Færsluflokkur: Spil og leikir
5.9.2016 | 17:34
Glæsilegur sigur á Moldóvu - stórsigur gegn Færeyingum
Íslenski landsliðshópurinn átti góðan í Kristalhöllinni í Bakú í dag. Stelpurnar unnu frábæran sigur á sterkri sveit Moldóvu í dag. Annar sigur stelpnanna í röð gegn sveit sem er sterkari á öllum borðum!
Lenka Ptácníková og Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir unnu sínar skákir og Veronika Steinunn Magnúsdóttir gerði jafntefli. Hennar fyrsti punktur á Ólympíuskákmóti. Frábær úrslit. Bæði Lenka og Hallgerður sýndu mikinn karakter í erfiðum stöðum sem þær náðu að snúa taflinu sér í vil.
Íslenska karlalandsliðið vann stórsigur á liði Færeyinga 3½-½. Góð úrslit. Þótt að Ísland sé töluvert sterkara lið en það færeyska á pappírnum eru slík úrslit alls ekki sjálfgefin. Til dæmis gerðu þjóðirnar 2-2 jafntefli á Ólympíuskákmótinu í Tromsö árið 2014. Hjörvar Steinn Grétarsson, Guðmundur Kjartansson og Bragi Þorfinnsson unnu sínar skákir en Hannes Hlífar Stefánsson gerði jafntefli.
Íslenska karlalandsliðið er í 40. sæti með 6 stig af 8 mögulegum. Kvennaliðið er í 31. sæti einnig 6 stig. Fyrirfram var karlaliðinu raðað í 44. sæti á styrkleika en kvennaliðið í 61. sæti. Árangur tveggja liða er því góður - sérstaklega þó kvennaliðsins.
Fimmta umferð hefst á morgun klukkan 11 að íslenskum tíma. Ísland mætir Eistlandi í opnum flokki en Mexíkó í kvennaflokki.
- Heimasíða mótsins
- Chess-Results
- Beinar útsendingar (hefjast kl. 11 að íslenskum tíma)
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2016 | 17:15
Vetrarstarf Ása byrjar á morgun!
Æsir í Ásgarði byrja sína vetrardagskrá á morgun þriðjudag í Stangarhyl 4 kl. 13.00 Allir skákmenn, karlar 60 + og konur 50+ velkomin til leiks. Nú æsist leikurinn.
Sjáumst.
5.9.2016 | 13:22
ÓL: Öruggur sigur gegn Sýrlandi
Ingvar Þór Jóhannesson, landsliðseinvaldur Íslands í opnum flokki, sagði sigur liðsins gegn Sýrlandi í 3.umferð hafa verið mjög öruggan. Ingvar Þór taldi skák Braga Þorfinnssonar á 4.borði hafa verið mjög góða og lærdómsríka. Bragi sagði skjótan sigur Hannesar Hlífars Stefánssonar á 1.borði hafi gefið liðinu aukið sjálfstraust.
5.9.2016 | 13:08
ÓL: Lenka segir undirbúninginn hafa gengið fullkomlega upp
Lenka Ptacnikova (2159) leiddi íslenska liðið til sigurs gegn sterku liði Englands í 3.umferð sem fram fór í gær. Lenka vann sjálf góðan sigur gegn hinni sterku Jovanka Houska (2396) sem er alþjóðlegur meistari.
Lenka sagði undirbúninginn fyrir viðureignina hafa gengið upp og flestar skákir þróuðust eins og reiknað var með. Það sem jók enn á einbeitingu liðsins var loforð þess efnis að ef liðið myndi leggja England að velli fengi það að fara í parísarhjólið sem stendur svo tignarlega við ströndina. Parísarhjólið er um 60 metra hátt og er gjarnan kallað Auga Bakú.
5.9.2016 | 12:43
Haustmisseri Skákskóla Íslands
Skákskólinn Íslands hefur hauststarfsemina uppúr miðjum september með hefðbundinni kennslu í flokkum skólans. Skákskóli Íslands verður einnig með starfsemi í Mosfellsbæ, í Stúkunni á Kópavogsvelli, Selfossi og víðar.
Skákskóli Íslands mun eins og undanfarin ár einbeita sér að kennslu/þjálfun ungra skákmanna, pilta og stúlkna sem vilja bæta árangur sinn verulega.
Bestu ungu skákmenn þjóðarinnar eru meðal nemenda skólans.
Skákskóli Íslands sinnir hlutverki sínu með því að bjóða upp á hóptíma, einkakennslu, æfingabúðir, skákmót á borð við kynslóðamót þar sem ungir skákmenn hafa fengið að spreyta sig gegn fremstu skákmönnum þjóðarinnar og Meistaramót Skákskólans hefur verið langsterkasta og best skipaða skákmót fyrir ungmenni á ári hverju.
Þjálfun fyrir einstök verkefni og á meðan þeim stendur hefur verið snar þáttur í starfsemi Skákskóla Íslands. Má nefna keppnir á borð við heimsmeistaramót ungmenna í öllum aldursflokkum , Evrópumótum ungmenna, ólympíumót 16 ára yngri, Norðurlandamót en fararstjórn og þjálfun á slíkum mótum hefur verið á hendi starfsmanna skólans og skólastjórn. Þjálfun og kennsla fyrir skólalið sem hyggjast taka þátt í hinum ýmsu grunnskólamótum er annar valkostur.
Skákskóli Íslands beinir því til foreldra og forráðamanna skákfélaga að leita eftir samstarfi við Skákskóla Íslands.
Skólastjóri Skákskóla Íslands er Helgi Ólafsson alþjóðlegur stórmeistari og FIDE senior trainer. Hann er jafnframt einn aðalkennari skólans ásamt stórmeistaranum Hjörvari Steini Grétarssyni, Birni Ívari Karlssyni landsliðsþjálfara Lenku Ptacnikovu stórmeistara kvenna , og fleirum.
Verð: Kr. 15.000.- pr. önn
Skráning: skaksamband@skaksamband.is Sími 5689141 kl. 9-13 virka daga.
5.9.2016 | 12:15
ÓL: Kvennaliðið á leið upp í Auga Bakú
Eftir þungt 0-4 tap íslenska kvennaliðsins gegn Ítalíu í 2.umferð opnaði landsliðseinvaldurinn, Björn Ívar Karlsson, verkfærakistuna. Þar fann hann afar öflug verkfæri, trúlega hönnuð og smíðuð í Vestmannaeyjum, sem hann notaði til að styrkja íslenska kvennaliðið fyrir viðureignina gegn mjög sterku liði Englands í 3.umferð.
Taflmennskan gegn Englandi var kröftug og tímastjórnun með miklum ágætum. Það sem vakti þó mesta athygli var aðferðin sem notuð var til að ná fram því besta hjá liðsmönnum. Ákveðið var að ef liðið myndi vinna England færi hópurinn allur saman í parísarhjól sem staðsett er við ströndina. Eftir glæsilegan sigur gegn Englandi, 2,5-1,5, liggur ljóst fyrir að kvennaliðið er á leið upp í hið magnaða 60 metra háa parísarhjól, eða Auga Bakú eins og það er gjarnan kallað.
5.9.2016 | 08:41
Viðureignir dagsins: Færeyjar og Moldóva
Fjórða umferð Ólympíuskákmótsins hefst kl. 11 í dag. Andstæðingar karlaliðsins eru frændur okkar og vinir Færeyingar. Jóhann Hjartarson hvílir í dag.
Íslenska kvennaliðið mætir sveit Moldóvu. Hrund Hauksdóttir hvílir.
- Heimasíða mótsins
- Chess-Results
- Beinar útsendingar (hefjast kl. 11)
5.9.2016 | 08:25
Haustmót TR hefst sunnudaginn 18. september
Haustmót Taflfélags Reykjavíkur 2016 hefst sunnudaginn 18. september kl.14. Mótið, sem er hið 83. í röðinni, er eitt af aðalmótum vetrarins í reykvísku skáklífi og er jafnframt meistaramót T.R. Mótið er flokkaskipt og öllum opið.
Haustmótið fer fram í félagsheimili Taflfélags Reykjavíkur, skákhöllinni að Faxafeni 12. Tefldar verða þrjár umferðir á viku og eru alls níu umferðir í hverjum flokki. Lokuðu flokkarnir eru skipaðir tíu keppendum hver þar sem allir tefla við alla, en í opna flokknum er teflt eftir svissnesku kerfi. Í lokaða flokka er keppendum raðað eftir Elo-skákstigum.
Skráningu í alla lokaða flokka lýkur laugardaginn 17. september kl. 18.
Lokaumferð fer fram sunnudaginn 16. október en mótinu lýkur með verðlaunaafhendingu miðvikudaginn 19. október þegar Hraðskákmót TR fer fram.
Núverandi skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur er Bragi Þorfinnsson.
Dagskrá:
1. umferð: Sunnudag 18. september kl. 14.00
2. umferð: Miðvikudag 21. september kl. 19.30
3. umferð: Föstudag 23. september kl. 19.30
—Hlé—
4. umferð: Miðvikudag 5. október kl.19.30
5. umferð: Föstudag 7. október kl. 19.30
6. umferð: Sunnudag 9. október kl. 14.00
7. umferð: Miðvikudag 12. október kl. 19.30
8. umferð: Föstudag 14. október kl. 19.30
9. umferð: Sunnudag 16. október. kl. 14.00
Í opna flokknum eru leyfðar tvær yfirsetur (bye) í umferðum 1-6 og fæst 1/2 vinningur fyrir hvora yfirsetu. Tilkynna þarf skákstjóra um yfirsetu fyrir lok umferðarinnar á undan.
Verðlaun í A-flokki:
1. sæti kr. 100.000
2. sæti kr. 50.000
3. sæti kr. 25.000
4. og 5. sæti ókeypis í Skákþing Reykjavíkur 2017
Verðlaun í B-flokki:
1. sæti kr. 20.000
2.-3. sæti ókeypis í Skákþing Reykjavíkur 2017
Verðlaun í C-flokki:
1. sæti kr. 15.000
2. og 3. sæti ókeypis í Skákþing Reykjavíkur 2017
Verðlaun í opnum flokki:
1. sæti kr. 10.000
2. og 3. sæti ókeypis í Skákþing Reykjavíkur 2017
Ef lokuðum flokkum fjölgar þá verða verðlaun í þeim þau sömu og í C-flokki. Að auki ávinnur sigurvegari hvers flokks sér þátttökurétt í næsta styrkleikaflokki að ári liðnu. Verði keppendur jafnir í efstu sætum verður peningaverðlaunum skipt en stigaútreikningur látinn ráða lokaröð keppenda.
Tímamörk:
1 klst. og 30 mín. + 30 sek. á leik. Að loknum 40 leikjum bætast við 15 mínútur.
Þátttökugjöld:
3.500 kr. fyrir félagsmenn T.R. 18 ára og eldri (5.000 kr. fyrir aðra).
1.500 kr. fyrir félagsmenn T.R. 17 ára og yngri (2.500 kr. fyrir aðra).
5.9.2016 | 07:00
Afmælismót TV fer fram næstu helgi
Helgina 10.-11. september 2016 fer fram atskákmót í Eyjum í tilefni af 90 ára afmæli Taflfélags Vestmannaeyja.
Keppendur verða úr Eyjum og á fastalandinu. Reiknað er með flestir keppendur ofan af landi komi með Herjólfi laugardaginn 10. september. frá Landeyjahöfn kl. 09.45 og til Eyja um kl. 10.30. Akstur frá Reykjavík til Landeyjahafnar tekur tæplega 2 klst. og þurfa farþegar og ökutæki að vera mætt 30 mín. fyrir brottför Herjólfs frá Landeyjahöfn. Algengt er að farþegar geymi ökutæki sín á bílastæðum í Landeyjahöfn meðan á dvöl þeirra í Eyjum stendur.
Næsta ferð til Landeyjahafnar frá Eyjum að loknu skákmótinu er kl. 18.30 sunnudaginn 11. sept og nú síðasta þann dag kl. 21.00 um kvöldið. Mæting um borð 30 mín. fyrir brottför.
Tefldar verða níu umferðir, umhugsun 20 mín. á skák auk 5 sek. á hvern leik. Reiknað er með að umferðin taki um 60 mín. Skákstjóri verður Stefán Bergsson.
Laugardagur 10. sept. 2016
Kl. 12.00 – 17.00 Tefldar verða fimm umferðir fyrri daginn.
Kl. 17.00 – 18.00 Skoðunarferð með rútu um Heimaey.
Sunnudagur 11. sept. 2016
Kl. 12.00 - 16.00 Tefldar verða fjórar umferðir seinni daginn.
Kl. 16.30 – 17.00 Mótsslit og verðlaunahending.
Ekkert þátttökugjald á atskákmótið og í skoðunarferðina.
Fyrstu verðlaun verða 75 þús. kr., önnur verðlaun kr. 50 þús. kr. og þriðju verðlaun kr. 25 þús. kr. Landsbankinn er helsti stuðningsaðili mótsins.
Nánari upplýsingar um ferðir til og frá Eyjum á herjolfur.is og gistingu í Eyjum á visitvestmannaeyjar.is
Skráning þátttakenda á 90 ára afmælismótið fer fram á Skák.is.
Upplýsingar um þegar skráða keppendur má finna hér.
Afmælisnefnd Taflfélags Vestmannaeyja.
Spil og leikir | Breytt 29.8.2016 kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2016 | 21:20
Ólympíuskákmótið: 3. umferð í opnum flokki
Segja má að skyldusigur hafi unnist í dag á sveit Sýrlendinga 3,5-0,5. Fyrirfram vorum við stigahærri á öllum borðum á bilinu 200-400 elostig og því 3,5 eða 4 úrslit sem hefði mátt búast við. Sýrlendingar hvíldu sinn stigahæsta mann í dag en hann hafði í fyrstu umferð náð jafntefli gegn Salgado Lopez hjá Spáni. Sýrlendingar lentu í hremmingum snemma í mótinu með vegabréfbréfsáritun og voru aðeins þrír mættir í fyrstu umferð gegn Spánverjum. Þeir sóttu hinsvegar í sig veðrið í annarri umferð og unnu þar Mauritius 3,5-0,5.
1. borð - Hannes hvítt á A.K. Rayes (2254)
Hannes tefldi eins og í fyrstu umferðinni örugga skák með hvítu mönnunum. Svipað og í fystu umferð var drepið á d4 og margt líkt með þeim skákum í raun og veru. Í báðum tilvikum var Hannes mjög fljótur að fá yfirburðartafl. Í skákinni í dag lék andstæðingurinn ónákvæmum leikjum og lenti fljótlega í algjörri "krippu". Var staða hans í raun svo léleg að Björn Ívar liðsstjóri kvennaliðsins lýsti yfir áhyggjum yfir því að Hannes færi að patta svartan í miðtaflinu, svo léleg var staðan.
(Staðan hvar Björn Ívar hafði áhyggjur af því að svartur væri að verða patt)
Niðurstaðan auðveldur vinningur.
2. borð - Hjörvar svart á G.Bello (2096)
Anstæðingur Hjörvars tefldi varíant á hvítt sem Hjörvar er með 9-0 skor´í! Hjörvar beið spenntur eftir endirbót eða einhverju óvæntu en upp á slíkt var ekki boðið. Var Hjörvar í raun kominn með yfirburðartafl og hvítur búinn að gera það mörg mistök að honum fannst að hann ætti að vinna stöðuna tiltölulega hratt. Hjörvar lagði því e.t.v. aðeins of mikið á stöðuna þar sem hann taldi að hún ætti að vinnast hratt og örugglega. Í staðinn varð verkefni aðeins lengra og erfiðara og varð Hjörvar að snúa hann niður í tímahrakinu.
Staðan úr byrjuninni, svartur með allt sem hann vill!
Í raun var sigurinn þó aldrei í mikilli hættu en samt fékk andstæðingur Hjörvars einn séns á að bjarga sér. Eins og svo oft, þá er munurinn á styrkleika skákmanna að nýta þessa sénsa og það gerði andstæðingur Hjörvars ekki :-)
3. borð - Jóhann hvítt á Sohib (2153)
Jóhann tefldi Spánverjann og kom andstæðingi sínum á óvart með d3 afbrigði sem hann hafði ekki stúderað. Svo vildi til að andstæðingur hans hafði stúderað vel og bjóst við aðalafbrigðum með He1 og vísaði í nokkra sigra á Short hjá Jóhanni. Jóhann hafði stúderað þetta afbrigði fyrir skákina og þá helst þessa blessuðu ofurstórmeistara með 2700 stig. Því miður áttaði Jóhann sig á að þessir 2700 stórmeistarar eru bara ekki að tefla upp á neinn skapaðn hlut með hvítu. Jóhann hafði fylgt bestu skákmönnum heims en svartur í raun jafnar taflið nokkuð auðveldlega.
Jóhann var í raun sáttari við skákina eftir að hafa litið á hana í tölvu eftirá þar sem andstæðingur hans gerir í raun engin mistök. Sohib hafði á nokkrum stöðum breytt útaf því sem ofurstórmeistarnir voru að tefla og svo leikið leik sem leit út eins og hálfgert leiktap en tölvurnar segja að svartur komist upp með þessa taflmennsku.
Í stöðunni áður en Jóhann lék Bd5 hugaði hann vel og lengi í 35 mínútur og fór með megnið af tímanum sem hann hafði áunnið sér umfram andstæðing sinn. Jóhann taldi að hvítur hlyti að eiga eitthvað þar en fann ekkert enda líklega ekkert í stöðunni. Staðan var algjörlega jöfn en Jóhann missti þó mikilvægt peð á d5. Andstæðingur hans bauð honum umsvifalaust jafntefli í sameiginlegu tímahraki. Jóhann taldi þó að hann hefði enn færi en þegar hann uppgötvaði að sú leið sem hann ætlaði að velja var í raun töpuð (eftirá komumst við þó að því að hún var jafntefli) þá var það orðið of seint og Jóhann varð að velja annan leik en hann hafði ætlað sér. Varð niðurstaðan þá hróksendatafl sem líklega var tapað á hann. Sem betur fer var þó loksins komið að Sýrlendingnum að sýna af hverju hann er ekki stigahærri og jafntefli varð niðurstaðan eftir nokkur mistök hjá honum.
Hér náði Jóhann skemmtilegri "X-ray" skák á a8. Andstædðingur hans bauð svo jafntefli eftir ...Kh7 en Jóhann hafnaði því eins og áður sagði. Skömmu síðar kom yfirsjónin í sameiginlegu tímahraki þeirra.
4. borð - Bragi svart á Alzaim (2259)
Bragi tefldi hér mjög góða skák gegn stigahæsta liðsmanni Sýrlendinga í þessari viðureign. Andstæðingur hans tefldi traust afbrigði í e3 Nimanum sem gefur hvítum meira rými þó að sé ekki jafn hættulegt og það lítur út fyrir að vera.
Þrátt fyrir rýmið tefldi Bragi mjög þematískt og lék ...e5 á réttum tíma og smátt og smátt sprakk staða hans út. Skákin var í raun mjög lærdómsrík. Líklegast voru fyrstu strategísku mistökin að leyfa svörtum að drepa á c3 og losna við svartreitbiskupinn. Eftir það varð svarta staðan auðteflanleg og eiginlega unun að fylgjast með Braga stinga sér inn í allar holur sem hvítur skildi eftir í hvítu stöðunni. Eftir að fór að fjara undan mögulegu frumkvæði hvíts fór hann að veikja sig með leikjum eins og f5 og a4 og Bragi nýtti sér það meistaralega. Sérstaklega var skemmtilegt hvernig riddarinn á a6 fór á c7 en svo lúmskur aftur á a6 eftir að hvítur veikti sig með a4.
Eftir að flóðgáttirnar opnuðust var bara tímaspursmál hvenær og hvernig Bragi myndi klára skákina. Varkárari menn hefðu valið ...Dd1 og skipt upp á drottningum en Bragi var með sjálfstraustið í botni og hafði trú á sér og stöðunni og sigldi vinningnum í heimahöfn.
Næst á dagskrá í 4. umferð eru frændur okkar Færeyingar. Við eigum í raun harma að hefna þar sem þeir náðu jafntefli gegn okkur í Tromsö. Slíkt verður ekki í boði og sigur eina sem við sættum okkur við!
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjustu færslur
- Ný vefsíða Skák.is!
- Loftur fær Héðin í fyrstu umferð
- Tveir fyrrum heimsmeistarar bættust við á keppendalistann á l...
- Ný alþjóðleg skákstig
- Carlsen vann Aronian - með vinningsforskot og aftur yfir 2850
- Skákklúbburinn Æsir - vertíðarlok
- Fundargerð aðalfundar SÍ
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open hefst á föstudaginn
- Carlsen vann Caruana í fyrstu umferð Altibox Norway Chess
- Þrír efstir og jafnir eftir fyrsta minningarmót Vinaskákfélag...
Tenglar
Mót í gangi
Mót sem eru í gangi hverju sinni
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open Valsheimilið, 1.-9. júní
- Altibox Norway Chess 27. maí - 8. júní: Carlsen og flestir sterkustu skákmenn heims
Lykilvefir
- Skáksamband Íslands Heimasíða SÍ
- Mótaáætlun SÍ
- Vefsvæði Friðriks Ólafssonar Vefsíða tileinkuð Friðriki Ólafssyni
- Skákskóli Íslands
- Skáksögufélagið
- F3-klúbburinn Vildarvinir skákíþróttarinnar á Íslandi
- Tímaritið Skák
- Fischersetur Selfoss
- Skákbækur til sölu
- Bobbý skáksverslun
- Skákhornið Spjallþráður skákmanna
- Skáklandið Stefán Bergsson bloggar
- Skákmyndir
Kennsluvefir
Íslensk taflfélög
Ef þú vilt tefla á netinu!
- Vinaskákfélagið
- Skákfélagið Hrókurinn
- Skákfélagið Huginn
- Taflfélag Reykjavíkur
- Víkingaklúbburinn
- Skákfélag Akureyrar
- Taflfélag Garðabæjar
- Taflfélag Vestmannaeyja
- Æsir
- Skáksamband Austurlands
- Skákdeild Fjölnis
- Skákfélag Sauðárkróks
- Taflfélag Bolungarvíkur
- Skákfélag Selfoss og nágrennis
- Skákdeild Breiðablik
- Skákdeild KR
- Skákdeild Breiðabliks
- Gallerý Skák
- Riddarinn
- Félag íslenskra bréfskákmanna
Erlendir skákvefir
- FIDE Alþjóðlega skáksambandið
- ECU
- The Week in Chess
- ChessBase
- Chess Vibes
- Chessdom
- Your Chess News Umsjón Jóhann H. Ragnarsson
- Bergens Schakklub Besta norræna skákfréttasíðan
- Færeyska skáksambandið
- Bloggsíða Susan Polgar
- ChessCafe Pistlar og greinar
Almanök
Teflt á netinu
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.7.): 0
- Sl. sólarhring: 18
- Sl. viku: 164
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 101
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar