Leita í fréttum mbl.is

Íslandsmót skákfélaga - pistill frá Magnúsi Pálma

Tilefni þessarar greinar er uppgjör Gunnars Björnssonar, ritstjóra á skak.is og formanns Skáksambands Íslands, á fyrri hluta Íslandsmóts skákfélaga. Þar fjallar ritstjórinn af sinni alkunnu snilld um árangur einstakra liða, óvænta atburði  og ýmsar pælingar þeim tengdum. Meðal annars fjallar hann um árangur Bolvíkinga og hugsanlegar ástæður fyrir slæmu gengi. 

Í fyrsta lagi tek ég undir það með Gunnari að árangur okkar er töluvert undir væntingum. Það á sérstaklega við um tvær efstu deildirnar. Auðvitað er það þannig að það geta ekki allir unnið og sem betur fer eru gríðarlega margir sterkir skákmenn sem taka þátt í ÍS. Í þessu móti er ekkert gefið eins og úrslitin sýna. Það er fagnaðarefni.

En afhverju er árangur Bolvíkinga undir væntingum? Það er rétt hjá Gunnari að margir í okkar sveit hafa teflt mikið undanfarið. Í byrjun september stóðum við fyrir mikilli skákhátíð í Bolungarvík. Þar fór fram keppni í Landsliðsflokki, Opna Bolungarvíkurmótið, úrslitaviðureign í Hraðskákkeppni taflfélaga og að lokum Hraðskákkeppni Íslands. Hátíðin tókst vel í alla staði þó að alltaf sé hægt að gera betur.Viku eftir að skákhátíðinni lauk stóðum við fyrir alþjóðlegu skákmóti sem var haldið í Reykjavík. Eins og allir vita sem hafa unnið að skipulagningu slíkra móta þá kostar þetta bæði mikla vinnu og peninga. Við viðurkennum fúslega að við gerðum fullt af mistökum í undirbúningi og skipulagningu en á móti kemur að við erum reynslunni ríkari. Það mun koma sér vel þegar vinna hefst við næstu skákviðburði.

Stór hluti af okkar liði tók þátt í þessum mótum og það má vera að menn hafi verið þreyttir þegar ÍS hófst. Eins og Gunnar bendir á þá vorum Hellismenn líka virkir í þessum mótum og ætti því sama að eiga við um þeirra menn. Þegar á heildina er litið þá finnst mér þetta frekar ódýr afsökun fyrir slöku gengi. Algeng skýring á slöku gengi er „æfingaleysi" þannig að hver og einn verður að meta hvað hann/hún getur leyft sér að tefla mikið án þess að þreytast.

Annað atriði sem Gunnar nefnir er Ivanov málið. Við skipulagningu alþjóðlega mótsins vorum við með nokkra erlenda GM í sigtinu. Á síðustu metrunum kom í ljós að þeir forfölluðust flestir og vantaði einn erlendan GM í viðbót til að möguleiki væri á GM normi í mótinu. Ivanov var því fengin til að koma á mótið en aldrei var ætlunin að fá hann í ÍS. Þegar það lá hins vegar fyrir að hann kæmi fannst okkur að hann gæti alveg eins verið nokkra daga lengur og teflt fyrir okkur.

Síðar kom í ljós að Ivanov hefði teflt fyrir TR fyrir mörgum árum en hefði verið á lista hjá þeim síðan. Eftir að hafa skoðað málið óskuðum við eftir við SÍ að hann yrði strikaður út af okkar félagalista. TR sýndi áhuga á að nýta hann í sínu liði og höfðum við ekkert við það sem slíkt að athuga. Félögin leystu málið bara málið sín á milli í góðu með sanngjarni kostnaðarskiptingu enda samstarf félaganna gott.

Þótt mikil keppni sé um að verða Íslandsmeistarar er mikilvægt að „fair play" sé haldið í heiðri. Því fannst okkur ekki viðeigandi að setja TR skilyrði um að Ivanov tefldi ekki á móti okkur. Einnig mætti nefna að þótt Ivanov hafi unnið Miezis þá tók hann líka punkta af hinum liðunum, TR vann t.d. TV!

Gunnar kemur inn á þriðja atriðið með eftirfarandi hætti: „ Þegar Bolvíkingar fengu til liðs við sig alþjóðlegu meistarana í fyrra var það yfirlýst markmið að ná fram öflugu og öguðu liði sem myndi ávallt setja skákina í fyrsta sæti. Óvænt forföll í fjórðu umferð gætu reynst félaginu dýrkeypt í síðari hlutanum"

Í fyrri setningunni vísar Gunnar  til samnings sem við gerðum við þrjá alþjóðlega meistara, þá Dag Arngrímsson, Jón Viktor Gunnarsson og Braga Þorfinnsson. Hugmyndin var að styðja þá í atlögunni að stórmeistaratitli. Þessir samningar eru nýlunda í íslenskri skáksögu. Það er skemmst frá því að segja að við erum mjög ánægðir með samstarfið við strákana og erum mjög stoltir af þeim. Þeirra framkoma,árangur, metnaður og vinnusemi er til mikillar fyrirmyndar.

Varðandi seinni setninguna þá er varla hægt að orða hana betur. Höldum því samt til haga að þetta mál hefur ekkert með ofangreinda drengi að gera. Við í stjórn TB, okkar liðsmenn og stuðningsmenn urðu fyrir gríðarlegum vonbrigðum svo vægt sé til orða tekið. Þetta mál er auðvitað ekki fyrsta sinnar tegundar í skákheiminum. Þetta er heldur ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist í ÍS, langt frá því. Í einfeldni minni hélt ég samt að það væru breyttir tímar og menn hefðu áttað sig á að skák og áfengi eiga enga samleið. Ekki undir nokkrum kringumstæðum.  Það væri hægt að hafa mjög mörg orð um þetta mál en við látum þetta nægja í bili. Í vikunni verður stjórnarfundur hjá TB þar sem viðbrögðin verða ákveðin.

Það er þó kannski ágætt að fara yfir hvað það þýðir að fyrir einstakling að tefla í ÍS. Í fyrsta lagi er um að ræða sveitakeppni. Það þýðir að þú tilheyrir einhverri liðsheild sem stefnir að einhverju ákveðnu markmiði. Þú, ásamt hinum í liðinu, berð ábyrgð á árangrinum. Á bak við hvert lið eru stjórnarmenn í sjálfboðavinnu sem leggja á sig ómælda vinnu til að halda starfseminni gangandi. Á bak við hvert lið eru styrktaraðilar. Styrktaraðilarnir geta verið sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar sem fylgjast að sjálfsögðu með árangrinum og vilja fá upplýsingar um allt sem er í gangi. Á bak við hvert lið eru fjölskyldur sem taka óbeinan þátt í keppninni. Fjölskyldur sem færa fórnir til þess að „þeirra maður" geti teflt heila helgi. Ekki má gleyma sveitungum,  fjölmiðlum og öðrum sem fylgjast með mótinu.

Það er því ekki nema sanngjörn krafa frá öllum þessum aðilum að hver og einn geri sitt besta. Tala nú ekki um þá sem fá borgað fyrir að tefla. Að sjálfsögðu geta komið upp óviðráðanlegar aðstæður sem verða til þess að menn geta ekki teflt fyrir sitt lið. Allir hafa skilning á því og málin eru leyst.

Hver fullorðinn einstaklingur sem tekur þátt í ÍS, tala nú ekki um sterkustu skákmenn þjóðarinnar, er fyrirmynd. Fyrirmynd barnanna sem taka þátt og fylgjast með ÍS. Það er mikið ábyrgðarhlutverk að vera fyrirmynd og ber að umgangast samkvæmt því.

Nú eru tveir dagar liðnir frá því fjórða umferðin var tefld. Það þarf vart að taka það fram að ég hef fengið fyrirspurnir frá öllum þessum aðilum um þetta atvik. Ég svara samkvæmt sannleikanum enda er það eini og besti leikurinn í stöðunni. Það er ekki gaman og í raun algjörlega óþolandi og ólíðandi að flytja þeim þessi tíðindi. Þetta er staða sem ég vil ekki sjá á mínu borði aftur.

Ég reyndar trúi því að allir þeir sem bera hag skákhreyfingarinnar fyrir brjósti hljóti að vera mér sammála. Skáksamband Íslands hefur nýverið ályktað um þessi mál. Inntakið er einfaldlega það að skák og vímuefni eru ekki í sama liði. Ég skora á alla skákmenn sem og áhugamenn um skák að bera út boðskapinn!

Magnús Pálmi Örnólfsson

Stjórnarmaður í TB og SÍ


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 31
  • Sl. viku: 273
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 147
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband