Samkvæmt tölvunni var hvítur með unnið en það er mjög erfitt að gera út af við skákina með svona lítinn tíma þegar andstæðingurinn er líka í sókn. Sem sagt gott jafntefli fyrir Hrund með svörtu mönnunum á móti stigahæsta keppanda mótsins. Veronika tefldi vel mest alla skákina gegn danskri stúlku, Freju Vangsgaard, og var með betra alla skákina. Veronika lenti því miður í tímahraki og lék af sér manni í betra endatafli og tapaði. Það voru auðvitað mjög svekkjandi úrslit í skák sem hún átti aldrei skilið að tapa.

Í þriðju umferð fékk Hrund svo hina sænsku stúlkuna í flokknum, Louise Segerfelt. Þær stöllur tefldu báðar vel þangað til komið var í endataflið. Þar sýndi Hrund styrk sinn og vann frekar auðveldlega þrátt fyrir að hafa verið frekar með aðeins verra ef eitthvað var. Þetta reyndist virkilega mikilvægur sigur í toppbaráttunni. Veronika tefldi traust gegn vinkonu sinni frá Noregi, Kimiya Sajjadi. Hún snéri á hana í miðtaflinu og varð peði yfir í endataflinu. Hún afgreiddi það af öryggi og sigurinn aldrei í hættu.

Í fjórðu umferð tefldu íslensku stúlkurnar saman og börðust af krafti. Niðurstaðan varð endatafl með mislitum biskupum og jafntefli samið.

DSC 0497

Fyrir síðustu umferð voru Hrund og Jessica efstar með 3 af 4. Hrund tefldi við Ellen og Jessica fékk Veroniku. Hrund ákvað að tefla mjög sjaldgæft afbrigði gegn franskri vörn Ellenar. Það virtist slá þá dönsku aðeins út af laginu og hún vissi ekki alveg hvernig hún átti að tefla á móti þessari óvenjulegu uppstillingu. Hrund tefldi því sem næst óaðfinnanlega og uppskar sigur fyrir vikið. Veronika fékk fljótt aðeins verra gegn Jessicu og sú sænska náði að landa sigrinum með öruggri taflmennsku.

Hrund og Jessica voru því efstar og jafnar með 4 af 5. Eftir stigaútreikning var Jessica úrskurðuð sigurvegari og Norðurlandameistari. Hrund var hins vegar með frammistöðu upp á 2045 stig sem var sú hæsta í mótinu. Til samanburðar má geta þess að frammistaða Jessicu var upp á 1989 stig. Þetta var því alveg hreint frábært mót fyrir Hrund sem hækkar um heil 39,4 stig! Mótið var líka mjög gott fyrir Veroniku sem endaði í 5. sæti. Hún hækkar um 29,2 stig og hefði auðveldlega getað hækkað meira miðað við stöðurnar í skákunum.

Samantekt

Það er nokkuð ljóst að Íslendingar fóru heim sem sigurvegarar mótsins. Einn Norðurlandameistaratitill og silfurverðlaun í höfn. Þrátt fyrir að við hefðum verið stigalægsta liðið sýndum við styrk okkar og þær þrjár, sem hafa alþjóðleg stig, hækkuðu samtals um 90,6 stig. Til samanburðar má geta þess að allar hinar þjóðirnar lækkuðu á stigum, Finnar um -1,6 stig, Svíar -20 stig, Norðmenn -27,6 stig og Danir heil -108 stig. Auk þess áttu stigalausu stúlkurnar okkar allar gott mót og eru nú skrefinu nær að næla sér í sín fyrstu alþjólegu stig.

Stúlkurnar eiga allar mikið hrós skilið fyrir dugnað á meðan mótinu stóð. Það var alveg ljóst hjá þeim öllum að skákin hafði forgang yfir allt annað. Þær gáfu sér ekki mikinn tíma til að versla eða skoða sig um. Þær nýttu tímann vel í að fara yfir skákir sínar og undirbúa sig fyrir næstu umferð eins og kostur gat. Liðsandinn í hópnum var ákaflega fínn allan tímann og þær biðu þolinmóðar í röð eftir að fá hjálp frá þjálfara. Þetta mót var gott dæmi um það hversu vel það skilar sér að vera iðinn við kolann í skák. Ef maður leggur á sig erfiðið, uppsker maður góðan árangur fyrr eða síðar. Í þetta skipti kom árangurinn strax í ljós og stúlkurnar héldu heim á leið hæstánægðar með ránsfeng upp á 90,6 stig.

Danska skáksambandið sá til þess að allur aðbúnaður og skipulag var eins og best var á kosið. Með því vildi sambandið reyna að lyfta mótinu á hærri stall en áður. Það er Dönunum mikið kappsmál að gera stúlknaskák hærra undir höfði en verið hefur og þeim er mjög umhugað að reyna að fá fleiri stúlkur að skákborðinu.

Að lokum ber að þakka foreldrunum fjórum, Guðlaugu, Davíð, Þorsteini og Margréti, kærlega fyrir að hugsa vel um ungviðið sitt og vera hópnum til halds og trausts. Án þeirra hefði þjálfarinn aldrei getað einbeitt sér jafn mikið að kennslu og raun bar vitni.

Þökk fyrir frábæra ferð.

Einar Hjalti Jensson.


Reykjavíkurskákmótið í 50 ár fékk styrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta

Forsíða Bókar

Bókin Reykjavíkurskákmótið í 50 ár eftir Helga Ólafsson fékk styrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta fyrir skemmstu. Styrkurinn nam 400.000 kr. 

Nánar má lesa um styrkveiktingar Miðstöð íslenskra bókmennta hér

Hægt er að kaupa bókina með því að skrá sig fyrir henni á Skák.is (guli kassinn efst).


Skákþáttur Morgunblaðsins: Kasparov hefur engu gleymt - vann Short, 8½ : 1½

Short-KasparovMagnús Carlsen sigraði á minningarmótinu um Vigar Gashmov í Aserbaídsjan sem lauk um síðustu helgi. Hann fékk 7 vinninga af níu mögulegum og er það árangur sem reiknast uppá tæplega 3000 elo-stig. Magnús er nú með 2876 elo-stig. Yfirburðir hans þessi misserin eru miklir og eins og sakir standa er vandfundinn sá skákmaður sem getur ógnað veldi hans. En mótinu í Aserbaídsjan var ekki fyrr lokið en athyglin beindist vestur um haf. Í St. Louis í Mississippi-ríki settist hinn 52 ára gamli Garrí Kasparov niður við það sem hann gerir best – að tefla og háði 10 skáka einvígi við gamlan kunningja sem hann hefur margoft tuskað til áður, enska stórmeistarann Nigel Short. Tíu ár eru liðin frá því að Kasparov hætti taflmennsku og sneri sér að pólitík. Kasparov hafði þá unnið til fjögurra ólympíugullpeninga fyrir Rússland á árunum 1992-2002 og átti kannski von á vinsamlegri viðtökum en þeim sem hann hefur mátt lifa við: morðhótunum, barsmíðum og fangelsunum. Svo fór hann að hann hraktist úr heimalandi sínu og býr nú í New York ásamt fjölskyldu sinni. Þeir Short tefldu tvær atskákir, 25 10 og átta hraðskákir, 5 3. Kasparov vann 8½ : 1½ . Í einu tapskákinni féll hann á tíma og var þá með betri stöðu. Einvígið tók tvo daga, eftir fyrri daginn var staðan 3 ½ : 1 ½ en seinni daginn vann Kasparov allar skákirnar. Persónulega fannst mér Garrí full hógvær í yfirlýsingum eftir einvígið þar sem hann taldi engar líkur á að hann myndi gera atlögu að heimsmeistaratitlinum. Það blasir við að Magnús myndi ekki eiga auðvelt verk fyrir höndum ef til einvígis þeirra kæmi. Taflmennska Kasparov logaði af krafti. Þeir sem skoða skákir hans ættu alltaf að veita því athygli hversu sterk áhersla hans á frumkvæðið er. Hann er tilbúinn að kaupa það dýru verði sbr. eftirfarandi hraðskák:

St. Louis 2015; 8. skák

Nigel Short – Garrí Kasparov

Kóngsindversk vörn

1. d4

Short sem löngum hefur þótt góður kóngspeðsmaður átti ekkert svar við sikileyjarvörn Kaspaovs í þessu einvígi. Hann leitar því á náðir drottningarpeðs-byrjunar – ekkert dugar.

1. ... Rf6 2. Rf3 g6 3. Bg5 Bg7 4. Rbd2 h6 5. Bh4 d6 6. c3 g5 7. Bg3 Rh5 8. e3 Rd7 9. Bd3 e6 10. O-O De7 11. a4 f5 12. Re1 Rdf6 13. f4 Rxg3 14. hxg3 O-O 15. e4 c5!?

Rökrétt. Svartur ræðst til atlögu við miðborðið en leikurinn ber einnig með sér lúmska gildru.

16. dxc5

Short hefði sennilega átt að leika 16. exf5, 16. Rc2 er lakara vegna 16. ... c4! Nú hrifsar Kasparov tíl sín frumkvæðið.

16. ... d5! 17. exf5 Dxc5+ 18. Kh1 exf5 19. Rb3 De3 20. Df3

Valdar g3-peðið og býður drottningar-uppskipti.

GSCU1LOG20. ... De8!

Finnur h5-reitinn, eftir að riddarinn kemst til g4 verður erfitt að verja kóngsstöðuna.

21. Rc2 Rg4 22. Kg1 Dh5 23. Hfe1 Bd7!

Virkjar báða hrókana – hótunin er 24. ... Hae8.

24. Dxd5+ Kh8 25. Dxd7 Dh2+ 26. Kf1 Had8 27. Dxb7 Dxg3 28. He2 Hxd3 29. Rc5 Dxf4+ 30. Ke1 Dg3+

Það er erfitt að finna leik sem ekki vinnur en hér kemur þó einn, 30. ... Hxc3?? 31. Dxg7+! Kxg7 32. Re6+ ásamt 33. Rxf4 og hvítur stendur til vinnings.

31. Kf1 Dh4 32. g3 Hxg3 33. Re6 Hg8 34. Rxg7 Rh2+ 35. Ke1 Rf3+ 36. Kf2 Hh3 37. Ke3 Df4 38. Kd3 Re5 mát!

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.  

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 2. maí 2015.

Skákþættir Morgunblaðsins


Björn teflir í landsliðsflokki Íslandsmótsins í skák

Alþjóðlegi meistarinn Björn Þorfinnsson (2407) tekur sæti í landsliðsflokki Íslandsmótsins í skák sem fram fer 14.-24. maí nk. Hann tekur sæti Þrastar Þórhallssonar sem þurfti draga sig út úr mótinu af persónulegum ástæðum.

Keppendalistinn:

  1. GM Hannes Hlífar Stefánsson (2590)
  2. GM Jóhann Hjartarson (2566)
  3. GM Hjörvar Steinn Grétarsson (2561)
  4. GM Héðinn Steingrímsson (2532)
  5. GM Henrik Danielsen (2520)
  6. GM Jón L. Árnason (2499)
  7. GM Stefán Kristjánsson (2485)
  8. IM Guðmundur Kjartansson (2474)
  9. IM Bragi Þorfinnsson (2416)
  10. IM Björn Þorfinnsson (2407)
  11. FM Sigurður Daði Sigfússon (2319)
  12. WGM Lenka Ptácníková (2284)

Heimasíða mótsins

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.6.): 3
  • Sl. sólarhring: 37
  • Sl. viku: 227
  • Frá upphafi: 8766274

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 180
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband