Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Spil og leikir

Kennari verður skákkennari: Hvammstangi

Besta myndin frá HvammstangaStefán Bergsson hélt hringferð sinni um landið áfram í morgun. Viðkomustaður dagsins í verkefninu Kennari verður skákkennari var Grunnskóli Húnaþings vestra á Hvammstanga. Skólinn er nokkuð fjölmennur enda þjónar hann nær öllum íbúm Húnaþings vestra sem telur 1250 manns. Í hverjum árgangi er einn bekkur og nemendafjöldi kringum 15 í hverjum bekk. Kennsla dagsins fór fram í fyrsta til fjórða bekk og var hver bekkur í eina kennslustund í skák. Stefán kenndi nemendum sem höfðu flestir einhvern grunn í skák. Þorbjörn Gíslason umsjónarkennari í þriðja bekk fylgdist með kennslunni. Þorbjörn sem er fyrrum bréfskákmaður mun í vetur kenna yngstu nemendum skólans skák og tekur þátt í verkefninu fyrir hönd skólans. Þorbjörn og nemendur

 

 

 

 

 

 

Þorbjörn ásamt nemendum sínum.

Suzuki umboðið er helsti styrktaraðili ferðarinnar og Hótel Hvammstangi styrkti kennsluna í Grunnskóla Húnaþings vestra. 


Ólympíuskákmótið: Viðureignir dagsins

Bakú 2016

Beinar slóðir á viðureignir dagsins á Ólympíuskákmótinu Bakú eru:

Umferðin hefst kl. 11.


Ljósanæturmót HS Orku fer fram á morgun

HSO LOGO_RGB_COLOR_STSkákfélag Reykjanesbæjar í samstarfi við HS Orku halda Ljósanæturmót laugardaginn 3.sept kl.13:00. Tefldar verða 11 umferðir með 7 mínútna umhugsunartíma og í einum opnum flokki. Staðsetning í Njarðvíkurskóla og skráning hér að ofan í gula kassanum. Lokað verður fyrir skráningu ef fjöldi fer yfir 80 keppendur. 

Verðlaunarfé frá HS Orku er 100.000 kr. og mun deilast. 

  • 1.verðlaun 40.000 kr.
  • 2.verðlaun 25.000 kr.
  • 3.verðlaun 15.000 k.r

Sérstök unglingarveðlaun fyrir 14 ára og yngri 10.000 kr. og fyrir óvæntustu úrstlitin 10.000 kr.

Mæting 12:45 og staðfesta skráningu hjá Palla

Upplýsingar um þegar skráða keppendur má finna hér.

Mótstjóri verður Páll Sigurðsson


Eþópía og Maldvíeyjar í fyrstu umferð - Reynsluboltarnir hvíla í dag

Eþíópía og Maldíveyjar verða andstæðingar Íslands í fyrstu umferð Ólympíuskákmótsins sem hefst kl. 11 í dag. Bæði liðin eru mun veikari en íslensku liðin á pappírnum.

Hjá körlunum hvílir Jóhann Hjartarson en hjá konunum hvílir Guðlaug Þorsteinsdóttir. 

Umferð dagsins

Ól opinn 2016 umf1

 

Ól kvenna umf1

 


Flest eftir bókinni í annarri umferð á Meistaramóti Hugins

Önnur umferð í Meistaramóti Hugins sem lauk í kvöld var jafn róleg og tíðindalítil og sú fyrsta var viðburðarríka. Sá sem var stigahærri vann að jafnaði þann stiglægri nema í skák þeirra Óskars Víkings Davíðssonar (1666) og Stephan Briem (1569) þar sem sæst var á skiptan hlut. Miðað við reynslu mína af viðureign við Stephn í fyrstu umferð er spurning hvort telja eigi það óvænt úrslit. Þótt úrslitin væru eftir bókinni þá var mikil barátta á öllum borðum og engin stutt viðureign nema þar sem símagambíturinn réð úrslitum. Þeir stigalægri velgdu þeim stigahærri undir uggum og gáfum ekki sinn hlut fyrr en í fulla hnefana. Mér sýndist við lauslega skoðun á viðureignum að Mikael Jóhann þurfa að sækja sigurinn djúpt á móti Þorsteini Magnússyni og eins komst ég ekki hjá því að fylgjast með skákinni á næsta borði þar sem Jón Trausti kreisti vinning út úr skákinni við Heimi Pál en þeir voru síðastir til að ljúka umferðinni.

Að lokinni annarri umferð eru fimm skákmenn efstir og jafnir með 2 vinninga. Þriðja umferð fer fram á mánudagskvöldið 5. september og hefst kl. 19.30. Eftir þá umferð hljóta línur að fara að skýrast nokkuð.

Staðan eftir 2 umferðir í chess-results.

Heimasíða Hugsins.


Glæsileg setningarathöfn – veislan hefst kl. 11 í fyrramálið.

Iceland - Opening ceremony

Opnunarhátið Ólympíuskákmótsins í Bakú var einkar glæsileg í kvöld. Greinilegt að Aserar hafa lagt mikla vinnu og peninga í mótið. Meðal viðstaddra var Ilham Aliyev forseti landsins. Það var athyglisvert vart að hlusta á setningu mótsins en ræðuhöld gengu mikið að upphefja hans og föður hans Heydar Aliyev, fyrrum forseta landsins og þeirra afrek við uppbyggingu skáklífs.

Opening

Og það eiga þeir fyllilega skilað. Núverandi forseti landsins og hefur staðið sem klettur á bakvið aserskt skáklíf og pabbinn, sem er algjör þjóðhetja hér, stóð einnig mjög þétt á bakvið skáklífið á meðan hann lifði. Skilst mér meðal annars á frásögnum þeirra sem til þekkja að hann hafi tekið Kasparov uppá sína arma útvegað honum þjálfara og húsnæði þegar hann var ungur. Fengið honum allt til sem til þurfti.

Kasparov, sem er ekki þekktur fyrir að þakka mikið fyrir sig, orðaði það svo síðar í viðtali:

I always said that Heydar Aliyev has done a lot for me to become the Champion. He created proper conditions for playing. If not him, maybe I wouldn't become the Champion in 1982 and 1984

Töskuleysi hefur hrjáð hópinn. Við fengum þeir fréttir í kvöld að 9 af 13 töskum hafi skilað sér. Ekki vitum við enn hvaða 9 töskur það eru en þeim á að skila til okkur í kvöld/nótt. Frekar óþægilegt en verslunareigendur í Bakú hafa notið góðs af þessu af þessu ástandi. Forseti og varaforseti SÍ fóru t.d. í verslunarleiðangur í dag og keyptu reyndar meira í sumarútsölu í Pierre Cardin en til stóð.  

2016-09-01 13.21.55-2

Verðlagið hér er mjög lágt í samanburði við Reykjavík og auðvelt að gera góð kaup. Hluti hópsins notaði daginn til að heimsækja gamla bæinn. Aðrir hvíldu sig og söfnuðu kröftum eftir langt og strang ferðalag og mikinn tímamismun. 

Umferð morgundagsins hefst kl. 11. Ekki liggur enn fyrir hverjir verða andstæðingar morgundagsins þrátt fyrir klukkan sé orðin 1:30.

Hægt verður að nálgast allar upplýsingar um hvernig megi fylgjast með viðureignum morgundagins á Skák.is. Einnig er bent á Facebook-hópinn “Íslenskir skákmenn” en þar verður vel fylgst með Ólympíuskákmótinu.

Kveðja frá Bakú,
Gunnar Björnsson


Meistaramót Hugins hófst í gærkvöldi.

Það var engin lognmolla í fyrstu umferð Meistaramóts Hugins sem hófst í gærkvöldi. Draumur skákstjórans um rólega og stutta fyrstu umferð rættist ekki því síðast skák klárðist ekki fyrr en um miðnætti og sjálfur bar hann nokkra ábyrgð á þessu með að vera næst síðastur til að klára.

Það komu tvenn óvænt úrslit í í fyrstu umferð. Héðinn Briem vann Dag Ragnarsson í þeirri skák sem lengst stóð, eftir að Dagur fórnaði manni í jafnteflislegri stöðu. Héðinn var þegar þar var komið sögu mjög tímanaumur og þurfti að tefla lengi við þær aðstæður en reyndist vandanum vaxinn. Hann viðurkenndi samt eftir skákina að hann hefði verið orðinn svo skekinn af atganginum að hann hefði verið að því kominn að leika peði afturá bak. Mikael Jóhann Karlsson lék af sé manni á móti Heimi Páli Ranarssyni og þurfti að lúta í lægra haldi. Vigfús var svo hætt kominn á móti Stephan Briem en hafði sigur í tímahrakinu undir lok skákar.

Önnur umferð verður tefld í kvöld og hefst kl. 19.30. Þá mætast m.a. Aron Þór – Davíð, Sævar – Jón Eggert og Heimir Páll -Jón Trausti.

Úrslit 1. umferðar í chess-results:


Kennari verður skákkennari: Hringferð hófst á Húnavöllum

grímurSkák eflir skóla - kennari verður skákkennari hefur hafið göngu sína þetta skólaárið. Verkefnið sem er samstarfsverkefni menntamálaráðuneytisins og Skáksambands Íslands er nú unnið annað árið í röð. Inntak verkefnisins er að kenna almennum kennurum að kenna skák. Tólf skólar víðs vegar af á landinu taka þátt. Kennsla hófst í skólum á höfuðborgarsvæðinu í fyrstu skólaviku. Helmingur skólanna er á landsbyggðinni og heimsækir Stefán Bergsson verkefnisstjóri þá í hringferð sinni um landið í þessari og næstu viku. Hringferðin hófst í Húnavallaskóla í Austur-Húnavatnssýslu í morgun. Í Húnavallaskóla sjá Grímur Guðmundsson og Áslaug Inga Finnsdóttir um skákkennsluna. Skákkennslan er kennd í samkennslu fjórða til sjötta bekkjar; á stundaskrá einu sinni í viku. Grímur sem er smíðakennari og húsvörður skólans hefur töluverðan skákgrunn en hann var nemandi í Laugalækjarskóla í skólastjóratíð Þráins Guðmundssonar heitins. Í skákkennslunni í morgun kenndi Stefán nemendum og kennurum nokkra skákleiki fyrir nemendur til að æfa sig, fór yfir einföld mátstef og helstu atriði í byrjun tafls. Í fyrramálið verður Grunnskóli Vestur-Húnavatnssýslu á Hvammstanga heimsóttur.

Suzuki umboðið er helsti styrktaraðili ferðarinnar. 


Ólympíufarinn: Jóhann Hjartarson

1 Jóhann Hjartarson

Ólympíuskákmótið fer fram 2.-13. september nk. í Bakú í Aserbaísjan. Nítján manns verða í sendinefnd Íslands. Fram að móti verða Ólympíufararnir kynntir - einn á dag.

Sá síðasti sem kynntur til leiks er Jóhann Hjartarson sem teflir á sínu ellefta Ólympíuskákmóti. Hann spáir því að Bragi Þorfinnsson verður aðaltrúður ferðarinnar í fjarveru Björns bróður síns og miðað við fréttir gærdagsins gæti sú spá vel ræst. 

Ólympíuskákmótið er sett kl. 14:30 í dag. Fyrsta umferð hefst kl. 11 í fyrramálið. 

Nafn?

Jóhann Hjartarson.

Aldur?

Yfir meðallagi.

Hlutverk?

Tefli á 3. borði í karlasveitinni

Uppáhalds íþróttafélag?

Fram og F.C. Bayern Munchen

Hvernig er undirbúningi þínum fyrir mótið háttað?

Stúdera og tefli styttri skákir

Hvenær tókstu fyrst þátt á Ólympíuskákmóti og hversu oft hefur þú tekið þátt?

1980, þori varla að segja það en þetta er mitt 11. ólympíumót.

Getur þú nefnt frægan skákmann fæddan í Bakú?

Það mun vera vinur minn Garry Kimovich

Minnisstæðasta atvik á Ólympíuskákmóti?

Þegar rafmagnið fór af keppnishöllinni í Manila 1992 þegar ég var að tefla við hinn alræmda Rúmena Súba og átti einungis 3 mínútur eftir (sá hinn sami og bauð Ingvari Ásmundssyni jafntefli á biðskákina í Buenos Aires 1978 og kannaðist síðan ekkert við boðið og vann skákina því Ingvar hafði ekki stúderað hana). Ég skipaði liðsstjóranum að lýsa upp skákklukkuna með tiltækum ljósfærum því ég var svo hræddur um að hann færi að fikta í klukkunni… Skákin endaði í jafntefli eftir harða baráttu eftir að ljósin komu aftur á.

Er Kaspíahafið haf eða stöðuvatn?

Spurðu Wikipedíu.

Minnisstæða skák á Ólympíuskákmóti og af hverju?

Margar sem koma til greina, ætli það sé ekki langa skákin við Karpov í Dúbæ 1986 þegar ég hélt koltapaðri biðskák, einnig skorar grísinn á móti Illescas í síðustu umferð sama móts nokkuð hátt þegar allt gekk okkur í haginn og skilaði 5. sæti.

Hverjar eru þínar væntingar/vonir um gengi íslensku liðanna?

Vonandi nær sveitin að sýna sitt besta og ná a.m.k. 20 sætum hærra en stigin segja til.

Í ljósi þess að Björn Þorfinnsson er ekki í Bakú-hópnum – hver verður aðaltrúður ferðarinnar?

Það hlutverk dæmist þá á Braga bróður hans, sömu eðalframsóknargenin frá Löngumýri hjá þessum snilldarbræðrum.

Eitthvað að lokum?

Vona að allt muni ganga vel og reynslan telji þótt maður sé etv. að verða fullgamall til að vera að standa í þessu...


Huginn-b vann Skákgengið

Skákgengið og Huginn-b áttust við í Skáksambandinu í fyrrakvöld í 8-liða úrslitum hraðskákkeppni taflfélaga. Huginsmenn mættu til leik skipaðir reyndum skákmönnum á efri borðunum en neðri borðin voru setin af yngri kynslóðinni.

Huginn tók snemma forystuna og jók hana jafnt og þétt þegar á leið. Staðan í hálfleik var 26-10 Huginsmönnum í vil. Viðureigninni lauk svo með öruggum 56-16 sigri Huginsmanna.

Vinningar Hugins:

  • Kristján Eðvarðsson 12 vinningar í 12 skákum
  • Sigurður Daði Sigfússon 11 vinningar í 12 skákum
  • Vigfús Ó. Vigfússon 8,5 vinningar í 11 skákum
  • Heimir Páll Ragnarsson 8 vinningar í 12 skákum
  • Óskar Víkingur Davíðsson 7 vinningar í 11 skákum
  • Ögmundur Kristinsson 6,5 vinningar í 8 skákum
  • Stefán Orri Davíðsson 3 vinningar í 6 skákum

Bestir í liði Skákgengisins voru:

  • Páll Þórsson með 6 vinninga í 12 skákum
  • Haraldur Ingi Kárason með 5,5 vinningar í 12 skákum

Dregið var í undanúrslit hraðskákkeppni taflfélaga, sem eru dagsett 18. september, og þar mætast:

 

  • Huginn a – SA
  • TR a – Huginn b

« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 7
  • Sl. sólarhring: 44
  • Sl. viku: 164
  • Frá upphafi: 8779085

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 109
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband